Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ritskoðun á boldinu

Taylor, Ridge,Tómas og tvíburarnirVegna síðustu atburða sem skekja boldheima hef ég ákveðið að skrifa mun varlegar en áður um þá atburði sem eiga sér stað í þáttunum. Ég tel þó alls ekki að skrif mín hafi einkennst af hatri gagnvart Forrester-liðinu, síður en svo, ég hef þó mögulega verið ögn dómhörð vegna þeirrar viðleitni boldarana til að stunda sígiftingar ... skipta reglulega út börnunum og láta mun eldri leikara í þeirra stað svo hægt væri að láta þá elstu hafa eitthvað nýtt til að sofa hjá og svo auðvitað til að giftast. Dæmi: Tómas og tvíburarnir, sem þroskuðust óhugnanlega hratt, Tómas var meira að segja farinn að sofa hjá Amber, áður en hún hvarf. Tvíburarnir, sem bara í fyrra eða hittiðfyrra voru dúllulegar þriggja ára dömur, eru nú unglingar og stutt er í að Rick, föðurbróðir þeirra en þó ekki blóðskyldur, fari að deita aðra þeirra inni í framtíðinni.

TaylorHinn nýi Rick (Kyle Lowder)Handritshöfundar mega eiga það að þeir hafa verið afar passasamir við að rjúfa blóðtengsl þegar það á við. Aldur skiptir heldur engu máli, það er ekki einu sinni ósmekklegt þótt Rick, sonur Brooke, áður kvæntur Amber, barnapíunni sinni, sé farinn að vera með Taylor, sem áður var gift Ridge og á með honum Tómas og tvíburanna, síðar Nick og átti með honum barn sem var í raun ekki hennar, heldur flæktust egg Brooke óvart í Taylor með þeim afleiðingum að Taylor gekk með barn erkióvinkonu sinnar. Bíddu, hvar var ég, já, Taylor og Rick eru farin að vera saman og það finnst Brooke, mömmu Ricks, alveg hræðilegt, því hún og Taylor bitust árum saman um Ridge og giftust honum til skiptis. Skrif mín hafa kannski verið dómhörð gagnvart afskiptasemi Stefaníu, vælinu í Ridge, botoxinu í Taylor og aumingjaskapnum í Bridgeti og fleira, en því mun ég breyta héðan í frá. Mögulega endurskoða ég gamlar færslur, kannski fjarlægi ég þær bara til að vera örugg.

Héðan í frá verður boldið að mestu skammstafað. Dæmi: F=framhjáhald. M=misskilningur. B=blóðskyldleiki. EB=Ekki blóðskyldleiki. S=sólbrennsla. BK=brúðkaup.


Óvænt sjokk í ísskápnum, óþekkur rútubílstjóri, smábold og sushi

MjólkJa, mér hefndist heldur betur fyrir að hafa talað vel um samkynhneigð í færslu hér í gær. Þegar ég kom heim í sakleysi mínu áðan, frekar snemma miðað við föstudaga, ákvað ég að byrja á því að búa mér til latte. Ég opnaði ísskápinn, enn algjörlega í sakleysi mínu, og það fyrsta sem ég sá var .... LÉTTMJÓLK! Ég argaði í huganum, róaði mig síðan, allt á sekúndubroti, og spurði unga manninn kurteislega hvort hann vissi hvað léttmjólk gerði kaffi. Eftir rúmlega tveggja áratuga sambúð ætti hann að vita að á þessu heimili er EKKI keypt léttmjólk. Aldrei, never! Ekki einu sinni í neyð. Léttmjólk gerir kaffi grátt! Það sem bjargaði erfðaprinsinum var það að dreitill af nýmjólk, nægilegt magn var til í latte í dag og á morgun.

RútanSjórinn er hávær og fallegur núna. Af og til koma stórar og tærar öldur, svona smágerðar Miðjarðarhafsöldur, sem búa til mikinn hávaða þegar þær falla tígulega niður. Ummm, hafið. Stór rúta frá Hópbílum stoppaði hérna á neðra hlaðinu áðan og hleypti út fjörkálfum sem geta núna verið hvar sem er á Skaganum og lita bæinn rauðan. Verst að rútubílstjórarassgatið leggur beint fyrir framan himnaríki og skyggir á skvetturnar. Hann sér ekki huglæga bannmerkið á ljósastaurnum: Varúð, útsýnisstaður frú Guðríðar.

 

HunangsmániÞað eina sem ég sá í boldinu var að Nick og Brooke eru gift og njóta hveitibrauðsdagana, í þeirra tilfelli og miðað við ríkidæmið ættu þetta frekar að kallast vínarbrauðsdagar (aulabrandarar eru líf mitt og yndi). Hin sólbrennda Bridget tryggir sér endalausa samúð með því að gera eins mikið og hún getur úr sólbrunanum (sem Felicia, hálfsystir hennar, olli). Bridget klæðist bleikum sjiffonkjólum, í stíl við andlitið, og drekkur rauðvín, sem er líka mjög flott litasétteríng við andlitið.  

Tommi og JónasÞað skemmtilegasta sem Tommi gerir þessa dagana er að vera úti á stóru svölum, stökkva eftir flugum og éta þær. Ferskara sushi fær hann varla og þetta ætti að spara matarkostnað kattanna. Þegar Tommi og Kubbur gera þetta inni tek ég alltaf fyrir eyrun og loka augunum. Reyni þó fyrst að bjarga flugunum út en ef þær er mjög leiðar á lífinu og neita að fara út er fátt hægt að gera fyrir þær.


Kreppuótti í mötuneytinu

FaLAfel arabískur skyndibitiEitthvað sem heitir Falafel var í matinn í hádeginu, alveg ágætis hollustubollur með hvítlaukssósu og salati. Við matarborðið rifumst við um framburðinn á faLAfel, sem á víst að vera með áherslu í miðju orði, á LA, eins og í útlensku. Vá, hvað ég vinn með æðislegu fólki sem kann að bera fram hin flóknustu útlensku orð. Smile Hmmmmm. Tryggi fór að tala um andúð sína á hinu guðdómlega kryddi kóríander og síðan fórum við, einhverra hluta vegna, að tala um mannakjötsát.

MannætaTryggi myndi frekar borða mannakjöt en kóríander, tjáði hann okkur. Hrund myndi frekar borða mannakjöt en kóngulær. (Mamma líka, hugsa ég.) Tryggvi sagði að það væri sko alveg hægt að fá mannakjöt ... það væru svona exclusive-matsölustaðir í New York og ef maður vissi leyniorðið gæti maður alveg pantað sér.

Þetta var í annað skipti í vikunni sem Hrund kom inn í samræður um mannakjötsát í mötuneytinu.

Mig grunar að ótti okkar Íslendinga við kreppu og mögulega hungursneyð sé djúpstæðari en Seðlabankinn gerir sér grein fyrir. Ef þeir/þær/þau hætta að hringla svona með blessaða stýrivextina mun ótti vaknandi almennings breytast í dásvefn á nýjan leik. Hmmm


Þeir feitu og fögru - varúð, bold!

Nick, Brooke og Hope DeaconsdóttirJæja, er ekki komið að því að bolda? Stefanía planar viðurstyggilega hluti til að koma í veg fyrir brúðkaup Brooke og Nicks en sonur hennar, Ridge, vill kvænast Brooke einu sinni enn og það sem sonurinn þráir skal látið eftir honum þótt hann sé orðinn rúmlega fimmtugur. Felicia er grautfúl út í hálfsystur sína, Bridgeti, fyrir að hafa nokkurn veginn stolið mannsefninu hennar og hefur gert sitt til að gera líf litlu systur viðbjóðslegt. Jæja, best að byrja.

Stefaníu tókst að plata Brooke í nektarmyndatöku vegna nýju, sexí línunnar sem Forrester-fyrirtækið sýndi á dögunum. Brooke vill síðan ekki að myndirnar birtist í auglýsingum. Stefanía og Massimo (pabbi Nicks og blóðfaðir Ridge sem finnst að Ridge eigi að eiga Brooke vegna barnsins) ætla að skella einni nektarmyndinni á risastórt auglýsingaskilti sem verður á leið Brooke og Nicks til giftingarathafnarinnar. Þá ætti þriðja og síðasta áfallið að ríða yfir Nick og hann hættir við, eins og hann hefur hótað. Eða hafa taugarnar skánað?

Felicia, Dante og BridgetFelicia virðist hafa sett steikarolíu eða eitthvað í staðinn fyrir sólvarnaráburð og þegar Dante og Bridget ætluðu að hafa það kósí í sólinni, eftir að Dante valdi Bridget fram yfir Feliciu, sólbrann hún alveg hroðalega. Ekki nóg með það. Læknir gaf Bridgeti deyfikrem sem Feliciu tókst að setja bótox í og nú er vesalings Bridget með lamað andlit. Felicia hló subbulega yfir þessu við Kristján lækni (bróður brunakarlins) og sagði að Bridget fengi ekki hrukkur á næstunni, gæti þakkað fyrir það. Dante hlýtur að hætta að vera skotinn í Bridgeti, hún er eldrauð, slöpp og slefar ... en er að vísu hrukkulaus.


Morgunhugvekja og hugleiðingar um CSI-Miami

SumarkötturMikið var unaðslegt að vakna í sumarstemmningu í morgun. Alla vega vorstemmningu. Ég vissi að þetta yrði góður dagur þar sem spegillinn sýndi yndisfagra mynd, enda sofnaði ég ekki með blautt hárið í gærkvöldi, smá sinaskeiðabólga hrjáir mig en það eru eflaust 20 ár síðan ég fann fyrir henni síðast. Kettirnir möluðu og kaffibaunirnar möluðust, allir í stuði. Ekki versnaði hugarástandið þegar síminn hringdi og Guðbjörg strætósamferðakona bauð mér far í bæinn á bíl og alla leið í Hálsaskóg. Svo kemst ég til baka með erfðaprinsi sem á erindi í bæinn í dag. Tek þó fram að strætó er líka frábær þótt hann sé ekki jafnfljótur á leiðinni og einkabíll sem getur farið beina leið og þarf ekki að stoppa neins staðar.

Ofurtöffarinn HoratioÉg sofnaði út frá fallega fólkinu í CSI-Miami í gærkvöldi (nótt). Hvernig það fólk getur opnað munninn og talað fyrir þykkum varalit eða blakað augunum fyrir augnskuggum og almennt fúnkerað fyrir töffaraskap á ég erfitt með að skilja. Þarf að muna að vera aldrei drepin í Miami. Dánarorsök "myrt með gloss" gæti fyrir slysni verið ákveðin. Annars finnst mér hrikalega gaman að fylgjast með Horatio. Í þættinum í gær hafði ungur drengur (6-7 ára) komið að móður sinni myrtri og vildi ekki tala við neinn eftir áfallið. Horatio sagði svipbrigðalaus af öryggi við undirmann sinn: "Hann talar við MIG." (myndi maður vilja hafa svona yfirmann?) Svo settist hann á bryggjuna, horfði á drenginn með sama svipleysi og hann sýnir öllum (vændiskonum, ástkonum, samstarfsmönnum, glæpónum, dýralæknum, strætóbílstjórum), kynnti sig og fór að spjalla góðlátlega en af virðingu. Barnið leit á þennan ófrýnilega, sviplausa og rauðhærða mann og opnaði sig algjörlega fyrir honum, gerði betur en það, tók glaðlega upp úr skólatösku sinni hnífinn sem hann hafði tekið úr hjarta móður sinnar og rétti Horatíusi. Í þessum þáttum eru ALLIR sætir nema Horatio, sem er svona hálfgerður Chuck Norris réttarrannsóknaþáttanna, meira að segja glæpónarnir eru með fullkomnar tennur, flottar strípur og hugsa vel um útlitið eins og starfsfólkið. Já, staffið ... djöfull dáist ég að ljóshærðu konunni þarna sem lætur sig hafa það að mæta í níðþröngum fötum og hælaháum skóm í vinnuna þótt hún þeytist um morðvettvanga á milli þess sem hún sinnir smásjárrannsóknum. Svo er hún varla talandi fyrir kynþokka sem drýpur af henni. Já, Horatio ekur um á lögguHummer!!! Himinn og haf skilja að t.d. CSI og CSI-Miami. Í fyrrnefnda þættinum er venjulegt fólk ... í hinum svífur andi Strandvarða yfir vötnum. Skemmtanagildi þáttanna er alveg tvöfalt, stundum margfalt. Kannski ágætis morðgáta í þættinum ... og svo getur maður flissað yfir öllu hinu þótt þetta eigi alls ekki að heita gamanþættir!

Viðbót frá bloggvini um Hóras: http://www.weebls-stuff.com/wab/CSI/

Baggalútar og Norrisar

Eins og flestir aðrir Íslendingar kíki ég reglulega á Baggalútana mína, www.baggalutur.isÉg féll fyrir þeim þegar ég sá fyrir nokkrum árum fréttina: Kona nær bílprófi. Sá einstæði atburður ...
BaggalúturHér til hægri er nýlegt skrípó frá þeim:

 

Nokkrir Norrisar í vikubyrjun:

Það tekur Chuck Norris 20 mínútur að horfa á 60 mínútur.

Chuck Norris byggði Róm á einum degi.

Chuck Norris á ekki eigið hús. Hann gengur inn í hús af handahófi og íbúarnir flytja.

Chuck Norris ber ábyrgðina á offjölguninni í Kína. Hann stóð fyrir karatekeppni í Peking eitt árið og allar konur innan 1.000 kílómetra radíuss urðu samstundis ófrískar.

Chuck Norris leikur ekki guð. Leikir eru fyrir börn.

Chuck Norris getur margfaldað með núlli.

Hjá sumum karlmönnum er vinstra eistað aðeins stærra en það hægra. Hjá Chuck Norris er hvert eista stærra en hitt.

Bermúdaþríhyrningurinn hét áður Bermúdaferhyrningurinn, eða þar til Chuck Norris tók hringspark og sparkaði einu horninu á brott.

Þegar Chuck Norris spilar Matador hefur það áhrif á efnahagsástandið í heiminum.

Chuck Norris drekkur napalm við brjóstsviða.

Skamstöfun efnaformúlu hins hættulega eiturs cyanide er CN, alveg eins og upphafsstafir Chuck Norris. Það er ekki tilviljun.

Chuck Norris sefur með koddann undir byssunni sinni.


Bókmennta- og fótboltablogg

lackbergAfar girnileg bók beið mín í póstkassanum í gær. Útgáfan á Akranesi (Uppheimar) sendi mér nýjustu afurð Camillu Läckberg, Steinsmiðinn. Ég byrjaði á henni í gærkvöldi og var strax mjög spennt en þurfti því miður að sofa í nótt ... las svo í dag fram að næstu truflun sem var leikur Manchester United-Arsenal heima hjá Míu systur. Er þó komin á bls. 383 af 444 svo hún klárast á eftir. Hrikalega spennandi og skemmtileg bók!

Arsene hjá Arsenal ...Er að pæla, ætli þjálfara Arsenal hafi verið gert að skipta um nafn þegar hann tók við liðinu á sínum tíma? 

Leikurinn fór að óskum fyrir MU-fólk og eiginlega fleiri því völvan okkar á Vikunni sagði í desember sl. að MU myndi sigra í úrvalsdeildinni nú í vor. Það væri flott að geta grobbað sig af því. Annars væri mun smartara ef Vikan héldi með Wigan. Hún sagði meira um fótbolta ... ma.a. að Valur og ÍA myndu berjast um fyrsta sætið hér! 


Aðallega bókablogg ...

Úlli kokkur skutlaði mér í Mosó um hálffimmleytiðog þar beið Heimir spenntur eftir því að fá að keyra okkur á Skagann. Í vagninum voru án efa nokkrar hetjur morgunsins sem létu sig hafa það að fara í vinnuna í Reykjavík þrátt fyrir að hafa lent í árekstrinum. Maðurinn sem sat fyrir aftan mig sagðist hafa fengið glerbrotadrífu yfir sig . Hann greiddi sér til öryggis þegar hann kom í vinnuna til að ná restinni. Skrýtið að fréttastofa Stöðvar 2 telji þetta ekki fréttnæmt ... ég er að horfa á kvöldfréttirnar.

Áður en ég deyÉg byrjaði á nýrri bók í strætó, Áður en ég dey, heitir hún. Ég er bara komin á bls. 56 en samt táraðist ég tvisvar. Þetta er ekki góð strætóbók. Það gengi nú ekki ef Tommi, Heimir, Gummi eða Kiddi þyrftu sífellt að vera að stoppa strætó til að hugga mig. Bókin fjallar um 16 ára stelpu sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og á aðeins nokkra mánuði ólifaða. Stelpan er frekar kúl á þessu en ég þjáist svo með pabba hennar sem er á afneitunarstiginu. Það eiga án efa eftir að renna ansi mörg tár áður en kemur að bls. 332.

Ég kláraði Strákurinn í röndóttu náttfötunum í strætó í fyrradag, hún var líka mjög áhrifamikil en öðruvísi. Hún er ekki enn farin út úr hausnum á mér ...  ógleymanleg í einfaldleika sínum. Hún segir frá Bruno, níu ára þýskum dreng í síðari heimstyrjöldinni, sem gerir sér ekki grein fyrir helförinni þótt pabbi hans sé greinilega háttsettur Gestapo eða SS-maður. Hann flytur með fjölskyldu sinni til „Ásviptis“ og kynnist jafnaldra sínum sem er alltaf svo svangur, gengur í röndóttum náttfötum og býr hinum megin við gaddavírsgirðingu. Þau kynni hafa vægast sagt afdrifaríkar afleiðingar ...

Nokkrir Norrisar að lokum:

Norris DodgeBall- Chuck Norris kastar ekki upp ef hann drekkur of mikið. Chuck Norris kastar niður.
- Það er líffræðilega ómögulegt að Chuck Norris eigi dauðlegan föður. Vinsælasta kenningin er sú að hann hafi farið aftur í tímann og gerst eigin faðir.
- Chuck Norris getur dæmt bók af kápunni.
- Biblían hét upphaflega Chuck Norris og vinir.
- Chuck Norris hefur 12 tungl. Eitt þeirra er Jörðin.
- Chuck Norris malar kaffið sitt með tönnunum og sýður vatnið með eigin bræði.

- Chuck Norris notar lifandi skröltorma sem smokka.


Varúð, bold og vægast sagt krassandi framtíðarbold

Píanóleikarinn spilar Unforgettable á meðan Brooke og Ridge haldast í augu. Einhver vonnabí rjómatík á skrifstofu Ridge. Þetta hlýtur að vera að hugsun, gömul minning, það getur ekki svona margt hafa gerst síðan í gær þegar Brooke lofaði Nick sínum eilífri ást. Jú, þetta er að gerast. Brooke gefur Ridge myndaalbúm þar sem fyrsta myndin er af þeim tveimur að kyssast. Hún kann að snúa hnífasettinu í sárinu. Hún heldur sér nú helvíti vel og virðist ekki hafa farið jafnoft undir hnífinn og hin varaþykka Taylor sem í raunheimum er gift lýtalækni. Brooke kyssir Ridge bless og það áður en forrétturinn kemur á borðið og lætur sig hverfa.
„Þú fékkst Nick, nú er komið að mér,“ segir Felicia sem vill Dante. „Ég fékk Nick bara að láni,“ svaraði Bridget sem fórnaði honum til móður sinnar. Dante virðist hafa vilja og kýs Bridget.

Rick sonur Brooke, áður maður AmberTaylor geðþekki geðlæknirinnVARÚÐ, VARÚÐ, ekki lesa lengra nema þið viljið vita OF MIKIÐ: Ég gægðist aðeins inn í framtíðina í boldinu, ég er með nettengda kristalskúlu. Jú, þetta var víst rétt. Taylor, fyrrum keppinautur Brooke um ástir Ridge, er farin að deita Rick, son Brooke og þar sem Taylor, geðlæknirinn geðþekki, var orðin svo mikil fyllibytta var Nick dæmt forræði barnsins sem Taylor gekk með en er samt í raun ekkert blóðskylt henni, heldur á Brooke það raun,  eftir að doktor Bridget ruglaðist á eggjum á læknastofunni. Taylor er hætt að drekka en þegar Brooke komst að því að Nick ætlaði að leyfa henni að vera með barnið yfir nótt bilaðist hún og sagði Nick frá Taylor og Rick. Þess má geta að doktor Bridget er farin að vera aftur með Nick. Hann á eftir (í íslenska sjónvarpinu) að kvænast Brooke, síðan Taylor og líklega fljótlega Bridget þar sem þau eru byrjuð að sofa saman. Það er ekkert hægt að skemmta sér með gæunum í boldinu, þeir vilja alltaf giftast! Ég held að Brooke og Ridge séu gift. Einhver skaut Stefaníu, bróðir Brooke, held ég, en hún lifði það af. Systir Stefaníu er móttökudama hjá Forrester og er andstyggileg við unga glæsikvendið í tígrisfötunum sem er búin að ákveða að verða frú Eric Forrester ... en Stefanía elskar enn sinn gamla og það veit systirin. Hvað varð eiginlega um Dante og hvar er Amber?


Girnist hana varla nokkur fýr ...

 

B�ll erf�aprinsinsErfðaprinsinn er í hálfgerðu losti. Hann fór með bílinn sinn í viðgerð og spurði nokkrum sinnum í verkferlinu um hugsanlegt verð á þessu. Einhverjar tölur í kringum tugþúsundir voru tautaðar og var prinsinn farinn að búast við hátt í 50 þúsund kr. reikningi. Okkur fannst það skelfilegt. Þegar hann náði sambandi við verkstæðið í dag fékk hann þau svör að varahlutir hefðu kostað 50 þúsund ... og vinnan 50 þúsund. Allir í sjokki í himnaríki. Meira að segja Jónas slökkti á sér í samúðarskyni. Ég fann hvernig hörkupúlið hennar Betu sjúkraþjálfara í dag rann úr mér og verkurinn í peningabeininu varð svo sterkur að sjaldan hef ég fundið fyrir öðru eins. Ég nefnilega lofaði erfðaprinsinum að hjálpa honum ... skólastráknum mínum hugumstóra frá og með næsta hausti. Þeir á verkstæðinu eru þó engir fautar og hægt var að semja við þá um að greiða þetta á næstu 300 árum. Vildi að prinsinn tæki bara strætó eins og annað almennilegt fólk (mamma hans).

Kaþólskur aðdáandiEinn af „skemmtilegri“ Moggabloggurum þessa lands er Már Högnason. Í stað þess að láta fólk hlaupa apríl um síðustu mánaðamót samdi hann níðvísur um þá sem þess óskuðu. Með kvíða í hjarta en spenning í hnjám masókistaðist ég inn á listann hans og hér er vísan sem hann orti til að spæla mig. Hann virðist vita að það eru eiginlega bara hommar, kaþólskir prestar, drengir undir 5 ára og yfir 70 sem sýna mér einhvern áhuga.

Guðríður með geldum köttum býr
girnist hana varla nokkur fýr
hef þó grun um einn
hann er myndarsveinn
en helvítið er örugglega hýr. 

 

Chuck-Norris-Shazam-SupermaAð lokum:

Hönd Chuck Norris er eina höndin sem getur sigrað litaröð í póker.

Chuck Norris fer aldrei í sturtu, hann fer í blóðbað.

Hvað fer í gegnum huga fórnarlamba Chuck Norris áður en þeir deyja? Skórinn hans.

Chuck Norris er eini maðurinn hefur hefur sigrað múrvegg í tennisleik.





« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1505977

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 553
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband