Færsluflokkur: Bloggar

Fullkomið kvöld í góðum félagsskap

Í byrjun kvöldsTvíburarnir Sigga og AllaHrikalega var gaman í kvöld.  Gömlu skóla-félagarnir hafa ekkert breyst, eru alveg jafnsætir og í gamla daga. Algjör heppni að einn jafnaldri okkar, Nonni, er safnstjóri á Safnasvæðinu og þar héldum við okkur allan tímann. Fyrst í Stúkuhúsinu sem er í upprunalegri mynd en var flutt á safnasvæðið, mjög flott hús. Þar átti ég góða tíma í barnæsku og lofaði að snerta hvorki áfengi né tóbak. Ég stóð við það til 13 ára aldurs, enda flutt af Skaganum þá. Við fengum fínar veitingar, meira að segja sushi, og hámuðum í okkur góðgerðir, klukkan bara rúmlega fimm og langt í matinn sjálfan.

Í kirkjugarðinumÍ kirkjugarðinum við TurninnVið vorum dregin í stuttan göngutúr í gegnum kirkjugarðinn að turninum sem S. Heiðar hélt í gamla daga að væri kirkjuturn nema kirkjan hefði sokkið og væri neðanjarðar. Við hlógum illgirnislega að þessum barnaskap hans þangað til við mundum að hann er umsvifamikill í fjármálabransanum.

Svo settumst við niður í sal Steinasafnsins og við borðfélagarnir vorum sannarlega ekki af verri endanum. Stjarneðlisfræðingur, bankastjóri, búðareigandi, bæjarfulltrúi og blaðamaður. Í tónlistargetrauninni seinna um kvöldið lentum við í 2. sæti, snillingarnir, helvítið hann Bjöggi Halldórs eyðilagði allt fyrir okkur, það var nefnilega ekki nóg að nefna Björgvin sem flytjanda, heldur HLH, Brimkló eða Lónlí blú bojs. Samt flott hjá okkur að ná svona góðum árangri og fyllibytturnar á þarnæsta borði fengu rauðvínsflöskuna sem var í verðlaun.

Mjaðmahnykkirnir kenndirÚr ÖskubuskuMagadansmær kom og tók einn flottan dans og kenndi nokkrum úr hópnum mjaðmahnykkina góðu.Ýmsir sýndu ótrúlega glæsileg tilþrif þar.

Við vorum nokkur valin til að leika í Öskubusku og ég var prinsinn fagri. Stjúpsystir Öskubusku sló eftirminnilega í gegn (Halli bæjarfulltrúi) og ég á nokkrar myndir af honum sem ég ætla að nota í fjárkúgunarskyni. Hann er með bláu slæðuna á myndinni hérna rétt fyrir neðan. Hann neitaði að skila skónum af Öskubusku (Gulla) og leikritið var í mikilli hættu um tíma. Hann var alveg bráðfyndinn og stórskemmtilegur, þessi elska.

Stjúpfólkið í ÖskubuskuÞað var knúsast og faðmastGulli sleit dagskránni og fólk bjó sig undir að fara að dansa. Ég laumaðist í símann og bað erfðaprinsinn að sækja mig. Ég dansa bara við eitt lag í heimi, Luftgitar með Johnny Triumph og Sykurmolunum, og mér fannst ólíklegt að það væri til, alveg eins gott að fara bara heim og horfa á Lord of the Rings III. Ég kvaddi bara Gulla, sessunaut minn, við vitum hvernig það er þegar fólk reynir að kveðja alla á svona hittingi. Veit bara ekki hvað hefði getað gert ef einhverjum af skólafélögunum hefði dottið sú fásinna í hug að bjóða mér upp, það hefði verið hræðilegt!!!

Fallegt á SafnasvæðinuHumar í forréttFrábært árgangsmót, mun skemmtilegra og betur heppnað en síðast og maturinn frá Galito var algjört afbragð. Allir kláruðu hverja ögn af diskunum sínum. Humar í forrétt, kjötþrenna í aðalrétt og súkkulaðikaka með ís í eftirmat. Kaffið var veiki hlekkurinn en maður er svo sem vanur því, mikið lagt í allt ... nema kaffið sem er samt svo stórt atriði, hehehhe. Galito ber held ég enga ábyrgð á því. Næsta árgangsmót verður eftir fimm ár og ný þriggja manna nefnd var skipuð. Nú stefnum við að því að fá enn fleiri en 35! Óli kom alla leið frá Danmörku til að vera með okkur, Helgi og Guðlaug frá Akureyri, einn frá Ísafirði og margir frá höfuðborgarsvæðinu. Mikið er maður annars ríkur að þekkja svona gott og skemmtilegt fólk.


Endurfundir í kvöld - mikil tilhlökkun

Gaman í kvöldVoðalega líður tíminn hratt.  Árgangsmótið hefst eftir tæpan klukkutíma og ég var að koma úr baði. Ég hafði ætlað mér að gera svo margt, m.a. gera meikprufu á andlitinu í gær en slíkt förðunardót hefur ekki komið nálægt mér síðan sólbruninn ógurlegi átti sér stað í júlí. Tek ég sénsinn og verð bólgin í framan eins og hamstur? Eða þessi náttúrulega fegurðardís sem ég er kölluð af mönnum sem vilja bara eitt ... selja mér tryggingar. Tókst að finna sæmileg föt, líklega þau sömu og ég klæddist í afmælinu mínu og valkvíðinn verður þá bara hálsfestin. Svo var ég að muna að ég á enga almennilega spariskó. Fyrir mörgum árum keypti ég krúttlega skó í Sautján, flatbotna svarta skreytta með hvítum steinum ... þeir eru eins og nýir, enda hef ég bara skjögrað um á þeim svona þrisvar. Finnst varla við hæfi að vera í strigaskóm þótt þeir heiti Sketsers-unglingaskór. Ef ég væri af 68 kynslóðinni myndi ég dansa berfætt í kvöld en skór 78-kynslóðarinnar voru með 20 cm hælum og eru vandfundnir, enda nenni ég varla að gnæfa yfir skólasystkinin knáu ... sem ég hlakka ógurlega til að hitta í kvöld.

Jamm, best að taka sig til og gera sig sæta, eins gott að ég keypti varalit í sumar af Ásdísi. Vona að kvöldið ykkar verði ljúft og munið að alls óvíst er að nýr Simpsons-þáttur fari í loftið. Þeir hafa svindlað svolítið á þessu síðustu vikurnar hjá Stöð 2 og sýnt gamla. Eins og við aðdáendur tökum ekki eftir því?


Föstudagurinn langi ...

Háholti kl. 18.30 í kvöldSvo mikið var að gera í dag þegar ég slökkti á tölvunni í Hálsaskógi voru aðeins fimm mínútur í brottför 17.45-strætó frá Mosó. Ekkert hlaupahjól í grennd og því klukkutíma bið eftir næsta vagni. Náði leið 15 hálftíma of snemma við Vesturlandsveginn og gerði mér enga grein fyrir því þá hversu tryllingslega mikil heppni það var. Horfði síðan ótrúlega beiskulaust á hlýjan og notalegan Skagastrætó sem beið neðar í Háholtinu (sjá mynd), alveg farþegalaus, Kiddi bílstjóri í pásu og ég í hlýjum sokkabuxum. Svo kom leið 15 korteri seinna og sniglaðist þunglamalega upp brekkuna. Út úr vagninum flæddi hópur barna, örugglega 50 stykki, ef ekki fleiri. Vagninn hafði verið troðfullur og um leið og fækkaði í honum sá ég nokkra saklausa farþega blása út og ná fyrri stærð. Vér Skagamenn þjöppuðum okkur saman í eina hrúgu á stoppistöðinni og einn í hópnum giskaði nöturlega á að þetta væri vafalaust skátahópur og við gætum gleymt því að dorma á heimleiðinni við undirleik fréttanna, þyrftum líklega að taka undir Kveikjum eld og Ging gang gúllí. Okkur til mikils léttis voru þetta fótboltabörn. Ekki reyndist vera pláss fyrir þau öll í rútunni (Skagastrætó) og voru óþekkustu börnin örugglega skilin eftir í Háholti því að þetta reyndust vera algjör englabörn, eða svona vel öguð. Restin af hópnum þurfti að bíða eftir næsta strætó þar sem svona stór hópur þarf að láta vita af sér í tíma til að hægt sé að gera ráðstafanir. Skagastrætó lýtur öðrum lögmálum en venjulegir strætóar, eitt sæti á mann og allir í beltum. Sat við hliðina á Dipu, badmintonþjálfara okkar Skagamanna, eiginmanni indversku vísindakonunnar, Shymali. Við vorum menningarleg á því á heimleiðinni, hann las Newsweek og ég fletti áhugaverðri kjarneðlisfræðibók.

PeningarVið heimkomu gat ég ekki stillt mig um að hringja í nokkra bankamenn í vinahópnum. Jú, jú, eitthvað meira en venjulega var um úttektir í dag en enn meira var um tilfærslur úr sjóðum yfir á reikninga. Það hlýtur samt að vera gósentíð fyrir innbrotsþjófa núna, meira fé en vanalega undir einhverjum koddum um helgina.

Ég heyrði í mömmu áðan sem sagðist ekki ætla að láta þennan múgæsing hafa áhrif á sig og skrilljarðarnir hennar eru grafkyrrir í Landsbankanum. Annars var símtalið ansi stutt, Ég fattaði ekki að maður hringir ekki í fólk þegar Útsvar er í gangi. Eina sem ég get gert núna er að vonast til þess að yfirdrátturinn minn týnist á einhvern undursamlegan hátt í öllum þessum látum. Plís, plís!

AskaAska í úlpuMikið var annars gaman að Útsvari og ég hefði rúllað upp Hringadróttinssöguspurningunum ... hmmm, nema þeirri síðustu. Of langt síðan ég las bækurnar. Það verður gaman að fylgjast með hinu nýja liði Skagamanna. Ásta er viss um að það fari alla leið, eða í fyrsta sætið. Ekki dettur mér í hug að efast um orð hennar. Hún bauð mér í gómsætt lasagna um daginn og þar smellti ég myndum af Ösku, voffanum hennar. Ösku í körfunni og Ösku í úlpunni. Aska á hlýrri úlpu en ég.


Skrýtinn dagur - úttektir hjá sparifjáreigendum

Hér í vinnunni hefur ríkt skrýtið andrúmsloft í dag, eins og örugglega víðar í þjóðfélaginu. Sögusagnir um hrun Landsbankans ganga fjöllunum hærra og einn samstarfsmaður minn frétti að heilir 2 milljarðar hefðu verið teknir út bara í Landsbankanum í Mjódd í dag ... af hræddu fólki sem vill frekar hafa peningana undir koddanum en mögulega tapa þeim. Veit um einn karl sem tók reyndar allt sitt út í dag, en ekki þó í útibúinu í Mjódd en í öðru Landsbankaútibúi. Kannski óþarfapanik, verst að enginn veit neitt og ráðamenn vilja sem minnst segja og bara þegja sem gerir almenning enn hræddari.

Einhver sagði í matsalnum (fínasti matur í dag) að landið hefði ekki efni á bensíni nema í stuttan tíma í viðbót, síðan fengist ekki meira keypt inn, og þá þurfum við að fara að labba í vinnuna. Ég á líklega óhægt um vik en Eiríkur Jónsson sagði að nú yrði líklega leyft í fyrsta sinn síðan 11. júlí 1998 að fara fótgangandi í gegnum Hvalfjarðargöngin. Ja, eða á hlaupahjóli, sem væri sniðugra, bætti snillingurinn við. Jamm, hvaða stórfréttir ætli skelli á okkur um helgina? Eða á mánudaginn?


Ódýrasti kvöldmatur lífs míns, "ósvífni" leiðar 15 og jólagjafapælingar ...

VekjaraklukkaVaknaði við að erfðaprinsinn gargaði úr suðausturhluta himnaríkis: „Viltu slökkva á vekjaraklukkunniiiiii!“ Takk, erfðaprins. Klukkan var við eyrað á mér og hafði hamast í fimm mínútur án árangurs. Var óumræðilega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa tekið til fatnað í gærkvöldi. Tók meira að segja fram gammósíurnar (úr Ellingsen) sem ég keypti Frostaveturinn mikla 2007-2008 og héldu í mér lífinu þá. Þetta voru stórkostlegar aðgerðir hjá mér en ... ég gleymdi heima trefli 2, eða fjólubláa ofurhlýja sjalinu sem Hilda gaf mér í jólagjöf eitt árið, og var samt búin að taka hann til. Það hefði gert gæfumuninn.

Sumir kunna að klæða sigÞegar við brunuðum að Háholtinu í Mosó horfðum við á leið 15 strunsa áfram, beint fyrir framan nefið/húddið á okkur og bílstjórinn okkar (Skúli almáttugur) kallaði til farþeganna til að koma í veg fyrir fjöldatrylling: „Ég skal fara alla leið í Ártún.“ Hann sagði að það myndi seinka leið 15 allt of mikið að taka 60 of seina Skagamenn upp í þótt léttir væru á fæti. Í þessarri hálku og ekki vetrardekkjum hefði það verið martröð. Við urðum reyndar á undan leið 15 þangað, enda gátum við farið beinustu leið eftir Vesturlandsveginum! Bílarnir skrönsuðu sumir til fyrir framan okkur ... úúúú. Nýbúið var að moka og sandbera milljóntröppurnar í Ártúni og þar fyrir utan var ég á nýju skónum mínum sem Ásta segir að séu unglingaskór, Sketzter, eitthvað ..., sem stóðust öll próf í fyrstu hálku vetrarins. Allir mættu frekar seint í vinnuna ... strætófólkið kom allt á réttum tíma. Sigurður Mikael, skaðræðisbrekkuhetjan af DV, tók vegkantinn háa og hættulega við Vesturlandsveginn, með trukki, fór í fótspor annars sem skeiðaði þarna niður og sýndi snilldarkúnstir við að halda sér uppistandandi í þessu þverhnípi þarna ...

macaronicheeseJamm, þegar ammrísku dagarnir voru í Hagkaup um daginn keypti ég svona pakkadæmi, ammrískar makkarónur og ost, á 50 kall pakkann. Hef aldrei smakkað svona og ákvað að prófa, skellti 3 pökkum í innkaupakörfuna og fattaði í gær hvers vegna þetta var svona ódýrt ... það er að renna út á tíma. Veit samt að hlutir duga mun lengur en dagsetningarnar segja til um. Þetta var ekkert svo vont og við erfðaprins borðuðum helminginn úr pottinum og urðum pakksödd. Afgangur eftir til að borða sig aftur södd í kvöld. Mjólkurskvetta og smjörklípa fóru út í svo kannski hafa þessar fjórar máltíðir kostað 60-70 kall. Ekki sérlega hollur matur, held ég, en fyllir vel og uppfyllir líka það að kosta ekki mikið. Svo er bara að fara að stela slátri og lifrarbuffi úr frystikistum sparsömu og myndarlegu vina minna. Litlu í einu þar sem frystihólfið mitt er frekar lítið!

Óska ykkur gleðilegs dags og farsældar um ókomið kvöld!

JólagjafirP.s. Samtal tveggja vinkvenna í gærkvöldi (sönn og sannreynd frásögn frá fyrstu hendi).

Kona 1: „Er ég klikkuð ef ég byrja að pakka inn jólagjöfunum núna?“

Kona 2: „Nei, alls ekki, það er byrjað að snjóa!“


Reykt ýsa, heimsókn til Línu og jólastemmning í boldinu

ÝsaÞað fór sem eldur í sinu í vinnunni að það yrði reykt ýsa í hádeginu, risotto sem grænmetisréttur og sitt sýndist hverjum. Nokkrir hlupu upp í Taí-matstofu og var ég ein af þeim. Fékk kúfaðan disk af alls kyns gómsætum taílenskum réttum og borgaði 1.000 kall fyrir. Alveg þess virði til að sleppa við ýsuhelvítið og halda samt fullum starfskröftum.

Ella, Inga og LínaKíkti á Línu við heimkomu og var mikið fjör á heimilinu að vanda. Ella og Kjartan kíktu með Eygló skömmu seinna. Strákarnir „mínir“ eru í skólanum á fullu og líkar mjög vel, litla snúllan er ekki jafnhress þegar hún þarf að kveðja mömmu í leikskólanum en það er bara eðlilegt, Ella sagði henni að hálfum mánuði eftir að Eygló hennar byrjað í leikskólanum hefði hún einn daginn sagt bless, ekkert vesen lengur og þá var það eflaust mamman sem skældi af söknuði. Nadeen á viku í það. Lína er byrjuð í íslenskunámi líka og segir það mjög skemmtilegt. Hún er að læra muninn á framburðinum á sérhljóðunum og ... úff, hvað íslenskan er nú flókin fyrir útlendinga, sá það eitt augnablik með augum hennar. Framburðurinn mun samt greinilega ekki vefjast mikið þeim, fannst mikið til um þegar strákarnir spurðu mig á góðri íslensku: „Hvað heitir þú?“ Svo spurði ég þá að nafni og þeir svöruðu: „Ég heiti ....“ og svo komu nöfnin. Strákarnir eru bæði í sundi og fótbolta, alsælir. Þeir fóru einmitt í sund áðan með vinum sínum. Lína bauð okkur upp á safa og nammi, núna er ramadan búið og þriggja daga „jól“ standa yfir. Þegar við kvöddum var Inga einmitt að koma heim úr vinnunni, en hún býr í sama húsi og Lína. Myndin hér að ofan er af Ellu, Ingu og Línu, tekin um daginn þegar túlkarnir komu og við gátum talað saman af hjartans lyst, engin leikræn þjáning þar á ferð.

Vertu úti, kerlingNú eru líka jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og Stefanía heldur hjartnæma ræðu um leið og hún segir „Gjörsovel“. Hún talar um fjölskyldugildin og þá ást sem hún beri til barna sinna, eiginmanns og annarra ástvina. Þá hringir dyrabjallan. Úti stendur móðir hennar og óskar henni gleðilegra jóla. „Hvað ert þú að gera hér?“ spyr Stefanía og útihurðin hrímar. „Jólin eru tími fjölskyldunnar,“ segir mamma hennar ámátlega. „Vertu úti!“ skipar Stefanía og er algjörlega ósveigjanleg. Fjölskylda er ekki sama og fjölskylda.

Darla heitin og ThorneAndi Dörlu heitinnar er á sveimi í kringum Thorne og littlu dóttluna og er Darla heitin alsæl með hversu hamingjurík jól dóttir hennar upplifir. Eftir þennan þátt er greinilegt að það er líf eftir dauðann.


Einmana, vinalaus Suri Cruise (2), Sunday Rose NicholeKidmansdóttir og fleira ...

Kjalarnesi í morgunAftur bílfar í morgun sem var dásamlegt í kuldanum sem var þó ögn minni en í gær. Kannski maður sé bara farinn að venjast honum. Strax við sætukarlastoppistöðina byrjaði Ásta að hundskamma MIG fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Hún horfði ásakandi á mig, en ekki VEGINN, þegar hún talaði um uppsagnirnar í byggingariðnaðinum, meðferðina á Glitnismönnum og önnur stórmál. Ég náttúrlega sturlaðist og benti henni ókurteislega á að flest mál hefðu tvær hliðar og ég myndi nú fara varlega í að gleypa allar samsæriskenningar strax. Okkur ætti nú að hafa lærst að trúa ekki orði af því sem heyrðist t.d. í Kastljósi, sæist í DV, Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu eða kæmi frá forsætisráðuneytinu. Við vorum farnar að slást í Kollafirði og ef Ásta hefði ekki sett plötuna hans Páls Óskars í græjurnar í bílnum veit ég ekki hvernig þetta hefði endað. Það er svo skemmtilegt að vera ósammála síðasta ræðumanni. Ef stjörnumerkjasjúk vinkona mín vissi af þessu myndi hún segja að ég væri Vog. Það er nú ekki rétt, ég er virðulegt Ljón.

Þetta gæti alveg verið sönn saga hjá mér, nú eru öll skúmaskot notuð til að ræða ástandið í þjóðfélaginu, meira að segja bíll á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur klukkan rúmlega hálfsjö að morgni þegar allt heiðarlegt fólk steinsefur og það með peningana undir koddanum. Nei, við Ásta rifumst ekkert í morgun nema hún spurði mig hvort ég væri Sjálfstæðismaður! Ég argaði úr hlátri og sagðist vera ópólitísk, hefði reyndar kosið alla flokka einhvern tíma og væri einna montnust af kjöri mínu á Framsókn á níunda áratug síðustu aldar, þegar sómakonan Ingibjörg Pálmadóttir komst að á Skaganum og varð síðar heilbrigðisráðherra sem leið yfir í fangið á Össuri, þarna þið munið. Fannst líka gaman að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra ... Jú, auðvitað hef ég kosið karla líka, enda eru karlmenn upp til hópa gjörsamlega frábærir.

Skrapp í Kaffitár í morgun með morgunhressri vinkonu og keypti latte, líka handa samstarfskonu minni sem kemur alltaf til vinnu kl. 8 á morgnana. Hún var ögn seinni til vinnu en vanalega, þurfti ein að standa í því að koma fjórum börnum í skóla og leikskóla. Þetta er reyndar svo gott kaffi að það er hægt að drekka það volgt, jafnvel kalt. Svo verður það hádegisverður með annarri vinkonu á Asíustaðnum hérna í Hálsaskógi. Þvílíkt lúxuslíf. Tek það fram að kúffullur diskur af þremur réttum að eigin vali kostar 1.000 kall sem er oggulítið meira en máltíðin kostar í mötuneytinu.

Suri og mammaSunday Rose í mömmubumbuSéð og heyrt var að koma í hús ... Jón Ólafsson, vatnskóngur og athafnamaður, er á lausu, en Mummi í Mótorsmiðjunni er genginn út ... enn og aftur.  Nichole Kidman eignaðist dóttur á dögunum og þakkar það töfravatni, eða sundspretti sem hún tók í Kununurra-vatni í Ástalíu ... Ég hélt einhvern veginn að kynlíf væri galdurinn við að búa til börn. Dóttirin heitir frekar sakleysislegu nafni, svona miðað við tilgerðarlegar og stórundarlegar epla- og appelsínunafngjafir þekkta fólksins. Hún ber nafnið Sunday Rose. Svo er dóttir Kate og Tom, litla Suri Cruise (2), víst mjög einmana og vinalaus, hefur ekki einu sinni lært að deila dótinu sínu með öðrum börnum. Eiríkur Jónsson horfði á Opruh Winfrey í gærkvöldi og það finnst mér langstærsta frétt dagsins. Þetta er aðeins of "kvenlegur" þáttur fyrir mig, hvað er í gangi með hann Eirík?

Vikan er helguð brjóstakrabbameini, eða forsíðuviðtalið og aðeins fleira, við gerum þetta alltaf einu sinni á ári, gott málefni til að vekja athygli á. Forsíðumyndin er af konu, sem er ber að ofan, en annað brjóstið var tekið af henni, andlitið ekki sýnt. Foríðuviðtalið við hressa ömmu og  Í Galdrahorninu eru nokkrar Feng Shui-ráðleggingar, t.d. hvernig á að laða að sér velmegun ... finna ástina, finna góða vinnu og breyttu óvini í vin og hræðilegum nágranna í fínan granna ... hehehhe. Alltaf gaman að Feng Shui. Lífsreynslusagan er mjög djúsí, segir frá konu sem dreymdi skrýtinn draum þegar hún var 14 ára, eða að hún sæti í farþegasætinu við hlið bílstjórans í rauðum bíl, þrjú börn aftur í. Henni fannst hún eiga þennan mann og börn og vera um þrítugt. Bílslys varð þar sem hún dó í draumnum ...  Jamm, svo mundi hún eftir þessu þegar hún var um þrítugt í raunveruleikanum og þá hafði sitt af hverju gerst, eiginmaður og þrjú börn í dæminu ... Ómissandi blað!!!

Vona að dagurinn ykkar verði góður, eiginlega bara frábær! Farin að vinna, vinna, vinna!


Kjötsúpudiss og týndur Bjartur, erfðaprins af Hjarðarholti

Svölunum í himnaríki´i morgunFólk er greinilega uggandi þessa dagana, heyrði sögur af nokkrum sem áttu fé í Sjóði 9 í Glitni (lítil áhætta víst) og töpuðu talsverðri upphæð, ein sem ég kannast við sagðist hafa tapað tugum þúsunda. Nú er gott að eiga bara yfirdrátt. Ofan á allt þetta kom í ljós að það var kjötsúpa í matinn í hádeginu. Kjötsúpa er reyndar ekki sama og kjötsúpa. Yfir matnum ræddum við um uppsagnir í þjóðfélaginu, hækkun lána, matvara og lækkun hitastigs úti. Ekki furða að okkur sé illt í maganum ...

Mikið var ég fegin að Ásta fór á bíl í bæinn í morgun (nótt) og tók mig með, í síðustu viku var ég eiginlega bara á strætó, en þá var líka gott veður. Það eru svo sem engar fastar bílferðir hjá okkur, frekar en í fyrra, bara duttlungar Ástu sem ráða ... Það var svo kalt úti og hefði verið skelfilegt að bíða á strætóstoppistöðinni ... bara í hálfa mínútu. Ég settist á gaddfreðna hanska Ástu (lævíslegt ráðabrugg hennar) sem voru ó-íveranlegir eftir næturdvöl í bílnum. Rassahitarinn í sætinu gerði líka sitt gagn, ásamt heitum latte a la himnaríki, og innan skamms vorum við orðnar hot og girnilegar.

Bjartur í pössun í himnaríkiElsku Bjartur Míu- og Sigþórsson, (köttur) er týndur og hefur ekki komið heim í tvo daga. Hann hvarf líka í fyrra í einhverja daga og kom síðan rosalega hás heim, hefur örugglega lokast einhvers staðar inni og skælt út í eitt. Mía og Sigþór búa við Hjarðarholt á Skaganum og Bjartur, aðalkrúttið á heimilinu, er brúnbröndóttur og hvítur með ól. Ólin er að sjálfsögðu merkt og hann er ábyggilega eyrnamerktur líka. Mjálmar krúttlega, svona eins og lítill kettlingur. Blíður og góður köttur. Mikið vona ég að hann finnist sem allra fyrst, hann hlýtur að vera í hverfinu sínu, þarna í kringum Fjölbrautaskólann, kannski inni í bílskúr hjá einhverjum sem hefur ekki tekið eftir honum.


Árgangsmót hinna fallegu 30-menninga

Um næstu helgi verður árgangsmót á Skaganum. Um 110 krakkar eru í þessum stórkostlega Akranes-árgangi 1958 sem hefur sannarlega haft áhrif út um allan heim. Bréf voru send út með góðum fyrirvara og SMS tvisvar til að fylgja því eftir. Um 30 manns sjá sér fært að mæta. Veit ekki um afdrif þessara 80 sem ekki ætla að koma, held að þau séu sprelllifandi en þjást kannski af ellifjarsýni og heyrnardeyfð fyrst þau gátu hvorki lesið bréfið né heyrt SMS-in koma.

Þegar ég sá listann yfir þessa 30 tók ég reyndar eftir því að þetta verður kvöld fallega fólksins. Fyndið hvernig sætustu strákarnir og stelpurnar höfðu óafvitandi tekið sig saman og ákveðið að mæta á þetta árgangsmót.

Sjö ára á BíóhöllinniÞegar 7 ára bekkurinn minn flutti ljóð í Bíóhöllinni var það myndað, enda stórkostlegur atburður. Einhverra hluta vegna er ég frekar dræsuleg á myndinni, eða í langstysta kjólnum. Um svipað leyti reyndi bekkjarbróðir minn að kyssa mig undir teppi niðri á Langasandi. Óafvitandi hef ég sett þetta í eitthvert samhengi og hef alla tíð verið afar siðsöm. Læt mér t.d. nægja að horfa á Langasandinn.

Maturinn kemur frá hinum virta og stórkostlega matsölustað Galito og ég ætla rétt að vona að hann verði ekki með hnetum, möndlum, döðlum eða rúsínum ... hef ekki pantað hjá þeim síðan ég bað um furuhnetulaust salat með tandoori-kjúklingnum og fékk bara pecan-hnetur óumbeðið í salatið í staðinn. Já, og svo leyfir maður sér engan munað lengur.

Tæknin 1958Nú vantar mig (af sérstökum ástæðum) eitthvað skemmtilegt um árið 1958. Veit bara að Harry Belafonte var í miklu stuði á þessum tíma. Ár var í að Barbie-dúkkan kæmi til sögunnar (ég átti Tressí-dúkku) og þrjú ár í að George Clooney fæddist. Lumið þið á einhverju?

Hitti undirbúningsnefndina á fundi í Skrúðgarðinum seinni partinn í gær. Komst að því að kennarinn okkar í 10 ára bekk treysti sér ekki til að kenna okkur aftur af því að við vorum svo óþekk! Í minningunni vorum við algjör englabörn þannig að þetta hlýtur að vera misminni í Siggu og Gauju. Þetta var samt bekkurinn sem tók því illa ef einkunnir okkar voru undir 8 og enduðum flest sem stjarneðlisfræðingar. Alla vega Gulli.

Mikið hlakka ég til á laugardaginn.


Spakk og hagettí ...

Á þessum tímum sviptinga í fjármálageiranum væri frekar gaman að hafa aðeins meira vit á fjármálum landsins (hverjir eiga hvað) og því ómetanlegt að geta kíkt á fréttavefina. Hakk og spagettí var snætt í hádeginu, með góðri lyst eftir að tómatsósu var bætt út í, en umræðurnar tengdust bara tíðindum morgunsins og sitt sýndist hverjum. Kalla sænska fannst t.d. ómögulegt að hafa kindahakk blandað saman við nautahakkið, Elín benti á að tómatsósan breytti bragðinu til hins betra og Björk pældi í því hvort Stoðir og Stoðir Invest væri sama fyrirtækið. Ég horfði bara með aðdáun á þetta gáfaða fólk, lærði og þagði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 312
  • Frá upphafi: 1528958

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 261
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband