Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Beiskjufullt launablogg

Misrétti ARGGGGGGGGHeilsuhraust og grunlaus um kvenleg áföll sem biðu hélt ég af stað út á stoppistöð og beið þar í brunagaddi sem yfirleitt er svona snemma á morgnana. Blái trefillinn var æði og kom sér vel. Sigþóra hélt á mér hita alla leiðina og hélt líka á mér upp súkkulaðibrekkuna ... segi svona.

Það var einstaklega gaman að mæta í vinnuna og sjá fullt af nýútkomnum tímaritum bíða mín. M.a. Tekjublað Mannlífs þar sem laun 2.500 Íslendinga eru tíunduð. Ég fylltist viðbjóðslegri forvitni, sem ég hélt að ég ætti ekki til, og kíkti á laun samstarfskarlmanna minna sem mátti finna þarna. Viti menn, ég, stjörnublaðamaðurinn með titil, er ekki hálfdrættingur á við stjörnublaðamanninn án titils, Eirík Jónsson, og fleiri fjölmiðlakarla. Hmmm, ég er fyrirvinna ef það skiptir máli og þar að auki þrælmontin af mér, eins og sannra Þingeyinga er siður. Held að stutt sé í að konur þessa lands biðji um launaviðtöl og láti heyra hressilega í sér. Mjög athyglisvert að sjá laun þeirra sem eru í umönnunarbransanum, algjörlega til skammar!!!

Mér hefur hingað til verið skítsama um hvort hægt sé að skoða skattskrár eða ekki ... en nú finnst mér þetta nauðsynlegt á meðan þetta misrétti viðgengst í launamálum. Það er ekki hægt að kenna konum endalaust um þetta. Ég fór sjálf á "gamalsaldri" og sótti mér meiri menntun og læt ekkert bjóða mér hvað sem er. Það er greinilega ekki nóg. Nú læt ég mér vaxa typpi og skegg. Ég á eftir að sakna ykkar, strákar!

Tekjur nokkurra ofurbloggara eru líka taldar upp, m.a. Sóleyjar Tómasdóttur, Önnu Kristjánsdóttur vélstýru, Dr. Gunna, Jennýjar Önnu, Jóns Vals (nú skilur maður beiskjuna) og fleiri ...

Í nýútkomnu, flottu Vikunni (mont, mont) eru viðtöl við nokkrar nektardansmeyjar, bæði sem eru í fullu starfi við þetta (150 þús á mánuði) og tvær sem eru hættar. Mikill munur er á sögum þeirra. Sjálf tók ég viðtal við konu sem missti foreldra sína, litla frænku, bestu vinkonu og fleiri í snjóflóðunum í Súðavík. Það var stórmerkilegt að heyra hversu handviss mamma hennar var um að hún væri að fara að deyja. Nokkrum vikum fyrir snjóflóðið fór hún að undirbúa dóttur sína með ýmislegt, m.a. að hún yrði að muna eftir spariskírteinunum sem hjónin áttu, að sonurinn ætti að fá ákveðið málverk og margt fleira! Það munaði mjög litlu að synir konunnar sem ég tók viðtal við gistu hjá ömmu og afa örlaganóttina. Þeir voru lagðir af stað þegar veðrið versnaði skyndilega og mamman kallaði í þá að koma heim. Þetta er svona gæsahúðarfrásögn ... og fullt af myndum með.


Doktor Hás, ég meina Hanson, og sífiliseraðar sögur ritstjórans

Þrjú grömmEr þessi nýi læknadramaþáttur eitthvað sem House-aðdáendur geta sætt sig við, þessi þarna 3 lbs á SkjáEinum? Hélt fyrst að þetta væri áhugaverður megrunarþáttur (hahaha) en svo er ekki, heldur fjallar hann um bráðsnjallan, hrokafullan heilaskurðlækni, Doktor Hanson, sem lætur sig sjúklingana sjálfa engu skipta, heilinn er það sem mikilvægasta. Sá hluta af fyrsta þættinum ... og umfjöllun um þessa þætti í einhverju blaði þar sem kom fram að þeir hefðu verið slegnir af, ekki nægar milljónir sem horfðu. Við fáum þó átta þætti. Er þetta kannski of mikið House-vonnabí? Hvað segja Hásarar sem hafa séð nýja þáttinn?

Ritstjórinn minn fer á kostum hér á Moggablogginu og skrifar fremur dannaðar sögur af sjálfri sér sem tengjast skrautlegum viðskiptum hennar við hitt kynið. www.elinarnar.blog.is

P.s. Ég átti vissulega erindi á skattstofuna í morgun en það var ekki til að njósna um samborgara mína hér í Akranesborg eða finna mér ríkan karl, alls ekki. Berklaveik ljóðskáld eru alltaf síkúl!


Ekki prest, heldur lækni eða skipstjóra ...

Við skipstjórinnMorgunninn var afar annasamur. Mæting á skattstofu klukkan níu en þar er ekki opnað fyrr en hálftíma síðar. Ákvað að taka rúnt með innanbæjarstrætó, hoppa út hjá Skrúðgarðinum og kaupa latte. Mætt 9.31. Eftir þessa skattstofuheimsókn veit ég að ekki er mjög gáfulegt að ná sér í prest miðað við t.d. skipstjóra og lækna. Ansi margir forríkir eru fæddir snemma í júní, vona að Tvíburar séu æðislegir eiginmenn. Er hundleið á berklaveikum ljóðskáldum.

Fjölskyldufundur hjá Forresterunum í gær. Þar upplýsir Stefanía um fyrirhugaðan flutning sinn til Flórída þrátt fyrir mótmæli fjölskyldunnar. Bridget er byrjuð í læknisfræði ... og Thorne og Darla eiga barn sem ég vissi ekki. Stefanía sagði Eric að hún elskaði hann og kyssti hann bless. Fjölskyldan hefur miklar áhyggjur af giftingu Erics og Brooke.


Lúmska, freudíska þvottaprófið ...

Persónuleikapróf eru yfirleitt lítt marktæk og svarmöguleikarnir innihalda jafnvel ekki það svar sem þú myndir krossa við. Þetta freudíska þvottapróf er eitthvað það skýrasta og nákvæmasta sem ég hef rekist á. Endilega látið mig vita ef þið hafið krossað oftast við einhvern sérstakan bókstaf ... Ég valdi oftast B-in. Þegar þú ert búin/n að taka þetta próf skaltu bíða eftir næstu færslu frá mér, þá koma svörin. Múahhahahaha!

ÞvottadagurFREUDÍSKA ÞVOTTAPRÓFIÐ
Sigmund Freud sagði margt athyglisvert um viðhorf fólks til þvottarins síns. Eftirfarandi örstutt próf segir hvernig þú kemur út.


1. Þegar fötin þín eru í þurrkaranum, hvað sérðu?
A Gallabuxur
B Skyrtur
C Sokka
D Kynlíf

 

2. Hvað óttastu mest þegar þú ferð niður í þvottahús sem þú deilir með öðrum?
A Að týna öðrum uppáhaldssokknum þínum
B Að setja mislitan þvott með hvítum
C Kóngulær
D Kynlíf

3. Hvaða heitir þvottaefnistegundin þín?
A Íva
B Ariel
C Milda
D Bio-Sex

4. Hvað gerirðu á meðan þú bíður eftir að þvottavélin ljúki þvotti?
A Ferð frá vélinni og gerir eitthvað gagnlegt
B Stendur og horfir á vélina klára
C Situr og horfir á vélina klára
D Leggst og gerir eitthvað annað

5. Þú sérð kaffiblett á einni skyrtunni þinni. Á hvað minnir hann þig?
A Einhvern sem þú þekkir
B Kaffi
C Fiðrildi
D Kynlíf

StóllinnÞetta hefur nú verið meiri slökunardagurinn. Heill dagur án þess að þurfa að gera nokkuð. Mér datt fyrst í hug að setja af stað keppni um kynþokkafyllsta bloggarann en steinsofnaði út frá þeim hugsunum í skakka leisígörlstólnum mínum.

Hringdi í Rúmfatalagerinn í gær og kvartaði yfir stólnum. Var sagt að ég FENGI MANN í heimsókn fljótlega sem myndi kíkja á stólinn. Góð þjónusta. Stóllinn er grindarskakkur og ekki hægt að hækka eða lækka stóllappirnar ... Ellý sveiflaði honum á hvolf með einu handtaki og þá kom þetta í ljós.  

P.s. Ef verndarar okkar, þessir sem sjá um loftvarnir Íslands, koma bara fjórum sinnum á ári í eftirlit hvernig getum við þá stýrt óvinum okkar þannig að þeir geri innrás á Ísland akkúrat á þeim tíma sem verndararnir eru staddir hér? Bara pæling. Sjá fréttir í kvöld.


Kynslóðabilið

Unga blaðakonanÞar sem við vinnum mörg saman í opnu rými heyrist allt sem sagt er nema fólk lækki sig um nokkur desibil ... sem er yfirleitt gert til að halda vinnufriðinn. Einhverra hluta vegna kom nafnið Jón Múli upp í vinnunni í gær. Ung blaðakona spurði í sakleysi sínu hvort þessi Jón tengdist kannski Múlakaffi. Þetta fannst fólki fyndið.

John, Jackie og börninÉg man vel eftir Jóni Múla í morgunútvarpinu og ýmsu öðru auðvitað, t.d. þegar breytt var yfir í hægri umferð 1968. Ein fyrsta minningin var þegar ég var fimm ára og mátti ekki tala því að verið var að segja frá því í útvarpinu að John F. Kennedy hafði verið myrtur ... Man meira að segja hvar útvarpið, stóra mublan, var staðsett og hvar ég stóð á meðan foreldrar mínir sátu límdir við tækið. Ja, hérna hvað tímarnir hafa breyst. Þetta sannfærði mig enn frekar um að best sé að hafa góða aldursblöndu á vinnustöðum þar sem þekkingar og reynslu er þörf. Held nefnilega að blaðakonan unga viti heilmargt sem mun meiri reynsluboltar en hún hafa ekki hugmynd um.


Íslenska útgáfan af svona föður ...

Mér finnst 14 ára fangelsisdómur yfir manni sem hefur nauðgað dóttur sinni mörg hundrum sinnum allt of vægur. Vonandi taka samfangar hans "vel" á móti honum. Venjulegir fangar fyrirlíta barnaníðinga, eins og oft hefur komið fram í fréttum.

Fyrir mörgum árum tók ég viðtal við konu sem var nauðgað af föður sínum frá því hún var fimm ára og til tíu ára aldurs, eða þar til hún hafði vit eða kjark til að mótmæla harðlega sjálf. Einhverra hluta vegna missti hann kjarkinn gagnvart henni við þetta en sneri sér að öðrum börnum.

Pabbinn hafði umgengnisrétt við dóttur sína aðra hverja helgi og hún var orðin snillingur í að fela sig heilu og hálfa laugardagana, sat jafnvel hreyfingarlaus í felum inni í þvottahúsi klukkutímum saman bara til að sleppa við að hitta pabba sinn og fara í "bíltúr" með honum. Raunum hennar lauk ekkert þegar pabbi hennar hætti að nauðga henni, heldur átti hún afar erfið unglingsár þar sem sjálfsmatið var í núlli og stundum þyrmdi svo yfir hana að sjálfsmorð virtist eina lausnin. Sem betur fer varð aldrei af því. Það var ekki fyrr en hún leitaði sér hjálpar á geðdeild sem hún fór að vinna úr skelfilegri æskunni. Stígamót voru ekki komin til sögunnar þá, ef ég man rétt.

Löngu seinna var reynt að kæra þennan mann en án árangurs. Ekki veit ég betur en hann hafi gengið laus alla tíð.

Þvílíkt sem ég dáðist að þessarri konu, og geri enn, sem kom fram undir mynd og nafni í viðtalinu (Vikan, sumarið 2001) og ég háskældi á köflum á meðan ég skrifaði það. Ég hugsa stundum til litlu fimm ára stelpunnar sem þorði ekki að segja neinum frá og þurfti að þola þennan hrylling næstu fimm árin. Það er svo sárt að vita að þarna úti séu börn sem upplifa þetta án þess að nokkur viti og líka að þegar börnin eru orðin fullorðin og búin að vinna það vel í sér að þau treysta sér til að kæra þá er málið fyrnt og glæpamaðurinn sleppur.


mbl.is Nauðgaði dóttur sinni mörg hundruð sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, hún? Ohh, hún er alltaf svo flott klædd!

Ellý í himnaríkiÞví er haldið fram í Blaðinu í dag að klæðaburður Ellýjar í X-Factor hafi á tíðum vakið meiri athygli en orð hennar. Veit ekki alveg hvort hann Einar Bárðar tæki undir það, hann gleymdi sér alla vega ekki við að horfa á flottu fötin hennar (sem eru úr Nínu á Akranesi), heldur var iðulega ósammála dómum hennar, Palli svo sem líka ... en það er annað mál. Palli mætti stundum ansi frumlega klæddur í þættina en ég hef hvorki heyrt það notað gegn honum né með.

Hvað er þetta með konur og fötin sem þær klæðast? Eitthvað var meira talað um klæðaburð stjórnmálakvenna en -karla fyrir síðustu kosningar, jafnvel meira en málefnin sem þær stóðu fyrir. Rosalega er ég orðin þreytt á þessu.

Athugasemdin í Blaðinu segir jú að Ellý hafi verið fín og flott en það má lesa út úr henni að hún sé heimsk. Ég hef þekkt Ellýju í bráðum 20 ár og hún er ekki heimsk. Ég dáðist alveg að henni sl. vetur fyrir að geta afborið að hlusta á þetta misskemmtilega popp sem er í svona þáttum því að hún er meira fyrir trans-tónlist og rokk.  

Ég talaði við Ellýju áðan og hún var hvorki að springa úr gleði né sorg yfir þessu, átti frekar von á því að fjölmiðlar einbeittu sér að nýja dómaranum, Þórunni Lárusdóttur.

Ég vona að Þórunn verði ekki látin gjalda þess í vetur að hún sé meira í klassísku deildinni. Skyldi hún þurfa að klæðast drapplituðu til að orð hennar verði gjaldgeng? Hvað ef hún lendir oft í að senda keppendur hinna heim? Verður hún þá umdeild, jafnvel óvinsæl? Hmmm! Eins gott að henni verður ekki dembt beint í djúpu laugina, eins og Ellýju, Þórunn er þaulvön í sjónvarpi og ég hlakka mikið til að horfa á hana í vetur. Hún er alltaf svo flott klædd!


Ananas vesen, hrópaði hún þegar kynþokkafulli fréttamaðurinn hvessti brýrnar og tilkynnti um lækkað lánshlutfall hjá Íbúðalánasjóði vegna verðbólguþrýstings

Súkkulaðikaka fyrir smiðinnIðnaðarmaðurEr alveg grútspæld. Þessi breyting kemur sér alla vega illa fyrir mig.

Ef ekki væri svona mikið að gera hjá iðnaðarmönnum á sumrin væru endurbæturnar í himnaríki að baki og ég búin að taka fyrirhugað endubótalán.

Efast um að ég geti reitt fram 20% úr eigin vasa þótt forrík sé. Skrambans verðbólguþrýsingur. Held að ég verði að bjóða upp á eitthvað betra en kaffi til að lokka til mín iðnaðarmennina.

P.s. Æ, ég gat ekki stillt mig um að fylgja tískunni í fyrirsögnum hér á Moggablogginu. Ellý, Jenný, Jón Valur eru fyrirmynd mín að þessu sinni.


mbl.is Lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað í 80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjudáðir og kosningaloforðin

LandspítalinnTvo daga í röð hef ég setið við hliðina á voða skemmtilegri konu í strætó á heimleiðinni. Hún vinnur á Landspítalanum og er heilaskurðlæknir eða ritari. Hún les bloggið mitt stundum og það eina sem hún virkilega man er að ég lofaði að fylgjast með kosningaloforðum nýju stjórnarinnar. Er einhver þarna úti sem veit eitthvað? Er þetta ekki allt í blússandi gangi hjá þessum elskum?

LatteDrýgði hálfgerða hetjudáð í gær og aftur í dag. Ég er loksins farin að þora að hita nýmjólk í espressóvélinni. Er skíthrædd við allt svona frussudæmi og hef leiðbeiningarnar fyrir framan mig og mun gera þar til ég kann þetta utan að og óttinn hverfur. Kaffirjómi er kúl en er bara svo leiðinlegur og kekkjóttur á sumrin ... eða ég óheppin með hann. Eini gallinn við vélina mína er að kaffið er ekki nógu heitt, alla vega ekki með kaldan kaffirjóma út í ... Nú drekk ég heitan latte (c.a. 150°F) þegar ég kem heim úr vinnunni og verð eldhress.  

Nick og Bridget giftust loksins. Taylor deitaði slökkviliðsmanninn. Brooke lætur sig dreyma blautlega drauma um kelirí við Nick, tengdason sinn, og kveður hann í huganum. Eins gott að hún sjái ekki fram í tímann. Múahhahaha! Þegar hún þarf að berjast um Nick við Taylor. Hvað verður þá um Bridget og barnið? Já, og hvað ætli verði um leiðindagerpið hann Ridge, fyrrum aðalhönk þáttarins? Nú er hann að væla í Brooke um að Taylor hafi fleygt sér út. „Takk fyrir umhyggjuna,“ segir hann beiskur þegar Brooke flaðrar ekki upp um hann. „Ég hef aldrei þarfnast þín jafnmikið,“ heldur hann áfram og það var lokasetning þáttarins.


Fólkið sem við vinnum með ...

HRÞegar ég vann hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á árunum 1995-1998 hitti ég stundum indælan mann sem vildi allt fyrir mig gera þegar ég þurfti á aðstoð að halda. Hann vann á veðdeildinni á 2. hæð og við hjá HR áttum mikil samskipti við deildina vegna útgáfu skuldabréfa og fleira. Það er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess að þessi dagfarsprúði maður, Jón Pétursson, sé nú í fangelsi vegna ofbeldis og grimmdar. Ef gömul samstarfskona mín frá HR hefði ekki sagt mér frá þessu hefði ég aldrei tengt þessa tvo menn saman. 

Aðalstræti 16 þar sem Aðalstöðin varÞótt ég telji mig mjög tryggan starfsmann og hætti helst ekki ótilneydd hef ég unnið á nokkrum vinnustöðum um ævina og þrisvar sinnum þurft að hætta vegna þess að vinnustaðurinn var lagður niður (ekki til að losna við mig, held ég). Aðalstöðin var m.a. lögð niður og breyttist í Gull FM en ég var þó ekki lengi þar þótt frábær manneskja væri yfirmaður minn, Helga Sigrún, sem má varla tjá sig á blogginu sínu án þess að allt verði vitlaust ... 

Nokkra erfiða samstarfsmenn hef ég átt og ég get nefnt tvo sem gengu ekki alveg heilir til skógar. Annar þeirra taldi ákveðið stórslys, þar sem nokkrir létust, þ.á.m. börn, vera hefnd guðs fyrir sína hönd þar sem einn ættinginn hafði gert honum eitthvað nokkrum árum áður. Það væri alveg merkilegt að eitthvert óhapp henti alla þá sem gerðu eitthvað á hlut hans. Hinn var lítið skárri og las eitthvað sjálfhverft út úr öllum atburðum. Svo voru það kjaftasögur og illmælgi sem grasseruðu sums staðar og hefur alltaf pirrað mig ósegjanlega. Ég tala alveg illa um fólk stundum ... eins og hundaníðinga og svona ... Flestir eiga sér þó góða hlið og það er miklu skemmtilegra að velta sér upp úr henni, finnst mér. Þeir eru alla vega miklu fleiri frábærir sem ég hef kynnst á lífsleiðinni í gegnum vinnu en hinir. 

BakaríÞegar ég hætti eftir sjö ára starf hjá DV seint á níunda áratug síðustu aldar og gerðist verslunarstjóri í bakaríi voru það mikil mistök. Þetta var leiðinlegusta vinna lífs míns þótt launin væru hærri. (Væri kannski enn á DV ef ég hefði fengið launahækkunina!) Ég fann fljótlega að ég vildi frekar vera hinum megin við afgreiðsluborðið og sagði upp. Ég græddi þó elskuna hana Möggu vinkonu út úr þessu. 

Held að ég sé núna í skemmtilegasta starfinu til þessa. Vinn með frábæru fólki og þótt það sé alltaf rosalega mikið að gera er starfið einstaklega gefandi.


mbl.is Sagði kynlífið skyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1524997

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 542
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband