Færsluflokkur: Bækur

Sjónvarpseinelti, berdreymni og stressandi frídagar

Hekla í stuðiKiddi kom okkur af öryggi heim á Skagann seinnipartinn og við Sigþóra blunduðum ekkert á leiðinni, heldur spjölluðum af miklu offorsi, enda langt síðan við höfum hist almennilega. Hana dreymdi nýlega að hafnar væru strætósamgöngur milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Skyldi hún vera berdreymin? Sagði henni að þetta vissi ábyggilega á eldgos í Heklu innan 20 daga.

Það verður ansi mikið að gera þessa viku og þá næstu þar sem erfitt er að gefa út vikublöð með fimmtudagsfrídögum, eins og 1. maí, sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og slíkri dásemd, nú veldur þetta bara aukaálagi ... en samt met ég þessa frídaga mikils. Það verður því mikill dúndurvinnudagur heima í himnaríki á morgun.

Svarthvítt sjónvarpSjónvarpið í stofunni er nú svarthvítt sem rifjar upp ljúfar minningar úr æsku þegar horft var með áfergju á Maður er nefndur, Stundina okkar, Dýrlinginn, Forsythe-fjölskylduna, Onedin-skipafélagið og stillimyndina. Allt jafnskemmtilegt! Litur prýðir aftur á móti gamla tækið í vinnuherberginu. Þetta sjónvarpseinelti í himnaríki er örugglega engin tilviljun, var ekki vika bókarinnar að hefjast? Kláraði reyndar tvær bækur um helgina og byrjuð á enn einni sem er hrikalega skemmtileg og heitir Kuðungakrabbarnir, eftir sama höfund og Berlínaraspirnar.


Bókmennta- og fótboltablogg

lackbergAfar girnileg bók beið mín í póstkassanum í gær. Útgáfan á Akranesi (Uppheimar) sendi mér nýjustu afurð Camillu Läckberg, Steinsmiðinn. Ég byrjaði á henni í gærkvöldi og var strax mjög spennt en þurfti því miður að sofa í nótt ... las svo í dag fram að næstu truflun sem var leikur Manchester United-Arsenal heima hjá Míu systur. Er þó komin á bls. 383 af 444 svo hún klárast á eftir. Hrikalega spennandi og skemmtileg bók!

Arsene hjá Arsenal ...Er að pæla, ætli þjálfara Arsenal hafi verið gert að skipta um nafn þegar hann tók við liðinu á sínum tíma? 

Leikurinn fór að óskum fyrir MU-fólk og eiginlega fleiri því völvan okkar á Vikunni sagði í desember sl. að MU myndi sigra í úrvalsdeildinni nú í vor. Það væri flott að geta grobbað sig af því. Annars væri mun smartara ef Vikan héldi með Wigan. Hún sagði meira um fótbolta ... ma.a. að Valur og ÍA myndu berjast um fyrsta sætið hér! 


Aðallega bókablogg ...

Úlli kokkur skutlaði mér í Mosó um hálffimmleytiðog þar beið Heimir spenntur eftir því að fá að keyra okkur á Skagann. Í vagninum voru án efa nokkrar hetjur morgunsins sem létu sig hafa það að fara í vinnuna í Reykjavík þrátt fyrir að hafa lent í árekstrinum. Maðurinn sem sat fyrir aftan mig sagðist hafa fengið glerbrotadrífu yfir sig . Hann greiddi sér til öryggis þegar hann kom í vinnuna til að ná restinni. Skrýtið að fréttastofa Stöðvar 2 telji þetta ekki fréttnæmt ... ég er að horfa á kvöldfréttirnar.

Áður en ég deyÉg byrjaði á nýrri bók í strætó, Áður en ég dey, heitir hún. Ég er bara komin á bls. 56 en samt táraðist ég tvisvar. Þetta er ekki góð strætóbók. Það gengi nú ekki ef Tommi, Heimir, Gummi eða Kiddi þyrftu sífellt að vera að stoppa strætó til að hugga mig. Bókin fjallar um 16 ára stelpu sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og á aðeins nokkra mánuði ólifaða. Stelpan er frekar kúl á þessu en ég þjáist svo með pabba hennar sem er á afneitunarstiginu. Það eiga án efa eftir að renna ansi mörg tár áður en kemur að bls. 332.

Ég kláraði Strákurinn í röndóttu náttfötunum í strætó í fyrradag, hún var líka mjög áhrifamikil en öðruvísi. Hún er ekki enn farin út úr hausnum á mér ...  ógleymanleg í einfaldleika sínum. Hún segir frá Bruno, níu ára þýskum dreng í síðari heimstyrjöldinni, sem gerir sér ekki grein fyrir helförinni þótt pabbi hans sé greinilega háttsettur Gestapo eða SS-maður. Hann flytur með fjölskyldu sinni til „Ásviptis“ og kynnist jafnaldra sínum sem er alltaf svo svangur, gengur í röndóttum náttfötum og býr hinum megin við gaddavírsgirðingu. Þau kynni hafa vægast sagt afdrifaríkar afleiðingar ...

Nokkrir Norrisar að lokum:

Norris DodgeBall- Chuck Norris kastar ekki upp ef hann drekkur of mikið. Chuck Norris kastar niður.
- Það er líffræðilega ómögulegt að Chuck Norris eigi dauðlegan föður. Vinsælasta kenningin er sú að hann hafi farið aftur í tímann og gerst eigin faðir.
- Chuck Norris getur dæmt bók af kápunni.
- Biblían hét upphaflega Chuck Norris og vinir.
- Chuck Norris hefur 12 tungl. Eitt þeirra er Jörðin.
- Chuck Norris malar kaffið sitt með tönnunum og sýður vatnið með eigin bræði.

- Chuck Norris notar lifandi skröltorma sem smokka.


Allt æði þrátt fyrir stólasorgir og strætóbílstjóramóðganir

Kjalarnes í morgunÞað blés og hvein í himnaríki í morgun og eftir að hafa dáðst að fallegu konunni í speglinum dágóða stund kíkti ég á vef Vegagerðarinnar. Hviðurnar voru rétt um 30 m/sek og þegar Gummi (14) bílstjóri hleypti okkur inn í vagninn sagði hann kvikindislega að hviðurnar væru í kringum 34 m/sek. Frekar mikið ýkt, eflaust til að fá okkur til að skrækja. Over mæ dedd boddí. Svo tókst honum að móðga mig hárfínt og ekki í fyrsta sinn á einum sólarhring. Hvort tveggja svona offitusjúklingsmóðgun. Ég sagði nefnilega hughreystandi við hann í morgun að ég skyldi gera mig rosa þunga svo strætó fyki ekki út af á Kjalarnesinu. Gummi svaraði: "Já, það er flott að hafa þig svona framarlega" (addna 500 kílóa sandpokinn þinn). Kannski var hann bara að taka undir djókinn ... veit það ekki. http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/vesturland/linurit/st036.html Vona bara að það verði fært seinnipartinn. Strætó gengur örugglega ekki núna.

EkkiSjonAdSJAÞað var algjört þriggja trefla veður í morgun, lítill, röndóttur eftir Gunndísi, þar yfir blár venjulegur og svo fjólublátt sjal yfir allt saman. Ég skalf ekki úr kulda á leiðinni sem fólk hefði getað misskilið sem hræðslu þegar hviðurnar þeyttu okkur á milli akreina. Skömmu fyrir komu í Kollafjörð mættum við risatrukkum og þótt Gummi færi hægt rykkti vel í strætó. Óhljóðin sem heyrðust í vindinum minntu á skerí hljóð í geimverumyndum. Ég náði ekki upp neinni hræðslu, heldur reyndi að dorma. Ég var sybbin, enda er ég að lesa geggjaða nýja bók eftir Robert Goddard, Ekki sjón að sjá, heitir hún. (Bókin Horfinn, eftir hann kom út í fyrra og var alveg frábær.) Tveggja ára stelpu er rænt og sjö ára systir hennar verður fyrir bíl ræningjanna og deyr. Ungur doktorsnemi er vitni að atvikinu. Löggan sem rannsakar málið er ekki sáttur við útkomuna og löngu seinna, þegar hann er kominn á eftirlaun, berst honum bréf sem fær hann til að rannsaka það aftur á eigin vegum ... með hjálp doktorsnemans. Lagði bókina nauðug frá mér kl. 1 í nótt, vissi að það yrði djöfullegt að vakna um sjöleytið og það reyndist rétt!

Stóllinn minn friðlausiSölumaðurinn á góðri stund"Yndislegi" kvöldsölumaðurinn sem Guðný á Króknum hrelldi nýlega í símanum sat greinilega í sæti ritstjórans míns þá, þar fundust skilaboð frá henni með bestu kveðju. Þegar ritstjórinn minn settist í morgun var stóllinn hennar reyndar allur laus og hún hrapaði næstum á gólfið. Stólamálin við borðið mitt voru enn hryllilegri. Gamli stóllinn hennar Steingerðar var orðinn lægri en áður og stólbakið hallaði aftur, eitthvað sem ég hélt að væri ekki hægt að gera nema að handleggsbrjóta sig. Nú, svo var svarti stóllinn minn (sem ég hafði fært fjær borðinu og sett Steingerðarstól í staðinn) kominn nær borðinu og búið að fikta all rosalega í stillingunni. Hann var svona laflaus eins og stóll ritstjórans. Það er ekki þægilegt þegar búið er að leggja fyrir mann dauðagildru ... krota á símasnúruna með penna (hún er viðbjóðslega subbuleg) og fleiri óknytti. Það dugir ekki einu sinni fyrir mig að fylla allt af drasli til að fæla sölumennina frá, þeir ýta því bara til hliðar, setjast og upphugsa fleiri og verri gildrur fyrir okkur. Sem sagt báðir stólarnir úr lagi gengnir í morgun og ég fann fyrir sjaldgæfum pirringi eitt augnablik. Þeir eru duglegir að selja, þess vegna eru þeir enn uppistandandi!

Dagurinn er samt frábær, jafnvel þótt það verði fokkings silungur í matinn í hádeginu. (NannaR, reyndu ekki að verja þennan mat, það er "smámunur" á eldamennsku þinni og sumra annarra).


Dyggð undir dökkum hárum

Malmö í SvíþjóðStór hluti samstarfsfólksins flýgur til Svíþjóðar í fyrramálið, á árshátíð. Þetta var frekar klikkaður dagur í dag, bæði annasamur og villtur (vegna leynivinaleiksins) og í stað þess að hanga í vinnunni fram á kvöld tók ég ólesnar síðuprófarkir með mér í strætó og leitaði að villum, röngum skiptingum á milli lína og slíku á heimleiðinni. Birtan úti gerir þetta mögulegt og mjúk keyrsla ókunna strætóbílstjórans sem ég kalla í huganum Gumma II.

Það var ansi gaman að sjá fögnuðinn og kossana þegar fólk komst að því hverjir átti hvaða leynivin/i. Ég fékk sætan koss frá hinni yndislegu Kolbrúnu Pálínu, blaðamanni á DV, og ekki síðri frá Helgu minni, prófarkalesara og ástkærri bloggvinkonu. Veit núna að ég hefði ekki þurft að rembast jafnmikið að hafa gjafirnar til þeirra svona ólíkar, þær sitja ekki nálægt hvor annarri og hefðu ekkert fattað.  

IntensityÍ morgun var svooooo hvasst á leiðinni í bæinn, hviður í kringum 32 m/sek á Kjalarnesi og til að lifa af þennan hrylling hellti ég mér ofan í lestur hryllingsbókar eftir Dean Koontz, það var mun skárra að gleyma sér yfir morðóðum djöflum en upplifa strætó hristast og skjálfa. Heimir fór létt með að koma okkur heilum á húfi í Mosó!

Annað: Það lítur út fyrir gott sjónvarpskvöld ...

                        Kl. 20.15 Gettu betur á RÚV.
                        Kl. 21.00 Life á SkjáEinum.
                        Kl. 22.15 ReGenesis á Stöð 2.
                        Kl. 23.15 Anna Pihl á RÚV.

P.s. Var andlaus í sambandi við fyrirsögn, man eftir þessari sem bókatitli í eldgamla daga!


Af hryllingsbók og kynfræðslu ...

MunkurÞað gengur bara vel að lesa hryllingsbókina eftir Dean Koontz.  Sagan gerist í klaustri og  þegar fjórðungur er búinn af henni er aðeins búið að myrða einn munk. Ekkert annað í sögunni minnir þó á Nafn rósarinnar. Finnst mjög líklegt að tala fallinna eigi eftir að hækka nokkuð ef ég þekki minn mann rétt. Það er orðið svo bjart að hægt er að lesa í strætó á leiðinni heim og það notfærði ég mér óspart í gær á heimleið. Kann ekki við, svona eftir að Spölur lækkaði gangnagjaldið um heilar 100 krónur, að fara fram á meiri lýsingu þar, svona hliðarlýsingu í göngunum. Það væri samt snjöll hugmynd. Svo gæti ég slökkt á þeim með hugarorkunni ef ég vildi dorma ... Odd Thomas er skemmtileg sögupersóna, ungur maður sem býr yfir hæfileikum/náðargáfu sem örfáir í klaustrinu vita um. Hann sér meira en aðrir og veit alltaf þegar hætta er á ferðum. Hann sér "dedd pípúl" og einn af þeim sem hann sér reglulega er Elvis, kóngurinn sjálfur. Jamm, hljómar undarlega. Eftir að Stephen King gerði trúverðugt í einni bóka sinna þegar gosdrykkjasjálfsali tókst á loft og myrti fólk er ég opin fyrir ýmsu. Það tengdist að vísu geimverum og þeim er fátt ómögulegt ...

-   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -  

 

Þrír ungir piltar fengu lélegar einkunnir í kynfræðslu. Jói fékk D+, Gummi D- og Nonni fékk F.
„Einn daginn fær tíkin sko að finna fyrir því,“ sagði Jói bálreiður og var að tala um Guðríði kennara.
„Já, við náum henni og klæðum hana úr öllum fötunum,“ sagði Nonni.
„Já, og svo skulum við sparka í punginn á henni,“ sagði Gummi.


Hafið, heilbrigðiskerfið, matur og bókmenntir ...

Sjórinn í stuði feb 2008Sjórinn hefur verið afar fallegur í gær og í dag. Sæmilega voldugar öldur sem þó hafa ekki lokkað olíuborna, vöðvastælta brimbrettamenn hingað á Langasandinn. Skrýtið!
Fuglarnir stríða Kubbi og Tomma út í eitt, flögra í stórum hópum, stefna kannski beint á glugga himnaríkis en beygja á síðustu stundu og setjast á þakið. Borga þeim í brauði fyrir skemmtunina.

Röntgenmyndatakan gekk vel í morgun og ég fór ekkert að gráta ... þegar ég fékk reikninginn. Eftir hryllingssögur af sjálfstæðum læknastofum þar sem fólk borgar 20.000 fyrir aðgerð og er fleygt út um leið og það getur staulast á fætur býst maður við öllu illu. Ekki hér á Skaga. Tók innanbæjarstrætó báðar leiðir og fer ekki ofan af því að fólk er farið að nýta sér hann miklu meira núna en það gerði fyrir tveimur árum þegar ég flutti hingað.  

Fóður og fjörNú er elsku „Fóður og fjör“ farið á fullt og hafa undanfarnar helgar, seinnipartar og kvöld verið frekar undirlögð af þessu skemmtilega verkefni (að gera Fóður og fjör sýnilegt). Ég hef verið í sambandi við nokkra af þessum elskum, hótelum og veitingastöðum á landsbyggðinni, og get ekki beðið eftir því að bíll erfðaprinsins komist í lag til að rjúka út á land, hitta þá og borða eitthvað ... hollt, að sjálfsögðu! Ég hvet alla bloggvini mína á landsbyggðinni til að nýta þetta frábæra tækifæri til að lífga upp á skammdegið. Food & Fun í Reykjavík er æðisleg hátíð en alls staðar þar er allt upppantað með löngum fyrirvara og þannig hefur það verið síðustu árin. Ég var búin að lofa erfðaprinsinum að bjóða honum í mat um helgina á Hótel Hamar eða Landnámssetrið í Borgarnesi eða Hótel Glym í Hvalfirði en það verður að bíða. Vonandi tekur Galito hér á Skaganum þátt á næsta ári! Vér Skagamenn kunnum að meta svonalagað!!!

Brother Odd bókinByrjaði á Brother Odd-bókinni á meðan ég beið eftir að komast í myndatökuna og hún virkar bæði ógnvekjandi og hryllileg ... eins og hún á að gera. Svona hryllingsbækur nenni ég að lesa á ensku, annað vil ég helst hafa á ástkæra, ylhýra móðurmálinu. Held að ég sé búin að lesa flestar bækur Dean Koontz og dáist innilega að hugmyndaflugi hans, sama segi ég um Stephen King. Var kannski frekar óheppin með fyrstu Stephen King-bókina, Gæludýrakirkjugarðinn, hún var soldið ógeðsleg.  Lánaði einu sinni Kollu Bergþórs bókina The Dark Half eftir hann, bók sem ég var reyndar ekki búin að lesa sjálf, og henni fannst hún svo ógeðsleg að hún fleygði henni, búin að gleyma að hún átti hana ekki sjálf. Tók mark á Kollu og hef ekki reynt að nálgast þessa bók, harðneitaði að taka við skaðabótum frá henni, fannst eins og hún hefði unnið hálfgert skítverk fyrir mig með því að lesa hana


Blikkandi bílstjórar og þessi einka í fríi ...

Við spegilinn í morgunÞað liggur við að ég bjóði sjálfri mér gott kvöld þessa síðustu morgna þegar ég horfi á fagra ásýnd mína í speglinum, útsofna og bara ansi hrukkulausa, undir hálfátta. Önnur strætóferð dagsins frá Akranesi (kl. 7.41) fer að verða vani hjá mér. Ég blikkaði Tomma á Kjalarnesinu þegar hann var að koma frá því að flytja 6.41-hetjurnar til höfuðborgarinnar. Held að hann hafi ekki séð það, líklega blikkaði hann ljósunum á strætó á móti til heiðurs Gumma bílstjóra. Við vorum ekki nema 10-15 hræður að þessu sinni, afar óvenjulegt ... líklega er föstudagur í fólki og einhverjum (mörgum) hefur tekist að lengja helgina. Yfirleitt er rútan full í þessari ferð, eins og þeirri fyrstu.

Föstudagarnir eru yfirleitt ansi annasamir í vinnunni og ekki kom fimm mínútna pása til að blogga. Þegar ég tek fyrsta strætó dagsins er ég komin svo snemma í vinnuna, eða um miðja nótt, og byrja á að henda inn bloggi og svo er ég bara glaðvöknuð og helli mér í vinnu á eftir með kaffi í annarri og fjaðurpennann í hinni. Maður er ekkert nema vaninn.

Ásta í sólarlöndumDagurinn í dag gekk mjög vel og á sekúndunni 17.03 fór ég yfir til Sko, hinum megin við bílaplanið, þar sem elsku Erla perla beið, hún var á leið á Skagann og leyfði mér að sitja í. Það var unaðslegt að keyra þessa leið í birtu, það er svo stutt síðan allt var dimmt á þessum tíma.

Ásta fór í afmælisferð til útlanda, eflaust heimsreisu, hún er búin að vera svo lengi, kannski eins gott, afmælisgjöfin sem ég ætlaði að kaupa handa henni er uppseld í bili. Annars finnst mér mjög dularfullt að ég var ekki fyrr búin að kaupa smábensín á bílinn hennar þegar hún lagðist í flensu og í kjölfarið hvarf hún til útlanda. Mér finnst líklegt að hún flytji af Skaganum til að hún þurfi ekki að afplána að verða samferða á bílnum, kannski er hún horfin úr þjóðskrá ... sumir sem ég þekki fara offari í því að láta sig hverfa. Ég komst nýlega að því að gamall, náinn vinur minn, Símon Arngrímur Sigurhjartarson, heitir nú John Smith og er skáður „í útlöndum“. Eins og nálgunarbannið hefði ekki dugað.

Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa nýja, íslenska, blóðuga fjöldamorðingjaspennusögu. Mér tekst líklega að klára hana í kvöld ... man ekki hve margir liggja nú þegar í valnum en ég trúi ekki öðru en að enn fleiri morð verði framin fyrir bókarlok.


Misst af strætó ...

cartman_chFall er kannski fararheill, ég ætla rétt að vona það og þá er ég að hugsa um ævintýri kvöldsins sem verða á dagskrá RÚV um áttaleytið í kvöld. Núna í morgun um kl. 6.44 þegar ég hljóp út á stoppistöð sá ég að allt var tómt og mátti ég standa þar alein í ábyggilega 10 mínútur ... Loks rann upp fyrir mér ljós, ég hafði misst af vagninum í fyrsta skipti síðan sögur himnaríkis hófust. Strætó leggur af stað frá Skrúðgarðinum 6.41 og er ansi fljótur á leiðinni á Garðabrautina, þeir hangsa ekkert þessir bílstjórar, fj ... stundvísin alltaf að drepa þá. Ég var náttúrlega fáránlega syfjuð í morgun og miðað við umfang morgunverka (ég er ekki að segja að ég sé feit) þá voru þessar tíu mínútur sem ég gaf mér frá því haus var rifinn frá kodda ekki nægur tími. „Það þurfti að setja nýja jakkann í poka, nei, annars, ég fer bara í þessum, hann er ekki jafnmikill Cartman-jakki þótt hann sé stuttur, ætli ég hafi tíma til að gera mér latte, nei, líklega ekki. ..“. Svona flögruðu greindarlegar hugsanir um í fagurlega mótuðum kollinum.

Nú fer ég bara „næstu ferð“ með Gumma bílstjóra alla leið í Mosó. Eins gott að ég kláraði öll mín verkefni heima í gærkvöldi í rólegheitunum. Átti eftir að ljúka við að lesa bókina Aðgerð Pólstjarnan til að skrifa um hana ... hún olli sannarlega engum vonbrigðum. Frábært að fá heila bók um mál sem enn er heitt ... og ég verð að segja annað, rosalega er ég hreykin af löggunni okkar! Bókin er samt ekkert skrifuð til dýrðar henni, staðreyndir tala bara sínu máli. Flott, Ragnhildur ... og þetta var ekki smjaður til að Ísafjarðarliðið leyfi Skagaliðinu að sigra, sei, sei, nei ... Jæja, er komin með rugluna og bara 10 mínútur í að „næsti strætó“ fari frá Skaga, ég ætla EKKI að missa af honum.


Annasöm Þorláksmessa - partí og sönn íslensk íkveikjusaga

Þorláksmessa 2007 ÁlftanesÞegar loks tókst að drösla erfðaprinsinum á fætur um hálftvöleytið var haldið í bæinn með fjölda jólagjafa handa vinum og vandamönnum. Gerð hafði verið nokkuð stíf áætlun til að komast í skötupartíið kl. 18 á Akranesi. Það var frámunalega bjánaleg bjartsýni. Við vorum ekki komin heim fyrr en undir níu í kvöld.

Við byrjuðum á Álftanesi hjá Önnu og einni bloggvinkonu sem fékk rósavönd og knús og enduðum í Efstasundi. Ja, og komum svo við í Mosó á heimleiðinni með pakka handa vinkonu Hildu af því að við erum svo góð. Mikið var gaman að hitta alla ... nema Inger, hún var ekki heima. Vona að hún sé á landinu, pakkinn hangir á húninum á útihurðinni.
Ég þarf greinilega að koma mér upp vinum/ættingjum í einu póstnúmeri í stað 101, 105, 107 108, 109, 170, 200, 220, 225. Það myndi einfalda allt afskaplega mikið. Hvernig væri að flytja í 300, elskurnar?

Þorláksmessuboð 2007 hjá NönnuÞorláksmessupartíið hjá Nönnu var algjör snilld og ekki skemmdi fyrir að hitta elsku, elsku Steingerði og Gumma sem sátu þarna og úðuðu í sig kræsingum. Það var heldur ekki amalegt að spjalla við einn uppáhaldsrithöfundinn sinn, Ævar Örn Jósepsson. Fjölskylda Ævars bjó í Stykkishólmi um svipað leyti og fjölskylda mín (1959-1961). Mía systir lék sér oft við stóru systur Ævars. Mamma Ævars, sem var þarna líka sagði mér sjokkerandi sögu þegar kviknaði í heklaðri dúllu á eldavélinni heima hjá henni, systir Míu, miðsystirin sjálf, kveikti víst á hellunni í óvitaskap. Áður en ég vissi af var ég búin að viðurkenna að ég hefði verið þessi miðsystir. Ævar náttúrlega trylltist og skammaði mig fyrir að reyna að brenna ofan af fjölskyldu hans og næstum því verða til þess að hann yrði ekki til. Ég reyndi að afsaka mig með því að segja að ég hefði bara verið eins árs en mamma Ævars leiðrétti það og sagði að ég hefði reyndar verið tveggja ára! Frumlegar baðgardínur við Hverfisgötu„Ekkert reyna að sleppa svona létt að þykjast hafa verið ársgömul,“ sagði Ævar hvasst. Í næstu spennusögu hans verður örugglega einhver lúmskur brennuvargur að nafni Gurrí.

Snittu- og lattepartíið hjá Breiðholtshataranum var líka æðislegt þótt ég stoppaði bara í 10 mínútur. Ég hreifst svo af baðgardínunum hjá honum að ég gat ekki stillt mig um að taka mynd af þeim. Baðglugginn minn er reyndar þríhyrndur, hentar kannski illa og svo er ekki biluð umferð framhjá himnaríki, eins og hjá B-hatarnum sem býr við Hverfisgötuna. Hann langar víst ekki til að strætófarþegar horfi á hann í sturtu eða við aðrar athafnir, held ég. Ekki eru allir svona forsjálir en eina ástæðan fyrir því að ég tek alltaf strætó er sú að mér finnst svo gaman að sjá inn um baðgluggana hjá sætum mönnum. Ekki það að B-hatarinn sé sætur.

Þetta var góður dagur ... en rosalega er ég þreytt. Það var svo gott að koma heim í himnaríki, fara í hlýja viðhaldið (sloppinn) og setjast aðeins í leisígörl. Svo koma bara jólin á morgun!   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 146
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2473
  • Frá upphafi: 1457743

Annað

  • Innlit í dag: 134
  • Innlit sl. viku: 2059
  • Gestir í dag: 132
  • IP-tölur í dag: 131

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband