Færsluflokkur: Bloggar

Heita Nína ... og pínku bold

Heita Nína, Hæ kanínaOkkur Vikukonum leist illa á saltfiskinn í mötuneytinu í dag og fórum á Taí-matstofuna hinum megin við götuna. Fínasti matur og bara ágætlega huggulegir menn sem þar snæddu.

„Hahahaha,“ hló Íris Hrund samstarfskona mín skömmu eftir að við komum í vinnuna aftur. Tilefnið var spjall um textamistök hjá fólki þegar það sönglar með vinsælum dægurlögum. „Ég söng alltaf „Hæ, Kanína,““ viðurkenndi Íris og flissaði. „Uuuu, það á að vera þannig,“ sagði Björk hissa. Íris starði á hana og sagði: „Ég hef alltaf haldið að það væri Heita Nína?“ Auðvitað hlógum við illgirnislega og ég mundi eftir stelpunni í barnakórnum hennar mömmu sem söng þjóðsönginn á skólaskemmtun: Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tær ... Einn aðalbrandarinn í æsku minni.

Boldið gerist æ æsilegra. Nick réðst á Stefaníu og ætlaði að neyða sannleikann upp úr henni, eða að hún hefði hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Donna, sjónarvottur og þó varla, kjaftaði í Nick sem rauk beint heim til Stefaníu, braut rúðu í bakdyrunum þegar hún neitaði að opna, rauk inn með látum. Henni tókst að ná í byssu og hélt honum í fjarlægð þar til Eric, maður hennar, og Ridge, sonur hennar og hálfbróðir Nicks samfeðra, komu hlaupandi til að bjarga henni. Í þættinum í kvöld, sem ég sá nú ekki allan, neitar Nick að þiggja fébætur fyrir þetta, þótt Stefanía hafi alls ekki hrint Jackie, hann heimtar tískufyrirtæki Forresteranna, annars sendir hann Stefaníu í fangelsi!  

P.s. Ég hef fengið þrenn skilaboð frá bloggvinum í gær og í dag sem ég held að séu mér ekki ætluð, sjálf hef ég sent skilaboð sem ég held að hafi farið á ranga staði. Vona að kerfið sé ekki að klikka.


Snyrtipinninn nýi og ánægður femínistaboli himnaríkis

Í vinnunni kl. 9Mikið er sallarólegt hérna í vinnunni svona snemma á morgnana (7.30). Enginn annar í húsi, nema þá helst blaðamaðurinn á dv.is en hann er hinum megin í húsinu. Það er mikið stuð að vera fyrstur á staðinn, ég get sest í alla skrifboðsstólana í salnum og rúllað mér á milli borðanna ... og get á nýjan leik boðið prófarkalesurunum gott kvöld með hæðnistóni þegar þær mæta undir átta.

RæstikarlinnNýi þrífukarlinn okkar hefur greinilega ekki fengið neina tilsögn því að áður en ég gat hugsað mér að fá mér kaffi þurfti ég að fleygja ótrúlega miklu rusli sem var í kringum kaffivélina. Hella úr bollum afgangskaffi síðan í gær í sérstaka tilþessætlaða-fötu og síðan fleygja drykkjarmálunum í ruslafötuna, allt er þetta í innan hálfs metra radíus til að auðvelda okkur ... en sumt samstarfsfólkið gerir þetta ekki ... og ekki heldur ræstingamaðurinn í gærkvöldi.

Svona varð ég nú mikill snyrtipinni við það að bætast í hóp eldri borgara í síðustu viku. Jibbí! Þann 11. ágúst sl. á meðan ég tilheyrði enn ungu kynslóðinni, hefði ég horft kæruleysislega á þetta og vitað að þetta væri ekki mitt vandamál, einhver 50 plús gæti bara gert þetta. Múahahahahahaha!

Femínistanautið í himnaríki (erfðaprinsinn) verður sífellt ánægðara með mig, enda hef ég gengið einstaklega vel um í heila tíu daga. Ég vissi að eitthvað gott myndi fylgja aldrinum. Ég hef beðið árangurslaust (reyndar frá því ég varð fertug) eftir kostunum sem eiga að fylgja, m.a. fjarsýni (til að verða minna nærsýn-ef það virkar), minni svefnþörf en ekkert hefur miðað, ég er ekki einu sinni komin með alla endajaxlana, þrír þrjóskast enn við að láta sjá sig. 

SjónvarpsglápGífurleg þreyta kom óvænt yfir okkur stuðboltana, mig og erfðaprins, í gærkvöldi. Eina sem ég man er að hafa horft á Ghost Whisperer (sem er spúkí spennuþáttur) setið í leisígörl með elskuna mína í fanginu (mjúka teppið úr Rúmfatalagernum) ... þangað til ég vaknaði um miðja nótt, eða klukkutíma fyrir áætlaðan fótaferðatíma (6.15). Útlit mitt er einstaklega gott miðað við að hafa sofið upprétt næstum alla nóttina en leisígörl er þrjóskur stóll og vill ekkert láta halla sér mikið aftur ... það þarf alla vega mjög einbeittan vilja til þess. Það getur mögulega kannski skipt einhverju máli tískusýningardömuvaxtarlagið á mér; langar lappir á kostnað búksins þegar kemur að því að nota leisígörl rétt. Hverjum datt í hug að hanna stólinn svona asnalega? Lappirnar á mér standa langt út fyrir fótaskemilinn og ég hef ekki afl til að ýta mér aftur vegna skorts á búklengd. Hönnun þessa stóls er ekkert annað en aðför að mér.

Ásta vill breyta brottfarartíma frá himnaríki úr 6.50 í 6.40 á morgnana. Það verður bara stuð, ég er í eðli mínu algjör B-manneskja og get því staðið í ströngu um miðjar nætur.

Óska ykkur gleðilegs morguns, farsæls komandi eftirmiðdags og heillaríks kvölds.


Morgunstuð og fundinn kettlingseigandi ...

Georgía - RússlandMeð latte í annarri og latte í hinni var svifið niður tröppur himnaríkis og beint inn í Ástubíl. Klukkan var 6.50 og spennan í algjöru lágmarki, enda röng útvarpsstöð í gangi. Eins gott, við hefðum keyrt út af ef við hefðum munað eftir leiknum. Báðar grútsyfjaðar en auðvitað huggulegar ... Það var frekar kalt í morgun, næstum vettlingaveður fyrir Ástu hina handköldu en með hita í sæti og volgan blástur í lofti, tala nú ekki um morgunsólina í andlitið varð fljótlega hlýtt og notalegt.

Komst að því hjá Ástu að Kolla, aðstoðarstúlkan í afmælinu mínu, á litla kettlinginn sem var á vergangi í gær. Kolla býr rétt hjá Skrúðgarðinum en samt of langt frá fyrir "vitlausa" kettlinga sem rata ekki heim. Sjúkkitt. Taugar heimiliskatta himnaríkis voru því ekki truflaðar í gær.

Ég er að lesa svo skemmtilega bók núna, Hjarta Voltairs, og hún hélt fyrir mér vöku fram yfir miðnætti. Hún er í tölvuskeytaformi og þótt hún sé ekki spennubók þá er hún svo spennandi að ég tími varla að sleppa af henni hendinni.

Megi dagurinn ykkar verða ævintýraríkur!

P.s. Dásamleg mynd hér að ofan sem segir allt ... takk, Vera.


Kettlingskrútt í Skrúðgarðinum

Myndin er sviðsettKíkti aðeins í Skrúðgarðinn eftir sjúkraþjálfun og sá að starfsfólkið þar var í stökustu vandræðum með lítinn kettling í óskilum, þrílitan og algjöra kelirófu. Ekki nema um tveggja til þriggja mánaða og rataði greinilega ekki heim. Hann er með ól og bjöllu en ekkert nafnspjald. Ef einhver Skagamaður situr nú í öngum sínum og finnur ekki kettlinginn sinn, læðu eða högna, þá er lag að skreppa niður í Skrúðgarð og ná í dúllurúsínuna. Of mikil bílaumferð er á Kirkjubrautinni til að óhætt sé að sleppa honum lausum og skiptast gestir og gangandi á að halda á honum. Ég tók hjartkæran innanbæjarstrætó heim og bílstjórinn, sem er gjörkunnugur öllu og öllum, lofaði að fylgjast með fólki í kettlingsleit. Ef enginn eigandi gefur sig fram í dag mun kettlingurinn mögulega koma hingað í himnaríki ... og gera allt vitlaust þar til eigandinn finnst. Held að það yrði aldeilis upplit á Tomma og Kubbi!

Snilld

Hahhahah

Fullur bíll af kjéddlíngum ... og smá bold

Kaupstaðarlykt í strætóHeilmikið fjör var í strætó á heimleiðinni. Megn kaupstaðarlykt var af síðasta farþeganum sem kom inn í Mosó og sá var í glimrandi góðu skapi. Hann settist nálægt Haffa bílstjóra og reyndi mikið að fá hann til að gera eitthvað spennandi. „Fullur bíll af kjéddlíngum, sérðu möguleikana?“ sagði hann en Haffi lét ekkert trufla einbeitinguna við aksturinn, sýndi bara manninum ótrúlega þolinmæði og aðrir farþegar virtust skemmta sér vel. Sú sem sat fyrir aftan mig hvíslaði að mér: „Mikið er annars gott að vera á lausu.“ Hún meinti, held ég, að það væri gott að eiga ekki von á svona lítið edrú manni heim, frekar en að nú væri lag ... að veiða sér einn góðglaðan. „Ertu til í að koma við hjá hesthúsinu?“ kallaði maðurinn skömmu áður en við komum í göngin. „Já, já,“ sagði Haffi en ók samt beinustu leið á Skagann. Ég hefði ekki þurft að bölva því að vera búin með strætóbókina, en hún kláraðist í leið 15 á leið í Ártún í morgun, svo gaman var á leiðinni. Alltaf samt að vera með varabók!

Brooke og RidgeJæja, Brooke er búin að segja Nick upp sem pakkaði föggum sínum í pínulitla tösku, rétti henni giftingarhringinn og fór. Tár á hvörmum beggja og næstum því kveðjukoss. Brooke vill ekki leyfa systur sinni, Donnu, að segja Nick frá því sem hún sá, eða að Stefanía hafi hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Stefanía sleit sig reyndar lausa af Jackie með þessum skelfilegu afleiðingum að Jackie er næstum í kóma eftir fallið.

„Þú kynnir ekki Beð Brooke fyrir Forrester lengur,“ segir Stefanía við Donnu og er búin að láta Jason pakka niður dóti hennar. Stefanía veit sem satt er að Donna gæti haft truflandi áhrif á vonandi tilvonandi enn eitt hjónaband Ridge og Brooke. Donna er svo skotin í Ridge. Donna er auðmýkt og tautar bölbænir og við vitum (vegna kristalskúlu minnar) að Donna á eftir að stela karlinum frá Stefaníu sjálfri, honum Eric. Svaðaleg hefnd. Brooke eiginlega segir Ridge upp líka en hann „veit“ að það er bara tímabundið á meðan fyrrverandi tengdó, Jackie, mamma Nicks, liggur svona stórslösuð á sjúkrahúsinu.

P.s. Fékk algjört lost þegar Nágrannar voru sýndir á undan boldinu en skv. Eyjunni (eyjan.is) var þetta með vilja gert og auglýst í dagskránni. Það er ekki hægt að treysta á neitt í þessum heimi, hvað næst? Kannski Latibær á besta tíma á laugardagskvöldum? Úps, það er víst þannig.


Afmælisdagar ýmissa óféta

FidelCastroDormaði mestalla leiðina í bæinn og vaknaði ekki almennilega fyrr en í leið 18 í Árbænum. Þegar við þýðandinn gengum út spurði ég: „Hvaða bók varstu að lesa í strætó?“ „Bók um Kastró,“ svaraði hann. „Aha, hann átti einmitt afmæli núna 13. ágúst,“ sagði ég og bætti við: „líka Hittskokk heitinn.“ „Tengdamamma á sama afmælisdag og Hitler,“ sagði þýðandinn grobbinn, „og hún er rosalega montin af því.“ Aha, svo hún á afmæli 20. apríl,“ sagði ég greindarlega. Þýðandinn horfði hræðslulega á mig. Ég flýtti mér að segja: „Sko, Fjóla, gamla kisan mín, átti afmæli þennan dag og líka Gyða vinkona.“ „Hnuss,“ sagði þýðandinn, alveg búinn að sjá mig út. „Ég veit að þú ert með myndir af Hitler upp um alla veggi heima hjá þér!“ Þarna skildu leiðir áður en ég gat sagt honum að ég væri svo sannarlega með myndir af verstu ófétum sögunnar um allt hjá mér í himnaríki. Þýðandinn fór svo að þýða einhverja hallærislega íþróttaþætti fyrir Stöð 2 Sport og ég að skrifa einhverja snilld í hinum enda hússins og ég steingleymdi að spyrja hann út í barnabörnin; litlu, sætu hvolpana sem tíkin hans eignaðist um daginn. Ég átti samt alveg eftir að segja honum að Megas og Breiðholtshatarinn eiga báðir afmæli 7. apríl og ýmislegt annað merkilegt um afmælisdaga sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina.

Það kemur sér vel að muna afmælisdaga. verst er bara þegar ég man ekki hvaða dagur er, þá klikka ég á því að hringja í vini og vandamenn á réttum degi. Úps, það er t.d. kominn 18. ágúst, æ, Þurí átti afmæli þann 15. ... Madonna þann 16. og ég gleymdi að hringja í þær.

Jamms, megi dagurinn ykkar verða hreint ótrúlega dásamlegur, fullur af ævintýrum!


Bjöllupyntingar, lestrarsýki, veðurguð og ófarðaðar jafnöldrur ...

DyrabjallaDyrabjallan hringdi klukkan hálfníu í morgun. Ég hoppaði í snarhasti framúr, greip sjúkrakassa, slökkvitæki og hlýtt teppi og svaraði lafmóð: „Halló, hver er þetta?“ „Já, bla bla læsti mig úti bla bla.“ sagði óskýr kvenmannsrödd í dyrasímanum. „Ha,“ hváði ég, enda heyrast yfirleitt ekki orðaskil í þessum dyrasíma. „...læsti úti ...bla bla,“ endurtók röddin. Í uppgjöf minni ýtti ég bara á opna. Ég þurfti sem betur fer ekki að byrja upp á nýtt að sofa, eins og komið hefur fyrir ef prinsessusvefn minn er rofinn, heldur nægðu þrír tímar til að ná þessu upp. Jamm, ævintýrin gerast heldur betur hér í himnaríki. Ég sem hélt að ég ætti fullkomna nágranna ... nema þetta hafi verið glæpakvendi, sölukona eða trúboði sem nýtti sér veikleika minn svona snemma morguns til að komast inn í stigaganginn. Ég heyrði þó engin öskur í ástkærum grönnum mínum svo líklega býr hún bara hér í húsinu en er örugglega aðkomumaður ... hehehe. Himnaríki er alltaf læst svo ekki komist syndarar inn, nema þá helst dauðasyndarar á borð við kaffi- og tertusjúklinga.

Síðasta uppgötvun EinsteinsMér tókst, þrátt fyrir mikla syfju í gærkvöldi, að ljúka bókinni Svartnætti. Hún var bara ansi skemmtileg og annar krimmi er kominn í lestur; Síðasta uppgötvun Einsteins. Hún er eftir Mark Alpert og lofar ansi hreint góðu. Ætli ég fórni ekki heilum Manchester-fótboltaleik kl. 15 í dag fyrir hana. Henni er af einum gagnrýnanda líkt við Da Vinci lykilinn nema eðlisfræði í stað myndlistar ... Aðrir gagnrífendur halda vart vatni og sá sem skrifaði eina frægustu ævisögu Einsteins, Walter Isaacson, sagði: „Vá, Einstein hefði orðið hrifinn af þessari bók!“ Ég reyni yfirleitt að láta svona ummæli ekki hafa áhrif á mig, sumum fannst t.d. Da Vinci Code ekkert sérstök og það gæti fælt þá frá ... Best að lesa og dæma bara sjálf.

MadonnaÞað er ansi haustlegt út að líta hér við himnaríki, alskýjað og smá öldur og bara yndislegt. Það var líka haustlegt veðrið í júní sl., minnir mig, þegar lægð heimsótti okkur. Ég trúi öllu sem veðurguðinn minn, Nimbus, segir um vetur, sumar, vor og haust og það er ekki komið haust, það er bara miður ágúst. Sem minnir mig á að óska jafnöldru minni, Madonnu, innilega til hamingju með afmælið í gær. Myndir af henni ófarðaðri hafa gengið um bloggheima og fólk hefur talað um hvað hún sé ljót! Myndin er reyndar ekki góð af henni, alls ekki, en mér finnst Madonna mjög flott kona.

Sjálf steingleymdi ég að hafa förðunaræfingu nokkrum dögum fyrir afmælið mitt og athuga hvort ég þyldi farða eftir sólbrunann agalega í júlí, þannig að ég Barn í afmælisgjöfsleppti öllu pjatti. Á myndum finnst mér ég heldur rjóð og óinterísant en verra hefði þó verið ef fésið hefði stokkbólgnað og afmælisgestir orðið hræddir, hlaupið út aftur og þá hefði ég ekki fengið allar þessar flottu gjafir. Skartgripir, föt, dekurkrem, baðbombur, bækur, lampi, blóm, listaverk, trefill með innbyggðri húfu, Radiohead-diskur, grifflur, peningar, gjafakort og fleira og fleira, að ógleymdu barninu þeirra Auðnu og Andrésar sem fæddist 10 mínútum áður en ég varð löglega fimmtug. Skyldi ég fá að velja nafnið á litlu dömuna?


Ógreidda sætið, Connelly og Wallander ... örbold

Ógreiddur maðurÞað voru heilmargar og stórmerkilegar strætósögur sem áttu að fara á bloggið í gær en föstudagsannir í vinnunni og svo syfja á föstudagskvöldum breytir bestu áætlunum um að blogga. Það sem stendur upp úr er að nýr ógreiddur maður er kominn til sögunnar í leið 18 og mun huggulegri (og eldri) en sá fyrri. Ég get víst ekki lengur talað um ógreidda menn, heldur er ég viss um að sætið sem þeir hafa valið sér hafi eitthvað með þetta að gera. Þessi nýi var í nákvæmlega sama sætinu og sá fyrri valdi sér alltaf og þá er þetta bara orðið spurning um sætið, finnst mér.

Við vorum tvö í leið 27 frá Akranesi í gærmorgun með sömu bókina. Hinn, maður sem hélt áfram að lesa standandi á stoppistöðinni í Mosó, var með nýja bók eftir Michael Connelly, Svartnætti. Eftir að ég las Skáldið eftir hann er ég Blóðskuldhúkkt á bókunum hans. Ef þið munið eftir bíómynd þar sem Clint Eastwood lék lögreglumann sem hafði fengið hjartaáfall í eltingaleik við glæpamann. Kona var myrt og svo heppilega vildi til að hún var í sama, sjaldgæfa blóðflokki og löggan og hann fékk hjarta hennar. Aðrir líffæraþegar voru síðan myrtir síðar og löggan okkar, ekki beint kominn til starfa aftur, leysti þó málið. Í myndinni var kunningi löggunnar látinn vera sá seki en alls ekki í bókinni, sem heitir Blóðskuld. Já, þessi nýja bók fjallar um sömu lögguna og kunninginn er enn kunningi, hvernig ætla kvikmyndagerðarmennirnir að láta Eastwood redda þessu? Löggan er auk þess MIKLU yngri en sjötíu plús.

Wallander hinn sænskiVið erfðaprins steinsofnuðum síðan bæði yfir Wallander í gærkvöldi, ég í leisígörl, hann í leisíboj, sem við geymum fyrir vinkonu mína. Algjör synd, myndin lofaði svo góðu.

Núna kl. 13 á að byrja að innrétta íbúðir fyrir flóttafólkið þannig að ég get ekki horft á boldskammt vikunnar. Ég hef þó séð sitt af hverju: Jackie fór í stóra aðgerð á sjúkrahúsinu og óvinur Stefaníu, Donna, systir Brooke, sem varð vitni að slagsmálum Jackiear og Steffí, hótar að segja lögreglunni að Steffí hafi hrint Jackie. Nick er alveg brjálaður yfir þessu og rifjar upp góðar stundir með móður sinni við undirleik lyftutónlistar, mjög átakanlegt. Lofa svo að fylgjast voða vel með í komandi viku.


Sjúkrahússjokk og geislavirkur úrgangur á Skagann?

Mikið er gott að hversdagslífið sé hafið á nýjan leik. Ég loksins orðin sátt við að vera fimmtug og búin að ákveða að verða flottasta sextuga kona landsins eftir tíu ár. Þá kemst ég í Séð og heyrt og hlakka ég ekkert smá til að sjá fyrirsagnirnar: SEXUG EN svakaSÆT. SÓMAKVENDIÐ ORÐIÐ SEXTUGT. osfrv. 

Úrgangsbærinn AkranesHitti nokkrar ótrúlega skemmtilegar saumaklúbbskonur í gærkvöldi, verið er að undirbúa aukablað fyrir Vikuna og ég þurfti smá að taka myndir og svona .... Ein konan var að tala um fréttir sem Skagamenn, alla vega þeir sem vita, eru ekki mjög hressir yfir. Veit samt ekki hvort búið er að samþykkja það, ég á eftir að gúggla þetta, en alla vega þá skilst mér að það eigi að fara að brenna rusli í Sementsverksmiðjunni, alls kyns rusli og úrgangi, m.a. dýrahræjum.

Sementsverksmiðjan er inni í miðjum bæ, kennileitið okkar, og þótt reykháfurinn sé hár þá langar mig að benda á að það er mikill misskilningur að það sé sífellt rok á Akranesi og allt fjúki á brott. Æ, kannski getum við bara verið þakklát fyrir að fá ekki geislavirkan úrgang.

Sat í strætó við hliðina á elskulegri Skagakonu sem var að fara upp á Landspítala í geislameðferð. Ég varð eiginlega máttlaus úr reiði þegar hún rifjaði upp fyrir mér hvernig farið var með hana þegar hún var skorin upp við brjóstakrabba í báðum brjóstum fyrir nokkrum vikum. Mæting eldsnemma morguns á Kvennadeild LSH, skorin upp og fleygt svo út næsta morgun fárveikri alveg. Aldrei of illa farið með góðar konur. Hún reyndi að bera sig vel, eins og við gerum, Íslendingar, til að vera ekki Veik konakallaðir aumingjar, og það voru greinilega mistök. Maðurinn hennar var að vinna til kvölds og hún þurfti að bíða allan daginn hjá ættingja í Reykjavík og svo var bílferðin heim á Skaga mjög kvalafull um kvöldið. Daginn fyrir aðgerðina átti hún að sprauta sig sjálf með blóðþynningarlyfi og sagt að hún hlyti að þekkja einhvern sem gæti sprautað hana ef legði ekki í það sjálf. Skjúsmí, fólk fer í háskóla til að læra að sprauta, held að sjúkraliðar megi ekki einu sinni sprauta, hvað þá fólk sem nýbúið er að fá fréttir um að það sé eitthvað að því. Hún fann loks skólahjúkku sem gerði það fyrir hana. Mjög fáir virðast vita af þessu og fólk rekur í rogastans þegar ég tala mig til hita um þetta.

Er þetta sérlega slæm meðferð á kvenfólki eða gengur þetta yfir alla, karlmenn og börn? Þetta er ekki sniðugt. Mér var gert þetta 2004 og sat heima og grét af kvíða ... ég kveið ekki endilega fyrir sjálfri aðgerðinni sem ég var að fara í, heldur því að þurfa að sprauta mig. Þetta fannst mér vera aukaálag á erfiðum tíma þegar ég vissi ekki hvort ég væri með banvænan sjúkdóm eða ekki. Aldrei þurft á heilbrigðiskerfinu að halda, þannig séð, greitt mína skatta og skyldur og er ekki sátt við svona meðferð. Ef ég lendi í einhverju svona aftur ætla ég að nýta mér glufuna í lögum um að fá að fara til Danmerkur ef ég tel mig ekki fá nógu góða heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ég veit að þetta sparar fé ... en þetta er afskaplega grimmdarlegur sparnaður við fólk sem er kannski hrætt og þess vegna ekki í stakk búið til að rífa kjaft yfir þessu.

Svo kannski bold í kvöld. Veit bara að Stefanía og Jackie slógust á stigapalli en það er ávísun á stórslys. Jackie datt og liggur í kóma á sjúkrahúsi. Stefanía gerir allt sem hún getur til að koma Brooke frá Nick og í faðminn á Ridge, syni Stefaníu. Nick öskraði á Stefaníu sem notaði það sem átyllu til að benda Brooke, sem enn er löglega gift Nick, á skapsmunina ... Annars held ég að Brooke ætli að fara að velja á milli þeirra og kannski þurfa þeir að gangast undir próf hjá henni eða eitthvað.

Vona að dagurinn ykkar verði léttur og ljúfur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 193
  • Frá upphafi: 1529012

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 164
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband