Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Týnd Esja, hlátur í jarðarför og marktækur draumur ...

EsjanÞað kemur stundum fyrir að farþegar segi þegar komið er alla leið á Skagann: „Where is Eisja?“ Tveir erlendir farþegar fengu aukabíltúr í dag með þessum hætti. Þeir græddu heilmikið á því og gátu litið augum dásemdir Akraness í einhverjar mínútur. Bílstjórinn var splunkunýr og kíkti á kort á milli þess sem hann hleypti fólki út á Skaganum. Þegar hann spurði mig til vegar bauðst ég til þess að fara með honum á endastöð og svo gæti hann hent mér út á leið út úr bænum korteri seinna. Hann þáði þetta með þökkum og þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að nokkrir Skagamenn aka ekki eilífan rúnt í einhverju svartholi á þessarri stundu með rammvilltum bílstjóra. Keypti kaffi í Skrúðgarðinum og tók með heim til að fá eitthvað fyrir minn snúð. Ekki amalegt.
Sit nú og skrifa verulega djúsí lífsreynslusögu sem gömul samstarfskona sagði mér. Hún er um mann sem lenti í klónum á sértrúarsöfnuði og hvarf úr lífi fjölskyldu sinnar.

Afmælisbarn í sumarbúðunumHeyrði í Hildu systur áðan og var mjög gott hljóðið í henni, mikið fjör í sumarbúðunum. Nú eru krakkarnir að undirbúa lokakvöldvökuna og sýna afrakstur námskeiðanna sem þau voru á sl. viku. Svo fara þau heim á morgun. Börnin sem koma í Ævintýraland á miðvikudaginn fá óvæntan glaðning. Guðbjörg úr X-Factor ætlar að kíkja í heimsókn og syngja fyrir þau. Nýja heimasíðan er miklu flottari og auðveldara að skoða myndirnar en áður. www.sumarbudir.is

 

Í dag eru sex ár síðan pabbi dó. Hann fór mjög óvænt og þetta var mikið áfall. Við systkinin ákváðum að hafa jarðarförina í hans stíl, ef hægt er að orða það svo, og  ... það var hlegið nokkrum sinnum. Aldrei verið við slíka jarðarför. Sr. Bjarni Karlsson jarðsöng og sagði nokkrar góðar sögur af pabba sem olli hlátrinum. Ein sú besta var þegar pabbi lenti í bílslysi og var fluttur allur krambúleraður með sjúkrabíl upp á spítala. Þetta var á þeim tíma þegar ekki mátti bjarga lífi fólks nema búið væri að taka skýrslu af því, sumir lifðu það víst ekki af. Pabbi þurfti að svara nokkrum spurningum á meðan læknirinn beið, m.a. nafni, heimilisfangi og kennitölu.
„Ertu giftur?“ spurði hjúkkan að síðustu. „Nei,“ svaraði pabbi, „ég slasaðist svona í umferðarslysi!“

PabbiÞegar þessi saga var sögð í kirkjunni var mikið hlegið en það var frekar skondið þegar gamall skólafélagi hans var við það að skella upp úr aftur þegar allir voru hættir að hlæja og tróð einhverju upp í sig til að verða sér ekki til skammar.

Í byrjun árs 2001 dreymdi mig að ég hefði misst fjórar tennur. Vinkona mín réði drauminn og sagði að þetta gæti táknar fjögur dauðsföll ... Fyrsta dauðsfallið var viku seinna og það fjórða og síðasta rétt fyrir jólin þetta ár. Segið svo að það sé ekkert að marka drauma!


Fólkið sem við vinnum með ...

HRÞegar ég vann hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á árunum 1995-1998 hitti ég stundum indælan mann sem vildi allt fyrir mig gera þegar ég þurfti á aðstoð að halda. Hann vann á veðdeildinni á 2. hæð og við hjá HR áttum mikil samskipti við deildina vegna útgáfu skuldabréfa og fleira. Það er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess að þessi dagfarsprúði maður, Jón Pétursson, sé nú í fangelsi vegna ofbeldis og grimmdar. Ef gömul samstarfskona mín frá HR hefði ekki sagt mér frá þessu hefði ég aldrei tengt þessa tvo menn saman. 

Aðalstræti 16 þar sem Aðalstöðin varÞótt ég telji mig mjög tryggan starfsmann og hætti helst ekki ótilneydd hef ég unnið á nokkrum vinnustöðum um ævina og þrisvar sinnum þurft að hætta vegna þess að vinnustaðurinn var lagður niður (ekki til að losna við mig, held ég). Aðalstöðin var m.a. lögð niður og breyttist í Gull FM en ég var þó ekki lengi þar þótt frábær manneskja væri yfirmaður minn, Helga Sigrún, sem má varla tjá sig á blogginu sínu án þess að allt verði vitlaust ... 

Nokkra erfiða samstarfsmenn hef ég átt og ég get nefnt tvo sem gengu ekki alveg heilir til skógar. Annar þeirra taldi ákveðið stórslys, þar sem nokkrir létust, þ.á.m. börn, vera hefnd guðs fyrir sína hönd þar sem einn ættinginn hafði gert honum eitthvað nokkrum árum áður. Það væri alveg merkilegt að eitthvert óhapp henti alla þá sem gerðu eitthvað á hlut hans. Hinn var lítið skárri og las eitthvað sjálfhverft út úr öllum atburðum. Svo voru það kjaftasögur og illmælgi sem grasseruðu sums staðar og hefur alltaf pirrað mig ósegjanlega. Ég tala alveg illa um fólk stundum ... eins og hundaníðinga og svona ... Flestir eiga sér þó góða hlið og það er miklu skemmtilegra að velta sér upp úr henni, finnst mér. Þeir eru alla vega miklu fleiri frábærir sem ég hef kynnst á lífsleiðinni í gegnum vinnu en hinir. 

BakaríÞegar ég hætti eftir sjö ára starf hjá DV seint á níunda áratug síðustu aldar og gerðist verslunarstjóri í bakaríi voru það mikil mistök. Þetta var leiðinlegusta vinna lífs míns þótt launin væru hærri. (Væri kannski enn á DV ef ég hefði fengið launahækkunina!) Ég fann fljótlega að ég vildi frekar vera hinum megin við afgreiðsluborðið og sagði upp. Ég græddi þó elskuna hana Möggu vinkonu út úr þessu. 

Held að ég sé núna í skemmtilegasta starfinu til þessa. Vinn með frábæru fólki og þótt það sé alltaf rosalega mikið að gera er starfið einstaklega gefandi.


mbl.is Sagði kynlífið skyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómantík í morgunsárið ...

Morgunhanarnir mínirElskan hann Tommi sat undir stýri í morgun og var með Rás 2 á. "Góða ferð, góða ferð, góða ferð," söng einhver annar en Ingibjörg í BG, við Tommi héldum jafnvel að þetta væri Eyvi. Rómantíkin hélt áfram því næsta lag var Söknuður með Roof Tops og svo hélt ég að ég yrði ekki eldri þegar Zeppelin fóru að syngja ómþýtt Babe I´m gonna leave you ... Fólkið í strætó var farið að vanga aftur í, ég lygndi bara aftur augunum en á rómantískan hátt. Ef ég geng einhvern tíma út þá gerist það í strætisvagni og verður Rás 2 að kenna.   

Í millitíðinni, eða skömmu fyrir Zeppelin, gerðist reyndar sá æsispennandi atburður að farþegarnir í Skagastrætó þurftu að skipta um rútu á Kjalarnesinu. Ég klökknaði þegar ég sá endurfundi Tomma og rútunnar sem beið okkar, enda er hann oftast á þeim bíl. Tommi klappaði á mælaborðið, tautaði falleg ástarorð og svei mér ef allir farþegarnir fengu ekki eitthvað í augað ...

Mig grunar að Magga mágkona (systir Tomma) píni Gest Einar til að spila rómantíska tónlist í útvarpinu til að við Tommi verðum skotin hvort í öðru og hún fái loks alvörumágkonu. Held að hún verði að sætta sig við rútu sem mágkonu ... ansi flotta og þægilega rútu sem kann þó ekki að búa til gott kaffi!

Engin Karítas var í brekkunni í Mosó og Tommi ákvað að hún hefði sofið yfir sig, ég giskaði á að skólarnir væru bara búnir, en Karítas er yfirmaður í grunnskóla í 112 Rvík. Tommi sagði að dóttir hennar væri algjör eftirmynd hennar, hann hefði haldið einu sinni þegar hann kom á stoppistöðina í Háholti að Karítas væri þar á hnjánum ... en sá svo að þetta var barnið hennar.

Mikil hátíð ásatrúarmanna verður á morgun, enda sólstöður, og hef ég rökstuddan grun um að mannfórnir verði færðar, að vænum höfðingja verði slátrað eða eitthvað ... ef marka má það sem Tommi hefur gefið í skyn.

 


... heldur frelsa oss frá illu kaffi

Kaffi eða djöfladjúsFrétti að maður, kenndur við kross, beini nú spjótum sínum að drykkjufólki sem djöflar í sig ógeðsdrykknum kaffi. Mér finnst þetta frábært. Loksins er ráðist á þessa óhæfu sem kaffidrykkja er. Hversu margar fjölskyldur ætli hafi tvístrast og sundrast vegna kaffidrykkjusýki annars foreldrisins á heimilinu, jafnvel beggja? Hversu margir ætli eigi um sárt að binda vegna neyslunnar? Ég er ekki saklaus, ætla ekki að reyna að afsaka mig. Flest óhæfuverk sem ég hef framið í lífinu hafa verið undir áhrifum koffíns, m.a. fjölmargar bloggfærslur.

Viðvörunarmerkin voru alls staðar þegar ég fer að hugsa út í það. Í Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, sem ég las á unglingsaldri, kemur berlega fram hættan af því að drekka kaffi og var Ketilríður nokkur nefnd sérstaklega til sögunnar, en hún þambaði kaffi með hlóðabragði í lítravís og slúðraði í kjölfarið.
Erfðaprinsinn minn reyndi líka að vara mig við einu sinni og sagðist vera stórhneykslaður á því að hafa séð áhöld til kaffineyslu inni í eldhúsi hjá mömmu sinni.

Mér finnst frábært að loks hafi fundist gott málefni til að berjast fyrir, eða öllu heldur gegn. Hef einhvern veginn aldrei fundið mig í andúð á samkynhneigðum, hatri á rokktónlist, hneykslan á konum með stutt hár eða konum í buxum. Nú erum við laus við reykinn á kaffihúsunum, næst berjumst við gegn kaffi! Held að fólk geti drukkið te. 

Heiða í himnaríkiMikið var gaman að fá Heiðu í heimsókn. Henni gekk vel að rata til himnaríkis, enda held ég að Skaginn sé ekkert of flókinn fyrir utanbæjarfólk. Hún kom með djöflatertu með sér, svakalega góða, og ég bauð henni upp á djöfladjús (kaffi) með. Við skemmtum okkur djöfullega vel. Við horfðum með öðru á Djöfmúluna og nú er ég farin að óttast að maðurinn sem ég held með, Djöfmilton, verði nýr Djúmaker sem hrifsar til sín alla sigra og það hætti að vera gaman að horfa.

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er á morgun. Vona að ég muni eftir því að mæta! Svo er það matreiðslunámskeiðið annað kvöld.


Heillandi Hella og sættir við makkakvikindið

Haldið þið ekki að nafni eldri kattar míns, hann Tómas strætóbílstjóri (einnig þekktur sem brosmildi bílstjórinn) hafi setið undir stýri í strætó í morgun? Hef ekki séð þessa elsku í fleiri vikur!!! Það er kominn einhver tími síðan hann byrjaði aftur en mín hefur verið í sumarfríi.
Ég settist í fremsta sæti og spjallaði hann án þess á nokkurn hátt að trufla einbeitingu hans við aksturinn. Hélt yndisþokkanum í algjöru lágmarki með að ropa hátt annað slagið og slá um mig með groddalegum frösum. "Alltaf í boltanum, Tommi?" "Hvað segja bændur?" "Svona er lífið ..."

Tommi er ásatrúarmaður, golfari og veiðiáhugamaður svo fátt eitt sé talið. Hann langar mest til að verða Akranesgoðinn. Mér leist vel á hugmyndir hans um mannfórnir. Frekar algengt var til forna að fórna flottu fólki, jafnvel konungum ef þurfti. Okkur datt í hug ýmsir bæjarstjórar sem gætu verið girnilegar fórnir en ég nefni engin nöfn. Ég sagði Tomma að ástkær systir hans kommentaði stundum hjá mér á blogginu, þessi sem er fornleifafræðingur og kallar sig Möggu mágkonu (mína). Sagði Tomma auðvitað ekki frá mágkonudjókinu, annars gæti hann litið á það sem daður og viðreynslu og slíkt gera ekki fínar dömur.
"... fornleifafræðingar með rassgatið upp úr moldinni og gleðjast yfir einhverju drasli ..." drundi í Tomma þegar hann ræddi um systur sína!
Svo sagði hann eitthvað annað á leiðinni svo hryllilega fyndið en ég bara man það ekki! Arggggg!

Við Ellen hittumst í The Kringl á gjörsamlega hárréttum tíma, hvorug þurfti að bíða eftir hinni ... og þustum svo út á þjóðveginn með kaffi í annarri, alla vega ég. Ellen gleypti í sig Da Vinci-kaffið sitt með karamellusýrópi og var búin með það áður en við komumst út í bíl. Jæks, ég smakkaði aðeins á því og varð ekki hrifin, enda hefur sætt kaffi ekki verið á vinsældalistanum síðan ég var 17 ára.

Hér á Hellu er skólahúsið hægt og rólega að breytast í algjört ævintýraland, nú eru allir að púla við að koma þessu upp. Mér var skellt fyrir framan tölvuna og látin senda foreldrum undirbúningslista fyrir tímabil 2 en þar kemur m.a. fram hvað best er að taka með sér í sumarbúðirnar. Nú ætla ég að reyna að gera skrifstofuna æðislega!

Í Pennanum í Kringlunni sá ég að út er komin á íslensku ný bók eftir Dean Koontz!!! Ég hélt ég ætti allar eftir hann, bæði á ensku og íslensku en kannaðist ekki við lýsinguna þegar ég las aftan á bókina. Keypti hana að sjálfsögðu Hugsa að ég fari mjög snemma í háttinn í kvöld. Jessssss!!! Elska hryllingsspennudularfullar bækur.

P.s. Við Makkahelvítið erum búin að gera með okkur vopnahlé. Ég tala ekkert um hvað PC er betri tölva og Makkinn étur mig ekki.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 47
  • Sl. sólarhring: 399
  • Sl. viku: 1925
  • Frá upphafi: 1455317

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1558
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Útlitið í Mjódd í dag
  • Elsku Geiri frændi
  • Jysk

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband