Færsluflokkur: Bloggar
21.9.2008 | 15:16
Hollusta og hressleiki í himnaríki
Fyrir u.þ.b. hálfum mánuði hóf ég nýtt líf, eða þannig, og byrja hvern morgun (nema þann þegar ég svaf yfir mig í rafmagnsleysinu) á því að fá mér hollustumorgunverð. Var bent á nokkuð sem heitir Beyond Greens og fæst í Heilsuhúsinu. Ég set matskeið af þessu í eplasafa og drekk með bestu lyst. Skelli reyndar fyrst í mig skeið af lýsi, eða Udo´s 3-6-9 olíublöndu og kyngi henni með hjálp fyrsta sopans af Beyond Greens-dæminu. Þetta, ásamt vítamíninu sem á m.a. að efla kynhvötina (grrrr), hefur sannarlega haft góð áhrif á ekki lengri tíma. Nú vakna ég ekki á morgnana, heldur glaðvakna og er svo miklu hressari. Bjúgurinn, sem hefur angrað mig síðan ég var rúmlega þrítug og fékk óverdós af fúkkalyfjum, er að hverfa en mér hefur verið meinilla við að taka bjúgtöflur síðan ég las á fylgiseðlinum að þær gætu verið slæmar fyrir hjartað. Man eftir lækni sem starði vantrúaður á mig stokkbólgna af bjúg og sagði mér að niðurstöður viðamikillar blóðprufu hefðu sýnt að ég væri við frábæra heilsu.
Ég hef reynt að finna mér eitthvað hollt og gott í morgunmat í gegnum tíðina en ekki verið alveg sátt við neitt til þessa. Nú held ég að ég hafi loksins dottið ofan á eitthvað sem mér finnst gott og hefur líka góð áhrif. Í þessu eru m.a. fitusýrur, trefjar, næringarefni og meltingarensím. Auðvitað væri best að fá þetta allt úr úr fæðunni en ég þekki sjálfa mig, viðurkenni að ég hef allt of oft látið grænmeti og ávexti skemmast í ísskápnum. Gæti reyndar trúað að þessi morgunmatur sé helmingi dýrari en sá sem ég get fengið í mötuneytinu á 88 krónur (grænmeti/álegg án brauðs) en þessi gerir mér svo miklu betra. Ég finn líka fyrir minni sykurlöngun sem er bara frábært. Finnst ég hafa grennst, alla vega misst bjúg ... en þar sem ég lít á baðvigtir sem uppfinningu andskotans þá get ég ekki vitað með vissu hversu mikið.
Þetta er kannski leið letingjans að betri líðan en hver veit nema þetta verði til þess að ég fari stútfull af orku að elda sannkallaðar hollustumáltíðir á hverju kvöldi, ekki bara stundum.
Ég prófaði einu sinni Herbalife og fylltist gríðarlegri orku, eftir tvær vikur var ég farin að strauja þvottapoka og það straujar enginn þvottapoka ... en svo voru pillurnar sem fylgdu með bannaðar, þær virkuðu víst eins og argasta amfetamín. Ég á reyndar einn dunk af Herbalife núna og mun ábyggilega fá mér stundum úr honum til tilbreytingar.
Það allra besta væri auðvitað að eiga mann sem væri karlkynsútgáfa af Sollu í Grænum kosti ... en þangað til ég finn hann þá held ég mig við þetta. Hef meira að segja séð vítamínið til sölu í Einarsbúð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.9.2008 | 22:33
Góð heimsókn, ævintýralegar upptökur og fleira stöff ...
Ella og Kjartan kíktu óvænt í latte í dag, ásamt dætrum. Við ætluðum að kíkja til Línu en hún hafði brugðið sér til höfuðborgarinnar þannig að það var bara kaffi í himnaríki í staðinn. Ég þarf að koma mér upp einhverju í ísskápinn til að eiga alltaf fyrir börn, áttaði mig á því að ég átti ekkert til að bjóða stelpunum, börn heimsækja mig greinilega allt of sjaldan. Við áttum hið skemmtilegasta spjall. Ég sagði þeim m.a. frá samskiptum okkar Indverjans í strætó í gær, glottið á mér þegar hann sagðist heita Grís og glottið á honum þegar hann heyrði nafn mitt. Kjartan var viss um að framburður hans á kryddinu karrí væri líkur nafninu Gurrí sem er líklegra en það sem ég giskaði á. Sjálfur sagði hann farir sínar ekki sléttar þegar hann var í Bandaríkjunum einu sinni og var stundum kallaður Curtain (gardína) þar. Við Ella eigum sama afmælisdag, það hlaut að vera, svona dásamleg manneskja ... og annað, hún bjó í himnaríki fyrir rúmum áratug og var fannst gaman að sjá gamla heimilið sitt aftur. Saknar enn útsýnisins.
Þau Kjartan verða væntanlega heimsfræg á næstunni, voru plötuð í viðtal sem ein stuðningsfjölskylda Línu í þáttinn sem BBC er að gera um nýju Skagamennina. Margt ævintýralegt hefur víst gerst við upptökur, sjónvarpsmyndavélar hafa m.a. fokið út í buskann, og annað slíkt, enda rokið engin hemja þessa dagana. Svo er líka statt hérna upptökufólk frá arabískri sjónvarpsstöð. Það er víst aðferðin við móttöku flóttafólksins sem vekur athygli en hún þykir öðruvísi en í öðrum löndum og beinist að því að fólkið aðlagist hratt og vel. Dáist sífellt meira að Rauða krossinum og þeim sem hafa komið að skipulaginu og vinnunni við þetta verkefni. Margt bráðfyndið gerist vissulega af og til og ég held að ég særi engan þótt ég endurtaki setningu sem heyrðist í ónefndri verslun í dag: Æ, hvernig kem ég henni í skilning um að maður kaupi ekki pollagalla á 17 ára strák!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.9.2008 | 13:28
Osóknir ljósastaura, kúl kaffibarþjónn, pósthúsið ... myndskreytt blogg
Í gærmorgun var ég vopnuð myndavél í strætó og náði mynd af einni flottustu stoppistöð landsins, Sætukarlastoppistöðinni, þegar Skúli bílstjóri stoppaði og til að hleypa inn sætukörlunum af báðum kynjum. Tók líka mynd í leið 18 sem var stútfull af fólki, enda lítill kálfur notaður að þessu sinni til að koma okkur í Hálsaskóg.
Hér við himnaríki er frekar hvasst. Í pollinum á svölunum er meira að segja heilmikið brim. Kvarta ekki yfir sjónum núna, eða í morgun, sannarlega ekki, en það virtist samt miklu flottara í gærkvöldi í myrkrinu. Vegna ljósa sem lýstu upp höfnina í gærkvöldi, sá ég öldurnar frussast yfir stóru brygguna. Ekkert slíkt í morgun í sólinni þrátt fyrir rokið.
Tók tvær myndir með nokkurra sekúndna millibili áðan, aðra í áttina til Reykjavíkur (t.v.) og hina af höfninni á Skaganum. Hér hefur nefnilega ríkt skrýtið veður, dimmt yfir en samt sól. Afsakið seltuna á gluggum himnaríkis.
Og talandi um ljós ... sterka ljósið við sundlaugina er farið að bora sér inn í augun á mér á kvöldin, hefði haldið að nóg væri að láta kastarann beinast að sundlauginni sjálfri, ekki himnaríki og mér í leisígörl. Ég flúði á Skagann undan ofsóknum ljósastaurs á Hringbrautinni og hafði þá beðið þolinmóð í 18 ár eftir úrbótum. Hringdi a.m.k. einu sinni í Orkuveituna og var sagt að endurnýjun ljósastaura þar stæði til. Ég gat heldur ekki kvartað þar sem ljósastaurinn var hinum megin við götuna, í kjördæmi Hagaskóla, og skáhallt á móti, hefði þetta verið minn eigin staur hefði ég haft bæði tillögurétt og málfrelsi. Þegar ég var búin að loka umheiminn (fokkings staurinn) frá á kvöldin með þykkum gluggatjöldum og koma mér vel fyrir í sófanum brást ekki að annar kötturinn stökk upp í glugga, tróð hausnum inn á milli og kíkti á mig ... og sjá ... skerandi ljós beint í augun. Hvít, gegnsæ gluggatjöld eru það eina sem passar í himnaríki þannig að ég er líklega bara skák og mát. Á myndinni má sjá sökudólginn en sakleysislegan í dagsbirtunni.
Fór í Kringluna eftir vinnu í gær og endaði ferðina á því að kaupa latte í Kaffitári áður en haldið var á Skagann með vinkonu. Ungur, erlendur maður var við afgreiðslu og ég sagði brosandi (en kúl) við hann í einhverju samhengi, mögulega tengdu hitastigi mjólkur: Annars þyrfti ég að drepa þig. Ungi maðurinn svaraði grafalvarlegur að stefna fyrirtækisins væri sú að gera allt fyrir viðskiptavinina og ef ég borgaði aðeins 40 krónur í viðbót gæti ég fengið vopn til verksins. Við vinkonurnar þökkuðum fyrir okkur og flissuðum hálfa leiðina upp á Skaga. Kaffið reyndist vera einstaklega gott hjá þessum húmorista.
Í hádegisfréttum Stöðvar 2 var frétt um slæma þjónustu Póstsins úti á landi. Hef ekki orðið vör við það hér á Skaganum ... nema nú er útibúið á Skaganum næstum flutt upp í sveit og staðsett í nýbyggingu rétt hjá Bónus, alveg í útjaðri bæjarins. Innanbæjarstrætó gengur ekki einu sinni nálægt þeim stað. Um daginn fékk ég stórt bréf sem ekki komst í póstkassann minn. Miði var skilinn eftir og sagt að ég yrði að koma á pósthúsið til að sækja það. Klukkuna vantaði tvær mínútur í lokun þegar ég hringdi í heddoffis Póstsins í Reykjavík, ég var nýkomin heim úr vinnunni. Ég lýsti mig fúsa til að borga fyrir að fá þetta heimsent en á meðan ég var að tala við símastúlkuna leið tíminn og aðeins hálf mínúta var í lokun. Ég bað hana að gefa mér samband við Skagann en hún harðneitaði því, búið var að loka, sagði hún. Klukkan hennar var á sekúndunni, bætti hún við. Daginn eftir fékk ég skutl í pósthúsið og kvartaði aðeins við yndislega konu sem var þar við afgreiðslu. Hún skrifaði niður númerið hjá Póstinum á Skagnum og sagði mér að hringja bara beint næst. Hún var svo mikið krútt að ég gat ekki
einu sinni nöldrað yfir því að pósthús næstum 7.000 manns (já, okkur fjölgar alveg rosalega hratt) væri á svona slæmum stað. Talaði um þetta við Ástu daginn eftir og hún sagðist ekki þurfa að kvarta vegna sjálfrar sín, hún væri á bíl, en hafði mikla samúð með eldri bæjarbúum sem kæmust ekki með góðu móti í pósthúsið núna. Kannski þurfum við bara annan innanbæjarstrætó því að þessi sem gengur núna næði ekki að aka um bæinn á hálftíma fresti ef hringur hans yrði stækkaður. Það er vissulega auðvelt að sitja við tölvuna og ákveða hvernig bærinn eigi að ráðstafa fé ... hehehehe. Og ef ég mætti halda því áfram vildi ég gjarnan að strætó gengi líka um helgar ... og að Langisandur yrði upplýstur svo ég gæti séð brimið á kvöldin en þá færi eflaust fólkið í Keflavík að nöldra yfir ofsóknum ljóskastaranna. Mér skilst að það standi til að setja upp aðra vefmyndavél á Skaganum og mikið væri gaman ef hún sýndi höfnina, ekki bara skip og smábáta í kyrrstöðu, heldur líka hér yfir sandinn, ekkert smáflott á sumrin að sjá lífið hér. Býð hér með suðursvalirnar mínar fram til að hýsa vélina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2008 | 10:49
Hvar eru sætu mennirnir? Svar: Í strætó!
Dásamlega gaman í strætó í morgun, öllum þremur vögnunum. Enginn sjór skvettist yfir átta-strætó í gær að sögn Skúla, bara fyrir framan vagninn eða aftan. Skúli er á einhverjum sérsamningi greinilega. Í leið 15 sat hinn frábæri Haraldur og keyrði okkur af miklu öryggi til Reykjavíkur. Ég og frábæri maðurinn við hlið mér dáðumst að bókaköflunum úr væntanlegum jólabókum Forlagsins sem voru fyrir framan hvert sæti, vandlega plasthúðaðir. Ég skelf af spenningi, hlakka ekkert smá til jólabókaflóðsins. Kannaðist ógurlega við þennan myndarmann sem sat hjá mér, samt er ég svo ómannglögg, og ... jamm, hann er í verkefninu okkar skemmtilega með Rauða krossinum. Býr í sveitinni og hefur boðið þeim sem vilja koma í heimsókn. Held að Lína og börn yrðu heldur betur ánægð að koma einhvern daginn þangað og sjá íslenska sveit.
Held að erfðaprinsinn verði ekki jafnlestrarsjúkur í jólabækurnar og í fyrra, nú gengur skólinn fyrir öllu hjá honum. Ég er með nokkrar nýjar DVD-myndir heima til að horfa á og skrifa um og hann hefur bara horft á eina, geymir þetta til helgarinnar. Það er mjög gott að láta hann horfa fyrir sig, hann ráðlagði mér t.d. eindregið að horfa á Walk Hard og 10.000 BC, myndir sem ég hafði síðan mjög gaman af og skrifaði um. Þessi einbeiting hans hefur skilað sér. Hann fékk einkunn úr stærðfræðiprófi í morgun ... veit að hann vonaðist eftir að fá 8 þar sem honum gekk ágætlega í prófinu. Mont, mont, hann fékk 9! Ruglaði saman plús og mínus í einu dæminu, ekki því þyngsta, annars hefði hann fengið 10. Jess. Sorrí mömmumontið, ég er líka svo ánægð með að hann hafi drifið sig í skóla aftur eftir langt hlé!
Í leið 18 settist ég aftast og hjá ógurlega sætum Indverja í hvítri úlpu. Við brostum svo sætt hvort til annars að það braut ísinn sem vanalega ríkir milli strætófarþega (ís=feimni, fúlheit ...). Núna vitum við Indverjinn ALLT hvort um annað. Sagði honum m.a. að indverskur matur væri í sérlega miklu uppáhaldi hjá mér. Ég glotti aðeins hann sagðist heita Gris (rétt: Girish) og hann glotti þegar ég sagðist heita Gurrí (þýðir ábyggilega datt á rassinn á hindí). Indverjahópurinn vinnur við forritun hjá Glitni, eins og glöggur lesandi bloggsins hafði bent á fyrir löngu, og ungi maðurinn sagði mér að hann kynni mjög vel við sig á Íslandi, sumarið hefði verið einstaklega gott og hann sæi ekkert athugavert við haustveðrið, ég spurði hann auðvitað.
Langar að vekja athygli á ótrúlegu máli sem hægt er að lesa um á blogginu sem ég hlekkja við, ég er í losti yfir þessu, vona heitt að þetta verði lagað. Endilega kíkið á síðuna hennar Svövu: http://slartibartfast.blog.is/blog/slartibartfast/entry/644702/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
18.9.2008 | 17:22
Aðgerð KRÍA og tímamótakvikmynd úr bloggheimum
Afar myndarlegur maður á Stöðvar 2-útsendingarbíl (Sýn) stoppaði hjá mér seinnipartinn þar sem ég beið eftir Ástu fyrir neðan Hálsaskóg og spurði hvort ég væri að fara á Skagann. Hann bauð mér far en ég gat ekki hugsað mér að svíkja Ástu sem sat föst á Miklubrautinni, beið eftir að komast fram úr biluðum strætisvagni og var á leiðinni að sækja mig. Maðurinn var á leiðinni á leikinn ÍA-KR ... eða KRÍA sem er leyniorð okkar Skagamanna yfir aðgerðina Rústum Landsbankadeildinni á síðustu stundu.
Lára Hanna er alltaf með bíómyndir á bloggsíðunni sinni, ég vil ekki vera eftirbátur hennar og er með eina glænýja og æsispennandi hér að neðan. Ég lét nefnilega taka upp bloggvinafund sem haldinn var nýlega og með falinni myndavél að sjálfsögðu. Vona að mér takist að setja þetta tímamótaverk inn og að þið fáið notið þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
18.9.2008 | 08:47
Sjóskvettur, geislandi fegurð og útrás dagsins ... djörf færsla
Þeir sem þekkja mig vita að ég er mikil b-manneskja, næturgöltur sem finnst gott að sofa út á morgnana. Í morgun vaknaði ég klukkan 6 eftir tæplega 6 tíma svefn og var eins og fólkið í ammrísku kornflöguauglýsingunum (sjá mynd). Dansaði um eldhúsið á meðan ég gerði latte fyrir okkur Ástu ... og hrærði mér galdradrykkinn góða úr Heilsuhúsinu sem mig grunar að hafi þessi ógurlega hressandi áhrif og hafi mögulega valdið því að prófarkalesari sem vinnur með mér hrósaði mér í gær fyrir fagurt útlit (Hefurðu grennst? Þú geislar alveg ... o.s.frv.). Sú kona er hamingjusamlega gift karlkynsmanni (meira að segja lækni) og var því ekki að daðra við mig. Ég man ekkert hvað þetta dótarí heitir en ætla að taka mynd af því og skella á bloggið, ekki hægt að þegja yfir svona kraftaverki, eða hressleikanum á morgnana. Ég er ekki dómbær á útlit mitt sjálf, tek alltaf andköf af aðdáun þegar ég lít í spegil. Undanfarna tíu daga hef ég m.a. tekið inn olíu (Udo' s?) og fernt í viðbót. Eitt bætiefnið er við kyndeyfð sá ég á bæklingi sem fylgdi. Ég spurði konuna í Heilsuhúsinu, þá sem mælti með þessu, hvort ég virkaði svona kynköld, var mjög móðguð. Hún flissaði og sagði að þetta væri bara hressandi vítamín en hefði kynörvandi áhrif líka. Ég róaðist ... en ekki þannig, nú flökrar nefnilega að mér að stökkva á mennina í vinnunni og kela við þá, eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug fyrir tíu dögum eða svo ...
Lítil sem engin umferð var á leiðinni í bæinn, klukkan var ekki orðin 6.30 þegar við lögðum af stað og okkur gekk ógurlega vel að komast áfram, utan þær mínútur sem við vorum fyrir aftan rauða Toyota-jeppann sem ók á 60 á þjóðveginum skömmu eftir Kollafjörð. Rólegur karl með derhúfu sat undir stýri. Honum lá greinilega ekkert á þannig að hann reyndi ekki einu sinni að gefa okkur séns, heldur gerði sig of breiðan fyrir framúrakstur. Held að hann hafi ekki verið almennilega vaknaður, karlanginn. Ásta glotti bara (ekki beiskjulega) og fór fram úr þegar akreinar urðu tvær.
Fyrstu brimskvettuna fengum við yfir okkur við Leyni ... eða öllu heldur sætukarlastoppistöðina, þá síðustu á leið út úr Skaganum. Ég gargaði af gleði þegar sjórinn gekk yfir bílinn og Ásta horfði á mig með samúð. Held að Hilda systir sé sú eina sem skilur mig fullkomnlega í þessu.
Það var í raun skelfilegt að þurfa að fara í vinnuna í Reykjavík í dag og geta ekki horft á brimið fram eftir morgni. Þetta var þó ekki allt búið, þegar við vorum komnar fram hjá Grundahverfinu á Kjalarnesi sáum við að það skvettist sjór yfir veginn, sjaldgæft, hafið er yfirleitt frekar rólegt þarna. Við fengum náttúrlega skvettu á okkur þegar við keyrðum þarna. Í Kollafirðinum var líka stuð í sjónum og komu nokkrar dásamlegar skvettur yfir okkur þar. Held að háflæði hafi verið um áttaleytið. Það hefur því verið einstaklega gaman að fara með áttaferð strætó (7.41 frá Akranesi) í morgun. Vonandi að farþegarnir kunni að meta brim, eða Skúli bílstjóri. Tek strætó í fyrramálið og get spurt hann út úr.
Gissur Sigurðsson sagði sjöfréttir á Bylgjunni þegar við vorum að skríða inn í borgina og mikið rosalega hef ég alltaf gaman að fréttunum þegar hann segir þær. Þær verða svo spennandi í meðförum hans, maður sperrir eyrun og hlustar á hvert einasta orð. Bylgjan er þó aðeins of æst fyrir mig á morgnana (gætu verið trylltir stuð- treilerarnir) þannig að ég setti á Rás 2 við komu í vinnuna og því rennur ekki rafgeymasýra um æðar mínar af pirringi sem verður til við of mikinn æsing í útvarpi. Stundum set ég meira að segja á Rás 1 á morgnana, það er nú unun, myndi þó hlusta á X-ið ef Tvíhöfði væri þar ... elska góðan húmor og góða tónlist á morgnana, gaman þegar þeir hringdu stundum í Hvíta húsið (456 1414) og gerðu at í Bush. Stundum er þó ekkert útvarp það allra besta.
Óska ykkur gleðilegs vinnudags og farsæls komandi hádegisverðar. Hér í Hálsaskógi verður plokkfiskur í aðalrétt og hann get ég ekki borðað því að í gumsið er yfirleitt notaður illa lyktandi saltfiskur, BÐÖ. "Grænmetis"rétturinn verður: Ítalskur pastaréttur frá Napólí. Bara fyndið, vildi að það yrði frekar grænmetisréttur ... sniðugt og sparandi að kalla allan kjötlausan mat grænmetisrétt ... Jamm, svo nenni ég ekki að nöldra, það er farið í svo mikla vörn og öll tilfinningarök notuð. Mér var tilkynnt nýlega að morgunmaturinn minn hefði hækkað um 100%, úr 40 krónum í 80 krónur af því að það þyrfi að borga laun, rafmagn, senda barnið í ballett og svona ... Af hverju ætli sé sagt að konur noti svona rök en aldrei hið rökfasta karlkyn? Ja, ég átti engin mótrök við þessu, bara hætti að kaupa morgunmat (innihald: matskeið af kotasælu, tvær agúrkusneiðar, tveir paprikubútar, þrjár sneiðar af harðsoðnu eggi, pínulítið af rauðlauk, ekkert brauð). Varð að kaupa í gær vegna yfirsofelsis og þá var verðið komið upp í 88 krónur. Þetta er ekkert dýrt svo sem, bara prinsip að láta ekki fara illa með sig. Mér var nefnilega boðið að fá mér helmingi meira í morgunmat og borga helmingi meira fyrir það ... ekki ásættanlegt. Supersize me-hvað! sagði Guðríður beisklega en með yndisþokka. Fagurt en greindarlegt augnaráð hennar bar vott um andlegan sársauka sem tengdist greinilega stundum-nöturlegri reynslu hennar af mötuneyti Hálsaskógar.
Jamm, útrás dagsins var í boði frú Guðríðar himnaríkishunangs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
17.9.2008 | 14:03
Skagaprýðin og Akrafjallsyndið ...
Ég átti í afar ljúfum tölvusamskiptum við mann hjá Ríkisútvarpi/Sjónvarpi áðan. Tek það fram að ég kannast við hann síðan við bjuggum í sama húsi um tveggja ára skeið og unglingurinn hans, hún Rún, setti hann í pössun til mín þegar hún fékk að halda partí. Pabbinn harðneitaði að fara fjær húsinu en í næstu íbúð, gott hjá honum. Heheheheh.
Í fyrra bréfinu stóð m.a.: Gerðu svo vel, Guríður skagaprýði. Ég þakkaði honum í svari mínu, hrósaði fyrir að kunna að umgangast heldri konur og fékk þetta til baka: Ekkert að þakka, Akrafjallsyndi. Ekki slæmt að vera álitin yndi Akrafjalls eða prýði Skagans. Já, sumir menn kunna sig heldur betur og mér finnst þetta satt að segja vera til eftirbreytni.
Fínasti matur var í hádeginu, grænmetisbuff með sterkri hunangssósu og/eða kjúklingabitar með kínverskri sósu og svo fullt af grænmeti. Auðvitað, bara lögmál að hafa báða réttina góða á sama deginum ... og svo aðra daga kannski er pasta með kjöti og pasta með grænmeti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.9.2008 | 08:25
Rafmagnslaust í himnaríki og hjartahlýja&biðlund Ástu
Hrökk upp með andfælum við hringingu í gemsanum í morgun kl. 6.30. Ertu ekki að koma? nöldraði Ásta á hinum enda línunnar og skildi ekki af hverju enginn kom trítlandi með latte í báðum eins og vanalega. Í ljós kom að rafmagnslaust var í himnaríki, hvorki rafmagnsklukkan né síminn (sem ég ætlaði að láta hringja til öryggis) létu nokkuð í sér heyra kl. 6 eins og þau höfðu verið beðin um.
Mikið var ég þakklát Ástu fyrir að nenna að bíða eftir mér, sem var ekki lengi, því sem betur fer var ég búin að klæða mig, tannbursta og mála, gerði það nefnilega í gærkvöldi og hárlakkaði svo yfir dýrðina til að hún héldist ... þannig að ég gat bara hoppað beint niður stigana og inn í bíl. Hafði ætlað að skipta út rennblautum handklæðum í gluggunum í morgunsárið en það lenti bara á erfðaprinsinum. Hann fer í skyndipróf í stærðfræði á eftir og vonandi gengur honum jafnvel og síðast en þá lenti hann ágætlega yfir meðaltali sem er vel af sér vikið miðað við að hann hefur ekki verið í skóla í rúman áratug. Verst að hann er ekki orðinn rafvirki, það slær alltaf út aftur, sagði hann mér áðan ... vatn hefur komist í eitthvað. Arggg. Sé fyrir mér tölvu-, kaffi- og sjónvarpsleysi seinnipartinn og í kvöld nema eitthvað verði að gert. Það er slæmt, ætlaði að klára eina grein heima og stærstur hluti hennar er fastur í tölvunni minni!
En hva ... ný Vika var að koma í hús og fer í búðir í dag og á morgun. Langar að benda á að Viku-krossgátan er skítlétt (segir mamma) og alltaf góðar bækur í verðlaun. Nú til dæmis er það frábæra bókin Glerkastalinn eftir Jeannette Walls.
Megi dagurinn ykkar verða friðsæll en skemmtilegur, fengsæll og frábær! Mæli svo um og legg á!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.9.2008 | 18:15
Ansi hraðskreið rigning ...
Hér á Skaganum fer rigningin ansi hratt yfir með tilheyrandi votum gluggum í himnaríki. Sjórinn er sjúklega flottur en flóð verður um sjöleytið í kvöld. Hér þarf mikinn undirbúning fyrir nóttina en þá á veðrið víst að versna einhver ósköp. Handklæði í glugga, eldhúsrúllubréf í opnanlegu fötin og dagblöð á gólfin. Svo er bara að vita hvort Ásta eða strætó þori að leggja í Kjalarnesið í fyrramálið.
Skrapp í örstutta heimsókn til Línu í dag og var voða gaman að hitta þau. Hef ekkert séð þau síðan á föstudaginn. Strákunum tókst að segja mér að þeir hefðu farið í sund og hvað það hefði verið gaman. Gaman að sjá hvað dóttur Kjartans og Ellu og krökkunum hennar Línu kemur vel saman en þau komu í heimsókn þegar ég var að fara.
Annað: Inga, það var sannarlega ekki ætlunin að upphefja góðmennsku mína eða annarra Skagamanna á blogginu mínu eða segja frá einkamálum flóttamannanna. Ég hef hingað til bloggað um flesta þá hluti sem gerast í lífi mínu og síðasta vika var svo frábær og skemmtileg að erfitt var að sleppa því að blogga um það. Mér finnst ekki alvarlegt að skrifa um kaffiuppáhellingar eða þvottavélastúss, vissulega gerist sitt af hverju annað sem á ekkert erindi á bloggsíðu og ég skrifa ekkert um það. Mögulega hef ég vonað að þeir sem eru á móti komu flóttakvennanna og lesa þetta sjái að þetta er bara venjulegt og gott fólk sem getur fótað sig hér á landi. Millivegurinn er þó alltaf erfiður og ef ég hef farið yfir einhverja línu var það sannarlega ekki ætlunin.
Ég sá bara pínulítið af boldinu og sýndist Stefanía og Eric komin heim til mömmu Stefaníu. Þegar mamman var að tala fallega um mann sinn heitinn heyrði ég að það kom spennutónlist undir. Sé þetta betur á morgun en hvert andartak í þáttunum er teygt út í hið óendanlega, þess vegna skiptir varla máli þótt einn þáttur detti út. Jú, Taylor sagði Thorne að hann ætti ömmu á lífi og það kom undrunarsvipur á hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
15.9.2008 | 18:22
Geitungaleysi, bláberjatínsluferð, tilfinningakúgun, gjafir og örbold
Ósköp ljúf strætóferð með Skúla í næstum fullum vagni í morgun og enginn geitungur kom inn í leið 15 í Mosó þar sem Haraldur ljósmyndari sat undir stýri (brosmildi bílstjórinn). Í leið 18 var líka allt eins og venjulega, nema kannski fleiri farþegar en vanalega. Mér tókst með naumindum að varna því að eldri maður með strætósvip (skeifu) settist hjá mér því beint fyrir aftan hann var Elín. Hún hlammaði sér hjá mér og sagði mér af frábærri bláberjatínsluferð sem þau Daði fóru í um helgina.
Við vorum glaðar yfir því að enginn geitungur væri í vagninum því að nú vantaði útlendinginn morðóða, sem myrti kvikindið um daginn. Ég stakk upp á því að þeir væru allir dauðir en það var ekki samþykkt. Elín vinnur sem klinka (aðstoðarstúlka tannlæknis) og sagði mér að gluggarnir á tannlæknastofunni hefðu þurft að vera lokaðir allan síðasta föstudag vegna geitungaráps. Ekki fann ég fyrir að hún hefði mögulega samúð með sjúklingunum, hún sagði að klinkan myndi sturlast sem væri miður gott.
Saman fylgdumst við Elín með aumingja fólkinu sem fór út við Vesturlandsveginn og átti fyrir fótum að feta sig niður skaðræðisbrekkuna/vegkantinn en þar sem Sigurður Mikael var óhaltur þegar ég sá hann næst í vinnunni hefur a.m.k. honum tekist að komast þetta án þess að slasa sig.
Vildi óska þess að strætó færi nokkrum metrum lengra í stað þess að stoppa þar sem kanturinn er hæstur og fer þess vegna sjálf í Ártún og þaðan með leið 18 í Hálsaskóg. Þögul mótmæli. Eyði sætisáklæði og dýrri olíu fyrir Strætó bs á meðan þetta er ekki lagað. Tröppur ... eða færsla á stoppistöð talsvert vestar, takk.
Afar tilfinningakúgandi bréf barst öllum í vinnunni þar sem okkur var tjáð að ansi hreint sæt tveggja ára kisa ætti að fara í kattahimnaríkið kl. 14.30 í dag nema einhver hjartahlýr starfsmaður tæki hana að sér. Ég fann hvernig stállæsingin í kringum hjartað, sú sem ég nota grimmt til að lenda ekki í ástarsorg, herptist hratt saman og tvílæstist með hraði. Gat þó ekki stillt mig um að klappa snúllunni, enda trúði ég ekki á þessi sviplegu örlög. Einhver ráðlagði tölvumanninum, þeim sem sendi kúgunarmeilið, að prófa að fara í Kattholt með kisuna. Hann tók viðkomandi á orðinu ... og viti menn! Þar sem hann stóð við afgreiðsluborðið og bar sig illa klappaði kona/engill á öxlina á honum og sagði: Ég er að leita mér að kisu, ég skal taka þessa! Okkar maður brast næstum í grát af gleði og afhenti konunni köttinn. Þessi okkar maður er nýkominn með slæmt kattaofnæmi og varð að gefa heimilisköttinn heittelskaða.
Hingað í himnaríki komu í gær yndisleg hjón með barnahjól og sitthvað fleira handa nýja Skagafólkinu okkar. Maðurinn er með kattaofnæmi, eins og fleiri, en fékk engan frið fyrir Tomma. (sjá mynd) Kettir eru mannþekkjarar og láta ekki smámuni eins og fólk á flótta hafa áhrif á ástarjátningar sínar. Maðurinn er víst með meira ofnæmi fyrir hundum og hundar sækja því enn meira í hann. Hahahha. Bestu þakkir, frábæra fólk. Ég fer með þetta allt í Rauða krossinn í kvöld og eiga flottu unglingafötin án efa eftir að vekja lukku og bara allt saman. Svo kom kona af Skaganum með barnastól til að setja á hjól, alveg frábært, segið svo að blogg sé ekki góður miðill.
BOLD: Stefanía er á leiðinni til mömmu sinnar, ætlar að feisa hana eftir 30 ára þögn og beiskju. Pabbi Stefaníu barði hana með belti í æsku og mamman varði hana ekki, frekar hið gagnstæða. Þegar Eric frétti þetta heimtaði hann að koma með frúnni sinni og sagðist elska hana. Fyrst var hann reiður en þegar Taylor, geðþekki geðlæknirinn, var búin að segja honum að Stefanía gerði þetta til að komast til botns í því hvers vegna hún væri svona stjórnsöm, róaðist hann. Held að fátt annað hafi gerst í þættinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.7.): 1
- Sl. sólarhring: 31
- Sl. viku: 304
- Frá upphafi: 1528974
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 255
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni