Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.9.2007 | 09:45
Uppgangur á Skaganum og kvenfyrirlitning úti á Granda
Ég er þakklát fyrir að hafa kíkt á gemsann minn í gærkvöldi þegar ég rétt mundi eftir að skella honum í hleðslu. Sá þá SMS frá elskunni henni Ástu: Verð á bíl, viltu far? Það var of síðla kvölds til að svara þannig að ég hringdi í hana í morgun og þáði farið. Beið niðri í gangi kl. 6.55 með latte í annarri og latte í hinni. Birkir þiggur ekki latte frá mér, heldur vill treina sér kaffigleðina þar til hann er kominn í vinnuna. Veit maðurinn ekki að sjúkrahúskaffi er ekki bara bráðdrepandi, heldur líka hryllilega vont? Það kemur í glærum plastpokum til að ekki sé hægt að rekja það og er notað til að grisja aðeins þetta lasna lið.
Ásta og Birkir (sönn ást) þáðu Moggann minn og DV með þakklæti þar sem LSH er ekki lengur með Morgunblaðið handa starfsfólki/sjúklingum. Sparnaður í gangi og eitthvað annað sem var tekið af líka, Ásta mundi ekki hvað það var. Held að það sé nafnið. Nú má bara segja Landspítali, ekki Landspítali háskólasjúkrahús.
Foreldrar Ástu voru að flytja í stóru blokkina á Skagaverslóðinni, sjá myndirnar að ofan. Þau eru á 6. hæð og Ásta segir að útsýnið sé gjörsamlega geggjað! Á myndinni hér til vinstri sést mögulega í himnaríki ef vel er gáð, blátt þak fyrir miðri mynd. Það er bara ein íbúð óseld í stóru blokkinnni sem segir mikið um uppganginn á Skaganum, allar dýru lóðirnar í Krosslandinu eru t.d. seldar og bæði raðhús og einbýlishús spretta upp eins og gorkúlur. Held að þetta hafi hafist þegar strætó byrjaði að ganga ... þótt Akranes sé ekkert úthverfi frá Reykjavík þá er fjarlægðin svo lítil. Mikið vona ég að Ásta drífi mig einhvern daginn í kaffi til foreldra sinna. Vona að þeim verði sama þótt ég hangi úti í glugga ...
------- ooo - O - ooo ----------
Mér finnst veiðarfærabúðarauglýsingin ömurleg og myndi ekki fara í þessa búð þótt ég fengi 99% afslátt af vöðlum og veiðistöngum. Sérstaklega eftir að ég sá yfirlætisleg svör eigandans í DV í dag þar sem honum finnst þetta bara sniðugt og segir að viðskiptavinunum finnist það líka. Ótrúlegt að nota hálfnakta konu til að auglýsa veiðistangir! Ég upplifði þetta sem algjöra fyrirlitningu og niðurlægingu! Hvernig á okkur að takast að ná jafnrétti á meðan litið er á okkur sem brjósta- og rassadillandi leikföng, bara til skrauts? Hvers konar karlrembuþjóðfélagi búum við í? Ég vil láta sekta búðareigandann fyrir kvenfyrirlitningu. Meira að segja "fornaldarlegt" þjóðfélag eins og Bandaríkin, þar sem dauðarefsingu er beitt, sýnir konum meiri virðingu. Þar þykir t.d. glæpsamlegt að áreita konur (og karla) kynferðislega á vinnustað og er hörð refsing við því en á Íslandi heyrist jafnvel í fólki: Æ, hvað er kellingin að væla? Smáklíp í rassinn skaðar nú engan. Má hún ekki vera fegin að einhver líti við henni?
By the way, Ásta fær ekki bílastyrk í vinnunni ... eins og Birkir!!!
8.9.2007 | 13:06
Sígildar bernskubókmenntir og sjokkerandi útreikningur
Gestir í Miklagarði er ein af uppáhaldsbókunum mínum og það til 40 ára eða svo. Var bara barn þegar bókasafn mömmu varð góður kostur, stundum eini kosturinn. Bókasafn Akraness var nefnilega bara opið fimm daga vikunnar og aðeins mátti taka tvær bækur á dag. Það nægði engan veginn bókaorminum. Milli skólaverkefna og útileikja kynntist ég m.a. Beverly Grey og Rósu Bennett sem ég lít enn á sem góðar bernskuvinkonur. Ráðskonan á Grund var margoft lesin og önnur bók í sama bókaflokki er einmitt Gestir í Miklagarði. Ég kláraði að lesa hana í morgunbaðinu áðan. Hún segir frá ríkisbubba (leyndarráði) sem ákveður að taka þátt í verðlaunasamkeppni sem hans eigin verksmiðja stendur fyrir. Tveir bestu þátttakendurnir fá að launum dvöl í glæsilega gistihúsinu Miklagarði. Allt verður vitlaust á heimili leyndarráðsins þegar kemur í ljós að hann hefur hlotið önnur verðlaun og ætlar að taka við þeim. Hann kaupir notuð, sjúskuð föt og fer í dulargervi fátæks manns til gistihússins. Hildur, dóttir hans, stelst til að hringja í Miklagarð og varar við komu hans, segir að hann sé milljónamæringur, hálfgert barn í sér, safni frímerkjum, elski síamskettlinga, þurfi heita múrsteina í rúmið, nudd, koníak og fleira og fleira. Skelfilegur misskilningur verður og ungi maðurinn sem hlaut fyrstu verðlaun fær konunglegar móttökur og er settur í flotta svítu með kettlingum, múrsteinum og koníaki á meðan sá ríki fær pínulítið, ískalt risherbergi og ódulinn fjandskap, enda fátækur ... heldur fólk. Alltaf gaman að lesa gömlu bækurnar. Hef keypt margar af þessum bókum eins og mamma átti fyrir sjálfa mig hjá fornbókasölum í gegnum tíðina.
Íslendingar eru u.þ.b. 311.396 talsins og það styttist sífellt hraðar í að við verðum stórþjóð á borði en ekki bara í orði. Karlarnir eru 158.866 og konurnar 152.530.
Þetta þýðir á mannamáli að 1,1041539369304399134596472825018 karl sé á hverja íslenska konu en bara 0,96011733158762730854934347185678 kona á hvern karl. Ég ætla rétt að vona að karlar fari að verða betri við okkur og læri jafnvel að meta okkur stelpurnar að verðleikum þar sem við erum samkvæmt þessu í útrýmingarhættu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.9.2007 | 20:43
Nafnasamkeppni ... og áskorun til stjórnvalda

Það vantar fleiri karlmenn á heimilið (sorrí, Tommi) og því bið ég ykkur, kæru bloggvinir, að stinga upp á góðu karlmannsnafni sem passar við vélmennið. Loksins rætast draumar mínir. Þegar ég var lítil var ég viss um að árið 2000 myndu jarðarbúar ferðast um á flugbílum og hægt væri að stinga pillu í tæki sem breytti henni samstundis í góðan mat. Róbótinn er kominn, þá hefst bara biðin eftir pillunni.
Nú situr Tommi á stól og horfir hugfanginn á ryksuguróbótinn, Kubbur er aðeins fjær, enda frekar tortryggin kisa. Akkúrat núna var tækið að ljúka þrifum í stofunni og rúllaði sér sjálft í heimahöfn í hleðslu.
ATH - ATH:
Eftirfarandi bréf barst hingað sem komment og mér er bæði ljúft og skylt að birta það hér til að vekja meiri athygli á því:
Undanfarna daga hafa birst afar skeleggar greinar um stöðu velferðarmála á Íslandi - einkum hvað lýtur að sjúkum og öldruðum. Þar skrifa konur sem fá daglega að reyna kerfið á eigin skinni - auk þess að berjast við 4 stigs krabbamein. Ég hvet þig eindregið til að lesa færslu á : http://www.blogcentral.is/gislina sem ber yfirskriftina Mótmælum öll, skoða athugasemdirnar og veita innihaldinu áfram á þinni síðu.
M. kv.
Linda María
Kíkið endilega á þessa síðu sem Linda María bendir á. Þetta er afar þarft málefni. Illa er farið með sjúklinga, öryrkja og eldra fólk á Íslandi, því miður! Held að enginn viti hvernig það er, nema sá sem í því lendir, að veikjast og þurfa allt í einu að lifa af lágum bótum. Stjórnvöld okkar treysta um of á, eða ætlast til, að góðgerðarfélög sinni skyldu þeirra. Ég fékk áfall þegar ég las síðustu færslu Þórdísar Tinnu, ungrar einstæðrar móður sem bloggar hér á Moggabloggi. Hún berst ekki bara við lungnakrabbamein á lokastigi, heldur kerfið. Hún þarf að lifa á 95.000 kr. á mánuði og ef ekki væri fyrir gott fólk væri hún eflaust illa stödd. En það velferðarþjóðfélag, segi ekki meira ... Annars bind ég vonir við heilbrigðisráðherrann okkar til rúmlega 100 daga, hann var einu sinni yfirmaður minn og er einstaklega góður og ljúfur maður. Vonandi getur hann eitthvað gert.
http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/#entry-299482
1.9.2007 | 15:11
Getum sjálfum okkur um kennt ...
Systir mín fór að tala um skemmtilegan pistil sem hún las í blaði nýlega. Hann var um þá kröfu á konur að þær fæddu börn sín á sem náttúrulegastan hátt og helst án nokkurrar deyfingar. Sjálf fór systir mín á námskeið á Fæðingarheimilinu á sínum tíma og var sagt þar að það væri henni sjálfri að kenna ef hún fyndi til við fæðinguna, ef hún slakaði nógu vel á myndi barnið koma sársaukalaust í heiminn ... Konur sem kunna að slaka á finna ekki til. Þetta fullyrti konan sem hélt námskeiðið þótt hún hefði reyndar aldrei fætt barn sjálf. Ekki reyndist þetta rétt hjá konunni og systur minni fannst hún hálfmisheppnuð fyrst hún fæddi barnið ekki skellihlæjandi og án sársauka.
Vinkona mín ætlaði að fæða barn sitt á sem náttúrulegastan hátt og í mesta lagi að drekka piparmyntute við verstu verkjunum. Þegar fæðingin var komin vel af stað bað hún ekki blíðlega um te, heldur gargaði: Ef þið deyfið mig ekki þá drep ég ykkur! Við hlógum mikið að þessu. Erfðaprinsinn fæddist á Skaganum á líklega einni bestu fæðingardeild landsins. Þaðan hef ég bara góðar minningar, fyrir utan þegar starfsstúlka réðst á mig og sagði: Hvernig ætlar þú nú að fara að með tvo hunda? Þú verður að láta lóga þeim fyrst þú ert komin með barn! Jú, og líka þegar ljósmóðirin sagði að þetta gæti ekki verið sárt ... ég kveinkaði mér þegar hún var að sauma mig og deyfingin var farin úr. Aðgát skal höfð ... segi ekki meira.
Sársaukaþröskuldur fólks er misjafn. Ég er reyndar algjör aumingi og hef alltaf látið deyfa mig í tætlur hjá tannlækninum. Ekki vildi ég vera karlmaður og þurfa sí og æ að bíta á jaxlinn á allan hátt, enda eru oft á tíðum gerðar ofurmannlegar kröfur til þeirra. Ég hélt í alvöru hérna einu sinni að karlmenn gætu t.d. ekki farið í ástarsorg, þeir væru svo miklir töffarar og mölvuðu hjörtu okkar stelpnanna án nokkurrar miskunnar. Við grétum en þeir færu bara á fyllerí ef þeim væri sagt upp eða hristu þetta af sér kæruleysislega og fyndu sér svo nýja kærustu. Svona geta nú staðalímyndirnar ruglað okkur líka. Þótt mér finnist Nicholas Cage hundleiðinlegur í grenjumyndunum sínum er það kannski vegna þess að ég hef meira gaman af spennumyndum en grenjumyndum ... en kannski er ég sjálf blýföst í þessum hugmyndum öllum og er hér með að kasta stórgrýti úr gróðurhúsi. Úps.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.8.2007 | 19:18
Viku fyrir dauða Díönu

Viku áður en Díana dó, fyrir hádegi á laugardeginum, fékk ég konu, búsetta í Bretlandi, í viðtal til mín á Aðalstöðina. Við töluðum um Díönu næstum allan þáttinn og hvað þessi vanmetna ljóska væri nú greind og klár og hefði ekki látið konungdæmið kúga sig. Konan tók ýmis dæmi um Díönu og hvernig hún t.d. spilaði snilldarlega á fjölmiðlana. Hún stal meira að segja senunni sama kvöldið og Karl Bretaprins fór í frægt sjónvarpsviðtal. Daginn eftir voru blöðin full af myndum af henni í svörtum, flottum kjól sem hún klæddist á góðgerðaskemmtun, minnir mig. Inn á milli spilaði ég lög með tónlistarmönnum í uppáhaldi hjá henni, m.a. Elton John. Þetta var eins og fyrirfram minningarþáttur. Næsta laugardag fór jarðarförin fram og ég fylgdist með henni í sjónvarpinu í stúdíóinu. Maður nokkur hringdi inn í þáttinn og hafði greinilega verið að hlusta viku áður því hann bað mig lengstra orða um að tala aldrei um sig eða fjölskyldu sína í þessum þætti!
Löngu seinna frétti ég frá íslenskri fréttakonu að í öllu fárinu á jarðarfarardaginn hefði verið haldin sérstök bænastund ... fyrir fréttamenn ... til að hughreysta þá áður en þeir gátu fjallað um útförina.
Þetta þótti henni heldur langt gengið.
23.8.2007 | 21:32
Næstum því nauðgunarsaga ...
Heiða (Skessa) vakti athygli bloggheima á svefnlyfinu Flunitrazepam fyrir nokkrum mánuðum. Fyrir tilstilli hennar fór af stað herferð þar sem beðið var um að lyfið yrði tekið út af markaði. Fjöldi fólks, m.a. ég, sendi tölvupóst til Lyfjastofnunar en lyfið er enn á markaði. Flunitrazepam er svefnlyf sem hefur enga jákvæði virkni fyrir þá sjúklinga sem neyta þess, fram yfir þá tugi annarra svefnlyfja sem eru á lyfjaskrá.
Virka efnið í lyfinu hefur þó þau neikvæðu áhrif að af því skapast algjört minnisleysi og getuleysi til að greina umhverfi sitt. Þessi atriði hafa valdið því að lyfið hefur þann vafasama heiður að vera þekkt sem nauðgunarlyf (Date-Rape). Lengi hefur tíðkast, hér á landi sem annars staðar, að lauma því í drykki kvenfólks til að ná fram áðurnefndu minnis- og getuleysi og ef allt fer samkvæmt áætlun fylgir nauðgun í kjölfarið. Það er nánast ógerlegt fyrir fórnarlamb þessa að kæra til lögreglu sökum minnisleysis. Árið 2006 var Flunitazepam ávísað í ríflega 11.000 skömmtum. Þar sem lyfið hefur enga sérstöðu til bóta fyrir þá sjúklinga sem nota það fer ég þess á leit að Flunitrazepam verði tekið af lyfjaskrá hér á landi hið snarasta. Öryggi stúlkna/kvenna hlýtur að vega þyngra en svo að nauðsyn teljist til að hafa þetta hættulega lyf í umferð.
Ótrúlegasta fólk getur lent í því að lyfi sé laumað í drykk þess, meira að segja skvísa á borð við undirritaða. Ég skrifaði eftirfarandi frásögn sem lífsreynslusögu í Vikuna 2000 eða 2001. Hún er hér í styttri útgáfu:
Fyrir tæpum 25 árum fór ég á ball í Broadway í Breiðholti. Var í för með systrum mínum tveimur og mági. Mágurinn fór að spjalla við kunninga sem hann hitti og við systurnar settumst saman í sófa, alsælar að vera allar saman á balli. Fljótlega kom ungur, myndarlegur maður til okkar sem vildi endilega bjóða okkur í glas. Við þáðum það en mér til mikilla vonbrigða kom hann með romm og kók. Smekkur minn var plebbalegur á þessum tíma, ég hefði frekar viljað White Russian. Meðan við drukkum og spjölluðum gerði maðurinn ítrekaðar tilraunir til að fá mig með sér út á dansgólfið. Mér fannst skemmtilegra að spjalla við systur mínar og afþakkaði boð hans. Áður en ég var búin úr glasinu fór mér að líða illa, var flökurt og mig svimaði. Ég ákvað að reyna að hressa mig við á snyrtingunni. Það þýddi lítið að kæla ennið svo að ég ákvað að reyna að kasta upp. Svo man ég lítið meira fyrr en ballið var búið þegar ég heyrði rödd annarrar systur minnar. Mér tókst við illan leik að umla eitthvað nógu hátt til að hún heyrði og að opna dyrnar. Hún kallaði á mág okkar og saman drösluðu þau mér fram. Ég reyndi að segja þeim að ég væri ekki drukkin en drafaði svo mikið að það skildist eflaust ekki. Samt var ég farin að hressast. Dyraverðirnir horfðu á mig með ógeði og fyrirlitningu og sögðu að réttast væri að hringja á lögregluna, ... svona ógeðslegar fyllibyttur, ... eitthvað. Ég fór heim í leigubíl og tók lyftuna upp á 7. hæð. Bjó hjá mömmu í Asparfellinu á meðan ég beið eftir íbúð. Hún var vakandi og varð frekar hissa að sjá svo lítt drykkjusjúka dóttur sína í undarlegu ástandi, slagandi og slappa. Næsta morgun vaknaði ég eldhress fyrir allar aldir, ekki einu sinni með höfuðverk. Þorði síðan ekki svo mikið sem horfa á rommflösku vegna þessa mikla ofnæmis fyrir rommi sem ég hlaut að vera með.
Tíu árum seinna sagði ég vinkonu minni frá romm-ofnæmi mínu og því sem gerðist í Broadway. Hún starði á mig og sagði: Ertu virkilega svona barnaleg? Auðvitað laumaði maðurinn lyfi í glasið þitt!
Ég tek svo sannarlega undir með Heiðu! Ef til eru sambærileg svefnlyf, án þessara aukaverkana, þá burt með þetta lyf af markaðnum! Hagsmunir fórnarlamba svefnnauðgara ættu að vega þyngst!
P.s. Bloggleysi dagsins hefur stafað af miklu annríki.
21.8.2007 | 13:02
Hvernig tískan verður til
Nú veit ég að sjúkraþjálfarar eiga mikinn þátt í því að skapa hártískuna. Ég lá á bekknum hjá Betu í morgun með blautt hárið og alls kyns liðir og lokkar urðu til. Þegar ég kom fram tóku allir andköf af aðdáun, sumir hrópuðu upp yfir sig. Það lá síðan við umferðaröngþveiti þegar út var komið. Til að forða mér út úr kastljósinu (já, hógvær Ljón eru til) hoppaði ég upp í innanbæjarstrætó og slapp þannig. Sem betur fer var bílstjórinn með augun á umferðinni og þess vegna komst ég klakklaust heim. Ég veit ekki alveg hversu smart þetta er, miðað við eigin tískuvitund, en þetta vakti alla vega brjálaða aðdáun á Skaganum. Mikið verður gaman að fara í strætó í fyrramálið og sjá tískuóða Skagamenn sem hafa sofnað viljandi með blautt hárið.
Mig grunar að leiðin til að næla sér í sjúkraþjálfara sé einmitt sú að vera með krumpað hár, alveg eins og tannlæknar slefa yfir mér þegar ég fylli munninn af bómull og þingmenn missa sig þegar ég sletti frumvörpum eða reglugerðum. Verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum nota ég þó alltaf spari á þá síðastnefndu.
19.8.2007 | 13:03
Held að ég viti ástæðuna ...
Á miðnætti í kvöld verður sýndur á RÚV þáttur um morðið á Gunnari leigubílstjóra, í röðinni Sönn íslensk sakamál. Hef reyndar aldrei verið svo fræg að sjá þessa þætti og stefni að því að verða sofnuð á þessum tíma vegna ókristlegs fótaferðartíma upp úr sex.
Við Mía systir vorum í leynifélaginu Frinton Rods. Pabbi hjálpaði okkur að finna sérstök leyninúmer sem voru reyndar fyrrihluti kennitölu okkar, ég var alla vega númer 120858. Við fórum í langar gönguferðir um Akranes og reyndum að upplýsa dularfull mál ef þau ræki á fjörur okkar. Minnir að við höfum elt grunsamlegan mann alla leið niður á hótel þar sem hann hvarf inn í teríuna. Mjög líklega framdi hann myrkraverk þar en við gátum ekkert sannað, kannski var hann látinn hverfa en við sáum hann aldrei aftur. Þegar morðið á Gunnari leigubílstjóra kom í blöðunum og þjóðfélagið lék á reiðiskjálfi vegna þess ákváðum við að nú væri komið að því að leysa okkar fyrsta mál. Enid Blyton sagði a.m.k. í Dularfullu bókunum að krakkar væru svo klárir og léku sér að því að gera lögregluna að fífli, nema góða lögreglustjórann. Þetta strandaði bara á einu, hvernig áttum við að komast til Reykjavíkur? Vissulega gekk Akraborgin á milli ... en hvernig áttum við að smygla okkur með henni og plata mömmu þannig að hún fattaði ekki að við værum horfnar. Fullorðið fólk hafði þá, líkt og í dag, engan skilning á háleitum fyrirætlunum barna, um það mátti líka lesa í Dularfullu bókunum. Svo var annað vandamál, höfuðborgin var svo risastór og við kunnum ekki á strætó. Mitt í öllum þessum pælingum varð Mía unglingur, hætti að hjóla og fór að ganga í síðri kápu og sagði sig úr leynifélaginu.
Ég fer ekki ofan af því að átthagafjötrar og gelgja hafi verið ástæða þess að málið upplýstist aldrei.
11.8.2007 | 13:05
Til hamingju, Ísland
Mig langar til að óska Íslendingum til hamingju með daginn. Sérstaklega hommum og lesbíum, þótt þau hafi stolið afmælinu mínu tvisvar á undanförnum árum.
Vona að gleðigangan verði sérdeilis flott í dag og leitt að þurfa að vera að skúra, skrúbba, bóna og baka þegar ég ætti að vera að labba niður Laugaveginn eða jafnvel láta móðga mig í Lífstykkjabúðinni, eins og um árið þegar afgreiðslukonan mín hrópaði: Eigum við samfellur í stóru númeri? yfir alla búðina og hálf þjóðin stóð fyrir utan dyrnar og beið eftir gleðigöngunni. Svo kom konan með allt of stóra samfellu inn í mátunarklefann til mín og móðgaði mig þannig enn meira. Held að hún hati brjóstgóðar konur, finnst þær alla vega mun feitari en þær eru. Hef keypt veiðigallana annars staðar síðan.
Fékk ábendingu um að setja á 7 á afruglaranum til að ná SkjáEinum ... þá kemur: Stöð ekki tiltæk! Kannski tengist þetta búsetu á landinu, kannski er þetta bara ljótt samsæri! Kemur í ljós þegar ég lyfti símtólinu nokkrum sinnum á mánudaginn og spyr hvassra spurninga, segi upp stöðvum og svona! Er enn í stríðshug!
2.8.2007 | 19:59
Tekjur bloggara, dagskráin og Eiríkur með prik
Fékk áskorun um að birta nokkrar stórmerkar tölur sem ég hef við hendina en fást reyndar í næstu sjoppu eða skattstofu. Nú er hægt að sjá hverjir vinna allan daginn eða hálfan daginn, hverjir eru í skóla, í vaktavinnu og hverjir eru mögulega atvinnubloggarar! Sex af þessum bloggurum eru bloggvinir mínir!
Tekjur bloggara
Sóley Tómasdóttir 579.908
Anna K. Kristjánsdóttir 498.579
Kolbrún Baldursdóttir 476.116
Ármann Jakobsson 463.165
Stefán Pálsson 441.574
Þrymur Sveinsson 273.600
Gunnar Hjálmarsson 242.252
Jenný Anna Baldursdóttir 170.318
Óli Gneisti Sóleyjarson 108.723
Jón Valur Jensson 97.986
Katrín Anna Guðmundsdóttir 75.001
Helga Vala Helgadóttir 18.045
Stefán Friðrik Stefánsson 7.292
Aðrir merkir Íslendingar:
Svanhildur N. Vigf. 5.588.898
Gunnar Smári 3.623.430
Júlíus Valsson læknir 2.600.361
Geiri í Goldfinger 1.014.250
--------- o O o --------
Reykir þú? spurði vellaunaði samstarfsmaður minn, Eiríkur Jónsson, um hádegisbil.
Já, með hléum frá 13 ára aldri, svaraði ég kotroskin, en aldrei fyrir hádegi!
Þú ert ekkert reykingaleg, ég hélt að þú værir fullkomin! sagði Eiki karlinn og vann sér inn nokkra punkta.
Er að vinna dagskrána fyrir Vikuna. Ef einhver veit um spennandi uppákomur sem eiga sér stað frá 9. ágúst til 15. ágúst væri gott að fá tillögur. Gay Pride er náttúrlega 11. ágúst og ég mun gera gleðigöngunni skil.
Hlakka rosalega til að fara út í óveðrið í fyrramálið. Vona bara að hviðurnar verði ekki það miklar, yfir 34 m/sek, að strætó fari ekki í bæinn. Þá er ég í ljótum málum. Alltaf mest að gera í vinnunni á föstudögum.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 4
- Sl. sólarhring: 46
- Sl. viku: 634
- Frá upphafi: 1524995
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 540
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni