Færsluflokkur: Bloggar
13.8.2008 | 01:35
Skelfileg mistök bakara ... og meira svona afmælis
Þetta var aldeilis stórkostlegur dagur.
Fjöldi fólks lét sjá sig og skrifuðu um 80 manns sig í gestabókina sem er dágóður afrakstur miðað við árstíma og búsetu. Ég fékk fjölmargar dúndurgjafir þrátt fyrir (máttleysislegt) bann mitt um að það væri bannað ... og í fyrsta sinn í áraraðir kom ekkert barn í afmælið. Fjóla Æ og Mummi Guð, bloggvinir úr Keflavík, mættu í afmælið mér til mikillar gleði, og mikil var undrun þeirra þegar þau hittu Þurí hjá mér en hún og Mummi eru bræðrabörn. Lítill heimur.
Stór afmælisgrein kom í DV í dag, næstum heilsíða og ég sagði fólki að ég hefði sofið hjá ritstjóra DV til að fá svona drottningarmeðferð ... en það var bara plat. Ég er of siðprúð fyrir slíkt en ótrúlegt hvað einn fimmtíukall sem laumað er að ættfræðingi getur gert.
Ég klippti afmælisgreinina út og setti á ísskápinn. Halldór frændi las hana og sagði svo: Reyndu að gera sem minnst í viðbót í lífinu og þá er hægt að nota þetta sem minningargrein.
Bakarinn gerði hroðaleg mistök. Á stóru afmælistertunni átti að standa. Gurrí 50 ára, 12. ágúst Alþjóðlegur dagur unga fólksins. Ég fór sjálf í bakaríið til að panta og hafði að orði að þetta væri minn dagur líka og haldið að bakarinn hafi ekki skrifað Alþjóðlegur dagur ÞUNGA fólksins.
Kvikindislegir afmælisgestir mínir orguðu úr hlátri en þar sem kakan var svo bragðgóð ætla ég ekki að gera veður út af þessu. Orðið þunga var þó ekki borðað fyrr en undir átta í kvöld. Arg ...
Síðustu gestirnir komu um hálfellefu í kvöld og þá voru bara tveir gestir fyrir. Það er svolítið snjallt að vera síðastur út, þá fær viðkomandi afganga með í poka.
Smá afgangur er nú eftir af afmælistertunni fyrir þá sem koma á morgun og varla mikið meira. Næst man ég að hafa heilan helling af brauðmeti, það hvarf allt um kvöldmatarleytið. Sumir stórgræddu á því að þrjár brauðterturúllur týndust inni í ísskáp í tvo tíma og allt fylltist í eldhúsinu þegar þær voru bornar fram. Ég fékk fína aðstoð, Ásta mín reddaði mér góðri stelpu sem hellti upp á, skar brauðrúllur og hvaðeina sem til féll og stóð sig mjög vel.
Auðna, samstarfskona mín af Vikunni og dóttir Borghildar vinkonu, og Andrés, maður hennar, eignuðust stúlkubarn kl. 19.44 í kvöld ... þannig að það vantaði 10 mínútur upp á að nákvæmlega 50 ár yrðu á milli mín og barnsins. Geri aðrir betur. Ég var komin á SMS-listann og náði að færa ömmunni fréttirnar. Hún varð eirðarlaus upp úr því og á endanum dró hún Elfu vinkonu, sem kom alla leið frá Ameríku í afmælið mitt (og jú, sonur hennar verður þrítugur 18. ágúst nk.), upp á fæðingardeild. Stúlkan var tæpar 15 merkur og 53 cm. Aldeilis gaman að fá heilt barn í afmælisgjöf, fyrir utan allt hitt ... sem nýtist mér án efa betur.
P.s. Leiðrétti aldursmuninn á okkur barninu eftir gáfulegt komment, takk fyrir það. Meinloka hjá mér eða greindarskortur eða þreyta ...
Bloggar | Breytt 14.8.2008 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
12.8.2008 | 11:23
Barn í afmælisgjöf
Mörg skemmtileg símtöl í morgun og eitt það sniðugasta kom frá fæðingardeildinni. Hæ, Gurrí, ég er að föndra afmælisgjöf handa þér! Hehhehehe, hló ég og skildi ekkert hvað Auðna átti við. En það kom fljótlega í ljós, hún ætlar að gefa mér barn í afmælisgjöf, splunkunýtt og sætt. Búið er að setja hana af stað og þau Andrés stefna á að erfinginn fæðist kl. 19.54 svo það verði nákvæmlega 50 ár á milli okkar. Við getum svo sameinað veislurnar þegar ég verð 100 ára og krúttmolinn fimmtugur. Mikið á mér eftir að finnast hann ungur og barnalegur þá.
Ég vona að allir þeir sem ég náði ekki í eða gleymdi að minna á afmælið láti nú sjá sig í dag þrátt fyrir það. Samt er engin skyldumæting. Ég móðgast ekki út í neinn sem kemur ekki, sjálf er ég frekar partífælin.
Njótið dagsins, elskurnar! Það ætla ég sko að gera.
P.s. Myndin sýnir afstöðu himnaríkis við Sementsverksmiðuna ... eða þannig, eða hvar Jaðarsbrautin liggur. Myndin er tekin af suðursvölunum mínum. Inngangurinn er norðanmegin. Flóð verður kl. 15.59 við Langasandinn í dag ... svona fyrir þá sem vilja hafa allt á hreinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (57)
11.8.2008 | 17:04
Oggulítill vegvísir í formi mynda
Nýklippt og ótrúlega sæt, enn rúmlega fertug fór ég í bakaríið og pantaði áletrunina á afmælistertuna. Það verður heilmikið lesefni á henni og að þessu sinni geri ég ekkert grín að sjálfri mér, hvorki aldri mínum, sénsleysi né öðru.
Kíkti aðeins á Þröst bloggvin líka sem ætlar að redda afmælisjakkanum fyrir mig, þessi elska, en ekki koma í afmælið, allt of mikið að gera. Það verða nokkur afföll hjá ættingjum mínum en ég verð bara að treysta á að vinirnir klikki ekki ... þrátt fyrir skammarlegt boðskortaleysi sem ég kenni villtum önnum um.
Sendi SMS til nokkurra í gærkvöldi, vona bara að fólk sé enn með sömu gemsanúmer og fyrir sjö árum ... Held að ég hafi aldrei verið svona á allra síðustu stundu áður. Orðin of róleg í tíðinni kannski, enda er þetta 21 árið í röð sem ég held upp á stórafmælið mitt.
Með færslunni eru nokkrar myndir sem sýna aðkomuna fyrir þá sem aldrei hafa í himnaríki komið. Heill hellingur er af bílastæðum sunnanmegin, eða Langasandsmegin, en inngangurinn er Höfðabrautarmegin, ekið inn frá Garðabraut og þar eru eflaust fjögur til fimm laus stæði, fyrstir koma, fyrstir fá. Vona að ykkur gangi vel að finna þetta, ekki gengur að lenda í helvíti. Maðurinn á bílastæðamyndinni hérna neðst heitir Siggi og er samstarfsmaður minn. Hann dáðist einmitt svo að einkabílastæðinu mínu hérna fyrir neðan, sá varla öldurnar sem voru stórfenglegar þennan dag og náðust ekki almennilega á mynd.
Jamm, best að halda áfram við undirbúninginn. Njótið eftirmiðdagsins og eigið yndislegt kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
10.8.2008 | 11:53
Skilaboð frá almættinu ...
Ég hef verið full ...blindfull kvíða yfir því að verða fimmtug, Það var ekkert mál að verða þrítug, ég skildi ekki þá vini og kunningja sem kviðu og engdust yfir því. Þegar ég varð fertug fannst mér það hreinlega kúl ... og bara enginn aldur en mér var kippt harkalega niður á jörðina með það nokkuð fljótt algjörlega óviðbúinni. Ég lærði fullt af nýjum orðum, eins og kóf, breytingaskeið, miðaldra og svona.
Krabbameinsfélagið: Kona á þínum aldri þarf að mæta í brjóstamyndatöku ....
Mamma: Þú ert komin úr barneign, ekki séns að þú eignist Bryndísi litlu úr þessu!
Hárgreiðslukonan: Ha, engin grá hár og þú samt orðin fertug, vá!
Konurnar í vinnunni: Ertu með höfuðverk? Það hlýtur að vera breytingaskeiðið! Við erum orðnar svo miðaldra.
Vinkona, 12 árum eldri: (þegar ég hafði skokkað til hennar í miklum hita: Ertu með kóf, svona eins og ég?
Það sem líklega bjargaði mér var að sjálf Madonna er fjórum dögum yngri en ég og alltaf þegar ég fann fyrir hrumleika minnti ég mig á það. Þá var þessi jafnaldra mín að hlaða niður börnum, halda tónleika um heiminn og allt í þeim dúr.
Það var þó ekki fyrr en ég sá í fréttunum í gær að ég fattaði að ég hefði fengið skilaboð frá almættinu. Afmælisdagurinn minn, 12. ágúst, hefur verið valinn alþjóðlegur dagur UNGA FÓLKSINS. Ég er vissulega gömul miðað við tvítuga krakka, eldgömul alveg, en ég er ung, algjör skvísa, miðað við áttræða karla sem myndu selja sálina í sér til að verða ungir fimmtugir gæjar aftur.
Það var heilmikið glápt á mig á Megadeth-tónleikunum á Nasa um árið, enda orðin fertug, og við vinkonurnar vorum spurðar: Eruð þið hérna með börnunum ykkar? Við svöruðum (næstum því) sannleikanum samkvæmt: Nei, þau eru heima að hlusta á Celine Dion. Mér var á ákveðinn hátt komið í skilning um að minn tími væri liðinn og t.d. önnur áhugamál en rapptónlist væru hentugri fyrir mig. Ég var ekki ein af þessum fertugu sem reyndi að klæða sig eins og unglingur en skildi ekki þessa áráttu að það þyrfti að ýta mér svolítið til hliðar bara af því að ég væri fertug. Af hverju var ég ekki heima að búa til barnabörn?
Hvað ætli gerist á þriðjudaginn kl. 19.54 þegar ég verð á sekúndunni fimmtug? Hvað hefur mér ekki verið sagt? Tók ég aldurssjokkið út um fertugt eða bíður mín fólk í röðum til að segja mér að nú sé tími til að fara að stunda garðyrkju? Ég hata garðyrkju.
Jamm, þetta er nú kannski meira í gríni en alvöru en ég var vissulega stundum hissa yfir því hvað sumt fólk leyfði sér að segja við mig eftir að ég varð fertug því að ég fann harla lítinn mun á mér andlega sem líkamlega frá því að vera 35 ára. Í dag finnst mér ég t.d. ekki árinu eldri en svona 47 ½.
Hitti bloggvin á föstudaginn, elskuna hana Láru Hönnu ofurbloggara sem var greinilega að skila af sér þýðingum. Þýðingadeildin er í vinnunni minni í Hálsaskógi og stundum mæta þangað algjör sellebrittís af íþróttadeild Stöðvar 2 og svo auðvitað þýðingardeildinni. Lára Hanna gaf mér óvænta afmælisgjöf á leiðinni út, eða handritið að þýðingu sinni á boldinu þann 12. ágúst. Ég mun án efa missa af þættinum en nú get ég bara lesið þýðinguna og giskað á hverjir eru að fara að byrja saman, hverjir eru óléttir og svona. Meira bold í kvöld þegar búið er að taka himnaríki í gegn. Nú er það bara kaffffffi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
8.8.2008 | 09:34
Tekjur nokkurra bloggara ...
Guðdómleg strætóferð í morgun og svo beið mín glóðvolgt DV í vinnunni með tekjum heitustu bloggaranna ... og þeirra köldustu. Ég fór í flokk með þeim kúlustu ... æ, grín, þetta var ekki flokkað en ég er brjáluð út af myndinni af mér í blaðinu, ég lít út eins og vélsagarmorðingi, nú verður myndasafni DV rústað, djö ...
Tekjur nokkurra súperdúperbloggarra:
Anna Kristjánsdóttir, 503.182 krónur
Stefán Friðrik Stefánsson, 2.923 krónur
Sóley Tómasdóttir, 562.962 krónur
Stefán Pálsson, 367.044 krónur
Jón Valur Jensson, 116.352 krónur
Kolbrún Baldursdóttir 326.673 krónur
Katrín Anna Guðmundsdóttir 153.894 krónur
Jenný Anna Baldursdóttir, 182.343 krónur
... og undirrituð var með 335.000 krónur (ég veit að þið lifið daginn ekki af nema vita þetta) Það var víst algjört misminni hjá mér að ég hefði verið með um milljón á mánuði eins og ég bloggaði um nýlega, bið innilega velvirðingar á þessum mistökum. Ætlaði reyndar ekki að vera svona sjálfhverf að birta eigin tekjur en ég ætla ekki að vera með neina fokkings gervihógværð ... svona þegar síðasta helgi lífs míns sem 40 plús konu er að renna upp. Svo getur þetta líka virkað lokkandi á berklaveik, bláfátæk ljóðskáld sem langar í fallega og prýðilega fyrirvinnu ... svo ég fari nú kannski að ganga út.
Knús í bili á þessum klikkaða föstudegi. Þá er ég ekki bara að tala um sólina, heldur þá vinnu sem bíður mín í dag ... en það er gaman í vinnunni, elsku vinnunni minni. Hafið það dásamlegt í dag og passið ykkur á sólinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
7.8.2008 | 13:30
Farþegi frá helvíti ...
Ég hef hingað til skrifað um kosti þess að ferðast með strætisvögnum milli Akraness og Reykjavíkur. Þar sem undantekningarnar sanna víst regluna var ég harkalega minnt á í morgun hversu dásamlegar þessar ferðir eru vanalega þegar farþegi frá helvíti steig upp í vagninn. Örugglega yndislegur maður og það allt EN ..... Fyrsta dæmi: Það tekur þrjár mínútur að keyra frá endastöð og að himnaríki, á morgnana. Þegar ein mínúta var liðinn hringdi maðurinn í Strætó bs alveg í losti, hélt að hann hefði misst af vagninum. Hann hefði átt að spyrja mig sem kom þarna aðvífandi en sumir elska gemsana sína og taka þá fram yfir fallegar konur á stoppistöð ...
Greinilega aðkomumaður ... Hann hlammaði sér niður við hliðina á mér hinum megin við ganginn og það var í fínu lagi ... hélt ég. Ég var viðkvæm eins og postulínsbrúða eftir of lítinn nætursvefn og ætlaði að reyna að ná Nirvana-hugarástandi og hvílast á leiðinni. Þegar við komum að Hvalffjarðargöngunum vissi ég allt um hann, ekki að hann segði orð við mig, hann talaði bara nokkur símtöl. Hann talaði líka hátt, mjög hátt. Mig langaði að garga: Fyrirgefðu, en það er fólk að reyna að sofa hérna!
Ég veit allt um þennan áður ókunna mann. Hann var að fara til læknis í Reykjavík, hann elskar kærustuna sína, hann er kurteis og góður við mömmu sína, hann heldur að maður græði mikið á kaupum og sölum íbúða af því að maður fái svo mikið endurgreitt frá skattinum í ágúst. Ég var farin að hafa áhyggjur af bílstjóranum sem fékk þetta háværa málæði allt á hnakkann. Ég hef taugar úr stáli en ég fann samt hvernig rafgeymasýran bullaði í æðunum á mér. Ég var full morðfýsnar út í ... síma! Ég veit reyndar miklu, miklu meira um manninn eftir öll símtölin en það á ekki heima á virðulegu bloggi. Ég myndi láta lítið fyrir mér fara á næstunni, hann er brjálaður út í þig, sagði hann t.d. í einu símtalinu ... úúúú
Á leið niður Lopabrekkuna (Ullarnessbrekkuna í Mosó) hallaði maðurinn sér fram og spurði bílstjórann hvort hann væri virkilega með stillt á barnastöð. Já, Latabæ, sagði þessi elska, svo kannski trúarlega stöð á morgun, Bylgjuna hinn, bara eftir því hvaða stöð síðasti bílstjóri hefur stillt á. Ég bætti ekki um betur (alveg óvart) og spurði í gríni hvort við mættum þá eiga von á honum frelsuðum á morgun, hvort hann keyrði kannski út af og út í sjó í beygjunni niður í Kollafjörð, svona ofsatrúar-terroristi sem liti á nokkra strætófarþega sem fórnarkostnað í stríði ... hmmm, það féll heldur ekki í sérlega góðan jarðveg, enda búið að skemma morguninn fyrir bílstjóranum sem er vanur rólegum, greindarlegum og ekki síst ofsafallegum farþegum.
Strætó nr. 15 rann inn á stoppistöðina í Háholtinu þegar við komum þangað þannig að við urðum að hlaupa yfir götuna en ég held að þessum háværa hafi verið refsað á sinn hátt því hann ákvað að hinkra vitlausu megin við götuna eftir strætó, múahahaha, hann endaði örugglega uppi í sveit, múahahahahaha. Nema reyndar hann hafi sloppið í 15 án þess að ég sæi til.
Ég er búin að gulltryggja eitt: Maðurinn er nú kominn í lífstíðarbann hjá Strætó bs, það er komið byssuleyfi í strætó fyrir okkur farþegana og svo er búið að skella nýju bannmerki við hliðina á merkjunum sem ég sá í gær, þessum: BANNAÐ AÐ BORÐA ÍS, BANNAÐ AÐ DREKKA, MÁ KOMA MEÐ HUND SEM ER MEÐ MÚL og nú stendur: BANNAÐ AÐ TALA HÁTT, VIÐKVÆMIR FARÞEGAR/BÍLSTJÓRI. Drjúg eru morgunverkin.
Í leið 18 við Ártún voru yndislegir farþegar að vanda. Bara þrír Indverjar og svo hægláti maðurinn. Ógreiddi maðurinn er algjörlega horfinn! Strætó hefur einhvern veginn lag á því að losa sig við óæskilega farþega. Martraðarmaðurinn háværi í Skagastrætó í morgun mun ekki birtast aftur og svo er okkur ekkert um ógreitt fólk gefið heldur. Snyrtimennskan ávallt í fyrirrúmi í strætó!
Útrás dagsins var í boði mínu ... syfjaðar stuðkveðjur úr Hálsaskógi!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
6.8.2008 | 23:58
Hvar eru leigubílstjórar núna?
... eða jafnvel ráðherrabílstjórar þegar kollegi þeirra er dæmdur fyrir stuðning við hryðjuverkamenn bara af því að hann ók þeim? Eða kannski femínistar, það er alltaf sígild tískuspurning. Hehehe ...
Annars ætlaði ég bara að sýna ykkur í kristalskúluna mína. Hvern langar ekki til að sjá framtíðina? Þ.e.a.s. framtíðina í boldinu svona tvö ár fram í tímann! Hér kemur heill bold-þáttur þar sem Nick og Bridget eru að fara að gifta sig. Barnapía úr þáttunum sem ég vissi ekki að væri frænka Forresteranna er ástfangin af Nick en Bridget vill gleðja hana í tætlur og neyðir hana framkvæma hjónavígsluna ... með næstum því hroðalegum afleiðingum. Þarna eru Ridge og Brooke happí saman og Brooke getur meira að segja talað við Nikc tilvonandi tengdason sinn og fyrrum eiginmann af vináttu. Taylor, fyrri kona Ridge, mætir með stjúpson Ridge og son Brooke, upp á arminn, hann Rick sem er ótrúlega karlalegur miðað við að eiga líklega að vera 20-25 árum yngri en Taylor. Eric, pabbi Ridge, er greinilega kvæntur Donnu, systur Brooke, en Felicia, dóttir Erics og systir Ridge, reynir víst sitt til að skemma það hjónaband ... ég gægðist einum þætti framar í tímann þar sem þetta kom í ljós.
Nú, þeir sem vilja lifa í fáfræði um framtíðina í boldinu ættu ekki að hafa lesið þetta og því síður að glápa á þáttinn sem er hér fyrir neðan:
![]() |
Bílstjóri bin Ladens fundinn sekur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.8.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.8.2008 | 21:10
Bloggarar afhjúpaðir ... og smá bold
Þeir bloggarar sem héldu að þeir slyppu við að tekjur þeirra yrðu gerðar opinberar geta nú tekið gleði sína þar sem www.dv.is ætlar að opinbera þær fljótlega. Held að þetta sé ekkert leyndarmál svo ég blaðra því bara. Annars segja þessar útsvarstölur ekki allt, sumir lifa á fjármagnstekjum, aðrir fá áætlun, enn aðrir eiga fyrirvinnur og einhverjir vinna hlutastörf. Loksins eitthvað fútt í lífinu fyrir okkur sem hafa sogast inn í heim bloggsins og finnst ekkert þar fyrir utan skipta nokkru máli!
Fékk guðdómlegt far með drossíunni hennar Ástu í morgun. Brottför frá himnaríki var kl. 6.55 og geri aðrir betur. Með latte í annarri og latte í hinni hoppaði ég léttfætt niður himnastigann og var mætt í vinnuna upp úr kl. 7.30.
Taylor er komin í varðhald og appelsínuguli búningurinn fer henni bara nokkuð vel. Hún þráir heitast af öllu að afplána langan dóm, finnst hún ekki eiga neitt annað skilið fyrir að hafa ekið á Dörlu og orsakað dauða hennar. Thorne er enn öskureiður yfir því að hafa næstum trúlofast Taylor morðingja.
Stefanía reynir að fá garðyrkjumanninn grunsamlega til að segja dómaranum frá því sem hann sá en hann varð vitni að slysinu og getur vottað um það sem gerðist. Sá ætlaði í upphafi að kúga fé út úr Taylor en guggnaði á því þegar Phoebe skar næstum af honum hendina, alveg óvart.
Lögfræðingur að nafni Storm reynir að verja Taylor en það er erfitt verk þar sem hún vill taka út refsinguna og þjást sem mest. Dómarinn er sammála henni í því og dæmir hana í 10 ára vist í fangelsi með hámarksöryggisgæslu.
Stefanía og garði hlaupa inn í dómsalinn og bregður Thorne mikið þegar hann heyrir þennan trúverðuga fyrrum umrenning segja það sama og ástvinir hans fram að þessu, eða að þetta hafi verið slys.
Svo bara féll tjaldið og enginn mun hvað gerist fyrr en næsti þáttur verður sýndur. Mig grunar að Taylor sitji ekki inni í 10 ár því að hún fer víst fljótlega að deita Nick, eignast með honum barn og síðan deitar hún Rick, son Brooke, en Brooke er einmitt byrjuð á föstu með Ridge einu sinni enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
3.8.2008 | 20:22
Inn á með göngugrindina ...
Vá, bara barnaefni á præmtæm á laugardögum, sagði ég steinhissa við erfðaprinsinn, enda færist aldurinn hratt yfir mig þessa dagana. Ég áttaði mig á því að hann (aldurinn) hlýtur að vera rosalega smitandi því að sonurinn var enn fúlli en ég yfir því að Latibær verði sýndur eftir kvöldfréttir næstu átján laugardagskvöld frá og með 16. ágúst, afmælisdegi Madonnu. Ætli við fáum ekki Með afa á sunnudagskvöldum? hnussaði í honum. Samt erum við bæði með frekar barnslegan smekk á sjónvarpsefni, elskum ævintýramyndir, Simpsons og slíkt, en þessi fúlheit gætu verið vegna heilsustefnu þáttanna ... hreyfing, útivera, hollur matur og slíkt ... á nammidegi!
Ja, ekki sýna þeir íslenska þáttinn Heilsubælið í Gervahverfi sem ég lék svo eftirminnilega í, hélt ég áfram, þakklát syninum fyrir að taka undir nöldrið. Varstu ekki bara stadisti þar og lékst öxl í náttslopp? spurði hann. Ja, ég var a.m.k. mjög eðlileg og flott öxl, svaraði ég snúðugt.
Hér í himnaríki vorum við nýböðuð og pússuð í sparifötunum á leið út úr dyrunum þegar ég mundi skyndilega eftir því að matarboðinu kl. 18 hafði verið aflýst. Það hafði verið ákveðið af fyrrverandi tilvonandi gestgjöfum að fara frekar í fallegan lund um miðjan dag og borða smurt brauð með Úlfi og Ísaki, tvíburunum guðdómlegu, og leyfa þeim að hlaupa á Langasandinum ... í stað þess að vera flugnalaus inni í þægilegheitunum og borða grillmat. Okkur var vissulega boðið að koma í útivistina, hollustuna, flugurnar og hreyfinguna og það allt en kommon, ekki á sunnudegi. Við létum ekki hugfallast, heldur smurðum okkur gamlar flatkökur og ætlum bara að detta ofan í bókmenntir, ekkert minna en Dean Koontz, hann með nýju bókina, Góða strákinn, og ég með gamla og góða, From the Corner of his Eye sem er tryllingslega spennandi. Jú, auðvitað horfa á Monk sem er að hefjast.
Mikið er ég ánægð með umferðarmenninguna núna. Þegar ég fór í Borgarfjörðinn í gær óku allir á 90 km/klst, ekkert stress, enginn framúrakstur alla leiðina, bara frábært. Vona að þetta haldi áfram svona alla helgina. Þetta er ábyggilega öllum áróðrinum að þakka ... með dassi af ógeðslega háu bensínverði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.8.2008 | 13:32
Nóg að gera í himnaríki ...
Nóg að gera í himnaríki núna. Formúlan í sjónvarpinu og þáttur Sverris Stormsker að hefjast í endurtekningu, nú getur fólk heyrt hvað það er sem Sverrir sagði við Guðna sem orsakaði það að sá síðarnefndi rauk á dyr ... www.utvarpsaga.is, og Hlusta í beinni.
Svo ætla tvíburarnir hugumstóru, Úlfur og Ísak að skreppa í pikknikk á Langasandinn með ömmu, afa og fleirum á eftir. Kannski maður klæði sig á þessum letidegi og hitti litlu elskurnar á sandinum.
Fór í sumarbúðirnar í gær og heimsótti Hildu. Gætti þess auðvitað vandlega að hitta á vöffludag ... fékk heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma sem er einstaklega góð samsetning og minnir á bolludaginn og jólin í einum pakka.Sjálfur Haffi Haff mætti um kvöldið sem leynigestur og trylltust unglingarnir af gleði, enda er Haffi einn sá heitasti í bransanum núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 0
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 153
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 128
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni