Færsluflokkur: Lífstíll

Rólegur stormur og ömurleg laugardagsmynd ...

FjallgöngumennÞetta voru nú meiri æsiveðurfréttirnar. Enginn stormur enn og bara rúmur hálftími til miðnættis. Dauðskammast mín fyrir að hafa varað samstarfskonur mínar við veðurofsanum sem átti að vera í dag. Hviðurnar á Kjalarnesi fara rétt yfir 20 núna, strætó keyrir þegar þær eru 34 m/sek. Hef varið kvöldinu í tölvunni og óhjákvæmilega hlustað á sjónvarpið. Á Stöð 2 var að ljúka heimildamynd um hrakningar fjallgöngumanna og mjög grafískar lýsingar hafa verið á skelfilegum fótbrotum, þorsta, hungri og öðru miður kræsilegu. Viðtöl við hundleiðinlega fjallgöngumenn inn á milli leikinna atriða. Var ekki hægt að sýna t.d. True Lies í 18. skiptið? Það er laugardagskvöld!  

Þorstanum svalaðÓkei, ég hef heyrt um stelpu sem drukknaði á lækjarbakkanum af því að hún nennti ekki að fá sér vatn. Ég er reyndar þyrst og ætla að gera eitthvað í því eftir augnablik en hef ekki nennt að labba þessa örfáu kílómetra inn í stofu til að skipta um stöð eða bara slökkva á tækinu ...

Held að þetta hljóti að vera leiðinlegasta mynd sem hefur sýnd á laugardagskvöldi í sögu Stöðvar 2. Hver ber ábyrgð á þessu? 

P.s.

Hahhahaha, ég varð að bæta þessu við. Auðvitað þoldi ég ekki myndina þar sem henni er lýst sem átakanlegri, uppáhaldsorð einhvers á Stöð 2. Horfði ekki á m.a. átakanlegu fótboltamyndina um daginn og heldur ekki átakanlega þáttinn um Hinrik VIII frekar en annað þar sem þetta lýsingarorð er notað. Hér kemur lýsingin af vef Stöðvar 2:

Hættulegt klifur
Touching the Void er átakanleg og sönn saga tveggja fjallaklifrara sem lentu í skelfilegum hremmingum á leiðinni á topp Siula Grande í Perú. Myndin hefur farið sigurför um heiminn og sló í gegn þegar hún var sýnd í bíóhúsum hér á landi. Aðalhlutverk: Richard Hawking, Brendan Mackey. Leikstjóri: Nicholas Aaron.

 


Veður-, kvikmynda- og frændablogg

Rás 1Heyrði ekki mikið í veðrinu í morgun svo að ég reif heimasmíðuðu hlerana síðan í gærkvöldi af gluggunum. Það reyndist vera mjög gott veður úti! Samkvæmt norsku veðursíðunni www.yr.no kemur stormurinn ekki fyrr en í kvöld og nótt. Fer kannski að rigna eftir smástund en ekkert rok að ráði fyrr en undir miðnætti.

Tomorrow
23.09.2007

Rain

Strong breeze, 12.4 m/s from north-northeast

Hviðurnar á Kjalarnesi eru alltaf slæmar fyrir strætó í austlægum áttum. Vona að strákarnir mínir fari varlega þegar þeir keyra á milli.

Í himnaríki hljómar nú kvikmyndaþátturinn Kvika á Rás 1 (sjá mynd fyrir ofan). Mundi ekki eftir honum kl. rúmlega 10 en tæknin er orðin svo svakalega mikil að það var ekkert mál að ýta á takka til að hlusta á hann (www.ruv.is ) Ljúf tónlist, skemmtileg viðtöl. Ísold Uggadóttir er t.d. að skrifa handrit sem heitir Flæktar sálir og fáein símanúmer (vinnuheiti), gerist 1995 hjá „núll þremur“(118). Vona að úr verði kvikmynd.

3 mánaða snúllurElsku bestu frændurnirKíki reglulega á síðuna hjá ástkærum frændum mínum, tvíburunum hugumstóru. Þeir eru alveg dýrlegir. Segi eins og Jenný bloggvinkona, fer í krúttkast við tilhugsunina um þá.
Hér koma tvær myndir af þeim. Á annarri eru þeir bara þriggja mánaða en hin var tekin nýlega. Ísak t.v. Á myndinni vinstra megin eru þeir að garga eftir mat, Úlfur svo fyndinn á svipinn að ég gat ekki annað en stolið henni. Bloggvinir mínir hafa fylgst með tvíburunum frá fæðingu og mér ber ánægjuleg skylda til að birta reglulega af þeim myndir. Í gegnum þá kynntist ég sjálfri Jónu ofurbloggara. Ég sat við tölvuna á laugardagskvöldi fram á nótt og var að lesa ýmis blogg. Datt niður á bloggið hennar Jónu og las það langt aftur í tímann, enda stórskemmtilegt. Í einni færslunni sá ég að hún var að auglýsa eftir Úlfi og Ísaki, hafði séð myndir af þeim á blogginu og mundi ekki hvar. Minnir að hún hafi viljað sýna einhverjum sem á barn með skarð í vör myndirnar. Ég flýtti mér að skella kommenti inn og síðan höfum við eiginlega verið óaðskiljanlegar, ekki síst þegar við komumst að því að við höfðum unnið saman á Aðalstöðinni á tíunda áratugnum. Lítill heimur.     


Beðið eftir storminum ...

Það hefur sjaldan verið dásamlegra að komast heim en í dag. Þvílík þreyta, þvílík vöðvabólga. Kannski kann Jónas að nudda axlir, held þó að hann kunni bara að ryksuga. Dónalega samstarfskona mín kenndi mér að setja grófa myndbandið inn í færsluna hér fyrir neðan. Ég hélt að það væri svo saklaust og sætt. Svona getur maður nú orðið mikill dóni alveg óvart. Ég bið a.m.k. helming bloggvina minna afsökunar.

StormurNáði strætó kl. 17.45 og ætlaði að versla inn fyrir helgina á bensínstöðinni ... litla stúlkan með eldspýturnar og 1944 ... „Ætlar þú kannski í Einarsbúð,“ spurði Elli bílstjóri þegar ég hreyfði mig ekki til að fara út við stoppistöðina á Garðabrautinni. „Ne ...“ Þrátt fyrir mikla þreytu uppgötvaði ég á rúmu sekúndubroti að klukkan var ekki orðin sjö og enn opið. „Já,“ svaraði ég, „það ætla ég sko að gera!“ Þar sem búið er að spá æsispennandi stormi á morgun keypti ég rafhlöður, hangikjöt, vatnsflöskur, flatkökur, hleratimbur og súkkulaði. Ég hef lært ýmislegt af því að horfa á CNN á fellibyljatímanum.

 

Í sumarbústaðnumTvær samstarfskonur mínar eru nú á leiðinni austur fyrir/yfir Fjall og ætla að verja helginni í sumarbústað. Ætlunin er að detoxa og þær tóku með sér fleiri kíló af spínati, kókosvatni, jarðarberjum og öðru gúmmulaði til að búa sér til heilsudrykki. Vonandi mundu þær eftir að taka blandarann með. Mér fannst á annarri þeirra að hún væri alveg til í að taka frekar steikur og bjór með ...  Ég hringdi í þær þegar ég sá veðurspána og bað þær um að vera ekkert á ferðinni á morgun. „Lítil hætta á því, við verðum örugglega á klósettinu,“ sögðu þær. Helgin mín, sú síðasta í bili sem einbúi, verður mun áhugaverðari en þetta.

Matarþjófnaðurinn mikliTalandi um mat ... Uppi varð fótur og fit hjá Gestgjafanum í gær þegar fín lambakjötsmáltíð hvarf ... áður en náðist að mynda hana. Áður en kom til þess að starfsmenn væru teknir í blóðprufu og lygamælispróf gaf sökudólgurinn sig fram. Það reyndist vera einn stjórinn á staðnum, mikið ljúfmenni sem var fyrirgefið á stundinni, enda hafði hann stór orð um það hvað maturinn bragðaðist vel. Úlli þurfti að elda upp á nýtt og við flissuðum þegar Ási gekk pakksaddur í gegnum salinn. Já, völva Vikunnar var búin að spá stóru hneykslismáli á árinu þar sem þjófnaður kæmi mögulega við sögu.

 
Hér kemur svo eitt alvörumyndband fyrir þá bloggvini sem kunna gott að meta:
http://www.youtube.com/watch?v=1vfSk-6tIvo&mode=related&search=


Saknaðarstingur og fallegt sólarlag

20.9 2007 kl. 19.25Skrapp eftir vinnu á Ameríska daga í Hagkaup í Kringlunni með Ingu. Þessir Dagar hafa greinilega staðið yfir í nokkra daga þar sem búið var að troða norskum, íslenskum, breskum, serbókróatískum, mexíkóskum, kínverskum og dönskum vörum í ammmrísku körfurnar, orðið fátt um fína drætti, nema við höfum komið of síðla dags. Hrísgrjónin sem Inga leitaði sem mest að, New Orleans Rice, voru ekki til og voru kannski aldrei. Spæling. Samt var gaman að kíkja í Hagkaup þótt ég keypti mér bara vítamín fyrir veturinn. Bauð síðan Ingu upp á svo góðan og hressandi latte að hún gleymdi að henda mér út við Vesturlandsveg eða Háholt í Mosó og skutlaði mér alla leið í himnaríki, a la vélstýran. Kvaddi mig á hlaðinu og dreif sig heim. Fékk smá saknaðarsting þegar við mættum Tomma á strætó rétt fyrir utan Akranes. Ja, ef Ásta verður ekki á bíl í fyrramálið þá hittumst við Tommi eflaust. Þessar elskur eru svo stór þáttur í lífi manns ... fyrirmyndir, brandarakarlar, einkabílstjórar og hvaðeina.

Nú er ég að fara að lesa Loforðið, nýju barnabókina hennar Hrundar minnar. Verst hvað það verður góð dagskrá á SkjáEinum í kvöld. Annars er sjónvarpið léttvægt þegar útsýnið er svona eins og hefur verið í kvöld ... reyndar dimmir hratt núna.


Eðalkonur allt í kring og fossandi táralækir

HrundSamstarfskona mín hér á Vikunni, Hrund almáttugur, fékk í gær Íslensku barnabókaverðlaunin. Mikið er ég montin af henni. Finnst líklegt að ég fái bókina hennar í dag og hlakka mikið til að lesa hana. Þær eru margar góðar sem hafa fengið verðlaunin í gegnum árin, og er Benjamín dúfa í sérstöku uppáhaldi. Erfðaprinsinn náði Benjamín af mér strax seinnipart útkomudags og þar sem hann er fljótur að lesa eins og mammasín þá var bókin laus strax eftir sjónvarpsfréttir. Drengurinn sagði karlmannlega þegar hann rétti mér hana: „Ekkert skrýtið þótt þessi bók hafi hlotið verðlaunin!“ og ekki sá ég blika tár á hvarmi. Drengurinn fékk líka afar hörkulegt uppeldi ... en ég held þó að hann hljóti að hafa farið inn á bað til að skæla því að klukkutíma seinna flaut sjálfur naglinn, móðir hans, út úr sófanum í fossandi táralæk og hér er sko ekki verið að tala um neina sprænu. Svo má alveg segja að ég sé föðursystir Benjamíns dúfu þar sem Gummi bróðir lék pabba hans í samnefndri kvikmynd. Strákurinn sem lék Benjamín er líka ansi líkur Eyjó Braga, eldri syni Gumma.

Kvöldsól í septÁsta, ljónshjartað mitt hreina, er nú meira krúttið. Það fer að komast upp í vana að hún bjargi mér. Ég vaknaði nokkrum mínútum EFTIR að strætó hirti upp samfarþega mína á stoppistöðinni við Garðabraut. Af því að ég nenni ekki að vera spæld á morgnana og hef hvort eð er engan til að urra á, ákvað ég að breyta þessu í kósímorgun himnaríkis. Sveif um, kveikti á kaffikönnunni, horfði á öldur út um gluggann, dáðist að mér í spegli, gaf kisunum og margt fleira, allt nema kíkja á gemsann minn. Var jafnvel að hugsa um að blogga pínupons áður en ég tæki strætóinn kl. 7.41 síðdegis ... en þá hringdi síminn. „Jæja, ertu ekki að koma?“ Það sem ég vissi ekki var að fyrr um morguninn, þegar ég lá enn í kóma, hafði Ásta sent SMS um að hún væri á bíl ... Ég ákvað að vera fórnfús af því að ég var ekki tilbúin og sagði henni bara að drífa sig, ég tæki næsta strætó. Ásta mátti ekki heyra á það minnst ... Tommi og Kubbur tvístruðust því í allar áttir þegar ég þaut um himnaríki til að ljúka við morgunundirbúninginn sem tókst á einni mínútu sléttri. Mundi meira að segja eftir því að slökkva á kaffikönnunni sem var ekkert notuð í morgun. 

P.s. Skellti inn kvöldsólarmynd sem ég tók fyrr í vikunni. Nú get ég kíkt á bloggið mitt ef ég sakna himnaríkis ógurlega í dag. Sementsverksmiðjustompurinn er að verða mér eins og t.d. Eiffelturninn Parísarbúum og Nálin þeim í Seattle ...


Meira af lélegum viðreynslulínum ... og smá bold

Gæinn með kylfuna tilbúnaÍ framhaldi af sjokkerandi færslu minni um nýtilkomna leti karlmanna við að reyna við konur rifuðust nokkrar lélegar viðreynslulínur upp fyrir mér. Nú skil ég hvers vegna þeim hefur ekkert gengið við veiðarnar og hafa gefist upp. Dúllurnar ...

- Ég vildi að þú værir leikfangahesturinn á Umferðarmiðstöðinni þá gæti ég verið á þér allan daginn  fyrir klink. 

- Kallaðu mig bara mjólk. Ég geri líkama þínum gott.

- Viltu í glas eða kannski bara peninginn?

Daður- Ég er kannski ekki sá allra sætasti á svæðinu en ég er sá eini sem er að tala við þig.

- Eigum við að koma að leika hús? Þú mátt vera svalahurðin og ég skelli þér alla nóttina.

- Ég er nýfluttur í bæinn. Geturðu sagt mér í hvaða átt heimili þitt er?

- Ég elska hvert bein í líkama þínum, sérstaklega mitt.

Hann: Má bjóða þér upp í dans?
Hún: Mér finnst þetta leiðinlegt lag og langar heldur alls ekki að dansa við þig.
Hann: Þú hefur misskilið mig. Ég sagði að þig skorti allan „elegans“.

- Ef hægra lærið á þér væri aðfangadagur og það vinstra gamlársdagur mætti ég þá heimsækja þig á milli jóla og nýárs?

- Þú ert kannski ekki sú sætasta hérna en fegurðin er bara í slökkvara fjarlægð ...

- Hæ, ég er líksnyrtir. Hvernig ertu í því að þykjast dauð?

- Sú staðreynd að ég er að missa tennurnar þýðir bara að það verður meira pláss fyrir tunguna í þér.

Felicia-BFelicia á bara örfáa mánuði eftir ólifaða, hún fékk þær fréttir í dag og systir hennar, Bridget Ericsdóttir, grét með henni. Sorglegur þáttur. Felicia gefur í skyn að hún vilji að Bridget gangi Nick yngri í móðurstað, þar sem Bridget er nú gift föður barnsins.

Út að borða-dæmið hans Erics þar sem hann ætlaði að plata fyrri konu sína, Stefaníu, til að afsala sér Forrester-tískuhúsinu, með því að hann þættist hata Brooke, rann út í sandinn þar sem Steffí sá í gegnum karlinn. Hún segir honum aftur á móti fréttirnar um Feliciu, dóttur þeirra. Fleira fréttnæmt gerðist ekki, minnir mig. Ég er aftur á móti orðin húkkt á nýju veðursíðunni ... www.yr.no og skelli þar inn orðinu Akranes. Allt hefur ræst þar. Hver þarf spákonur, -menn þegar svona góð veðursíða segir manni allt það markverðasta sem getur gerst?


Engill undir stýri og súrsæt frægð ...

Ég í morgunÞað tók ekki nema nokkur andartök í morgun þegar klukkan hringdi 6.10 að ákveða að fresta lífinu um klukkutíma. Tók ferð númer tvö  með endastöð í Mosó. Enginn annar en Andri Backmann var undir stýri á 15 við strætóskiptin. Ég var í fínasta skapi þegar ég steig upp í vagninn en þegar Andri var búinn að heilsa okkur farþegunum fóru allir í sólskinsskap ... hann er svo frábær.

„Náum við ekki örugglega leið 18 í Ártúni?“ spurði ég. „Jú, að sjálfsögðu,“ svaraði Andri og hristi vængina glettnislega. Algjört umferðaröngþveiti ríkti þegar við skriðum inn í borgina og útlit fyrir tafir og læti. Andri ýtti bara á takka í mælaborðinu og stórir englavængir spruttu út úr hliðum vagnsins sem hóf sig á loft og flaug yfir umferðarsultuna. Við lentum í Ártúni á réttum tíma og ég rifjaði upp kynnin við lúmsku brekkuna en gekk rólega upp hana, enda voru heilar 10 mínútur í leið 18. Þær urðu nú reyndar 20-25 vegna seinkunar. Brrrrrrr, kalllltttttt að bíða.

DVSvo er mín bara orðin fræg, í DV og allt, með öðru heimsfrægu fólki, á borð við Hugleik og Auði Haralds, fólki sem nennir ekki að eiga bíl. Sá mér til mikillar skelfingar að ég hef ekki verið nógu skýr í tali og ljúfi, yndislegi blaðamaðurinn sem tók símaviðtal við mig í fyrradag misskildi sitt af hverju. Æ, ég hefði átt að biðja um að fá að lesa þetta yfir ...

DÆMI: "Ég bjó á Sauðárkróki þegar ég var 17 ára og tók bílprófið þar. Þar með var ekki öll sagan sögð því í eina skiptið sem ég var beðin um að keyra eitthvað var ég með handbremsuna á allan tímann." SAGAN ÖLL: Jú, jú, ég tók prófið á Króknum og keyrði síðan sama og ekkert eftir það. Um 15 árum síðar var ég að vinna á heildsölu en framkvæmdastjórinn þar vildi endilega að ég gæti keyrt og neyddi mig til að taka tíu rándýra æfingatíma (sem ég borgaði sjálf). Í EINA SKIPTIÐ sem fyrirtækið þurfti á aksturshæfileikum mínum að halda þetta ár sem ég vann þarna þurfti ég að fara niður í Toll með skjöl og var skelfingu lostin allan tímann. Þegar ég kom aftur í vinnuna og var að leggja bílviðbjóðnum sá ég að ég hafði keyrt allan tímann með handbremsuna á.

StrætóSvo kemur líka út eins og ég sé að dissa elsku strætó ... „... þó að strætókerfið henti mér ekki fullkomnlega.“ er haft eftir mér á einum stað. Þetta átti nú bara að vera smánöldur út í það að leið 18 hætti að keyra Stórhöfðann og upp súkkulaðibrekkuna (hjá Nóa Síríus) og fór þess í stað upp í Árbæ. Það og tímaáætlun leiðar 18  hentar mér illa. Fyrir utan þetta og hvað ljósmyndin af mér er skelfileg þá er þetta annars mjög skemmtileg opna um strætólúsera sem hafa ekki efni á því að kaupa sér bíl og hafa fundið upp á hinum ýmsu hallærislegum afsökunum.

Ég er alsæl með að framhaldsskólakrakkar fái frítt í strætó, Andri sagðist finna mikinn mun á fjölda farþega, nú kæmu svo miklu fleiri. Nei, ég vil sko ekki dissa strætó neitt. Ég var alsæl að fá Blaðið og sá að ég var ekki ein um það. Svo efldi það veðurvitund mína sem Íslendins mikið þegar ég beið svona lengi eftir leið 18. Loftræstingin er kannski aðeins of góð í skýlunum ... sama hvar maður stóð fann golan sér alltaf leið til að kitla kinnar og fara undir buxnaskálmar og svona. Það er sko sannarlega að koma vetur.

P.s. Fólkið þarna á myndinni af forsíðu DV hefur enga aðstöðu í himnaríki, eins og þau segja ... ég ætti að vita það.


Strákar og viðreynsla

Allt er hey í harðindumÉg man þá eldgömlu góðu daga þegar karlmenn biðu mín í röðum og voru ekki jafnlatir og áhugalausir og í dag. Fékk margar afar skemmtilegar viðreynslur á sokkabandsárunum. Sú árangurslausasta var þegar ungur maður, u.þ.b. 1,11 á hæð, lyfti glasi sínu hátt upp í áttina að mér og spurði: „Viltu sopa?“ Það bar heldur ekki árangur þegar maður sagði við mig á balli: „Hva, viltu ekki dansa, ertu þá lesbía?“ 
Nú var ég að frétta svolítið sem veldur mér ekki bara ugg og hræðslu, heldur líka skelfingu og ótta. Sjá, hér er bútur úr samtali í vinnunni í gær:
Gurrí: „Ja, ég er nú svo blind á alla viðreynslu að ég efast um að ég fattaði nokkuð nema vera rotuð og dregin inn í helli, eins og gæarnir gerðu í gamla daga.“
Vinnufélagi: „Þú ert aldeilis óheppin, karlmenn eru hættir að stíga fyrsta skrefið. Nú þurfum við stelpurnar að sjá alfarið um þetta.“

Já, karlmenn eru hættir að reyna við konur, konur á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum! Konur sem þora ekki að stíga fyrsta skrefið eru því dæmdar til að pipra. Ja, nema einhver snjall bloggvinur lumi á góðri viðreynslulínu, sem gætu mögulega bjargað slíkum konum sem lesa þetta blogg. Veit af eigin reynslu að strákar falla ekki fyrir:  A) Hvað er svona fallegur maður eins og þú að gera á stað eins og þessum? B) Má bjóða þér í glas, eða viltu bara peninginn?
Hef prófað þetta en án árangurs. Í dæmi A varð gamall skólabróðir öskureiður út í mig, ég skil enn ekki hvers vegna. Hinn flissaði bara og sneri sér að manninum sínum.

Himneskur stjúpfaðirÉg lofaði erfðaprinsinum því einu sinni að finna handa honum skemmtilegan og frábæran stjúpföður. Ýmsir hafa komið til greina í gegnum tíðina, allt frá Nonnum til Sigga og Jóum til Guðmunda. Við höfum vegið og metið þá hvern af öðrum. Sumir flúðu nú bara sjálfir áður en við sögðum þeim upp. Stundum reyndi erfðaprinsinn að koma mér til hjálpar í leitinni að hinum fullkomna stjúpföður. Í nokkur ár sagðist hann t.d. bara vilja Jean Claude van Damme og engan annan. Það bitnaði svolítið á aðdáendum á þessum tíma en það var ekkert á við skelfingu mína um að drengurinn væri að þróa með sér svona lélegan kvikmyndasmekk.

Nú þegar erfðaprinsinn flytur brátt til mömmu sinnar tímabundið mun hann óhjákvæmilega uppgötva að þessi Jónas sem ég hef muldrað óljóst um í símtölum við hann undanfarið er ekki nýi, frábæri skemmtilegi stjúpinn á flotta jeppanum ...


Spjall á stoppistöð

Á stoppistöðinniÓvenjuhugguleg kona fór að spjalla við mann þar sem þau biðu bæði eftir strætó á stoppistöð við Vesturlandsveg.

„Segðu mér,“ sagði hún með yndisþokka. „Áttu þér áhugamál“
„Auðvitað á ég mér áhugamál, ég er með býflugur!“
„Þá hlýtur þú að búa uppi í sveit,“ sagði Gurrí greindarlega.
„Nei, ég bý í miðbænum.“
„Í alvöru, þú hlýtur þá að vera í stórri íbúð!“
„Nei, ég er í tveggja herbergja íbúð!“
„Vá, hvar ertu með býflugurnar þínar?“
„Í skókassa í fataskápnum mínum.“

„Í skókassa? Hve margar býflugur ertu með?“
„Nokkur þúsund, hver nennir svo sem að telja?“
„Þú getur ekki haft nokkur þúsund býflugur í skókassa. Þær deyja!“
„Sama er mér, ég hata þessi kvikindi!“

 ----------- 000 - ooOoo - 000 --------------

Jóna??????


Dúmbó og Tommi

Sjóðheitt kaffiAf hreinum skepnuskap út í sjálfa mig hafði ég kveikt á símanum í sjúkraþjálfuninni ... og hann hringdi auðvitað á versta tíma. Held að ég hafi útskrifast á þessarri stundu í sjálfsstjórn og þolinmæði.
Ætlaði svo í súpu í Skrúðgarðinum. María hafði gleymt loforðinu síðan í gær og í stað framandi, indverskrar súpu beið sama gamla, góða kjötsúpan (sem er samt gómsæt). Tommi sagði að gúllassúpa með chili hljómaði líka vel, verst að það kviknaði í klósettinu í kjölfarið, bætti hann við í stíl Ástu, þau tala nefnilega mannamál. Já, Tommi bílstjóri var í Skrúðgarðinum og lét gamminn geysa að vanda. Ég komst m.a. að því að honum finnst kaffidrykkja í strætó ekki kúl. Líklega heldur hann að farþegar mæti með sjóðandi heitt kaffi í venjulegum kaffibolla og njóti þess að skvetta því yfir hina farþegana. Hmmm. Hann og Gummi bílstjóri, sem hefur verið að keyra útlendinga um hálendið í allt sumar, eru sömu nöldurseggirnir og segja að ef leyft verði kaffi í strætó þá heimti þeir að fá að borða kæstan hákarl undir stýri. Karlskröggarnir mínir ... hehehehehe ...
Þegar ég tek kaffi með mér í strætó þá næ ég yfirleitt að ljúka við það á stoppistöðinni, enda er bara ætlunin að hlýja sér í morgunfrostinu. Kaffið, sem er í lokaða kaffimálinu mínu, er orðið moðvolgt og myndi ekki skaða neinn, hvað þá í dropaformi, þar sem drykkjargatið er pínulítið.

7 ára Hitti mann í sjúkraþjálfuninni og bauð honum góðan dag. Kannski man hann ekki eftir því en einu sinni bað pabbi hann um að keyra mig upp í Hvalfjörð.

Þarna voru lögð fyrstu drög að áhuga mínum á aksturíþróttum því að ungi maðurinn ók á næstum 100 km/klst á flotta Benzinum sínum við mikla hrifningu mína þar sem ég sat í framsætinu og hvorki búið að finna upp öryggisbelti né malbik. Mikið leit ég upp til hans eftir þetta og var örugglega pínulítið ástfangin af honum um tíma þótt ég væri bara sjö ára.

Helsti keppinautur hans um ástir mínar á þessum tíma var Steini í Dúmbó.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 661
  • Frá upphafi: 1524976

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 562
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband