Færsluflokkur: Bækur

Með Arnald í bláum plastpoka

Við Kjalarnes kl. 17.05 í dagÞað bærðist varla hár á höfði okkar Ingu á leiðinni á Skagann rétt fyrir fimm, kannski af því að við sátum inni í lokuðum bíl. Við göngin mættum við svo miklum fjölda bíla að við héldum að það væri verslunarmannahelgin. Nei, þá höfðu tveir risabílar, þungfærir og hægir, ekið löturhægt í gegnum göngin og safnað öllum bílunum á eftir sér. Þeir voru eins og hoppandi beljur sem verið var að hleypa út í fyrsta sinn eftir veturinn. Tók mynd þar sem við vorum fyrir aftan strætó á Kjalarnesinu í dag. Þarna beygir þessi elska inn í hverfið (örugglega Elli) og hann mætir senn vagninum frá Akranesi, kannski Tomma?

Með okkur í för var nýja bókin hans Arnaldar í bláum plastpoka og nú skal lesið ... mig langar ótrúlega mikið til að klára hana í kvöld. Held að erfðaprinsinn muni gera allt til að halda mér að lestri svo að hann geti dottið í hana á morgun. Bókin byrjar vel og fyrsta (kannski eina) morðið komið ... eða mig grunar að það sé morð þótt það sé látið líta út fyrir að vera annað ...

Sá svo að hviðurnar voru komnar í 33 m/sek (úr 27) þegar Inga hélt í bæinn aftur. Strætó gengur ekki í slíkum rokum. Vona að það verði rólegheitaveður í fyrramálið þegar ég tek strætó ... í fyrsta eða annað skiptið þessa vikuna. Þetta heitir strætóvanræksla! Allt Ástu að kenna ...

Svona veður á allraheilagramessu veit á kaldan og íhleypingasaman vetur.


Mergjaður dagur ...

Ekki barði ég Ástu í morgun eins og ætlunin var vegna rangra (litaðra) upplýsinga hennar um Britneyju og Kevin í gær. Hún sagðist samt ætla að halda með Britneyju þar sem stelpugreyið væri bara firrt eftir alla frægðina og ásókinina ... sem er nú fallega hugsað. Nú veit hún hið sanna í málinu. Æ, mikið eru heimsmálin flókin. Best að brjóta ekki litla heilann minn frekar um slíkt ...

Falleg mynd á fimmtudegiÞetta verður kolvitlaus dagur og þá er ég ekki bara að tala um storminn sem skellur á suðvestan- og vestanlands eftir hádegi í dag, heldur verður klikkað að gera í vinnunni. Ég hefði getað klárað sitt af hverju heima í gær en þreytan yfirbugaði ... arggg! Svo byrjaði ég að lesa bók frá Skjaldborg, Hvítur dauði, held ég að hún heiti, byrjar virkilega vel ... nammmmm. Svo kemur Arnaldur út í dag og Kolla segir að þetta sé fínasta bók. Þau eru svo dásamleg saman, hún og Páll Baldvin í Kiljunni hans Egils, þau eru oft innilega ósammála og það er enn skemmtilegra.

Gulla prófarkalesari heldur enn í þá veiku von að það finnist eitthvað gott í mér og sendi mér „sætan og krúttlegan“ póst (örugglega keðjubréf ... ) sem tengist lokum októbermánaðar (bleika slaufan?). Ég hef greinilega ekki tekið kast nálægt prófarkalesurunum varðandi sætan póst ... og hvað litlir hvolpar, kettlingar og ungbörn fara tryllingslega í taugarnar á mér í svona tilgangi ... Ég er ekki einu sinni búin að kíkja á bréfið og samt búin að eyða nokkrum mínútum í að nöldra ... hahahah

Eigið geggjaðan, klístraðan, niðursoðinn og mergjaðan dag, kæru venner, nær og fjær til sjávar og sveita ...


Spennandi lækningaaðferðir og trúarrit himnaríkis

Á Langasandinum fyrr í dagÞað var nú bara sól og blíða þegar ég kom á Skagann í dag en skömmu síðar skall á klikkað haglél. Öldurnar gleðja sem aldrei fyrr með fallegum skvettum. Erfðaprinsinn er eitthvað slappur, eiginlega bara veikur, og reynir ákaft að lækna sig með því að horfa á hryllingsmynd um morðóðar vúdúdúkkur. Athyglisverð aðferð. Þegar ég segi að drengurinn sé fullkominn þá er ég ekki að tala um kvikmyndasmekk hans.

 --------        -----------         -----------          ------------

Þessi þyrfti nú að komast í þvottavélGott var að komast snemma heim, enda vaxandi höfuðverkur að plaga frúna. Er að hugsa um að lækna hann með nuddtæki á herðar, hitakremi, góðri bók og já, ekki má gleyma: Himalaya-kristal sem ég legg á ennið og kyrja nokkrar möntrur á meðan ég skelli götóttri árunni í þvottavél.

 -------        ----------          ----------

Á morgunElskan hann Elli keyrði strætó heim á Skaga og það var sannarlega heimilislegt að sjá hann loksins. Heilmikil umferð var á leiðinni, enda fyrsti vetrardagur á morgun og því síðasti séns fyrir fólk að fara í tjaldútilegu í sumar.
Ég mun ekki pakka niður léttu sumarkjólunum mínum fyrr en á miðnætti í kvöld. Hér á bæ er trúað heitt á almanak Þjóðvinafélagsins og þótt því sé breytt og það endurútgefið á hverju ári breytir það engu fyrir mig. Því skjátlast t.d. aldrei í sambandi við hluti á borð við flóð og fjöru eða sólarupprás og sólarlag. Í himnaríki verður sem sagt sumar þangað til almanakið segir mér að kominn sé vetur ... og hananú! Mikið verður annars gott að fá trefil og vettlinga með út á stoppistöð á mánudaginn.


Vatn og góður tónlistarsmekkur ...

Gleðimyndir að morgniEkki hófust tónleikar Ástu mjög gæfulega í morgun. Ég gerði mér upp kurteisi og spurði þegar við rúlluðum frá himnaríki með sitthvort latte í hönd: „Hvað er þetta eiginlega?“ Ásta: „Þetta er Marc Anthony, maðurinn hennar Jennifer Lopez, líklega fyrrverandi.“ Af næmleika sínum áttaði Ásta sig á því að stutt væri í að ég fleygði mér öskrandi út úr bílnum, þótt ég segði ekki orð, og ýtti á takka nr. 2 á spilaranum.  Ekki tók mikið skárra við, eða Bette Midler (fyrirgefðu, Ívar), og ef ekki væri fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan sjö hefði dagurinn orðið enn nöturlegri. Ekki var séns að halda áfram að hlusta á morgunútvarpið því að tala átti um pöddur sem lifa í rúminu hjá fólki. Það finnst mér viðurstyggilegt umræðuefni. Ástu líka. Ég skil ekki af hverju okkur datt ekki í hug að ýta á  plötuspilara 4 fyrr en á Kjalarnesinu ... þar lúrðu nefnilega Led Zeppelin. Hækkuðum allt í botn í Stairway til Heaven og Going til Californina. Þá meina ég í botn. Þetta voru alvörutónleikar!!!

thank-water.netMiðað við hamingjuna sem ég upplifði við þetta verð ég að stórefast um að vatnið í líkama mínum hafi kristallast í einhvern ófögnuð (skrímsli) við rokkið, eins og japanski maðurinn heldur fram í bók sinni Leyndardómar vatnsins. Mér líður nákvæmlega jafnguðdómlega vel þegar ég hlusta á hávært GOTT rokk og Stabat Mater eftir Pergolesi! Ég er viss um að vatnið í mér hefur verið við það að breytast í rafgeymasýru þegar vælukjóarnir þarna í morgun byrjuðu að syngja í plötuspilaranum hennar Ástu. Smekkur fólks hlýtur að hafa áhrif ... nema vatn hafi svona lélegan smekk! Í bókinni kemur fram að vatn bregðist líka við orðum. Orð eins og þakklæti hafi mergjuð áhrif til góðs á meðan bjáni láti láti það kristallast í ljótar myndir ... það er sem sagt ekkert sniðugt að blóta í baði. Sá reyndar eitthvað um þetta í myndinni What the Bleep do we know?! og gleymi alltaf að gera tilraunir sjálf ... enda á ég svo sem hvorki góðan frysti né smásjá. Eftir vonbrigðin miklu með vatnið, saltið og baðvaskinn (og það komu engar öldur) hef ég lítið verið fyrir vísindatilraunir ...


Afþreyingakvöldið mikla ...

Dúllurnar ...Settist niður með erfðaprinsinum eftir góða máltíð sem hann eldaði (já, hann er æði) og horfði á Ocean 13. Fínasta afþreying. Minni áhersla fannst mér þó lögð á persónurnar en í fyrri myndunum þótt þær pósuðu oft flott (sjá mynd), sjálft plottið var í aðalhlutverki. Lækkaður var rostinn í hótel- og spilavítiseiganda sem hafði illilega svikið einn úr hópnum. Slíkt gerir maður ekki.

Nú er himnaríkisfrúin hálfháttuð og er að pæla í að ganga fljótlega til dyngju með flotta hjásvæfu í för, eða eitt stykki glæpasögu. Er rúmlega hálfnuð með bókina Horfinn eftir Robert Goddard. Laumaðist til að halda fram hjá henni með Leyndardómum vatnsins í baði í gærkvöldi (vel við hæfi) og síðan byrjaði ég aðeins á bókinni um Breiðavíkurdrenginn ... gat ekki hætt að lesa og kláraði hana. Hún er rosalega áhrifamikil, mæli hiklaust með henni. Ég sá ekki umfjöllunina um þetta mál í Kastljósi á sínum tíma (ein af fáum), fór þó á myndina um daginn og fékk svo allt í æð í bókinni. Sjónvarp er skemmtilegt (dásamlegt, æðislegt) en það nær aldrei öllu, bækur gera það!


Pissað upp í vindinn ...

Enn ein belgísk vafflaEf þú ert ekki að geta komist í gegnum þetta ...“ sagði kona í sjónvarpinu áðan. Mér skilst að svona málfar megi finna í nýju biblíunni. Einn prófarkalesarinn minn sagðist vera í losti yfir því og  íslenskuprófessor við Háskóla Íslands gerði athugasemdir við málfarið. Prófarkalesarinn bætti því við að það væri eins og að pissa upp í vindinn að reyna að breyta einhverju.

Hvernig getur heilt tungumál tekið svona miklum breytingum á nokkrum árum? Sjálf áttaði ég mig ekki á þessu fyrr en samstarfskona mín var spurð (í hittiðfyrra): „Hvar voruð þið að sitja?“. Mikil er ábyrgð íþróttafréttamanna. 

Íslenskukennari sagði við bekkinn minn fyrir tæpum tíu árum að stéttaskipting í þjóðfélaginu í dag kæmi fram í gegnum tungumálið. Það hlýtur að hafa breyst því að þessa dagana heyrir maður alls konar hefðardúllur, m.a. alþingismenn og ráðherra, tala svona.

Þetta voru pælingar kvöldsins.


Menningarlifnaður í himnaríki ...

HugleikurLas Eineygða köttinn og Leyndarmálið á leiðinni heim með strætó. Algjör snilldarbók eftir Hugleik Dagsson. Ekki fyrir viðkvæma og heldur ekki DVD-myndin Hot Buzz sem við erfðaprinsinn orguðum af hlátri yfir nú í kvöld. Bráðfyndin bresk gamanmynd með dassi af hryllingi og spennu. Stundum verulega ógeðsleg. Lögreglumaður er fluttur til í starfi vegna of mikils dugnaðar og sendur í lítið fyrirmyndarsveitaþorp. Þar hitnar fljótlega í kolunum. Mikil menning í himnaríki í kvöld. Eftir smástund verður haldið áfram með Árna Þórarinsson, Dauða trúðsins, er næstum hálfnuð með hana og finnst hún ansi skemmtileg. 

RidgeRidge tókst næstum að sýna leikhæfileika þegar hann sagði Taylor, konu sinni, upp í dag. Hvað verður nú um Tómas og tvíburana? Taylor viðurkenndi nefnilega að hafa sofið hjá öðrum manni fyrir löngu, já, og kysst brunakarlinn nýlega. Þetta var meira en Ridge gat þolað. Samt kjaftaði hann af sér þegar hann sagðist enn elska Brooke, Taylor fattaði bara ekki að hann notaði játningu hennar til að binda enda á hjónabandið. Verst að Ridge hefur ekki séns í Brooke lengur, hún er svo hrifin af Nick, tengdasyni sínum. Þau Nick horfast reglulega í augu á átakanlegan hátt en fórna sér fyrir Bridget.


Hringtorg óttans ... Sódóma Skagans ... Árni spennunnar

HringtorgVið Inga brenndum á Skagann seinnipartinn og komumst aldeilis í hann krappan á leiðinni. Við stefndum inn í innri hring í einu af hringtorgunum í Mosfellsbæ og risastór trukkur með langan vagn (án yfirbyggingar) tók sömu ákvörðun nema hann fór í ytri hring á fleygiferð, já, og þann innri líka. Ef Inga hefði ekki skellt sér upp á hringtorgið og stoppað bílinn værum við ekki enn komnar upp á Skaga, mun líklega komnar á séns niðri á löggustöð ... eða spítala, slík var ferðin á trukknum. Frábær bílstjóri hún Inga og með fjarlægðaskynjunina í góðu standi.

Mörkin til hægriErfðaprinsinn skrapp á Mörkina (sódómugómorrustað okkar Skagamanna, beint á móti kirkjunni) til að horfa á landsleikinn og á meðan fær Jónas að leika sér í himnaríki. Ég hreinsaði hann vel áður og þessi elska kann að meta það og leggur ekki lengur ganginn í einelti, heldur alla íbúðina.

Fékk nýju bókina hans Árna Þórarinssonar í hendur í dag og eina ástæðan fyrir því að ég er að blogga núna en ekki lesa er sú að ég er að hlusta á fréttirnar á Stöð 2, skylduna. Svo verður lesið.

Viðbót: Ég hvet alla til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda, sjá meira um málið hjá Ásdísi. Sett hér undirskriftahlekkinn og hlekkinn að síðu Ásdísar:

 

http://www.petitiononline.com/lidsauki/petition-sign.html?

http://asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/

 


Tæknimenn, kossar og fordómafull baðbók

KleinaFíni, flotti nýi tónlistarskólinn stóð undir öllum væntingum ... húsnæðislega séð. Enginn matur var þó á boðstólum, eins og ég hlakkaði svo til, bara konfekt og kleinur með kaffinu. Reyndar Nóakonfekt og rosagóðar kleinur en þetta varð til þess að ég keypti lambahrygg í matinn í kvöld. Ætlaði að láta nægja að vera með eitthvað létt. Svona er að fara svöng út í búð. 

Tryggvi tæknimaðurTryggvi, tæknimaður af Aðalstöðinni og víðar, var í tónlistarskólanum, enda sá hann um að tengja stórkostlegt hljóðkerfið á staðnum. Ég spurði hann hvort hann væri enn með cart-spólurnar mínar með tveimur Babe Ruth-lögum (Private Number og Dutchess of Orleans), lögunum sem hann ætlaði að skella á CD fyrir mig á síðustu öld. Hann hélt það nú. Magnús Geir, eitt hirðskálda himnaríkis og Akureyringur, bjargaði mér með seinna lagið fyrir nokkrum mánuðum og hver veit nema elsku Tryggvi minn bjargi mér um hitt.
Hvað er þetta annars með mig, tæknimenn og kossa? Auðvitað kyssti ég Tryggva, enda frábær drengur sem gaman var að hitta (og kyssa). Tveir kossar, tveir tæknimenn, tveir dagar á milli. Mér líður eins og líf mitt sé að breytast í eina allsherjar orgíu.

BlinkGríp stundum með mér létta reyfara, helst um óða baðherbergismorðingja, til að lesa í baði. Þetta heldur mér kúl og viðbúinni því óvænta í lífinu. Baðfélagi minn fyrr í dag heitir Leiftursýn. Bókin er skrifuð eftir bíómyndinni Blink sem gerði það trúlega sæmilegt í bíóhúsum á þessum tíma, enda blóðug spennumynd.  

14. kafli
John Hallstrom hafði ekki sofið mikið undanfarna tvo sólarhringa. Hann hafði haft með að gera mál þar sem negri var myrtur inni á bar, annað þar sem ekið hafði verið á gangandi mann og hann látist. Loks hafði samkynhneigður maður í afbrýðikasti myrt kærasta sinn. Aðkoman hafði verið dæmigerð fyrir slík mál, mikið blóð og hinn látni með á annað hundrað hnífsstungur.

Bókin er frá árinu 1994! Ég sá ekkert athugavert við hana þegar ég las hana á sínum tíma en mikið hefur margt breyst til hins betra og virðing fyrir fólki almennt aukist. Held að orðið negri sé að mestu dottið út úr íslensku máli og engum dettur í hug að setja homma í samhengi við tryllt ástríðumorð með ótal hnífsstungum. (fliss) Nú verðum við að spýta í lófana til að geta hlegið síðar að staðalímyndakjaftæðinu sem enn var svo mikið í gangi þarna einu sinni árið 2007.


... og það var fjör

Strætótertan... í strætó í morgun. Tommi var glaðvakandi, glaður og glaðbeittur. Ég hlammaði mér við hliðina á smiðnum (konunni sko) og gerði ítrekaða tilraun til að myrða hana þegar ég setti á mig öryggisbeltið. Þ.e.a.s. ég losaði alltaf beltið hennar. Eins og allir vita eru smiðir með geðbetra fólki þannig að hún flissaði bara og festi sig aftur. Aukabíllinn, sem er alltaf aðeins og undan okkur, var búinn að hirða upp allt hirðanlegt á leiðinni, og þá er ég ekki að tala um rusl, því að aðeins einn, örlítið seinn karl, var á sætukarlastoppistöðinni og engin Karítas í Lopabrekkunni í Mosó.

Las Loforðið að mestu í gærkvöldi, þrátt fyrir allt of skemmtilegt sjónvarp, og er ekkert smá hrifin af henni. Ætlaði að ljúka við hana í strætó í morgun en við blöðruðum svo mikið að það tókst ekki alveg og munar bara nokkrum blaðsíðum. Rosalega er ég nú annars mikill snillingur í leikrænni þjáningu. Það kom hrikalega sorglegt atriði í bókinni og tárin byrjuðu að lauma sér Í STRÆTÓ!!! Ég teygði aðeins úr mér og tókst með lymsku og ljóshraða að þurrka augun, eins og ég væri bara sybbin eða eitthvað. Það tókst því að smiðurinn reyndi ekkert að hugga mig og Tommi dró ekki úr hraðanum, fullur af sjokki. Maður grenjar sko ekki í svona stuðvagni!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1516037

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 565
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband