Færsluflokkur: Bloggar

Tekjur nokkurra þekktra Íslendinga og þeirra bloggara sem ég fann

FlugmaðurVeit ekki hvað gerðist ... en tekjublað Mannlífs er komið út!!! Snilld bara. Aðgangur að tekjum bloggara er ekki jafnauðveldur og í fyrra svo ég verð bara að handpikka út og get ekki verið þekkt fyrir að birta ekki alla vega nokkur nöfn hér á blogginu mínu.

Veit að það  hringdu nokkrir alveg trylltir og brjálaðir eftir tekjublaðið í fyrra. M.a. flugmaður sem kom út tekjulægri en hann var í raun, held að það hafi verið innsláttarvilla. Hann öskraði: „Ég kem út eins og ég sé með laun eins og fokkings flugfreyja!“ (GH færði í stílinn)

Tölurnar tákna mánaðartekjur viðkomandi!!!!

Bjarni Ármannsson, úr Skagaliði Útsvars, 44.826.869

Reynir Traustason, ritstjóri DV, 1.097.356

Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsmaður 86.805

Björgólfur Guðmundsson bankaeigandi 1.772.290

Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður 5.317.586

Júlíus Valsson bloggari 1.410.618

Guðni Ágústsson alþingismaður 1.124.235

Björn Bjarnason, bloggari m. meiru, 1.078.594

Sigríður Arnardóttir sjónvarpskona 620.214

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðakona 568.100

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, ritstjóri 24 stunda, 555.276

Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður 722.721

Elín Hirst fréttastjóri 852.041

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, ritstjóri Skessuhorns, 128.070

Guðfinna Bjarnadóttir alþingiskona 3.314.648

Jafet Ólafsson fjárfestir 114.377

Bubbi Morthens, bloggari m. meiru, 477.610

Týnda kisanViðbót – áríðandi:

Lítil kisa úr Vesturbænum, Bárugötu 8, týndist sl. laugardag frá heimili sínu. Hún er innikisa og hafa eigendur hennar miklar áhyggjur af henni. Hún er af tegundinni Colourpoint-persi og er með blá augu.

Ef þið sjáið þessa kisu vinsamlega hringið í síma 856 5031 (Benedikta og Egill). Fundarlaun í boði.

 

 


Njósnir í morgunsárið

Skattstofan við StillholtÞá er lokið árlegri njósnaferð á skattstofuna fyrir skattablað Mannlífs. Njósnað var um aðila á borð við sýslumenn, lækna, presta og útgerðarmenn/-konur.

Mikið var gaman að sitja á skattstofunni í morgun, starfsfólkið þar er gjörsamlega frábært! Ég hef reyndar líka góða reynslu af fólkinu hjá skattstofunni í Reykjavík, held að það skipti máli hvort maður kemur á opinberar stofnanir kurteis í fasi ... eða í brjáluðu skapi og með attitjúd því maður búist við slæmri afgreiðslu.

SkattskráinUngir Sjálfstæðismenn, sem hata þessar njósnir, ættu að vera ánægðir með hvað þetta er gert erfitt fyrir okkur njósnarana, þetta er engin bók sem hægt er að fletta venjulega, heldur götuð blöð í möppu og nöfnin á vinstri síðu snúa öfugt við nöfnin á þeirra hægri, það þarf að snúa möppunni fram og til baka með tilheyrandi bakverkjum og vöðvabólgu. Mjög leiðinlegt er t.d. að skoða myndaalbúm sem þannig er raðað í.

Á skattstofunniKeppinautur minn frá hinu skattablaðinu sat á móti mér við lítið sófaborð og skráði laumulega úr hinni skattaskránni sem lá frammi. Við reyndum að láta hatrið ekki fara úr böndunum, enda erfitt að bresta í slagsmál og vera með kjaft þar sem við erum gamlir skólafélagar. Þótt við séum fædd sama ár er hann orðinn fimmtugur og hálfu ári betur ... og maður á að vera góður við gamalt fólk.


Guðni Ág. öskureiður og Thorne trylltur - brjálað bold

Sverrir GuðniJa, hérna. Sverri Stormsker tókst að gera Guðna Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra, svo brjálaðan í útvarpsviðtali í dag að hann rauk á dyr.

Sjá: http://dv.is/frettir/2008/7/30/gudni-rauk-dyr-hja-stormsker/

 

„Þú myrtir konuna mína,“ segir Thorne alveg sjokkeraður í boldinu. „Og ég sem bað þín! Þú laugst að mér og dóttur minni.“ Thorne er að sleppa sér. „Kennirðu Dörlu um þetta?“ öskrar hann svo þegar Taylor segir að Darla hafi dottið fyrir bílinn (sem er satt). Stefanía fréttir af þessu og ætlar að drífa sig upp í Big Bear, sumarhús Darla og Thornefjölskyldunnar, þar sem Thorne hafði ætlað sér að eiga rómantíska stund með Taylor. Þá hringir dyrabjallan, Baker fulltrúi kominn í heimsókn. Hann segist vita að Taylor hafi setið undir stýri og heimtar að þau játi öll með tölu!

Talor og Hector slökkviliðsGeðlæknirinn geðþekki segir Thorne hvað henni líði illa og hún sjái í sífellu fyrir sér óttaslegið andlit Dörlu á framrúðunni. Eins og það sé þetta sem Thorne þarf helst að heyra þessa dagana. Taylor nuddar meira salti í sárin ... „nú sér Darla litlu stúlkuna sína aldrei vaxa upp. Ó, andlitið á henni á framrúðunni hjá mér. Ég elska þig og hvert sem ég fer mun ég biðja fyrir þér. Þú verður í hjarta mínu til eilífðar!“ Samt vitum við áhorfendur að hún á eftir að deita Nick og verða ófrísk eftir hann með eggi Brooke, hún á líka eftir að deita son Brooke, hann Rick. Síðan hringir hún í fulltrúann, þar sem hann er staddur hjá hinum sem vissu, og játar allt. Hann sendir samstundis löggubíl eftir henni.

Baker fulltrúiNú er Taylor komin í varðhald og lúmskur Baker fulltrúi lætur hana segja frá öllum sem vissu af þessu; dótturinni Phoebe, Hector slökkviliðsmanni og Stefaníu sem teljast samsek og geta lent í fangelsi. Þegar hún af heimsku sinni er nýbúin að „skvíla“ þessu kemur Ridge, fyrrum eiginmaður hennar og pabbi Tómasar og tvíburanna, og bannar henni að tala meira fyrr en lögfræðingur er mættur.

PhoebePhoebe fer til Thorne, föðurbróður síns, og biður hann um að fyrirgefa þeim, aðallega Taylor, mömmu hennar. Thorne segist ekki trúa því að Darla hafi dottið fyrir bílinn, það sé léleg afsökun. Gullfalleg lyftutónlist ómar svo eftir að hann er orðinn einn. Hugsa sér, tvöföld sorg. Fyrst deyr konan hans og svo örfáum vikum síðar, þegar hann er orðinn ástfanginn af Taylor, þarf hún endilega að vera ökumaðurinn sem keyrði á Dörlu. Aumingja Thorne. Hvernig fer þetta?

Talandi um frost ... og afmælið sem verður stranglega bannað börnum ...

Þeir hjá strætó (Akranesmegin) vita sannarlega hvað þeir eiga að gera til að vér farþegar fáum ekki leið á að ferðast með þeim. Vagnarnir eru kannski allir gulir á litinn en innréttingarnar eru fjölbreytilegar. Flottasta drossían kom og sótti okkur farþegana í morgun, vagninn með þriggja punkta öryggisbeltunum fremst, DVD, glæstum speglum og háum sætum sem bjarga manni frá sólinni.

SnjókarlBílstjórinn er alltaf í smá rabbstuði á meðan við dólum rólega út úr bænum (Akranesi) og hirðum upp síðustu hræðurnar. Hann spurði mig hvort það hefði ekki verið bongóblíða á svölunum mínum í gær. Ég sagðist forðast sólina eins og heitan eldinn eftir brunaævintýrið á dögunum ... og þá mundi hann eftir manni sem vann með honum í denn úti í Nígeríu, þar sem þeir sigldu með skreið, og voru allir hálfberir nema þessi maður, sem var hvekktur eftir sólbruna. Hann var víst ansi vel dúðaður .. vægast sagt, svona miðað við hitann sem var um 50 gráður ... bílstjórinn minn sagðist hafa verið að kafna. Næst voru þeir (áhöfnin?) sendir til Rússlands þar sem frostið var 36 gráður. Ansi mikill hitamunur og þessi skelfilega Rússlandsferð gerði bílstjórann minn að kuldaskræfu. Mér fannst hann bara fínn í lopapeysunni í morgun og sætur litur á flíspeysunni sem hann var í utanyfir. Loðhúfan var líka kúl.

Afmælistertan í fyrraNú er ágúst að skella á og ég ekki einu sinni búin að skrifa afmælisboðskort ... hvað þá ákveða það sem á að standa á tertunni. Síðustu árin hef ég sent SMS til fólks, eða jafnvel hringt og minnt það á ammlið. Halldór frændi hefur átt nokkrar góðar hugmyndir í sambandi við áritun á tertuna en hann vill helst að ég geri grín að háum aldri mínum (ég er ekki gömul) og jafnvel nísku (og ég er ekki nísk).

Fyrsta nískutertan misheppnaðist hrapallega og enginn skildi neitt í áletruninni, allt bakaranum að kenna. Það átti að standa HAPPY BIRTHDAY - QUEEN MOM, svo átti bakarinn að strika yfir Queen Mom og setja klaufalega Gurrí til hliðar.  Drottningarmóðir Bretlands átti nefnilega afmæli nokkrum dögum á undan mér). Ég átti síðan að segja við forvitna gestina að ég hafi fengið tertuna mjög ódýrt ... Bakarinn skrifaði á tertuna: Happy Birthday Queen .... og svo fyrir neðan happy kom Mom og strik yfir það og Gurrí. Mjög hallærislegt Enginn fattaði út á hvað þetta gekk, samt var ég búin að teikna upp fyrir bakarann hvernig þetta átti að líta út.

Hluti veislufangaHugmynd Halldórs að skipta kökunni með súkkulaðistrikum. Áletrað á 90% kökunnar ÞEIR SEM FÆRÐU GJAFIR og á 10% HINIR var líka ferlega fyndin. Tertan í fyrra vakti lukku en á henni stóð: Elsku Þrúða, láttu þér batna. Þeim í bakaríinu fannst þetta hrikalega fyndið, alla vega hressu stelpunni sem kemur alltaf með kökuna.

Nú er þriðja afmælið í himnaríki að fara að renna upp. Gott væri ef fólk færi að melda sig hvort það ætli að koma. Ég gerði ráð fyrir 50-70 manns í fyrra og það komu 60. Ef miða á við fertugsafmælið þá koma a.m.k. 100 manns núna ... það bætist við fólkið sem er ekki gráðugt í fermingarveislutertur um mitt sumar, heldur finnst það vera skylda sín að koma þar sem þetta er stórafmæli.. Svo koma yfirleitt fleiri þegar amlið er á virkum degi og það er á þriðjudegi núna.

Afmælið í fyrraÞað kom nokkur barnaskari í fyrra sem var bara gaman en eftir spjall við ráðgjafa mín, fasta afmælisgesti, foreldra, börn og kettina mína þá verður veislan í ár stranglega bönnuð börnum, eins og hún hefur í raun alltaf verið, foreldrum til mikillar gleði, alltaf gott að losna við þessa óþekktarorma og geta verið í friði og spjallað og daðrað um leið og brauðtertur, súkkulaðikökur og annað hnossgæti er innbyrt. Sumir foreldrar hafa svo sem verið lúmskir í gegnum tíðina, komið með börn sín, sagt þau rosalega stillt og látið síðan sem þeir hafi ekki heyrt öskrin í þeim: „SKERA SÚKKULAÐITERTU!“ „SKEINA“ „ÞETTA BROTNAÐI ALVEG ÓVART“ ÉG HENTI TOMMA ÚT UM GLUGGANN“ og svo framvegis.

Fyndnasta áletrunin hjá frænda var samt:                            Til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið,                  

Dofri Hvannberg - 10. ágúst 2002.

Vá, hvað fólkið hló eða öskraði upp yfir sig af viðbjóði þegar ég sagðist hafa fengið tertuna á tombóluverði, tveggja daga gamla. Sumir héldu að fallhlíf Dofra hefði ekki opnast, aðrir héldu að hann hefði hætt við ... mismunandi hræðilega þenkjandi fólk sem ég þekki. Jamm, best að hringja í Halldór og ræna nýjum hugmyndum frá honum!


mbl.is 29 gráður og sólskin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri góðar móðganir

Ég kíkti á Netið nýlega og fann nokkrar ágætis móðganir í viðbót við þær sem ég þýddi upp úr skemmtilegu móðganabókinni sem ég fékk í jólagjöf um árið. Svo eru tveir gamlir og góðir Bjöggar þarna líka.

DublinerÞað er fínt að fá útrás hérna á blogginu fyrir andstyggilegheitin, ég er frekar lítið fyrir að móðga fólk svona dags daglega, a.m.k. viljandi. Einu sinni sagði ég mjög krúttlega við kunningja minn sem ég hafði ekki hitt í óratíma, gamlan skólafélaga úr Vörðuskóla: „Hvað er svona fallegur maður eins og þú að gera á svona stað eins og þessum?“ Við vorum á Gauk á Stöng eða líklega á Dubliner, já, þetta gerðist á Dubliner ... Maðurinn varð alveg brjálaður og rauk fussandi og sveiandi á brott og ég skil ekki enn hvers vegna. Alla vega tókst mér að móðga þessa elsku alveg óvart. Svo móðgaði ég líka mann sem horfði hrifinn á mig og sagði: „Hilda mín, ert þetta þú?“ Þegar ég sagðist vera systir hennar varð hann sár og móðgaður og sagði að ég vildi bara ekki þekkja hann. Hilda hefur lent í þessu sama þegar fallegir menn halda að hún sé ég og sært marga aðdáendur mína með því að vera ekki ég ...

Hér koma spælingarnar:

Eru foreldrar þínir systkini„Ég myndi spyrja þig um aldur þinn en geri mér alveg ljóst að þú kannt ekki að telja svo hátt.“

„Ég myndi vissulega reyna að móðga þig en þú myndir bara ekki skilja það.“

„Ég er ljóshærð/ur, hvaða afsökun hefur þú?“

„Mikið gleður það mig að þú látir ekki menntun þína flækjast fyrir fávisku þinni.“

„Hvern kalla ég heimskan? Góð spurning, ég veit það ekki. Hvað heitir þú?“

„Foreldrar þínir eru systkini, er það ekki?“

„Lærðu af mistökum foreldra þinna og láttu taka þig úr sambandi!“

„Hey, varst þú ekki krakkinn á getnaðarvarnaplakatinu?“

„Ég er viss um að gelt móður þinnar er verra en bit hennar.“

Móðgun„Hæ, ég er manneskja, hvað ert þú?“

„Feit, þú ert ekki feit, þú ert bara ... ó, fjandinn, ókei, þú ert feit, reyndar alveg rosalega feit!“

„Hún er svo feit að bíllinn hennar er eini bíllinn í bænum með slitför.“

„Hey, ég man eftir þér síðan þú varst aðeins með einn maga.“

„Ég sé að þú hefur verið svo ánægð/ur með hökuna á þér að þú hefur bætt tveimur við.“

„Þú ert svo feit/ur að þegar þú hoppar upp þá festist þú.“

 

Og svo úr pikköpplínudeildinni:

Maður: „Ég kannast svo við þig. Höfum við ekki hist áður?“
Kona: „Jú, ég vinn sem læknir á kynsjúkdómadeildinni.“

 

Maður: „Ég get uppfyllt alla kynóra þína!“
Kona: „Þú getur sem sagt reddað mér asna, St. Bernharðshundi og grilláhöldum?“

 

Tveir gamlir og góðir úr Bjöggadeildinni:

BjörgvinBjörgvin Halldórsson, sjónvarpsþulur og söngvari, er þekktur fyrir nístandi athugasemdir sem geta verið afar fyndnar ... fyrir þá sem lenda ekki í þeim. Þeir sem þekkja kauða segja að hann sé ekki að reyna að særa neinn heldur frekar að ná viðkomandi niður á jörðina. Þegar menn eru orðnir aðeins of stórir fyrir jakkafötin sín minnir Björgvin þá á hversdagsleikann og leiðir þeim skýrt fyrir sjónir að þeir séu engir stórkarlar. Einn morguninn stóð hann fyrir utan Stöð 2 og var að tala við samstarfsmann sinn þegar eitthvert „fóstur“ í jakkafötum kom aðvífandi á sjö milljón króna jeppanum sínum sem hann hafði aldrei ekið lengra út úr bænum en í Garðabæ.  Hann bisaði lengi við að troða jeppanum inn á stæði og Björgvin fylgdist grannt með. Síðan steig „fóstrið“ út úr bílnum, læsti honum með fjarstýringu, hagræddi gemsunum tveimur í brjóstvasanum og gekk í áttina til þeirra. Hann ætlaði að heilsa en Björgvin varð fyrri til, benti með þumlinum á jeppann og spurði: „Lýsing eða Glitnir?“

 

Vinsæll söngvari hafði keypt sér flottustu jakkaföt poppsögunnar og fór í þeim á Hótel Ísland þar sem Björgvin var með stórsýningu í gangi, sýningu sem hafði rúllað í tvö ár fyrir fullu húsi. Söngvarinn ákvað að heilsa upp á Björgvin baksviðs og vakti þar mikla athygli fyrir flottu fötin. Kannski líkaði Björgvini ekki öll athyglin sem söngvarinn fékk en hann gekk alla vega að honum, tók í jakkalafið, kíkti á merkið og sagði um leið og hann leit á söngvarann: „Ný föt ... sama röddin.“


Frábærir Skagamenn, panik í Mosó og ör-bold

Gjafmild SkagastelpaFékk fréttir frá Rauða krossinum í dag. Skagamenn hafa verið svo gjafmildir á fatnað, húsbúnað og húsgögn að búið er að kúffylla skemmuna og ekki er pláss fyrir meira. Þetta eru frábærar fréttir og segir margt um Skagamenn og nærsveitunga sem hafa komið með heilu kerrurnar af dóti til að gefa palestínsku flóttakonunum sem koma líklega til landsins eftir u.þ.b. mánuð. Ég átti að vinna næsta mánudagskvöld til að taka á móti hlutum en var tilkynnt að ég þyrfti ekki að mæta. Söfnunin hefur gengið framar öllum vonum! Húrra, Skagamenn!!!

Vinkona mín skutlaði mér í Mosó seinnipartinn, eiginlega upp á líf og dauða. Brottför frá Lynghálsi var kl. 17.36 vegna gífurlegrar umferðar sem tafði hana á leiðinni til mín. Strætó átti að fara frá Mosó kl. 17.45, eftir sjö mínútur! Arggg! Ég treysti á að leið 15, sem Skagastrætó bíður alltaf eftir, yrði örfáum mínútum of sein Esjanað vanda, og við brunuðum eftir Vesturlandsveginum, auðvitað á löglegum hraða. Vinkonu minni fannst ekki hægt að ég væri búin að vinna kl. 17.30 og þyrfti að bíða í rúman klukkutíma eftir að geta lagt af stað heim! Þegar hringtorgið hjá KFC kom í augsýn sáum við Skagastrætó aka út úr því áleiðis heim og stressuðumst við heldur betur. Vinkonan sagðist bara elta strætó að stoppistöðinni hjá Esjunni (Akrafjalli 2) en ég reyndi að senda einhverjum Skagamanninum í vagninum hugskeyti og að hann fengi óviðráðanlega þörf fyrir að fara út á stoppistöðinni í Lopabrekkunni í Mosó, þarna skömmu áður en komið er að afleggjaranum upp í Mosfellsdal. Þetta tókst, elsku strætó beygði inn á stoppistöðina, Skagamaðurinn þaut út í erindisleysu Í flugvélörugglega, vinkona mín fleygði mér út á ferð fyrir framan vagninn og ég þaut inn í strætó sekúndubroti áður en hann lagði af stað á Skagann. Þvílík spenna. Einn karlinn af Sætukarlastoppistöðinni sat í mínu sæti en ég var svo þakklát fyrir að hafa náð vagninum að ég stóð ekkert í því að fleygja honum aftur í til hinna villinganna. Náði að setjast fyrir aftan bílstjórann á Kjalarnesi og gat rétt úr fótunum. Annars er sniðugt að sitja aftar í strætó t.d. skömmu fyrir ferð til útlanda, svona til að venja sig við og læra að bregðast við krömpum, andnauð, ofsapanik og innilokunarkennd.

Illi lögreglustjórinn í DesperationÆtla að horfa á Stephen King mynd í kvöld kl. 22.20 á Stöð 2. Desperation heitir hún! Ég las bókina fyrir nokkrum árum og minnir að hún hafi verið hrikalega spennandi. Vona að myndin verði jafngóð ... þær geta verið misjafnar blessaðar. Besta myndin eftir bók Stephens King er örugglega The Shining og kannski ekki skynsamlegt að vonast eftir álíka gæðum ...

Bað erfðaprinsinn fyrr í dag um að kíkja á boldið fyrir mig þar sem ég vinn alltaf svo lengi á föstudögum og hann sagði að hún þarna með varirnar (Taylor) hefði loksins sagt honum þarna sem missti konuna (Thorne) að hún hefði sú sem ók á þarna konuna (Dörlu) og olli dauða hennar. Framhald eftir helgi.


Svæfandi Batman og kvikindislegur samferðamaður

darkknightDagurinn í gær var ofboðslega annasamur og enginn tími til að blogga. Við erfðaprins fórum á nýju Batman-myndina kl. 16 í Laugarásbíói og skemmtum okkur konunglega. Algjör snilldarmynd. Ætlaði að skemmta samferðafólki mínu á eigin kostnað og sagði stundarhátt og svolítið ein-voða-vitlaus við erfðaprinsinn þegar við gengum út úr bíóinu: „Ég hélt að Mamma Mia væri allt öðruvísi en þetta!“ Ég horfði á soninn breytast í ókunnan, kuldalegan mann sem hraðaði sér á bílastæðið. Þetta var greinilega algjörlega misheppnað grín. 

Ég klagaði í Sigurð M, blaðamann á dv.is og Skagamann, á stoppistöðinni í Mosó í morgun en sá hann fölna og Vá, hvað ég er heppinn að eiga heilbrigða móður-svipur færðist yfir andlit hans. Í einhverri fljótfærni sagði honum (og hlakkaði svolítið yfir því) að ég hefði orðið á undan honum í vinnuna tvo morgna í röð af því að Guðný á skannanum hirti mig upp í Ártúni. SM fer nefnilega alltaf út við hættulegu stoppistöðina á Vesturlandsveginum, fikrar sig niður háskabrekkuna, fer undir brúna og síðan upp Súkkulaðibrekkuna, svona eins og ég gerði þegar ég var ung. Með því að játa þetta og monta mig hurfu töfrarnir og Guðný kom ekkert í morgun Ég þurfti því að taka leið 18 upp í Árbæ og niður í Hálsaskóg. Það var náttúrlega samt snilld að hitta þýðandann í strætó og fá nýjustu fréttir af hvolpunum á heimilinu. Hann vaknaði einmitt tvisvar í nótt við væl í þessum krúttum. Ég talaði reyndar við Skagakonu, búsetta í Rvík, alla leiðina í strætó en náði spjalli við þýðandann á leiðinni upp tröppurnar í vinnunni og leiðir skildi ekki fyrr en rétt fyrir utan mötuneytið. Ég mætti Sigurði M. á leið minni inn en þá var hann að koma frá því að stela kaffi frá Birtíngi. Í mötuneytinu er kaffið frekar hræðilega vont og kostar að auki 100 kall bollinn. SM sagði hæðnislega: „Bara komin?“ við mig og hló tryllingslega innra með sér. Held ég verði að fara að taka strætó klukkutíma fyrr til að lgeta launað honum lambið gráa.

Þegar við komum heim í gærkvöldi upp úr kl. 19 (myndin var löng) var bara sest í leisígörl og beðið eftir glæpaþætti í sjónvarpinu ... en það var dottað og hrotið og loks steinsofnað. Ég sem ætlaði að blogga ... garg! Vaknaði nánast útsofin kl. hálffjögur í nótt við hlið steinsofandi erfðaprinsins í leisíboj. Þetta var bara fyndið, myndin var var stórkostleg en kannski við höfum verið svona þreytt eftir öll þessi flottu atriði sem dundu á okkur! Fólk með aldursfordóma myndi kenna aldrinum um hjá mér ef þetta hefði verið þannig en erfðaprinsinn er bara á þrítugsaldri og búinn að hlakka til að sjá þessa mynd um langa hríð. 

Annasamur og líklega langur föstudagur fram undan og best að fara að vinnnnnnna!!! Bendi á að nýja Vikan er mögnuð að vanda. Nú er forsíðuviðtal við Sigfríð Þórisdóttur, eiganda Pottagaldra og fv. dýrahjúkrunarkonu. Fyrir þremur árum fékk hún höfuðhögg og í kjölfarið heilablæðingu sem breytti lífi hennar algjörlega. Hún er t.d. algjörlega ófær um að gleðjast eftir blæðinguna. Ég fékk einmitt fyrsta köttinn minn á Dýraspítalanum hjá henni, hann Guðbrand minn sáluga. Hún er mikið breytt og það var sannarlega áfall að sjá þessa hressu konu breytast svona.


Veðurbeltið í Háholti, gamalkunnur geitungur og smá bold

Í HáholtiNýi bílstjórinn mætti á vaktina í morgun, úthvíldur eftir gott frí. Hann kom okkur heilu og höldnu í Háholt í Mosó þar sem ríkti óvenjugott veður miðað við staðsetninguna. Háholtsveðurbeltið er öðruvísi en öll önnur veðurbelti og sækir kvikindisskap sinn alla leið til útlanda. Fárviðri og fellibyljir hamast í Ameríku, ná í sig enn meira afli í ítölsku Ölpunum, smeygja sér þaðan út á Atlantshaf, lauma sér inn í Faxaflóann og upp í Háholt í Mosó þar sem það deyr út eftir að hafa farið illa með Skagamenn sem þurfa að húka þar í fjórar mínútur í bið eftir leið 15. Vísindalega útreiknað!

Í Mosó sá ég ekki betur en litli geitungurinn, sem laumaði sér með okkur frá Kjalarnesi fyrir nokkrum vikum, hafi verið þar á sveimi. Hann hefur stækkað einhver ósköp og lagði karlmennina, kuldaskræfurnar í skýlinu, í einelti.

Við Vesturlandsveginn í morgunGuðný í vinnunni náði að grípa mig í Ártúni, rétt á undan leið 18, sem spældi örugglega DV-blaðamanninn sem hélt að hann yrði á undan mér í vinnuna. Hann fór út á Vesturlandsveginum og gekk upp Súkkulaðibrekkuna. Það var samt sárt að horfa á eftir unga fólkinu feta sig niður mjög háan kantinn og niður í hyldýpið út frá Vesturlandsveginum. Stelpan í hælaháu skónum fékk þó góðan stuðning frá vini/kærasta, annars hefði hún rúllað alla leið, eins og ég í fyrra. Ég mótmæli þessarri stoppistöð með því að nota hana ekki og mun ekki gera fyrr en það eru komnar tröppur þarna eða við fáum afhentar fallhlífar eða sigbúnað. Ungu krakkarnir halda þau að þau séu eilíf, ég þekki lífið betur og byltur þess ...

Dark KnightUm tíuleytið mætti viðtalsefnið mitt í hús, fékk förðun hjá Haffa og svo lögðum við öll í hann í Kópavoginn og hafði ljósmyndari bæst í hópinn. Ég ætla að fara að skrifa viðtalið, svona á meðan það er í fersku minni. Hætti frekar aðeins fyrr á morgun og fer á fjögursýningu á Dark Knight! Það er uppselt á allar seinni sýningar út árið, held ég. Alla vega næstu daga.

Talyor, Ridge, Nick og BrookeBrooke er í miklu uppnámi vegna svika Nicks (sem svaf hjá dóttur hennar, Bridgeti, sem er reyndar fyrri kona Nicks). Donna, systir Brooke, var næstum því búin að forfæra Ridge en þá kom Brooke grátandi þangað og fór beint í fangið á Ridge. Hann var ekki einu sinni búinn að þurrka varalit Donnu af vörum sér þegar hann kyssti Brooke ástríðufullt. Bridget bað mömmu sína um að sýna Nick miskunn og halda áfram að vera gifta honum, en Ridge mun án efa ekki sleppa Brooke svo auðveldlega. Stefanía er alsæl, enda vill hún að Ridge og Brooke verði saman. Ef hún bara vissi ... Donna beinir spjótum sínum nefnilega næst að eiginmanni Stefnaníu, Eric, sem hún hefði ekki gert ef hún hefði fengið Ridge.

Rick, sonur Brooke, og TaylorNú fer unga kynslóðin að koma inn. Það er t.d. ekki mjög langt í að Rick, bróðir Bridgetar og sonur Brooke, fari að deita Taylor, fyrri konu Ridge og mömmu Tómasar og tvíburanna. Held meira að segja að Taylor stingi undan öðrum tvíburanum sínum með Rick. Taylor hefur í mörg ár keppt við Brooke um ástir Ridge sem er í raun hálfbróðir Ricks nema þeir eru ekki blóðskyldir. Ridge er Massimo í raun og því hálfbróðir Nicks.


Hin fullkomna móðgun

Björgvin„Nú ert þú alltaf svo flottur í tauinu, alltaf með svo góðar græjur og kannt alla nýjustu frasana. En ert samt alltaf svo glataður.“ Björgvin Halldórsson við gítarleikara í fremstu röð

Carl Billich píanóleikari þótti með eindæmum kurteis maður. Eitt sinn var hann að spila á balli í Þjóðleikhúskjallaranum og drukkinn maður var þar með frammíköll og læti. Loks missti Carl þolinmæðina, stóð upp frá píanóinu, gekk að manninum og sagði ákveðinn: Mig langar að biðja yður vinsamlegast um að halda munni ... og snæða óhreinindi.“

„Og hvað með það?“ Elvis Presley, þegar honum var sagt að Bítlarnir væru komnir í heimsókn til hans á Graceland

„Hvernig í ósköpunum gæti ég átt í kynferðislegu sambandi við fimmtugan steingerving? Ég á guðdómlegan kærasta sem er 28 ára gamall. Hvers vegna ætti ég að skipta honum út fyrir risaeðlu?“  Carla Bruni um Mick Jagger

Bruce Springsteen„Tónleikar hans standa yfir í fjóra og hálfan tíma. Það er pynting. Hatar hann áheyrendur sína?“ John Lydon um Bruce Springsteen

„Hvernig er mögulegt að hafa það að atvinnu sinni í 30 ár að spila á munnhörpu og sýna ekki minnstu merki um framfarir?“ David Sinclair, The Times, um Bob Dylan

„Hann hljómar eins og hann sé með múrstein hangandi á kynfærunum og matvinnsluvél í kokinu að búa til kæfu úr hálskirtlunum.“ Paul Lester, Melody Maker, um Jon Bon Jovi

„Ólýsanlegur, hæfileikalaus og óheflaður ungur skemmtikraftur.“ Bing Crosby um Elvis Presley

„Drengurinn inniheldur meira plast en plastpoki.“ Melody Maker um Michael Jackson

„Ef myndin mín gerir að minnsta kosti eina manneskju óhamingjusama þá hefur mér tekist ætlunarverk mitt.“ Woody Allen

„Frábær leikkona ... frá mitti og niður úr.“ Dame Margaret Kendal um Söru Bernhardt

„Ég hef meiri hæfileika í mínu minnsta prumpi en þú í öllum líkamanum.“ Walter Matthau við Barbra Streisand

„Hann lítur út eins og hálfbráðnaður bolabítur úr gúmmíi.“ John Simon um Walter Matthau

„Við verðum að viðurkenna að síðasta brúðkaup Elísabetar Taylor snerist um að selja ilmvatn vegna þess að það er erfitt að selja ilmvatn þegar maður er gömul og feit piparkerling.“ Johnny Rotten (Sex Pistols)

Joan Collins„Joan Collins myndi selja eigið garnagaul ef hún gæti það.“ Anthony Newley (fyrrverandi eiginmaður hennar)

„Mér finnst sjónvarp vera mjög fræðandi. Um leið og einhver kveikir á því fer ég inn í bókaherbergið mitt og les góða bók.“ Groucho Marx

„Það væri mikil fróun í því að grafa hann upp og fleygja í hann grjóti.“ George Bernard Shaw um William Shakespeare

„Gott fyrir frama hans.“ Gore Vidal þegar hann frétti lát Trumans Capote

 „Sögur hennar eru ráðgátur ekki skáldskapur. Persónur hennar eru ekki einu sinni nógu raunverulegar til að vera skopstælingar. Mér líkar alls ekki við bækur Agöthu Christie.“ Ruth Rendell um Agöthu Christie

„Tilhugsunin um Karl prins að spjalla við grænmetið sem hann ræktar er ekki svo óhugsandi þegar maður man eftir því að hann hefur mikla æfingu í að spjalla við ættingja sína.“ Jaci Stephens, The Sunday Times

„Við bjóðum svona fólki í tesamkvæmi en við giftumst því ekki.“ Lafði Chetwode um tilvonandi tengdason sinn, John Betjeman

„Börn eru fín. Ef þau eru almennilega elduð.“ W.C. Fields

 „Við ættum að setja reykingamenn og litla krakka saman og sjá hverjir verða fyrri til að gera hina brjálaða.“ John Simon um börn í flugvélum

„Ég horfði á Sumoglímu í sjónvarpinu í tvo klukkutíma þegar ég áttaði mig á því að þetta var pílukast.“ Hattie Hayridge

„Hún var svo loðin að þegar hún lyfti upp höndunum hélt ég að Tina Turner væri í armkrikunum á henni.“ Joan Rivers um Madonnu

„Tómarúm með geirvörtur.“ Otto Preminger um Marilyn Monroe

„Hún er ein af fáum leikkonum í sögu Hollywood sem er líflegri á ljósmyndum en á hvíta tjaldinu.“ Michael Medved um Raquel Welsh

Brooke Shields„Rússar elska Brooke Shields vegna þess að augabrúnirnar á henni minna þá á Leonid Brezhnev.“ Robin Williams

„Ég þekkti hana áður en hún varð hrein mey.“ Oscar Levant um Doris Day

„Elizabeth Taylor er svo feit. Hún dýfir verkjatöflunum sínum í majónes.“ Joan Rivers um Elizabeth Taylor

„Ég vildi að ég hefði þekkt þig á meðan þú varst á lífi.“ Leonard Louis Levinson við leiðinlegan mann

„Ég ætla að leggja nafn þitt á minnið og síðan fleygja höfðinu á mér.“ Oscar Levant

„Hún fékk fallegt útlitið frá föður sínum. Hann er lýtalæknir.“ Groucho Marx

 „Megi kynlíf þitt verða jafngott og lánstraustið.“ J. Corigan

„Maðurinn var svo lítill að hann var sóun á húð.“ Fred Allen

„Ein hrukka í viðbót og allir halda að þú sért sveskja.“ Ókunnur höfundur

„Þú ert svo lítill að þegar fer að rigna ert þú sá síðasti sem fattar það.“ Ókunnur höfundur

„Ég hef heyrt skemmtilegri samræður í stafasúpu.“ Ókunnur höfundur


"Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð"

Saving IcelandVinnudagurinn var gjörsamlega frábær eins og venjulega og þegar ég gerði mig tilbúna til að hoppa í strætó seinnipartinn hringdi Ásta mín elskuleg, stödd í Reykjavík og þurfti að finna Múrbúðina. Ég sagði henni til vegar með því að kíkja á kort á www.ja.is og ekki svo löngu síðar kom hún á drossíunni, ásamt gullfallegri dóttur sinni, í Lynghálsinn. Við ákváðum að fá okkur kaffi í Mosfellsbakaríi til að drekka á heimleiðinni. Engir hitamælar eru til þar en ég bað stúlkuna um að reyna að ná hitastiginu 150°F með hugarorkunni og hafa enga froðu. Ásta hvíslaði að mér að ég væri að taka hana á taugum þannig að ég hætti við að biðja stúlkuna um að fá að fylgjast með þegar hún hellti mjólkinni út í pappamálið. Hummm, heita mjólkin með kaffibragðinu var samt ágætlega hressandi en auðvitað á maður að biðja um það sem maður vill fá, kurteislega þó, ekki óttast að stressa afgreiðslufólk.

Áður en við lögðum af stað frá Mosó fékk Ásta SMS frá vinkonu sinni sem vinnur í járnblendinu: „Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð!“ Við hlógum illgirnislega alla leiðina á Kjalarnes en snögghættum að hlæja þegar við lentum fyrir aftan mjög hægfara ökutæki! Það tekur á taugar nútímakvenna að aka á 30 í gegnum Hvalfjarðargöngin.

PavarottiÞað sem Járnblendiðlíklega róaði okkur niður var að Pavarotti var á fóninum og meira að segja jólalagið sem hann söng var algjörlega við hæfi. Upptökubíll frá RÚV lullaði fyrir framan okkur og við veltum aðeins fyrir okkur hvernig hann gæti mögulega komist fram fyrir langa bílaröðina sem hafði víst myndast í báðar áttir til að mynda mótmælin.

Ég hugsaði aðeins um að fremja afbrot á Skaganum þar sem löggan væri nú örugglega upptekin við að „berja á“ Saving Iceland en svo nennti ég því ekki. Himnaríki beið í yndislegheitum sínum. Mikið sakna ég annars ökuferðanna með Ástu í bæinn á morgnana.

Tommi liggur nú í leisíboj (hægindastóll sem við erum að passa) og erfðaprinsinn setti mjúkt teppi undir hann, púða við höfðalagið og fótaskemilinn út svo hann geti nú rétt almennilega úr sér, elsku Tommi í leisíbojkötturinn. Nú flæðir að við Langasandinn og allt lítur út fyrir að það verði fagrar, jafnvel svolítið stórar öldur á hlaðinu hjá mér þegar líður nær kvöldi.

Myndavélin sem ég er með í láni bilaði fyrir nokkrum dögum („format error“) svo ég bað elsku sænska ljósmyndarann í vinnunni um að kíkja á hana. Sá snillingur fann út að minniskortið væri ónýtt og þá voru hæg heimatökin að skipta um minniskort við heimkomu en ég hafði nýlega keypt slíkt kort í mína vél áður en skjárinn á henni eyðilagðist. Í „kaupbæti“ fékk ég góðar ráðleggingar um næstu myndavélarkaup.

Fyrsta myndin sem tekin var á vélina eftir kubbaskiptin er einmitt myndin af Tomma í hægindastólnum hættulega (svæfir hvern þann sem í hann sest). Ekki kannski tímamótamynd en sýnir engu að síður það dekur sem hann býr við hér í himnaríki.


mbl.is Mótmæli við Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 157
  • Frá upphafi: 1529020

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 132
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband