Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Haustlægðarsólsetursvitamynd

Bak við BíóhöllinaVorum á ferðinni bak við Bíóhöllina á Akranesi og sáum brimið skella á brimgarðinum þar ... rosaflott. Sólin akkúrat að setjast.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 ----------          ----------------           ---------------            -------------          ----------------

Við vitann Himinninn var svo fallegur hjá stóra vitanum og eiginlega ómögulegt að sleppa því að taka mynd.

Brimið var líka ógurlega flott. Grillir aðeins í það hægra megin á myndinni.


Hátíðarstemmning og óvæntar heimsóknir

Mikið er klassísk tónlist vel við hæfi á svona lötum sunnudegi. Er að hlusta á „bland í poka“ af frábæru, æðislegu, dásamlegu ókeypis tónlistarsíðunni minni:  http://radioblogclub.com/open/43879/figaro/Marriage%20Of%20Figaro og er komin í sannkallað hátíðaskap. AkraneskirkjaEf tónlistin væri örlítið jólalegri færi ég að skreyta. Sumir myndu segja að gott væri að fara í messu til að öðlast frið í hjarta og slíkt en hjartafriðurinn er svo sem til staðar og auk þess er kirkjan í hinum enda bæjarins ... og innanbæjarstrætó gengur bara virka daga. Mér finnst reyndar gaman að fara í kirkju og hlusta á fallega tónlist. Ég elti mömmu iðulega í messur og á kóræfingar í gamla daga hér á Skaga. Kórinn hérna þykir og hefur alltaf þótt ansi góður og sendi frá sér geislaplötu fyrir nokkrum árum. Þar heyrði ég í fyrsta skiptið Ave Maria eftir Eyþór Stefánsson frá Sauðárkróki. Sama árið sungu Karmel-systurnar í Hafnarfirði það líka inn á plötu. Held að það sé uppáhalds Ave Maríað mitt! Verst að það finnst eflaust ekki tóndæmi á Netinu.

Formúlan fer svolítið inn um annað augað og út um hitt í þessarri sunnudagsstemmningu himnaríkis. Það væri kannski ekkert galið að fara að klæða sig. Fólk er nefnilega farið að stunda það að mæta óvænt! Glerhallarmenn í hádeginu í gær og Ellý í gærkvöldi.

Hver ætli hringi bjöllunni í dag? Get ég hugsanlega verið róleg þegar bjallan hringir og ég kannski nýkomin í bað? Verð ég jafnvel að breyta kaffidrykkjuvenjum mínum til að verða ekki gripin glóðvolg við drykkju ... í baði?


Pælingar og spælingar

Þyrnirós sefur útÞað hafa ekki fyrr birst fréttir af því að það sé meinhollt að sofa út þegar fótaferðartíminn í himnaríki verður um tveimur tímum fyrr en vanalega um helgar. Hingað til hef ég getað stært mig af því að breytast í eðlilega b-manneskju strax á föstudagskvöldum og sofa til hádegis á laugardögum og sunnudögum. Skrýtna lífið hefst svo á mánudagsmorgni. Mér finnst ekki enn eðlilegt að vakna kl. 6.15 þótt mér takist það vissulega, kannski hef ég sofið yfir mig um klukkutíma tvisvar sinnum síðan snemma árs í fyrra, þó verið komin vel fyrir níu í vinnuna.

 

 

9. sept. 2007

Sól, fallegt veður og hávaði í öldunum klukkan tíu í morgun var reyndar hvetjandi til fótaferðar, svo og tilhugsunin um Formúlu 1 sem hefst á hádegi og ég vil ekki missa af. Ég þekki fólk sem telur það vera útsofelsi að vakna kl. átta á morgnana, það er óskiljanlegt og frekar hræðilegt, en vissulega fer þetta allt eftir því hvenær fólk tímir að fara að sofa. Ég er að sjálfsögðu að tala um fólk sem þarf ekki lengur að vakna til barna sinna. Það er eyðsla á góðu kvöldi að eyða því í rúminu, nema eitthvað spennandi sé þar, ég segi nú svona, og ég bíð spennt eftir því að sá tími komi að ég þurfi ekki mína 8-10 klukkutíma í svefn. Það er búið að segja mér í tíu ár að ég sé orðin svo gömul og nærsýnin hverfi skjótt en fjarsýni komi í staðinn, ég þurfi ekkert að sofa að ráði og fleira og fleira sem hljómar spennandi. Það bólar ekkert á þessu. Hér með auglýsi ég eftir þessum kostum! Ég hrópaði reyndar upp yfir mig af fögnuði þegar ég fór að finna fyrir stirðleika á morgnana og hugsaði að nú væri ég loksins að verða fullorðin en það var tekið frá mér um leið og Beta sjúkraþjálfari komst í málið. Eina sem ég finn fyrir og vekur reyndar hjá mér ugg er þessi gífurlega leti við að æsa mig yfir hlutunum. Ég nenni ekki einu sinni í trúarbragðadeilur á blogginu og þá er nú langt gengið.


Viku fyrir dauða Díönu

DíanaKvöldinu fyrir nákvæmlega tíu árum varði ég á Kaffibarnum og kom heim um tvöleytið. Á símsvaranum (tæki sem var til í gamla daga) var frændi minn sem skammaði mig fyrir ábyrgðarleysið að vera úti á djamminu á meðan Díana væri stórslösuð á sjúkrahúsi og Dodi dáinn. Frændi minn er ákaflega fyndinn maður, Skessa veit allt um það, en þarna fannst mér hann skjóta yfir markið. Ég kveikti þó á sjónvarpinu og horfði stjörf á Sky-fréttir næstu klukkutímana, eða þar til yfir lauk.

KamillaViku áður en Díana dó, fyrir hádegi á laugardeginum, fékk ég konu, búsetta í Bretlandi, í viðtal til mín á Aðalstöðina. Við töluðum um Díönu næstum allan þáttinn og hvað þessi vanmetna ljóska væri nú greind og klár og hefði ekki látið konungdæmið kúga sig. Konan tók ýmis dæmi um Díönu og hvernig hún t.d. spilaði snilldarlega á fjölmiðlana. Hún stal meira að segja senunni sama kvöldið og Karl Bretaprins fór í frægt sjónvarpsviðtal. Daginn eftir voru blöðin full af myndum af henni í svörtum, flottum kjól sem hún klæddist á góðgerðaskemmtun, minnir mig. Inn á milli spilaði ég lög með tónlistarmönnum í uppáhaldi hjá henni, m.a. Elton John. Þetta var eins og fyrirfram minningarþáttur. Næsta laugardag fór jarðarförin fram og ég fylgdist með henni í sjónvarpinu í stúdíóinu. Maður nokkur hringdi inn í þáttinn og hafði greinilega verið að hlusta viku áður því hann bað mig lengstra orða um að tala aldrei um sig eða fjölskyldu sína í þessum þætti!

BlómahafLöngu seinna frétti ég frá íslenskri fréttakonu að í öllu fárinu á jarðarfarardaginn hefði verið haldin sérstök bænastund  ... fyrir fréttamenn ... til að hughreysta þá áður en þeir gátu fjallað um útförina.

Þetta þótti henni heldur langt gengið.


Ofsóknir talna

Number 23Einhverra hluta hvarf ónotatilfinningin við góðan svefn ... í stofusófanum yfir myndinni The Number 23. Ég sem er nörd í sambandi við tölur, eiginlega alveg vitlaus í tölur og rústaði bekkjarbræðrum mínum í algebru í landsprófi um árið, eins og ég hef oft montað mig af. Ég geng næstum því svo langt að leggja saman bílnúmer til að fá þversummuna. Þar sem ég á mér líf, sit ekki oft föst í umferð og er líka með lesefni á mér þarf ég yfirleitt ekki að taka til svona ráðstafana til að létta mér lund. Spurning hvort maður nenni að horfa á myndina aftur. Meiri vitleysingurinn að fá eina tölu á heilann, eins og Jim Carrey.

Þegar talan 6 elti mig þá lét ég ekki svona. Það kom 6 út úr símanúmerinu mínu (áður en 55 bættist fyrir framan það), það gerðist bókstaflega ALLT árið 1986, ný vinna, fullt af nýjum vinum, stóra ástin (só far) kom til sögunnar, ég átti líka heima á ýmsum stöðum þar sem talan 6 kom við sögu (þversumman), Rauðalæk 33, Æsufell 6, Asparfell 6, Skeljanes 6, Laugavegi 132, Hringbraut 78 o.fl. Sumir vinnustaðir með húsnúmer í stíl við þetta, Suðurlandsbraut 24, Hávallagata 24 o.fl. Fattaði þetta þegar það kom mér einhvern veginn ekkert á óvart að fá skáp númer 6 á Rás 2. Þá fór ég að kíkja betur á þetta! Bankinn minn er nr. 0303 ... þversumma bankareikningsins er líka 6 ...

ÉArggggggg tók viðtal við spákonu fyrir tveimur árum og hún talaði mikið um tölur. Ég sagði henni að sexan hefði elt mig í mörg ár en það væri eitthvað að breytast, nú kæmi t.d. 5 út úr húsnúmeri mínu á nýja staðnum sem ég færi að flytja inn í (himnaríki). „Sjúkk,“ sagði spákonan, „gott að þú ert að losna við þessa tölu, fimman er betri!“ Svo fór ég að hugsa í morgun, ókei, 41 gefur útkomuna fimm  ... en líka talan 23! The Number 23! NEEEEEIIIIIIIII!

Hmmm, þessi hryllingsgæsahúðarfærsla var í boði Guðríðar sem ætlar í strætó í bæinn kl. 9.41, fara í Kaffitár á Bankastræti í sjúklegan latte og taka síðan rútuna til Selfoss kl. 12.30 frá BSÍ. Hilda sækir mig þangað. Fínasta áætlun. Út úr 9.41 og 12.30 kemur talan 20, styttist í 2. Sjúkk! 

Bið ykkur vel að lifa og fara varlega á meðan ég bregð mér af bæ.


Verslunarmannahelgarsögur og bíórytmi

Verslunarmannahelgin á næsta leiti og þótt best sé að vera heima ætla ég að kíkja í sumarbúðirnar til Hildu. Slepp vonandi við mestu umferðina ef ég fer austur á laugardegi og fer til baka á sunnudegi.

HerjólfurÉg heyrði nokkrar góðar verslunarmannahelgarsögur einu sinni ... m.a. um stelpuna sem sást reika um Eyrarbakka eldsnemma á mánudagsmorgninum. Konan sem var fyrst á fætur á Eyrarbakka mætti henni og stúlkan spurði hana hræðslulega: „Hvar er ég?“
Konan: „Þú ert á Eyrarbakka!“
Stúlkan: „Á Eyrarbakka? En ég bað strákana að skutla mér í Eyjabakkann í Breiðholtinu.“

Eða blindfullu stelpurnar sem seinnipart föstudags stigu út úr rútunni á Siglufirði, litu í kringum sig á allt síldarævintýrið og spurðu: „Hvar er Herjólfur?“

Besta verslunarmannahelgarsaga sem ég hef heyrt er reyndar í nýjustu Vikunni sem lífsreynslusaga. Hún er bráðfyndin og auðvitað dagsönn. Blaðið kemur út á morgun. :) 

Sit heima og vinn í dag, engin strætóævintýri fyrr en í fyrramálið. Ásta ætlaði að kíkja á mig í gær og ég ákvað að leggja mig, var eitthvað svo kalt og sá rúmið mitt í hillingum, mjög, mjög sjaldgæft að degi til. Það slökknaði á mér í nokkra klukkutíma. Svo hringdi klukkan í morgun kl. rúmlega sex en það var ekki séns að hreyfa sig. Skrýtið að grípa allar pestir þessa dagana, er ekki sátt við það. Samkvæmt bíórythmanum mínum getur þetta passað ... líkamlega heilsufarslínan er næstum í botni, fékk nefnilega ímeil frá uppáhalds-netstalkernum mínum, spákonunni henni Rochelle, sem lofar mér stöðugt gulli og grænum skógum, eða bjartri framtíð ef ég bara kaupi einn töfrastein af henni eða eitthvað slíkt. Prófaði að setja afmælisdaginn minn inn og þá verð ég víst í fullu fjöri. Þegar kemur fyrir að allar línurnar eru í botni þykir það slæmt og ég sá einu sinni í Mogganum að leigubílastöð í Japan gefur bílstjórunum sínum frí þessa botndaga þeirra. Margt skrýtið í kýrhausnum.

Hér er hlekkur á bíórythmasíðu: http://www.bio-chart.com/ Skellið bara inn fæðingardegi og ári til að sjá hvort dagurinn ykkar er góður eða slæmur ... eða þannig.

Hefnd álfanna

Álfar og huldufólkÍ fyrri færslu minni var ég vitanlega að gantast þegar ég sagðist ekki trúa á álfa, huldufólk og tröll. Mér hefndist fyrir þetta hallærislega grín ... allt fór nefnilega úrskeiðis í himnaríki skömmu eftir að ég ýtti á Vista færslu. Diskur brotnaði, ég missteig mig og Tommi gubbaði á baðgólfið, að auki hófst þáttur með Oprah Winfrey í sjónvarpinu. Eins gott að passa það sem maður segir.

„Afsakaðu að ég bý á efstu hæð,“ sagði ég við móðan sendil sem kom með Tandoori-kjúklinginn til mín áðan. „Ekkert að afsaka,“ muldraði sendillinn hræðslulega og rétt þorði að fá borgað. Sumir hafa ánægju af þessu smáa í lífinu ... en ætlunin var nú ekki að hræða drenginn. Jú, letin hafði yfirhöndina og hringt var eftir góðum mat í stað þess að elda sjálf. Einu sérþarfirnar sem ég hef í sambandi við þennan tiltekna mat er að það þarf að krydda kjúklinginn meira en venjulega og sleppa furuhnetunum í salatið, þá er þetta líka algjörlega fullkominn kvöldmatur á sunnudegi og þannig var hann líka.


Fögur og fljótsnyrt

Vaknað 6.23 og andvarpað, aðeins 18 mínútur í brottför strætó frá Skrúðgarðinum. Hrein, falleg en nokkuð gömul fötin tilbúin á stól við rúmið (sett þannig að kettirnir geti ekki lagst á þau), sokkar enn í þurrkaranum, þeir sóttir. Horft á kaffikönnuna, einhver tími? ... nei.  Strætó náð og það án þess að hlaupa eða stressa sig á nokkurn hátt, aðeins þetta kvenlega andvarp við vöknun. Mikið er gott að vera svona fljótsnyrt á morgnana!

Frelsaður maðurUndanfarið hef ég verið að pæla í því að það væri kannski mögulega svolítið sniðugt að ganga út, jafnvel bara skrambi hentugt, sérstaklega ef maðurinn er handlaginn því að þótt smiðurinn minn hugsi mikið til mín lagast svalaumbúnaðurinn ekki neitt og ég kann EKKERT  á svona smíðadrasl. Það styttist líka í veturinn og það er nú ögn hlýlegra að hafa karl í fanginu en kött. Það styttist líka fáránlega í að ég verði 49 ára, eða 12. ágúst nk., og það vill enginn 49 ára gamla konu, eins og allir vita. Ég hef því lagst í ýmsar handbækur undanfarið um árangursríkar karlaveiðar, meira að segja las ég Handbók piparsveinsins, sem ég fann uppi í hillu, en hún reyndist bara vera fyrir stráka, eins og nafnið gefur til kynna. Handbók einstæðra mæðra: Íslenskir milljarðamæringar, var lítið skárri. Þá datt ég ofan í gamla Viku þar sem mátti finna veiðiaðferðir á frelsaða karlmenn. Ég hló subbulega í upphafi en svo fór ég að hugsa alvarlega um þetta ...  Ég bý líka í næsta húsi við KFUM-húsið á Skaganum og hæg heimatökin. Ætla að prófa að negla einhvern með einhverri af þessum setningum:  1) „Flott biblía!“  2) „Meiddir þú þig þegar þú féllst af himnum ofan?“ 3) „Ertu syndugur maður vegna þess að þú STALST hjarta mínu?“ 4) „Ég er að fara að mála mynd af Jesú, viltu sitja fyrir?“

Æ, annars, ég held að ég nenni þessu ekki. Það mátti vissulega velta þessu upp í morgunsárið! Takk fyrir að hlusta. Argggg!

Megi dagurinn ykkar, bloggvinir góðir, verða FRÁBÆR!


Ástarsaga að morgni og upprisa hunds a la EHÁ

Ásta og Birkir í framtíðinniFékk far í bæinn með Birki og Ástu ... jú, einmitt, sögupersónunum úr unglingabókinni þarna ... Það var svo gaman hjá okkur á leiðinni að Birkir bíleigandi móðgaðist ekkert alvarlega þótt Yaris-dolla þyti fram úr drossíunni hans. Bylgjan var á og  í einkabíl er hún ekki jafnbráðaofnæmisvekjandi og í strætó. Við meira að segja skellihlógum að fyndni útvarpsfólksins. "Hvað er hraðfiskibátur?" "Hmmm, er það ekki bátur sem veiðir tilbúna fiskrétti?"

Æ, ég er svo veik fyrir aulabröndurum ...

Birkir ók mér upp að dyrum í vinnunni, þessi elska. Vel þegið svona einu sinni að þurfa ekki að klöngrast, ég meina svífa léttilega, upp brekkuna. Svo bara datt ég ofan í VINNU strax upp úr hálfátta í stað þess að byrja á því að blogga ... vildi koma tveimur greinum sem ég vann í gær í prófarkalestur sem allra fyrst. Bjóst hálfpartinn við því að sjá starfsmenn DV húka við dyrnar, svona miðað við fréttir morgunsins en við erum að sameinast þeim. Ef þannig færi að nafn okkar breyttist í DV get ég loksins farið að nota gömlu pappírspressuna mína sem á stendur: Guðríður - DV. Indæll maður hjá Álfasteini vildi endilega gefa mér slíkan stein/pressu fyrir 20 árum þegar ég vann hjá DV. Fer ekki lífið í hringi?

Elías Halldór Ágústsson samdi nýja trúarjátningu og birti á Moggabloggi sínu í gær. Ég stal henni miskunnarlaust ... maðurinn er snillingur:

„Ég trúi á Lúkas, hans einkahund, Drottinn vorn, sem mærður var af Barnalandsmömmum, píndur á dögum Moggabloggsins, sparkaður, dáinn og urðaður, steig niður til heljar, reis á þriðju viku upp frá dauðum, situr ofan Akureyrar og mun þaðan koma að dæma plebba og fávita.“


Góður túristadagur, guðleg stríðni og ... grobb

RekkkjavikkFór á Skrúðgarðinn vel sjúkraþjálfuð þegar klukkan var að verða hálftólf og það var líklega eins gott því mig minnti að síðasta ferð fyrir fjögurra klukktíma síestu bílstjóranna væri kl. 12.41. Hún er klukkutíma fyrr. Ætlaði að fara að tölta heim á leið og kveðja kettina með kossi þegar Tommi birtist, stórhneykslaður á því að ég hefði ekki verið með í fyrstu ferð í morgun. Í Ártúni tók ég fimmuna og fékk spennandi óvissuferð, sá meira að segja stórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn ... sumaráætlun strætó er bara kúl á köflum. Ákvað á Hlemmi að taka ferðamanninn á þetta og labbaði niður Laugaveginn, full hrifningar á þessarri fallegu borg, Rekkjavikk. Sá nýja plötubúð við hlið Skífunnar með plötum sem fást ekki alls staðar. Samt fann ungi strákurinn ekkert með Rick Wakeman, heldur ekki sá ljúfi í Skífunni. Að finna King Arthur-plötuna verður bara nýja takmarkið mitt í lífinu. Hitti Rúnar, son vinkonu minnar, í Bókabúð M&M þar sem hann vinnur. Hann sagðist vera búinn að lesa lífsreynslusögubókina, kannaðist við eina söguna úr henni og fannst það ekki leiðinlegt, sagan líka létt og jákvæð. Latte-inn á Kaffitári var guðdómlegur en þá var tími til kominn að skreppa í viðtalið sem gekk mjög vel.

Þvílík heppni að ná síðan korterísex-strætó heim. Sat við hliðina á skemmtilegri konu á leiðinni, verst að við fórum ekki að spjalla fyrr en síðustu mínúturnar. Hún er húsasmiður og það vekur furðu margra, sagði hún. Frétt í útvarpinu fékk hana til að fara að spjalla og við nutum þess að femínistabeljast svolítið.   

Tomkrús minn almáttugurGetur verið að það sé einhver ósýnilegur þarna úti sem fylgist með mannfólkinu, grípur inn í stöku sinnum inn í og ... finnst gaman að stríða? Jafnvel einhver guðlegur? Kannski nýi frelsarinn, þessi hjá Vísindakirkjunni?

Var ekki fyrr búin að sleppa orðinu hér á blogginu um að ég væri aldrei bitin af pöddum ... þegar ég nældi mér í nokkur bit, líklega staraflóarbit. Það er svona þegar maður bregður sér af bæ. Þetta hefði aldrei gerst í himnaríki!

 

Skemmtiferðarskipið að faraUm leið og ég fór að fylgjast með leiknum sem nú fer fram fyrir neðan austurglugga himnaríkis skoruðu Víkingar mark. Nú held ég mig bara vestanmegin, veit í hjarta mínu að ÍA skorar tvö mörk í seinni hálfleik.

Skemmtiferðarskipið sem ég dáðist að í dag sigldi framhjá himnaríki rétt áðan á leið til frekari ævintýra. Finnur þó vart fegurra land en Ísland. (Þetta mun flokkast undir nýja færsluflokkinn minn)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 94
  • Sl. sólarhring: 306
  • Sl. viku: 2409
  • Frá upphafi: 1451604

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1846
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Baldursbrár
  • Vigdís
  • 82 í framboði

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband