Færsluflokkur: Bloggar

Magnað lífshlaup ...

Var klukkuð og ákvað að afplána það þótt margt skrýtið hafi uppgötvast, t.d. það að ég hef aldrei farið sérstaklega í sumarfrí til útlanda, alltaf átt erindi ... kórferðalag, árshátíð (í hittiðfyrra til London), vetrarheimsókn til Elfu vinkonu og slíkt.

AnnaEitt sumarfríið skrapp ég til Önnu og Ara á Álftanesið-gáfaða og varði með þeim skemmtilegri kvöldstund. Var síðan skutlað heim í Vesturbæinn í stórum jeppa þar sem svokallað “lóran”-tæki (minnir mig að það heiti) sýndi nákvæmlega leiðina vestur í bæ. Það stóð upp sem skemmtilegasta ferðalag þess sumars ef ég tel strætóferðirnar ekki með, hehhehe. Annars, meðan það mátti, seldi ég iðulega sumarfríið mitt. Mikill misskilningur að einstæðar mæður hafi það svo gott. Venjulegur mánuður: Konulaun + 10 þús. í meðlag + 5 þús. í mæðralaun. Það voru pörin sem þóttust vera „einstæðar“ sem gátu mögulega lifað mannsæmandi lífi og þar lá misskilningurinn. Jamm! Þetta átti nú ekki að fara út í eitthvað svona, lenti bara oft í rifrildi yfir því hvað við, þessar einstæðu, hefðum það nú gott á öllum þessum bótum. Hlátur minn yfir því í dag er enn pínulítið beiskjublandinn.


VestmannaeyjarFjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

- Bakka- og vélastúlka í Ísfélagi Vestmannaeyja (hækkaði í tign úr orma- og beinatínslunni)

- Skartgripasölukona á Laugaveginum

- Skrifstofustúlka í ýmsum fyrirtækjum

- Útvarpskona (lengst af á Aðalstöðinni)

 

 

Empire of the SunFjórar bíómyndir sem ég held upp á:

- Empire of the Sun

- Sound of Music

- True Lies

- Allt um móður mína

(svona sem ég man eftir ...)

 

ÆvintýrasirkusinnFjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni:

- Allar bækur Enid Blyton

- Vinur minn, prófessorinn (rómantísk spítalasaga)

- Snjallar stúlkur (útg. 1946, í eigu mömmu, spennubók fyrir krakka)

- Málsvari myrkrahöfðingjans (ja, þótti hún mjög skemmtileg á unglingsárunum)

(marglas bækurnar í gamla daga, geri það ekki lengur, nema Harry Potter)

 

24Fjórir sjónvarpsþættir:

- House

- 24

- Illt blóð

- Útsvar/Silfur Egils/Kiljan/Simpsons ... get illa gert upp á milli, gleymi örugglega e-u


Indverskur maturFjórar fæðutegundir sem ég elska:

- Kjúklingur

- Nautakjöt

- Indverskur matur

- Mexíkóskur matur

 

 

La ConnerFjórir staðir sem ég hef farið á í sumarfrí:

- Álftanes

- Höfn í Hornafirði (sumarbústaður yfir helgi með mömmu og systkinum)

- La Conner (Washington-fylki USA, 2 vikur í jan. 2002)

- Austurríki, Þýskaland, Ítalía; kórferðalag í júní 1985


HimnaríkiFjórir staðir sem ég hef búið:

- Akranes (þrisvar: 2-12 ára, sem ung, nýgift, nú sem pipruð kattakerling í himnaríki)

- Reykjavík (0-2 mánaða, 13-18 ára, 24-48 ára)

- Sauðárkrókur (16-17 ára)

- Stykkishólmur (til 2 ára) (og Vestmannaeyjar hálft ár 1974)

 

 

Ég klukka  ... Hnakkus, Björn Bjarnason, DoktorE og Egil Helgason.


Sundferð, leikfélagi og snilldarhugmynd Ellu

SundlauginStrákarnir mínir fóru í sund í dag. Fóru með Jóni, stuðningsmanni fjölskyldunnar úr næsta húsi, og tveimur strákum úr þeirri fjölskyldu. Þeim fannst það dásamleg upplifun. Ella og Kjartan kíktu í stutta heimsókn til Línu á meðan. Eygló, tveggja ára dóttir þeirra, kom með og urðu þær Nadeen samstundis góðar vinkonur. Önnur spjallaði hástöfum á íslensku, hin á arabísku og það ríkti fullkominn skilningur á milli þeirra. Eygló var ekkert til í að fara svona fljótt frá nýju Lara Croftvinkonunni eins og raunin varð en okkur langar til að gefa Línu andrúm, það má ekki kæfa fólk þótt í góðri meiningu sé. Það er komið betra sjónvarp hjá Línu og nú er hún kannski að horfa á Láru Croft, eins og ég. Snillingurinn hún Ella var búin að búa til nokkur kort með algengum orðum og orðatiltækjum, öðrum megin á kortinu var setningin/orðið á arabísku og hinum megin á íslensku. Lína varð himinlifandi og byrjaði strax að æfa sig í að tala íslensku og gekk bara ansi vel. Hún er greinilega ákveðin í því að læra málið fljótt. Ég efast ekki um að það gangi upp.


Bland í poka ...

Formúlan ætti að verða ansi spennandi í fyrramálið.  Sérstaklega ef það rignir eins og í tímatökunum í morgun.

Fínasta viðtal var við Línu í Fréttablaðinu í dag þótt hún hafi reyndar verið kölluð Lena þar. Ætla að gefa henni frí frá mér núna en Kjartan og Ella munu að aðstoða hana við að sækja hjólið og sitthvað fleira. Ég þarf að komast að því hjá hinum stuðningsfjölskyldunum hvort aðrar konur í hópnum langi í hjól. Ég hélt í fávisku minni að verið væri að dytta að mörgum gömlum hjólum, sem nægði fyrir krakkahópinn en þau hjól eru víst bara fjögur eða fimm. Þannig að ... ef einhver lumar á hjóli í bílskúrnum/geymslunni, fyrir börn sem fullorðna, þá veit ég að þau munu koma að góðum notum og lenda í þakklátum höndum. Netfangið mitt er gurrihar@gmail.com. Er viss um að hjóla-aðdyttarinn okkar getur gert við litlar bilanir. Ef einhver á barnastól á hjól þá væri það náttúrlega æði!

Á LangasandinumSá stuðningskonu áðan í gönguferð við Langasandinn með „sína konu“ og eitt barn. Það er hvasst og frekar svalt í veðri svo göngutúrinn stóð ekki lengi en virkaði fjörugur, þær hlógu mikið stöllurnar í rokinu, sá ekki betur úr glugganum mínum. Brrrrrr. Veturinn fer að skella á með öllum sínum fjölbreytileika í veðri. Get þó ekki sagt með sanni að ég kvíði fyrir! Alltaf gaman að fylgjast með öldunum (í réttri vindátt) héðan úr himnaríki. Ég er eins og argasti njósnari. Nú eru fleiri niðri á sandi með stuðningsfólki og krakkarnir hlaupa um þrátt fyrir veðrið. Það styttist reyndar í flóð en eitthvað má nýta mjóu sandræmuna sem sést enn í.

Walk HardLangar að mæla með bráðfyndinni mynd á DVD, Walk Hard heitir hún. Erfðaprinsinn sá hana á undan mér og sagði ekki mikið annað en að ég yrði að sjá hana svo ég hlýddi bara eins og góðri móður sæmir. Fegin að ég gerði það. Líst líka vel á heimildamyndina um Rolling Stones, er hálfnuð með hana.

Vona svo að dagurinn ykkar verði hreint út sagt frábær!


Hjólasaga, kjúklingur og smá bold

Sjúkrahúsið á AkranesiDagurinn gekk bara vel.  Eitthvað skolaðist til tíminn sem fjölskyldan átti að mæta á spítalann þannig að strætóferðin verður að bíða til næstu viku. Fengum erfðaprinsinn til að keyra okkur á sjúkrahúsið í einum grænum hvelli, það var sem betur fer eyða í stundaskránni hans þannig að þetta bjargaðist. Litlan mín, Nadeen, var að vonum harla ósátt við að vera stungin með sprautu en öll börnin fengu verðlaun fyrir dugnaðinn, flotta blýanta og þau minnstu blöðrur. Móttökurnar á sjúkrahúsinu voru þvílíkt hlýlegar, allir brosandi og glaðir. Hef ég ekki stundum sagt sögur um þetta frábæra sjúkrahús hérna á Skaganum?

Mér hefur farið ótrúlega fram í arabísku og má teljast nokkurn veginn altalandi ...

اولاد بلدي ، وعبد الله محمد ، سعيد علي الدراجات الهواءيه. Í þessarri setningu var ég t.d. að tala um hvað strákarnir mínir væru ánægðir með hjólin sín.

ReiðhjólInga fékk frábæra upphringingu í dag, svona áður en hún skrapp til Ameríku. Lína er búin að eignast hjól en Ragga Theódórs hjúkka á eitt gamalt og gott í geymslunni sinni sem hún vill gefa henni og við Kjartan sækjum það á morgun ef það hentar Röggu. Bara æði. Inga hélt að hún ætti einhvers staðar barnastól til að setja á mömmuhjólið og þá verður þetta „fjölskyldan hjólandi“.

Lína var að elda kjúkling þegar ég fór, hún var komin með góð krydd frá Pottagöldrum, kjúklingakrydd og pipar, fannst lyktin af þessum kryddum mjög góð og notaði óspart á kjúllann. Hún skar niður tómata og lauk og setti með kjúklingnum og lyktin var orðin mjög góð þegar ég yfirgaf samkvæmið. Okkur tókst að þvo eina vél og hengja út á svalir á þurrkgrind, vona bara að mér hafi tekist að koma henni í skilning um rokið sem von er á í kvöld, að hún verði að taka grindina inn. Held að ég sýni stundum svolítið leikræna þjáningu í stað tjáningar ... hehehhe. Er búin að komast að því að fjölskyldan er ekki hrifin af mjólkurvörum, jógúrti og slíku, enda eflaust ekki mikið borðað í Írak. Ávextir eru aftur á móti í miklu uppáhaldi.

GhostbustersÉg færði yngri stráknum, afmælisbarninu f. 090999, tvær DVD-myndir, Spiderman I og hina sígildu, fyndnu og góðu Ghostbusters í afmælisgjöf frá okkur Ingu. Strákarnir þekktu Spiderman heldur betur og urðu voða glaðir. Held að gamla DVD-tækið, sem þau fengu lánað, sé eitthvað ryðgað, það gekk ekki nógu vel að horfa á Spiderman. Kannski tölvusnillingurinn Kjartan kíki á tækið á morgun, mögulega þarf bara að hreinsa það. Hef tröllatrú á honum þótt hann hafi víst argað þegar hann sá flókið stjórnborðið á þvottavélinni. Okkur Línu tókst þó í sameiningu að setja í vél! Múahaha ..

Bold: Stefanía, sem er í rosa sálfræðimeðferð hjá Taylor, viðurkennir að hún eigi móður á lífi og Pam, „litla“ systir Steffíar, eftirlæti pabbans heitins, sjái um hana. Stefanía er beisk út í aldraða móður sína og hefur ekki talað við hana í 30 ár, mamman tók málstað pabbans sem barði Stefaníu með belti þegar hún var krakki ... Nú er allt að koma upp á yfirborðið og geðlæknirinn geðþekki, Taylor, á heiður skilinn fyrir að ná þessu upp úr Steffí, enginn í fjölskyldunni veit þetta. Nick, nýi eigandi Forrester-tískuhússins, rekur nokkra starfsmenn og aðrir ganga út. Ég flissaði þegar hann kynnti Donnu, systur Brooke, sem einhvers konar stjóra. Garrison, óþolandi hönnuður sem var hjá Spectra, kjaftakarl og leiðindapúki, er orðinn aðalhönnuður hjá Nick þannig að ... Nick finnst að honum hafi tekist að láta Forrester-fjölskylduna axla ábyrgð og er hreykinn af því.


Flottustu tvíburarnir og alsælir hjólreiðamenn

 

 

Komnir með bílpróf
ChagallLangt síðan ég hef sett inn myndir
af sætustu tvíburum í heimi. Úlfur og Ísak eru fjörugir, skemmtilegir frændur mínir og algjörir gleðigjafar. Bloggvinir mínir ættu flestir að muna eftir þeim.

Strákarnir fæddust báðir með skarð í vör og gómi og hafa farið í þrjá uppskurði. Úlfur er með hjartað hægra megin, ja, er bara spegilmynd af Ísaki, svona innvortis séð. Þeir eru svo líkir í útliti að þeir hljóta að vera eineggja þótt þeir séu sagðir tvíeggja. DNA-próf (rándýrt) er það eina sem getur skorið úr um það.

Annað: Það er SVO langt síðan að ég hef bloggað um þá að þeir eru komnir með bílpróf og farnir að keyra um allt.

 

AbdullahMohammedHinir strákarnir mínir eru komnir á hjólin sem Inga fann handa þeim og hjóla nú um allt alsælir. Inga skrapp með þá í hjólatúr í dag og komu þau við á hlaðinu hjá mér norðanmegin. Mikil gleði og hamingja. Sá yngri hjólaði á stóra bróður sem kenndi honum enn og aftur á handbremsuna, þolinmóður og góður.

Annars bara allt gott að frétta. Helgin að koma með öllum sínum dásemdum og svo hefst annað líf á mánudaginn þegar Ásta mætir kl. 6.30 sharp við hlið himnaríkis, eða á bílastæðið.


Sætir Skagakrakkar, lærdómshestur himnaríkis og pínubold

Skagabörn, Jón Yngvi lengst til hægriInga hringdi áðan og bað mig um að fylgja Línu og börnum yfir í Rauða kross-húsið á fund. Lína var nú bara farin á fundinn þegar ég kom heim til hennar, hafði bjargað sér þangað sjálf, dugnaðarforkurinn, enda vissi hún ekki að því að ég ætlaði að koma. Hitti á leiðinni hóp af þvílíkt krúttlegum og yndislegum Skagakrökkum sem ég smellti mynd af. Þar var m.a. elskan hann Jón Ingvi, sonur bloggvinkonunnar Flórens (sem er sveitamærin Sigrún), þeirrar sem bjargaði mér á Skagaslysó þegar ég datt í Ógæfumölinni forðum og fékk stórt gat á hnéð. Síðan er hún bara „Flórens“ í mínum huga, enda hjúkka. Spjallaði aðeins við kennara barnanna sem var líklega með þau í vettvangsferð. Þau höfðu stoppað til að klappa pínulitlum smáhundi sem var í gönguferð með eiganda sínum sem kallaði þann smáa sleðahund þreytulegri röddu. Hahahhaha. Við kennarinn fórum að tala um nýju íbúana á Skaganum, flóttafólkið, og það er greinilegt að börnin ætla að taka vel á móti börnunum í hópnum og hjálpa þeim að aðlagast nýja lífinu.

Lína og Nadeem í Skessuhorni í dagÁ leiðinni heim úr göngutúrnum hringdi Brynja bloggvinkona. Hún sagði að eiginmaðurinn hefði verið búinn að gefa gömlu, góðu kaffivélina og húsbandið því gert sér lítið fyrir og keypt nýja kaffivél handa Línu. Sagði að þær væru nú ekki mjög dýrar. Þvílíkt fólk, segi nú ekki annað. Það á vissulega að reyna að gera ekki upp á milli en þegar komið er ákveðið net í kringum hverja fjölskyldu áttar fólk sig á því hvað vantar og hvað ekki. Lína var alsæl með gamaldags uppáhellingardótið, hvað segir hún núna? Dóttir hennar skutlaði könnunni til mín áðan og þetta er fínasta græja. Takk, Brynja og fjölskylda. Strákarnir fá hjól í dag, uppgerð og viðgerð og ættu að vera í fínu lagi. Ingu tókst að redda þeim. Veit að Línu langar í hjól líka og hver veit nema leynist fullorðinshjól hjá Rauða krossinum. Fólk gaf þvílíkt mikið í söfnunina í sumar, ekki bara húsgögn.

Næ litlu sambandi við erfðaprinsinn þessa dagana, hann gerir lítið annað en að fara í skólann, læra heima og sofa. Danskan og stærðfræðin reynast leikur einn, sem hann átti alls ekki von á í byrjun.

Eric er orðinn beiskur út í konu sína, Stefaníu, sem getur ekki fyrirgefið honum að hafa látið frá sér Forrester-fyrirtækið til Nicks þótt það hafi verið eingöngu gert til að bjarga henni sjálfri frá fangelsi. Steffí segir að hann hafi gefist upp of snemma, hann hefði átt að leyfa henni sjálfri að tala við Nick fyrst, hún kynni lagið á helvítinu.

Nick biður Bridget, fyrri konu sína og síðar stjúpdóttur, dóttur Erics og Brooke, um að taka þátt í Forrester-ævintýrinu með honum en hún neitar voða sár. Líklega verður Donna, systir Brooke og áður skotin í Ridge, núverandi hennar Brooke, eina manneskjan fyrir utan Jackie, mömmu Nicks, sem kemur eitthvað nálægt þessu með honum. Forrester-fjölskyldan, með Brooke innanborðs, ætlar að bretta upp ermar og stofna nýtt tískuhús. Taylor, geðlæknir og fyrrum næstum fangi, sálgreinir nú Stefaníu og kemst að því að heiftin og frekjan í henni, sem brýst stundum út og er að fæla Eric frá henni, á rætur sínar að rekja til æsku hennar og dómínerandi föður. Jamm. Sá ekki allan þáttinn í morgun, guði sé lof fyrir endursýninguna í dag kl. 17.28.

P.s. Sá þetta http://dv.is/frettir/2008/9/11/felag-stofnad-til-hofuds-bloggara/ á dv.is. Þetta á eflaust að vera fyndið ... en þetta lyktar af argasta einelti. Veit ekki til þess að Stebbi hafi gert nokkrum mein með færslum sínum.

 


Skemmtileg heimsókn

Við matarborðiðKíkti í heimsókn til Línu í dag og sýndi henni sitt af hverju. Henni fannst voða gaman að sjá viðtalið við sig í Kastljósi gærkvöldsins í tölvunni en hún fékk, eins og hinar fjölskyldurnar, notaða tölvu að gjöf frá Verzlunarskólanum. Ég sýndi henni líka þýðingarforritið af google og það er bara snilld.

Litla snúllan, Nadeem, var svolítið ergileg en Lína sagði að hún saknaði afa og ömmu alveg rosalega mikið, hún var svo náin þeim. Inn á milli var hún þó glöð og við skoðuðum nokkrar bækur saman. Ég sagði nokkur orð úr bókunum sem hún síðan endurtók á lýtalausri íslensku. Ekki að spyrja að börnum, þau eru eins og svampar ... Þau verða örugglega öll orðin vel talandi á íslensku eftir stuttan tíma. Sérstaklega þau yngstu sem byrja bráðum í leikskólanum.

Að koma úr EinarsbúðLína var að elda handa börnunum þegar ég kom og var svona að átta sig á því hvað væri til í kotinu. Inga kom skömmu síðar og við fórum í innkaupaferð í Einarsbúð. Þar var önnur palentínsk kona fyrir og þær voru ánægðar að hittast. Einar kaupmaður frétti af ostaskeraleysinu á heimilinu og gaf Línu eitt stykki, ekki málið. Mér tókst með leikrænni tjáningu þegar heim var komið að bjarga henni frá því að skella 2 lítra kók í frystinn ... hehehhe.

Enn er fjölskyldan sjónvarpslaus, Kjartani tókst ekki að laga þetta litla, gamla sem hún er með, það vantaði fjarstýringuna. Það kemur gott sjónvarp eftir nokkra daga og þá verður gaman. Kjartan tók litluna sína með, hana Eygló, og hún var hálfsmeyk við allt þetta ókunnuga fólk.

Kíkt á KastljósVinkona Línu kom í heimsókn með börnin sín fjögur og okkur Ingu fannst orðið svo kátt í kotinu ... vildum líka gefa þeim frið, að við létum okkur hverfa. Æsispennandi strætóferð verður síðan farin á föstudaginn með Línu og börnum en þá verður læknisskoðun á sjúkrahúsinu. Sá á börnunum sem komu í heimsókn að þau voru þegar búin að fara í slíka skoðun, greinilega í blóðprufu, þau voru með plástur ...

Svo átti yngri strákurinn „minn“ afmæli í gær og mögulega verður lítil veisla á morgun. Nóg að gera þessa dagana. Unglingarnir úr hinni fjölskyldunni eru svo æðislegir, brosmildir og glaðir með þetta allt. Eldri systkinin tala bæði smávegis í ensku og ég er kolfallin fyrir þeim líka.

Kjartan og EyglóSvo veit ég að ýmislegt á eftir að koma betur í ljós varðandi hefðirnar ... Lína setur t.d. bara á sig höfuðklút þegar hún fer út, svona eins og við förum í úlpur, en notar hann ekki heima. Þegar Kjartan kom til að laga sjónvarpið og þvottavélina bjóst ég við að hún skellti á sig slæðunni, en svo var nú aldeilis ekki, hún kemur fram við hann á nákvæmlega sama hátt og okkur Ingu. Konan sem við hittum í Einarsbúð var í sparifötunum, ógurlega fallegum en framandi fötum. Heima gengur hún eflaust í gallabuxum, eins og Lína.

Þetta verður skemmtilegt og ekki síður lærdómsríkt verkefni ... auðveldara með hverri vikunni, tjáskiptin eru kannski erfiðust en samt ótrúlegt hvað við getum þó gert okkur skiljanlegar ...


Einstakar móttökur, stórgjöf og fyrirhuguð ... kaffiuppáhelling

Fékk yndislegan tölvupóst áðan frá Skagakonu sem sagði mér af móttökum sem ein fjölskyldan fékk í blokkinni sinni. Hér kemur úrdráttur úr bréfinu: 

Það kom hingað maður í vinnuna til mín og sagði mér það að ein fjölskyldan hefði verið að flytja í íbúð beint á móti hans fyrrverandi, syni hans, tengdadóttur (sem kom hingað til Íslands frá Gvatemala fyrir rúml.ári ) og eins árs tvíburum ;-)

Nema það að þessi maður fór inn á google-translate, http://translate.google.com/translate_t#  skrifaði þar á ensku og þýddi yfir á Arabísku: Verið velkomin í blokkina og ef ykkur vantar eitthvað þá endilega komið bara og biðjið um aðstoð, við búum í íbúðinni beint á móti. Þetta prentaði hann út, fór og keypti blómvönd og þegar hann rennir upp að blokkinni eru þau einmitt að koma heim ásamt stuðningskonu og túlkinum. Hann gefur konunni blómin og réttir henni blaðið sem hann prentaði út á Arabísku. Konan varð rosalega ánægð og túlkurinn alsæll og á leiðinni upp hittu þau tengdadótturina, börnin hlupu inn í íbúðina hennar og beint inn í stofu að skoða dótið hjá litlu tvíburunum.

Um rúmlega níu sama kvöld er bankað hjá þeim og þar fyrir utan stendur „flóttakonan“ og eftir smá líkamstjáningu ..hehe.. fara konan, sem heitir Anna og tengdadóttirin sem heitir Thelma, með henni yfir í hennar íbúð, þar var hún með fisk, ýmislegt meðlæti, eldavél og dósaupptakara ... sem hún var ekki alveg viss um hvernig ætti að nota. Svo þær tóku sig bara til og elduðu á staðnum fyrir konuna og börnin þessa dýrindis máltíð og þau voru svo alsæl.  

Þetta fannst mér svo frábært hjá þeim að ég mátti til með að leyfa þér nýbakaðri ömmunni að heyra.

Stóra myndaorðabókinFleiri yndislegheit ... Forlagið ætlar að gefa öllum fjölskyldunum Stóru myndaorðabókina en það er einstök bók sem á eftir að hjálpa fólkinu gríðarlega mikið í íslenskunáminu. Þetta er engin smágjöf, hver bók kostar um 15.000 krónur og þetta eru átta stykki!

Komst að því í gær að Lína er hrifin af kaffi (alvörukona) og fer núna á eftir og kenni henni að búa sér til góðan kaffisopa. Hún er með brúsa, plastkaffitrekt sem kom í söfnuninni í sumar, nokkra filterpoka og svo afgangskaffi úr afmælinu mínu sem er ekki slorkaffi, Krakatá frá Kaffitári. Nú verður búinn til góður sopi í dag. Held að það megi alveg drekka kaffi þótt það sé akkúrat Ramadan núna. Annars fær hún sér bara sopa í kvöld.

Viðbót: http://www.unhcr.org/news/NEWS/48c54ef44.html


Heimsókn, hittingur og klikkuð syfja ...

Strætó í hátíðarbúningiJon StewartÞrátt fyrir klikkaða syfju ákvað ég að vaka eftir Jon Stewart en fyrsti þátturinn hans var á Stöð 2 í kvöld, seint. Hefði eflaust notið hans betur ef ég hefði náð blundi í dag en fannst samt gaman. Fékk líka skemmtilega heimsókn fyrr í kvöld ... en Katrín Snæhólm og Zordís kíktu í himnaríki, sú síðarnefnda í fyrsta sinn. Þær komu með gulrótarköku úr Björnsbakaríi og fengu guðdómlegt kaffi. Zordís færði mér frábært verk eftir sig, það fer beint á vegg í eldhúsinu sem hefur beðið eftir flottri mynd frá upphafi. Ég var farin að geispa eins og algjör dóni ... enda bara fimm tíma svefn sl. nótt. Það verður gott að sofa út í fyrramálið.

Lína og ungur vinurEftir sjúkraþjálfun, súpu og salat á Skrúðgarðinum var orðið stutt í hittinginn við flóttakonurnar en hann var haldinn í Þorpinu, flottu unglingamiðstöðinni á Skaganum. Mjög gott var að hafa túlk en annars gengur okkur Línu bara vel að skilja hvor aðra. Leiklistarferill minn í Heilsubælinu í gamla daga (ég var bláa öxlin sem sást stundum í) hefur greinilega skipt sköpum. Við fengum ensk-arabískar orðabækur í dag, litlar og handhægar, og þær eiga eftir að koma sér vel þrátt fyrir leikhæfileikana.

Snúllan í snókerBörnin léku á als oddi, búin að hvílast eftir ferðalagið langa, og unglingarnir litu ekki upp úr tölvunum. Eitthvað kannast maður við það ...

Litlan mín steinsvaf allan tímann í sófa í salnum þar sem við hittumst og rumskaði ekki þrátt fyrir hávaða í hinum börnunum. Stelpan mín bara svaf og svafYngsta barnið í hópnum, lítill krúttmoli, bræddi mannskapinn en hún var virkilega fjörug og athafnasöm, var uppi í fanginu á öllum, teiknaði á næstum allt sem hún náði í og prófaði snóker við litlar vinsældir strákanna minna sem voru í miðjum leik. Konunum fannst einstakt að heyra að innanbæjarstrætó hefði flaggað í tilefni af komu þeirra í bæinn og við VinkonurLína ætlum einmitt saman í strætóferð á föstudaginn með krakkana. Besti samgöngumátinn og krakkar elska að vera í strætó.

Virkilega fínn og skemmtilegur dagur. Væri reyndar alveg til í að „endurtaka“ heimsókn Katrínar og Zordísar og vera þá ögn meira á lífi ... Vonandi koma þær aftur áður en Zordís flýgur heim til Spánar. Henni virðist hafa gengið hreint ágætlega að aðlagast menningunni ytra, mataræðinu, tungumálinu og fleira ... lætur bara vel af búsetu sinni á suðlægum slóðum þótt hún geti reyndar ekki nálgast þorramat þar.


Löng bið og svo kom rútan ... (pínkuponsu bold líka)

Við komuna til ÍslandsVið Inga vorum orðnar ansi framlágar í nótt að ganga þrjú þegar rútan ók loksins upp að húsinu. Afar þreytt fjölskylda kom út úr rútunni og gekk í fylgd okkar inn á nýja heimilið. Þreytan var svo mikil að ég laumaði bara niðurskorna álegginu inn í ísskáp aftur, engin hafði lyst á neinu. Vona að heita súkkulaðið hafi enn verið volgt í brúsanum í morgun fyrir börnin. Við sýndum okkar konu það helsta og buðum svo góða nótt. Sem betur fer talar hún einhverja ensku. Hún er virkilega geðþekk og minnir mig bara á dugnaðarlega, íslenska móður sem hefur góða stjórn á börnum sínum sem voru svo þæg ... og sæt! Strákarnir eru 11 og 9 ára og mjög líkir í útliti, við héldum lengst af í aðdragandanum að sá yngri væri 5 ára og ætti 6 ára afmæli í dag en hann á 9 ára afmæli í dag.

 

Syfjuð IngaKristinn og IngaMikið vona ég að þau öll fái góðar móttökur á Íslandi, þau hafa nógu lengi verið óæskilegar persónur í Írak og eru ekki velkomin til yfirfullra nágrannalandanna, hvað þá heim til Palestínu. Við munum hitta flóttakonurnar okkar í dag og þar verða líka staddir túlkar. Þótt við höfum getað átt tjáskipti í nótt þá er frábært að geta komið ýmsum hlutum á hreint. Í dag verður t.d. lokið við að tengja gamla sjónvarpið, sem kom um 11 leytið í gærkvöldi og þvottavélina. Það vantar vissulega milljón hluti, eins og t.d. körfu undir óhreina þvottinn, en þetta verður bara svona og ég átti t.d. ekki slíka körfu þegar ég fór að búa. Af augnaráði „okkar konu“ í nótt sýndist mér að henni fyndist allt gjörsamlega fullkomið og meira en það.

Kristinn, sem er að gera heimildamynd um komu flóttakvennanna, hjálpaði okkur Ingu við að loka gatinu á eldhúsinréttingunni þar sem uppþvottavélin var hjá fyrri íbúa, við negldum hreinlega efnisstranga fyrir og eldhúsið gjörbreyttist.

Ásta fór á fundinn vegna Sementsverksmiðjunnar í gær og var mjög ánægð með hann. Get spurt hana betur út úr næsta mánudagsmorgunn þegar sumarfríinu lýkur.

Gömul mynd úr boldinuMargt dramatískt hefur gengið á í boldinu undanfarið. Stefanía er í vondum málum þótt hún hafi ekki hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann en systir Brooke sýndist hún hafa séð hana gera það. Jackie og Steffí hatast og þetta var glæsilegt tækifæri fyrir Jackie að hefna sín. Með hjálp Nicks, sem syrgir brottför Brooke úr hjónabandinu í fangið á Ridge (enn einu sinni), kúgar hún Forrester-tískufyrirtækið út úr fjölskyldunni. Stefanía tryllist þegar hún kemst að því og gleymir að vera þakklát fyrir að fjölskyldan vildi bjarga henni úr fangelsi með þessu. Brooke sefur loks hjá Ridge og þakkar honum fyrir að hafa stöðugt reynt við hana á meðan hún var gift Nick, fyrrum tengdasyni sínum. Dóttir Brooke, hún Bridget, viðurkennir í hjarta sínu að hún elski enn Nick, fyrrum mann sinn og núna síðast stjúpföður. Þau eiga örugglega eftir að ná saman ... en líklega ekki fyrr en hann er búinn að vera með Taylor, fyrri konu Ridge og mömmu tvíburanna og Tómasar, og eignast með henni barn sem reynist fyrir mistök dr. Bridgetar vera úr eggi Brooke ... ef kristalskúlan (Netið) mín lýgur ekki.

Sigur Nicks, eða að ná Forrester-fyrirtækinu, er ekki jafnsætur og hann vonaði því að Brooke, sem var að yfirgefa hann, vill ekki taka þátt í svona hefnd og selur honum eigin hlutabréf í fyrirtækinu. Bara sjokk.


mbl.is Flóttafólkið brosti við heimkomuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 12
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 315
  • Frá upphafi: 1528985

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 266
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband