Hetju- og strætóferð dauðans með morðívafi

Ásta svaf á sínu græna eyra í morgun þegar ég fór í hetju- og strætóferð dauðans ... Ég svaf út, eða til kl. 7.10 (í stað 6.10), og beið svo fersk og spennt á stoppistöðinni á Garðabraut eftir strætó, brottför þaðan 7.43 sharp. Skúli sat við stýrið og brosti breitt, eins og alltaf þegar hann tók okkur upp í, enda er fólk sem flytur á Skagann valið til búsetu eftir útliti (og greind). Ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaða í vagninum og tel ég það hafa verið undirbúning fyrir það sem beið okkar í leið 15, hljóðlátara og banvænna.

Uppnám í strætóAllt leit sakleysislega út, yndislegi, brosmildi bílstjórinn á 15 bauð góðan dag þegar við Skagamenn skröngluðumst inn í Háholtinu og brostum á móti. Vagninn þægilegur, grannur sessunautur, 24 stundir í kjöltunni, hvað gat farið úrskeiðis? Allt í einu fór kliður um vagninn og farþegarnir byrjuðu að bylgjast ... eftir flugleið geitungs nokkurs sem flaug öskureiður um. Flestir í vagninum horfðu fullir hryllings á eiturvopnið sem leitaði sér að skotmarki en sessunautur minn, ungur, tilvonandi leikskólakennari, var trufluð og spurð af huggulegum útlendingi, sem sat fyrir aftan hana, hvar ákveðin gata uppi á Höfða væri. Hún yppti öxlum en ég tók málin í mínar hendur, enda þarf að horfa á heildarmyndina. „I´ll help you if you kill the wasp,“ sagði ég greindarlega en ákveðið við manninn sem svaraði: „Yes of course.“ Geitungskvikindið var framarlega í vagninum á þessum tíma og ónáðaði fólk sem var greinilega laust við taugar og hreyfði sig ekki. Grunar að einhver kjéddlíngin hafi verið með ilmvatn ... aldrei að gera slíkt á haustin, aldrei!!!

Allt í einu sá ég Elínu Mosókonu, sem sat ekki svo langt frá mér, takast á loft og á örskotsstundu var hún komin fremst í vagninn, næstum upp í fangið á brosmilda bílstjóranum. Geitungurinn hafði farið aftar, leitað þangað sem greindarvísitalan var há (ekkert fokkings ilmvatn) og nú voru góð ráð dýr. Ég rétti þeim útlenska 24 stundir, blaðið sem ég hafði ekki haft tíma til að kíkja í fyrir æsingnum og hann kýldi geitunginn með blaðinu mínu. Elín var komin aftur í sætið sitt og brosti ... þóttist vera voða róleg þótt hjartað hamaðist. Útlendingnum tókst ekki að myrða kvikindið, heldur æsti hann það upp þannig að Elín hljóp aftur fram í og að þessu sinni ákvað hún að sitja í fangi bílstjórans alla leið í bæinn til öryggis, líka eftir að það tókst að drepa kvikindið ... sem lauk ævidögum sínum í glugganum við hliðina á mér. Ég dáist óendanlega mikið að sjálfri mér. Ekki tók ég þátt í bylgjuhreyfingum annarra farþega nema að litlu leyti og þegar hinir farþegarnir ráku upp bæld öskur sagði ég bara „vúhú,“ sem er hetjulegra. Ég sagði „MY HERO,“ í þakklætisskyni við útlendinginn eftir þessa hetjudáð drápið og sem betur fer leit hann ekki á það sem bónorð, heldur  grín.

Ég sat uppi með útlendinginn í Ártúni og þurfti að finna réttu götuna fyrir hann. Það var brosmildi bílstjórinn á leið 15 sem vissi nákæmlega hvar þessi höfði væri og gat ég labbað með útlendu hetjunni niður milljóntröppurnar og við kvöddumst hjá brúnni, hann fór til hægri og ég til vinstri. Kveðjustundin minnti mig örlítið á Fýkur yfir hæðir, nema Heathcliffe hefði hlaupið í burtu, þessi labbaði bara niður Funahöfðann á meðan ég hljóp undir brúna og upp Lúmsku brekkuna, eiginlega mest að skipun sjúkraþjálfarans míns.

Það var gaman að koma í leið 18 eftir langa fjarveru. Þarna sat hægláti maðurinn í sömu fötum og venjulega, útlenska stelpan með hrikalega fallega rauða, krullaða,  síða hárið, þarna voru um fjórir Indverjar, meira að segja minn Indverji sem ég þekkti samt ekki fyrr en hann var að fara út, ekki á sama stað og ég að þessu sinni, og svo auðvitað þýðandinn sem sat og spjallaði við Svía nokkurn. Yfirleitt er þegjandalegt í strætisvögnum þar sem fæstir þekkjast, sumir eru morgunfúlir og svona. Í morgun var einhver skrýtin orka í gangi. Geitungurinn var örugglega engill sendur til jarðarinnar til að hrista okkur saman í leið 15 og þegar´ég kom í leið 18 var andinn þannig að líklega hefur nýlega flögrað þar um geitungur/engill.

Óska ykkur dásamlegs föstudags, hjartkæru bloggvinir nær og fjær. Sérdeilis hugheilar kveðjur úr Hálsaskógi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynja skordal

Ekki gaman að fá svona laumufaþega með en þá er einum færri hér á skaganum Hafðu ljúfa helgi Elskuleg

Brynja skordal, 5.9.2008 kl. 11:16

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

...æ þú ert nú sjálf svona geitungur/gleðiengill sem hristir fólk saman í hláturgusum!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 5.9.2008 kl. 11:39

3 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ekki tala um Geitunga, ég lenti í því að geitungur stakk mig útaf ég var með ilmvatn og hann elti mig inn skömmin.

Eigðu góða helgi.

Kristín Katla Árnadóttir, 5.9.2008 kl. 11:47

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hann kom inn í Mosó, þetta grey, hef enga séð á Skaganum í sumar og haust, kannski ekki að marka það, en aftur á móti eru býflugur búnar að gera sig ágætlega heimakomnar á Akranesi. Ég bý auðvitað í íbúð þar sem sést ekki í blóm eða tré, bara gras og sjór ... og þannig vil ég hafa það.  

Guðríður Haraldsdóttir, 5.9.2008 kl. 12:11

5 Smámynd: Brynja skordal

já ok oh hélt að hann hafi farið héðan ennn já hef séð mikið af býflugum en fæ ágjætis hreifingu þegar þær nálagst þá tek ég flugudansinn fræga seigir kallinn minn vonum bara að geitungar séu þá bara hinum megin við göngin

Brynja skordal, 5.9.2008 kl. 12:33

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert gleðifrömuður kona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.9.2008 kl. 12:59

7 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Víst hún kaldrifjuð kramdi,

kvikindið með lagni.

Glöð já Guðríður framdi,

geitungsmorð í vagni!

Magnús Geir Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 17:21

8 identicon

Þú ert fyndin!!

Maður mundi halda að bílstjórinn ætti að tryggja öryggi farþegana. !! bzzzzzzzssss

Sigrún (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 19:19

9 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

I only say this once. Rafmagnsflugnaspaði í veskinu...ALLTAF! Grillar kvikindin á augabragði. Þeas geitungana.

Brynja Hjaltadóttir, 5.9.2008 kl. 23:05

10 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

weekend_662605.gif

Anna Ragna Alexandersdóttir, 5.9.2008 kl. 23:12

11 identicon

Haha altaf gaman að lesa strætósögurnar þínar en ég er immit brosmildi strætóbílstjórinn Haraldur Guðjónsson Srætóbílstjóri og blaðaljósmyndari.

Ég var alveg viss um að þú myndir blogga um þetta! þetta var eiginlega of brútalt til að minast ekki á þetta.

En það er alveg rétt að flugan kom uppí í Mosó en hún hékk aftan í skólatösku sem hún hefur sjálfsagt haldið að væri heimsins stæðsti Túnfífill flugan hefur örugglega haft aðrar væntingar til strætóferðarinnar en þær að renna saman við prentsvertu 24stunda hehe.

Annars þá var það gott að þetta endaði vel og jú ég er mjög upptekinn af því að tryggja öryggi farþega þó svo að flluguveiðar sé ekki innifalið í því

hag (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 14:46

12 identicon

Já ég gleymdi að seigja að taskkan var gul eins og Túnfífill

hag (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 14:49

13 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Blessaður Haraldur, frábært að þú getur staðfest þessa hryllingssögu, sumir bloggvinir mínir halda að ég skrökvi á blogginu en það myndi ég aldrei gera ... heheheh. Sjáumst á föstudaginn eftir rúma viku ... ef þú verður á vaktinni. Hvernig væri að koma sér upp rafmagnsflugnaspaða á leið 15, eins og Brynja stakk upp á?

Guðríður Haraldsdóttir, 9.9.2008 kl. 23:05

14 identicon

Já þú meinar ég á bara miður góða reynslu af rafmagnsflugnaspaða en einn vinnufélagi minn hér á ljósmyndadeild Moggans átti það miður skemtilega áhugamál að stuða okkur hin með honum, þannig að þessir spaðar veita mér meiri angist en flugurnar sem þeir eru til höfuðs En ég skal samt íhuga málið

hag (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 46
  • Sl. sólarhring: 277
  • Sl. viku: 1588
  • Frá upphafi: 1460521

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1269
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband