Færsluflokkur: Bloggar
13.10.2008 | 18:18
Reiður almenningur ... og smá bold
Það er ekki alveg rétt að allir auðmenn Íslands séu flúnir á braut til skattaparadísa í Karíbahafinu. Einn þeirra, fyrrum ofurlaunamaður, lét sjá sig á líkamsræktarstöð á dögunum og var víst baulað á hann þar til hann hrökklaðist út. Annar gekk í sakleysi sínu inn á Saga Class í flugvél nýlega þegar maður (á sama farrými) veittist að honum og spurði hvort hann væri að flýja land, svo hrinti hann honum niður í sætið. Ekki beint gaman að vera þekkt andlit úr þessum geira núna. Ég veit svo sem ekki hvað hægt er að gera til að fólk róist, kannski á fólk ekkert að vera rólegt, sprengiþráðurinn er ákaflega stuttur og reiðin út í ráðamenn er líka mikil. Veit að haldnir eru róandi fundir víða í þjóðfélaginu núna, fólk hvatt til að missa ekki stjórn á sér og standa þétt við bakið á næsta manni. Sameinuð stöndum vér og allt það. Vinkona mín var á einum slíkum í dag á vegum ríkisins.
Símtöl til mín núorðið hefjast yfirleitt á: Hvað tapaðir þú miklu? Sumir vina minna hafa tapað einhverjum milljónum, þeir eru ekki fégráðugt fólk, heldur fólk sem treysti ráðum sem það fékk í bankanum um ávöxtun og ráðin voru örugglega gefin í góðri trú. Hvern hefði órað fyrir þessu öllu saman? Ja, ekki okkur sauðsvartan almúgann. Nú er mikið talað um að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin séu farin að skipta bankaleifunum á milli sín, nýjar stjórnir nýju bankanna séu mannaðar fólki úr þeirra röðum. Væri ekki ráð að breyta öllu svonalöguðu núna og setja hagfræðimenntað fólk þarna inn? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur kannski á þessu og svo verður örugglega allt rosalega gott þegar við erum komin í Evrópusambandið, mér skilst að sambandsþjóðirnar styðji svo vel hver við aðra núna ...! Annars virðist allt vera á örlítilli uppleið í heiminum í dag eftir ráðstafanir ríkisstjórna viðkomandi landa ... nema á Íslandi. Átti ekki a.m.k. að lækka vextina?
Hvaðan ertu að fá þessar bækur? spurði fréttamaðurinn í kristilegri ekkifrétt á RÚV í gærkvöldi (hvaðan færðu þessar bækur?). Ekkert skrýtið þótt fólk api þetta eftir og segi: Hvar voruð þið að sitja? Ég er ekki að skilja þetta, og fleira í þeim dúr. Eigum við að minnsta kosti ekki að reyna að tala sæmilega rétt mál á meðan við komum okkur upp úr kreppunni? Er íslenskt mál ekki það eina sem við eigum eftir ... svona næstum því? Svo getum við haldið okkur við kurteisina og í staðinn fyrir að segja t.d. okrurum að éta skít getum við sagt þeim að snæða óhreinindi.
Boldið er sjúklega spennandi þessa dagana en það er ekkert nýtt. Stefanía er komin með tak á Jackie (áður Payne) eftir að hún heyrði Taylor geðlækni, fyrrum tengdadóttur sína, lesa inn á segulband það sem fram kom á fundinum með Nick, syni Jackiear. Algjör sprengja, eða að Jackie hefði selt sig í gamla daga! Ég hef misst af einhverju í atburðarásinni en Nick á að hafa lofað Taylor að selja Forrester-fólkinu tískuhúsið til baka en hann kúgaði það út úr Eric með því að hóta því að láta senda Stefaníu, konu Erics) í fangelsi. Jackie datt niður stiga og þegar hún kom út úr kómanu laug hún því að Stefanía hefði hrint henni. Svo ætlar Nick að svíkja þetta og Stefanía er brjáluð. Kafteinn Jerry Kramer er maðurinn sem borgaði Jackie fyrir blíðu hennar og nú ætlar Stefanía með hjálp sonar síns, Ridge, fyrri eiginmanni Taylor, að hafa uppi á honum til að sanna þetta og það tekst. Ef hann býr yfir jafnskaðlegum upplýsingum og ég held ... segir Steffí kvikindislega og undirbýr versta dag í lífi Jackiear og Nicks, sem verður daginn sem fyrsta tískusýningin eftir eigendaskiptin fer fram. Vá, hvað ég skal vera dugleg að bolda á næstunni.
Bloggar | Breytt 14.10.2008 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.10.2008 | 13:04
Bylting og sætar beljur
Mánudagur til mæðu, stundi einn samstarfsmaður minn í mötuneytinu í hádeginu. Annar bætti við: Nú eru allir dagar til mæðu! Við hlógum að þessu og þessir neikvæðu tóku alveg undir. Fólk í kringum mig er fúlt yfir aðgerðaleysi stjórnvalda, af hverju eru vextir t.d. ekki lækkaðir? spyr það. Nú ætti að mótmæla í miðbænum, sagði einn, almenningur vera á götum úti með mólótov-kokteila og mótmæla ráðamönnum! Ein konan sagði þreytulega: Æ, það er svo erfitt að fá bílastæði í miðbænum, það myndi enginn nenna að mæta. Allir hlógu. Ísland í hnotskurn. Það er samt mikill hiti í fólki, allir vilja aðgerðir! Ég vona bara að ef við fáum lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þurfum við ekki að sæta afarkostum í staðinn, t.d. að einkavæða heilbrigðiskerfið okkar og annað sem margir hafa varað við að undanförnu.
Ásta tók bráðhuggulegan ráðuneytisstarfsmann upp í bíl sinn í Mosó sl. föstudag og skutlaði honum heim á Skaga. Hann skammaði hana á leiðinni fyrir að draga samferðakonuna (mig) út í bíl einn morguninn á nærbuxunum ... Ástu fannst þetta ógurlega fyndið en ég ítrekaði við hana þegar við ræddum þetta í morgun, að ef ekkert markvert gerðist á leiðinni með henni þá þarf eitthvað að skreyta, það gerist t.d. alltaf eitthvað mjög magnað í strætó. Hjá okkur Ástu bar t.d. hæst í morgun að við þurftum að stoppa á Innnesveginum til að hleypa yfir sætum beljum á leið í fjósið. Minningar úr sveitinni í gamla daga rifjuðust upp og ég mundi eftir því hvað kýr eru annars dásamleg dýr.
Vonandi verður dagurinn ykkar dásamlegur, kæru bloggvinir. Er farin að vinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2008 | 13:23
Treysti á Akraborgina
Þótt ég sé mikill kattavinur fannst mér ekkert sérlega huggulegt að vakna með afturenda Kubbs óþægilega nálægt andlitinu á mér í morgun. Svona notfæra gæludýrin sér veikleika manns, ég á ekki mann og er því varnarlaus gagnvart slíkum uppákomum, enda hef ég ekki Feng Shui-að herbergið mitt í svona ástarskyni. Rúmið mitt stendur t.d. upp við vegg en skilyrði til að ná sér í gæja er víst það að hægt sé að komast fram úr rúminu beggja megin. Svo eru ekki alveg eins lampar á báðum náttborðum hjá mér, bara eitt náttborð og einn lampi. Svo er mikilvægt að hafa ekkert drasl undir rúmi (tékk), tvær eins styttur í suðvesturhorni herbergisins (tékk), engan spegil sem maður sér sig í úr rúminu (tékk) og ekkert drasl (hmmm, allt of mikið af bókum en bækur eru svo sem ekki drasl).
Í gær var haldin skemmtileg hátíð til að bjóða palestínska flóttafólkið velkomið á Skagann. Við mættum með góðgæti og flestum datt greinilega í hug að koma með súkkulaðidæmi (jesssss) því nóg var af því (jessss). Konurnar dönsuðu við undirleik æðislegrar arabiskrar tónlistar og sýndu frábæra takta. Held ég endurskoði þessa reglu mína um að dansa bara við lagið Luftguitar.
Ég hef hreinlega ekkert gáfulegt til málanna að leggja í sambandi við kreppuástandið hjá þjóðinni/heiminum. Er að hlusta á elsku Silfur Egils, hef lesið ógrynnin öll af bloggfærslum fram á nætur, hlustað vandlega á fréttir og nú er ekkert annað að gera en að bíða eftir því að málin leysist eða ekki. Held í þá von að ég hafi verið berdreymin fyrir hálfum mánuði þegar mér fannst landið vera í rúst en við (Íslendingar?) skoppuðum um á skipi, sem minnti mjög á gömlu Akraborgina, og höfðum það af. Ég bloggaði strax um þennan draum og fannst verst hvað ég var búin að gleyma miklu úr honum en þennan sama morgun var Glitnir ríkisvæddur.
Skipbrot nýfrjálshyggjunnar, landflótti ungs fólks ef allir skrilljarðarnir lenda á okkur ... og fleira og fleira, heyrist í Silfrinu. Held að almenningur setji mikið traust á Jóhönnu Sigurðardóttur. Kannski er hún Akraborgin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
9.10.2008 | 23:25
Þjóðlegt skal það vera ...
Í hádeginu ákvað ég að standa með þjóð minni og borða saltkjöt og baunir í matsalnum. Getur það verið þjóðlegra? Ég var búin að fussa og sveia yfir þessum matseðli dagsins (pasta sem grænmetisréttur). Þegar samstarfsfólk mitt, hið sama kannski og úðaði í sig reyktu ýsunni um daginn, kom úr matsalnum með gleðiglampa í augum og strjúkandi vömbina ákvað ég að hætta þessu mótmælasvelti og sá ekki eftir því.
Lenti í spjalli að vanda eftir matinn og heyrðist á mönnum að þjóðfélagið myndi skjótt snúast við. Nú létu menn sér ekki nægja að þiggja smávinninga í peningakössum Háspennu, heldur tækju þeir bara kassann. Nokkrir ungir menn gerðu sér víst lítið fyrir í gær og reyndu að ræna einn spilakassavinningshafa þegar hann kom út af sódómugómorrustaðnum þar sem hann hafði grætt eitthvað smá. Skelltu poka yfir hausinn á honum og bjuggu sig undir að ræna hann. Vinningshafinn reif pokann af hausnum og kýldi gaurana, enda hraustur Ísfirðingur.
Svo voru einhverjir sem pældu í því hvort sáttmálar fyrri alda væru ekki enn í gildi og við gætum þá t.d. gert kröfu í olíulindir Norðmanna ... Lengi lifi konungurinn!
Við heimkomu setti ég sem snöggvast á Sky News. Aðalfréttin var ömurlegt attitjút Íslendinga, öllu heldur ráðamanna. Ég er mjög hrifin af Bretum og skil alveg að þeir séu grútspældir út í suma auðmennina okkar og viðbrögð ráðamanna okkar. Er ekki þannig í heiminum núna að hver hugsar um sig, líka Evrópusambandsþjóðirnar? Spennandi að vita hvernig þetta fer. Ábyggilega kalt stríð eitthvað áfram.
Ég ætlaði eldsnemma í rúmið en nýtt og spennandi verkefni bættist óvænt við ... og hef setið við tölvuna og unnið í allt kvöld, horft m.a. á Prison Break með öðru, en nú er það bað og síðan bólið. Eins og ég er með girnilegar bækur til að lesa verð ég að geyma þær til helgarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.10.2008 | 08:35
Bannsettur raunveruleikinn
Assgolli var hvasst á Kjalarnesinu í morgun, hviðumælirinn sagði að vanda 27 m/sek en Ásta mælti spámannslega: Þetta? Þetta eru 34 m/sek. Það hvarflar ekki að mér eitt orð að efast um orð hennar. Hún hélt fast um stýrið og sagðist ekki halda að til væri sú upphæð sem nægði til að borga henni fyrir að taka strætó í þessum vindi. Mig langaði að bjóða henni 300 milljarða en hætti við. Hver hefði þá átt að keyra mig í vinnuna ef Ásta sæti í strætó og nagaði sætið fyrir framan sig?
Rétt fyrir heimför í gær kom ég við í Kaffitári við Bankastræti til kaupa latte fyrir heimferðina á Skagann. Þar hitti ég elskuna hana Láru Hönnu, þýðanda Bold and the Beautiful og bloggsnilling hér á Moggabloggi. Það urðu miklir fagnaðarfundir og þessi elska, sem var í kaffibaunakaupaerindi þarna, keypti ögn meira en vanalega og gaf mér með sér, eða heilt kíló af Espressóbaunum sem er nú komið í himnaríki og bíður eftir drykkjuskap okkar erfðaprins. Hvernig gat Lára Hanna hafa fundið á sér að elsku bankinn minn yrði tekinn eignarnámi í nótt mögulega vegna ógætilegra orða seðlabankastjóra (skv. www.dv.is og fl) og vitað að ég þyrfti á svona góðri gjöf að halda? Takk, engill.
Munið hvernig lífið var fyrir rúmu ári, eða þar til bansettur veruleikinn bankaði upp á? Flettið og njótið. http://www.visir.is/ExternalData/pdf/sirkus/S070119.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.10.2008 | 00:08
Ekki fögur sjón að sjá ...
Rammstolið: An American said: We have George Bush, Stevie Wonder, Bob Hope and Johnny Cash. An Icelander replied: We have Geir Haarde, no Wonder, no Hope and no Cash.
Þetta var viðburðaríkur dagur. Heimsókn til tannlæknis fljótlega eftir hádegi, fjör og gleði að vanda hjá Ósk, en ég var ég munnskökk og dofin fram yfir kvöldmat. Ekki fögur sjón að sjá, aldrei þessu vant, en nú er engin hola. Fyrir utan tannlæknastofuna varð ég vitni að árekstri, maður á bíl bakkaði á konu á bíl, gleymdi að líta í baksýnisspegilinn þegar hann ók út úr stæðinu. Svo kom vinkona mín og skutlaði mér áleiðis til að hitta Ástu vegna heimferðar á Skagann upp úr þrjú og sú fyrrnefnda fékk æsilegt símtal: Ísland er farið á hausinn, taktu allt út úr bankanum þínum NÚNA! sagði dularfulla röddin í símanum. Sú rödd frétti þetta á fundi mektarfólks í dag og tengdist þetta alþjóða gjaldeyris-eitthvað. Ég sagði Ástu auðvitað frá þessu og á heimleiðinni ræddum við um framtíðina ... útgöngubann, herlög, skömmtunarmiða og slíkt, og vorum ótrúlega rólegar og æðrulausar.
Svo kom bara Geir í sjónvarpinu og sagði eitthvað róandi að vanda, einhverjir fara express til Rússlands í fyrramálið og eftir þá ferð fáum við kannski enn einn róandi blaðamannafundinn.
Síðast en ekki síst hittumst við nokkrar stuðningsfjölskyldur hjá Rauða krossinum undir kvöldmat og ég var enn eins og vélsagarmorðingi í framan. Þær standa sig eins og hetjur, palestínsku konurnar, en ég held að kuldakastið um daginn, mánuði fyrir tímann, hafi svolítið komið þeim í opna skjöldu. Börnin eru búin að fá umferðarfræðslu hjá röggsamri löggu og okkur létti við það. Þau elska sundlaugina og fara vonandi bráðum á sundnámskeið. Konunum hefur verið sagt frá ástandinu í þjóðfélaginu en mér finnst ekki ólíklegt að þeim finnist það hátíð miðað við ástandið í Írak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.10.2008 | 08:34
Algjör misskilningur ...
Þegar ég labbaði niður tröppurnar í morgun skömmu fyrir kl. 6.30 sá ég lögreglubíl dólandi skammt frá. Ókei, útgöngubann skollið á, hugsaði ég og reyndi að halda ró minni. Fréttirnar hafa verið svo sjokkerandi undanfarið að það hefði ekki komið mér á óvart. Svo kom Ásta keyrandi, sallaróleg og töff að vanda og löggan flúði, enda getur Ásta vissulega verið ógnandi þegar hún tekur sig til og það veit löggan. Þeir eru því miður ekki hræddir við mig, löggumennirnir. Þeir, eins og flestir, halda að ég sé miklu betri manneskja en ég er ... gjörsamlega óþolandi! Einu sinni gerði ég t.d. létt grín að bók sem kom út í kjölfar vinsælda Da Vinci-lykilsins ... Ég taldi upp persónur bókarinnar og hluta plottsins sem var bókstaflega eins og í Da Vinci-lyklinum. Ég endaði á því að skrifa: Að öðru leyti minnir þessi bók ekki á Da Vinci-lykilinn. Svo flissaði ég subbulega og ýtti á Vista og birta. Kommentin sem ég fékk á færsluna voru á þann veg að fólk ætlaði sannarlega að fá sér þessa bók og lesa, sem var bara fínt, þetta var fínasta bók, spennandi og alles þótt hún fetaði samviskusamlega í fótspor DV-lykilsins efnislega séð. En það fattaði enginn að ég var að reyna að vera pínku hæðin og andstyggileg. Algjör misskilningur.
Ég sagði Ástu á leiðinni að ég hefði keypt kreppumat í Einarsbúð í gær, pasta, hvítlauk, lauk og slíkt ódýrt og nú verði bara kolvetnasukk á heimilinu. Hún var í svipuðum þönkum og keypti pítubrauð, 4 í pakka á 200 kall, og það bragðaðist bara vel með einhvefju grænmeti í, auðvitað. Mig langaði að kaupa lifur en ég lærði einu sinni ansi góða uppskrift að lifrarbuffi ... sem er næstum eins og lummuuppskrift (mínus sykur), með hveiti, eggi, mjólk og svona, líka bakað eins og lummur og er bara hrikalega gott með kartöflumús (ekki úr pakka). Best að kaupa lifur fyrir helgina. Verst að eiga ekki hakkavél eða matvinnsluvél eða blender ... eða jamm, allt slíkt á HOLD fram fyrir kreppu.
Mikið er æðislegt að það verði tónleikar til styrktar litlu snúllunni henni Ellu Dís á mánudaginn kemur. Vikan var einmitt með viðtal við mömmu hennar í fyrra. Skrýtið ... að í skjáauglýsingum Stöðvar 2 segir þulurinn alltaf til styrktar Ellu DísAR Vona að þetta verði lagað!
Megi dagurinn ykkar verða sem allra bestur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.10.2008 | 12:00
Algjört bold
Þetta sagði völva Vikunnar m.a. um síðustu áramót:
Fjármálakreppa er fram undan á Íslandi, eins og við höfum séð undanfarið, og blaðran er að springa. Það verður hrun á peningamarkaði og það syrtir í álinn hjá fólki aðeins meir en nú er. Við þurfum að ná botninum til að ná jafnvægi aftur. Það verður hrun hjá sumum og nýtt upphaf hjá öðrum ...
... Mikið tap verður hjá stóru fjármálafyrirtækjunum og ýmsar sviptingar og neikvæðar breytingar hjá bönkunum líka. Það á eftir að næða eitthvað um Seðlabankann, ég sé stríð í kringum Davíð og fjármálamenn, mér finnst líka hluti ríkisstjórnar blandast í það.
Boldið var með ólíkindum spennandi í morgun en endursýning á því féll niður seinnipartinn í gær vegna hins boldsins. Taylor heldur áfram að sálgreina Nick og fær ýmislegt miður geðfellt upp úr honum, m.a. það að mamma hans, Jackie hin glæsta, hafi átt marga elskhuga sem greiddu fyrir atlotin. Þegar Taylor er komin heim og les skýrslu um Nick upphátt inn á segulband hlustar Stefanía, helsti hatursmaður Jackie, með mestu athygli, en Taylor skildi eftir opið og sneri baki í dyrnar, svona eins og maður gerir þegar um viðkvæmar trúnaðarupplýsingar er að ræða. Taylor tókst, þrátt fyrir allt bótoxið, að verða skelfingu lostin á svipinn þegar Stefanía birtist óvænt og sagði gribbulega: Jæja, svo Jackie var gleðikona, en áhugavert!
![]() |
Gengi krónu fest tímabundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.10.2008 | 00:12
Áfram Ísland
Þetta hefur verið skrýtinn dagur. Allir í vinnunni mættu á fund eftir hádegið, sumir héldu hið versta en það hafði reyndar lekið út eitthvað um rjómatertur svo það vissi nú ekki á slæmt. Þetta reyndist hinn besti rjómatertu-, reyndar marsipantertufundur þar sem margt gott kom fram. Á meðan við fögnuðum skrifaði Geir dómsdagsræðu sína sem við Ásta hlustuðum síðan á í beinni á Kjalarnesi, í gegnum Hvalfjarðargöngin og á Akrafjallsvegi. Þegar við rúlluðum inn á fallega Skagann okkar spurði ég Ástu: Hvað meinti hann Geir eiginlega? Ásta endurtók búta úr ræðu Geirs og bætti við ýmsu gáfulegu frá sjálfri sér en ég var litlu nær, enda vantaði öll smáatriði. Mig langaði að vita hvernig hryllilegt ástandið yrði fyrir okkur litlu, venjulegu jónana. Verður jólunum kannski frestað?
Flestir rífast bara um hverjum sé um að kenna. Andvaralausri ríkisstjórn ... útrásarvíkingunum sem stjórnin gaf bíl en setti þeim ekki hraðatakmarkanir ... Seðlabankanum eða kannski óupplýstum almúganum sem mátti ekki sjá brauðrist á útsölu án þess að kaupa hana og tók slefandi af heimsku lán til þess að eignast heimili, bíl eða annað sem hingað til hefur verið talið nokkuð eðlilegt að fólk eignist. Almenningi er kannski ekki kennt um ástandið, frekar að fólk geti sjálfu sér um kennt núna.
Yfirleitt treystir fólk bankanum sínum og ef bankastarfsmaður í góðri trú leggur að manni að taka erlent lán með lágum vöxtum og engum fokkings verðbótum sem allt eru að sliga, hvernig getur maður þá verið nógu skynsamur að segja nei, ég vil frekar óhagstæða, íslenska lánið. Sem betur fer þurfa himaríkisbúar ekki að hafa áhyggjur af slíku láni ... en ég heyrði í dag af ungum manni sem kom heim úr námi erlendis frá, fékk góða vinnu og þar sem hann hafði ekki fyrir neinum að sjá nema sjálfum sér ákvað hann að kaupa sér dýran og flottan bíl. Honum var ráðlagt að taka myntkörfulán. Lánið er orðið algjörlega óviðráðanlegt í dag, bíllinn númerslaus inni í bílskúr og mánaðargreiðslan komin upp í 250 þúsund á mánuði, var miklu, miklu lægri í upphafi. Ekki hlustaði ég, frekar en hann (held ég), með nógu mikilli athygli (trú) á kreppuspárnar í Silfri Egils, fannst þetta líklega svo fjarlægur möguleiki, allt myndi örugglega reddast, allt gekk svo vel. Það var ansi áhugavert að sjá myndbrotin á síðunni hennar Láru Hönnu úr gömlum þáttum Egils og heyra þetta allt aftur en með nýjum skilningi. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/661514/
Margir tala um hin einu réttu ráð við ástandinu og sitt sýnist hverjum. Margir sjá evruna og Evrópusambandsaðild sem besta kostinn, aðrir vilja nýja ríkisstjórn í hvelli, enn aðrir nýja stjórn í Seðlabankann og kannski þetta allt saman. Völva Vikunnar talaði reyndar um stjórnarslit í síðustu spá.
Æ, ég veit ekki hvað er rétt ... ég myndi alveg vilja vera með danskt húsnæðislán, lágir vextir og engar verðbætur, en þegar ég var búin að borga 800 þúsund af annars góða Íbúðalánasjóðsláninu mínu af himnaríki með 4.15% vöxtum voru eftirstöðvar þess orðnar 800 þúsundum hærri en það var upphaflega. Ég held að ég myndi næstum selja sál mína fyrir afnám verðbóta!
Annað: Það er mikið að frétta áwww.dv.is eins og vanalega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.10.2008 | 08:37
Hvassviðri og bjartsýnir ferðafélagar
Ásta hringdi þegar ég var í miðjum klíðum við að búa til latte ... Ég verð fyrr á ferðinni og er að leggja af stað NÚNA, sagði hún með áhersluþunga, við förum efri leiðina til að geta kíkt á vindhviðuskiltið. Það er algjör óþarfi, sagði ég róandi, ég sá á Netinu að hviðurnar eru ekki nema 26-27 m/sek. Ég ætla samt að fara, sagði Ásta, sem trúir mér aldrei, og við sækjum fyrst Sigþóru (hina veðurhræddu sem hafði hringt skjálfandi í Ástu). Latte-inn var helmingi rýrari vegna tímabreytingar Ástu og aðeins hálfur skammtur á mann ... og ekkert handa Sigþóru. Ég var á nærbuxunum við kaffigerð þegar Ásta hringdi og gat rétt svo klárað að klæða mig inn á milli samskipta minna við espressóvélina. Hrökk nefnilega upp korteri í brottför.
Ég rétt gat stillt mig um að segja hæðnislega: Ég sagði þér það. þegar rauðu tölustafirnir staðfestu að það væru 27 m/sek á Kjalarnesi. Að vísu voru 37 m/sek undir Hafnarfjalli en við vorum ekkert á leiðinni þangað. Strætó mun ekki ganga, sagði hin bjartsýna Ásta með þunga og enn bjartsýnni Sigþóra, nýkomin af sólarströndu, tók undir það. Ég gat líka stillt mig um að horfa hlakkandi á þær þegar við mættum á Kjalarnesinu fyrsta strætó til Akraness og virtist Skúli vera algjörlega óhræddur undir stýri, samt er hann karlmaður. Ásta býr skammt frá Sementsverksmiðjunni og turnar þar gaula á einhvern viðbjóðslegan hátt í þessarri vindátt í hvassviðri og það heldur vöku fyrir hluta íbúa Suðurgötunnar og öllum á Mánabrautinni. Ásta var ansi hress og kát miðað við að hafa varla sofið dúr í nótt.
Bíllinn haggaðist varla þar sem vindhviðumælirinn er staðsettur, eða rétt fyrir beygjuna niður í Kollafjörð. Það tók aftur á móti ógurlega mikið í hann á svæðinu frá Hvalfjarðargöngum og að Grundahverfinu á Kjalarnesi. Ég skil ekki hvers vegna ekki er mælir þar. Þau óhöpp sem Skagastrætó hefur lent í eða næstum lent í, hafa einmitt átt sér stað þar! Kæra VEGAGERÐ, berð þú ábyrgð á þessu?
Ósköp voru fréttirnar minna spennandi í morgun en ég átti von á ... eftir öll þessi fundahöld. Bjóst við að Þingvellir yrðu seldir úr landi, kannski Gullfoss eða jafnvel Viðey! Lætin undanfarið hafa búið mann undir einhvern slíkan gjörning. Heyrði í Króa frá Spáni á Rás 2 rétt fyrir átta. Atvinnuleysi er 11,3% á Spáni og mikil bankakreppa í gangi, eins og hér heima ... samt er Spánn í Evrópusambandinu æðislega. Hmmmm, bindum við ekki of miklar vonir við að allt lagist ef við aðeins göngum í það ..?.. eins og þegar hjón ákveða að eignast barn til að laga hjónabandið! Það snýst eitthvað við í maganum á mér við tilhugsunina um að verða hluti af þessu rándýra batteríi. En hvað er ég að nöldra, þetta á að vera strætó- og boldblogg! Fór ekki í strætó í morgun og hef ekki boldað í nokkra daga. Það verður bætt úr því síðarnefnda núna seinnipartinn.
Vona að dagurinn ykkar verði gefandi og ... jafnvel rómantískur. Einnig æsispennandi og áhyggjulaus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 5
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 301
- Frá upphafi: 1528947
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 255
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni