Allt æði þrátt fyrir stólasorgir og strætóbílstjóramóðganir

Kjalarnes í morgunÞað blés og hvein í himnaríki í morgun og eftir að hafa dáðst að fallegu konunni í speglinum dágóða stund kíkti ég á vef Vegagerðarinnar. Hviðurnar voru rétt um 30 m/sek og þegar Gummi (14) bílstjóri hleypti okkur inn í vagninn sagði hann kvikindislega að hviðurnar væru í kringum 34 m/sek. Frekar mikið ýkt, eflaust til að fá okkur til að skrækja. Over mæ dedd boddí. Svo tókst honum að móðga mig hárfínt og ekki í fyrsta sinn á einum sólarhring. Hvort tveggja svona offitusjúklingsmóðgun. Ég sagði nefnilega hughreystandi við hann í morgun að ég skyldi gera mig rosa þunga svo strætó fyki ekki út af á Kjalarnesinu. Gummi svaraði: "Já, það er flott að hafa þig svona framarlega" (addna 500 kílóa sandpokinn þinn). Kannski var hann bara að taka undir djókinn ... veit það ekki. http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/vesturland/linurit/st036.html Vona bara að það verði fært seinnipartinn. Strætó gengur örugglega ekki núna.

EkkiSjonAdSJAÞað var algjört þriggja trefla veður í morgun, lítill, röndóttur eftir Gunndísi, þar yfir blár venjulegur og svo fjólublátt sjal yfir allt saman. Ég skalf ekki úr kulda á leiðinni sem fólk hefði getað misskilið sem hræðslu þegar hviðurnar þeyttu okkur á milli akreina. Skömmu fyrir komu í Kollafjörð mættum við risatrukkum og þótt Gummi færi hægt rykkti vel í strætó. Óhljóðin sem heyrðust í vindinum minntu á skerí hljóð í geimverumyndum. Ég náði ekki upp neinni hræðslu, heldur reyndi að dorma. Ég var sybbin, enda er ég að lesa geggjaða nýja bók eftir Robert Goddard, Ekki sjón að sjá, heitir hún. (Bókin Horfinn, eftir hann kom út í fyrra og var alveg frábær.) Tveggja ára stelpu er rænt og sjö ára systir hennar verður fyrir bíl ræningjanna og deyr. Ungur doktorsnemi er vitni að atvikinu. Löggan sem rannsakar málið er ekki sáttur við útkomuna og löngu seinna, þegar hann er kominn á eftirlaun, berst honum bréf sem fær hann til að rannsaka það aftur á eigin vegum ... með hjálp doktorsnemans. Lagði bókina nauðug frá mér kl. 1 í nótt, vissi að það yrði djöfullegt að vakna um sjöleytið og það reyndist rétt!

Stóllinn minn friðlausiSölumaðurinn á góðri stund"Yndislegi" kvöldsölumaðurinn sem Guðný á Króknum hrelldi nýlega í símanum sat greinilega í sæti ritstjórans míns þá, þar fundust skilaboð frá henni með bestu kveðju. Þegar ritstjórinn minn settist í morgun var stóllinn hennar reyndar allur laus og hún hrapaði næstum á gólfið. Stólamálin við borðið mitt voru enn hryllilegri. Gamli stóllinn hennar Steingerðar var orðinn lægri en áður og stólbakið hallaði aftur, eitthvað sem ég hélt að væri ekki hægt að gera nema að handleggsbrjóta sig. Nú, svo var svarti stóllinn minn (sem ég hafði fært fjær borðinu og sett Steingerðarstól í staðinn) kominn nær borðinu og búið að fikta all rosalega í stillingunni. Hann var svona laflaus eins og stóll ritstjórans. Það er ekki þægilegt þegar búið er að leggja fyrir mann dauðagildru ... krota á símasnúruna með penna (hún er viðbjóðslega subbuleg) og fleiri óknytti. Það dugir ekki einu sinni fyrir mig að fylla allt af drasli til að fæla sölumennina frá, þeir ýta því bara til hliðar, setjast og upphugsa fleiri og verri gildrur fyrir okkur. Sem sagt báðir stólarnir úr lagi gengnir í morgun og ég fann fyrir sjaldgæfum pirringi eitt augnablik. Þeir eru duglegir að selja, þess vegna eru þeir enn uppistandandi!

Dagurinn er samt frábær, jafnvel þótt það verði fokkings silungur í matinn í hádeginu. (NannaR, reyndu ekki að verja þennan mat, það er "smámunur" á eldamennsku þinni og sumra annarra).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þeir eru svoooo duglegir, þessar elskur, þess vegna læt ég bloggnöldur og stöku minnismiða til þeirra fylgja.

Guðríður Haraldsdóttir, 13.3.2008 kl. 13:44

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

ekki fylgja ... heldur nægja.

Guðríður Haraldsdóttir, 13.3.2008 kl. 13:46

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, hvernig bragðaðist fokkings silungurinn?  Þessi 14 ára bílstjóri kann enga mannasiði enda ungur að árum

Knús og klemm

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.3.2008 kl. 13:59

4 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Ég sagði ekki eitt einasta orð ...

Ég held ég hafi aldrei boðið þér í silung (allavega ekki í mörg mörg ár) því að ég veit alveg að þú kannt ekki gott að meta. Nema bara sumt sko.

Hmmm, kannski ég hafi bara silung næst þegar ég býð þér í mat. 

Nanna Rögnvaldardóttir, 13.3.2008 kl. 15:18

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hefði viljað fá fokkings silung nammi namm, annars var ég að heyra að það er óveður á Kjalarnesi, vertu bara kjurr í vinnunni og hrekktu svo fjandans sölumannsdýrið, hann beri greinilega enga virðingu fyrir sætinu þínu. 

Ásdís Sigurðardóttir, 13.3.2008 kl. 15:35

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jú, elskan, ég hef smakkað silung hjá þér og fannst hann fínn. Annars er hetjuskapur hjá mötuneytinu að bjóða upp á slíkan mat sem silung! Fólk var himinsælt með matinn, líka silunginn og sumir sögðu að þetta hefði verið besti matur í sögu mötuneytisins. Grænmetisrétturinn, sem ég fékk mér, var grænmetisburrító með hvítlaukssósu ... en ég fékk mér líka bragðsterka chili-sósu sem átti reyndar að vera með fiskinum, held ég. Sé eftir að hafa ekki smakkað í þetta skiptið, gerði það síðast og var ekki ánægð.

Vona Jenný að þú sért ekki orðin rugluð vegna mismunandi aldurs Gumma.  Ég veit ekkert hvað hann er gamall. Hann er ungur miðað við elsta mann heims og gamall miðað við erfðaprinsinn.

Guðríður Haraldsdóttir, 13.3.2008 kl. 15:38

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ásdís, það væri rosalega gaman að verða eftir, athuga hver sest í sætið mitt og lesa honum svo pistilinn, rólega en ákveðið, svona eins og Stefanía í boldinu við Brooke. Hehehhehe

Guðríður Haraldsdóttir, 13.3.2008 kl. 15:39

8 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég borðaði keilu í hádeginu en hefði líka þegið silung. Vona að þessi sölumannsólánsóféti fari að slasa sig á stólnum mínum.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.3.2008 kl. 15:39

9 Smámynd: www.zordis.com

Silungur er lostæti, namm namm!  Þú átt við ýmislegt að stríða og ég segi nú bara einsgott að þeir selji, elskulegir sölumennirnir!

Þú ert s.s. að eta comida mexicana todos los días querida!  Dag eftir dag alveg ..... knús í veðrið !

www.zordis.com, 13.3.2008 kl. 16:11

10 identicon

teiknibólur í stólanna

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 17:11

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hún hljómar ótrúlega girnileg þessi bók. Þarf að verða mér úti um hana.

Lemja bílstjórann!

Jóna Á. Gísladóttir, 13.3.2008 kl. 21:31

12 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

...hefur þér dottið í hug að skrúfa stólinn lausan áður en þú ferð heim á kvöldin? Þú veist - auga fyrir auga, skrúfu fyrir skrúfu...

Hrönn Sigurðardóttir, 13.3.2008 kl. 22:50

13 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er uppalinn af góðri konu, því hef ég ungva þörf á því að úttala mig um að ég hefði á skotspónum heyrt þá kviksögu að fullvaxnar konur væru eiginlega grundvöllur fyrir almannasamgöngum 'mínímí' strædóa upp á Skipaskaga.

Til að staðfesta þessa persónulegu persónugreiníngu, þá ýti ég ekki á 'senda' takkann, í enda þessarar athugasemdar.

Steingrímur Helgason, 14.3.2008 kl. 00:52

14 Smámynd: Tiger

  Vandræðagangur alltaf á þessum sölumönnum. Er ekki hægt að útbúa aðstöðu handa þeim í kjallaranum eða einhverri kompunni svo þeir sjái dótið ykkar í friði? Annars væri kúlt að prufa það sem Hrönn lagði til: Auga fyrir auga, skrúfa fyrir skrúfu.. lýst slatta vel á þá hugmynd. Knús í himnaríki.

Tiger, 14.3.2008 kl. 03:00

15 Smámynd: Söngfuglinn

Hæ sjálf nýi bloggvinur.  Stabat Mater sem við fluttum er eftir John Speigh og var samið sérstaklega fyrir Vox Feminae og frumfluttum við hann í Háteigskirkju síðastliðið haust og tókum hann svo aftur núna. Ótrúlega magnað verk og aldrei að vita nema þú fáir að njóta hans einhverntíman...

Söngfuglinn, 14.3.2008 kl. 10:03

16 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Kristín Katla Árnadóttir, 14.3.2008 kl. 10:27

17 identicon

Goddard er góður! Við erum í sömu stöðu með Ekki sjón að sjá (Sight unseen). Kemur niður á nætursvefninum

Stefán V. (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 67
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 2184
  • Frá upphafi: 1456134

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 62
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband