Talandi um frost ... og afmælið sem verður stranglega bannað börnum ...

Þeir hjá strætó (Akranesmegin) vita sannarlega hvað þeir eiga að gera til að vér farþegar fáum ekki leið á að ferðast með þeim. Vagnarnir eru kannski allir gulir á litinn en innréttingarnar eru fjölbreytilegar. Flottasta drossían kom og sótti okkur farþegana í morgun, vagninn með þriggja punkta öryggisbeltunum fremst, DVD, glæstum speglum og háum sætum sem bjarga manni frá sólinni.

SnjókarlBílstjórinn er alltaf í smá rabbstuði á meðan við dólum rólega út úr bænum (Akranesi) og hirðum upp síðustu hræðurnar. Hann spurði mig hvort það hefði ekki verið bongóblíða á svölunum mínum í gær. Ég sagðist forðast sólina eins og heitan eldinn eftir brunaævintýrið á dögunum ... og þá mundi hann eftir manni sem vann með honum í denn úti í Nígeríu, þar sem þeir sigldu með skreið, og voru allir hálfberir nema þessi maður, sem var hvekktur eftir sólbruna. Hann var víst ansi vel dúðaður .. vægast sagt, svona miðað við hitann sem var um 50 gráður ... bílstjórinn minn sagðist hafa verið að kafna. Næst voru þeir (áhöfnin?) sendir til Rússlands þar sem frostið var 36 gráður. Ansi mikill hitamunur og þessi skelfilega Rússlandsferð gerði bílstjórann minn að kuldaskræfu. Mér fannst hann bara fínn í lopapeysunni í morgun og sætur litur á flíspeysunni sem hann var í utanyfir. Loðhúfan var líka kúl.

Afmælistertan í fyrraNú er ágúst að skella á og ég ekki einu sinni búin að skrifa afmælisboðskort ... hvað þá ákveða það sem á að standa á tertunni. Síðustu árin hef ég sent SMS til fólks, eða jafnvel hringt og minnt það á ammlið. Halldór frændi hefur átt nokkrar góðar hugmyndir í sambandi við áritun á tertuna en hann vill helst að ég geri grín að háum aldri mínum (ég er ekki gömul) og jafnvel nísku (og ég er ekki nísk).

Fyrsta nískutertan misheppnaðist hrapallega og enginn skildi neitt í áletruninni, allt bakaranum að kenna. Það átti að standa HAPPY BIRTHDAY - QUEEN MOM, svo átti bakarinn að strika yfir Queen Mom og setja klaufalega Gurrí til hliðar.  Drottningarmóðir Bretlands átti nefnilega afmæli nokkrum dögum á undan mér). Ég átti síðan að segja við forvitna gestina að ég hafi fengið tertuna mjög ódýrt ... Bakarinn skrifaði á tertuna: Happy Birthday Queen .... og svo fyrir neðan happy kom Mom og strik yfir það og Gurrí. Mjög hallærislegt Enginn fattaði út á hvað þetta gekk, samt var ég búin að teikna upp fyrir bakarann hvernig þetta átti að líta út.

Hluti veislufangaHugmynd Halldórs að skipta kökunni með súkkulaðistrikum. Áletrað á 90% kökunnar ÞEIR SEM FÆRÐU GJAFIR og á 10% HINIR var líka ferlega fyndin. Tertan í fyrra vakti lukku en á henni stóð: Elsku Þrúða, láttu þér batna. Þeim í bakaríinu fannst þetta hrikalega fyndið, alla vega hressu stelpunni sem kemur alltaf með kökuna.

Nú er þriðja afmælið í himnaríki að fara að renna upp. Gott væri ef fólk færi að melda sig hvort það ætli að koma. Ég gerði ráð fyrir 50-70 manns í fyrra og það komu 60. Ef miða á við fertugsafmælið þá koma a.m.k. 100 manns núna ... það bætist við fólkið sem er ekki gráðugt í fermingarveislutertur um mitt sumar, heldur finnst það vera skylda sín að koma þar sem þetta er stórafmæli.. Svo koma yfirleitt fleiri þegar amlið er á virkum degi og það er á þriðjudegi núna.

Afmælið í fyrraÞað kom nokkur barnaskari í fyrra sem var bara gaman en eftir spjall við ráðgjafa mín, fasta afmælisgesti, foreldra, börn og kettina mína þá verður veislan í ár stranglega bönnuð börnum, eins og hún hefur í raun alltaf verið, foreldrum til mikillar gleði, alltaf gott að losna við þessa óþekktarorma og geta verið í friði og spjallað og daðrað um leið og brauðtertur, súkkulaðikökur og annað hnossgæti er innbyrt. Sumir foreldrar hafa svo sem verið lúmskir í gegnum tíðina, komið með börn sín, sagt þau rosalega stillt og látið síðan sem þeir hafi ekki heyrt öskrin í þeim: „SKERA SÚKKULAÐITERTU!“ „SKEINA“ „ÞETTA BROTNAÐI ALVEG ÓVART“ ÉG HENTI TOMMA ÚT UM GLUGGANN“ og svo framvegis.

Fyndnasta áletrunin hjá frænda var samt:                            Til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið,                  

Dofri Hvannberg - 10. ágúst 2002.

Vá, hvað fólkið hló eða öskraði upp yfir sig af viðbjóði þegar ég sagðist hafa fengið tertuna á tombóluverði, tveggja daga gamla. Sumir héldu að fallhlíf Dofra hefði ekki opnast, aðrir héldu að hann hefði hætt við ... mismunandi hræðilega þenkjandi fólk sem ég þekki. Jamm, best að hringja í Halldór og ræna nýjum hugmyndum frá honum!


mbl.is 29 gráður og sólskin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 Nú brosi ég hringinn eftir lestur skemmtilegrar færslu.  Ég kemst ekki eins og ég hafði ætlað mér vegna, ja bara baksins t.d. en ég er búin að velja mér fulltrúa fyrir mig, það verður frú SÓL hún ætlar að skína allan daginn þér til heiðurs.  Þetta með kökurnar, þá dettur mér í hug þáttur með Friends þar sem var verið að halda upp á afmæli Emmu litlu, hún fékk óvart tippaköku, fílar þú eitthvað svoleiðis með góðum texta t.d. "ég stend alltaf upp fyrir þér"!! ég ligg, en ekki undir feldi og reyni að fá góðar hugmyndir, ætla að kíkja á Chuck Norris, ætli það mundi ekki vera þannig að þú gætir sett kleinu á bakka og hann mundi horfa á hana þannig að hún mundi breytast í þá tertu sem hann vill helst 

WooHoo

Ásdís Sigurðardóttir, 30.7.2008 kl. 11:57

2 identicon

 hæhæ á þessum góða degi.

Við Svanhildur ætlum að mæta galvaskar með pakka svo við fáum súkkulaðiköku á alles í þínu árlega afmæli og jafnvel tökum við með okkur fylgifiska sem ekki þarf að skera fyrir og skeina en með brotin sem koma óvart get ég ekki svarið fyrir. Sjáumst hressar 12 ágúst   

tanta (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 12:01

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Búhú, ég verð úti á ballarhafi á afmælinu þínu og kemst ekki. En ég, Úlli og Stjáni munum hugsa fallega til þín og skála fyrir þér í svona skemmtiferðaskipakokkteilum.

Helga Magnúsdóttir, 30.7.2008 kl. 12:04

4 identicon

Minni á að Drottningarmóðirin dó þetta ár, rétt fyrir afmælið sitt. ÞESS VEGNA fékkstu hana ódýrt

Breiðholtshatarinn (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 12:31

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Barnaskelfir

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:44

6 identicon

Elsku Gurrí, hér kemur eitt meld í veisluna

Ég á sjaldan heimangengt í afmælisboðin þín, en þessu get ég ekki sleppt!

knús að vestan,

Védís (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 13:01

7 Smámynd: Svava S. Steinars

Ég mæti

Svava S. Steinars, 31.7.2008 kl. 00:17

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þú ert greinilega skyld Halldóri frrænda þínum haha!

Að "segjast forðast sólina eins og heitan eldin" er þvílík snilldarsetning að ekki einu sinni skapari hennar hefur uppgötvað það! Ætti skilið að enda á tertunni. Svei mér ef ég sjálfur mun ekki framvegis forðast -Súkkulaði sem heitt kakó-, tja, eða öfugt!

Í alvöru Gurrí, þessi setning er gull!

Magnús Geir Guðmundsson, 31.7.2008 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 29
  • Sl. sólarhring: 319
  • Sl. viku: 1573
  • Frá upphafi: 1453732

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1308
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband