Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stórborgarstemmning í dag

AkranesEftir sjúkraþjálfunina í hádeginu fór ég í apótekið og keypti laxerolíu. Það kom „ahh, þessi með harðlífi“-svipur á afgreiðslukonuna þannig að ég flýtti mér að segja henni frá dásemdum laxerolíunnar í sambandi við vöðvabólgu, bæði setja hana í baðvatnið og líka bera hana á herðarnar eða hvar sem mann verkjar. Ekki vil ég ganga undir nafninu „Konan með harðlífið“! Það var nóg að vera kölluð „Mafíuforinginn“ á Króknum í gamla daga. Það var ekki vegna glæpa minna, heldur hippalegs útlits, rétt náði í rassinn á hippatímabilinu og hermdi þetta eftir stóru systur á meðan Hilda sýndi sjálfstæði og gekk í terlínbuxum sem þá voru í tísku.

Courtney LambKeypti Skessuhorn í bókabúðinni og tók strætó heim, það kostar bara 100 kall og maður verður ekki fyrir bíl á meðan. Ég gat alveg eins verið í New York að lesa New York Times, mér leið þannig. Svo fékk ég far heim að dyrum himnaríkis „til að þú sólbrennir ekki,“ sagði góði bílstjórinn. Fjöldinn í strætó eykst stöðugt. Ég hringlaði oft ein í litla vagninum í fyrra, nú vorum við t.d. fimm í og erum oft fleiri. Mikið vona ég að strætóinn fari að ganga um helgar, er viss um að einhverjir myndu þigga að skreppa með strætó úr Grundahverfinu niður í Skrúðgarð í kaffisopa. Svo væri hægt að labba heim ... eða alla vega hálfa leið.  

Ef ég fann mun á mér síðast eftir sjúkraþjálfunina þá er hann enn meiri núna. Beta píndi mig og kvaldi eftir að hafa svæft mig í hitasængum og –teppum í smástund. Ég haltra t.d. ekki lengur út úr strætó, heldur hoppa og skoppa, eins og sætu lömbin. Aldeilis sjón að sjá!


Yngingarmaskína Betu og Framsókn hrósað!

Við sandinn 19. júní 2007Mikill er nú munurinn á því að búa hér á Skaganum varðandi heilsugæslu. Engin bið eftir saumaskap á hné þegar mikið lá við er bara eitt dæmi. Unga konan sem ég valdi sem lækninn minn í morgun sagði að ég yrði að fara í sjúkraþjálfun. Hún áttaði sig strax á því að það er óeðlilegt þegar liðug skvísa er farin að hreyfa sig eins og gamalmenni á tíræðisaldri, slitið af þrældómi og vosbúð. Hún skammaði mig samt ekki fyrir þessa óhóflegu þolinmæði í eitt og hálft ár.

Ég fékk tíma í sjúkraþjálfun í hádeginu og Beta, systir hennar Gauju sem var í mínum bekk í barnaskóla, er sjúkraþjálfarinn minn. Gauja er reyndar vinkona mín og ég fæ alltaf fallegt og yndislegt jólakort frá henni í desember ár hvert. Gaua gaf mér einmitt Cartman-jakkann minn, þennan hlýja og góða og þykka og silfurlita og stutta ... og sem breytir mér í Cartman úr South Park. Sama þótt mjóar lappir standi niður úr honum ...

Kubbur á svölunumTommi í sólinniÞurfti að bíða í klukkutíma eftir sjúkraþjálfuninni og settist út í sjálfan skrúðgarðinn, garðinn fyrir aftan kaffihúsið. Fletti blöðum og spjallaði við fólk. Elskan hún Ingibjörg Pálmadóttir, fv. heilbrigðisráðherra, var í göngutúr með barnabarnið og settist niður ásamt fleirum. Ég man vel eftir árinu sem allir á Skaganum kusu Framsókn, það var þegar Steinunn og Ingibjörg voru í öðru og þriðja sætinu á lista, vinsælar konur sem rifu til sín fylgi. Að sjálfsögðu kaus ég Framsókn. Held reyndar að það sé fullt af góðu fólki í þeim flokki ef út í það er farið. Þekki alla vega tvær dásamlegar manneskjur þar sjálf. Ahhh, mikið er gott að vera svona ópólitísk og geta talað vel um fólk í öllum flokkum. Tók einu sinni símaviðtal við Geir H. Haarde og hann var frábær; kurteis og skemmtilegur ... það þarf ekki meira til að heilla mig. Nákvæmlega sama gerðist í sambandi við Steingrím J., Ingibjörgu Sólrúnu og fleiri. Svo tek ég ákvörðun í kjörklefanum eftir að hafa lesið bæklinga, spjallað við vini og vandamenn og kýs alltaf hárrétt! Heitir þetta kannski skortur á pólitískum þroska? Hehehhehe, það verður þá bara að hafa það. 

Fjöldi barna er á sandinum núna, enda fínasta fjara, sólin skín eins og hún fái borgað fyrir það og kettirnir liggja makindalega í sólinni, Kubbur úti á litlu svölum og Tommi undir öðrum stofuglugganum. Mikið er lífið nú gott! Best að fara að vinna. Verst að eiga ekki fartölvu til að geta setið úti.


Jibbí, komin í vinnuna!

AkranesstrætóÉg gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.

Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf  að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN  gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).

Vinnustaðurinn minnÉg blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég  fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.

Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.

Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.  


... heldur frelsa oss frá illu kaffi

Kaffi eða djöfladjúsFrétti að maður, kenndur við kross, beini nú spjótum sínum að drykkjufólki sem djöflar í sig ógeðsdrykknum kaffi. Mér finnst þetta frábært. Loksins er ráðist á þessa óhæfu sem kaffidrykkja er. Hversu margar fjölskyldur ætli hafi tvístrast og sundrast vegna kaffidrykkjusýki annars foreldrisins á heimilinu, jafnvel beggja? Hversu margir ætli eigi um sárt að binda vegna neyslunnar? Ég er ekki saklaus, ætla ekki að reyna að afsaka mig. Flest óhæfuverk sem ég hef framið í lífinu hafa verið undir áhrifum koffíns, m.a. fjölmargar bloggfærslur.

Viðvörunarmerkin voru alls staðar þegar ég fer að hugsa út í það. Í Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, sem ég las á unglingsaldri, kemur berlega fram hættan af því að drekka kaffi og var Ketilríður nokkur nefnd sérstaklega til sögunnar, en hún þambaði kaffi með hlóðabragði í lítravís og slúðraði í kjölfarið.
Erfðaprinsinn minn reyndi líka að vara mig við einu sinni og sagðist vera stórhneykslaður á því að hafa séð áhöld til kaffineyslu inni í eldhúsi hjá mömmu sinni.

Mér finnst frábært að loks hafi fundist gott málefni til að berjast fyrir, eða öllu heldur gegn. Hef einhvern veginn aldrei fundið mig í andúð á samkynhneigðum, hatri á rokktónlist, hneykslan á konum með stutt hár eða konum í buxum. Nú erum við laus við reykinn á kaffihúsunum, næst berjumst við gegn kaffi! Held að fólk geti drukkið te. 

Heiða í himnaríkiMikið var gaman að fá Heiðu í heimsókn. Henni gekk vel að rata til himnaríkis, enda held ég að Skaginn sé ekkert of flókinn fyrir utanbæjarfólk. Hún kom með djöflatertu með sér, svakalega góða, og ég bauð henni upp á djöfladjús (kaffi) með. Við skemmtum okkur djöfullega vel. Við horfðum með öðru á Djöfmúluna og nú er ég farin að óttast að maðurinn sem ég held með, Djöfmilton, verði nýr Djúmaker sem hrifsar til sín alla sigra og það hætti að vera gaman að horfa.

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er á morgun. Vona að ég muni eftir því að mæta! Svo er það matreiðslunámskeiðið annað kvöld.


Tjull, reykingabann og kattahöfnun

Hæfileikakeppnin æfingSkrýtið, ég fór frá himnaríki um hádegisbil í gær og kom upp úr ellefu í kvöld aftur heim. Samt er eins og ég hafi verið í heila viku í sumarbúðunum, svo mikið hefur verið um að vera. Ég afþakkaði boð um að vera dómari í söng- og hæfileikakeppninni í kvöld og hjálpaði Möggu minni að tjulla grindverkið við framhlið sumarbúðanna. (sjá mynd)

Tjullað grindverkSvo var klukkan allt í einu farin að ganga tíu, við Magga enn á Hellu og síðasti strætó heim frá Mosó eftir rúman klukkutíma. Við kvöddum hvorki kóng né prest, heldur rukum að stað og án þess að leggja okkur eða aðra í lífshættu komumst við í Mosó á réttum tíma. Lítil umferð og engir lestarstjórar á 80 km/klst. Kvöddum með tárum í gegnum gemsann minn. Ég virðist alltaf yfirgefa sumarbúðirnar á ljóshraða. Hafði bara fimm eða tíu mínútur síðast til að koma mér í veg fyrir rútuna vegna kolrangra upplýsinga á Netinu.

ReykingabannStrætóbílstjórinn í kvöld vinnur líka af og til sem dyravörður á vinsælum pöbb í Reykjavík (þar sem m.a. listamenn hanga) og var að vinna í gærkvöldi. Það var sæmilegt að gera, sagði hann, en um síðustu helgi mætti varla hræða. Hann spurði örvæntingarfullur: „Hvar er reyklausa liðið sem kvartaði svo mikið yfir reykmettuðum skemmtistöðum? Þessir fáu gestir sem komu um síðustu helgi reyktu allir (úti) ... og innkoman um kvöldið dugði ekki einu sinni fyrir laununum. Þetta reykingabann mun gera svo marga atvinnulausa,“ sagði hann spámannslega.

Ég var eiginlega viss um að allt væri fullt út úr dyrum af reyklausu, happí liði, þessu rosalega háværa sem hefur tjáð sig svo mikið um gleði sína yfir reyklausum skemmtistöðum. Var þetta bara forsjárhyggja eftir allt saman?

Kisurnar þekktu mig varla þegar ég kom heim, svo langur tími hafði liðið ... en samt var nægilegt vatn og matur hjá þeim. Áhugaleysi þeirra á mér er algjört, þær sofa!
Rifjaði bara upp ást mína á kaffinu góða í himnaríki og horfi nú með öðru á Geisha ... The birds hérna fyrir utan er aðeins meira spennandi. Engir kvenfuglar í hópnum sem líta á það sem heiður að vera þrælar karlfuglanna.


Djúppælingar dagsins

Loks gat ég horft á hádegisfréttirnar í sjónvarpinu. Sl. tvo daga hefur ekki komið merki, ekki náðst skilningur á milli loftnetsins míns og draslsins ofan á Sementsverksmiðjunni. Ég er ekki þekkt fyrir samsæriskenningar en hugsa samt  ... hverju var verið að leyna mig?

Sexí skipstjóriFínar fréttir í dag. Svo að ég geri nú eins og sumir vinsælir bloggarar og endursegi fréttirnar þá mega ellilífsþegar fara að vinna fljótlega án þess að lífeyririnn skerðist. Já, og bærinn er fullur af sjóliðum, hátt í 700 girnilegum kroppum. Ég fjarri góðu gamni en samt svo sorglega nálægt. Hver vill svo sem sjóliða þegar matreiðslunámskeið býðst?

Þetta er bara svo skrambi gott veiðiveður. Nógu hlýtt til að hægt sé að hneppa frá efstu tölunni á Max-gallanum og setja lambhúshettuna í vasann.

Stór kostur við að eldast er sá að nú flauta ekki bara óbreyttir sjóliðar á mann, heldur líka yfirmenn, jafnvel skipstjórarnir sjálfir. Það var ákveðið sjokk á sínum tíma þegar aðdáunin fór að færast frá skólastrákunum yfir á kennarana og síðar á skólastjórana (þá fáu sem eftir eru karlkyns) en þannig er gangur lífsins.  


Myndir, myndbönd, hetjusaga og meiri neimdroppings

Fegrunaraðgerðir misheppnast ekki allarÞetta var skemmtileg bæjarferð í dag og kvöld og steikti fiskurinn bragðaðist einstaklega vel hjá Laufeyju og Jóni Steini.

 

Ókei, hér er loks mynd sem sýnir þvílíka ægifegurð sem klippara tókst að laða fram með því að einbeita sér að hári, augabrúnum og augnhárum. Var hálffeimin við ljósmyndarann og leit undan. Sætur hattur úr ljósakrónu efst ...  
 

Tommi bílstjóri var á seinni vaktinni, ók mér báðar leiðir, og var eiturhress eins og vanalega. Hann sagði mér að hann hefði þurft að keyra Hvalfjörðinn sl. sunnudag í áætlunarferðinni suður og fór aftast í langa röð bíla. Göngin voru lokuð eftir bílveltu sem við rétt misstum af á leiðinni á Skagann skömmu áður. Þetta setti alla áætlun úr skorðum og tókst bara að hafa eina kvöldferð frá Mosó í stað tveggja.  
Svo ég haldi nú áfram að droppa frægum nöfnum þá mætti ég sjálfum Emil af Moggablogginu í lúmsku brekkunni sem liggur upp að Ártúni.

VikanFór upp í vinnu og sótti nýjustu Vikuna, var spennt að sjá hvernig forsíðuviðtalið kæmi út, það sem ég tók í síðustu viku við Ernu, eiganda Rúfusar, fallega hundsins sem lofaði mér eilífri ást og ég honum. Inga vinkona benti mér á Ernu og sagði að hún ætti heilan helling af lífsreynslusögum handa mér, hún hefði lent í ýmsu í lífinu. Fyrir þá sem ekki vita þá eru lífsreynslusögurnar í Vikunni sannar og stendur yfir eilíf leit að krassandi og góðum sögum.  (gurri@mi.is)

Erna fékkst í viðtal og vá, þvílík saga sem konan hefur að segja!
Níu ára gömul var hún á gangi eftir Hverfisgötunni og á leið í heimsókn til frænku sinnar. Litli bróðir hennar var með í för, fimm ára. Allt í einu stoppaði bíll hjá þeim og tvær konur frá Barnaverndarnefnd gripu börnin og óku þeim í fóstur út á land. Viku seinna var þeim komið í endanlega vistum á Kumbaravogi. Heimilisvinur þar misnotaði nokkur af börnunum, m.a. bróður hennar, og sjálf var hún á stöðugum flótta undan manninum. Mamma Ernu var mjög blíð og góð en átti við drykkjuvandamál að stríða, ekkert þó sem afsakaði að missa svona frá sér börnin. Þegar mamman fékk sér í glas fór Erna alltaf með litla bróður til vinafólks á efri hæðinni og þau gistu þar. Ernu gekk vel í skólanum og var hamingjusamt barn fram að þessu. Saga hennar er sláandi og ein samstarfskona mín sagðist hafa grátið yfir henni.

Þessi hetja ætlar að koma í heimsókn í himnaríki á morgun, ásamt Ingu, og saman ætlum við að læra af Ingu hvernig á að elda góða kjúklingarétti. Inga er sprenglærð í matreiðslu.

Fékk þetta myndband sent frá góðri vinkonu sem býr í USA. Langar að deila því með ykkur:
http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.individual&videoid=2022646177


Annað myndband, eiginlega ansi skondið. Ég man ekki eftir þessum megrunarkúr en hann var vinsæll í kringum 1971:
http://www.youtube.com/watch?v=73CKpn-5uc4

Myndin hér að neðan er af nýlegri megrunarkúr! Hehhehehehe! 

Í megrun

 


Yrði innlyksa á Skaganum

StrætóSá vítahringur er að skapast að með minnkandi þjónustu Strætó bs hætta sífellt fleiri að nota þennan samgöngumáta sem ætti að vera svo góður. Færri farþegar og enn minnkandi þjónusta o.s.frv.

Sem betur fer er leiðin mín mjög vinsæl, eða Akranes-Mosfellsbær, annars yrði ég að kaupa mér bíl eða verða ella innlyksa á Skaganum. Tek það fram að þrátt fyrir ögn skerta þjónustu í nýjasta leiðakerfinu er ég afar ánægð með Skagastrætó. Vildi bara óska þess að þetta þriggja tíma hlé um miðjan dag yrði slegið af. Ætla í mat til vinkonu í kvöld og erindast aðeins í bænum. Það var of snemmt að taka vagninn 11.41 og því þarf ég að bíða til 15.41 eftir næsta sem er frekar seint. 

Það er alveg ömurlegt að bæði starfsmenn og aðstandendur geti ekki lengur tekið strætó á Vífilsstaði. Hverjum datt þetta í hug? Vafalaust einhverjum sem ekur um á einkabíl.

Hvernig væri að fá mig sem ráðgjafa til Strætó? Ég hef notað þennan samgöngumáta síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar og geri aðrir betur. Þegar ég hafði loks efni á bíl var ég orðin vön strætó og fannst það bara henta mér ágætlega.

Ég skora á Strætó bs að lagfæra þessi mistök og setja Vífilsstaði inn í leiðakerfið aftur. Halló! Þetta eru almenningssamgöngur og ættu því að vera þannig að almenningur komist leiðar sinnar með góðu móti.  


mbl.is Geta ekki lengur heimsótt aldraða aðstandendur sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til Stöðvar 2

Kynnarnir Ant og DecMig langar að skora á Stöð 2 að hætta með American Idol, þann þreytta þátt, og sýna frekar breska þáttinn, Britain´s got Talent þar sem leitað er að hæfileikafólki á öllum aldri. Þessir krúttmolar á myndinni, Ant og Dec, eru alveg dásamlega skemmtilegir.

Þegar ég heimsótti Katrínu okkar allra til Bretlands haustið 2004 sá ég sérstakan þátt með Ant og Dec og varð samstundis aðdáandi, þeir voru ferlega fyndnir. Þeir kynna þennan þátt, eins og sjá má alla vega á fyrra myndbandinu (í síðustu færslu). Kíkið á þennan símasölumann (ef ég heyrði rétt) syngja hið dásamlega Nessum Dorma á ógleymanlegan hátt. 

 
http://youtube.com/watch?v=1k08yxu57NA&mode=related&search=
Jóna setti inn hlekk á þetta í athugasemdadálkinn með síðustu færslu (þar sem litla stelpan var í sömu keppni) en þessi hlekkur hér er lengri og sýnir dóminn líka. HVAÐ SAGÐI SIMON? Úhú!

Annað: Á í einhverjum vandræðum með að skrá mig inn á Moggablogg. Dett út við minnstu hreyfingu. Svona hefur þetta verið í nokkra daga. Kannast einhver hlustandi við þetta?

Svo segi ég bara góða nótt og svít dríms, darlings!InLove


Kælum kvikindið með öllum ráðum

George Bush er víst skrambi ánægður með kalda stríðið við Rússa. Hann gerir sér vonir um að það hafi kælandi áhrif ört hækkandi hitastig jarðar.

Conan_O'Brien_does_American_GothicÉg hef stundum skammast út í Jay Leno og sótt fast að fá frekar Conan O´Brien á SkjáEinn en hann er ekki jafnrosalega þjóðernislegur og sá fyrrnefndi. Leno kom mér skemmtilega á óvart í kvöld með þessum brandara um Bush. Ég hætti að þola Leno eftir 11. september þegar hann fór að gera grín að fátækt óvinarins, sem þá var fólkið í Afganistan. Talaði um samræði við geitur, búsetu í hellum ... og bandaríska þjóðin hló að þessum hallærislegu hryðjuverkamönnum.  

Þar sem ég lá dauðsyfjuð, eiginlega hálflömuð uppi í sófa áðan gat ég ekki skipt um sjónvarpsrás, þurfti að afplána Leno og hann, eða brandarahöfundar hans, skemmti mér bara vel í þetta skiptið. Vonast nú samt eftir Conan. Hann er frábær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 642
  • Frá upphafi: 1525003

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 547
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband