Færsluflokkur: Bækur

Mannasiðir, Mosósjokk og Harry Potter

Marc-Chagall-The-Bride-15351Þetta var nú meiri strætódrossían sem við ferðuðumst með í morgun. Fullkomin rúta með sjónvarpi og alles. Reyndar slökkt á imbanum en Bylgjan var á hæsta, mér til ógleði, þoli illa útvarp á hæsta á morgnana og líkist Hildu systur sífellt meir í sambandi við það. Ég hlammaði mér niður hjá smiðnum.  Þessa dagana er hún í verkefni í Grafarvogi og var svo heppin í grenjandi rigningunni að samstarfsmaður hennar bauðst til að sækja hana í Mosó. Annars hefði hún þurft að skipta um vagn í Ártúni og labba langa vegalengd. Smásjokk þegar við nálguðumst Mosó, ég gat ekki losað mig úr öryggisbeltinu og allt leit út fyrir að smiðurinn þyrfti að hringja sig veika í dag. Svo á síðustu stundu prófaði ég að athuga hvort beltinu væri kannski smellt vinstra megin við mig og þannig reyndist það vera. Sjúkkittt! Annars hefðum við smiðsa þurft að rúnta hring eftir hring - Akranes-Mosó-Akranes-Mosó í allan dag eða þar til einhver með hníf hefði komið og skorið mig úr beltinu. Hugsa ég.

 

ChagallLaBaieVið Sigþóra fengum far upp súkkulaðibrekkuna með elsku Ingu og þegar Sigþóra var komin heilu í vinnuna fórum við Inga í Kaffitár. Svona af því að það er föstudagur þá var keyptur latte og heitt krossant með súkkulaði. Allgjör snilldarbyrjun á degi. Ég vaknaði reyndar hress og næstum því bein í baki, enda svaf ég í leisígörl í næstum allt gærkvöld með hitapoka við bakið. Þetta hlýtur að virka á endanum.

Elskan hann Harry Potter kemur út á íslensku í dag. Það fór aldrei svo að ég lyki við bókina á ensku og er það í fyrsta sinn. Ætla að kenna uuuuu .... erfðaprinsinum um þetta. Er reyndar helmingi fljótari að lesa á íslensku þannig að elsku Jenný mín fær endinn sendan á meili fljótlega. Er að verða búin með Þráin og er bara ansi hrifin. Hann kann þá list að láta persónurnar heita nöfnum sem festast í minni, Víkingur og svona ... það þreytir mann stundum að lesa spennusögur með svo mörgum Jónum, Gunnum, Möggum og Siggum að allt er komið í hrærigraut. Þá er um að gera að hafa persónurnar færri, eins og t.d. Arnaldur gerir. Las bókina hennar Unnar Arngríms í gær en í henni eru leiðbeiningar í mannlegum samskiptum og fleira. Þótt bókin sé kannski gamaldags á margan hátt (ekki galli) þá eru mannasiðir auðvitað sígildir. Ég er greinilega vel uppalin af móður minni og kennurum í Barnaskóla Akraness því að það var ekki margt sem kom mér á óvart en samt svona sitt af hverju sem gott var að vita um kokkteilboð og svona sem ég hef aldrei haldið, það er annað hvort fermingarveisla þegar ég á afmæli eða ekkert. Held að fólk vilji miklu frekar brauðtertur en brennivín!

Myndskreytingar: Marc Chagall - Förðun: Make Up School - Fatnaður: Nína - Gáfur: Úr Skagafirði - Húmor: Þingeyjarsýsla - Útlit: Genaþjónustan hf. - Innræti: Bloggsamfélagið sf - Innræti æskunnar: Skapgóðir Skagamenn gpl.


Flottust fljóða

Regndans í himnaríki"Kroppinbakur eigi lengur er, flottust fljóða á landi hér," sönglaði ég á meðan ég staulaðist varlega um himnaríki í morgun. Þótt ég væri orðin bein í baki þorði ég ekki annað en að sleppa daglega regndansinum sem indíánahöfðinginn kenndi mér síðla sumars. Dansinn á víst að virka voða vel en ég trúi samt ekkert á svona bull. Eins og það rigni eitthvað meira á Íslandi þótt dansað sé með látum í himnaríki. Þetta er bara leikfimin mín.

Þetta verður mikill dugnaðardagur í dag. Er að hlusta á Hjálma, nýju plötuna og fékk í hendur áðan bókina Njóttu lífsins eftir Unni Arngrímsdóttur, bók um mannasiði og leiðbeiningar í mannlegum samskiptum. Held að þessi bók sé snilld, ef einhver kann sig þá er það Unnur.  Jæja, eigið góðan dag. Sendi galdrakveðjur héðan úr Hálsaskógi með von um óvæntar uppákomur, daður, ævintýri og jafnvel kossa ykkur (og mér) til handa.


Mergjaðir morgundraumar

Mikið er gott að vera komin í vinnuna þótt skökk sé (útlitslega). Sem betur fer þurfti ég ekki að taka strætó og labba síðan upp Súkkulaðibrekkuna, heldur sat í bíl með Ástu og hafði hita við bakið alla leið. Er líka undir áhrifum íbúfens, næstsíðustu pillunnar, kannski í landinu. Tók svo með mér hitakrem og ef ég lykta undarlega í vinnunni þá segi ég bara samstarfsfólki að þetta sé nýtt, rosalega fínt og dýrt ilmvatn, vér Icelanders föllum alltaf fyrir öllu sem er nógu dýrt.

Draumur prinsessuÞarf heldur betur að vera dugleg í dag til að vinna upp gærdaginn. Mikið er ég fegin að vinna ekki í t.d. kókosbolluverksmiðju þótt ég hafi hálfpartinn haft það með í framtíðardraumunum þegar ég ætlaði a.m.k. að verða sjoppukona, flugfreyja, leikkona, söngkona, dansmær eða ljósmóðir. Hef aldrei unnið í sjoppi en hef verið leikkona (m.a. Skagaleikflokkurinn og sem bláa öxlin í Heilsubælinu) og söngkona (í Kór Langholtskirkju, Mótettukórnum, Fílharmoníu). Dansmær get ég ekki kallast, þótt mér hafi þótt þrælgaman í Dansskóla Sigvalda í æsku og kann enn upphafið að dansi við lagið Black Night með Deep Purple, mjög, mjög hallærislegur dans en fyrir 50.000 kall skal ég dansa þetta upphafsatriði hvar sem er og hvenær sem er ... Ljósmóðurdraumurinn rættist heldur ekki, hef samt aldrei skilið hvaðan hann kom. Ekki las ég bókaflokk um neina Lilju ljósmóður sem tók á móti börnum á milli þess sem hún leysti dularfull sakamál. Svolgraði aftur á móti í mig bækurnar hennar mömmu um Beverly Grey fréttaritara og bloggvinir mínir vita hvernig það endaði. Mamma gleypti í sig Rósu Bennett hjúkrunarkonu og fór í Hjúkrunarskólann í kjölfarið. Skrýtið að maður endaði ekki sem prinsessa eða barónessa miðað við Barböru Cartland-lesturinn frá 10 ára aldri. Stundum þegar vekjaraklukkan hringir kl. 6.15 og úti gnauðar kaldur vindur, hviðurnar á Kjalarnesi eru 29 m/sek og soðinn lax í matinn í mötuneytinu þá óska ég þess pínulítið að ég væri prinsessa.


Ekki geðvonskufærsla ...

Sendiráð Íslands í BerlínHorfði mér til mikillar skemmtunar á Innlit Útlit. Sérstaklega þar sem María í Skrúðgarðinum var í viðtali. Mikið er annars sendiherrabústaðurinn í Þýskalandi flottur. Ég svitnaði samt yfir öllum glæsilegheitunum úti sem inni og fór að hugsa enn einu sinni um forgangsröðunina í þjóðfélaginu eða það hvernig peningum skattgreiðenda er varið. Ætli sé ekki hlegið að okkur úti í heimi fyrir að láta alltaf eins og við séum forrík stórþjóð? Á meðan t.d. sjúklingar þurfa að „efla kostnaðarvitund sína“ á sífellt harkalegri hátt með því að borga háar upphæðir fyrir lyf og aðgerðir þá finnst mér okkur ekki vera stætt á því að vera alltaf flottust! 

Við erfðaprinsinnÞetta er alls ekki geðvonskufærsla þótt ég hafi ekki getað setið við tölvuna í dag og unnið vegna bakverkja, bara legið á hitapoka og brutt eina íbúfen. Ég svaf megnið af deginum af einskærum leiðindum og er samt grútsyfjuð núna. Það er reyndar hundleiðinlegt að skakklappast svona og ég stefni að því að vera orðin albata í fyrramálið, algjörlega ALBATA! Tókst samt aðeins að byrja á Englum dauðans eftir Þráin Bertelsson og mun hún án efa halda mér góðum félagsskap ef mér tekst ekki að sofna á eftir.

Rétt áðan rúllaði þátturinn Fyrstu skrefin í sjónvarpinu. Rosalega var gaman að sjá keisaraskurð. Oftast hef ég lokað augunum þegar eitthvað svona sést í sjónvarpinu ... en núna nennti ég ekki þessu kvenlega pjatti sem búið er að innræta mér frá bernsku. Svona geta nú hlekkirnir dottið af manni algjörlega óvænt.


Engin leið að hætta ...

BaklækningarEin íbúfen og hitapoki með sjóðheitu vatni við bakið í leisígörl klikkar ekki, tala nú ekki um þegar góð bók fylgir með. Bókin um Bíbí miðil eftir Vigdísi Grímsdóttur. Mikið er það  góð bók! Ætlaði rétt að kíkja í hana því að Ávítarastríðið, Himnaríki og helvíti og spennubókin eftir Þráin Bertelsson biðu rosaspenntar en ég gat ekki hætt og er búin með hana! Ég tímdi ekki einu sinni að fara snemma að sofa.

Bakið er orðið mun betra, kannski dulræn áhrif frá bókinni ...! Þetta er mikil örlagasaga, óhemjuvel skrifuð sem kemur ekki á óvart þar sem Vigdís á í hlut. En nú er ég farin að sofa!


Reykur í Skagastrætó - hvar er Sigþóra?

Kannski ekki alveg svonaVið Ásta sátum eins og fínar frúr í drossíunni á leið í bæinn. Á móts við Húsasmiðjuna brunuðum við fram úr Skagastrætó og misstum þar með af spennu dagsins. Ásta skutlaði mér í Hálsaskóg en á leiðinni niður á Landspítala sá hún strætóinn stopp við Vesturlandsveginn, við stoppistöðina okkar Sigþóru ... og það rauk úr honum. Veit ekki hvort kviknaði í honum, hann bræddi úr sér eða það sauð á honum.

Held að það mætti alveg velja betri bíla oní okkur þótt við séum bara Skagamenn ... það hefur verið frekar mikið baráttumál bæjarbúa að fá vagna sem halda vatni, vindi og mengun úr Hvalfjarðargöngunum og ekki er verra að öll öryggisbeltin séu í lagi ... Reyndi að sjálfsögðu að hringja í Sigþóru til að fá fréttir í beinni en hún svarar ekki, kannski í fríi, kannski veik, kannski er hún í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni. Hvað veit maður ...

AndvakaSvaf ekki nema fjóra tíma í nótt, drakk þó ekki kaffi í gær eftir kl. 17, var grútsyfjuð en gat ekki sofnað. Skil ekki hvers vegna hressileikinn er svona mikill núna í morgunsárið. Best að reyna að verða samferða Ástu heim í dag og sofna eldsnemma í kvöld. Sef yfirleitt eins og engill og skil ekki svonalagað. Kannski var allt of gaman í kjötsúpuveislunni fyrir viðkvæmt taugakerfi mitt eða eitthvað, er reyndar ekki sérlega viðkvæm nema kannski þegar fluga eða blóm deyr í teiknimynd. Sem betur fer var ég með æsispennandi bók á náttborðinu, Grunnar grafir eftir Fritz Má Jörgensson, og hún bjargaði mér frá leiðindaandvöku ... Það er sko aksjónbók!


Góður árstími - jólabækurnar

Inga engillStressdagur til hálfsjö í gær og þá kom engill og keyrði mig heim. Já, það eru til englar. Skil ekki alveg hvernig sumir komast í peysu fyrir vængjum. Við vöknun upp úr 10 í morgun var ekki einu sinni til orka til að búa til latte og sú ákvörðun tekin að fá bara í bakið. Held að ég þurfi að fá mér nýja dýnu. Einu sinni gistum við Hilda hjá vinkonu hennar á Akureyri og elsta barnið fór úr rúmi fyrir mig. Glerhörð dýna sem lagaði sig eftir líkamanum. Held ég hafi aldrei sprottið jafnhress upp úr nokkru rúmi en eftir að sofið heila nótt í því.

Erfðaprinsinn er á krá eins og svo oft á laugardögum og er það fótboltinn sem tælir, ekki brennivínið. Er að hugsa um að laumast til að setja Jónas af stað í fjarveru hans. Skilst að West Ham hafi skorað eitt mark.

Best að lufsast til að drekka latte-inn minn og lesa meira í bókinni Grunnar grafir eftir Fritz M. Jörgensen, það er skemmtilegur höfundur, íslenskur, hann skrifaði líka kiljuna Þrír dagar í október. Kláraði barnabókina hennar Gerðar Kristnýjar í gærkvöldi og er stórhrifin, minnir að hún heitir Veislan á Bessastöðum. Hrikalega fyndin og skemmtileg. Já, það er gaman á þessum árstíma. Allt í drasli en fullt af bókum. Erfðaprinsinn er að lesa nýja bók eftir sama höfund og Artemis Fowl og er vægast sagt stórhrifinn. Held að við höfum bæði erft barnslegan bókasmekk frá föður mínum sem argaði úr hlátri yfir Andrésblöðum til dauðadags.  


Reiður vörubílstjóri, dásamlegt myndband og ný spennubók

Undarlegt. Maður tyllir sér í leisígörl og ætlar að horfa á kvöldfréttirnar, hvílir augun eitt andartak og ... stekkur fram í tíma! Ég horfði þrútnum augum á erfðaprinsinn og spurði örg: „Af hverju léstu mig sofa til hálfellefu?“ Hann flissaði og harðneitaði að láta kenna sér um svefnleysi móður sinnar sem las of lengi í gærkvöldi.

Öskureiður vörubíllElvis eftir vörubílstjóraárinÞegar ég gekk inn í strætó seinnipartinn í dag fóru allt í einu hlutirnir að gerast hratt. Vörubíll kom hratt í áttina að strætó og stoppaði þannig að bílstjóragluggarnir mættust, vörubíllinn sneri sem sagt á móti umferðinni. Vörubílstjórinn (ath. Elvis hóf feril sinn sem vörubílstjóri) gargaði brjálaður á Heimi bílstjóra en ekki heyrðust orðaskil. Líklega skothelt gler, a.m.k. orðhelt. Ég lagði ekki einu sinni í að brosa daðurfullt til reiða mannsins þótt ég noti vanalega hvert tækifæri þegar ég sé menn ... Farþegarnir voru hissa og störðu á manninn, sérstakleg þeir sem voru í vagninum þegar hann kom í Háholtið til að hleypa okkur bíðandi farþegunum inn. Heimir sat sallarólegur og fylgdist með, fátt fær greinilega haggað dyraverði sem vinnur í Borg óttans um helgar. Forsaga málsins er sú að þegar Heimir kom úr Mosfellsdalnum og ók inn í nýjasta hringtorg Mosfellinga kom vörubíllinn á fleygiferð og svínaði fyrir Heimi, tók tvær akreinar, og Heimir gerði sér lítið fyrir og ... flautaði (þeytti bílhornið), enda var hann með dýrmæta farþega innanborðs, þungan bíl með langa hemlunarvegalengd og slíkt.

Flautandi leigubílstjórarÞarna sást í verki hvað við Íslendingar hötum þegar það er flautað á okkur. Vörubíllinn elti sem sagt strætó til að skammast og kenna Heimi að maður flautar ekki í umferðinni þótt svínað sé fyrir mann! Ég býð ekki í leigubílstjóra frá New York á ferð hér á landi í bílaleigubíl, hann yrði myrtur á fyrsta sólarhringnum! Óttaleg móðgunargirni er þetta í umferðinni. Gleymi ekki svipnum á bílstjóranum fyrir framan okkur Hildu við bensíndæluna um árið. Hann var búinn að dæla og ég (farþegi í framsæti) flautaði blíðlega (nýkomin frá New York) til að benda honum á að hann væri ekki einn í heiminum og tefði fyrir fólki. Við fengum hroðalegt morðaugnaráð þangað til mér hugkvæmdist að benda taugaveiklunarlega á Davíð frænda sem þá var svona þriggja ára. Þá færðist blíðlegt bros yfir andlit mannsins og allt var fyrirgefið. Djöfull var ég fljót að hugsa þarna.

Hnífur AbrahamsFékk í hendur í dag spennubókina Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð. Kíkti aðeins í hana í strætó þótt það væri mikið stuð með Sigþóru þar og segi nú bara Dan Brown hvað? Virkar a.m.k. rosalega spennandi. Svo lendir maður í tímaflakki, ég sem var búin að ákveða að lesa í allt kvöld. Baðið var reyndar að enda við að fyllast (gott að lesa í baði) og baðvatnið er HEITT! Varúðarráðstafanir, eins og að horfa ekki á baðkerið á meðan rann í það og láta heita vatnið renna líka í baðvaskinum, dugðu og nú skal lesið. Sjúkraþjálfun, súpuhádegi og heimavinna á morgun.

-------         ------------    -------------            ------------- 

Palli krúttTil gamans og vonandi ánægju kemur hér myndband sem ég vona að þið njótið jafnmikið og ég í morgun þegar ég fann það (fékk fréttatilkynningu frá söngvaranum, fór í kjölfarið á myspace-síðu hans og wúmmmm ...)

Ég elskaði lagið hér í denn og spilaði það oft á útvarpsstjörnuárum mínum en hafði ekki séð myndbandið fyrr en í morgun! Algjör snilld! Góða skemmtun. 
http://youtube.com/watch?v=hhRoe2l1n2U
Sem minnir á að útvarpsstjörnuárin mín eru ekki alveg liðin. Hver haldið þið að verði með þátt hjá Útvarpi Akraness helgina 30. nóv. til 2. desember? Jú, einmitt!


Nótt hinna þúsund ... handklæða

Rigning innandyraStórt baðhandklæði er komið í gluggann í bókaherberginu. Erfðaprinsinn sat við tölvuna og tók ekki eftir því að það dældist rigning inn um litla, opnanlega gluggann sem var lokaður. Nokkrir millirúmsentimetralítrar, eða svona 12.549 dropar, höfðu lekið alla leið niður á gólf. Það hefur ekki gerst áður. Setti eldhúsrúllubréf til að þétta gluggann, hefði líklega þurft steypuhræru. Lúmska rigningin hefði eflaust fundið sér leið í gegnum hana líka. Dagblöð og stórt handklæði eru líka við svaladyrnar. Hvað er eiginlega hægt að gera? Ég er búin að fá menn þrisvar eða fjórum sinnum til að þétta og spartla og borga fyrir það, samt lekur. Ef maður fengi þrumur og eldingar með þessu vatnsveðri yrði ég miklu sáttari.

Erfðaprinsinn er kominn upp í rúm með Arnald, rosa spenntur, og svei mér ef ég fer ekki að drífa mig upp í líka ... með Mary. Ansi spennuþrungið kvöld fram undan í himnaríki, hnegg, hnegg!


Frábær byrjun á föstudegi ...

Mikið var hressandi að taka loksins strætó og rifja upp hvað Skagamenn, og þá aðallega strætófarþegarnir, eru skemmtilegt fólk. Tommi kom okkur öllum heilum í höfn og lék á als oddi. Mikið er Rás 2 skemmtileg á morgnana. Tommi skammaði mig að vanda fyrir glyðrugang með Ástu ... einkabíladæmið þarna undanfarna morgna. Ég "séðogheyrtaði" hann sem þaggaði niður í honum. Nú hefur hann eitthvað að gera í pásunum sínum í dag.

Mmmmm latteInga beið okkar Sigþóru við rót Súkkulaðibrekkunnar og skutlaði okkur upp hana. Þegar við héldum frá Rekstrarvörum eftir að hafa skilað Sigþóru af okkur hugsaði ég upphátt: "Ó, hvað mig langar í kaffi!" !Ókei," sagði Inga og við skutluðumst niður í bæ, beint í Kaffitár í Bankastræti sem opnar 7.30. Krossant var keypt og ilmandi latte með 150°F heitri mjólk. Sem sagt heitri mjólk en ekki sjóðandi logsuðuheitri. Bylgjan var á hjá Ingu og það var eins og við manninn mælt ... verið var að tala um hýsil í vatnsbólum ... einhvern slíkan viðbjóð, eins og síðast þegar ég hlustaði, en þá voru það litlu kvikindin sem halda til í uppi í rúmum landsmanna. Ef ég hlusta ekki á svona útvarpsefni get ég auðveldlega gleymt því að ég hef kannski milljónir hjásvæfa (sem er nú nokkuð vel af sér vikið þar fyrir utan). Rás 2 spilar bara ljúf lög sem fá mann til að lyngna aftur augunum og vera hamingjusamur. Þetta er sko allt sagt með fullri virðingu fyrir elskunum á Bylgjunni, þau eru æði. Nema þegar Heimir opnar munninn um reykingafólk, Tíu litlir negrastrákar hvað!!!

HarðskafiJá, ég kláraði Arnald í gær og var einstaklega ánægð með bókina. Arnaldur er með fína fléttu og gaman að sjá hvert púsl í gátunni lenda á sínum stað smám saman. Ég horfði bara á House og gat eiginlega ekki slitið mig frá Life on Mars, enda líklega síðasti þátturinn. Sofnaði um miðnætti sem er samt allt, allt, allt, allt of seint. Bæti mér það upp um helgina. Sigþóra sagðist afa komið móð og másandi út á stoppistöð og næstum sofið yfir sig í morgun. Hún hafði 20 mínútur til stefnu. Ég hló nöturlega, enda hafði ég bara sjö mínútur. Sem betur fer tók ég fötin mín til í gærkvöldi og hárið var ekki allt út í loftið þótt ég hafi eiginlega sofnað með það blautt (ég las auðvitað Arnald í baði). Ekkert kaffi, bara klæða, bursta og út! Samt var ég rosalega sæt, Tommi hafði einmitt orð á því í morgun, eða hefði gert kynni hann að koma fram við kvenfólk. Þegar ég gaf honum Séð og heyrt sagði ég honum að Jói Fel væri svona maður sem kynni þá list, eins og vísað er í á forsíðunni, en Tommi hnussaði og sagði að Jói væri smjaðrari ... hahahhaha. Held að þegar Tómas fer næst á konuveiðar taki hann lurk með sér, roti eina huggulega og dragi hana á hárinu inn í helli sinn. Hún fær eflaust eitthvað gott að borða því að Tommi er með súrtunnu úti á svölum á hellinum sínum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 52
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 879
  • Frá upphafi: 1515974

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 734
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband