Færsluflokkur: Dægurmál

Fordómar og sálarflækjur

Kræst, Oprah Winfrey var að tala illa um offitu og reykingar, hefur hún ekkert skemmtilegra að gera? Gefa bíla eða eitthvað? Ég gleypi ekki alveg við þessum rökum að offita sé eingöngu af andlegum orsökum þótt það hafi átt við hjá Opruh sem var misnotuð sem barn. Það vill gleymast að sumum finnst matur einfaldlega góður.

FeitabollaReynt er að fá hamingjusamar feitabollur, ánægar með sjálfar sig, til að falla saman og skæla í svona sjónvarpsþáttum og finna einhverja ástæðu fyrir fitunni, hún hlýtur að liggja djúpt niðri þarna. „Nei, þú getur ekki verið hamingjusöm þótt allt gangi svona vel í lífi þínu, þú ert nefnilega feit!“

Ég hef á lífsleiðinni hitt svona „djúpt“ fólk, sjálfskipaða sálfræðinga, sem eru að springa úr klisjum. „Hvernig líður þér? Nei, ég meina hvernig líður þér í alvörunni?“ „Þér hlýtur að líða illa, ég finn það.“

Góður vinur minn sagði vinkonu sinni upp vinskap af því að hún reyndi sífellt að stjórna tilfinningum hans á þennan hátt. Það tók hann nokkur ár að átta sig á því að honum leið alltaf illa nálægt henni. Hann reyndi sífellt að finna djúpar orsakir fyrir öllu en gekk ekkert of vel, líf hans var gott. Hann hlær að þessu í dag, er mjög hamingjusamur ... enda grannur.


Sjokkerandi ...

HeilinnDear Gurri,
Thank you for your interest in the test at www.IQTest.com.
Your general IQ score is: 87

AFSÖKUN: Ef enska er ekki móðurmál þitt gætir þú fengið lægra skor, sá ég áður en ég datt ofan í prófið.  

Tók reyndar annað greindarpróf á ensku einu sinni og fékk um 160. Þar var mikil stærðfræði og prófið tók 45 mínútur. Góð kunnátta í ensku skipti ekki jafnmiklu máli. En ... só vott!!!

Getur verið að það að sitja heima í sumarfríi, lesa, horfa á sjónvarp, taka á móti gestum og fara í bað hafi svona forheimskandi áhrif? Ég sem kíkti í heimsókn í vinnuna á föstudaginn.

Prófið endilega að taka þetta próf. Það má monta sig í kommentakerfinu, þarna gáfnaljósin ykkar.


Gráðugur banki og góð gestakoma

Göngugarpar við sandinnHringdi í þjónustuver bankans míns um daginn til að spyrja hvað væri til ráða ef ég væri búin að gleyma leyniorðinu í Netbankann. Konan spurði mig lymskulega um reikningsnúmer og sagðist síðan ekki geta hjálpað mér, heldur átti ég að fara í útibúið á Akranesi og fá þar nýtt leyniorð. Mundi svo leynóið ... Þegar ég kíkti í Netbankann minn áðan sá ég að fyrir þetta símtal og ekkihjálp þurfti ég að greiða 65 krónur sem dragast af reikningum mínum. Ekki mikill peningur kannski en frekar ósiðlegt af svona forríku fyrirtæki að rukka mann aukalega fyrir lásí símtal. Ekki gefa upp bankanúmerið ykkar eða kennitölu nema þið vitið að þið fáið einhverja aðstoð, bara upp á prinsippið.

 Hilda systirHilda systir og Lóa, vinkona okkar, komu í aldeilis dásamlega heimsókn í kvöld. Þær byrjuðu reyndar á því að fara í 40 mínútna gönguferð meðfram Langasandinum. Náði mynd af þeim þar sem þær hófu gönguna, ómeðvitaðar um leynilega myndatöku út um glugga himnaríkis.

Á meðan þær nutu ferska loftsins og hreyfingarinnar var ég í óðaönn að útbúa gúmmulaði fyrir þær. Bjó til samloku úr tortillum, smurði með sterkri Taco-sósu, setti líka rifinn ost og rjómaostsslettur á milli og steikti beggja megin á pönnu, skar svo niður í fjóra bita.

Lóa pæjaÞær emjuðu af sælu yfir þessu þegar þær komu móðar og másandi úr gönguferðinni. Það sem fólk leggur á sig fyrir hreyfingu og hreint loft. Ég fékk heilmikla hreyfingu líka og var með alla glugga galopna, sé lítinn mun á þessu. Heimsóknin var mjög notaleg og skemmtileg.

Tók mynd af þeim stöllum í sófanum í bókaherberginu þar sem þær lágu í bókmenntum. Þær þóttust eitthvað vera of þreytulegar og sjúskaðar fyrir myndatöku en ég hlustaði ekki á slíkt bull.  


11 ástæður fyrir því hvers vegna konur yfir fertugt eru bestar

Idolið mittAndy Rooney í 60 mínútum kom með þessar dásamlegu staðreyndir í þættinum fyrir nokkrum árum. Snilld.

 -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -

1. Kona yfir fertugt myndi aldrei snúa sér að manninum í rúminu og segja: Hvað ertu að hugsa?“ Henni er nákvæmlega sama hvað hann er að hugsa.

2. Ef konu yfir fertugt langar ekki til að horfa á leikinn þá hlammar hún sér ekki í sófann og vælir um það. Hún einfaldlega finnur sér eitthvað annað að gera og yfirleitt er það eitthvað mun áhugaverðara. 

3. Kona yfir fertugt hefur gengið í gegnum næga sjálfsskoðun til að vita með vissu hver hún er, hvað hún er, hvað hún vill og þá frá hverjum. Langflestar konur komnar yfir fertugt láta sér í léttu rúmi liggja hvað þér finnst um hana eða það sem hún er að gera.

4. Konur yfir fertugt eru virðulegar í fasi. Það heyrir til undantekninga að þær æpi á manninn sinn í leikhúsinu eða á betri veitingastöðum. Á hinn bóginn, ef þú hefur unnið þér inn fyrir því, hika þær ekki við að skjóta þig á færi ef þær eru þess fullvissar að þær komist upp með það.

5. Konur yfir fertugt spara ekki gullhamrana, jafnvel á þá sem eiga það ekki skilið, því að þær vita hvað það er að vera vanmetinn.

6. Kona yfir fertugt hefur öðlast nægt sjálfsöryggi til að kynna manninn sinn fyrir vinkonum sínum. Yngri konur fela oft vinkonur sínar fyrir manninum vegna vantrausts á honum.  

7. Konu yfir fertugt gæti ekki verið meira sama þótt maðurinn sé hrifin af vinkonum hennar því hún veit að þær munu ekki svíkja hana.

8. Konur öðlast sjötta skilningarvitið með aldrinum. Menn þurfa aldrei að segja konum yfir fertugt syndir sínar. Þær vita!

9. Það klæðir konu yfir fertugt að nota æpandi, rauðan varalit, sama á ekki við um yngri konur og dragdrottningar.

10. Um leið og karlmaður getur litið fram hjá hrukku eða tveim gerir hann sér grein fyrir því að kona yfir fertugt er allverulega mikið kynþokkafyllri en yngri módelin.

11. Eldri konur eru hreinskilnari og heiðarlegri í framkomu en þær yngri. Þær láta þig strax vita ef þú ert fífl eða ert bara að láta eins og fífl. Þú þarft aldrei að vera óviss um hvar þú stendur gagnvart konu yfir fertugt.

Sharon StoneÞær eru ótal ástæðurnar fyrir því að dást að konum yfir fertugt. Því miður er ekki hægt að segja það sama um karla á sama aldri. Fyrir hverja sláandi fallega glæsidrós yfir fertugt er sköllóttur, illa tilhafður, krumpaður karl að gera sig að fífli með einhverri 18 ára afgreiðslustelpu. 

Fyrir alla menn sem segja: „Hvers vegna að kaupa mjólkursamlagið þegar mann vantar slettu mjólk?“ er hér fréttatilkynning: Í dag segja 80% kvenna að þær séu ekkert á þeim buxunum að fara að gifta sig. Hvers vegna, gætu þeir spurt. Þær hafa komist að því að það er til auðveldari leið til að næla sér í pylsu en að fjárfesta í heilu sláturhúsi. 

Setti með myndir af skvísum sem eru að verða fimmtugar. 


Davíð og Golíat í sumarbúðum

Sumarbúðir Stórsnjallt ungmennakort er að detta inn í Reykjavík. Með því eru m.a. sumarbúðir niðurgreiddar. Heyrði Björn Inga tala um þetta í útvarpinu og fannst skrýtið að hann minntist bara á skátana og KFUM en ekki Ævintýralandið hennar Hildu systur sem þó er án efa með metnaðarfyllstu starfsemina, ég fer aldrei ofan af því. Í hittiðfyrra komu nokkrir ljúfir starfsmenn úr Vatnaskógi í heimsókn og þeir urðu stórhrifnir, eiginlega göptu ... Yfir 100 börn á staðnum en samt allt svo notalegt, allir höfðu nóg við að vera og góð stjórn á öllu.

 

Ævintýraland dansnámskeiðÁ forsíðu DV í gær sagði Hafsteinn Snæland, framkvæmdastjóri Samfés, að allir styrkir til barna- og unglingastarfsemi færu til sömu samtakanna og fulltrúar þessarra samtaka sitji í úthlutunarnefndinni!

 
Nú gengur mér betur að skilja allar þessar neitanir sem Ævintýraland hefur fengið. Auðvitað sjá þeir til þess að samkeppnisaðili fái ekki krónu. Þetta er nú meiri spillingin, ef rétt er. Ég er öskureið.

 

 -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -

Sumarbúðir afmæliHilda hefur árangurslaust sótt um styrki í gegnum árin, enda þarf hún að greiða himinháa húsaleigu á meðan hin samtökin hafa komið sér upp góðum húsakosti með milljónastyrkjum.
Við komumst að því eitt árið að á meðan Hilda fékk ekki krónu þá fengu skátarnir og KFUM eitthvað í kringum 5-6 milljónir hvor aðili, m.a. til að greiða fasteignagjöld af húseignum sínum. Þetta hafði viðgengist í fjölda ára, til eru opinber gögn um það, en ég veit ekki hvernig þessu er háttað núna.

Ævintýraland útileikirSamkeppnisaðilar Hildu reka eflaust ágæta starfsemi, ég efast ekki um það. Samt kostar nógu mikið að senda börnin sín þangað og ekki getur Hilda látið kosta meira en hinir vegna samkeppninnar.  

Munurinn á Ævintýralandi og öðrum sumarbúðum er t.d. sá að Hilda fylgir algjörlega reglugerð Barnaverndarstofu og er með fullorðið fólk í vinnu og eina manneskju á hver fimm börn. Ætli meðalaldur starfsmanna sé ekki 35 ára. Hún þarf að borga góð laun til að fá hæft fólk og vill ekki sjálfboðaliða, segir starfsemina of viðkvæma til þess. Það gæti þó hafa hrist upp í ónefndum sumarbúðum þegar leiðindamál komu upp fyrir nokkrum árum vegna sjálfboðaliða. 

 

Sumarbúðir myndlistSíðustu sumur hafa um 100 börn dvalið í hverri viku í Ævintýralandi. Vinsældirnar eru ekki vegna þess að hún hefur efni á því að auglýsa svo mikið, heldur er það góður orðstír sem veldur. Kostnaður við sumarbúðirnar er geðbilaður, það þarf að greiða húsaleigu, laun, mat, fá fólk á launum til að koma og ræða forvarnir og margt, margt fleira. Vá, hvað það myndi breyta miklu og vera upplyfting fyrir starfsemina ef fengist styrkur. Ég hvet bloggvini mína til að velja Ævintýraland ef þeir ætla að senda börnin sín í sumarbúðir í sumar og styrkja þannig Davíð gegn Golíat.

 


Hraðar hendur í spennu dagsins ... og bold

espressoÞað er nú ansi rólegt lífið þegar mesta spenna dagsins er sú að vera nógu handfljót til að skella baunum í espressóvélina áður en hún stoppar í mótmælaskyni við baunaskort. Ég lenti í þessu í dag, æsispennandi. Komst að því að ég get haft hraðar hendur.

Rosalega var Simpsonsþáttur kvöldsins góður. Seymour skólastjóri við Ednu sína: „Æ, kemst ekki með þér í rómantísku eplatínsluferðina. Mamma festi hálssepa í rennilás. Ég verð því heima til að kyssa á bágtið. Hér eru nokkur epli handa þér.“ Snilld.
 

Er að hugsa um bæjarferð á morgun. Ekki þó til að fara á kaffihús að reykja. Einhver hvíslaði því að mér að ég gæti tekið Akraborgina í bæinn ... Hún kemur víst í heimsókn á Skagann. Best að leita frétta.

Já, alveg rétt, boldið ... ég eiginlega sofnaði yfir því. Brigdet sem búið er að hrauna yfir síðustu vikur og mánuði er með svo mikinn móral yfir því að hafa logið að Nick að hún hafi farið í fóstureyðingu að hún er á bömmer. Hún notaði þátt dagsins til að rifja upp góðar stundir með honum, þátturinn var svona best of kelirí. Á næstunni mun Nick vera mjög leiðinlegur við hana, hún sakbitin en nær honum ekki aftur. Honum tókst að koma samviskubitinu yfir á hana, klár gaur. Hún er búin að gleyma því að hann elskar mömmu hennar. Nú man hún bara góðu stundirnar ... sorrí, of seint. Nick er nú farinn á bátnum sínum út í tryllt óveður. Hann mun ekki saka. Ég sé fram í tímann.   


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 11
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 557
  • Frá upphafi: 1530844

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 366
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Desember 2018
  • Einarsstaðir
  • Ég er rík

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband