Áfram Ísland

Þetta hefur verið skrýtinn dagur.  Allir í vinnunni mættu á fund eftir hádegið, sumir héldu hið versta en það hafði reyndar lekið út eitthvað um rjómatertur svo það vissi nú ekki á slæmt. Þetta reyndist hinn besti rjómatertu-, reyndar marsipantertufundur þar sem margt gott kom fram. Á meðan við fögnuðum skrifaði Geir dómsdagsræðu sína sem við Ásta hlustuðum síðan á í beinni á Kjalarnesi, í gegnum Hvalfjarðargöngin og á Akrafjallsvegi. AlþingiÞegar við rúlluðum inn á fallega Skagann okkar spurði ég Ástu: „Hvað meinti hann Geir eiginlega?“ Ásta endurtók búta úr ræðu Geirs og bætti við ýmsu gáfulegu frá sjálfri sér en ég var litlu nær, enda vantaði öll smáatriði. Mig langaði að vita hvernig hryllilegt ástandið yrði fyrir okkur litlu, venjulegu jónana. Verður jólunum kannski frestað?

Flestir rífast bara um hverjum sé um að kenna. Andvaralausri ríkisstjórn ... útrásarvíkingunum sem stjórnin gaf bíl en setti þeim ekki hraðatakmarkanir ... Seðlabankanum eða kannski óupplýstum almúganum sem mátti ekki sjá brauðrist á útsölu án þess að kaupa hana og tók slefandi af heimsku lán til þess að eignast heimili, bíl eða annað sem hingað til hefur verið talið nokkuð eðlilegt að fólk eignist. Almenningi er kannski ekki kennt um ástandið, frekar að fólk geti sjálfu sér um kennt núna.

Yfirleitt treystir fólk bankanum sínum og ef bankastarfsmaður í góðri trú leggur að manni að taka erlent lán með lágum vöxtum og engum fokkings verðbótum sem allt eru að sliga, hvernig getur maður þá verið nógu skynsamur að segja nei, ég vil frekar óhagstæða, íslenska lánið. Sem betur fer þurfa himaríkisbúar ekki að hafa áhyggjur af slíku láni ... en ég heyrði í dag af ungum manni sem kom heim úr námi erlendis frá, fékk góða vinnu og þar sem hann hafði ekki fyrir neinum að sjá nema sjálfum sér ákvað hann að kaupa sér dýran og flottan bíl. Honum var ráðlagt að taka myntkörfulán. Lánið er orðið algjörlega óviðráðanlegt í dag, bíllinn númerslaus inni í bílskúr og mánaðargreiðslan komin upp í 250 þúsund á mánuði, var miklu, miklu lægri í upphafi. Ekki hlustaði ég, frekar en hann (held ég), með nógu mikilli athygli (trú) á kreppuspárnar í Silfri Egils, fannst þetta líklega svo fjarlægur möguleiki, allt myndi örugglega reddast, allt gekk svo vel. Það var ansi áhugavert að sjá myndbrotin á síðunni hennar Láru Hönnu úr gömlum þáttum Egils og heyra þetta allt aftur en með nýjum skilningi. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/661514/

Margir tala um hin einu réttu ráð við ástandinu og sitt sýnist hverjum. Margir sjá evruna og Evrópusambandsaðild sem besta kostinn, aðrir vilja nýja ríkisstjórn í hvelli, enn aðrir nýja stjórn í Seðlabankann og kannski þetta allt saman. Völva Vikunnar talaði reyndar um stjórnarslit í síðustu spá.

Æ, ég veit ekki hvað er rétt ... ég myndi alveg vilja vera með danskt húsnæðislán, lágir vextir og engar verðbætur, en þegar ég var búin að borga 800 þúsund af annars góða Íbúðalánasjóðsláninu mínu af himnaríki með 4.15% vöxtum voru eftirstöðvar þess orðnar 800 þúsundum hærri en það var upphaflega. Ég held að ég myndi næstum selja sál mína fyrir afnám verðbóta!

Annað: Það er mikið að frétta á

www.dv.is eins og vanalega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava S. Steinars

Ég botna ekkert í þessu öllu, en vil gjarnan skjóta nokkra seðlabankastjóra bara svona til skemmtunar.  Til að toppa daginn skar ég toppinn af þumalfingrinum af þegar ég var að saxa gúrku. 

Svava S. Steinars, 7.10.2008 kl. 00:22

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Afnám verðbóta segir þú, hmm...

Hvað er lángt síðan að skipt var um tímareim á þezzari sál ?

Steingrímur Helgason, 7.10.2008 kl. 00:28

3 identicon

já Frú Gúrrí, þetta var undarleg ræða sem Forsætisráðherra hélt í útvarp og sjónvarp í gær. Maður sat sem dæmdur en maður skyldi ekki hvað hann var í raun að seigja, enda sagði hann ekki neitt af viti, ekki nema það að maður skildi það að nú er búið að Þjóðnýta bankanna sem Sjálfstæiðismenn og Fransóknarmenn seldu á sínu valda tíma til sinna G'OÐU VINA. Nú á þjóðin að blæða, og við að þegja ekki að tala um það er liðið er bara brosa og missa eignir okkar, vinnu og lífsafkomu. En þeir sem eiga bankanna og hafa verið að gambla með fé íslendinga flýja land og setjast að á Cyman eyjum þar sem þeir allir hafa komið feitum sérreikingum sér til handa, ef ske kynni að illa færi. Sástu holdgerving græðginar í kastljósi í gærkveldi, óskup reyndi hann að setja upp sakleysis svip, og EKKI BENda á mig. Hann nafni minn mætti skamma sín ef hann hefur einhvern snefil að samvisku.

siggi (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 07:38

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Sáröfunda þig af marsipanfíneríinu en tek undir allt hitt.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.10.2008 kl. 09:22

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég skildi ekki rassg... í því sem Geir sagði.  Bjóst ekki við því heldur.

En.. ég ætlaði einmitt að spyrja þig hvort völvan hafi séð eitthvað af þessum ósköpum fyrir.  Ef hún hefur gert það þá á hún að fá fálkaorðuna.

Knús á þig dúllan mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.10.2008 kl. 10:37

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Kannski skiljum við eitthvað meira eftir blaðamannafundinn eftir nokkrar mínútur ... þarf að kíkja betur á völvuna. Hún sá alla vega að góðærið væri búið og erfiðleika hjá almenningi.

Guðríður Haraldsdóttir, 7.10.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 65
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 1944
  • Frá upphafi: 1454818

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1576
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband