Nafnasamkeppni ... og áskorun til stjórnvalda

Tommi og Þá er kominn tími til að opinbera hvaða þroskaleikfang kettirnir fengu að gjöf á föstudaginn. Ég geri að sjálfsögðu allt fyrir kettina mína, þótt það kosti tugi þúsunda, jafnvel milljónir ... Þegar Jónatan hætti að kíkja á svalirnar kom stór eyða í líf Kubbs og Tomma og eitthvað þurfti að gera og það strax! Ég hugsaði mig vel um og festi svo kaup á Roomba-vélmenni, iRobot, sem mun skemmta þeim konunglega í vetur. Það er framleitt af sömu aðilum og gera vélmennin sem aftengja sprengjur í útlöndum en ég vildi frekar fá tæki sem gerði meira gagn í himnaríki og sæti Rúmbinn mun sjá um húsverkin héðan í frá. Vona að þetta hafi verið rétt val hjá mér. Hitt getur komið sér vel.

Það vantar fleiri karlmenn á heimilið (sorrí, Tommi) og því bið ég ykkur, kæru bloggvinir, að stinga upp á góðu karlmannsnafni sem passar við vélmennið. Loksins rætast draumar mínir. Þegar ég var lítil var ég viss um að árið 2000 myndu jarðarbúar ferðast um á flugbílum og hægt væri að stinga pillu í tæki sem breytti henni samstundis í góðan mat. Róbótinn er kominn, þá hefst bara biðin eftir pillunni.
Nú situr Tommi á stól og horfir hugfanginn á ryksuguróbótinn, Kubbur er aðeins fjær, enda frekar tortryggin kisa. Akkúrat núna var tækið að ljúka þrifum í stofunni og rúllaði sér sjálft í heimahöfn í hleðslu.    

ATH - ATH:

Eftirfarandi bréf barst hingað sem komment og mér er bæði ljúft og skylt að birta það hér til að vekja meiri athygli á því:

Undanfarna daga hafa birst afar skeleggar greinar um stöðu velferðarmála á Íslandi - einkum hvað lýtur að sjúkum og öldruðum. Þar skrifa konur sem fá daglega að reyna kerfið á eigin skinni - auk þess að berjast við 4 stigs krabbamein. Ég hvet þig eindregið til að lesa færslu á : http://www.blogcentral.is/gislina sem ber yfirskriftina „Mótmælum öll“, skoða athugasemdirnar og veita innihaldinu áfram á þinni síðu.
M. kv.
Linda María

Kíkið endilega á þessa síðu sem Linda María bendir á. Þetta er afar þarft málefni. Illa er farið með sjúklinga, öryrkja og eldra fólk á Íslandi, því miður! Held að enginn viti hvernig það er, nema sá sem í því lendir, að veikjast og þurfa allt í einu að lifa af lágum bótum. Stjórnvöld okkar treysta um of á, eða ætlast til, að góðgerðarfélög sinni skyldu þeirra. Ég fékk áfall þegar ég las síðustu færslu Þórdísar Tinnu, ungrar einstæðrar móður sem bloggar hér á Moggabloggi. Hún berst ekki bara við lungnakrabbamein á lokastigi, heldur kerfið. Hún þarf að lifa á 95.000 kr. á mánuði og ef ekki væri fyrir gott fólk væri hún eflaust illa stödd. En það velferðarþjóðfélag, segi ekki meira ... Annars bind ég vonir við heilbrigðisráðherrann okkar til rúmlega 100 daga, hann var einu sinni yfirmaður minn og er einstaklega góður og ljúfur maður. Vonandi getur hann eitthvað gert.
http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/#entry-299482


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nafnakeppni: Golfarinn --- Golfinn --- Hreinir --- Hreinn --- Arnold Schwarzenegger

Varðandi þetta með sjúklingana, öryrkjana og eldra fólkið, þá blöskrar mér líka óhugnanlega mikið. Ég er grenjandi yfir mínum launum og ég dauðkvíði morgundeginum. Þessi laun Þórdísar duga ekki einu sinni fyrir leigunni hjá mér!!! Þetta velferðarkerfi ... úff. Ég vil helst setja ríkisstjórnina í læst herbergi og láta hana horfa á Sicko myndina hans Michael Moore. 

Ég vona með þér, Gurrí! 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 20:56

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Arnold, kallaður Arnie? Hmmm, hljómar ekki illa!

Sá á bloggsíðu í gær frásögn konu sem fór á einkarekna heilsugæslustöð (í Garðabæ?, úps, teflonheilinn minn), hún komst strax að og greiddi 700 krónur fyrir þjónustuna. Kannski er hægt að spara eitthvað með því að hafa hluta einkarekinn á meðan við förum ekkert í námunda við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum. Helst vildi ég hafa þetta allt alveg ókeypis. Það þarf ekki að efla kostnaðarvitund okkar Íslendinga. Þótt til sé ríkt fólk þá er hér heill hellingur af fátækum sem hafa ekki efni á því að leysa lyfin sín út og það er til skammar!  

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:03

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sammála ykkur í öllum nefndum atriðum, ég er að berjast við kerfið með mömmu núna og svo erum við Bjarni á örorku og þekkjum þann lúxus. Ég ætla að birta þetta á síðunni minni á morgun.  Nýja tækið gæti heitið Sucker

Ásdís Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 21:05

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hvað kostaði nýja dýrið?? datt í hug nafnið Rúmba, dansar rúmbu um gólfin

Ásdís Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 21:08

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það kostar rúmlega 40 þúsund. Við vorum nokkur í vinnunni sem keyptum tæki þannig að við fengum ágætan afslátt. 

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:12

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Það bara fer um mitt litla hjarta að lesa um hvernig farið er með fólkið okkar ungt eða gamalt sem missir heilsuna. Það vantar eitthvað í grunnhugmyndakerfi þjóðar sem ekki sér sér fært að leggja þeim sem minnst mega sín lið. En vitið hvað...allir sem hafa kosið svona stjórnmálamenn og konur eiga sína skömm í málinu. Því miður!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 21:24

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Árni kemur sterkur inn!

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:30

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Gurrí!!! ertu búin að fá þér róbotinn. OMG. Og er hann að svínvirka? James bryti gæti hann heitið.

Ég ætla að setja inn færslu um þrýstihugmyndina á félagsmála/heilbrigiðiskerfið sem er komin fram varðandi þriðjudagsmorguninn. 

Jóna Á. Gísladóttir, 2.9.2007 kl. 21:35

9 Smámynd: Þröstur Unnar

Mér finnst nú að nafnið Árni passi alls ekki í Himnaríki. Þarf að vera eitthvað himneskara, eitthvað sem svífur eða flýgur......hux,hux.

Þröstur Unnar, 2.9.2007 kl. 21:36

10 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vá, brytinn, James bryti ... hljómar vel.

Arnie, Árni James bryti. Snilldarbloggvinir!

Átak á þriðjudagsmorgun! Sendum Jóhönnu og Guðlaugi tölvupóst! 

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:37

11 Smámynd: Þröstur Unnar

Yes, James.

Þröstur Unnar, 2.9.2007 kl. 21:37

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Árni James? Eða bara brytinn?

Svo þegar ég fæ mér skúringaróbótinn, sem von er á, getur hann verið kjallarameistarinn! Eða hirðfíflið?

Já, Jóna, hann svínvirkar, lítill, léttur, sterkur og þrífur vel. Ryksugaði (lauslega) áður en ég setti hann af stað ... samt kom hellingur af kattahárum og ryki í dallinn. Hann er alla vega skárri en ég í húsverkum, sýnist mér á öllu.

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:41

13 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mér finnst það ekki spurning að hér þarf tilkomumikið nafn Kormákur eða Jörmundrekur eru tilvalin.

Steingerður Steinarsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:59

14 identicon

Ég ætla að vera alveg afskaplega ófrumleg og stinga uppá að ryksjúgarinn verði kallaður Robbi.

Maja Solla (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 22:25

15 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Mér finnst mannsnafnið Ljótur  eiga vel við. Ljótur þýðir m.a. ljós og á það vel við í himnaríki og eins er þetta þrælsnafn úr fornbókmenntum okkar 

Þóra Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 22:49

16 identicon

Gegnir hann nafninu ,,Friðrik´´? Hann er örugglega ekkert að setja stafsetninguna fyrir sig....

Hann sér um rykið og þú færð að vera í friði.

Linda María Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 23:20

17 Smámynd: Ólöf Anna

Jónatan hin seinni. Jónatan annar. Er viss um að þetta er fuglinn Jónatan sem hefur umbreytt sér til að komast inn í íbúðina.

 Annars fá Robbi og Jenni líka. En annars er Þóra líka með góða tillögu

Ólöf Anna , 2.9.2007 kl. 23:24

18 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Pétur !  samanber lyklaPétur í himnaríki (kann ekki við að segja Jesú )

Guðrún Jóhannesdóttir, 2.9.2007 kl. 23:31

19 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábærar tillögur. Nú er þessi elska að taka eldhúsgólfið í gegn og kettirnir fylgjast stjarfir með. Þetta er dúndurgræja, segi nú ekki annað, þrælsterk og sér ekki á henni þótt húns é allataf að stíma á! Tommi verður farinn að taka bíltúra með honum áður en ég veit af, sest upp á gripinn, held ég. Eina sem ég get sett út á er að rafhlöður fylgdu ekki með ... það var ekki séns að ég nennti út í sjoppu í dag! Rafhlöður fara í fjarstýringuna og líka tvö tæki sem búa til geisla sem róbótinn fer ekki í gegnum. Sá sem seldi mér gripinn sagði að hann skilaði 98% hreinu, það er helst að hornin fái ekki jafngóða meðferð, burstinn fer samt út í þau ... ég ryksugaði sko ekki eldhúsgólfið á undan og það virðist vera orðið tandurhreint á hálftíma. Samt er gaurinn enn að! Kaupið endilega Vikuna sem kemur út á fimmtudaginn ... hvað ætli verði í krossgátuverðlaun þá? 

Guðríður Haraldsdóttir, 2.9.2007 kl. 23:43

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er farin á heilsuhæli.  Pang Slamm.  Það var nú ekki gott á mér ástandið til höfuðsins áður en ég kom hér inn en núna.  Segieggimeir

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 23:53

21 identicon

Mér finnst Sigvarður alveg tilvalið nafn

Sigga (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 23:53

22 Smámynd: Fishandchips

OMG mig er búið að langa svoooo í þennan grip. Læt nægja í bili hana Jakobínu sem er svona moppurobot. En hef víst ekki efni á stóru systir enn. En hún Jakobína er sko betri en engin og kostaði bara fimmþúsundkall.

Fishandchips, 3.9.2007 kl. 00:09

23 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef sagt það áður að ég skil ekki hvernig fólk kemst af með laun undir 700.000 á mánuði.  Ég veit að margir eru með 100ogeitthvað þúsund á mánuði.  En ef við tökum saman húsaleigu/afborganir af húsnæði,  eðlilegan símkostnað,  matarkostnað og annað þá erum við að tala um upphæðir sem fara vel yfir 200.000 kall að lágmarki á mánuði.  Bara VISA reikningurinn minn er venjulega um 500.000 kall og það er fátt á honum annað en matur og bjór.  Hvorki hótelkostnaður eða eiginlegt bruðl. 

Jens Guð, 3.9.2007 kl. 00:49

24 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Ég mæli með Einar finnst það svo eitthvað passa svo vel við Kubbur og Tommi. Er tækið ekki líka alveg einstakt.....

Ha Jens etur þú og drekkur fyrir 500.000 kr á mánuði ? Nú held ég þú sért að stríða okkur.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 3.9.2007 kl. 01:39

25 identicon

Þetta örorkukerfi er einfaldlega algert bull. Svo er annað sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir. Það er að sjúkdómatryggingarnar sem tryggingafélögin selja gilda ekki nema fyrir örfáa sjúkdóma. Ég er til dæmis óvinnufær með  ólæknandi sjúkdóm og sjúkdómatryggð í bak og fyrir - en það skiptir engu, ég fæ ekki krónu því að ég er ekki með ,,rétta" sjúkdóminn.

Harpa J (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 10:04

26 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég hef nú bara verið úti á túni. Hafði ekki hugmynd um að það væri í alvöru til svona vélmenni sem sópar og skúrar gólf eða að það þurfi 500.000 á mánuði til að borða fyrir Drífur svona græja eitthvað á teppum...gæti hún elt og étið köngulær???? Mér finnst þetta bara alveg frábært....og mæli með nafninu Valgeir Jóna. Alger óþarfi að fara í kyngreiningu á tæki og það fer því þess vegna vel að bera nöfn beggja kynja þar sem nú fer sú tíska um heiminn að allir taki jafnan þátt í heimilisstörfum. Lesið bara Vouge!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.9.2007 kl. 10:16

27 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Já nafn á róbótinn,hann gæti heitið t.d. Hjálpsamur,eða Guðdómur,ég hef í raun meiri áhuga á að vita hvar þú keyptir þennann guðdómlega róbót.Ég er komin í skóna og kápuna með peningana í höndunum,ég veit bara ekki hvert ég á að fara.

María Anna P Kristjánsdóttir, 3.9.2007 kl. 11:33

28 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Í fljótheitarugli, enda brjálað að gera, María ... kíktu á www.irobot.is, fyrir tækið heitir Grímfell s. 848 7632, fæst í Byko, Ormsson og fl.

Guðríður Haraldsdóttir, 3.9.2007 kl. 12:41

29 identicon

Ég var að skoða video með þessu snilldartæki á irobot.is.  Ertu ekkert hrædd um að þetta apparat ráðist á kettina og éti þá?

Sigga (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 14:20

30 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

EF jafnréttissjónarmiðin bera menn ekki ofurliði, þá finndist mér að karlkynsnafn væri heppilegra og frk. Guðríður líka betur settari og sáttari með það! EF ég ætti að skíra gripinn, þá fengi hann einfaldlega nafnið HREINN, en gengi auðvitað alltaf undir nafninu HREINSI!

Og til lukku bara, margar yndis- og ánægjustundir framundan í LETINNAR ÞÁGU!

Næsta kynslóð af gripnum hlýtur svo að bæta við sig uppvaski og eldamennsku!

Magnús Geir Guðmundsson, 3.9.2007 kl. 14:22

31 identicon

Gurrí, hvað með að kalla nýjasta karlmanninn Hermann. Eða þá kannski Hreinn Sveinn, kallaður, Gvendur... hehehehe

Jóhanna (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 15:23

32 identicon

Sæmundur.

Sæmundur fróði lét hrífurnar raka sjálfar ekki satt......

Heiða (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 16:02

33 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Takk,takk,ég ætla að athuga þetta.

María Anna P Kristjánsdóttir, 3.9.2007 kl. 17:25

34 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Katrín, ég er svo jafnréttissinnuð að ég vil strák fyrir Tomma. Við Kubbur stjórnum öllu með harðri hendi, stelpurnar. Þetta er ekki draumur um að karlmaður geri húsverk, sussu nei, slíkt væri viðbjóður.

Líst ótrúlega vel á þessi nöfn, held ég verði að skella inn skoðanakönnun við tækifæri ... eða sem allra fyrst. 

Guðríður Haraldsdóttir, 3.9.2007 kl. 17:49

35 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

Heyrðu hvernig væri "Gulli"  þetta er jú gull af manni og svo kemur gullna hliðið sterkt inn í þessu samhengi og svo passar þetta við þitt nafn  Gurrí og Gulli í Himnaríki.

Einnig: 

Er Rambo komið það þykir mér langflottast eða þá bara Sylvester og svo þessi sexí gæi þarna í Boldinu ég man nú ekki hvað hann heitir Alex eða eitthvað slíkt.

Svo er náttúrulega  Atlas guðinn mikli eða Herkúles, Seifur og hvað þeir nú allir heita.

Eða bara Óskar - þetta er jú heitasta ósk hverrar konu að rætast - einhver sem þrífur án þess að segja eitt einasta orð.

Ég er farin að elda kvöldmat fyrir minn mann, hann er stundum kallaður JóJó - þú gætir kannski notað það

jæja þú verður bara að hafa nafnasamkeppni - það yrði bara nokkuð mikið fjör

kveðja

Ingibjörg þ 

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 3.9.2007 kl. 18:13

36 Smámynd: krossgata

Hreindýrið þarna gæti heitað Dustin eða Ríkharður kallaður Rikki (RYKki).  Hvers lenskur er hann annars?

Staða öryrkja og aldraðra er þjóðfélaginu til skammar.  Til dæmis skerðast bætur öryrkja töluvert strax og maki hefur laun sem duga fyrir nauðþurftum upp í nös áketti og það eru ekki há laun.  Fyrir nú utan þá niðurlægingu að vera háður makanum um allt til alls, jafnvel aur fyrir blandi í poka dytti manneskjunni í hug að gerast svo djörf að langa í slíkt eitt laugardagskvöldið.

krossgata, 3.9.2007 kl. 18:45

37 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Vinur, finnst mér flott nafn á kött. Sonur er líka flott, Lúxus er flott nafn, Magnús, Mummi og Muggur

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 4.9.2007 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 1716
  • Frá upphafi: 1454918

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 1373
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Fíni sjórinn
  • Mosi og Keli 29.4
  • IMG_8477 (1)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband