Færsluflokkur: Bloggar

Nýtt hótel, sjónvarpsstjarna og fyrirhugaðar móttökur

Hótel LaxnesSamstarfskona mín skutlaði mér í Háholt eftir vinnu á föstudaginn og þannig gafst tími til að kíkja á nýja hótelið sem var að opna rétt við stoppistöðina mína, Hótel Laxnes. Fékk boðskort í opnunina og fannst voða gaman að geta kíkt þótt það væru bara í 10 mínútur. Þetta var mjög flott og næst þegar skellur á brjálað veður og strætóbílstjórarnir væla: „Vindhviðurnar eru 40 m/sek á Kjalarnesi, snökt, snökt, við förum ekki,“ þá verður hægt að gista þarna og hafa það virkilega gott. Tala nú ekki um ef maður getur gripið sætan karl af stoppistöðinni með sér ... múahahahaha, ókvæntan að sjálfsögðu, ég er dama! (Myndin er stolin af öðru bloggi, sorrí glamour-lady) Smile

AkranesÍbúafundur hófst núna kl. 17 í dag í Bæjarþingsalnum á Akranesi um starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar. Það verður án efa fjörugur fundur, enda margir mjög á móti því að leyfið verði endurnýjað. Ekki séns að fara þótt ég hafi heilmikinn áhuga á að kynna mér málstað beggja aðila.

Heyrði í Shymali, indversku vísindakonunni minni sem var alltaf samferða mér í strætó, en hún vinnur hjá Rauða krossinum núna. Hún segir að barnasængurnar komi í dag og þar með létti af mér stærsta áhyggjuefninu. Shymali og Anna Lára hjá RK hafa ótrúlega mikla yfirsýn. Ein stuðningskonan sagði í gær að það vantaði dýnu í barnarúmið sem hún var með. „Talaðu við Ingu eða Gurrí, þær eru með aukadýnu,“ og konan kom í gærkvöldi og sótti dýnuna. Sumir þola ekki að vinna undir álagi en þessar tvær hafa sýnt að það er hægt að hlæja og hafa gaman þótt mikið sé að gera. Mikill heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim.

BorgarnesStuðningsfjölskyldurnar koma líka úr Hvalfjarðarsveit og Borgarnesi, a.m.k. ein úr Reykjavík, og vegna fjarlægðar eru þær vissulega óvirkari en samt ... einn í þeim hópi er meira að segja talandi á arabísku sem er bara snilld. Svo ætlar hún Amal, the Palestínukona á Íslandi, að flytja á Skagann í heilt ár til að vera konunum innanhandar. Þessar elskur verða farnar að borða þorramat áður en við vitum af! Hehehehe ...

Viðbót: Ísskápur er kominn, barnasængin líka, búið að búa um rúmin og sækja meira punt sem elsku Habitat gaf. Inga er að sækja matvöruna í Einarsbúð núna og þá verður hægt að gera eitthvað af viti matarkyns handa fólkinu okkar í kvöld/nótt þegar það kemur. Maður finnur sér alltaf eitthvað til að hafa áhyggjur af ... núna er það gatið þar sem uppþvottavélin var, hvað er hægt að setja þar ... arggggg!

Gísli EinarssonÉg fékk upphringingu frá bæjarskrifstofunum áðan og í framhaldinu kom Gísli Einarsson, the vestlandssjarmör, og myndaði íbúðina „okkar“. Ef vel tekst til með fréttina þá ætti Þröstur bloggvinur að sjást en hann kom um sama leyti með tandurhrein sængurfötin og svo auðvitað tuskudúkkurnar og bangsana eftir hreinsunina. Því var öllu hrúgað í barnarúmið hjá litlunni og myndað en megnið af því fór reyndar ofan í poka aftur og verður dreift til fleiri barna. Býst við að þetta komi í fréttum RÚV klukkan sjö í kvöld. Vil sérstaklega taka fram að sjónvarpsvélar bæta a.m.k. 20 kílóum á sumt fólk og sumt fólk blaðrar þvílíkt þegar það er stressað þótt það líti út fyrir að vera rólegt og kemur ekki helmingnum að sem það langar til að segja ...

Kannski ekki alveg svona ...Mér líst mjög vel á móttökuathöfnina sem verður í kvöld/nótt. Tveir sjálfboðaliðar um hverja fjölskyldu munu bíða á tröppunum og bjóða fjölskylduna velkomna, afhenda konunni lyklana, fara með henni og börnunum inn í íbúðina og gefa þeim hressingu, sýna þeim það allra helsta og leyfa þeim svo að fá frið. Finnst þetta frábær hugmynd hjá Rauða krossinum. Svo verður móttaka á morgun þar sem við getum spjallað við okkar fólk með aðstoð túlka, þá getum við t.d. spurt hvort við eigum að færa einhver rúm milli herbergja, hvað vanti og hvað þær vilji mikla aðstoð frá okkur. Mín kona sér út á hafið, svona á milli húsanna, og úr hinum enda íbúðarinnar sést í Akrafjallið, bara gaman.

Allt að smella saman ...

Þröstur og tuskudýrinJæja, allt virðist vera að ganga upp. „Míns“ fékk reyndar of mörg baðhandklæði á meðan önnur íbúð er alveg handklæðalaus og það fattaðist náttúrlega ekki fyrr en búið var að þvo þau öll, þurrka og brjóta saman ... heheheh. Annars sluppum við vel við þvottastand, elskan hann Þröstur bloggvinur, sem er með þvottahúsið hérna á Skaganum, tók t.d. sængurfötin og þvoði fyrir þá sem vildu. Ekki þarf fólkið því að sofa með brakandi ný rúmföt utan um sængurnar sem er frekar óþægilegt. Dót flutt úr geymsluVona að sæng og koddi fyrir litluna mína, þriggja ára, komi á morgun. Þröstur tók reyndar líka öll tuskudýr og bangsa og hreinsaði fyrir okkur. Eymundson á Akranesi gaf öllum krökkunum skólatöskur með smá skóladóti í, frábær gjöf. Sýnist að við munum bara kíkja eftir ostaskerum og öðru smottiríi sem við eigum auka í skúffunum hjá okkur sjálfum. Annars er þetta allt að smella saman. Pólverjahópurinn hefur verið óþreytandi að flytja þunga dótið og stundum lent í spælandi uppákomum, voru komnir með ísskáp upp á þriðju hæð og hann reyndist of stór fyrir ísskápsgatið. Þeir bara brostu og báru hann niður og inn í bíl aftur og fóru með í aðra íbúð, þessar elskur. Ekkert að stressa sig.

Ella, Kjartan o.fl. í pítsuveislunniHaldin var fínasta pítsuveisla hjá Rauða krossinum í kvöld og þá var líka úthlutun á ýmsu smottiríi, eins og uppþvottalegi, sápum og slíku. Einar í Einarsbúð er líka að taka saman átta matarpakka sem innihalda brauð, ost, kornflakes, ávexti og annað til ískáparnir verði ekki tómir aðra nótt og hægt sé að fá sér morgunverð á þriðjudaginn.

Sigrún og fína dótið úr GunnubúðÍbúðin „okkar“ er að verða skrambi fín og ekki mörg handtök eftir. Sigrún, mamma Ingu „stuðnó“, tók sig til og þvoði upp allt leirtauið í dag. Nýlega kom þessi líka fíni kassi úr Gunnubúð (IKEA) sem innihélt allt það bráðnauðsynlegasta á heimili. Svo kemur eitthvað meira úr Habitat á morgun en það eru gjafir frá versluninni til að gera huggulegt í íbúðunum.

Ella með litluna sína í eldhúskróknumKjartan og Ella, sem eru líka stuðningsfjölskylda með okkur Ingu, komu í dag, ásamt tveggja ára dóttur, og setti Kjartan stóra IKEA-rúmið saman á mettíma, greinilega vanur, og herti líka betur skrúfurnar á rúmum strákanna en við Inga höfðum engin verkfæri til þess um daginn. Þau eru frábær hjón, viðtal við þau var í Fréttablaðinu á föstudaginn, minnir mig. Sú stutta hreifst mjög af brosandi bollastelli sem einhver hafði gefið og við Inga fundum í Arnardal á dögunum en Arnardalur var áður æskulýðsmiðstöð og þar áður elliheimili (eða þegar ég var lítil), þar sem punt og annað var geymt. Bollastellið settum við á hilluna fyrir ofan eldhúsborðið. Kona sem var að flytja úr „nýju blokkinni“ hafði samband og vildi gefa þetta fína eldhúsborð og stóla og það var þegið með þökkum.

Ég vanræki erfðaprinsinn og kettina án nokkurrar miskunnar þessa dagana en kettirnir hafa víst bara sofið í dag og sonurinn lært dönsku og fleira. Hann tók reyndar handklæðaþvottinn alfarið að sér og uppskar pítsu frá Rauða krossinum í staðinn. Ég greip eina með heim, þar sem voru einhverjir afgangar.

Er holið ekki bara að verða fíntMorgundagurinn verður annasamur líka, það þarf að búa um rúmin þegar Þröstur kemur með sængurfötin, leggja allra síðustu hönd á íbúðina, jafnvel þurrka af aftur og ryksuga, svo þarf að smyrja samlokur annað kvöld og hita kakó (súkkulaði) til að bjóða fólkinu þegar það kemur aðra nótt. Handbók á arabísku mun bíða allra með ýmsum nauðsynlegum upplýsingum. Við sýnum þeim það helsta um nóttina og látum okkur svo hverfa sem fyrst, þau verða örugglega dauðþreytt eftir langt og strangt ferðalag og þurfa að ná að sofna. Vá, það er bara alveg að koma að þessu! Mikið hlakka ég til að hitta „ömmubörnin“ mín.


Tilhlökkun á Skaganum

Börn í flóttamannabúðum í ÍrakFlóttakonurnar frá Palestínu/Írak koma aðfaranótt þriðjudagsins og ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur stuðningsfólkinu. Ætlum þó að gæta þess að kæfa þær ekki í gæsku. Þetta eru ágætlega menntaðar konur, sumar háskólagengnar, en áður en viðskiptabannið skall á í Írak 1991 var menntunarstigið í Bagdad með því betra í heiminum, skilst mér. Því hefur hrakað en er samt gott miðað við aðstæður. Eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli, en hann sýndi flóttafólki frá Palestínu góðvild, hafa aðstæður þess breyst mjög svo til hins verra og þeim er ekki vært lengur í Írak. Nágrannalöndin eru yfirfull af flóttamönnum og vilja ekki taka við fleirum þannig að nú úr vöndu er að ráða! Ég fékk að heyra um daginn að sumum þætti grunsamlegt hvers vegna enginn vildi þessa flóttamenn, hvað væri að þeim ... vona að þetta svari því aðeins.

Börn frá PalestínuMæðurnar hlakka til að koma og eru mjög áhugasamar um Ísland, finnst líka frábært að koma á minni stað eins og Akranes. Áhugamál barnanna þeirra eru eins og annarra barna; fótbolti, sund, hjólreiðar, leikir ... og þau hafa líka mikinn áhuga á því að mennta sig. Held að sýn margra sjálfboðaliða hafi breyst eftir Rauða kross-fundina undanfarið. „Þetta fólk“ er ekki svo ólíkt okkur en einhverjir hafa talað um að ómögulegt hljóti að vera fyrir það að geta aðlagast.

Samstarfskona mín hefur ferðast mikið um Miðausturlönd. Hún hitti eitt sinn flóttamann frá Palestínu í flóttamannabúðum í Sýrlandi, minnir mig. Honum fannst frábært að hitta manneskju frá Íslandi og spurði hana með samúð í röddinni: „Er það virkilega rétt að Íslendingar eigi við mikið drykkjuvandamál að stríða?“ Konan hafði ógurlega gaman af þessu og fannst þetta í raun alveg einstakt.

Kíkti í íbúð minnar konu í gærkvöldi og það styttist óðum í að þetta verði mannsæmandi. Ég fann hvítar gardínur til að nota í beran baðgluggann og mamma hennar Ingu ætlar að laga þær aðeins svo hægt verði að koma þeim á stöngina. Komnir eru diskar, glös, hnífapör, panna og grunnurinn í eldhúsið og meira að segja notuð en fínasta tölva sem Verslunarskólinn gaf. Hvílíkur munur að koma úr viðbjóðslegum tjaldbúðum á gott heimili. Habitat gaf líka rúmteppi og fleira sem kemur á mánudaginn. Í bókabunkanum sem ég labbaði með yfir um daginn var reyndar engin Fyrsta orðabók barnsins, eins og ég hélt, hef líklega verið búin að gefa hana eða hún er enn vel falinn í bókakosti himnaríkis. Það hefði verið afar hentugt fyrir fjölskylduna að geta lært íslensku af henni og það auðveldar líka öll samskipti. Á sunnudaginn verða rúmin sett saman þótt okkur Ingu hafi tekist að skella löppunum undir rúm strákanna í gærkvöldi. Svo kemur þetta bara smátt og smátt, myndir á veggina, hillur í barnaherbergið og slíkt. Finnst ekki ólíklegt að flóttakonunum eigi þó eftir að finnast heimilin eins og flottustu hallir, svona miðað við fyrri aðstæður.

Þegar var verið að flytja dótið í íbúðirnar átta vantaði nokkrar hraustar hendur til þess. Pólsk kona sem er í verkefninu hringdi í fimm til sex landa sína sem komu allir hlaupandi og með þeirra hjálp tókst þetta og á stuttum tíma. Fólk er ótrúlega hjálpsamt. Ég verð þó að segja að ég dáist innilega að Rauða krossinum fyrir það hvernig hefur verið staðið að þessu verkefni, það hefur verið klikkað að gera undanfarna daga við að púsla hlutum saman en allt hefur gengið upp og án efa verður allt tilbúið þegar þessar elskur koma aðfaranótt þriðjudagsins. Krakkarnir mínir eru ekkert smá sætir ... við fengum að sjá myndir á síðasta fundi. Miðbarnið mitt verður sex ára daginn eftir komuna. Nú er ég orðin fimmtug og má því ammast svolítið fyrst sonurinn hefur ekki fjölgað mannkyninu, enda sagði ég alltaf við hann að ég væri of ung og óþroskuð til að verða amma. Núna síðustu vikurnar hefur mér fleygt fram, ótrúlegt hvað tölustafir geta áorkað miklu.

Jæja, þarf að fara að rjúka ... nú er klósettburstaafhending í íbúðirnar átta fram undan og eflaust sitthvað fleira. Þetta er bara gaman.


Hetju- og strætóferð dauðans með morðívafi

Ásta svaf á sínu græna eyra í morgun þegar ég fór í hetju- og strætóferð dauðans ... Ég svaf út, eða til kl. 7.10 (í stað 6.10), og beið svo fersk og spennt á stoppistöðinni á Garðabraut eftir strætó, brottför þaðan 7.43 sharp. Skúli sat við stýrið og brosti breitt, eins og alltaf þegar hann tók okkur upp í, enda er fólk sem flytur á Skagann valið til búsetu eftir útliti (og greind). Ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaða í vagninum og tel ég það hafa verið undirbúning fyrir það sem beið okkar í leið 15, hljóðlátara og banvænna.

Uppnám í strætóAllt leit sakleysislega út, yndislegi, brosmildi bílstjórinn á 15 bauð góðan dag þegar við Skagamenn skröngluðumst inn í Háholtinu og brostum á móti. Vagninn þægilegur, grannur sessunautur, 24 stundir í kjöltunni, hvað gat farið úrskeiðis? Allt í einu fór kliður um vagninn og farþegarnir byrjuðu að bylgjast ... eftir flugleið geitungs nokkurs sem flaug öskureiður um. Flestir í vagninum horfðu fullir hryllings á eiturvopnið sem leitaði sér að skotmarki en sessunautur minn, ungur, tilvonandi leikskólakennari, var trufluð og spurð af huggulegum útlendingi, sem sat fyrir aftan hana, hvar ákveðin gata uppi á Höfða væri. Hún yppti öxlum en ég tók málin í mínar hendur, enda þarf að horfa á heildarmyndina. „I´ll help you if you kill the wasp,“ sagði ég greindarlega en ákveðið við manninn sem svaraði: „Yes of course.“ Geitungskvikindið var framarlega í vagninum á þessum tíma og ónáðaði fólk sem var greinilega laust við taugar og hreyfði sig ekki. Grunar að einhver kjéddlíngin hafi verið með ilmvatn ... aldrei að gera slíkt á haustin, aldrei!!!

Allt í einu sá ég Elínu Mosókonu, sem sat ekki svo langt frá mér, takast á loft og á örskotsstundu var hún komin fremst í vagninn, næstum upp í fangið á brosmilda bílstjóranum. Geitungurinn hafði farið aftar, leitað þangað sem greindarvísitalan var há (ekkert fokkings ilmvatn) og nú voru góð ráð dýr. Ég rétti þeim útlenska 24 stundir, blaðið sem ég hafði ekki haft tíma til að kíkja í fyrir æsingnum og hann kýldi geitunginn með blaðinu mínu. Elín var komin aftur í sætið sitt og brosti ... þóttist vera voða róleg þótt hjartað hamaðist. Útlendingnum tókst ekki að myrða kvikindið, heldur æsti hann það upp þannig að Elín hljóp aftur fram í og að þessu sinni ákvað hún að sitja í fangi bílstjórans alla leið í bæinn til öryggis, líka eftir að það tókst að drepa kvikindið ... sem lauk ævidögum sínum í glugganum við hliðina á mér. Ég dáist óendanlega mikið að sjálfri mér. Ekki tók ég þátt í bylgjuhreyfingum annarra farþega nema að litlu leyti og þegar hinir farþegarnir ráku upp bæld öskur sagði ég bara „vúhú,“ sem er hetjulegra. Ég sagði „MY HERO,“ í þakklætisskyni við útlendinginn eftir þessa hetjudáð drápið og sem betur fer leit hann ekki á það sem bónorð, heldur  grín.

Ég sat uppi með útlendinginn í Ártúni og þurfti að finna réttu götuna fyrir hann. Það var brosmildi bílstjórinn á leið 15 sem vissi nákæmlega hvar þessi höfði væri og gat ég labbað með útlendu hetjunni niður milljóntröppurnar og við kvöddumst hjá brúnni, hann fór til hægri og ég til vinstri. Kveðjustundin minnti mig örlítið á Fýkur yfir hæðir, nema Heathcliffe hefði hlaupið í burtu, þessi labbaði bara niður Funahöfðann á meðan ég hljóp undir brúna og upp Lúmsku brekkuna, eiginlega mest að skipun sjúkraþjálfarans míns.

Það var gaman að koma í leið 18 eftir langa fjarveru. Þarna sat hægláti maðurinn í sömu fötum og venjulega, útlenska stelpan með hrikalega fallega rauða, krullaða,  síða hárið, þarna voru um fjórir Indverjar, meira að segja minn Indverji sem ég þekkti samt ekki fyrr en hann var að fara út, ekki á sama stað og ég að þessu sinni, og svo auðvitað þýðandinn sem sat og spjallaði við Svía nokkurn. Yfirleitt er þegjandalegt í strætisvögnum þar sem fæstir þekkjast, sumir eru morgunfúlir og svona. Í morgun var einhver skrýtin orka í gangi. Geitungurinn var örugglega engill sendur til jarðarinnar til að hrista okkur saman í leið 15 og þegar´ég kom í leið 18 var andinn þannig að líklega hefur nýlega flögrað þar um geitungur/engill.

Óska ykkur dásamlegs föstudags, hjartkæru bloggvinir nær og fjær. Sérdeilis hugheilar kveðjur úr Hálsaskógi.


Kaupmannskoss, smitandi gen, Stormsker hættur? og fl. o.fl.

Erna kaupmaður á milli Elínar og BogguFór með erfðaprinsinum í Einarsbúð í dag og kyssti kaupmanninn fyrir afmælisgjöfina sem hinn kaupmaðurinn, eða frúin, færði mér þegar hún mætti í veisluna. Vildi að kossinn hefði greitt matarreikninginn líka en þá hefði ég líklega þurft að senda mömmu. (Hún mamma kemur í bæinn bráðum og borgar skuldina mína ... tra la la) Það var ansi gott að komast aðeins út á meðal fólks en ég hef bara hitt krakkann og kettina síðan í sjúkraþjálfuninni í gær og erfðaprinsinn er alltaf í skólanum. Í Einarsbúð hitti ég gamla skólasystur (50) sem ég reyndi mikið að fá til að mæta í reunion sem verður 4. október nk. fyrir árganginn okkar. Hún sagðist vera lítill djammari og ég sagðist vera lítið skárri, eða fjarskalítið drykkfelld, en maður mætir nú til að hitta þessar elskur úr barnaskóla. Þó ekki væri nema bara til að vita hverjir eru fráskildir, fjárglæpamenn, forstjórar eða fúsir (til í tuskið) ... Þetta síðasta er nú bara grín. Ég held að ég sé alvarlega smituð af þessu geni sem er eignað karlmönnum (Pétri pan) og fer hátt í fréttum núna. Hitti Þröst Unnar bloggvin og gat aðdáunarlega stillt mig um að biðja hans þrátt fyrir að hann brosti ógurlega sætt til mín.

FlóttamannabúðirVinnufundur verður hjá Rauða krossinum í kvöld. Við Inga Ó., kona úr Rvík og hjón af Skaganum sem ég hitti í kvöld, verðum stuðningsfjölskylda þriggja barna móður sem á 10 ára og 8 ára stráka og 3ja ára stelpu. Við Inga fórum í íbúð „okkar konu“ á laugardaginn og gerðum hana ógurlega kósí með lömpum og ýmsu punti sem Skagamenn og fleiri hafa gefið. Eldhúsklukka komin upp á vegg, nokkrar tupperware-dollur inn í skáp, punt í hillusamstæðuna, gardínur fyrir rimlagardínulausa gluggann og fleira. Ég fann líka nýlegar og gamlar barnabækur í himnaríki, m.a. myndskreyttar orðabækur, eina síðan erfðaprinsinn var lítill, og slíkar bækur eru víst algjör fjársjóður þegar læra á íslensku eða til að hafa samskipti.

Þetta verður bara gaman en stuðningurinn á að vera fólginn í því að vera til staðar, kíkja í heimsókn, hjálpa til við innkaup, kenna á staðinn og slíkt. Mikið verður frábært fyrir konurnar að sleppa úr þessum lífshættulegu flóttamannabúðum en Ísland er fyrsta landið sem býðst til að taka fólk þaðan. Fólkið í búðunum er alls ekki velkomið til heimalandsins Palestínu eða nágrannalandana. Vonandi fylgja fleiri lönd fordæmi Íslendinga og bjóða fólkinu heimili.

Vitlaust veðurVerst að konurnar fluttu ekki hingað í vor og upplifðu yndislega sumarið okkar svona áður en skammdegið skellur á af fullum þunga. Þótt ég elski skammdegið og líka vond veður er ekki þar með sagt að aðrir geri það.

Vinkona mín í Reykjavík, sem hefur fúnkerað sem „eiginmaðurinn“ í lífi mínu síðan 1983, er afar handlagin og er búin að bjóðast til að skipta um klær á rafmagnstækjum (lömpum o.fl.) þar sem svokallað ammrískt rafmagn er í íbúðinni. Það er alla vega ódýrara en kaupa mörg millistykki.

Ætlaði að hlusta á Miðjuna, þátt Sverris Stormsker, í dag en annað hvort er hann hættur á Útvarpi Sögu eða á tónleikaferð um heiminn. Þurfti að afplána óhljóðin í Halldóri frænda í staðinn. Hann sér líka stundum um símatíma stöðvarinnar kl. 11-12 ... við óvinsældir einhverra í morgun.


Ósléttar farir móður minnar í Noregi og smá bold

NoregurMóðir mín brá sér til Noregs í sumar með gamalli vinkonu sem á þar son, tengdadóttur og barnabörn. Hún hreifst mjög af landi og þjóð og ferðin var einstaklega skemmtileg. Mamma gerði sér þó lítið fyrir einn daginn, skömmu fyrir heimför, og datt og slasaði sig. Norska heilbrigðiskerfið sagði hana óbrotna en með brest í axlarkúlunni. Þjónustan var dýr en verkjalyfin ótrúlega ódýr, enda samheitalyf ... sem virkuðu lítið sem ekkert.

Við heimkomu var mamma enn að farast úr verkjum og dreif sig í Orkuhúsið, einkarekna læknastofu þar sem viðmótið var víst rúmlega frábært og í ljós kom að hún var rifbeinsbrotin, upphandsleggbein var þverbrotið og tvö brot voru í hringnum í mjaðmagrindinni vinstra megin þar sem hafði líka blætt inn á vöðva. Hún var samstundis tekin af samheitalyfjunum, sett á verkjalyf sem virkuðu og líðanin varð betri í hvelli. Hún er byrjuð í sjúkraþjálfun og kemst þangað með leigubíl á strætóverði en beinbrotnum eldri borgurum stendur það til boða ... ef þeir eru svo heppnir að frétta af þeim möguleika. Nú skil ég betur hvers vegna sumir tala um að íslenska heilbrigðiskerfið sé „best í heimi“. Ég hef horft í „ranga“ átt, á t.d. sjúklingana sem eru neyddir til að sprauta sig sjálfir (eða finna einhvern sem hefur lært að sprauta) með blóðþynningarlyfi daginn fyrir aðgerð (a.m.k. á Kvennadeildinni) og síðan fleygt heim í sparnaðarskyni á meðan þeir eru enn fárveikir og hafa jafnvel engan til að hjálpa sér. Og fleira og fleira. Hugsa sér ef það yrði nú lagað ...

Bold-fólkiðBoldið er ótrúlega dramatískt núna. Shane, garðyrkjumaðurinn grunsamlegi, er horfinn úr lífi Forrester-fjölskyldunnar eftir að hafa verið barinn með “beisboll”kylfu af Hectori fyrir að reyna við Phoebe og bar því ekki vitni í réttarhöldunum gegn Taylor, geðlækninum geðþekka sem hefur þegar sálgreint einn fangavörðinn og veitt geðlæknislega aðstoð. Óvænt kallar verjandinn Storm (bróðir Brooke) ekkilinn sorgmædda, Thorne, í vitnastúkuna. Thorne vinnur þarna mikinn leiksigur og ef kviðdómendur hafa hjartað á réttum stað verður Taylor sýknuð og fær þar að auki fébætur fyrir álagið af því að hafa ekið á Dörlu, valdið dauða hennar og setið síðan í gæsluvarðhaldi í appelsínugulum búningi sem klæðir hana reyndar ágætlega.

Bleika myndavélinFór í Kringluna í gær og keypti mér bleika myndavél. Ég leitaði um alla Kringlu að ódýrri myndavél og fann ekki fyrr en í Hagkaup á annarri hæð. Fékk Kringlu-gjafakort frá mömmu og gat því ekki farið í Elkó. Hagkaup bjargaði málum og svo var þjónustan þar mjög góð. Stúlkan vildi þó endilega selja mér aðeins dýrari vél en ég varð heilluð af þeirri dökkbleiku, á mér sannast nefnilega það fornkveðna ... eða pretty in pink.


Farin í hundana ...

LabradorEftir vinnu á föstudaginn heimsótti ég hjón, góða vini sem ég hef ekki séð allt of lengi, enda búa þau á Kjalarnesi, hver fer eiginlega þangað í heimsóknir? (djók) Kynntist þeim 2001 þegar ég tók viðtal við þau og fannst þau gjörsamlega frábær. Hef haldið sambandi síðan og þegar ég sendi þeim afmælisboð í SMS-i (eftir boðskortaklúður enn eitt árið) fyrr í mánuðnum fékk ég að vita að þau hefðu verið að eignast 11 „barnabörn“, eða labradorhvolpa og ekki séns að þau kæmust frá. Berglind var búin að hafa sig til, orðin glerfín fyrir Eric Clapton-tónleikana 8. ágúst sl. þegar tíkin þeirra breytti áformunum og aðfaranótt 9. ágúst höfðu þau í nógu að snúast við að taka á móti. Fyrstu dagana á eftir þurfti síðan að skiptast á að vaka yfir litlu krúttunum og passa að allur fjöldinn fengi nóg að drekka og að mamman legðist ekki ofan á þá. Þetta eru fimm svartir hvolpar og sex ljósir, hreinræktaðir auðvitað. Þeir eru komnir með sjónina, aðeins byrjaðir að leika sér og þvílíkir gullmolar. Svartur labradorFjórir eða fimm hafa þegar eignast ný heimili en fara þó ekki að heiman fyrr en í október.

Eins og BilliBilli, smáhundurinn á heimilinu, er eins og fúll gamall frændi þessa dagana. Enginn sýnir honum athygli, allir fara beint til hvolpanna og dást að þeim. Áður var hann krúttið á heimilinu. Lítill, svartur og loðinn krúttmoli, man ekki af hvaða tegund hann er, hann líkist hundinum á myndinni til hægri. Hann lá í körfunni sinni og það urraði í honum við enn eina gestakomuna til hvolpanna. Ég ákvað skömmu seinna að sýna þessum gamla frænda að hann væri enn mesta krúttið og öðlaðist miklar vinsældir fyrir vikið. Þetta er svona eins og að gleyma ekki eldri systkinum þótt þetta nýfædda sé mest spennandi. Í næstu heimsókn ætla ég að taka myndavél með og skella myndum af hvolpunum, og auðvitað Billa, á bloggið. Hafsteinn bauðst til að senda mér myndir en kann ekki að minnka þær og ég veit ekki hvort tölvan mín, póstforritið, þoli að fá risamyndir.

Nú verður tíkin sett á pilluna eða tekin úr sambandi. Þetta hefur verið mikið álag fyrir hana ... átta spenar og 11 síhungraðir munnar. Þessir ljósu fengu að drekka á meðan ég stoppaði við og þeir svörtu lágu á meðan í einni kássu í lítilli körfu og steinsváfu.Líka klikkkuð vinna fyrir fjölskylduna.

Ég átti einu sinni Labrador-tíkina Nóru og syrgði hana sárt og lengi þegar hún varð fyrir bíl og dó. Hef ekki haft aðstæður til að vera með hund síðan og læt kettina nægja. Þeir eru líka fínir! Það er samt ekki erfitt að fara í hundana eftir svona heimsókn ... ummmmm!


Símtöl, misskilningur og fullt af boldi ...

KvikmyndavélFékk skemmtilega upphringingu áðan frá gamalli nágrannakonu í bænum. Hún vinnur við nýja, íslenska spennuþætti sem verið er að taka upp fyrir sjónvarp og vantaði góða manneskju til að sjá um kaffið ofan í mannskapinn á mánudaginn þegar tökur fara fram rétt við Akranes. Hefði hlaupið til sjálf ef ég væri ekki að fara að vinna. Er búin að finna góða og hressa Skagakonu í verkið og henni fannst þetta bara skemmtilegt. Samt sagði ég henni að það væri ekkert víst að Baltasar Kormákur væri einn leikaranna. Hún hló bara og sagðist eiga svo sætan karl að það skipti engu ... hehehe

Í vikunni fór ég á góðan og fróðlegan fund hjá Rauða krossinum vegna komu palestínsku flóttakvennanna á Skagann. Að mörgu þarf að huga og m.a. tungumálamisskilningi ... Flóttamannafjölskylda, sem hafði verið um hríð á Íslandi, fékk bréf frá Rauða krossinum sem hófst á Kæra fjölskylda. Konan sem opnaði bréfið þekkti orðið fjölskylda en fletti upp í orðabók á kæra ...

Shane grunsamlegi garðyrkjumaðurinnBOLD: „Þessi rotta er að plana eitthvað, sérstakan kvöldverð kannski,“ sagði slökkviliðsmaðurinn Hector áhyggjufullur og átti við Shane, garðyrkjumanninn grunsamlega, sem hefur ofurást á Phoebe og hún þorir ekki að hafna því að hann er lykilvitni í réttarhöldunum gegn Taylor, móður Phoebe. Nokkuð er til í þessu þar sem sérstakur kvöldverður bíður Phoebe, kertaljós og krúttlegheit. Hún sendir Shane út í vínbúð til að kaupa kampavín og hringir síðan óttaslegin í Hector. Verst að Shane hafði gleymt veskinu og kom til baka þegar hún var að tala ... og hafði líka nýlega uppgötvað ljósmyndir af sjálfri sér uppi á vegg hjá Shane.

Harry, vinur Phoebe, og ég veit ekkert um, keyrir í ofboði og finnur heimili Shane og bankar upp á. Hann vill bjarga dömunni sem vill þó ekki láta bjarga sér, segist ráða við þetta. Phoebe segir við Shane að hún laðaðist vissulega að honum en væri ung og þetta gengi allt of hratt fyrir sig. Réttarhöldin eiga að vera daginn eftir og þau gætu vonandi fagnað saman eftir þau. Shane gleðst við þetta.

Saksóknari kallar dr. Taylor (geðlækni) lygara og morðingja í opnunarræðu sinni og kviðdómurinn horfir á doktorinn með viðbjóði. Þetta verður erfitt verk fyrir Storm lögfræðing sem er, held ég, bróðir Brooke.

Bridget talar við barnsföður sinn, Dante, mann og barnsföður Feliciu, systur Bridgetar, og segir að hún sé búin að missa fóstrið. „Ó, ég trúi þessu ekki, barnið okkar!“ segir Dante. „Ég er svo misheppnuð,“ segir Bridget en þetta er í annað skipti sem þessi elska missir fóstur.

Shane kemur ekki sérlega vel fyrir í vitnastúkunni, enda hefur hann unnið sem garðyrkjumaður hjá Taylor í einhverja mánuði og saksóknari lætur hann líta út fyrir að vera tryggan starfsmann sem myndi ljúga fyrir atvinnuveitanda sinn.

Þegar Storm verjandi gagnspyr Shane og er kominn vel af stað þarf dómarinn að gera hlé til næsta morguns ... og Phoebe í djúpum skít, þarf að hitta ógeðið hann Shane ... Harry liggur í leyni og þegar Shane gerist nærgöngull stekkur hann fram og kýlir Shane. Shane kýlir til baka og Harry rotast. Hector, sem BB-aðdáendur vita að blindaðist í eldsvoða, kemur með beisbollkylfu og slær út í loftið. Þátturinn endar áður en áhorfandinn fær að vita hvort hann hitti Shane eða Phoebe! Það blæðir alla vega úr einhverjum ...

Símtal áðan: „Ég ætla að vera rosalega góð við þig ... og kynna þig fyrir Herbalife!“ Ég keypti auðvitað margra ára birgðir og svo er ég líka að hugsa um að verða Vottur Jehóva eftir fróðlegar heimsóknir undanfarið ...


Krumpaður sjór og fokinn gámur

Krumpaður sjórÞað virtist vera hið besta veður rúmlega 6 í morgun, engin rigning og gluggarnir mínir því þurrir að innanverðu. Þegar ég rýndi út á sjó sá ég að hann var ansi krumpaður og bylgjurnar skrýtnar. Þá vissi ég að það væri nokkuð hvasst. Bjartsýniskonan Ásta var mætt 6.30 að vanda og tilkynnti mér að litlu hefði munað að hún sleppti því að fara vegna hvassviðris. „Ef það væri hálka núna hefði ég ekki farið, sagði hún. „Nú? Hviður á Kjalarnesi eru komnar talsvert niður fyrir 30 m/sek,“ sagði ég steinhissa við ævintýrakonuna Ástu. Enn er mér í fersku minni þegar við fórum einn „góðviðrisdaginn“ fyrir kannski 2 árum á milli og hviðumælirninn í Mosó sýndi hviður upp á 42 m/sek. Ásta viðurkennir að vera orðin meiri kjúklingur en áður. Það er reyndar hættulegra að fara með strætó í miklum hviðum en straumlínulaga einkabíl, hún viðurkenndi það reyndar.

Það vantar illilega annan hviðumæli á Kjalarnesið og staðsetja hann nær Hvalfjarðargöngunum því stundum er afar hvasst þar en hálfgert logn þar sem mælirinn er, skammt frá Kollafirði. Á þeim stað (milli gangna og Grundahverfis) hafa orðið mörg óhöpp vegna hviða ...

Kjalarnesi í morgunVið sáum fokna gáminn á leiðinni í bæinn, þennan sem orsakaði lokað Kjalarnes um tíma í nótt, eins og kom fram í fréttunum kl. 8. Litum skelfingu lostnar hvor á aðra og vorum afar fegnar því að vera ekki á gámabíl, heldur drossíu. Mættum strætó Rvík/Akranes í Kollafirði en ég kunni ekki við að veifa bílstjóranum sem hefði að öllu óbreyttu kippt mér með frá Skaganum í ferðinni kl. 7.41. Hann hlýtur að vera svekktur að hafa misst mig sem farþega, sá verður glaður á föstudaginn eftir viku þegar ég kem í strætó hækka fegurðarstuðul farþeganna ... djók!

Jæja, þá er Michael Jacson búinn að ná okkur Madonnu í aldri ... hann er fimmtugur í dag, blessaður öldungurinn. Sem minnir mig á að Borghildur Anna á líka afmæli í dag. Michael og Borghildur, innilega til hamingju með afmælið.

Ég mæli svo um og legg á að dagurinn ykkar verði hrikalega skemmtilegur og einnig fullur af óvæntum happdrættisvinningum!


Óveðrið Ágúst Ólafur?

Lekur gluggiÉg get ekki að því gert en ég fyllist alltaf miklum spenningi þegar von er á vitlausu veðri. Eini gallinn er sá að opnanlegu fögin í gluggum himnaríkis eru ekki vatnsheld frekar en nýju fínu svaladyrnar. Samt spennandi. Kvöldverkin verða því þau að troða eldhúsrúllubréfum til að þétta þau opnanlegu og setja handklæði í gluggana fyrir neðan. Búist er við snörpum hviðum á Kjalarnesi, enda austanátt í kortunum og því verður kannski bara klikkað fjör í bílnum með Ástu upp úr kl. 6.30 í fyrramálið. Mikið er gott að búa á Íslandi þar sem allra veðra er von. Hugsa þó með samúð til blaðberanna sem þurfa að berjast með dagblöðin til okkar fréttafíklanna eldsnemma í fyrramálið. Væri ekki sniðugt að nefna óveður vetrarins (þetta veður telst varla með þar sem enn er sumar) eftir alþingismönnunum okkar? Það koma varla fleiri lægðir en 63 á einum vetri, eða hvað ... Ja, ef við byrjuðum t.d. núna, svona til öryggis, þá gæti óveðrið sem hefst í nótt gengið undir nafninu Vatnsveðrið Arnbjörg Sveinsdóttir, það næsta Fellibylurinn Atli Gíslason, (ef t.d. leifar Gustavs berast hingað) þá Óveðrið Ágúst Ólafur Ágústsson o.s.frv. Annars væri auðvitað snjallara að nefna þetta veður sem skellur á í nótt Ágúst Ólaf af því að það er enn ágústmánuður.  

Ýsa var það, heillinSoðin ýsa var í hádegismat í mötuneytinu í dag, bara skrambi góð með „karpullum“ og bræddu smjéri. Ekki skemmdi fyrir að Davíð, ástkær frændi minn og systursonur, var borðherrann minn.

Davíð hóf nýlega nám í Kvikmyndaskólanum sem er staðsettur á hæðinni fyrir ofan mig í Hálsaskógi og líst ótrúlega vel á námið.Við hámuðum í okkur fiskinn og salat og skiptumst á fréttum um frábæru fjölskylduna okkar. Bara jólin.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 177
  • Frá upphafi: 1528996

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 150
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband