Færsluflokkur: Bloggar

Dv.is segir að Glitnir verði ríkisbanki ... vefurinn sprakk vegna álags

Heyrði á göngunum í vinnunni áðan að www.dv.is segði að Glitnir væri "farinn á hausinn" og yrði gerður að ríkisbanka ... og ætlaði spennt að kíkja á fréttina. Þá var kerfið sprungið vegna álags, takk fyrir. Úhú ... en kominn í gagnið aftur, þar mátti lesa: Samkvæmt heimildum DV mun íslenska ríkið eignast ráðandi meirihluta í Glitni og koma þannig bankanum til bjargar.


Stjórnin að falla? Afnám verðbóta? Ljúft að láta sig dreyma ...

Sjá þessar dúllurMest spennandi fréttin í dag er þessi um leynifund helstu ráðamanna þjóðarinnar fram á nótt. Verður nú hlustað á háværa rödd almennings? Á kannski að afnema hinar ósanngjörnu verðbætur sem eru að sliga Íslendinga og viðgangast hvergi annars staðar í heiminum? Eða á bara að redda bönkunum enn einu sinni? Ég er hrikalega óhress með stöðu mála, tók á engan hátt þátt í uppsveiflunni með því að taka LÁN fyrir neyslu og/eða óþarfa, lán sem ég hefði reyndar þurft að borga af okurvexti og verðbætur. Slepp þó ekki við að taka þátt í niðursveiflunni frekar en aðrir. Óþolandi þegar mér er sagt af stjórnmálamönnum, sem sumir hverjir eru ekki í nokkrum tengslum við raunveruleikann (Pétur Blöndal?), að kreppan sé óráðsíu minni að kenna.

Í nýjustu Vikunni er stutt viðtal við Gunnlaug stjörnuspeking. Þar segir hann m.a.: „Geir H. „Horfinn“ er formaður Sjálfstæðisflokksins, flokks sem vill ekki að stjórnvöld skipti sér of mikið af fólki. Ingibjörg (Sólrún) er formaður félagshyggjufólks sem segist vilja berjast fyrir fólkið í landinu en gerir ekki. Reiði almennings mun því frekar beinast að henni. Hún er áhrifagjörn þótt hún sé sterkur karakter. Hún á eftir að lenda í kaldri raunveruleikasturtu nú í október. Hún verður að vakna ... ... Það mun hrikta í stoðum ríkisstjórnarinnar og hún falla í október eða í síðasta lagi næsta vor.“ Vildi bara deila þessu með ykkur.

Fékk óvænt far í morgun og stimplaði mig inn sjö mínútur yfir sjö hér í Hálsaskógi! Fylltist áhyggjum af strætó sem við mættum ekki í Kollafirði, strætó sem ég hefði ella tekið kl. 7.40. Bilun ... seinkun ....  eða kannski sjónleysi mitt? Strætó frá Akranesi er þéttsetin á þessum tíma og við troðfyllum síðan leið 15 í Mosó þannig að Mosóbúarnir þurfa að standa alla leiðina í bæinn.

Nóg var að gera í alla nótt ... flóð eða aðrar hörmungar voru yfirvofandi ... en við komumst nokkur yfir skip, líklega gömlu Akraborgina, og tókst að bjarga okkur. Fjöldi fólks lét lífið í þessum draumi ... Líklega martröð vegna sífelldra heimsendafrétta af efnahagsmálum.


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisþokka úthýst ...

Búið er að finna nýtt Skagafólk í Útsvar. Máni, snillingur og múmínálfaviskubrunnur, heldur áfram og Þorvaldursvo bætast tvær mannvitsbrekkur við, Þorvaldur Þorvaldsson er annar þeirra, man ekki hver sá þriðji verður. Taka á þessa keppni með trukki og þá þýðir ekkert að velja keppendur eingöngu eftir útliti, eða kvenlegum yndisþokka með dassi af visku um póstnúmer Íslands og Oliver Twist, eins og gert var sl. vetur. Þorvaldur er náttúrlega bara snillingur, gáfnaljós og góður húmoristi. Þegar ég var nýbúin að eignast erfðaprinsinn og lá á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness kom hann í heimsókn ... í pabbaheimsóknartímanum. Á þessum tíma (aldri) vildi ég að allt væri eins og það ætti að vera (kvaldist t.d. yfir því að aðrar konur á stofunni hefðu eðlilega fengið blóm frá eiginmanninum en ég ekki ...) og Þegar fegurðin ríkti í Útsvarispurði Þorvald hvort hann vildi virkilega missa mannorðið með því að mæta í PABBA-tímanum. Það drundi í Þorvaldi: „Er ekki fínt að fá bæði eiginmanninn OG barnsföðurinn?“ Rétti pabbinn gekk inn á stofuna akkúrat þarna og hafði lítinn húmor fyrir þessu. Mér fannst þetta pínku fyndið þótt ég léti ekki á neinu bera en enn fyndnara eftir því sem á leið.

Mikið verður gott að sitja í stofunni heima og horfa og vita fleiri svör, finnst alltaf jafnfyndið hvað vísbendingaspurningarnar eru léttar heima en ofboðslega flóknar í stressinu í sjónvarpssal. Ekki gekk heldur að láta mig mögulega keppa við Álftanes og stefna þar með rúmlega 20 ára vináttu okkar Önnu í stórhættu ... hehehe. Áfram Akranes!


Hvolpamyndir, Háholt afhjúpað, bloggpælingar og boldspælingar

Stoppistöðvarnar í Háholti, MosóDagurinn hélt bara áfram að vera góður.  Klara á símanum bauð Mosó-skutl kl. 17 og innan skammst stóð ég að stoppistöðinni í Mosó og beið eftir Skúla ... í klikkuðu roki. Háholtið er á sérstöku (ó)veðurbelti, ég er löngu búin að uppgötva þennan vindstreng sem liggur eftir því þrátt fyrir sjúklega gott veður annars staðar í bæjarfélaginu. En hva, íslenskt eðalkvendi lætur ekki smá rok slá sig út af laginu. Rétt fyrir kl. hálfsex var bankað í skýlið. Fyrir utan og aftan stóð maður af sætukarlastoppistöðinni og bauð mér far. Konan hans hafði átt erindi til höfuðborgarinnar og gat ekki hugsað Ungt og leikur sérsér að láta karlinn sinn taka strætó heim þar sem hún var á ferðinni. Góð kona. Skemmtileg heimferð og mikið spjallað. Þegar við rúlluðum út úr göngunum norðanmegin giskuðum við á að strætó væri nákvæmlega þá að leggja af stað frá Háholtinu en Skagastrætó þarf að bíða eftir leið 15 sem er stundum sein á þessum tíma. Staðan eftir daginn er 1:1. Leið 15 beið nefnilega eftir okkur í morgun. Svona sér lífið nú um að viðhalda jafnvægi og réttlæti.

Ég er að lesa nýja bók núna, Petite Anglaise, sem fjallar um breskan kvenkynsbloggara í París. Hún bloggar undir dulnefninu Petite Anglaise og segir opinskátt frá lífi sínu, frá froskinum (sambýlismanninum), körtunni Við viljum koma INN(barninu), eldheitu ástarsambandi við landa sinn, leiðindin í vinnunni og fleira og fleira. Bókin er skrifuð á hefðbundin hátt, ekki eins og blogg. Ég er ekki komin langt í henni en strax búin að ákveða að skrifa sjálf einstaklega opinskátt um eldheitt ástarsamband sem ég ætla að koma mér fljótlega í (tillögur óskast), æsispennandi strætóferðirnar eins og þær eru í raun og hætta að draga nokkuð undan, breyta yfir í dulnefnið Skagaskvísa og nú verður meira stuð í bloggheimum.

Bold: Mamma Stefaníu komin til hennar og biður um fyrirgefningu. Henni finnst ömurlegt að hafa ekki tekið þátt í lífi dótturinnar sl. 30 ár og fengið að njóta barnabarnanna, barnabarnabarnanna og barnabarnabarnabarnanna, held ég. Stefanía ætlar að horfa fram á veginn, vill ekki sjá að eiga í sambandi við móður sína sem varði hana ekki fyrir vonda pabbanum. Móðir hennar grátbiður hana en Stefanía segir henni að yfirgefa svæðið. Pam, systir Harðfisk takkStefaníu, styður bugaða móður þeirra á brott. „Það er of seint,“ segir Stefanía skömmu seinna við Feliciu, dóttur sína.

Taylor geðlæknir er búin að rugla Nick í ríminu og hann hugsar allt í einu voða mikið um sálarflækjurnar sem virðast hrjá hann og hann hafði ekki áður fundið fyrir. „I love therapy,“ segir hann og heimtar að þriðji tíminn fari fram á þilfari báts hans með bjór í annarri og kjúklingavængi í hinni. Taylor þarf nú að fara að passa sig, persónutöfrar Nicks eru farnir að hafa áhrif á hana og hún sem er nýfarin að sofa hjá ekklinum Thorne.

P.s. Myndskreytingarnar í færslunni tengjast m.a. ferðinni á Kjalarnesið í gær þar sem labrador-hvolparnir voru heimsóttir. Myndin úr Háholti, 270 Mosó, sýnir strætóskýlin sem spila svo stóra rullu í lífi mínu. Það græna vinstra megin er fyrir farþega til Reykjavíkur, það ósýnilega úr glerinu hægra megin er fyrir farþega til Akraness. Við förum út hægra megin á morgnana, hlaupum yfir götuna og náum leið 15 í bæinn hjá því græna. Svo er hérna mynd af Ylfu Ósk Úlfarsdóttur sem bíður spennt eftir harðfiski. Hún er kannski hvolpafull og þarf mögulega að borða fyrir níu.


Af skelfilegu dömpi, mögulega ekki óléttu ... og nammilöngun

PurusteikRifjasteik með brúnni sósu, steiktum kartöflum, rauðkáli og salati að eigin vali var í matinn í hádeginu. Bragðaðist bara vel. Föstudagar eru annasamastir hér í Hálsaskógi, alla vega hjá okkur Vikugellum, og því gott að meira skuli lagt í hádegismatinn en á t.d. þriðjudögum. Suma föstudaga kaupa stelpurnar nammi eftir hádegi og þá gaman að lifa. Nú er aðalnammigrísinn í helgarferð í Svíþjóð svo líklega verður ekkert nammi í dag nema ég grípi sjálf til aðgerða. Vona bara að nammigrísinn muni eftir að koma með nammi handa okkur úr Fríhöfninni. Það er regla hér.

Eftir matinn voru heilmiklar umræður, m.a. um lífsreynslusögur Vikunnar. Ég sagði full eftirsjár frá kunningjakonu sem nýverið bannaði mér að birta djúsí frásögn af manni sem sagði konu sinni upp með tölvupósti eftir langt hjónaband. Lét sig bara hverfa. Kunningjakona mín sagði að þetta hlyti að vera svo sjaldgæft athæfi að það myndi fattast hvaða fólk þetta væri og dró áður gefið leyfi sitt fyrir birtingunni til baka. Samstarfsmenn mínir hlógu kvikindislega og sögðust vita fjöldamörg dæmi þess að uppsagnir færu einmitt þannig fram og sögðu mér jafnvel enn meira krassandi sögur.

Þetta er búið, beljan þínEinn gæinn dömpaði kærustunni sinni með SMS-i: „Thetta er buid“ Annar sagði við konu sína þegar hann var nýkominn heim úr vinnunni: „Ég elska þig ekki lengur.“ Þegjandi og hljóðalaust setti hann svo fínu buxurnar, sem hann hafði nýlega keypt á 17.000 kall, ofan í poka og greip líka eina koníaksflösku úr vínskápnum með. Fleiri orð voru ekki höfð um þetta. Það vantar jafnrétti í þetta, alveg er ég viss um að karlar hafa líka fengið hrikalega útreið hjá mökum sínum í þessum málum.

Kannski er ég á lausu vegna hræðslu við eitthvað svona skelfilegt dömp. Ég kannski búin að vera með manninum í viku, búin að kaupa brúðarkjól, koma mér upp smekk fyrir fótbolta og Formúlu, velja á milli hans og kattanna/erfðaprins og velja hann ... og svo kemur önnur kona í spilið og býr á heppilegri stað en á næstum 5. hæð á Akranesi (erfitt að flytja flygilinn alla leið upp). 

Siberian HuskyYlfa Ósk Úlfarsdóttir, af ætt úlfhunda, kom í heimsókn í vinnuna í dag og Úlli kokkur, eigandi hennar, er ekki lengur viss um að hún sé hvolpafull. Sónar um daginn sýndi nákvæmlega ekkert en það þarf samt ekki endilega að tákna óléttuleysi. Ég sem er búin að vera að lauma að henni harðfiski þegar hún kemur, af því að ég hélt að hún þyrfti að borða fyrir níu núna ... og það stolnum harðfiski úr skúffunni hennar Hrundar.


Heillatrefill og skiptimiði í stíl, hviður og kósíheit

TrefillÉg VISSI að þessi dagur yrði góður þegar Skúli rétti mér appelsínugulan skiptimiða, alveg í stíl við trefilinn minn. Þrátt fyrir gífurlegar vindhviður á leiðinni, bæði á Kjalarnesi og Kollafirði, fukum við ekki út af, sem er eitt dæmið, og þegar við skriðum inn í Mosó pínku sein beið Haraldur almáttugur viljandi þar eftir okkur á leið 15 þótt hann hefði alveg getað verið farinn, sem er annað dæmi. Í Ártúni stökk einn Indverjinn minn (þessi sem ég kynntist fyrst) út úr vagni neðan úr bæ og ég tók eftir að hann var í leðurjakkanum sínum, hann hefur ekkert hlustað á móðurlega aðvörun mína í gærmorgun þegar ég sagði: „Bad, bad weather tomorrow.“ Man reyndar eftir því síðan í gamla daga að leðurjakkinn minn var MJÖG hlýr, dugði mér sumar sem vetur. Þykkt og gerð trefla skar úr um hvort ég yrði úti í frostinu eður ei.

labrador-hvolpurÍ gær eftir vinnu fórum við tvær vinkonur á Kjalarnesið og skoðuðum hvolpana hjá Labrador-fjölskyldunni minni. Þeir eru orðnir ótrúlega skemmtilegir, mikill leikur í þeim og lífsgleði, fáránlega sætir og krúttlegir. Ef ég byggi ekki í blokk ... ef ég ætti ekki ketti ... ef ég ynni ekki úti allan daginn ... jamm, ekki spurning! Það er hálfur mánuður í að þeir megi fara til nýrra eigenda og helmingurinn hefur þegar „gengið út“. Þannig að ... ef ykkur langar í labrador-hvolp, hreinræktaðan og guðdómlegan, þá veit ég um nokkra á lausu. :) Set inn myndir af þeim í kvöld.

Óska ykkur skemmtilegs og gleðilegs dags í sífellt minnkandi rigningu og roki. Um hádegi verður komið logn í Reykjavík, skv. norsku veðursíðunni, www.yr.no.


Fótósjokk, kaffisjokk, húsfélagsfundur og hinstu orð Eiríks

Í hlýjunni í morgunÞegar Sigurður Mikael, blm á DV, gekk inn í strætó af Sætukarlastoppistöðinni á Skaganum spurði hann mig hvort ég hefði séð DV í dag. Hann var fölur og skömmustulegur þegar þegar hann tjáði mér að flennistór mynd væri af mér við viðtal við Sigþóru um Skaðræðisbrekkuna rétt við Súkkulaðibrekkuna. „Hva, af hverju voru þeir að birta mynd af mér?“ spurði ég sár, enda fann ég á mér að DV-menn myndu velja mynd af mér þar sem ég líkist vélsagarmorðingja (sjá debit- og kredidkort mín). Sigþóra, sem hefur rúllað oftar en tárum tekur niður Skaðræðisbrekkuna, vegkantinn háa hjá stoppistöðinni á Vesturlandsveginum, var á Spáni þegar viðtalið var tekið við hana og því ekki hægt að mynda hana. SM tjáði mér að myndin af mér næði yfir næstum því heila síðu og þá áttaði ég mig á því að ég myndi örugglega virka ógeðslega feit. Ég fölnaði af bræði ... eða hefði gert ef ég hefði ekki haldið í þá veiku von að myndin væri kannski í lagi eða fótósjoppuð vegna skilnings DV-manna. Nei, þetta var fótóSJOKK ... Og svo hef ég ekki kvartað margoft við Strætó bs yfir Skaðræðisbrekkunni ... bara hérna á blogginu. Var kannski ekki nógu skýr í svörum.

PartíErfið byrjun á degi eftir viðburðaríkan aðalfund húsfélagsins í gærkvöldi ... nótt ... Ég skrifaði undir trúðaðarloforðsþagnareið vegna fundarins og get því miður ekki sagt frá öllu því dásemdarsvínaríi sem viðgekkst þar. Ostur, vínber, Pólverji og súkkulaði kemur við sögu ...  Við ákváðum að halda svona fund eigi sjaldnar en einu sinni í viku héðan í frá. Önnur mál voru ekki á dagskrá. Ég get ómögulega munað hvort ég var kosin formaður, gjaldkeri, húsvörður eða ræstitæknir sameignarinnar eftir að hafa boðið mig aftur fram sem ritari.

Rauðir kellingaskórFljótlega eftir komu í vinnuna sagði Ragga hjá Séð og heyrt að ég væri greinilega í mikilli þörf fyrir líkamlegt samneyti ... (hvernig hefði hún svo sem átt að vita að ég var á húsfundi í gær), ég hváði, hló hæðnislega og hélt nú ekki, en þá sagði hún að þar sem ég væri í rauðum bol undir svarta jakkanum ... væri það raunin. Svo trítlaði hún yfir sætið sitt, svartklædd og gelluleg og það small í gólfinu undan rauðu hælaskónum hennar. Tobba er líka í þörf, hún er með rautt belti, allt hitt svart. Þá veit maður það.

Slæmar kaffibaunirKaffibaunirnar kláruðust um níuleytið í morgun og Ragga djöfull stal ómerktum kaffibaunapakka einhvers staðar frammi og nú drekkum við einhvern hryllingsviðbjóð sem hefur ekki þótt nógu gott í vegkantafyllingar í Brasilíu. Hef reyndar ekki þorað að smakka það sá bara að Eiríkur Jónsson hneig niður við kaffivélina. Hinstu orð hans voru: „Veit hún Gurrí af þessu?“ Ég er búin að hringja í Selecta og biðja um neyðarkaffisendingu á vanalega kaffinu okkar (frá Kaffitári) og nú er klukkan farin að ganga 12, ekkert kaffi komið enn. Veit fólk ekki hvað alvöruneyð er? 

Vona að elsku Skúli bílstjóri á Skagastrætó fyrirgefi mér fyrir að hafa gleymt tómu kaffipappamáli í sætinu mínu í morgun, ég náði ekki að klára the latte on the stoppistöð og lauk við síðustu dropana inni í vagninum ... Tommi hefði drepið mig fyrir þetta, eða þá Gummi!


Ótrúleg afköst og innslagið frá BBC ...

Í himnaríki í morgunVel- og glaðvaknað var í morgun og ótrúlegt hvað „vakn“ fimm mínútum fyrr en vanalega munaði miklu, engin hlaup og ekkert stress. Ég náði að baka nokkrar sortir, hreingera baðherbergið, prjóna hosur fyrir veturinn og skrifa fyrstu drögin að inngangi að formála um sögu fílsins í átta bindum ... og allt þetta áður en ég bjó til latte og fékk með hollustudótið mitt.

Við stuðningsfjölskyldur Línu kíktum á hana í gær og höfðum að láni túlk í klukkutíma til að spjalla við hana. Það var ótrúlega gaman ... annars hefur henni farið helling fram ... í uuuu ... enskunni eftir að hún kom. Og er spennt að læra íslenskuna sem hún kann nokkur orð í. Hún skellihló þegar ég sagði henni Allah-brandara ... um það þegar íslenski eiginmaðurinn öskraði yfir yfirfulla verslun eða markað í Marokko: „ALLA!!! ALLA MÍN, hvar ertu?“ og allir sneru sér forviða við og gláptu á þennan guðrækna mann.

Ein konan úr hópnum var í viðtali hjá BBC World og gaman að sjá m.a.  Báru og Dodda heima hjá henni og negla upp mynd ... og strákinn á heimilinu fara á hestbak „í sveitinni“ hjá Nínu, stofnanda stórverslunarinnar Nínu (þar sem Dorritt hefur verslað ...). Doddi ók í bæinn um daginn rétt áður en brjálaða veðrið skall á, frekar óvanur að keyra í Reykjavík, rataði ekki um í Breiðholti en fann samt yndislegu konuna sem gaf hjól fyrir stálpaðan strák (ja, fullorðinshjól). Strákurinn þráði hjól heitast af öllu. Ég fylltist afbrýðisemi fyrir hönd Línu þegar ég sá að "konan þeirra" er með uppþvottavél ... heheheh, nei, nei, uppþvottavélar eru ekki jafnsjaldgæfir gimsteinar og áður, það fylgdi t.d. með í kaupunum á himnaríki heilt stykki uppþvottavél sem ég elska mjög, mjög heitt. Þessi kona var bara jafnheppin og ég. 

Læt slóðina að innslaginu frá BBC World fylgja með ... þessi fréttakona var víst engu lík og það var upptökuliðið hennar sem þurfti að elta kvikmyndavélar um móa og mýrar í öllu rokinu um daginn. http://www.youtube.com/watch?v=olehN_FwJ4M

Vona að dagurinn ykkar verði skemmtilegur, spennandi, gefandi og guðdómlegur!


Minna skutl og meira bold

InnanbæjarstrætóÞað var greinilega hárrétt ákvörðun hjá Skagayfirvöldum að hafa frítt í strætó því mikill fjöldi fólks notfærir sér þjónustuna. Bílstjórinn sagði mér áðan að oftast væri vagninn þéttsetinn og oft alveg stútfullur. Í svona veðri skil ég að krakkar nenni ekki að rennblotna á leiðinni í skólann eða kerlingar á leið úr sjúkraþjálfun vilji halda sér þurrum og þá er strætó frábær kostur. Það hlýtur að vera mun minna um skutl foreldra og erfðaprinsa á þessum háabensínverðstímum og þá er tilganginum náð.

Nick er á bömmer yfir Forrester-fyrirtækinu, hlutirnir ganga ekki eins vel og hann bjóst við, sigurinn ekki jafnsætur. Jackie, mamma hans, reynir að stappa stálinu í strákinn. Ég sá ekki betur en Thorne og Taylor sofi nú saman og hann búinn að gefa henni hring. Taylor er líklega svolítið siðlaus geðlæknir, hún lofaði Thorne sínum að hún stefndi að því að endurheimta fyrirtækið fyrir fjölskylduna, hún hefði boðið Nick í geðlæknismeðferð ... Það er eins og mig minni að kristalskúlan mín hafi sagt að það leiði til ástarsambands þeirra.

Taylor og PhoebePhoebe, dóttir Taylor og Ridge, er svolítið skotin í garðyrkjumanninum grunsamlega sem bar ekki vitni í máli Taylor sem var, eins og allir muna, fyrir rétti fyrir að hafa ekið full og réttindalaus á Dörlu, konu Thorne, og valdið dauða hennar. Garðyrkjumaðurinn er á flótta undan lögreglunni, var barinn á ströndinni og býr nú í skjóli dr. Bridgetar að beiðni Phoebe. Ridge hefur sagt dóttur sinni að líta ekki við svona lúser en Phoebe vorkennir honum, hver sér ekki rómantík í subbulegum flækingi sem mögulegt væri að bjarga?

StefaníaUm daginn tilkynnti Stefanía að hún ætlaði aldrei framar að tala við móður sína. Það misheppnaðist algjörlega tilraunin til að hugga barða barnið í henni með að fá mömmuna til að biðja afsökunar á því að hafa ekki varið hana fyrir pabbanum með fúsa hnefann. Systir Steffíar tók upp hanskann fyrir hana í uppgjörinu og sagðist muna eftir hræðilegum atvikum.

Jamm, alltaf stuð í boldinu.


"Eins og þjófur úr heiðskírri nóttu ..."

Svartir englarEkki var erfitt að sofna vel og rótt eftir sjónvarpsveislu gærkvöldsins. Svartir englar lofar mjög góðu ... ég var svo óheppin að fá símtal í miðjum þætti og datt svolítið út, ætla að horfa á endursýninguna á fimmtudagskvöldið. Ævar Örn er einn af uppáhaldsrithöfundunum mínum og fyrst þættirnir eru byggðir á bókum hans ... jamm, bara gæðastimpill. Í mörgum íslenskum þáttum er það oft leikurinn sem er veiki hlekkurinn, skýrmæltir sviðsleikarar sem gera hlutina ótrúverðuga en ég sá ekki hvort  slíkt var í gangi í gær. Eitthvað sem góðir gribbuleikstjórar ættu að geta lagað. Dagvaktin var bráðfyndin og lokaatriðið alveg brilljant. Það er búið að auglýsa hana svo mikið undanfarnar vikur að ég ætlaði varla að nenna að horfa en sé ekki eftir því að hafa gert það.

Ung kona á stoppistöðinni við Garðabraut var með lopavettlinga í morgun brrrrrr ... og mér kólnaði skyndilega við þá sýn, nú kafa ég í skápa og skúffur og finn gammósíur, fleiri trefla og hlýja peysu. Sagði við eina berhálsaða: „Nú er aldeilis tveggja trefla veður.“ Var samt ekkert að meina Troðfullir strætóar í morgunþað til hennar, minn eini trefill var nefnilega aðeins of lítið skjól gegn kulda að þessu sinni. Konan flissaði glaðlega og hagræddi kraganum á úlpunni. Öryggisbeltið í sætinu mínu passaði ekki utan um mig (enga offitubrandara, takk) og skellti mér aðeins framar, eða í aðstoðarmannssæti bílstjórans, og þar passaði beltið. Ég aðstoðaði bílstjórann alla leiðina með hugarorkunni einni saman, steinþegjandi, og við komumst heilu og höldnu í Mosó. Mjög, mjög, MJÖG margir farþegar voru í Skagastrætó og ekki næstum allir komnir yfir götuna á stoppistöðina (til Rvk) þegar leið 15 kom brunandi. Við vorum svo mörg að við ríflega fylltum leið 15 þannig að elsku Mosóbúar fengu ekki sæti alla þessa leið til Reykjavíkur. Í Ártúni hitti ég einn Indverjann minn og hann sagði: „You have blogsite.“ Ég játti því og frétti þá að íslensk samstarfskona hópsins hafði rekist á skrifin um þá og blaðrað .... hehehehe. Ég sagði honum frá troðfullum Mosó-strætó sem ég var að koma úr og hann sagði að indverskir strætisvagnar væru ekki fullir - heldur TROÐNIR ... Ansi margt fólk var einmitt lika í leið 18. Veit ekki hvað gerðist í dag, kannski allir orðnir leiðir á því að láta .... uuuu, ..vera  með vaselín á bensínstöðvunum .... (var þetta ekki bara fínlega gróft hjá mér?)

Samstarfskonur mínar voru í miklu stuði við komu kl. 9 og fóru að rifja upp ýmis mistök í íslensku  ..., bæði sem þær hafa gert eða heyrt hjá öðrum. Dæmi: „stott stupp, spakk og hakettí ... Maður fórnar nú ekki höndum fyrir smá mat ... Hann kom eins og þjófur úr heiðskírri nóttu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 23
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 319
  • Frá upphafi: 1528965

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 266
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband