Færsluflokkur: Lífstíll
15.9.2007 | 16:46
Borgarnes vs Akranes - stríð?
Sá bækling hjá Míu systur nýlega um alls kyns námskeið sem verða haldin á Vesturlandi í vetur.
Þótt ég sé í klíkunni (hélt ég) hjá nýbökuðu ömmunni í Borgarnesi og einum af skipuleggjendum þá sá ég að ekkert mósaíknámskeið verður haldið á Skaganum, bara í Borgarnesi! Hefði líka kosið indverskt matreiðslunámskeið, það verður líka í Borgarnesi. Hmmmm
Fátt eftir handa okkur Skagamönnum nema þá helst íslenska fyrir byrjendur! Tek það fram að ég fletti bæklingnum hratt, kannski leynist þarna kjarneðlisfræði í framkvæmd, lúdó fyrir lengra komna, gardínuhekl fyrir enn lengra komna, fiskeldi, fluguhnýtingar og annað spennandi, best að fá bæklinginn lánaðan hjá Míu. Hef eflaust fleygt mínum í ógáti.
------------------ 000 ---o-O-o---000 --------------------
Pólverjarnir eru farnir, rigningin fældi þá á brott (já, Þröstur). Annars rignir ekki í augnablikinu en bleytan gerði þeim erfitt fyrir að spartla, eða líma, eins og þeir kölluðu það. They will be back, þessar elskur. Nema Borgnesingar steli þeim af mér!
Ég komst að því í dag að pólsk tónlist er verulega skemmtileg. Kannski tilviljun ... en þegar svona dramatískur Opruh-legur umræðuþáttur á pólsku stöðinni hófst þá fóru strákarnir! Ekki þó fyrr en þröskuldurinn var silfurklæddur og búið að hylja „svampinn“ undir svalaglugganum.
15.9.2007 | 11:20
Sjálfsstjórn og liðugt lyklaborð
Það fer að komast upp í vana að vera árrisul um helgar. Nú eru þetta orðnar tvær helgar í röð og kannski hægt að tala um reglu. Klukkan var ekki orðin hálfellefu þegar ég vaknaði. Tek það fram að ég þurfti að beita mig virkilega hörðu til að snúa mér ekki á hina hliðina og halda áfram að sofa. Sumir segja að þeim líði best í rólegheitunum fyrir allar aldir þegar lífið ekki komið í gang. Ekki get ég tekið undir það, ekki enn að minnsta kosti.
Ég vorkenndi einni vinkonu minni alveg rosalega yfir því að þurfa alltaf að vakna til dóttur sinnar fyrir kl. 6 á morgnana, eða miðja nótt, þá var krakkaormurinn hennar útsofinn og eldhress. Á þeim tíma hófst útvarpið kl. 7 og sjálfur Jón Múli hjálpaði fólki ljúflega inn í daginn. Eina skiptið sem mömmu tókst að koma mér á fætur fyrir sjö var þegar hún kom hlaupandi inn í herbergið mitt og tilkynnti mér að Vestmannaeyjar væru ónýtar! Hún hafði þann vana að kveikja á transister-batterístækinu þegar hún vaknaði og skömmu síðar, eða á sekúndunni, sló útvarpsklukkan. Þennan morgun brá henni í brún þegar hún heyrði að allt var komið í gang hjá RÚV og hélt að vekjaraklukkan hefði bilað. Prófinu, sem ég átti að fara í, var frestað þar sem Austurbæjarskóli var tekinn undir flóttamenn úr Eyjum. Við í bekknum mínum græddum Eyjapæjuna Emmu Davíðs í kjölfarið og urðum við það örlítill hluti af ævintýrinu. Mig minnir að það hafi verið mamma hennar sem fór að pakka niður ýmsum óþarfa í klikkuðum flýti þegar verið var að rýma Eyjar ... m.a. lambalæri úr frystinum. Ég fór síðan að vinna í Eyjum rúmu ári seinna og það var nú meiri ævintýratíminn. Vann m.a. með Shady Owens, hef nú sagt frá því áður, en það var eiginlega hápunktur lífs míns fram að því að hafa fengið að hlaupa út í sjoppu fyrir hana.
Ja, hérna, hvað lyklaborðið getur farið með mann út um víðan völl ... þetta átti að vera montfærsla um sjálfsstjórn og ég er allt í einu farin að tala um Eyjagosið 1973.
14.9.2007 | 10:46
Strætóhöfnun, krúttlegir kettir og föstudagsbrandari
Held að ég sé búin að gleyma því hvernig á að ferðast með strætó ... ég var komin út á stoppistöð þegar Ásta drossíukerling hringdi. Strætó kom þegar ég tók á móti sms-inu þannig að ég sá bara sáran vonbrigðasvipinn á bílstjóranum þegar ég hafnaði honum. Í sárabætur gaf ég honum séðogheyrtið mitt síðan í gær og þá hýrnaði aðeins yfir kauða.
Jóhannes almáttugur, fyrrum tæknimaður minn á Aðalstöðinni, nú tæknitröll á Sýn, eineggja tvíburi, eiginmaður, faðir og ljúfmenni, þarf að losna við kettlinga. Hann á fjóra ketti og vill gefa tvo af þeim. Held að móðirin sé líka orðin ansi þreytt og afkvæmin farin að þrá heimili til að geta búið til kósí, malandi anda. Ég plataði Jóhannes til að senda mér myndir af sætu dýrunum sínum til að birta á blogginu og ef einhvern góðhjartaðan bloggvin (dýravin) langar í kettling þá skal ég koma skilaboðum til Jóhannesar. Hann býr úti á Seltjarnarnesi en er samt ágætur.
Svarti kisi er högni en hinn er læða. Þau eru orðin fimm mánaða, miklu skemmtilegri og meðfærilegri dýr en 2 mánaða kettlingar ... mikill leikur í þeim en samt komið vit í þá. Ég hef harðneitað að taka yngri en 3 mánaða og hef verið með dásamleg dýr. Tommi er eldgamall en samt er heilmikill leikur í honum, hann þýtur stundum eins og eldibrandur um allt himnaríki.
Læt dagsanna sögu af Skaganum fylgja með í tilefni föstudags. Hún kennir manni að nágrannar manns geta leynt á sér:
Dómarinn bað ákærða um að rísa á fætur. „Þú ert ákærður fyrir að myrða kennara með keðjusög.“ sagði hann.
„Lygamörður,“ heyrðist í manni á áhorfendabekkjunum.
„Þögn í réttarsalnum,“ sagði dómarinn og hélt áfram: „Þú ert einnig sakaður um að hafa myrt skokkara með skóflu!“
„Fjandans nirfill og nískupúki,“ kallaði sami maður aftur.
„Ég sagði ÞÖGN,“ æpti dómarinn og sneri sér að hinum ákærða: „Svo ertu ákærður fyrir að drepa stöðumælavörð með vélsög!“
„Svikahrappur og aumingi,“ heyrðist frá sama manninum og áður.
Dómarinn byrsti sig og sagði: „Ef þú segir mér ekki ástæðuna fyrir þessum frammiköllum þínum þá læt ég setja þig í fangelsi fyrir óvirðingu við réttinn!“
„Ég hef sko búið við hliðina á ákærða í tíu ár og hann hefur aldrei getað lánað mér verkfæri þegar ég hef beðið hann um það og ekki þóst eiga!““
11.9.2007 | 18:57
Veður og vandamenn
Nú stendur yfir landsleikur á hlaðinu við himnaríki. Sjórinn á þó vinninginn, enda er hann skrambi flottur núna. Núna klukkan 19 er háflæði, 3.91 m, skv. sjávarfalla- og áhlaðandaupplýsingum uppáhaldssíðunnar minar: http://vs.sigling.is/pages/84
(Áhugamál: Lestur góðra bóka, áhlaðandaupplýsingar og heimsfriður.)
Sjálfstjórn mín er aðdáunarverð. Hringt var frá Spron áðan, þótt ég sé með rautt X í símaskránni, og mér boðið kreditkort með alls kyns fríðindum og hárri heimild. Ég hefði ekki hikað við að stökkva á þetta fyrir tíu árum en núna hugsaði ég hratt. Á meðan ungi maðurinn í símanum lét dæluna ganga komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði nákvæmlega ekkert við það að gera og gæti ómögulega réttlætt það fyrir sjálfri mér. Viska ellinnar að laumast að mér eða hrein og klár skynsemi með dassi af yndisþokka?
Það eru komin sex ár upp á dag síðan ég nagaði mig harkalega í handarbökin yfir því að hafa sagt upp Fjölvarpinu. Heimurinn getur andað léttar þar sem ég er orðin áskrifandi aftur.
Það verður brjáluð rigning á morgun og klikkað rok á fimmtudaginn. Haustið heilsar með látum. Er ég rosalega klikkuð að hafa gaman af þessu?
Sól og blíða er eitthvað svo leiðigjarnt veður, ég held að ég gæti ekki blómstrað í slíku veðri þótt reynt hafi verið að telja mér trú um alla ævi að það sé besta veðrið.
Hreinskilni dagsins var í boði Veðuráhugakonustofu himnaríkis ...
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.9.2007 | 15:01
Vangaveltur úr vélasalnum ...
„Hvers vegna hefur engum dottið í hug að finna upp hljóðlausa borvél?“ spurði yfirmaður minn og dæsti.
Núna akkúrat standa yfir háværar breytingar í salnum hér í verksmiðjunni og mér sýnist að búa eigi til millivegg til að við stelpurnar í kókosbolludeildinni þurfum ekki lengur að klofa yfir strákana í súkkulaðibuffinu á leið okkar í mat og kaffi. Jamm. Meðfylgjandi mynd, sem er stolin af vefnum hennar Hildu systur, www.sumarbudir.is sýnir einmitt krakkakrútt sem stóð sig svona líka vel í kókosbolluboðhlaupinu.
Það styttist óðum í heimferð, Inga er á leiðinni og saman ætlum við upp á Skaga með smáviðkomu hinum megin á landinu, eða í Kaffitári Bankastræti! Ætla að reyna að lenda í æsilegum ævintýrum á leiðinni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.9.2007 | 11:27
Pælingar og spælingar
Það hafa ekki fyrr birst fréttir af því að það sé meinhollt að sofa út þegar fótaferðartíminn í himnaríki verður um tveimur tímum fyrr en vanalega um helgar. Hingað til hef ég getað stært mig af því að breytast í eðlilega b-manneskju strax á föstudagskvöldum og sofa til hádegis á laugardögum og sunnudögum. Skrýtna lífið hefst svo á mánudagsmorgni. Mér finnst ekki enn eðlilegt að vakna kl. 6.15 þótt mér takist það vissulega, kannski hef ég sofið yfir mig um klukkutíma tvisvar sinnum síðan snemma árs í fyrra, þó verið komin vel fyrir níu í vinnuna.
Sól, fallegt veður og hávaði í öldunum klukkan tíu í morgun var reyndar hvetjandi til fótaferðar, svo og tilhugsunin um Formúlu 1 sem hefst á hádegi og ég vil ekki missa af. Ég þekki fólk sem telur það vera útsofelsi að vakna kl. átta á morgnana, það er óskiljanlegt og frekar hræðilegt, en vissulega fer þetta allt eftir því hvenær fólk tímir að fara að sofa. Ég er að sjálfsögðu að tala um fólk sem þarf ekki lengur að vakna til barna sinna. Það er eyðsla á góðu kvöldi að eyða því í rúminu, nema eitthvað spennandi sé þar, ég segi nú svona, og ég bíð spennt eftir því að sá tími komi að ég þurfi ekki mína 8-10 klukkutíma í svefn. Það er búið að segja mér í tíu ár að ég sé orðin svo gömul og nærsýnin hverfi skjótt en fjarsýni komi í staðinn, ég þurfi ekkert að sofa að ráði og fleira og fleira sem hljómar spennandi. Það bólar ekkert á þessu. Hér með auglýsi ég eftir þessum kostum! Ég hrópaði reyndar upp yfir mig af fögnuði þegar ég fór að finna fyrir stirðleika á morgnana og hugsaði að nú væri ég loksins að verða fullorðin en það var tekið frá mér um leið og Beta sjúkraþjálfari komst í málið. Eina sem ég finn fyrir og vekur reyndar hjá mér ugg er þessi gífurlega leti við að æsa mig yfir hlutunum. Ég nenni ekki einu sinni í trúarbragðadeilur á blogginu og þá er nú langt gengið.
7.9.2007 | 09:14
Klökknað á Kjalarnesinu
Heimir bílstjóri táraðist næstum úr gleði þegar ég lét loksins sjá mig með strætó í morgun. Ekki dró úr táraflaumi hans þegar ég gaf honum Séðogheyrtið mitt síðan í gær. Undanfarna morgna voru það nefnilega drossíur sem fluttu fegurðardísina til höfuðborgarinnar. Ég táraðist líka en það var aðallega vegna þess að ég rak veika hnéð í fargjaldsbaukinn sem er staðsettur beint fyrir framan fæturna á mér þegar ég vel þetta sæti. Þurfti að auki sitja í mjög dónalegri stellingu á leiðinni og var orðin svo skökk og stirð í Mosó að ég ákvað að treysta á að Prentmets-gæinn hefði ekki sofið yfir sig. Hann reyndist vera í aukabílnum, vel vakandi, og lenti í Mosó einni mínútu á eftir okkur Heimi snillingi Schumacher. Auðsótt mál var að fá að sitja í upp í Hálsaskóg (Lyngháls og nágrenni) og gat ég horft hæðnisaugum niður á lágu einkabílana eins og fólk í hærri sætum gerir vanalega. Sá í "fokkings" Mannlífi lesendabréf þar sem einhver karlmaður kvartar yfir því að gamalt fólk og konur hangi á vinstri akrein á of litlum hraða þannig að duglegir og klárir karlmenn sem keyra á 90 komast ekkert áfram. Vá, ein sem ekur Vesturlandsveginn daglega veit að þetta er bull. Ég sé karla þarna, gamalt fólk (þrjátíu ára og eldra) og konur hægja á morgunumferðinni með þessum hætti. Mjög margir karlanna, sérstaklega seinni part dags, hanga í símanum að auki, líklega að fjarstýra konunni um það hvað hún eigi að kaupa í matinn. Konur nútímans kunna hvorki að versla né elda. Stelpur, við megum ekki gleyma þessum gamla hæfileika þótt strákarnir séu góðir í þessu!!!
Fallið á ógæfumölinni sem orsakaði hnémeiðslin verður senn ársgamalt. Verð að láta mér detta eitthvað í hug til að halda upp tímamótin. Vil ekki reyna að detta aftur af tilefninu, hef nefnilega stært mig af því að fá "gat" sem þarf að sauma á 40 ára fresti og vil helst halda þeirri hefð. Ungi, sæti en skilningslausi læknirinn á heilsugæslunni á Akranesi harðneitaði að kyssa á bágtið, heldur saumaði níu spor í fagurlega skapað hægra hnéð á mér. Hitt hnéð var snúið og krambúlerað og fékk teygjubindi. Þetta kvöld sá ég Flórens í annað skiptið á ævinni, nágrannakonu mína sem var að ljúka hjúkrunarnámi. Þótt blóðið flæddi í stríðum straumum um himnaríki vildi ég í lengstu lög sleppa læknisför (ég er sko töffari) og hringdi í verðandi hjúkkuna og bað um álit. Flórens (Sigrún sveitamær) öskraði tryllt þegar hún sá allt blóðið, tók mig í fangið, hljóp með mig út í bíl og skutlaði mér til læknis sem veinaði enn hærra en Flórens, enda hafði hann örugglega aldrei séð önnur eins meiðsli. Man þetta kannski ekki alveg nákvæmlega, enda komið heilt ár síðan.
Megi dagurinn verða frábær hjá ykkur, bloggvinir góðir.
4.9.2007 | 12:43
Óvæntir hæfileikar
Þvílíkt óveður í morgun. Kveið því virkilega að hlaupa út á innanbæjarstrætóstoppistöð en í svona roki og rigningu verður fólk blautt inn að skinni á nokkrum sekúndum. Viti menn, það stytti upp um leið og ég gekk út úr himnaríki og ekki nóg með það heldur átti Einar, eiginmaður Flórens (sem er Sigrún sveitamær), leið fram hjá og heimtaði að fá að skutla mér í sjúkraþjálfun. Gat vissulega ekki stillt mig um að hugsa hvort ég væri virkilega svona voldug, ætli ég geti í alvörunni stjórnað veðri og jafnvel ferðum fólks? Ja, ef svo er þarf ég að læra betur að nýta mér þetta. Ég hef reyndar stundum fundið fyrir þessu á ýmsum strætóstoppistöðvum, ég kannski óska þess ofurheitt að strætó fari að koma og hann kemur, alltaf!
Frá sjúkraþjálfaranum sést vel út á sjó í norður. Risaöldur og skvettugangur gladdi augu vegfarenda og íbúa við Vesturgötu. Nú hlýtur að vera gaman hjá Huldu, konunni sem býr til besta rabarbarapæ landsins. Sjórinn við Langasandinn er ekki svo slæmur heldur, væri samt alveg til í nokkur sker til að fá flottari skvettur. Úps, mjög líklega rætist þessi ósk, miðað við atburði morgunsins.
Stofuglugginn hefur ekkert lekið eftir þéttinguna en hinir tveir voru á floti í morgun. Stóru baðhandklæðin koma sér aldeilis vel.
3.9.2007 | 18:39
Haustlægð fyrir hetjur
Næstum full rúta af ævintýraþyrstum ofurhugum tók strætó heim seinnipartinn ... rauð tala blasti við á skiltinu, eigi svo ógnvekjandi talan 17, en strætó fer ekki ef hviður fara yfir 32 m/sek. Það sem vantar hviðumæli milli Hvalfjarðarganga og Kjalarnessbyggðar vissum vér farþegar að lítið væri að marka þetta. Ég byrgði mig því upp af nauðsynjavörum; vatni, álteppi, áttavita, samlokum og landakorti, svona til öryggis ef okkur bæri af leið. Þá gæti ég opnað Mary Poppins-töskuna mína á réttu augnabliki og gefið mannskapnum hressingu. Svo var bara fínt verður á leiðinni, eða þannig, bara venjulegt haustveður, rok og rigning. Heimir fór létt með að koma okkur heilum heim.
Tommi, Kubbur og róbótinn tóku mér hlýlega þegar ég kom heim. Nú þarf ég bara að ákveða hvaða herbergi óskírður hreinsar næst. Mikið ætla ég að kenna þessu krútti að sjá um þvottinn líka, alla vega að brjóta hann saman og ganga frá honum inn í skáp.
Á morgun er spáð vitlausu veðri, rigningu og roki að suðvestan. Loksins vinnur Siggi stormur fyrir laununum sínum! Gluggi hinna 15 handklæða í stofunni hefur enn ekkert lekið síðan þéttingin fór fram fyrir þremur vikum þegar Óli granni kom í spartl-heimsókn með eiginkonu og barnabarni og fékk afmæliskaffi að launum. Smá bleyta var í bókaherbergisglugganum en ég hef ekki kíkt á svefnherbergisgluggann, þar setti ég handklæði í morgun. Annað hvort er það blautt eða þurrt ... det kommer bare i ljus.
Mig langar í svona brim:
http://www.youtube.com/watch?v=47hmqfXuA3A&mode=related&search
1.9.2007 | 21:18
Rapptónlist og fórnarlömb hennar ...
Hvað gera sætar stelpur á laugardagskvöldi ef þeim hefur ekki verið boðið út? Jú, þær sem hunskast ekki til að ljúka við Harry Potter-bókina fyrir strætóbílstjórann sinn setjast við tölvuna og láta heillast af góðri tónlist á youtube.com.
Einu sinni var ég stödd úti á götu í New York og dásamlegir tónar bárust frá lítilli plötuverslun. Þeir löðuðu mig inn þar sem afar fríkaður afgreiðslumaður stóð fyrir aftan búðarborðið.
„I´m looking for good rap music,“ sagði ég kurteislega. „Sorry, we do not sell rock music,“ sagði hann hrokafullur. „No, I mean RAP music, Wu Tang Clan, Cyprus Hill ...“ Ég komst ekki lengra, ég hélt að ungi maður ætlaði að fara að faðma mig, slík var gleði hans yfir „gamalmenninu“ með góða tónlistarsmekkinn. Ég fór út með plötuna sem innihélt lagið og tvær aðrar að auki, erfðaprinsinum til mikillar gleði. Hér er lagið, njótið:
http://www.youtube.com/watch?v=_TlKEQ2nIyo
Prófaði að gamni að leita enn einu sinni að gömlu uppáhaldslagi á youtube ... og fann það, ég hafði alltaf skrifað hljómsveitarnafnið vitlaust og ekki nema von að lagið fyndist ekki. Heyrði það á X-inu í gamla daga og kolféll fyrir því strax. Strákunum á X-inu fannst bráðfyndið að næstum fertug kerlingin á Aðalstöðinni hringdi stundum í þá til að biðja þá um að spila það. Æ, þetta voru svo frábærir strákar. Sakn, sakn!
Upptakan er ekki nógu góð þannig að viðlagið heyrist illa en lagið er samt flott:
http://www.youtube.com/watch?v=oW6ht5QtOYk&mode=related&search=
Læt eitt gott með Eminem fljóta með, að mínu mati besta lagið hans ...
http://www.youtube.com/watch?v=DFPShUSgFyI
Fyrir þá sem fíla ekki rapp er hér gamalt og harla gott lag, mæli með því sem vangalagi í kvöld: http://www.youtube.com/watch?v=hkbdP7sq0w8
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.5.): 133
- Sl. sólarhring: 136
- Sl. viku: 614
- Frá upphafi: 1526640
Annað
- Innlit í dag: 116
- Innlit sl. viku: 525
- Gestir í dag: 107
- IP-tölur í dag: 106
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni