Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Meðvirknirugl ...

varhugaver�ur blindrahundurÞegar ég gekk fram hjá sjúkrahúsinu í dag stóð gömul kona á gangstéttinni og reyndi að komast yfir götuna. Hún hágrét og baðaði út höndunum eins og hún sæi ekkert, enda hafði hún misst gleraugun sín í rennisteininn. Mér datt ekki í hug að hjálpa henni. Vinir mínir, sem segja að ég sé svo meðvirk, hefðu átt að sjá mig. Mikið var ég hreykin af mér að hafa staðist freistinguna að rétta henni gleraugun. Gamlar konur verða bara að læra að bjarga sér sjálfar.

Þessi saga er auðvitað helber lygi ... en mikið rosalega er fín línan á milli þess að vera meðvirkur og hjálpsamur. Einu sinni rökræddi ég heillengi um meðvirkni við gamla vinkonu mína. Annarri vinkonu leið mjög illa á þessum tíma og ég reyndi að vera voða góð við hana sem hinni fannst vera meðvirkni. Mér finnst að vinátta eigi að vera í blíðu og stríðu og að maður eigi ekki bara að tala við vini sína þegar þeir eru í sínu besta formi, gefandi og hressir. Fékk á móti að maður ætti að gefa fólki spark í rassinn þegar því liði illa svo að það hætti þessu væli ... Ég er bara ekki sammála því. Finnst sjálfri upplífgandi og hressandi ef fólk er gott við mig ef eitthvað kemur upp á ... hitt hefur algjörlega öfug áhrif. Vissulega eru til dæmi þar sem fólk er að farast úr sjálfsvorkunn og lifir fyrir athygli, samúð og þannig en ég held að flestir gefist fljótlega upp á slíkum vinum.

BoyGiftÞegar erfðaprinsinn var lítill þá vorum við stundum ansi fátæk og mér fannst oft leiðinlegt hvað ég gat veitt honum lítið. Pabbi hans, hamingjusamlega skilinn við mig, var ekkert endilega betur staddur. Þegar betur áraði keypti ég stundum handa honum litlar gjafir upp úr þurru, sem glöddu hann mikið, bók eða lítinn bíl, þótt ekki væri afmæli eða jól, kannski til að bæta honum eitthvað upp ... en ég fékk á mig að ég væri meðvirk með honum. Mér finnst reyndar ótrúlega gaman að gefa gjafir, alltaf. Ég hef líka heyrt að þegar foreldrar veki unglingana sína í skólann sé það meðvirkni, krakkar verði að læra að bera ábyrgð á sér sjálfir. Erfðaprinsinn vaknaði reyndar við vekjaraklukkuna um leið og ég og það reyndi aldrei á hótanir mínar um að berja hann í andlitið með blautu handklæði til að vekja hann ...

Ég er reyndar að hugsa um að vera ekki meðvirk með SÁÁ núna en ég sé á Visa-reikningnum mínum að heilar 8.000 krónur verða dregnar af mér um mánaðamótin, 2x4.000kr., (tegund greiðslu: Alefli???) og ég veit ekkert fyrir hvað. Ég hef styrkt starfsemina áður en þessu hef ég ekki efni á og ég myndi aldrei lofa 8.000 kalli í einni greiðslu. Einnig er ég rukkuð fyrir Stöð 2 Sport sem ég var áskrifandi að í þrjá klukkutíma um páskana, eða þar til ég komst að því að ég fengi engan fótbolta með Formúlunni minni, bara fokkings golf.

P.s. Dauðastríð Dörlu stendur enn yfir í boldinu og Hector slökkviliðsmaður reynir enn að sannfæra Taylor um að segja engum að hún hafi keyrt á Dörlu svo hún fari ekki í steininn. Sem sagt, engin breyting síðan í gær. 


Gas, felgur, rottweiler og smávegis bold

B�kasafni�Glæsilegur rauður sportbíll (10) beið mín við stoppistöðina (1) á Garðabraut eftir að Gummi bílstjóri (60) hafði skutlað okkur, hópi glæsilegra Skagamanna, heim úr Mosfellsbænum núna seinnipartinn. Ungur, stórhuggulegur maður (28) sat undir stýri á sportbílnum og bauð mér far á bókasafnið (152). Bíllinn er kominn á sumardekk og flottari felgur þannig að meira stuð en vanalega ríkti í bílnum. Held að ungar heimasætur á Skaganum hljóti að vera óhressar með að hafa séð stútungskerlingu (49) í farþegasætinu. Sportb�llinn � vetrardekkjumGömlu felgurnar (10) höfðu það náðugt í aftursætinu en dekkin (10) eru komin í dekkjahimnaríki. Sími (1/2) erfðaprinsins öskraði Gas, gas! en það er nýjasti tískuhringitónninn á landinu. Svo fékk ég senda slóðina á nýjasta rapplagið með xxx Rottweiler-hundum og þar leikur gas-öskrið veigamikið hlutverk í viðlaginu. Flott lag. Fyrir 1. maí ætla ég að láta bólusetja mig við meis-úða og piparspreii og síðan fríka út með mótmælaspjaldið mitt. Ef völvunni okkar á Vikunni skjátlast ekki verða stjórnarskipti fyrir áramót. Hún spáði réttilega fyrir um ólguna í ráðhúsinu í Reykjavík og borgarstjórnarskiptin.

Darla hans ThorneTaylor reynir að viðurkenna að hafa ekið á Dörlu en Thorne skilur ekkert. Stefanía og Sally fá fréttirnar af slysinu ... jamm, ég var búin að steingleyma því hvað handritshöfundar draga alla atburðarás á langinn í boldinu, ég lönguTaylor og Phoebe búin að skúbba því að Darla lifi þetta ekki af. Spara með því tíma fyrir fólk sem getur þá skúrað eða eitthvað á meðan. Held að það taki alla vega viku að drífa þetta af. „Eini sökudólgurinn er skepnan sem keyrði á Dörlu og skildi hana eftir í blóði sínu,“ segir Thorne og Taylor fríkar út. Hector löggu grunar eitthvað, en hann segist elska hana heitt og vilja vernda hana. „Listen carefully,“ segir hann við Taylor, „þú ert ekki með ökuréttindi eftir að hafa keyrt full og þótt þú fengir besta lögmann í heimi yrðir þú samt sett í fangelsi.“ „Ég vil játa, ég vil játa,“ veinar Taylor, alltaf svo heiðarleg. „Ég missti þig einu sinni, mamma, ég get ekki misst þig aftur,“ æpir Phoebe, annar tvíburinn, sem var vitni að þessu öllu saman. Sæti læknirinn, bróðir Hectors, kemur inn á sjúkrastofuna með góðar fréttir í sambandi við Dörlu ... sjúr, þetta mun taka langan tíma. Næstu þættir verða án efa mjög átakanlegir og fullir af gömlum klippum af Dörlu. Já, og hugsandi um aðra sem hafa hætt í boldinu ... ég fékk fréttir í kommentakerfinu nýlega um að Amber sé komin í aðra sápuóperu, systursápu boldsins, Young and the Restless.

 


Grátið í strætó - Tommi hættur!

TommastrætóGummi bílstjóri mætti óvænt á "Tommabíl" á hlýja og notalega stoppistöðina í morgun, uppáhaldsstrætó Skagabílstjóranna, sérstaklega Tomma. Gummi hnussaði fyrirlitlega þegar ég spurði hvort það væri ekki gaman að vera á besta bílnum. „Þetta er ekki besti bíllinn,“ sagði hann grautfúll en einhverra hluta vegna er Gummabíll notaður sem 27A núna en hefur næstum frá byrjun verið 27B ... jamm, við farþegarnir skiljum þetta fagmál. Kannski er bara verið að sýna bílstjórunum að lífið er ekki bara dans á rósum. Gummi sagði mér skelfilegar fréttir ... eða að Tommi bílstjóri væri hættur!!! Ég fór auðvitað að skæla og innan tíðar hristist vagninn af ekka allra farþeganna, bæði er grátur minn náttúrlega smitandi og svo hágrét fólkið auðvitað þegar fréttirnar síuðust inn í hausinn á því. Gummi nennir engu svona kjaftæði og væli og sagði að við gætum bara farið í BYKO ef við vildum hitta Tomma. Hann var örugglega grútspældur yfir viðbrögðum okkar farþeganna. Hann hefði átt að vita hvað við söknuðum hans sjálfs þegar hann skrapp á Kanarí nýlega og við fengum einhverja missæta karla í staðinn.

Fyrir aftan mig sat elsku indverska vísindakonan, nýhætt hjá Íslenskri erfðagreiningu og leitar sér að nýrri vinnu. Rosalega jákvæð, ekkert blýföst í því að þurfa eingöngu að vasast með tilraunaglös og smásjár, hún lítur bara á þetta sem tækifæri en ekki hrun þótt ÍE sé að segja upp fólki í tonnatali núna ...

KjúklingabringurÆtlaði að hitta Önnu vinkonu (Önnu Bj) í hádeginu og borða með henni hádegisverð en hún varð að fresta því. Alltaf kemur eitthvað gott í staðinn ... svo skemmtilega vill til, að sögn samstarfskvenna minna, að það verða kjúklingabringur, ógó-góðar, í hádegismatinn í dag. Jamm, maður tekur að sjálfsögðu Pollýönnuna á svona hluti!

Ögn síðar: Kjúklingabringurnar voru í lagi en salatið girnilega sem allir emjuðu yfir var fullt af furuhnetum ... djúp vonbrigði. Ef ég væri ekki léttlynd að eðlisfari og byggi yfir sannkallaðri hetjulund væri þessi dagur nú endanlega ónýtur. Fyrst Tommi - svo salatið!


Tími á bold

Darla og AmberNú er aldeilis kominn tími á bold þótt fyrr hafi verið. Handritshöfundar hafa undanfarið búið sig undir að drepa Dörlu og þess vegna er hún gerð að samblandi að Díönu prinsessu og Móður Theresu. Þessi háttur ef hafður á í hvert skipti sem einhver deyr. Þegar Amber fæddi andvana barn Ricks (sonar Brooke og Erics) og svo heppilega vildi til að frænka hennar, Becky, fæddi dreng sama dag og lét ljósmóðurina fá til ættleiðingar (hmmm) og ljósmóðirin lét Amber fá til að hún gæti platað Forrester-fjölskylduna. Alla meðgönguna óttaðist hún að barnið yrði dökkt því hún svaf hjá flottum söngvara um svipað leyti og hún tældi Rick þegar hún var barnfóstra hans.
Becky var algjört hjólhýsapakk (svona amerískt) og skömmu áður en hún var skrifuð út úr þáttunum (dó) breyttist hún í sannkallaðan dýrling sem allir dýrkuðu og syrgðu sárt.

Eric, Stefanía, Thorne og DarlaÁ meðan Darla heldur upp á afmæli litlu dóslunnar sinnar og segist elska alla og að hún eigi besta mann í heimi og sætasta barn og frábærustu fjölskyldu, er Phoebe, önnur tvíburadóttir Ridge og Taylor, í vanda. Villtist á leið sinni í afmælið, held ég, svo sprakk á bílnum og ljótur subbukarl sniglaðist í kringum hana. Hún lokar sig inni í bílnum, hringir í mömmu sína sem var nýbúin að hella niður öllu áfengi heimilisins (vegna ofdrykkju undanfarið) og eiga gott samtal við Ridge, sem enn er í sárum eftir brúðkaup Brooke og Nicks. Nú vonar Taylor að Ridge, fyrrum eiginmaður hennar til margra ára og barnsfaðir hennar (Tómas og tvíburarnir), líti mögulega kannski við henni aftur þar sem Brooke lítur ekki við honum. Phoebe hringir líka í Dörlu sem kemur fyrr á staðinn og ákveður að skipta um dekk. Tómas og tvíburar og foreldrar fyrir 6 árumÍ hamaganginum við það hrasar Darla út á þjóðveginn ... og beint fyrir brunandi bílinn hennar Taylor á leið til að bjarga dótturinni. Á meðan situr Thorne, eiginmaður Dörlu, í bíl sínum og hugsar um Dörlu. Stefanía horfir hugfangin á myndir af Dörlu, tengdadóttur sinni, syni og litlabarni. Hún ákveður ásamt Sally að gera eitthvað flott fljótlega í tilefni af afmæli Dörlu. Aðeins áhorfandinn veit að Darla er dáin. Hector kemur á staðinn, enda eini slökkviliðs- og sjúkraliðsmaðurinn í Ameríku, eins og komið hefur fram í þessum þáttum. Thorne kemur síðan á staðinn og grætur, engan grunar að Taylor hafi keyrt á Dörlu, allir halda að ökumaðurinn hafi stungið af. Geðþekki geðlæknirinn er nefnilega í losti og kristalskúlan mín (Netið) segir mér að hún geti ekki dílað við sektarkenndina, heldur marineri það í alkóhóli næstu þættina.
Myndin er frá árinu 2000, Ísland sér 2 ára gamla þætti ... vá, hvað krakkasnúllurnar vaxa hratt á 6 árum. Farin að deita og allt! 

Eigið guðdómlegan síðasta vetrardag!!!


Ófreskjur, ofsatrú og spælandi bókarendir ...

Klikkaður annadagur í dag. Enginn tími fyrir morgunblogg. Bara svo það sé á hreinu ... þá var ég ekki nálægt Rauðavatni í dag, heldur sat pen og prúð við tölvuna en sveitt af æsingi og stressi, skila, skila, skila ... var einkunnarorð dagsins. Annars hef ég ekki komist nálægt góðum óeirðum í langan tíma, ekki síðan það var útsala í Nínu síðast.

The MistÉg veit hreinlega ekki hvort ég eigi að mæla með eða vara við DVD-myndinni The Mist sem er gerð eftir sögu Stephens King. Eina orðið sem kom upp í hugann eftir að hafa horft á hana var SVAKALEG. Hún segir frá hópi fólks sem verður innlyksa í stórri verslun í þorpinu eftir að í ljós kemur að margt býr í þokunni ... Skrýtin upplifun, svona af ammrískri mynd að vera, þá stóð nokkrum aðilum þarna meiri hætta af ofsatrúaðri konu (nöttaranum, eins og Skessa myndi orða það) og vaxandi söfnuði hennar en af viðbjóðslegu skrímslunum sem biðu í þokunni eftir góðu mannakjöti ... úúúúú! Í myndinni I am legend fannst mér vera svolítill trúarlegur undirtónn, algjörlega óþarfur, þar sem fólk var varað við að fikta um of í sköpunarverki guðs, ósýnilega vinarins, eins og DoctorE myndi orða það. Tek það fram að ég les nú fleiri bloggsíður en þeirra ... þau lágu bara svo vel við „höggi“ núna. Erfðaprinsinn sá The Mist á undan mér og varaði mig við, samt lét ég freistast ... garggg. Í kvöld og á morgun verður bara eitthvert meinleysi í gangi í tækinu, Enchanted (Walt Disney) og Antonement. Þá get ég skrifað um þær í næstu Viku, ef þær eru skemmtilegar.

KuðungakrabbarnirSvo lauk ég við Kuðungakrabbana í gærkvöldi og hún er ÆÐISLEG!!! Hún endar þannig að það verður að koma meira, ljótt að fara svona með góða lesendur. Skrýtið að ég muni ekki eftir fyrri bókinni, Berlínaröspunum, verð að finna hana og lesa aftur. Líklega les ég of hratt, kannski of mikið, nei, það er ekki hægt að lesa of mikið, en ég get lesið sömu bókina eftir tvö ár og þótt ég muni sumt, þá nýt ég bókarinnar jafnvel og þegar ég las hana í fyrsta sinn. Þetta heitir án efa gleypugangur.


Kattauppeldi, konukvöld og heimakynningar frá helvíti

Tommi á gluggaveiðumHér er unnið af túrbókrafti og lítill tími til annars. Búin með djúsí lífsreynslusögu sem mér tókst að redda í gegnum ýmsar krókaleiðir í gærkvöldi. Það eiga sér allir sögu, jafnvel margar sögur; góðar, fyndnar, sorglegar, erfiðar og skemmtilegar. Nokkrar hef ég fengið í gegnum bloggvini, enda er ég óþolandi í leitinni og með allar klær úti, alltaf. Múahahha!

Kettirnir elska að hafa mig heima, sérstaklega núna þegar erfðaprinsinn er að heiman. Þeir væla af og til, enda fá þeir ekki sömu dekurmeðferðina hjá mér í sambandi við mat. Það hefur líka heilmikið gengið á þurrmatinn síðan í gær. Tommi situr í glugganum við hlið mér og vælir ámátlega á fiskiflugu sem er hinum megin gluggarúðunnar, hann langar í sushi ...

Vinkona mín sagði mér um daginn að hún fengi stundum boð um að koma á konukvöld. Dagskrá slíkra konukvölda væri í mörgum tilfellum móðgandi, sagði hún. Nýjasti pósturinn: Kæru XXkonur. Eigum við ekki að gera lífið skemmtilegra og mæta á konukvöld hjá XXXX í XXXXX? Kaffi og kökur. Tískusýning og snyrtivörur á tilboði. Innifalið í miðaverði er grenningarkrem frá XXX. Hversu leiðinlegt er lífið ef maður fer á svona uppákomur til að gera það skemmtilegra, kveinaði hún. Mér finnst reyndar gaman að hitta konur og borða kökur og drekka kaffi en hef forðast konukvöld, heimakynningar og slíkt af alefli. Þoli ekki einu sinni danssýningar, að undanskildum ballett.

 

KvennakvöldÞegar ég vann á Aðalstöðinni í denn voru svona konukvöld árlegur viðburður. Það sem fældi mig helst frá því að fara á þau var stripparinn! Ég fæ alltaf vægan aulahroll yfir slíku, hvort sem um er að ræða kvenkyns- eða karlkynsstrippara. Samt er ég vitlaus í stráka ..

Hefði getað kálað einni vinkonu minni fyrir mörgum árum þegar hún bauð mér í mat, sótti mig heim á Hringbraut og gaf mér gott að borða. Þegar máltíðinni var að ljúka sagði hún: „Já, bæ ðe vei, það verður Tupperware-kynning hjá mér á eftir og það koma nokkrar konur eftir hálftíma.“ Hún hélt að hún væri að gleðja mig með þessu, allar konur elska jú heimakynningar ... sjúr. Þetta reyndist þó ágæt afplánun, skemmtilegar konur og svona, en ég spurði þessa vinkonu mína alltaf eftir þetta, þegar hún bauð mér í mat, hvort það yrði nokkuð kynning hjá henni.


Sjónvarpseinelti, berdreymni og stressandi frídagar

Hekla í stuðiKiddi kom okkur af öryggi heim á Skagann seinnipartinn og við Sigþóra blunduðum ekkert á leiðinni, heldur spjölluðum af miklu offorsi, enda langt síðan við höfum hist almennilega. Hana dreymdi nýlega að hafnar væru strætósamgöngur milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Skyldi hún vera berdreymin? Sagði henni að þetta vissi ábyggilega á eldgos í Heklu innan 20 daga.

Það verður ansi mikið að gera þessa viku og þá næstu þar sem erfitt er að gefa út vikublöð með fimmtudagsfrídögum, eins og 1. maí, sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og slíkri dásemd, nú veldur þetta bara aukaálagi ... en samt met ég þessa frídaga mikils. Það verður því mikill dúndurvinnudagur heima í himnaríki á morgun.

Svarthvítt sjónvarpSjónvarpið í stofunni er nú svarthvítt sem rifjar upp ljúfar minningar úr æsku þegar horft var með áfergju á Maður er nefndur, Stundina okkar, Dýrlinginn, Forsythe-fjölskylduna, Onedin-skipafélagið og stillimyndina. Allt jafnskemmtilegt! Litur prýðir aftur á móti gamla tækið í vinnuherberginu. Þetta sjónvarpseinelti í himnaríki er örugglega engin tilviljun, var ekki vika bókarinnar að hefjast? Kláraði reyndar tvær bækur um helgina og byrjuð á enn einni sem er hrikalega skemmtileg og heitir Kuðungakrabbarnir, eftir sama höfund og Berlínaraspirnar.


Ör-kraftaverk, óritskoðun og guðdómlegheit

Stórir strákar fá raflostÞað gerðist hálfgert kraftaverk í himnaríki núna undir hádegi. Loftnetið lagaðist ... í heilar þrjár mínútur eftir viðgerð okkar erfðaprinsins. Ég lét hann halda á skrúfjárninu og bora því ofan í rafmagnið, stórir strákar hafa nefnilega gott af því að fá raflost. Það gerðist reyndar ekki, þar sem skrúfjárnið var svona öryggis-eitthvað. Líklega þurfum við að fara með loftnetið og snúruna á einhvern stað hérna á Akranesi þar sem hægt er að gera við það við búðarborðið. Tillögur óskast frá Skagverskum bloggvinum.

Ég var auðvitað bara að djóka þegar ég sagðist ætla að ritskoða boldið ... margir froðufelldu yfir því að verið væri að ritskoða bloggið og ég vildi vera með í látunum. Auðvitað vil ég að þið fáið boldið í æð, öll dramaköstin, sólbrunana, framhjáhöldin, giftingarnar, eggjagjafamistökin, blóðtengslarofin og óhjákvæmilega skilnaðina.

Hér ríða rólegheitin rækjum, eins og Oddur Magnús, fyrrum samstarfsmaður minn á Stjörnunni 1987 hefði orðað það. Það rennur í guðdómlegt bað og seinna í dag býst ég við að guðdómlegur frændi minn kíki í heimsókn úr höfuðborginni og dragi mig í Skrúðgarðinn.


Kraftaverk óskast - bömmer í himnaríki!

my-super-ex-girlfriend-742515Kubbur og loftnetiðHvar eru rafvirkjar, sjónvarpsvirkjar og aðrir snillingar þessa lands þegar himnaríkisfrú og sárasaklaus erfðaprinsinn hennar verða sjónvarpslaus í miðri, bráðfyndinni mynd á laugardagskvöldi vegna sambandsleysis í útioftnetinu sem er reyndar staðsett inni? Hvers vegna datt erfðaprinsinum ekki fyrr í hug að fara í nothæft og almennilegt nám sem í lokin hefði bjargað svona stórvandamáli? Verður svo ekki Formúla í hádeginu ... bara til að ergja mann? Sjónvarpsloftnetið frá helvíti sést fyrir aftan Kubb á myndinni vinstra megin. Hinar myndirnar tengjast kvikmyndinni sem við vorum að horfa á þegar hryllingurinn skók himnaríki!

Og ég sem kláraði Sjortarann í dag, spennubókina nýju eftir Patterson ... argggg ........

Sumar konur taka uppsögn illaÞað var nefnilega þessi líka fyndna ástarmynd í gangi þar sem gæinn vogaði sér að segja dömunni upp og hún hefndi sín m.a. með því að fleygja grimmum hákarli inn um gluggann hjá honum og nýju kærustunni á 20. hæð í fínu íbúðinni þegar allt fraus.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara með lítið skrúfjárn þarna ofan í þar sem snúran tengist í loftnetið (þar er vandinn), hræðist raflost meira en margt annað, eins og t.d. léttmjólk í kaffi og þá er nú mikið sagt. Nú þarf ekkert annað en kraftaverk ef þetta á að lagast. Bið um rosamikla samúð í kommentakerfinu og magnaðar tillögur að mögulegri viðgerð í fyrramálið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 676
  • Frá upphafi: 1505967

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 545
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband