Færsluflokkur: Bloggar
20.10.2008 | 08:22
Fokið í bæinn, gleðiefni, fitubollurannsókn og fleira
Það hvein og brast í öllu í himnaríki þegar vekjaraklukkan hringdi kl. 6 í morgun. Rosalega langaði mig að sofa lengur, enda hafði ég ekki tímt að sleppa bókinni hans Stefáns Mána fyrr en klukkan var að verða eitt í nótt ... og er að verða búin með hana. Á mér sannaðist það sem sagt er um mömmur, að þegar þeim sjálfum er kalt skipa þær börnunum sínum til að fara í hlýrri peysu, húfu og vettlinga en ég breiddi aukateppi yfir erfðaprinsinn og lokaði gluggunum, það var hrollkalt í himnaríki. Dreif mig í tölvuna og sá að hviðurnar á Kjalarnesi dingluðu þetta 35-40 m/sek ... en vindáttin var þó vel hagstæð, eða norðvestlæg, austlægu kvikindin eru verst.
Við Ásta brunuðum því með latte í hönd eftir þjóðveginum og hún með óperusöngvarann Óskar Pétursson á hæsta syngjandi POPPlög! Ég reyndi að fitja upp á samræðum til að hún lækkaði og sagði lágt við hana: Ég er að fara í hóf á laugardaginn! HÓF? Mikið er mín hátíðleg í dag, sagði Ásta og barði mig í andlitið með saltfiski ... en lækkaði í tónlistinni. Þetta var ótrúlega hressandi uppákoma, ég glaðvaknaði alveg. Við sáum jeppa ofan í skurði á Kjalarnesinu, skömmu síðar fórum við framúr stórum trukki og mættum svo Skúlastrætó í Kollafirðinum á leið á Skagann. Þessi hefur fokið út af, sagði Ásta greindarlega. Ja, ertu viss? spurði fíflið ég. Ekki fauk stóri trukkurinn og ekki heldur strætó ... báðir ættu að taka mikinn vind á sig, bætti ég heimskulega við. Hvaða erindi á þessi bíll ofan í skurði? heyrðist úr ökumannssætinu og andrúmsloftið hrímaði vegna heimsku minnar. Það eina sem ég gat sagt var: Hehe, ég var auðvitað að djóka! Og slapp með skrekkinn!
Enn ein spennandi rannsóknin hefur litið dagsins ljós, heyrði ég á Bylgjunni í morgun. Fitubollur þurfa, samkvæmt henni, að borða meira en mjónustangir til að fá gleði og ánægju (dópamín) út úr máltíðinni. Ég held að það ætti frekar að kíkja á samsetningu matarins hjá fólki yfir kjörþyngd, ekki magnið. Sem minnir mig á að það verða kjötbollur í matinn í hádeginu. Steingleymdi að kippa með mér ávexti í morgun ... morgunmatur hér hefst kl. 8.30, ég veit hver fær sér bláberjabúst í fernu og banana.
Skyldi það vera rétt sem ég heyrði og slúðraði um á blogginu um daginn að nýju bankastýrulaunin væru 950 þúsund á mánuði? Ef það kemur í ljós munið þá hver skúbbaði með þetta!!! Þetta þykja náttúrlega hlægilega lág laun miðað við það sem hefur verið og ekki gaman að láta hlæja að sér fyrir að sætta sig við þetta.
Munið að hafa það gott í dag, það er hægt að gleðjast yfir mörgu. Ingibjörg Sólrún er komin tvíefld til landsins, ráðamenn segja að svar vegna lána komi á fimmtudaginn, ekki á að taka neinum afarkostum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heyrist mér ... og síðast en ekki síst: Jón Ólafsson er kominn til landsins og ætlar að bjarga okkur! Sjá www.dv.is
P.s. Litla fallega stúlkan sem ég fékk í afmælisgjöf 12. ágúst sl., munaði bara 10 mínútum að hún yrði nákvæmlega 50 árum yngri en ég, var skírð á laugardaginn og heitir nú Ragnheiður, kölluð Gurrí (held ég). Flott nafn, sætt barn, æðislegur afmælisdagur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.10.2008 | 17:53
Fésbókarvera ... og sorgleg afdrif Bjarts
Ég skráði mig á Fésbók fyrir tveimur vikum og þótt ég kunni lítið á umhverfið þar hefur mér þó tekist að taka þátt í ýmsum stórmerkilegum könnunum sem mér hafa verið sendar af velmeinandi fésvinum. Ég var t.d. Pablo Picasso í fyrra lífi, Chandler í Friends og réttur aldur minn er 38 ára, ekki 50 ára ... ég svindlaði bara oggulítið í síðastnefnda prófinu og skildi ekki allar spurningar fullkomnlega en þetta er samt hárrétt útkoma. Erfðaprinsinn (28) er 43 ára samkvæmt prófinu, hann hefur greinilega gert einhver mistök. Í morgun reyndi ég að finna út hvaða Harry Potter-persóna ég væri en eftir að hafa svarað samviskusamlega öllum spurningunum ýtti ég líklega á rangan hnapp og fékk upp síðu sem tengist ástarkjaftæði. Nú fæ ég aldrei að vita hvort ég er Harry sjálfur eða jafnvel Snape! Ég kem alltaf út sem karlmaður í þessum prófum sem mér finnst mjög grunsamlegt þar sem ég er svo mikil dama.
Hét mér því, þegar erfðaprinsinn píndi mig til að skrá mig í Fésbók að þetta yrði ekki sami tímaþjófnaðurinn og bloggið og hef staðið við það. Ég á orðið heilan helling af mjög flottum fésvinum sem ég vanræki eins og flesta aðra vini, bæði í bloggheimum og raunheimum.
Ég auglýsti eftir Bjarti á blogginu mínu á dögunum, heittelskuðum ketti systur minnar og mágs sem búa hér á Skaganum. Sæta kettinum sem ég passaði stundum þegar eigendurnir fóru í ferðalög. Bjartur er kominn í kattahimnaríki, elsku karlinn. Ekkert sá á honum þannig að dulin veikindi hafa líklega hrjáð hann. Hann átti einstaklega gott líf þessi sex ár sem hann lifði og hans verður sárt saknað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.10.2008 | 12:22
Hefnd hryðjuverkaþjóðar í norðri
Ég sat sæl við tölvuna í gærkvöldi þegar Celine Dion hóf upp raust sína og söng lagið All by myself í fjarstýringarlausu sjónvarpstækinu í bókaherberginu. Fyrsta hugsun mín var sú að erfðaprinsinn væri að reyna að drepa mig (hann var á fjarstýringunni í stofunni) en svo mundi ég eftir ættgengri óbeitinni á CD og vissi að hann hefði sofnað í leisíboj . Ég nennti ekki að standa upp og slökkva þótt líðan mín versnaði hratt. Ég var í spennandi net-lúdói ... og ákvað að afplána lagið, guði sé lof. Ég fann nefnilega hvernig illskan, grimmdin og mannvonskan náði tökum á mér smám saman og fylltist sturlaðri bræði yfir meðferð Evrópu á okkur, litla sæta landinu sem er í rjúkandi rúst og það yfir nokkrum skitnum þúsundum milljarða. Á meðan Celine veinaði í svona þúsund mínútur fæddist snilldarhugmynd sem þýðir að við gætum slegið milljón flugur í einu höggi! Ég set hana hér fram og spyr þjóðina mína: Hvernig væri ef við tækjum okkur til og hreinlega sigruðum í Evróvisjón-söngvakeppninni næst?
Ég á reyndar eftir að útfæra þetta aðeins betur en sé fyrir mér fallegt ungmenni með Bamba-augu syngja fyrir hönd Íslands hrærandi lag um einsemd þjóðar, blankheit, einelti, afleiðingar hryðjuverkalaga og sár vonbrigði vegna örugga sætisins í öryggisráðinu þangað til annað kom í ljós. Viðlagið gæti verið: We are so sorry, we are so sad! Djöfull verður gaman að sjá evrópska áhorfendur grenja úr sér augun.
Ég veit að fæstir Íslendingar munu hafa efni á því að vera með síma næsta vor þannig að við yrðum að hafa dómnefnd. Hún á að sjálfsögðu að gefa Bretum 12 stig, Dönum 10 stig, Hollendingum 8 stig og svo framvegis, bara til að sýna hversu stórhuga og full fyrirgefningar við værum. Það yrði líka sem salt á sárin hjá þessum fyrrum vinaþjóðum okkar.
Svo þegar við höldum Evróvisjón í Laugardalshöllinni vorið 2010 þá getum við nýtt okkur alíslensk efnavopn. Mér dettur í fljótu bragði í hug að hafa eingöngu þorramat og mysu til sölu í sjoppunni í Höllinni og skreyta salinn með opnum harðfiskpokum.
Annað: Allir útlendingar kaupa lopapeysu og við getum undirbúið þetta ef við byrjum strax, og hvert og eitt okkar prjónað peysu úr illgirni* og djöfull* (*Halldór frændi).
Þegar síðan sigurvegarinn frá síðasta ári, 2009, kæmi svo fram á sviðið til að syngja gamla vinningslagið myndi hann svipta af sér listavel gerðri grímunni (Össur hf?) og í ljós kæmi ... Silvía Nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.10.2008 | 10:38
Rangt hjá Bretum, sorgfyndin bankasaga frá Þýskalandi og fleira ...
Íslensk kona var stödd í þýskum banka í gær og ætlaði að skipta 10.000 krónum yfir í evrur. Bankagjaldkerinn sagði; Fyrirgefðu, ég get ekki skipt fyrir þig, þetta er ónýtur gjaldmiðill. Sú íslenska varð hissa á svip en sagði ekkert. Gjaldkerinn bætti við og veifaði 5.000 köllunum: Viltu fá þetta aftur eða á ég að henda þessu? (Þetta er sönn saga).
Þegar ég sá fréttina sem ég hlekkjaði við ákvað ég að hringja í vinkonu mína sem rekur útflutningsfyrirtæki og á í viðskiptum við Bretland. Mig langaði að vita hvort hún hefði fengið greiðslur fyrir vöruna sína síðan bankakreppan skall á ... Nei, hún hefur ekki fengið krónu og þó tengist íslenska bankastofnunin hennar í engu þeirri stofnun sem hryðjuverkafrystingin er á, eða Landsbankanum! Hún hefur ekki fengið pund í hálfan mánuð ... þótt breskur viðskiptavinur hennar sé búinn að borga henni. Hún sendir út vöru, kúnninn borgar jafnsamviskusamlega en þetta stoppar í Bretlandi! Þeir segja hreinlega ekki satt, þessar elskur. En í fréttinni segir m.a. þetta: "Breska fjármálaráðuneytið neitar sök og segir að bresk stjórnvöld hafi ekki með neinum hætti takmarkað viðskipti við íslenska banka að öðru leyti en því að eignir Landsbankans á Bretlandi hafi verið frystar." Sjúr, vinkona mín getur vonandi borgað laun starfsmanna sinna með þessum orðum.
Annars er ég skíthrædd um að þetta komi í veg fyrir að við fáum Rússalánið: http://visir.is/article/20081017/LIFID01/233291636
Ekki fékk ég sætan sessunaut í strætó eins og síðast, bara einhvern skólakrakka. Mikið langaði mig að þykjast sofna, halla mér asífellt nær honum og fara svo að slefa á öxlina á honum, bara til að skemmta mér ... en svoleiðis gerir maður bara ekki þegar þjóðin er öll í sárum. Við fengum silfurgráan strætófák undir okkur í morgun vegna bilunar þess gula. Ef við keyrðum í holu gerði fjöðrunarbúnaðurinn í bílstjórasætinu það að verkum að Skúli dinglaði upp og niður allan Akrafjallsveginn, fastur í beltinu og væri hann ekki svona þroskaður hefði hann æpt VÚHÚ! alla leiðina að göngunum. Þetta er víst gert til verndar bílstjórum ... svo að þeir verðir aldrei sjóveikir í lífinu. Í leið 15 var ljóshærð gella undir stýri, brosandi og sæt eins og Haraldur. Held að það séu enn strangari skilyrði að komast að hjá leið 15 en öðrum leiðum. Inntökuskilyrði örgla að hafa sérgáfu (ljósmyndun, söng, dans, myndlist og slíkt), dæmi: Haraldur ljósmyndari og Andri Backman tónlistarmaður sem hafa keyrt leið 15.
Jæja, nóg að gera, óska ykkur góðs föstudags, elskurnar, og farsællar komandi helgar!
P.s. Hrund, vinnufélagi minn, liggur í kasti núna, hún er að fletta nýju myndasögubókinni hans Hugleiks Dagssonar (sem er SNILLD), Jarðið okkur. Hún emjaði yfir einni teiknimyndinni þar sem maður stóð upp á borði með eistun ofan í brauðrist. Þegar hann var spurður um þetta svaraði hann: "Ég datt!"
![]() |
Ísland í fjárhagslegri herkví Breta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.10.2008 | 19:27
Magnaðar móttökur í molli, barnaspælingar, nýju bankastýrulaunin og örbold
Auðvelt var að fá bílastæði við Kringluna í dag, enda ekki jafnmargir á sveimi þar og síðast þegar ég kom þangað. Það er algjör misskilningur að okkur Íslendingum, múslimum norðursins, mæti alls staðar slæmt viðmót vegna ábyrgðarlausra gjörða okkar í heiminum, stelpan í sjoppunni í Hagkaup, útlensk og allt, var ekkert nema almennilegheitin. Sama má segja um starfsfólkið í Kaffitári þar sem við vinkonurnar fengum okkur sjúklega góðan latte. Þótt ég hafi dregið saman seglin, eins og flestir Íslendingar, ætla ég ekki að sleppa því að fá mér gott kaffi í kreppunni og sá að margir hugsa á svipaðan máta, biðröð myndaðist hratt fyrir aftan okkur og setið var við flest borð. Maður á að vera góður við sig! Mikið langaði mig að vera ofsagóð við mig og kaupa bol í rekka með öðrum góðum bolum en á honum stóð: Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum núna, seljum þau!
Jamm, svo heyrði ég því fleygt að hámarkslaun í bönkum núna séu 950 þúsund (bankastýra) á mánuði í stað 70 milljóna eða svo. Algeng laun millistjórnenda innan við hálfa millu og síðan fengi venjulegt bankafólk talsvert lægra að vanda. Það fékk mig til að hugsa um góðærið sem svo margir tala um að hafi ríkt hérna. Mig minnir, leiðréttið mig ef mér skjátlast, að t.d. ræstingafólk, fólk sem vann við umönnun barna eða aldraðra, margt skrifstofufólk, verkafólk eða hreinlega stór hluti íslensku þjóðarinnar hafi lapið dauðann úr skel, launalega séð. Eini munurinn var sá í góðærinu að flestir gátu fengið lán, lán sem þarf samt að borga til baka með vöxtum og verðtryggingu. Ég er svo fegin að iðnaðarmaðurinn minn sveik mig/gleymdi mér. Ég ætlaði að gera breytingar á baðinu og í eldhúsinu. Eldhúsbekkurinn við vaskinn er t.d. ónýtur vegna vatnsleka (áður en ég flutti inn), blöndunartækin nánast ónýt og fleira. Allt komið á HOLD, enda er himnaríkið mitt algjört himnaríki þótt það sé ekki fullkomið í augum einhverra og Innlit-Útlit myndi ekki láta sjá sig hjá mér.
Gat ekki horft á allt boldið en ... Jackie og Nick eru náttúrlega í rusli yfir uppákomunni á tískusýningunni og Nick eðlilega ógurlega sár út í geðþekka geðlækninn Taylor sem lét hann rifja upp hræðilegu minningarnar um æskuna þegar Jackie, mamma hans, seldi sig ... og fyrir að snúa svo baki í dyrnar þegar hún las þetta inn á segulband sem gerði Stefaníu, erkióvini Jackie, auðvelt fyrir með að hlusta. Taylor er svo reið yfir þessu öllu að líkurnar á því að hún giftist Thorne, syni Stefaníu og bróður Ridge sem hún var einu sinni gift og á öll börnin með (Tómas og tvíburana), eru nú sáralitlar.
Hnakkus - skyldulesning:
http://hnakkus.blogspot.com/2008/10/leiarvsir-fyrir-reia-og-rvillta.html#links
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.10.2008 | 08:16
Morgunn á sjálfstýringu og splunkunýtt efni frá völvu Vikunnar
Tíðindalítil og ljúf ferð með Ástu í morgun, við, eða bíllinn, á sjálfstýringu alla leið, enda vér bílstjórarnir ansi syfjaðir ... Latte-ið bjargaði þó miklu og það var bara þrælgaman hjá okkur. Er komin heilu og höldnu í Hálsaskóg og hlusta nú á Bylgjuna þar sem útvarpsfólkið fjallar um VIKUNA, jibbí! Mikil hvatning bloggverja og áhugi fjölmiðla varð til þess að ákveðið var að tala við völvuna um kreppuna og einhverja atburði í tengslum við hana til áramóta. Veit ekki hvað hann Heimir var að væla um að þetta væru "bara spádómar" ... að hann langaði t.d. að vita hvað hefði EKKI komið fram í spá hennar um síðustu áramót! Djösins væl alltaf hreint. hehehehe Eina sem ég man eftir í augnablikinu er það að Valur og ÍA myndu keppa um efsta sætið í Landsbankadeildinni! Sjúr! Svo hafði hún reyndar ekki "tilfinningu" fyrir því að Ólafur Ragnar sæti næstu fjögur árin á Bessastöðum. Fannst eins og hann gæfi ekki kost á sér. Það virðist þó sem mikla meira hafi komið fram en hitt og enn eru stórviðburðir í nánd!!!
Völvan, í blaðinu kom út í dag, segir m.a. að samskiptin við Breta verði áfram á stirðu nótunum ... að einkaaðili komi að einum nýja ríkisbankanna, hún sér Glitni og sparisjóð í ágætri sambúð og margt, margt fleira en viðtalið við hana var tekið 9. okt. sl.
Svo er mjög sterkt viðtal við mikla hetju, unga konu sem segir frá reynslu sinni af því að alast upp í samfélagi Votta Jehóva og vita t.d. ekki hvenær hún átti afmæli fyrr en hún var 15 ára, hvernig jólin voru hjá fjölskyldunni og annað. Hún var misnotuð af föður í sjö ár, sem sat lengi í fangelsi fyrir það (hæstiréttur mildaði þó dóm héraðsdóms næstum um helming), móðir hennar var rekin úr trúfélaginu (hún var reyndar farin áður en þeir vildu samt reka hana ...) en pabbinn velkominn.
Jamm, farin að vinna, verið stillt, elskurnar, hafið það gott í dag og munið að það er ekki hægt að knúsa mig rafrænt í gegnum þetta nýja dæmi mbl.is, ég stillti á "fjandskap" í stjórnborðinu, annað hvort skal knúsað í eigin persónu (einungis karlkynsbloggarar, takk) eða sleppa því ... múahaha
P.s. Myndin tengist á engan hátt innihaldi bloggfærslunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.10.2008 | 23:17
Höfundur kreppujeppanna, smá bold og nýja faðmlagakerfið
Þegar Halldóri frænda leiðist þá gerist alltaf eitthvað skemmtilegt. Hann dúllaði sér m.a. við að gera Game Over-jeppann sem hefur ferðast helling um netheima. Nú hefur hann skapað nýjan bíl (myndin til hægri) sem segir allt sem segja þarf, eins og hinn. Það er kannski ljótt af mér að segja þetta ... en vonandi leiðist honum sem oftast!
Boldið var svakalegt í dag. Stefaníu tókst með klækjum að rústa flottu tískusýningunni fyrir mæðginunum Nick og Jackie. Eftir að glæstar stúlkur höfðu sýnt línuna hans Garrisons (heitir leiðinlegi hönnuðurinn það ekki?) rotaði Thorne hann og Stefanía lét gamla skipperinn sem keypti afnot af Jackie í gamla daga ganga eftir pallinum í stað Garra, öllum til undrunar, líka þeim gamla sem hélt að hann væri í öðrum erindagjörðum, eða að hitta hina fögru Jackie aftur sem saknaði hans eða eitthvað. Steffí fór síðan í hátalarakerfið og kynnti þann gamla sem einn af fjölmörgum elskhugum Jackie sem hefði unnið fyrir sér sem hóra á árum áður. Með þessu vonaði Steffí að stjórn Forrester-tískuhússins heimtaði að það fari aftur í hendur gömlu og réttmætu eigendanna. Taylor, sem er við það að fara að giftast Thorne, hitti bróður Thornes og fyrrum eiginmann sinn til margra ára, hann Ridge, og komst að því hjá honum að eitthvað væri í bígerð. Hún mætti með Ridge á tískusýninguna en of seint. Steffí, móðir Thorne og Ridge og fyrrum og tilvonandi tengdamóðir Taylor, rústaði Jackie fyrir framan elítuna í tískubransanum og fjölda fréttamanna. Tjaldið féll þarna og við tók óbærileg bið eftir næsta þætti sem verður kl. 17.28 á morgun.
P.s. Áríðandi viðbót. Hef ákveðið að loka á faðmlagakerfi mbl.is hjá mér vegna neyðarástands ... a.m.k. í bili! Hef nefnilega fengið c.a. 40 faðmlög bara frá einum bloggvini sem er ekki einu sinni karlkyns ... og litla pósthólfið mitt stíflaðist. Þetta er einhver bilun, viðkomandi bloggvinkona sendi mér bara eitt "knús" og segist hafa fengið mörg frá mér. Ef ég væri t.d. snertifælin væri ég hreinlega komin í köku við allt þetta knús ... hvað er moggablogg að pæla? Kommon, ég á ketti! Er þó búin að endurgjalda knús til þeirra sem sendu mér en nú er allt lok, lok og læs. Já, ég er vond manneskja.
Bloggar | Breytt 16.10.2008 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.10.2008 | 10:41
Fræðingar og fegurðardísir í strætó ...
Skúli kom okkur af miklu öryggi í Mosó þar sem Haraldur brosmildi tók við okkur og ók af engu minna öryggi til Reykjavíkur. Og það í hálku. Ég hafði skemmtilegan sessunaut í strætó, lögfræðinginn hressa sem ég hef bloggað um áður, og ræddum við um bækur og fleira skemmtilegt alla leið frá Skaganum. Hann er að lesa Bíbí núna og ég var að enda við hina bráðskemmtilegu Doktor Proktor og prumpuduftið. Fyrir aftan okkur sat virðulegi guðfræðineminn Jóhanna sem var í öngum sínum af því að hún gleymdi gemsanum heima. Ég lánaði henni minn í smástund, enda á maður víst að vera góður við guðfræðinga til að lenda ekki í helvíti. Líka lögfræðinga ef maður myndi nú fyrir mistök lenda í helvíti .... múahahaha. Við lögfræðingurinn skiptumst á afmælisdögum, hann er fæddur í júní en samt ágætur og árið eigum við reyndar sameiginlegt og ekki með ómerkilegra fólki en Madonnu, Viggo Mortensen og Guðmundi í Byrginu. Hann á einn kött, ég á tvo en ég held að hann eigi fleiri börn en ég.
Ætlaði svo að vera ógurlega fyndin þegar ég fór upp í leið 18 í Ártúni með tvöfaldan skiptimiða sem ég fékk óvart í Skagastrætó og sagði einlæglega við bílstjórann þegar ég afhenti honum allt of langan miðann: Ég borga auðvitað tvöfalt af því að ég er svo feit! Bílstjórinn horfði blíðlega á mig og sagði: Kaj pravite, krava?
Ógreiddi maðurinn var í leið 18, þessi seinni ógreiddi sko, og mig grunar að hann sé, eins og allt skrýtna fólkið í vagninum, í Kvikmyndaskólanum með Davíð frænda. Þýðandinn lenti á "kvennafari" eða einhver, sæmilega sæt skvísa, hlammaði sér hjá honum og hann fékk ekki við neitt ráðið. Man hvernig kvíðinn nagaði mann í strætó í eldgamla daga yfir því að einhver ljótur settist hjá manni. Svo hefur örugglega ljóta fólkið á Íslandi dáið út á undanförnum árum eða gleraugun mín dofnað því að þetta hræðir mig ekki lengur. Set samt alltaf upp undarlegan svip, svona eins og ég sé til alls vís, jafnvel hættuleg, þegar einhver asnalegur gerir sig líklegan til að setjast hjá mér. Það virkar ekki oft, því miður. Aðeins þrír Indverjar voru í vagninum að þessu sinni.
Jæja, farin að vinna. Óska ykkur yndislegs dags, bloggvinir kærir, sem og bloggóvinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.10.2008 | 16:54
Fjandskapur og lítilsvirðing gagnvart Íslendingum
Ég er í sjokki yfir þessu, vonandi fyrirgefur Orðið á götunni mér þjófnaðinn:
Orðið á götunni er að íslensk kort hafi verið klippt í stórum stíl í verslunum í Danmörku í gær og í dag og íslenskir viðskiptavinir þar mætt mjög breyttu og öfugsnúnu viðmóti.
Áhafnameðlimir (áhafnir, innsk. GH) íslenskra flugfélaga segjast hafa tekið á móti farþegum á leið heim til Íslands frá Kaupmannahöfn, sem hafi verið í öngum sínum eftir helgarferð eða stutta heimsókn. Ein lýsing hljóðar svo: Allir Íslendingar sem gengu um borð voru í öngum sínum og þökkuðu guði fyrir að vera komin um borð, því fólki í helgarferð og fólki í stuttum heimsókum hafði aldrei verið sýnd eins mikil lítilsvirðing.
Þegar fólk borgaði vörur sínar með kortum sínum í búðum á Strikinu og víðar, var kortið tekið og klippt í tvennt. Fólkið okkar var rekið út úr búðunum í sjokki. Verslunareigendur sögðu við reiða og sneypta Íslendinga að þeim hafi verið uppálagt að gera slíkt ef fólk sýndi slík kort í búðum í Danmörku og sagði fólki að snauta burt úr þeirra landi.
VIÐBÓT kl. 19.46: Skv. Þorvaldi Fleming, fréttaritara í Danmörku, er þetta hér að ofan bara gróusaga og ég trúi honum! Ég biðst velvirðingar á því að hafa haft þetta eftir en læt þetta standa áfram á bloggsíðunni mér til svívirðingar og skammar ...
Skyldi ekki hinum venjulega múslima líða svona, dæmdur fyrir skoðanir og verk mikils minnihluta fólks úr hans röðum? Það finnst mér vera umhugsunarefni.
Þetta, af vef RÚV, er líka ömurlegt:
Fyrirhugaðri tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Japans hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Skipuleggjendur ferðarinnar í Japan segja að í kjölfar sviptinga í efnahagslífi Íslands sé eftirvæntingin eftir tónleikum sveitarinnar orðin minni en engin.
Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, segir tíðindin ákaflega bagaleg og komi sér illa fyrir hljómsveitina sem hafði undirbúið ferðina undanfarin tvö ár.
Ég var au pair úti í London (að verða 18 ára) þegar þorskastríðið stóð sem hæst, eða 1976. Aðalfréttirnar á BBC, Nine o´clock news, hófust iðulega á fréttum af deilunni. Mamma ráðlagði mér óttaslegin að þykjast vera frá Finnlandi sem ég gerði náttúrlega ekki. Bretar tóku mér frábærlega vel og aldrei fékk ég hnjóðsyrði frá neinum vegna þjóðernis míns, ég var svo sem heldur ekki í Hull eða Grimsby.
Reiðin út í okkur víða um heim núna er ekki eðlileg, það er eins og það gleymist að íslenska þjóðin, hinn venjulegi Íslendingur, á virkilega um sárt að binda núna. Eins og ég færi að berja alla Nígeríumenn bara út af nígerísku svikamyllunum ... eða væri brjáluð út í Davíð, systurson minn, bara af því að hann heitir Davíð ... Það verður löng bið á því að ég fari til Danmerkur, Englands eða Japans ... eða bara nokkuð. Ekki að ég eigi fyrir ferðinni eða fengi gjaldeyri ...
Eitt jákvætt sem vinkona mín benti mér á í gær. Yfirdrátturinn minn þykir mjög hagstætt lán núna, engin verðtrygging ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
14.10.2008 | 12:51
Idol-uppsögn og bíórythmi íslensku þjóðarinnar
Kona sem ég þekki missti vinnuna í Landsbankanum á dögunum eins og svo margir. Hún sagði upplifunina hafa verið skelfilega. Aðferðin við uppsögnina var vond, að hennar mati, en samt vildi hún meina að hugsunin á bak við hana hafi örugglega verið góð, eða að tala persónulega við alla, ekki flytja fréttirnar með tölvupósti eða í ábyrgðarbréfi heim. Fólk var kallað, eitt í einu, inn á skrifstofu og kom síðan fram ýmist bugað eða yfir sig hamingjusamt með ráðningarsamning í hönd. Þetta minnti konuna óþyrmilega á Idol-stjörnuleit. Tvær konur sem héldu vinnunni föðmuðust t.d. fagnandi þegar sú seinni kom fram með góðar fréttir og aðrir biðu með kvíðahnút í maganum eftir að vera kallaðir inn. Alveg eins og í Idol. Ég held að mér hefði þótt betra að fá uppsögn í tölvupósti og dílað við það ein, ekki í augsýn allra. Það er auðvitað misjafnt hvernig fólk vill láta tækla svona mál og örugglega afar erfitt að sitja hinum megin við borðið og flytja fólki slæmar fréttir. Svo hefðu eflaust einhverjir kvartað sáran yfir kuldalegri uppsögn ef hún hefði borist bréfleiðis, að það hefði verið það minnsta að tala við hvern og einn! Samstarfskona mín lenti í svona uppsögn fyrir mörgum árum og var kölluð inn síðast. Henni fannst biðin óbærileg. Þá var það þannig að bara þeir sem misstu vinnuna voru kallaðir inn á teppið.
Annars fannst mér skrýtið að lesa um að prestur hafi blessað bankafólk, sjá www.dv.is, af hverju, fyrst hann var að þessu á annað borð, blessaði hann ekki ALLA sem misst hafa vinnuna? Það eru nokkur þúsund manns í þeim sporum.
Ég glotti subbulega þegar ég sá í færslu JVJ í gær: Hætta ber allri bullsóun í ríkisrekstri (félagsmálafemínistavitleysu ýmissi ...) Vésteinn Valgarðsson skrifaði athugasemd við færsluna og spurði hvort ekki væri þá ráð að ríkið hætti að dæla fé í kirkjuna og nefndi háa upphæð sem ég get því miður ekki endurtekið þar sem búið var að eyða athugasemd VV og ég man ekki upphæðina.
Ég er ofsótt af útlenskri netspákonu sem ég get ekki sagt upp. Í gær gerði ég enn eina tilraunina til að reyna að afmá mig af póstlista hennar en kíkti fyrst inn á bíórythmann minn og sá að hnerrinn undanfarna daga og oggulítið kvef stafar eingöngu af því að líkamlega staðan mín er í botni þessa dagana. Ég prófaði að gamni að setja íslenska lýðveldið, 17. júní 1944, inn í bíórythmann og dagsetninguna 5. október 2008. Áhugavert að sjá ástandið á þjóðinni þennan dag, líkamlega næstum í toppformi en vitsmunalega og tilfinningalega í mikilli lægð. Segið svo að svörin liggi ekki þarna ... heheheh! Jæja, farin í sjúkraþjálfun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 1
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 297
- Frá upphafi: 1528943
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 252
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni