Færsluflokkur: Bloggar

Heilaþvottur Ólafs?

Islam Islam„Eitthvað fannst mér ræðan hans Ólafs í gær sérkennileg,“ sagði Ásta í morgun. Umferðin á Kjalarnesinu var lítil, enda klukkan bara 6.41. Við vorum löngu á undan fyrsta strætó frá Skaganum sem var í þessum töluðum orðum að leggja af stað frá Skrúðgarðinum. Við vorum báðar syfjaðar og nokkuð andlausar. Ég var þakklát Ástu fyrir þessa tilraun til samræðna. Ásta drakk jógúrt á leiðinni, það var ekkert latte úr himnaríki að þessu sinni, götumálin búin og verða keypt í Rekstrarvörum í dag. „Ja, hann Ólafur er bara svo jákvæður að hann „pípar“ yfir neikvæðu orðin, þess vegna fengu strákarnir silfrið,“ útskýrði ég og bætti við: „Mér fannst ræðan hans kúl en aftur á móti fannst mér skrýtið  þegar múgurinn hrópaði: „Islam, Islam,““ Kannski er Ólafur búinn að heilaþvo þjóðina og orðið BÍP virkji einhverja stöð í heilanum sem verður síðan til þess að við stuðlum að heimsfriði, hver veit!

Skjúsmí ... en það hefur hljómað í fréttum í allan morgun að flugvél seinki um nokkra klukkutíma! Er þetta frétt? Myndi BBC fjalla um seinkun hjá British Airways í mörgum fréttatímum í röð? Hmmmm, pælingar okkar Bjarkar í vinnunni ...

Silfraðar stuðkveðjur út Hálsaskógi með ósk um frábæran dag ykkur til handa ...


Ekki beint skúbb ... en samt ... kvenleg umræðuefni, textamisskilningur og fleira

Vikan var að koma í hús og á einni opnunni má finna fjölmörg textabrot úr vinsælum lögum ... og síðan kolrangan texta sem fólk syngur óafvitandi með. Stelpurnar á Gestgjafanum grétu úr hlátri yfir greininni og kannski ekkert skrýtið. Dæmi:

Madonna like a virginALELDA með Nýdönsk: Rétt lína: Alelda, sáldrandi prjáli ... Misskilningur: Að elda, sjálfan þig bjáni.

LIKE A VIRGIN með Madonnu: Rétt lína: Like a virgin, touched for the very first time. Misskilningur: Like a virgin, touched for the thirty-first time.

Og svona 30 bráðfyndin atriði í viðbót ... Ég söng alltaf í gamla daga: Í bláum skugga, við brosum um braut (þótt ég hafi ekki skilið nokkuð í því) en þetta á víst að vera Í bláum skugga, við broshýran reyr ... eða er það ekki? 

Þegar Úlfar kokkur kom í vinnuna áðan sagði ég honum að Ylfa Ósk, tíkin hans, væri í tryllri ástarsorg, hún væri ekki bara svona sjúk í ... þið vitið, eftir að hafa hitt sæta hundinn á Akureyri og átt með honum unaðsstundir. Benti honum á að þessi hundategund væri einfarar og afar tryggir maka sínum, svona eins og svanir .... Úlli fékk hláturskast og sagði mér frá minnst 10 "tengdasonum" af öllum stærðum og gerðum sem hann hefði eignast í gær og fyrradag. Þeir standa hinum megin við girðinguna umhverfis húsið og mæna á Ylfu og gera sig tælandi ... Ylfa er víst lítið skárri ef ég skil Úlla rétt.

MorgunverðurÉg samdi frið við kokkinn í morgun. Hann manaði mig til að fá mér venjulega skammtinn minn af kotasælu og grænmeti til að hann sæi með eigin augum yfir hverju ég nöldraði (eða mörg hundruð prósenta hækkun á morgunverðinum í gær). Hann horfði smástund á þetta, bað mig um að fá mér aðeins meira grænmeti og  verðlagði þetta svo á 80 krónur, sem er bara 100% hækkun, ekki mörghundruð prósent eins og í gær. Hann þyrfti að geta borgað ballettíma fyrir dóttur sína, borgað fólki laun, borgað rafmagn og slíkt. Við skildum í mestu vinsemd. Hugsa sér hvað krepputalið hefur gert manni, nú nöldrum við kokkurinn yfir nokkrum krónum, t.d. verði einnar gúrkusneiðar ... Helvítið hann doktor Gunni, eða okursíðan hans, ég er orðin algjör nánös og sífellt hrædd um að verið sé að svíkja mig. Ekki hefði mér, fyrrum greifanum, komið það til hugar fyrir nokkrum mánuðum. Ætla að gera eins og Björk, samstarfskona mín, og taka bara með mér nesti í framtíðinni.

Snuðrað í saumóVið Björk töluðum einmitt svolítið um aumingja Baggio í morgun, eða þegar hann brenndi af skoti fyrir Ítala í vítaspyrnukeppni úrslitaleiksins í HM um árið og það þýddi sigur Brasilíu. Ef karlmenn halda virkilega að við konur tölum bara um tíðahringinn, mataruppskriftir og barnauppeldi þá leiðréttist það hér með. Við þurfum ekki að láta klína saumaklúbbaheiti á spennuþætti til að fást til að horfa á þá ... Ó, strákar, það þýðir ekki að lesa bara Cosmo og halda að þið skiljið okkur. Lesið frekar Vikuna ... ónei, það er saumaklúbbablað sem fylgir henni núna, argggggg. Djöfull var þetta gott á mig. Alveg eins og þátturinn sem Stöð 2 auglýsir grimmt sem saumaklúbbaþátt, Woman´s Murder Club. Sonurinn spurði mig um daginn hvort ég ætlaði ekki að horfa en ég svaraði því til að mig langaði ekki til að horfa á samsull af majónesi, saumaskap og slúðri ... eins og karlar sjá saumaklúbba fyrir sér ... og með dassi af grimmilegum fjöldamorðum sem þær leysa á háum hælum á meðan þær sofa hjá samstarfsmönnunum og svona .... Sonurinn starði á mig. „Þetta er ekkert þannig þáttur, bara rosalega spennandi sakamálaþáttur,“ sagði hann. Þannig að fordómar mínir vegna viðbjóðslegra auglýsinganna á þáttunum hafa kannski haft af mér góða skemmtun á sunnudagskvöldum. Mér fannst eitthvað niðrandi við þær þótt mér finnist ekkert niðrandi við saumaklúbba, æ, einhvern veginn verið að troða okkur konum öllum í sama farið.

Jon StewartSvo er ég með geggjaðar fréttir!!!! The Daily Show, einn umtalaðist og verðlaunaðasti, beittasti og fyndnasti spjallþáttur ever með Jon Stewart hefst á Stöð 2 kl. 22.35 þriðjudaginn 9. september. Ég er búin að marggráta yfir því að við höfum bara Jay Leno ... sem ég missti nett álit á eftir 11/9 2001 þegar hann gerði grín að fátæka fólkinu í Afghanistan og á þátt í því með fleirum að koma því inn hjá fólki að allir múslimar séu hryðjuverkamenn ... En Jon Stewart verður reyndar ekki "daily", heldur bara á þriðjudögum í Global Edition. Hvað næst? Verður lífið fullkomið og við fáum Conan O´Brien ... sem er t.d. 100 sinnum fyndnari en Leno?


Aldeilis ósléttar kaffifarir eftir vinnu í gær ...

LatteVið Ásta vorum komnar í Hálsaskóg kl. 7.05 í morgun og með þessu áframhaldi verðum við mættar í vinnuna í kringum miðnætti þegar desembermánuður gengur í garð. 

Við stöllur ætluðum að gera vel við okkur um fjögurleytið í gær, frekar þreyttar eftir annasaman dag, og komum við í bakaríi á leiðinni heim á Skagann. Þar fæst gott kaffi frá Te og kaffi. Undanfarin skipti höfum við verið afar óheppnar með kaffið þarna og starfsmaður (aldrei sá sami reyndar) sett allt of mikla mjólk út í þannig að ekkert kaffibragð finnst.

Ásta, sem er í raun algjör "gribba" fer alltaf í kerfi þegar ég bið ljúflega og kurteislega um kaffið eins og ég vil fá það, eða latte án cappuccino-froðu, heitt en ekki sjóðheitt og sokkabuxnabrúnt út í ljóst, á litinn. Hún ætti að prófa að standa í Starbucks-biðröð og hlusta á sérþarfirnar þar. Ég er ekkert miðað við óskirnar þar.

Fyrr má nú vera ...Rosalega indæl kona, svona 60 plús, afgreiddi mig og var svo sæt og ljúf. Ég byrjaði á því að segja henni kaffifarir okkar Ástu ekki nógu sléttar undanfarið og bað hana lengstra orða um að hafa mjólkina hvorki of heita né mikla. Ég kunni ekki við að gera sama og síðast, þegar kaffið varð gott, og fá að fylgjast með henni setja mjólkina út í. Ég starði vantrúuð á hana þegar hún FYLLTI annað málið af mjólk og spurði svo hvort ég vildi líka að hún fyllti það seinna álíka mikið.  „Nei, ég vildi einmitt EKKI svona mikla mjólk,“ stamaði ég gráti nær og náði að segja henni til með rétt mjólkurmagn í seinna málið. Þessi góða kona bjó til annan latte í stað þess ónýta.

Ég skokkaði út í bíl með latte í báðum og hafði keypt tvær súkkulaðismákökur með kaffinu til að gleðja okkur í tætlur. Tveir tvöfaldir latte og tvær smákökur kostuðu 1.050 krónur, mér fannst það nokkuð mikið. Úti í bíl smökkuðum við síðan á kaffinu ... og SKAÐBRENNDUM okkur í munninum.

Við Ásta skaðbrenndarÍ Kollafirðinum opnaði ég bílgluggann og reyndi að láta volgan vindinn kæla kaffið, það var enn rafsuðuheitt og ódrekkandi. „Þýðir ekkert,“ sagði Ásta spámannslega. „Þú verður að taka lokið af ef þú vilt að það kólni.“ Hún var enn smámælt eftir tungubrunann og ég var líka að drepast. Ég þorði ekki að taka lokið af, ekki á ferð í bíl, slíkt er ávísun á stórkaffislys. Það var ekki fyrr en við vorum nýkomnar út úr göngunum að við gátum dreypt á kaffinu. Magn mjólkur reyndist mátulegt en allt of mikil hitun á henni hafði eyðilagt hana, orsakað efnabreytingar þannig að bragðið var ekki gott. Fyrir mitt leyti langar mig ekki framar í þetta bakarí ... a.m.k. ekki til að fá mér kaffi.

Ég var smakkdómari nokkrum sinnum í kaffibarþjónakeppnum hérna í denn og ef keppendur hituðu t.d. mjólkina í cappuccino-ið of mikið þá þýddi það refsingu, 30 svipuhögg minnir mig. Ef fólk vill kaffið sitt rafsuðuheitt, eins og t.d. Hilda systir og Gísli Rúnar leikari, þá ætti það að þurfa að biðja sérstakleg um það. Í amerísku réttarkerfi gæti ég krafist hárra bóta fyrir andlegt álag og tunguskemmdir. Það yrði bara hlegið að okkur í Héraðsdómi Vesturlands. Veit einhver hvað tekur langan tíma fyrir brennda tungu að jafna sig? Spyr fyrir okkur Ástu báðar.

Vona að dagurinn ykkar verði góður og allt það kaffi/te/kakó sem þið drekkið verði mátulega heitt.


Kokkur í skammarkrók og dræsan hún Ylfa Ósk

tagliatelleHann doktor Gunni (eða okursíðan hans) hefur nú orðið til þess að ég skammaði góða kokkinn okkar hér í mötuneytinu. Tók eftir því að ég borgaði 365 krónur fyrir morgunverðinn og fannst það ansi hátt fyrir einn smoothie (199 kr) og smá álegg (ekkert brauð). Hef yfirleitt tekið litla slettu af kotasælu, sett tvær agúrkusneiðar, eggjasneið og paprikubita með. Það hefur kostað 40 kall, nú er rukkað fyrir hvert og eitt álegg. Þannig að agúrkusneiðin kostar 40 kall. Nú verður nesti tekið með, ekki gengur að éta mötuneytið lengur út á gaddinn og það mig. Svo skammaðist ég líka, en ljúflega, held ég, yfir kolvetnaveislunni í hádeginu, aðalréttur: spagettí með sjávarréttum og grænmetisréttur: tagliatelle í rjómasósu. Línurnar breytast skjótt í útlínur og jafnvel heilan sjóndeildarhring með svona áframhaldi.

Ylfa Ósk ÚlfarsdóttirÚlli, kokkur á Gestgjafanum, mætti með Ylfu Ósk með sér í vinnuna í gær og talaði um hana sem algjöra dræsu þar sem hún sat stillt og sakleysisleg við skrifborðið. Ylfa fékk nefnilega að pófa að vera með gæja um helgina og alla aðfaranótt mánudagsins veinaði hún svo mikið að engum í fjölskyldunni varð svefnsamt. Hún vildi meira, you know.

Nú heldur Úlli að Ylfa sé orðin hvolpafull og býst við fjölmörgum, sætum og krúttlegum úlfhundum eftir svona tvo mánuði. 


Rapport, sjúrnalar og ambúlansar, misskilningur bloggvinar og kattahatur

SúpermannnáttfötinVið Ásta reynum að setja nýtt vöknunarmet á hverjum morgni og í morgun var brottför frá himnaríki kl. 6.30. Allt gekk voða vel en þegar ég kom til vinnu í morgun áttaði ég mig á því að ég var enn í súpermannnáttfötunum. Skildi glottið á Ástu þegar ég sá óttasvipinn á manninum sem kom með Morgunblaðsbunkann í Hálsaskóg um svipað leyti og við komum þangað. Ákvað að breyta vörn í sókn og ætla að hlæja hæðnislega að öllum sem koma í venjulegum fötum. Nú þegar hef ég skellihlegið fjórum sinnum.

Þessi fótaferðartími ætti að venjast, hafa ekki flugfreyjur og flugmenn þurft að gera þetta í gegnum aldirnar? Kvöldin eru þó orðin stórskrýtin og ég passa að hátta mig mjög snemma ef ég skyldi hníga niður úr syfju þar sem ég stend. Mánudagskvöld eru í uppáhaldi hjá mér þegar kemur að sjónvarpsdagskránni og þá sérstaklega danski lögguþátturinn Anna Pihl. Náði að halda mér vakandi yfir honum í gærkvöldi en blundaði yfir J.K.Rowling sem var á undan, garg! Annað er í móðu, minnir þó að Halldór frændi hafi hringt, jú, ég eldaði pastarétt um sjöleytið. Vá, hvað lífið hefur breyst eftir að ég hætti að taka strætó frá Akranesi kl. 7.40. Var komin í vinnuna 7.10 í morgun ...

DanskaFyrsti skóladagurinn hjá erfðaprinsinum er í dag og danska í fyrsta tíma, stærðfræði í öðrum ... gaman, gaman. Ég kenndi honum góð og gild orð í gær, eins og spögelse, paraply og svona en hann skipti um skóla 11 ára og missti af grunni í dönskunni, alveg eins og gerðist með mig í ensku í gamla daga. Þegar ég flutti til Reykjavíkur 13 ára voru krakkarnir í mínum bekk farnir að læra þung orð í ensku, eins og ambulance og slíkt en ég þekkti það orð bara sem hjólavagn á sjúkrahúsi, vagn sem sjúklingar voru fluttir á áður en farið var að nota rúmin sjálf. Ég er sko hjúkkudóttir og veit allt um rapport, sjúrnal og önnur spennandi orð.

Krúttmoli eða skemmdarvargurÁstkær bloggvinur minn, Jón Arnar, misskildi færslu mína í gær (nema ég misskilji komment hans ...) og vona ég að bloggvinir mínir lesi á milli línanna áður en þeir skamma mig t.d. fyrir stóriðjudýrkun! Ég þakka honum samt kærlega fyrir að kalla mig ekki öllum illum nöfnum þótt hann hafi verið ósammála því sem hann hélt að ég væri að meina. Sumir detta í persónulegar og oft ljótar árásir á Netinu ef þeir eru ekki sammála skrifum einhvers, svona eins og til að reyna að þagga niður í viðkomandi hvað sem það kostar. Mér finnst slíkt vera í gangi á vef Akranesbæjar í þessu tilfelli og minnir mig óneitanlega á ofsareiðu Skagakonuna sem hatar ketti og tókst að hræða bæjarstjórnina okkar til hlýðni með offorsi í bréfum sínum sem einhver hafa birst opinberlega. Hún gerði alla kattaeigendur á Skaganum frávita úr reiði með orðalagi sínu. Ja, ef hún hefði eitthvað á móti t.d. Sementsverksmiðjunni væri löngu búið að rífa kvikindið (verksmiðjuna) og flytja í bútum upp í Grundartanga. Það á að virkja svona fólk í baráttu fyrir "réttum" málstað.

Megi dagurinn ykkar verða ótrúlega skemmtilegur.


Kjarnyrt umræða og ónýtt samkvæmislíf

AkranesÁsta mætti fyrir utan himnaríki kl. 6.40 sharp en þá var ég einmitt á leiðinni niður stigana með nýlagað latte í  báðum. Metallica hljómaði í græjunum en af því að við erum orðnar svo virðulegar settum við fljótlega útvarpið á til að heyra sjö-fréttirnar. Við ræddum líka það nýjasta á Skaganum ... eða fjörlegu umræðuna á vef Akranesbæjar en hér er slóðin: http://akranes.is/um-akranes/umraeda/umr_id/19987/thradur/19958/fl/46/ svona ef einhvern langar að kíkja. Einhverjir ósvífnir "kontóristar og afætur á þjóðfélaginu" hafa nefnilega slett sér fram í mál Sementsverksmiðjunnar og gagnrýnt að senn verði fjölbreytilegum úrgangi brennt þar. Einn (örugglega kennari eða þaðan af verra) er meira að segja svo ósvífinn að hann spyr hvort verði ekki líka grafinn kjarnorkuúrgangur á Breiðinni svona í stíl við þetta ... Kjarnyrt svar frá verksmiðjunni ætti vonandi að þagga strax niður í þessarri umræðu sem lyktar af náttúruvernd, eða þaðan af verra. Jamm, alltaf fjör á Skaganum.

24Alveg er það magnað að stimpilklukkan í vinnunni skuli vera biluð þegar ég mæti svona ofboðslega snemma í vinnuna! Hún bilaði af því að sumir notuðu bíllykil til að stimpla sig inn. Verð líklega svona snemma á ferð flesta morgna í vetur og fer með Ástu í bæinn og svo heim á Skaga suma eftirmiðdaga á drossíunni. Þetta, að vakna svona um miðja nótt, á algjörlega eftir að eyðileggja fyrir mér samkvæmislífið, nú þarf ég t.d. að vita hvenær þátturinn 24 verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur ... hvort ég geti horft eða klukkan verði orðin of margt.


Spennufall hjá þjóðinni

DorritHvað nú? Ólympíuleikarnir búnir, líka menningarnótt og ekkert fram undan til að hlakka til og æsa sig yfir nema þá helst blessuð jólin og klikkunin í kringum þau. Fyrrihluti árs og sumarið inniheldur mun fleiri uppákomur sem hægt er að hlakka til: Nýársdagur, bolludagur, páskarnir, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, gaypride, afmælið mitt, menningarnótt og fleira og fleira. Að vísu er Formúlan ekki búin og heldur ekki Landsbankadeildin.

Nú fer t.d. fram fótboltaleikur hér á hlaðinu fyrir neðan himaríki, ÍA-HK. Staðan er 1-2 í hálfleik. Femínistinn (erfðaprinsinn) lætur gengi liðsins okkar ekki skemma fyrir sér spenninginn en hann hefur nám nú í vikunni eftir langt hlé, skólinn hans verður settur í fyrramálið. Hvað með það þótt við spilum í 1. deild eitt sumar ... ef við föllum? Ég fylgist óbeint með leiknum í beinni lýsingu (skrifum) á mbl.is og þegar ég heyri öskur fer ég á síðuna og sé innan tíðar hvað hefur gerst.

Vona að kvöldið verði ljúft og að nóttin færi ykkur góða drauma.


Frænkueinelti á Útvarpi Sögu og smá bold

SímaatHalldór frændi hringdi í mig áðan úr númeri sem ég þekkti ekki. Hann var óvenjukurteis og virðulegur í tali, sagðist reyndar fyrst hringja frá kynsjúkdómadeildinni og spurði hvort ég væri ekki örugglega sitjandi, hann væri nefnilega með niðurstöðurnar. Ég flissaði subbulega en datt samt ekki enn í hug að hann væri að hringja í beinni útsendingu. Það kom í ljós þegar hann bauð mér óskalag og vildi að ég veldi eitthvað gamalt, lummó og dásamlegt. Fyrsta dásemdin sem mér datt í hug var Kveiktu ljós með Blönduðum kvartett frá Siglufirði, ég hef lengi haldið upp á það, eða síðan ég var lítil og hlustaði á það í Óskalögum sjúklinga. Þetta gæti Halldór svo sem hafa vitað síðan hann var um tíma tæknimaður hjá mér á Aðalstöðinni í gamla daga. Og viti menn, það lag beið undir nálinu hjá kvikindinu. Þetta gekk svo smurt að það var eins og við hefðum æft það. Síðan fékk ég annað símtal sekúndum seinna: „Gurrí, hvað dettur þér í hug þegar ég segi Dalvík?“ „620,“ svaraði ég um hæl, enda límist margt svona notadrjúgt eða ekki við heilann á mér. Frænkueinelti, ekkert annað, en samt svolítið skondið!

JackieJackie er vöknuð úr kómanu og er full ... hefndarþorsta. Hún stingur upp á því við Nick að hann reyni að ná tískufyrirtækinu af Forresterunum sem skaðabætur fyrir gjörðir Stefaníu. Stefanía er í vondum málum fyrst Jackie kýs að ljúga, skrýtið samt að hún skuli muna slysið svona greinilega, hún sem getur varla sagt heila setningu. Þetta er bara fjárkúgun. Jackie heldur að þetta komi Brooke endanlega til Nicks aftur. Nick sér fyrir sér að Jackie, mamma hans, stjórni Forrester. Hvar er pabbi Nicks núna, Massimo, gamli ástmaður Stefaníu og blóðfaðir Ridge? Hann myndi koma vitinu fyrir Nick og bjarga Stefaníu úr þessari klípu.

Svo er aumingja Phoebe, dóttir Taylors og Ridge, í hroðalegum vandræðum. Garðyrkjumaðurinn sem öll vörn Taylors byggist á, þessi sem varð vitni að slysinu þegar Taylor ók á Dörlu, notar aðstæðurnar til að reyna við aumingja stelpuna sem lætur ýmislegt yfir sig ganga til að styggja ekki kvikindið og þiggur matarboð hans. Hvernig fer þetta eiginlega?  


Vona að mér skjátlist ...

Venjulegur laugardagsmorgunnHið ótrúlegasta henti hér í himnaríki í morgun og hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna ... eða vaknað fyrir kl. átta um helgi. Þrátt fyrir að augunum hafi verið lokað mjög fast, sænginni vafið þéttar og heyrst hafi svæfandi veðurhvinur sem kemur ef glugga hefur ekki verið lokað nógu vel var algjörlega ómögulegt að sofna aftur. Þetta hefur ekki gerst í manna minnum og tel ég undirmeðvitundina vera að þjálfa mig í helgarvakni fyrir morgundaginn. Þótt ég forðist streitu af öllum mætti ætla ég að horfa á leikinn.

DVFyrir nokkrum dögum stóð ég í Hálsaskógi og beið eftir strætó nr. 18 áleiðis að Ártúni þaðan sem leiðin lá í Mosó og síðan á Skagann. Svona rosalega venjulegt eitthvað. Þá kom ungur maður hlaupandi, líklega hræddur við að missa af strætó sem brunaði ákveðinn úr Grafarholtinu og voru svona 15 sekúndur í hann. Maðurinn, sem áttaði sig á kringumstæðunum á örskammri stund sagði: „Æ, ég sem ætlaði að plata þig í spurningu dagsins í DV.“ „Skjóttu bara,“ sagði ég ótrúlega töffaralega, engin spurning of erfið fyrir mig, fannst mér, vonaði þó heitt að hún tengdist ekki stjórnmálum, það getur verið erfitt að vera ópólitískur og elska suma sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, samfylkingarmenn, vinstri græna ... Þakklátur sagði maðurinn: „Já, ég veit alla vega að þú ert fimmtug, ha ha ha,“ og ég dauðsá eftir tattúinu sem ég lét setja á ennið á mér á í síðustu viku. Svo kom spurningin: „Í hvaða sæti lendum við Íslendingar á Ólympíuleikunum í handbolta?“ Þá vorum við enn í átta liða úrslitum. „Í öðru sæti, við fáum silfrið,“ sagði ég ótrúlega vongóð, maður peppar sko strákana sína upp og hefur trú á því óhugsanlega. Síðan gerðist hið ómögulega í gær og það er ekki séns á því að við lendum neðar en í öðru sæti.

ReynirÍ gærkvöldi fékk ég tölvupóst fá elskunni honum Reyni sem ég vann með fyrir mörgum árum og hefur greinilega lesið gáfuleg svör mín í DV: „Ég vissi að þú vissir þetta. Sá allt í einu Íslendinga í úrslitum við Frakka í gær og fór rólegur í sund í hádeginu í dag. Kristalskúlan þín klikkar ekki.“ Nú veit ég að við verðum að sigra á morgun, annars mun mér aldrei takast að fá Reyni Trausta eða Sigurjón M. Egilsson til að trúa því að ég sé ekki völva Vikunnar. Þeir stríða mér reglulega á því og ég urra á móti. Völvan er stundum vond við þá tvo í spádómum sínum og mér myndi aldrei detta slíkt í hug við þessar elskur. Ef ég þekki mig rétt myndi öllum ganga rosalega vel, ekkert vesen í þjóðfélaginu, bara ótrúleg velgengni.

SamkvæmisleikurÞegar ég fékk gefins tarotspil í gamla daga (1985) og var samstundis gerð að hirðspákonu vinahópsins og alls frændgarðs hans lærði ég hratt og vel á spilin en var ekki með nokkra einustu andlega hæfileika, er mjög jarðbundin og hef alltaf litið á spádóma sem samkvæmisleik sem ekki ber að taka alvarlega og nenni ekki fyrir nokkurn mun að snerta á spilum í dag, nema fyrir stjörnuspá Vikunnar (held að mörg blöð þýði erlendar stjörnuspár, ekki Vikan). Slík manneskja á ekki skilið að vera strítt á því að vera völvan ... en ef við lendum í öðru sætinu þá verð ég í ljótum málum.

Hef því tvöfalda ástæðu til að rífa mig upp í fyrramálið og hvetja strákana og neyða þá með hugarorkunni til að sigra! Áfram Ísland!


mbl.is Norski landsliðsþjálfarinn spáir Íslendingum sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einmana í vinnunni ... hinir stytta líf sitt og glápa á leikinn

handboltiSit hér næstum alein og einmana við skrifborðið mitt. Af og til heyrast klikkuð öskur úr næsta sal þar sem útsendingu frá handboltaleiknum er varpað á hvítan vegg. Ég heyri oftar öskrin JÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ en hitt og þá hlýtur allt að vera í lagi. Ég er búin að fatta að ég forðast álag og held að það sé ein af ástæðunum fyrir því að ég hef náð svona háum aldri. Nenni ekki panik-kasti núna, ekki á föstudegi, mesta annadeginum okkar á Vikunni.

Strætóferðin í morgun var hreint yndisleg og ekki var verra að hitta skólastrákinn minn við lendingu í Mosó og fá far með honum upp í Hálsaskóg. Hann er í Tækniháskólanum og bjargaði stundum lífi mínu og limum í gamla daga (2006) þegar við vorum samferða úr strætó í Höfðabakka 9, þegar vinnan mín var þar. Hann bar mig yfir heilu krókódílasíkin á leiðinni, tékkaði jarðsprengjur, ruddi bjarnargildrum úr veginum og svo ótal margt fleira í þessum ævintýraferðum.

Vona að dagurinn ykkar verði æðislegur og að við vinnum leikinn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 187
  • Frá upphafi: 1529006

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 158
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband