Óvænt sjokk í ísskápnum, óþekkur rútubílstjóri, smábold og sushi

MjólkJa, mér hefndist heldur betur fyrir að hafa talað vel um samkynhneigð í færslu hér í gær. Þegar ég kom heim í sakleysi mínu áðan, frekar snemma miðað við föstudaga, ákvað ég að byrja á því að búa mér til latte. Ég opnaði ísskápinn, enn algjörlega í sakleysi mínu, og það fyrsta sem ég sá var .... LÉTTMJÓLK! Ég argaði í huganum, róaði mig síðan, allt á sekúndubroti, og spurði unga manninn kurteislega hvort hann vissi hvað léttmjólk gerði kaffi. Eftir rúmlega tveggja áratuga sambúð ætti hann að vita að á þessu heimili er EKKI keypt léttmjólk. Aldrei, never! Ekki einu sinni í neyð. Léttmjólk gerir kaffi grátt! Það sem bjargaði erfðaprinsinum var það að dreitill af nýmjólk, nægilegt magn var til í latte í dag og á morgun.

RútanSjórinn er hávær og fallegur núna. Af og til koma stórar og tærar öldur, svona smágerðar Miðjarðarhafsöldur, sem búa til mikinn hávaða þegar þær falla tígulega niður. Ummm, hafið. Stór rúta frá Hópbílum stoppaði hérna á neðra hlaðinu áðan og hleypti út fjörkálfum sem geta núna verið hvar sem er á Skaganum og lita bæinn rauðan. Verst að rútubílstjórarassgatið leggur beint fyrir framan himnaríki og skyggir á skvetturnar. Hann sér ekki huglæga bannmerkið á ljósastaurnum: Varúð, útsýnisstaður frú Guðríðar.

 

HunangsmániÞað eina sem ég sá í boldinu var að Nick og Brooke eru gift og njóta hveitibrauðsdagana, í þeirra tilfelli og miðað við ríkidæmið ættu þetta frekar að kallast vínarbrauðsdagar (aulabrandarar eru líf mitt og yndi). Hin sólbrennda Bridget tryggir sér endalausa samúð með því að gera eins mikið og hún getur úr sólbrunanum (sem Felicia, hálfsystir hennar, olli). Bridget klæðist bleikum sjiffonkjólum, í stíl við andlitið, og drekkur rauðvín, sem er líka mjög flott litasétteríng við andlitið.  

Tommi og JónasÞað skemmtilegasta sem Tommi gerir þessa dagana er að vera úti á stóru svölum, stökkva eftir flugum og éta þær. Ferskara sushi fær hann varla og þetta ætti að spara matarkostnað kattanna. Þegar Tommi og Kubbur gera þetta inni tek ég alltaf fyrir eyrun og loka augunum. Reyni þó fyrst að bjarga flugunum út en ef þær er mjög leiðar á lífinu og neita að fara út er fátt hægt að gera fyrir þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Anna

haha bara sushi hlaðborð með léttmjólk handa eðalbornum köttum.

Ólöf Anna , 18.4.2008 kl. 19:28

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

"Útsýnisstaður frú Guðríðar"  mér líst vel á að þú eignist svona skilti, örugglega hægt að nota það víða.  Eigðu góða helgi mín kæra

Ásdís Sigurðardóttir, 18.4.2008 kl. 19:46

3 Smámynd: Tiger

  Skemmtilegur pistill hjá þér Gurrí, eins og ætíð bara. Alltaf gaman að kíkja á þig ljúfust. Eigðu yndislega helgi!

Tiger, 18.4.2008 kl. 20:10

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Frú Guðríður!? Síðan hvenær?

Ég mun heimta léttmjólk í mitt kaffi þegar ég heiðra Himnaríkið með nærveru minni! Ekkert betra út í Bragann!Ég vil yfir höfuð hafa sem flest létt, létta lund, létt yfir mannskapnum og konur eiga að vera léttar, léttlyndar, léttklæddar, allt í einum pakka, punktur og basta!

Magnús Geir Guðmundsson, 18.4.2008 kl. 21:04

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þykir þú léttur á því, Magnús. Ekki séns að ég gefi gestum mínum grátt kaffi. Þú getur fengið fjörmjólk, karlinn, þá er liturinn á kaffinu orðinn svo súrrealískur að bollinn verður bláleitt listaverk í sjálfu sér ... og í himnaríki eru listir hafðar í hávegum.

Þakka góðar óskir um góða helgi og segi þúsund sinnum sömuleiðis! 

Guðríður Haraldsdóttir, 18.4.2008 kl. 21:14

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Gurrí, hann bað um þetta út í Bragann, varla áttu gulan Braga á lager :D :D :D

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 21:23

7 identicon

Maðurinn minn og dóttir mín fá sér alltaf rjóma í kaffið - þau eru líka grönn.....ég skal alveg fúslega viðurkenna að það er gott en ég læt það ekki eftir mér þar sem ég er fitubolla

Sigga (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 22:00

8 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Að setja léttmjólk í kaffi er plebbismi á háu stigi ...eða alla vega óásættanlegt! Rjómi er málið

Laufey Ólafsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:39

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er SVO sammála þér með léttmjólkina í kaffið! Það er ekki sama hvernig það er á litinn og létt- eða fjörmjólkurbætt kaffi er alveg einstaklega ólystugt á litinn.

Maður verður að fyrirgefa Magnúsi Geir Bragann og léttflippandann - hann er nefnilega að norðan, strákurinn... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:45

10 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er á því að drengurinn hafi með þessu 'overstayed his welcome' á hótel mömmu & sé búinn að áskapa sér ákveðna & bráða útrýmíngarhættu úr himnaríkinu,

Sumt, er hægt að fyrirgefa sínum börnum, annað ekki.

Já, & að öðru, hráar flugur, eru ekki hráfiskur.

Steingrímur Helgason, 18.4.2008 kl. 23:50

11 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Auðvitað verður að fyrirgefa drengnum, hann veit ekki hvað hann segir.

Ein versta reynsla kaffilífs míns var þegar Gyða Dröfn, sem drekkur ekki kaffi, ákvað að gefa mér kaffibolla. Dökkt duft úr plastkrukku (til punts uppi á hillu), hafði verið þar í mánuði eða ár, var sett í sjálfvirku kaffikönnuna og ýtt á play. Innan stundar gaus upp ókennileg lykt. Þegar Gyða dró síðan FJÖRMJÓLK út úr ísskápnum og ætlaði að hella í litla mjólkurkönnu var mér allri lokið og bað um kók að drekka. Lærði þarna að aldrei skal þiggja kaffi af manneskju sem drekkur það ekki sjálf! 

Guðríður Haraldsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:53

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Steingrímur, þetta var svona katta-sushi, nema ekki búið til úr köttum, tók mér þetta skáldaleyfi vegna ferskleika flugnanna. Sonurinn sýndi eftirsjá og í einarðlegum augnsvip hans sá ég að þetta myndi ekki endurtaka sig, ALDREI!

Guðríður Haraldsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:55

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Gurrí, þetta er hægt, kvinnurnar í Ístóni heitnum sóru fyrir það að ég gerði langbesta kaffið, sem á ekki að vera hægt þar sem ég drekk það ekki sjálf.

Pabbi kenndi mér trikk við uppáhellingu (sem ég að sjálfsögðu læt ekki uppi). Og gamalt drasl myndi mér ekki detta í hug að bjóða upp á, nevermænd að fjörmjólk fer ekki inn fyrir mínar...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 19.4.2008 kl. 00:35

14 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Eina góða við Fjörmjólkina er að það er auðvelt að þeyta hana útí latte, svo ég nota það svona fyrir mig sjálfa. En að sjálfsögðu ekki fyrir gesti.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.4.2008 kl. 00:39

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hei, það er bannað að drekka drapplitað kaffi.  Léttmjólk? Fruuuuuuuuuuusssssssss

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.4.2008 kl. 00:43

16 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ennþá með hnút í maganum þegar ég setti mynd af þér og léttmjólki (óvart saman á mynd) á bómullarbol og ætlaðist til að þú gengir í honum, gerðir þú það nokkurn tíma?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.4.2008 kl. 01:43

17 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Já, já, ég gekk í honum af því að þetta var svo góður húmor ... enda fáránleg tilviljun að ná mynd af mér og léttmjólk saman.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.4.2008 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 84
  • Sl. sólarhring: 181
  • Sl. viku: 2326
  • Frá upphafi: 1456622

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1938
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband