Færsluflokkur: Bækur
12.12.2007 | 09:38
Dyggð undir dökkum hárum
Held að Ástu hafi ekki grunað að ég svaf yfir mig í morgun, ég bar mig svo vel. Gekk settlega niður stigann, 12 mínútum eftir vöknun með latte í hvorri og ekkert benti til stressklikkunarinnar sem hafði heltekið mig skömmu áður. Vaknaði sem sagt kl. 6.40 og brottfarartími með Ástu var 6.50. Skipulagði morgunverkin á sekúndubroti. Hljóp austur í eldhús og kveikti á kaffivélinni, þaðan vestur á bað þar sem snyrting var framkvæmd á ljóshraða, enda þarf lítið að gera sökum fegurðar. Miðjutakkinn á kaffivélinni var hættur að blikka þegar ég kom aftur austur fyrir og ég ýtti á freyðitakkann við hliðina. Á nokkrum sekúndum, þar til hann hætti að blikka, tókst mér að klæða mig til hálfs inni í eldhúsi. Setti þá mjólkina í könnu og í stað þess að halda á henni undir stútnum klæddi ég mig alveg en fylgdist samt vel með hitastiginu. Þá kom röntgensjónin sér líka vel. Kl. 6.52 snerist himnaríki enn í hringi eftir hvirfilbylinn mig, kettirnir héldu sér í gardínurnar, knúpparnir voru dottnir af jólakaktusinum og allt ryk fokið af ljósakrónum þegar ég var á leið niður. "Ó, varstu komin?" spurði ég Ástu, sem hafði beðið í tæpar 2 mínútur. Hafði reyndar kíkt niður rétt áður en ekki séð hirðbílstjórann minn þar sem hann var of nálægt húsinu.
Ástæða fyrir yfirsofelsi: Nú, bókin Maður gengur með!!! Gat ekki sleppt henni fyrr en hún var búin. Hún fjallar um óléttu, frá fyrstu fréttum fram yfir fæðingu, upplifun föður. Hélt þegar ég sá bókina fyrst að hún væri sniðug fyrir nýbakaða eða tilvonandi feður, kannski bara alla feður, en mér sem kjéddlíngu þótti alveg frábært að heyra hina hliðina. Svo sakar ekki að hún er skemmtilega skrifuð líka. Mislangir kaflar og ekkert verið að eyða of mörgum orðum í suma hluti, æ læk itttt! Svo byrjaði ég á Patriciu Cornwell í jólaklippingunni í gær (ó, ég er orðin svo fín) og hún lofar góðu. Mikið elska ég bækur heitt!
Fyrirsögnin hér að ofan ber sama nafn og bók eftir Nettu Muskett, mikið elskaði ég bækurnar hennar á unglingsárunum!
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.12.2007 | 17:49
Merkir jafnaldrar og geimskip yfir Reykjavík?
Ég á nokkra mjög merkilega jafnaldra eins og Madonnu, Michael Jacson, Valdísi Gunnarsdóttur og Björn Thoroddsen. Svo var ég að fatta að enginn annar en Osama bin Laden er jafngamall mér. Ekki er rangt að álykta að hann liti jafnunglega út og við hin ef hann rakaði af sér þetta karlalega skegg.
Stórt, ljósum prýtt geimskip vomir yfir Reykjavík í þessum skrifuðum orðum. Erfðaprinsinn dirfðist að reyna að halda því fram að þetta væri skíðasvæði Reykvíkinga! Skíðasvæði halla sér ekki svona ógnandi yfir borgir. Ég nötra af hræðslu hérna í himnaríki og er að hugsa um að detta ofan í Harry Potter og gleyma mér í leisígörl með teppi yfir mér. Kannski eins gott að ég fór ekki í jólahlaðborðið með vinnufélögum nú í kvöld.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2007 | 11:22
Annir og huldufólk
Sömu annirnar og í gær, nema kannski enn meira stress. Núna er ég hálffúl yfir því að hafa lofað Míu að fara út með henni í kvöld ... en samt hlakka ég til að komast út á meðal manna ... og fá eitthvað gott að borða í góðum félagsskap. Já, það verður örugglega gaman með Lions-fólkinu. Ég er nú einu sinni Ljón!
Puntaði aðeins í himnaríki í gær, setti m.a. jóladúk á borðstofuborðið og annan í stíl á kringlótta skákborðið í horninu við hliðina á rauða antíksófanum. Dúkarnir komu frá mömmu, sérsending sem kom í gær. Þótt ég sé orðin rúmlega fertug ... eða 49 ára, laumar mamma enn að mér litlum gjöfum, jafnvel pening ... já, og gefur mér alltaf páskaegg. Það er frekar sætt, er það ekki?
Var að lesa nýju bókina hennar Unnar Jökulsdóttur um álfa og huldufólk. Einlæg, vel skrifuð og skemmtileg. Í fyrsta viðtalinu hennar um huldufólk voru nú náfrænkur mínar á Svanavatni spurðar og þær töluðu svolítið um afa sinn, Jónas frá Hróarsdal, langalangafa minn. Kom skemmtilega á óvart, sitt af hverju sem ég vissi ekki. Ætti að kaupa þessa bók handa mömmu í jólagjöf. (Ættartréð er svona: Jónas, Jósteinn, Mínerva, Bryndís, Gurrí.) Hef aldrei hitt þessar frænkur mínar en langar nú mikið til þess. Dóttir Jónasar (systir Jósteins langafa míns) er nýdáin, hún Sigurlaug, konan sem las í garnir og spáði fyrir um veðrið. Ég veit alveg hvaðan ég hef veðuráhugann.
Myndinni stal ég á Netinu, frá ástkærri frænku minni (sem ég hef aldrei hitt, held ég) en hún er af Hróarsdal í Skagafirði, þaðan sem ræturnar liggja. Var það á ættarmóti 1985 og kynntist fjöldanum öllum að ÆÐISLEGU fólki, m.a. Höllu frænku, sem er tveimur árum eldri en ég en samt dóttir Páls, sonar Jónasar. Ég ætti að vera jafngömul barnabörnum Höllu ... en þau eru nú ekki einu sinni komin til sögunnar og ég alveg að komast á ömmualdur sjálf. Jamm, þetta er nú meira ættarbloggið!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.12.2007 | 15:44
Tækniöldin að koma ...
Heit og góð súpa í Skrúðgarðinum fleygði byrjandi kvefi út á hafsauga, held ég. Auðvitað kom Tommi þangað í einn kaffibolla áður en hann lagði í hádegisferðina og byrjaði á því að tékka á vindhviðumælinum á síðu Vegagerðarinnar. Hann sagði farir sínar ekki alveg rennisléttar. Þegar hann kom út úr göngunum á leið í bæinn fyrr í morgun var svo hvasst að rúðuþurrkurnar feyktust upp, rifnuðu sem betur fer ekki alveg af þó, eins og gerðist fyrir nokkrum vikum. Hann ók eftir minni (eða þannig) í Grundahverfið þar sem hann stoppaði og lagaði þurrkurnar. Skv. tölvunni reyndust hviðurnar ekki vera nema 28 m/sek þannig að Tommi lagði í hann til að sækja Sigþóru sína, sem hann er skotnastur í, held ég, af okkur kjéddlíngunum í strætó. Mikið held ég að það væri gott, eiginlega bara lífsnauðsynlegt að fá hviðumæli við gönginn. Þar er MIKLU hvassara þar í austanáttinni, að sögn Tomma, líkara Hafnarfjallstölunum sem voru 42 m/sek í morgun.
María reyndi að ýta okkur Tomma saman, eins og fleiri, og stakk upp á því að við byrjuðum saman. Ég bendi á að við Tommi vorum bæði viðstödd en héldum þó kúlinu. Ég benti henni á að ég væri of ung til að binda mig, Tommi sagðist vera of gamall til þess, samt er hann einu ári yngri en ég. Svona er að gefa á sér færi með opinskáum bloggfærslum ... Hélt að María kynni ekki að lesa (þetta var beisk hefnd fyrir að hún endurnefndi kaffidrykkinn minn Kjötsúpu).
Guðni Ágústsson (með Sigmundi Erni) kemur í Skrúðgarðinn annað kvöld til að kynna bók sína. Þyrfti að rúlla hratt yfir bókina þeirra ... en ég er reyndar að lesa Harry Potter á íslensku og hún er æði.
Jónas ryksugar nú himnaríki af vélrænni samviskusemi, við stefnum hraðbyri inn í tækniöldina, börn fara í gegnum fingrafaraskanna til að fá skólamáltíðir, talandi lyftur segja á hvaða hæð við erum og fleira og fleira. Hvenær koma eiginlega fljúgandi bílarnir sem ég vissi á barnsaldri að allt yrði morandi í árið 2000? Mér finnst ég hafa verið svikin.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.11.2007 | 22:38
Tæknitröll, bold og allt um Útvarp Akranes
Gott var að fá far heim með Ingu en þegar hún var að fara út úr dyrunum eftir latte og spjall bað ég hana að tengja snöggvast vídeótækið sem hún lánaði mér. Það hefur alltaf gleymst. Hér á þessu heimili leikum við okkur að kjarneðlisfræði og töfrateningum en kunnum ekki á svona hversdagslega hluti. Dæmi: Hér er ekki ryksugað, heldur sér vélmenni um að halda gólfum himnaríkis hreinum! Jæja, annað hvort er tækið bilað eða scart-tengi eru uppfinning andskotans! Þetta tafði Ingu um næstum klukkutíma og heima í Reykjavík beið hennar sársvangur drengur (20 ára). Tek það fram að Inga leikur á fjarstýringar og tengingar eins og Mía systir á píanó og ég á karlmenn, eða gerði ef ég virkilega legði mig fram um það! Kannski.
Hef horft með öðru, eiginlega hálfu, auganu á síðustu bold og skil ekki alveg allt sem er í gangi. Mér sýnist þó að Bridget tali um barnið, Nichole, sem dó við fæðingu, sem límið sem hélt hjónabandi hennar og Nicks saman. Nú er ekkert lím. Svo kom í ljós að Nick á ekkert í Dominic litla, heldur Dante, bjargvættur Taylor (bjargaði henni frá Ómari soldáni sem hafði rænt henni og allir héldu að hún væri dáin en þá var hún bara í dásvefni). Dante kemur sterkur inn, deitaði meira að segja Brooke á tímabili. Nú þráir hann heitast af öllu að Briget komi til sín og gangi barninu í móðurstað, eins og hún ætlaði að gera með Nick.
Það gengur löturhægt hjá Ridge að reyna við Brooke, hún sér bara tengdason sinn, Nick, sem verður væntanlega brátt á lausu. Eflaust verða þó einhverjar flækjur til að skemma það, kannski að Brooke játist bara Ridge til að spæla Stefaníu, mömmu hans. Svo er dóttir Lou horfin, eftir að Barnavernd kíkti í heimsókn út af marblettinum á öxlinni á henni, sem hún reynir að kenna hinni hressu dóttur Steiger lögregluforingja um. Svo kom eitthvað um að stýrimaður eða vélstjóri hefði klikkast og reynt að sökkva skipi þótt hann hefði ekki stímt á ísjaka og ... jamm, það var alltaf fjör í boldinu.
Miðvikudagar eru ekki lengur viðbjóðslegir kellingasjónvarpsdagar á Stöð 2, ekki eingöngu. Nú eru bæði Closer, spennuþáttur (reyndar kona sem yfirlögga) og Grey´s Anatomy (kona sem læknir en líka fullt af körlum) á dagskránni og hægt að fara að lesa þegar Oprah byrjar ... og horfa á Kiljuna í leiðinni. Er komin frekar langt í Ösku, bókinni hennar Yrsu og finnst hún alveg stórskemmtileg. Í dag fékk ég Guðna sjálfan og kíki á hana um helgina. Harry Potter er þó ofar í bunkanum en erfðaprinsinn, sem átti þá næstsíðustu eftir, spændi hana í sig og er nú langt kominn í þessarri nýju, rosalega spenntur.
Útvarp Akranes verður sent út frá Skrúðgarðinum um næstu helgi (FM 95.0). Það er sniðug hugmynd að senda út þaðan. Tommi strætóbílstjóri og Jón Allansson (gamall bekkjarbróðir úr barnaskóla og safnstjóri hér í bæ) sjá um rokkþátt frá kl. 21 á föstudagskvöldinu. Það verður án efa góð skemmtun! Svo ætlar sjálf Anna Kristine að vera með viðtal við hjónin Ingibjörgu Pálmadóttur og Harald Sturlaugsson á sunnudeginum um miðjan dag. Þess á milli bara glimrandi fjör og skemmtun. Erfðaprinsinn ætlar að skutla mér undir hádegi á laugardeginum og fara svo að kaupa jólagjafir. Hef ekki hugmynd hvað ég á að pína hann til að gefa mér! Getur hann toppað afmælisgjöfina? Efast um það. Kannski að ég tali meira um hvað nýja safnplatan með Led Zeppelin sé örugglega góð ... Mér sýnist hann vera sofnaður með Potter á bringunni og kettina til fóta. Hvað er annað hægt að gera en sofa þegar Jónatan hefur alveg yfirgefið fjölskylduna?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.11.2007 | 16:32
Ævintýri á morgunslopp ... viðrun og jólamynd
Erfðaprinsinn viðraði háaldraða móður sína, eins og góðir synir gera á sunnudögum, og við skruppum í Skrúðgarðinn. Þvílík jólastemmning. Búið að skreyta jólatré og undir því lágu girnilegir jólapakkar. Börnin á staðnum voru alveg að missa sig, fullorðna fólki reyndi að halda stillingu sinni.
Heitt súkkulaði og ostakaka fyrir þá gömlu, súkkulaðikaka og kaffi fyrir ungann. Smakkaði á sjúklega girnilegu köku erfðaprinsins og kræst, fann hnetu- eða núggatbragð eitthvað hræðilega skelfilegt. Sjúkkitt að við pöntuðum ekki tvær svona, það munaði litlu. Sumar tertur leyna greinilega illilega á sér.
---------- -------------- ------------------ ------------
Fórum í búð og í anddyrinu þar sátu tveir undir sölumenn með tombólu. Keypti mjög fallega jólamynd, bauð 200 kall í hana og fékk. Efnilegur listamaður að nafni Guðmundur bjó hana til. Hún fær heiðursstað í himnaríki.
Ég lenti í svaðalegu ævintýri í dag, eða hefði gert ef erfðaprinsinn hefði ekki verið heima, held ég. Dyrabjallan hringdi, ég, spennufíkillinn í sloppnum einum fata, ýtti á OPNA, og beið spennt. Jú, þetta var enginn annar en húsfélagsformaðurinn! Hann þurfti að mæla eitthvað á svölunum. Hrópaði til hans þegar hann var á leiðinni upp stigana: Ja, ég er nú eiginlega nakin, var að koma úr baði! Fyrstu vonbrigðin komu þegar hann svaraði: Geturðu ekki farið í slopp? og það örlaði á skelfingu í rödd hans. Sumir hefðu nú farið að hlaupa ... Ég er í slopp, sagði ég þreytulega. Formaðurinn var með tommustokk með sér (leikfang lostans hjá hugmyndaríku fólki sem notar m.a. grilláhöld og strauborð jöfnum höndum líka), dreif sig beint út á svalir ... og mældi. Hann sá síðan nýju bókina eftir Yrsu á stofuborðinu og eftir það átti hún hug hans allan. Ég sagðist vera búin með tvo kafla og væri voða spennt, gæti mælt með henni só far. Tek það fram að sloppurinn minn er fyrst og fremst hlýr, langt því frá sexí, enda bý ég á Íslandi.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.11.2007 | 12:00
Jólaboðinn ljúfi ... tekin í baði ...
Sat með kaffibolla við stofugluggann og beið eftir að baðkerið fylltist. Á meðan ég lá í baði og las Hroka og hleypidóma í kilju notaði einhver tækifærið ... og nú er alhvít jörð, Langisandur er meira að segja gráhvítur. Vissi ekki að eitt stykki sunnudagsmorgunbað hefði svona mikil áhrif. Alltaf gaman að láta koma sér á óvart. Mikið ætla ég út á svalir á eftir og fara í snjókast, jafnvel búa til snjókarl.
Lítið fór fyrir menningarlífinu í gærkvöldi. Fór greinilega of snemma á fætur (til að vernda bakið), kom mér vel fyrir í leisígörl sem ég var búin að koma vel fyrir við glugga, og með kaffibolla í annarri og góða bók í hinni sá ég fram á notalegan laugardag. Því miður sofnaði ég fljótlega og svaf eiginlega meira og minna allan daginn. Hvernig er þetta hægt? Fann fyrir gífurlegri leti erfðaprinsins í gærkvöldi við að hreyfa sig spönn frá rassi og því sleppti ég því að klæða mig og fara að hlusta á Megas. Held meira að segja að það hafi verið pönnukökur í Skrúðgarðinum. Ef ég þekki Skagamenn rétt þá hefur verið vel mætt.
Sigrún Ósk, meðreiðarmær mín í Útsvari, hafði samband og ég held að það væri snjallt að hittast, eins og hún stakk upp á. Stilla saman strengi, æfa svindl og svona.
Það næst illa í þriðja aðilann ... enda bissí maður. Annað en við (broskarl). Sigrún er líka blaðamaður, vinnur í Rvík og býr í næsta nágrenni við himnaríki. Já, heimurinn er lítill.
Hún ber það harkalega af sér að vera gáfnaljósið í hópnum. Hún dirfist þó ekki að þykjast vera sæta manneskjan, það sæti er frátekið ...
Say no more ...
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.11.2007 | 22:41
Mikil menning
Fór í skyndimenningarreisu um miðbæ Reykjavíkur eftir vinnu og er endurnærð á eftir. Ef ég ynni ekki í Reykjavík þyrfti ég ekki að fara þangað næstu mánuðina. Fyrst var það Sólon, efri hæðin, en þar var Pétur Blöndal með útgáfupartí. Eva frænka er í bókinni hans og ég vonaðist til að hitta hana og knúsa svolítið. Hitti í staðinn Nönnu Rögnvaldar og gladdist mjög, alltaf gaman að hitta hana. Pétur sjálfur kom til okkar og gerði sér lítið fyrir og kyssti hana. Ég heimtaði koss og fékk, enda dagur íslenskrar tung ... æ, úps, svona dónaskapur á ekki heima á virðulegri bloggsíðu. Þess vegna hef ég ekki sagt frá því á þessum vettvangi hvernig ég plataði strákana í vinnunni nýlega. Sagði Nönnu að ég myndi mæta í annað svona menningarpartí eftir viku en þá mundi ég ekki eftir Útsvari.
Sjö og hálfri mínútu síðar labbaði ég upp í Menn og málningu en þar voru Guðni Ágústsson og Sigmundur Ernir að kynna nýútkomna ævisögu Guðna. Þar var margt um manninn. Hverjir voru þar? Nú, Adda Steina, Þórir Guðmundsson, Guðni, Sigmundur Ernir, Guðrún og Þorgerður frá Bjarti og við Inga, svo ég telji nú upp þá merkilegustu. Missti því miður af því að koma í fréttum Stöðvar 2 í kvöld frá atburðinum en það munaði aftur á móti mjög litlu að mér tækist að lauma mér inn á ráðherra- og alþingismannamynd á Sólon. Þar voru Þorgerður Katrín, Össur, Sigurður Kári og fleira gott fólk. Össur nikkaði ekki til mín eins og hann hefur alltaf gert síðan við spjölluðum saman fyrir löngu um Evrópusambandið. Þetta var á þáverandi vinnustað mínum og Össur að hitta vin sinn sem vann með mér. Hann ætlaði alltaf að sannfæra mig um nauðsyn þess að við gengjum í Evrópusambandið en sá tími hefur ekki komið og ég verð sífellt meira á móti því ... sem er eins og gefur að skilja alfarið sök Össurar. Ætlaði að brosa sætt til Sigurðar Kára en mundi eftir því á síðustu stundu að litla viðtalið sem ég tók við hann um árið var í gegnum síma.
Á Skaganum verður líka mikil menning á næstunni. Megas mætir í Skrúðgarðinn annað kvöld og Páll Óskar verður með tónleika 1. des. í Bíóhöllinni. Mig langar að mæta á báða atburðina.
Sá þetta í Póstinum, innanbæjarblaði okkar Skagamanna, sem er alltaf lesið í tætlur af öllum. Sjónvarpsdagskráin er þarna en auglýsingarnar eru líka mjög spennandi, í alvöru. Ég gæti fengið gefins hillusamstæðu ef mig vantaði eða hvítan fresskött, 5 mánaða. Þarna eru líka vetrardekk af öllum stærðum og gerðum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
22.11.2007 | 10:41
Dularfulli sendibíllinn sem ók of hægt ...
Heimir sat undir stýri í morgun og var eiginlega furðulostinn á svipinn næstum alla leiðina í bæinn. Farþegar voru nefnilega óvenjufáir, enda frost og Skagamenn kúra margir í kulda og trekki (þess vegna fjölgar okkur svona hratt) og svo ók dularfullur, svartur, skítugur og grunsamlegur sendiferðabíll fyrir framan okkur alla leið niður í Kollafjörð. Heimir, þetta mikla gæðablóð, fór að nöldra þegar við vorum stödd við Grundahverfið því að sendibíllinn hægði þá ferðina niður í 50 km/klst (leyfilegt að vera á 70) og svo gaf hann í og fór upp í 70 þegar við máttum vera á 90. Svona æsir mig alltaf svo upp og ég manaði Heimi til að blikka bílljósunum. Allir vita hvað gerist ef flautað er á annan bíl hér á landi og enginn nennir að standa í slagsmálum svona snemma morguns. Það var skrambi gott að komast fram úr í Kollafirðinum.
Mig grunar nú helst að þetta hafi verið .... byrjaði Heimir. Ég greip fram í fyrir honum. Þú veist að ég drep þig ef þú segir kjéddlíng, sagði ég hörkulega og brýndi kutana í huganum. Heimir hló taugaveiklunarhlátri en lauk setningunni: ...útlendingur! Það datt af mér andlitið og á meðan það skoppaði um strætó útskýrði Heimir að útlendingar gætu verið svo rosalega löghlýðnir, eiginlega einum of og keyrðu stundum of hægt ... sem væri erfitt fyrir strætóbílstjóra sem vildi halda áætlun.
Farþegarnir, fáu en stórhuggulegu, vöknuðu einn af öðrum þegar við nálguðumst heittelskaða höfuðborgina. Hvernig fór leikurinn? spurði Sigþóra þegar við bjuggum okkur undir að kasta okkur út við Vesturlandsveginn. Við erum öll svo náin í Skagastrætó að hún þurfti ekkert að útskýra spurninguna nánar. Þrjú núll fyrir okkur, laug ég blákalt, bara til að gleðja hana, heimurinn er alveg nógu grimmur og nauðsynlegt að búa sér til gleðiefni. Eitthvert karl-óféti leiðrétti þetta áður en ég gat hvesst á hann augun og núna afgreiðir Sigþóra kúnnana sína í Rekstrarvörum eflaust með tárin í augunum og ekka í hálsi.
Ég skalf úr kulda þegar við komum út úr strætó og trúði Sigþóru fyrir því að ég hefði ekki þorað að hjúfra mig upp að sessunaut mínum þar sem hann er karlkyns. Sigþóra sagði mér að hann héti Hlini og væri enginn annar en maðurinn hennar Ástu í bókasafninu! Konunnar góðu sem gerði uppvöxt minn hamingjuríkan með því að kynna mig fyrir fleiri bókum en Enid Blyton skrifaði ... Finnst mikið ævintýri að bókasafnsdrottning æsku minnar, sú sem kynnti mig fyrir t.d. Theresu Charles og Barböru Cartland, myndi ná sér í einn Hlina kóngsson?
Verkjalyfjablandan a la Gunnubúð (sjá komment við síðustu færslu) virkar afskaplega vel. Sjóðheitt bað í gærkvöldi og pillublandan gerðu líklega útslagið og ég er ekki orðin skökk enn þótt ég hafi setið við tölvuna í rúma tvo tíma. Þarf samt að fara að skoða rúm ...
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.11.2007 | 18:36
Flokkar: Sjónvarp, matur og drykkur, bækur
Tónlistarveislan í gær kom í veg fyrir að ég gæti klárað að horfa (hlusta) á boldið en það hefur heilmargt gerst að undanförnu. Barn Bridget fæddist of snemma og dó og í sorginni hefur Bridget loks áttað sig á því að Nick er bara með henni vegna barnsins. Nú gerir hún í því að ýta honum í fang móður sinnar, Brooke. Felicia, sem er að deyja úr krabbameini, var búin að sjá fyrir sér að Nick, sem reyndist vera faðir barnsins hennar, og Bridget tækju að sér Nicholas litla sem myndi þá alast upp með Nichole litlu (sem dó). Bjargvættur Taylor, sem ég man aldrei hvað heitir, átti villta ástarnótt með Feliciu níu mánuðum áður en Nicholas litli fæddist vill láta athuga hvort hann sé mögulega faðir Nicholasar. Felicia má ekki heyra á það minnst. Lengra var ég nú ekki komin. Veit ekki hvar Stefanía er, hún hefur ekkert sést. Hvað þá Amber.
Annars hefur dagurinn verið góður. Erfðaprinsinn viðraði móður sína um kaffileytið og bauð henni með í Skrúðgarðinn. Besti kaffidrykkurinn á staðnum, tvöfaldur latte með 150°F mjólk, hefur nú verið endurskírður, hann heitir ekki lengur Kaffi-Gurrí, heldur Íslensk kjötsúpa. Þetta á víst að vera húmor ... Minnir óneitanlega á bolinn sem Anna vinkona gaf mér eitt sinn með mynd af sjálfri mér og léttmjólk framan á. Myndin var tekin á einu sunnudagskvöldinu hennar á Álftanesi, ég hef án efa drukkið kók það kvöldið. Eftir allt nöldrið í mér um að léttmjólk væri ekki boðleg út í kaffi (bara nýmjólk) var þetta bara gott á mig. María hugsar eins og Anna: refsum nöldurskjóðunni. Þetta er sem sagt síðasta nöldrið mitt! Á morgun hefst nýtt líf, nöldurlaust. Þá fæ ég kannski bol með réttri mjólkurtegund og kaffidrykkurinn fær sitt rétta nafn aftur. Hver biður um kjötsúpu þegar hann langar í latte? Ha, María! Ja, ég pantaði heitt súkkulaði í mótmælaskyni. Verst að María var ekki á staðnum og stelpurnar föttuðu ekkert. Þegar við mættum á staðinn var stund milli stríða, rólegt eftir mikla ös og svo drifum við okkur út þegar allt fór að fyllast aftur. Það veitti sannarlega ekki af því að fá kaffihús á Skagann. Tengingin við strætó (endastöð) er líka snilldarleg.
Lauk við bókina Englar dauðans (eftir Þráin Bertelsson) í dag. Hún er mjög góð; spennandi, sorgleg og óhugnanleg ... og stundum fyndin. Veit ekki hvort Ævar Örn er með krimma núna en ég á Yrsu eftir. Við eigum orðið skrambi góða sakamálahöfunda. Man þegar Leó Löve sendi frá sér spennubók fyrir mörgum árum og sumum fannst bjánalegt að skrifa slíka sögu sem átti að gerast á saklausa landinu okkar. Ja, æsku okkar Íslendinga og sakleysi er greinilega lokið ...
Tók silfurslegna mynd út um gluggann í gærkvöldi og aðra ögn gylltari í kvöld. Bjútífúl!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 44
- Sl. sólarhring: 52
- Sl. viku: 871
- Frá upphafi: 1515966
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 727
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni