Færsluflokkur: Kvikmyndir

Draugaskip og dýrðarsónata nr. 11

DraugaskipiðEr enn í losti eftir að hafa horft á byrjunina á mynd á RÚV, Draugaskipið. Þar er fólk köttað í sundur í miðjunni með vír. Algjör hryllingur. Svo er myndin bara bönnuð innan 12 ára. Ætti að vera innan 50 ára svo ég hefði sloppið. Mætti ég þá biðja frekar um sæta tilvistarkreppumynd með t.d. Ben Affleck. Held ég verði að skella mér í bólið með hryllingsbókina mína eftir Dean Koontz og jafnvel klára hana til að sýnir úr Draugaskipinu valdi engum martröðum. Erfðaprinsinn tautaði: “There is a god,” þegar myndin byrjaði, eða það heyrðist mér. Ég ætla a.m.k. ekki að vekja hann ef hann öskrar upp úr svefni í nótt.

Ég leitaði nýlega dauðaleit á youtube að einu uppáhaldspíanóverkinu mínu. Minnti að það væri eftir Mozart og þrjóskaðist sem betur fer við leitina. Var búin að syngja stefið fyrir gæjana í Tólf tónum og þeir sögðu mér hvað það héti en síðan eru liðin mörg ár. Fann svo þessa dýrð mjög aftarlega. Setti inn “piano” og “Mozart” og það borgaði sig. Hér er dýrðin, góða skemmtun: http://www.youtube.com/watch?v=lOfNfa3gcqk&feature=related


Tilraunir, vídjó, annir, heimför og bold ...

Tilraunir í matsalnumSkelfilegt að rúmur sólarhringur hafi liðið án bloggs um m.a. það hvað maturinn í mötuneytinu í hádeginu í gær var vondur! „Ó, er þetta buff?“ spurði maðurinn fyrir framan mig í biðröðinni. „Nei, þetta er ýsa,“ svaraði Anna glaðlega. Þetta reyndist rétt, en ýsan var marineruð í indverskum kryddlegi og var dökkblágræn á litinn ... í gegn. Hefði alveg getað verið frumlegt buff. Ég fann ekkert indverskt kryddbragð þegar ég reyndi að borða brimsaltan fiskinn. Fólk hneig niður í hrönnum í matsalnum, eða hefði gert ef það byggi ekki yfir svona mikilli sjálfsstjórn eftir ýmsar tilraunir í mötuneytinu. Það var því gaman að sjá afsakandi svipinn á kokkunum í dag þegar þeir reyndu að öðlast fyrirgefningu okkar með því að vera með lambalæri og ísblóm í eftirrétt.

Gagnkynhneigðir slökkviliðsmennGærkvöldið var annasamt en þá var þrennt á listanum við heimkomu: 1. klára tvær greinar, 2. fara í snöggt bað, 3. horfa á eina til tvær spólur til að skrifa um (DVD). Fyrir valinu varð 1. ágætis Medion-tölva með flatskjá, 2. blá freyðibaðsbomba frá lush, 3. I now pronounce you Chuck and Larry. Til öryggis var ég með aðra mynd því að ég bjóst ekki við miklu af grínmynd um gagnkynhneigða menn sem leika hommapar. Mér til mikillar undrunar grenjaði ég nokkrum sinnum úr hlátri og hefði jafnvel þurft að stoppa myndina stöku sinnum til að missa ekki af neinu. Ekki misskilja mig samt, þetta er hálfgerð bullmynd en á köflum komu ansi góðir brandarar sem kitluðu hláturtaugar okkar erfðaprinsins alveg hrikalega mikið. Vinkona hommanna spurði annan þeirra hvernig hann lokkaði hinn (þann feitlagna) í rúmið. „Það er ekki mikið mál,“ sagði Adam Sandler, „ég legg bara pítsu á rúmið og þá kemur hann hlaupandi!“ (já, feitabollubrandarar líka).

Bíllinn hennar Erlu vakti eftirtekt á KjalarnesiÁ mínútunni fimm í dag gekk ég virðulega út úr fyrirtækinu, fór yfir bílaplanið og gekk inn hjá Sko. Þar var elskan hún Erla (bæjarstjóradóttir) að slökkva á tölvunni sinni og gera sig tilbúna í heimferð á Skagann. Ég færði henni smáræði úr ávaxtadeild mötuneytisins, eða appelsínusúkkulaði, við mikinn fögnuð hennar. Þetta mauluðum við á leiðinni og nutum hverrar mínútu. Svo var það latte í himnaríki, boldið og bloggið ... og verðskuldað helgarfrí. 

Hingað og ekki lengra, sumir bloggvinir. Sá aðeins boldið í gær og þar grét Bridget af söknuði þar sem hún má horfa upp á barnið sitt í fangi réttu móðurinnar sem lifnaði við í sjúkrabílnum. Felicia er á einhverju flippi og er með stífan hanakamb, missti af því hvernig henni datt það í hug, sá síðast að hún bað móður sína að klippa af sér hárið þar sem hún var að missa það vegna lyfjanna. Brooke tilheyrir Ridge ...Hún vill helst láta barnið sofa í sjúkrarúminu hjá sér en dokksi bannar það. Jackie er enn í fangelsinu og Massimo gerði henni ljóst að ef hún reyndi ekki að hafa áhrif á Nick, son þeirra, svo hann hætti við Brooke sem á að vera gift Ridge, syni hans, þá mun hún sitja inni í 25 ár. Nick og Brooke ætla ekki að láta kúga sig til að hætta saman. Í dag: „Ég hélt að þú ætlaðir að gera eitthvað í þessu,“ sagði Ridge beiskur við pabba sinn. Þeir sjá Nick og Brooke í faðmlögum í dómshúsinu. „Það ríkir stríð í fjölskyldunni vegna konu sem tilheyrir Ridge,“ sagði Massimo við Jackie sem var að koma út úr lyftunni í handjárnum, ótrúlega vel útlítandi eftir nótt í fangaklefa.
Bridget talar eitthvað um sleepover Dinos litla en blóðmóðir hans, Felicia, ekki lengur með kamb, kallar hann Dominic og segir að nú búi barnið hjá sér ... á sjúkrastofunni! Læknirinn ungi og huggulegi, bróðir Hectors slökkviliðsmanns, daðrar á fullu við Feliciu og talar líka skynsamlega um þá ást sem Bridget ber eflaust til barnsins. Er búin að fatta þetta. Hann langar í Feliciu en ekki krakkagrisling í kaupbæti! Svona er boldið í dag!


Dulbúið kristniboð í spennumynd? Read all about it!

I am legendVið erfðaprins fórum í gær á myndina I am legend. Hún var að mörgu leyti góð og spennandi en undirtónninn, kannski öllu heldur boðskapurinn, truflaði mig heilmikið. Hann varaði við að fólk skipti sér um of af „sköpunarverkinu“. Kristileg samtök hafa líklega styrkt gerð myndarinnar. Læknir nokkur fann lækningu við krabbameini með því að breyta mislingaveirunni ... veiran stökkbreyttist með geigvænlegum afleiðingum; næstum útrýmingu mannkyns. Í lok myndarinnar opnast stórt hlið og það fyrsta sem sést er falleg og friðsæl kirkja inni í miðju afgirtu þorpi sem er eflaust fullt af vingjarnlega, trúuðu fólki. Þarna væri vonin, þarna var hið sanna bjargræði fólgið ... arggggg! Æ, af hverju fá áhorfendur ekki að draga sínar eigin ályktanir, af hverju á að troða inn í okkur svona boðskap, dulbúnum í vel leikinni spennumynd? Ef ekki væri fyrir læknavísindin og „fikt“ þeirra værum við enn að deyja úr lungnabólgu, berklum, svartadauða, bólusótt ... og það héti guðsvilji.

GlansmyndMér líður reyndar afskaplega vel í kirkju, þegar ég á erindi þangað, finnst gaman að hlusta á góðan prest og uppáhaldstónlistin mín er háklassísk kirkjutónlist ... en ég er farin að óttast þessa þróun sem er t.d. mjög áberandi í Bandaríkjunum. Meira að segja Gyllti áttavitinn, sú frábæra ævintýramynd, var dæmd óguðleg (eins og Harry Potter) og þótti svakatrúuðum ástæða til að vara fólk við henni. Aðvörunin þýddi minni aðsókn frumsýningarhelgina og það getur kostað að ekki verði gerðar framhaldsmyndir eftir bókum II og III. Öll þessi læti í heiminum, á Íslandi og á blogginu hafa sannfært mig um að best væri að fá trúarbragðakennslu í skólana, og að kenna þyrfti börnum heimspeki, víðsýni og umburðarlyndi. Agaleysi er það sem amar að flestum íslenskum börnum, ekki skortur á meiri kristinfræðslu. Það gerði mér a.m.k. ekki gott að hafa ofsatrúarmann sem umsjónarkennara í gamla daga, frekar hið gagnstæða.
Ekki sammálaTil eru kristileg samtök, t.d. KFUM og KFUK, sem stunda trúboð allan ársins hring fyrir börn. Foreldrum er í lófa lagið að senda börn sín á samkomur hjá þeim. Í æsku fannst mér hún Kristrún í Frón (KFUK) miklu ljúfari en nokkurn tíma þeir kennarar/prestar sem kenndu mér kristinfræði í skólanum og svo gaf hún okkur alltaf flottar glansmyndir.

Ja, hérna. Þetta átti sko ekki að vera kristileg færsla ... hvað þá ókristileg. Ég nenni yfirleitt ekki að taka þátt í heitustu umræðunum, fleygja þar fram frábærum skoðunum mínum og uppskera ekkert nema vanþakklæti ... en ég flissa þó oft yfir kommentum frá sumu fólki sem segir með ýmsum tilbrigðum á bloggsíðum fólks: „Skoðun þín er ekki rétt, þú átt að hafa sömu skoðun og ég!“ Jamm, ég elska bloggið.

Stormurinn byrjaður ...

Hviður á KjalarnesiVið erfðaprins ákváðum í morgun að skella okkur á bíó í bænum, Kópavogi of all pleisis, og sjá Gyllta áttavitann. Við vissum svo sem að það ætti að hvessa seinnipartinn en á straumlínulaga kagga kemst maður heim í meira roki en t.d. strætó sem fer ekki ef það eru yfir 30 m/sek í hviðum. Það voru ekki nema 17 m/sek hviður á Kjalarnesi skv. skiltinu í Mosó. Þar sem hviðumælirinn er staðsettur var ljómandi veður en þegar nær dró Hvalfjarðargöngunum og við vorum komin framhjá Grundahverfinu var orðið svolítið blint. Mun meira rok en mælirinn sagði til um feykti snjó yfir veginn og þurftum við að aka hægt og varlega. Svo sáum við nokkra bíla stopp þarna og greinilega hafði orðið árekstur. Einn bíll kominn út af. Vona innilega að enginn hafi slasast. Snilldarökumaðurinn, sonur minn, reyndi að gera bílunum á móti viðvart með því að blikka nokkrum sinnum háu ljósin og vonandi komst það til skila. Fórum til öryggis venjulegu leiðina heim á Skaga en hefðum átt að fara neðri leiðina. Heilmiklir hálkublettir á leiðinni og ekki mjög þægilegt heldur að vera með bíl í rassg... alla leiðina frá göngum. Nú á að fara að rigna og þá þarf að koma fyrir handklæðum og dagblöðum við svaladyrnar, gaman, gaman.

Lýra í Gyllta áttavitanumVið skemmtum okkur konunglega á myndinni, ég bauð prinsinum meira að segja í lúxussal, aldrei keypt mig inn á lúxussýningu áður. Það var ansi notalegt að liggja í leisíboj og maula poppið. Fína og fræga fólkið lét sig ekki vanta. Fyrir aftan okkur sátu Bubbi Morthens og sonur hans og í sömu bekkjarröð Einar Bárðar og elskan hún Áslaug, konan hans. Áslaug var fulltrúi Icelandair í blaðamannaferð sem ég fór í til Þýskalands fyrir nokkrum árum og reyndist alveg frábær. Gaman að hitta hana í hléinu. Eins og ég sagði þá var myndin frábær og mæli ég hiklaust með henni!!!

 ------     ------------        ---------     ---------       ---------

West HamRosalega hefði verið gaman að vera á leik MU og West Ham í dag, arggggg! Mig langar mikið að sjá þessi tvö keppa læf. Það stendur til að fara í West Ham-fótboltaferð til Englands eftir áramót, kannski í febrúar. Ég á miðana og ætla að bjóða erfðaprinsinum með, Mía systir og Sigþór, mávur minn, koma líka en Sigþór er formaður West Ham aðdáendafélagsins á Akranesi, jafnvel á öllu landinu.

Mía og Sigþór gáfu erfðaprinsinum svona treyju í jólagjöf. Ég fékk náttkjól frá þeim ... fegin að það var ekki nál og tvinni. Sjúkkittt! Erfðaprinsinn segir mér að þessi leikmaður sé kominn yfir í MU, sá hlýtur að vera spældur í dag ... múahahhahahaha ...  


mbl.is Stormi spáð á öllu landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólasveinar

BæjarferðVar tilkynnt seinnipartinn í dag að ég væri ekki velkomin til vinnu aftur ... fyrr en eftir áramót. Ætla að fara að drífa mig í háttinn og sofa til hádegis. Þá verður kvefið líklega farið. Síðan að skreppa í jólagjafaútkeyrslu í bæinn á morgun. Vona að allir verði heima.

Mun heimta mjólkurglas og smákökur á svona 20 stöðum.

 ----------       -----------        ------------          ------------          ----------

 

OJ SimpsonMoli dagsins: Vissuð þið að O. J. Simpson kom til greina í hlutverk Tortímandans en framleiðendum fannst hann líta út fyrir að vera aðeins of næs til að hægt væri að taka hann alvarlega sem kaldrifjaðan morðingja?


Lymskuleg útrýming pósthúsa og vottur af svarta dauða ...

DúllurnarTókst að vinna frá 8-14 í dag ... en ekki að blogga. Komst heim með Ástu og síðan við sæmilegan leik í leisígörl þar sem ég hef legið meira og minna síðan. Horfði reyndar á DVD-mynd að beiðni erfðaprinsins en í hans huga er slíkt bara slökun og guðdómlegheit. Myndin, Knocked Up, byrjaði og endaði vel, var soldið fyndin en féll svo á tímabili ofan í gryfju staðalímynda þar sem karlarnir eru skuldbindingafælnir aumingjar og konurnar nöldrandi viðurstyggðir sem gera fátt annað en reyna að breyta mönnum sínum. Ég veit að það er til svona fólk en því fólki hefur líka verið sagt frá blautu barnsbeini að svona séu nú karlar og svona séu nú konur. Þegar ég sá einhverja skelfilega sjálfsræktarbók nýlega, man ekki heitið á henni ... kannski Konur hugsa of mikið, eða Kona, hugsaðu meira! fattaði ég að bækur, sjónvarpsmyndir og svona viðhalda þessu. Brennum bæk ... heheheh, djók!  

Svarti dauði ekki spurningÉg las gamlar læknabækur í draumi áðan og komst að því að þau einkenni sem hrjá mig benda til þess að sé mjög líklega með svarta dauða. Þegar ég snýti mér þá flautar hægra eyrað ... svarti dauði. Hnerri þrisvar í röð, mörgum sinnum á dag ... svarti dauði. Að vísu held ég að ég muni ná mér upp úr þessu, sérstaklega af því að Ásta er á bíl á morgnana og ég þarf ekki að skjálfa úti á stoppistöð eða pína mig upp Súkkulaðibrekkuna í öllum veðrum.

Úlfur og ÍsakVerst að hafa ekki komist í afmælið hennar Hildu systur í gær en hún varð 89 ára, þessi elska og er bara skrambi ern. Sætustu tvíburar í heimi, Ísak og Úlfur, eiga svo ársafmæli í dag. Knús!!!

Vinkona mín hringdi örvæntingarfull í mig um fjögurleytið í dag. „Ertu við tölvuna? Viltu þá athuga fyrir hvar hægt er að finna pósthús í Reykjavík!“ Ég fann heimasíðu Póstsins og viti menn, það er næstum búið að útrýma pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu. Í gamla daga, eða fyrir nokkrum árum, gat ég t.d. valið um að fara á pósthúsin á Hofsvallagötunni, í Pósthússtræti eða í Eiðistorgi, í réttri fjarlægðaröð frá Hringbrautinni.  

PósthúsÉg tilkynnti vinkonunni að í Reykjavík, hinni dreifðu höfuðborg lýðveldisins Íslands, er að finna heil fimm pósthús (eða drög að pósthúsi) á eftirfarandi stöðum: Pósthússtræti 5, Þönglabakka 1, kassi í Hagkaupum í Eiðistorgi (drög), Hraunbæ 119 og Hverafold 1-3. Fyrirtækjapósthús er í Stórhöfða 32. Eitt pósthús er síðan í Kópavogi, annað í Garðabæ, eitt í Mosó og eitt í Hafnarfirði. Svo er dýrlegt pósthús hér á Skaganum. Tæknin er auðvitað orðin svo mikil að fólk getur sent jólapakkana með tölvupósti.

Þessi sama vinkona sagði mér frá fyndnustu jólagjöf sem hún hefur fengið á ævinni. Hún var þá í þremur vinnum, af því að einstæðar mæður hafa það svo gott, og skúraði m.a. daglega á leikskóla. Frá leikskólanum fékk hún leikhúsmiða fyrir einn í jólagjöf! Hún fann þennan miða í jólatiltektinni 2007 og var löngu búin að gleyma þessum miða. Annar leikskóli gaf starfsfólki sínu eina jólakúlu á kjaft. Algjör snilld! 


Hræðsla við hvítlauk - Sicko

Hræðsla við hvítlaukHér í himnaríki ríkir sama ástandið, kvef og slappleiki. Það hefur orsakað þessa bjánalegu "bloggleti". Erfðaprinsinn var að enda við að færa mér sjóðandi panodil-hot. Veit ekki hví þetta hik hefur verið á mér í sambandi við hvítlaukinn, ekki einu sinni húsfélagsformaðurinn hafði lyst á því að  kyssa mig á kinnina fyrir tímarit sem ég gaf honum í gærkvöldi. Hilda systir ráðlagði mér að borða hvítlauk beint af skepnunni og svo hafa komið frábær ráð í kommentakerfinu - takk kærlega fyrir þau. Nú verður að grípa til einhverra ráða, ekki nenni ég að vera veik um jólin! Hvítlaukur er kannski guðdómlegur í mat en hrár ... arggg!

Michael Moore SickoHorfði á Sicko í gærkvöldi, heimildamynd Michaels Moore um bandaríska heilbrigðiskerfið. Hún var rosalega góð! Moore notar kannski umdeildar aðferðir en ef þær virka þá er það bara fínt. Mikið vona ég að við förum af þessari hálfamerísku braut okkar í heilbrigðismálum og hættum að efla kostnaðarvitund þeirra sjúku, eins og það er kallað, með því að taka stórfé fyrir myndatökur og sumar aðgerðir. Hingað til hef ég heyrt að Íslendingar búi við besta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er einfaldlega ekki rétt. Ekki á meðan fólk getur ekki leyst út lyfin sín eða kemst ekki í aðgerð hjá lækni á stofu af því að aðgerðin kostar kannski 20 þúsund. Við erum þó stórhátíð miðað við Bandaríkjamenn og þá er ég að tala um sjúkratryggða Kana! 


Ókristilegar bíómyndir og sýnishorn úr Gyllta áttavitanum

Fann ansi áhugaverðan lista yfir tíu ókristilegustu bíómyndir allra tíma, myndir sem væntanlega geta gert saklaust fólk trúlaust ... Hér er listinn:

Carrie1.         The Canterbury Tales (1972)
2.         The Meaning of Life (1983)
3.         The Boys of St. Vincent (1993)
4.         The Magdalene Sisters (2002)
5.         The Name of the Rose (1986)
6.         Jesus Camp (2006)
7.         Dogma (1999)
8.         Footloose
9.         Priest (1995)
10.       Carrie (1976)

Veit ekki alveg hvenær á að frumsýna Gyllta áttavitann á Íslandi, fyrstu myndina af þremur, gerðar eftir ævintýrabókum Philips Pullman sem eru mjög skemmtilegar að mínu mati. 

Fann fyrstu fimm mínúturnar af myndinni á youtube.com, eins og svo margt gott annað. http://youtube.com/watch?v=uxt72D9E-X4


Loksins kjaftasaga, tími til kominn

SimpsonsSimpsons-myndin var stórskemmtileg, enda ekki við öðru að búast. Erfðaprinsinn ætlaði að slökkva á henni um leið og stafirnir komu en móðir hans hafði vit fyrir honum og þar af leiðandi náðum við nokkrum atriðum í viðbót.

Ertu skotin í Tomma?Útvarpi Akraness var um það bil að ljúka í hliðarsalnum þegar við komum í köku og kaffi í Skrúðgarðinn fyrr í dag. Óli Palli var eitthvað að flækjast frammi, heilsaði og ... beygði sig síðan yfir mig og ... kys ... djók, og sagði lágt: „Hér er það mál manna að þú sért skotin í Tomma.“ Þarna átti hann við Tomma strætóbílstjóra. Ég gat auðvitað ekki neitað því og sagði honum að við kvenkynsfarþegar værum hrifnar af Tomma en hann liti við okkur öllum, sem sagt engri okkar. Ég veit að hann saknar skrautsins í brekkunni, eins og hann kallar Karítas í Lopabrekkunni. Karítas hefur mikið á samviskunni að vera flutt norður á land, hún er samt harðgift, held ég. Svo hugsar Tommi líka svipað og ég, við erum of ung til að vera skotin og binda okkur og svona ... Ég talaði um Tomma í útvarpsþættinum mínum og þá aðallega matarsmekk hans, þar var kannski kveikjan að sögunum og minntist auðvitað líka á hina bílstjórana. Næsta ár tala ég um mest um Heimi, eða Kidda ... eða kannski Gumma, jafnvel Ella, og þá verður gaman að vita hvort það komi ekki líka flottarsögur út úr því. Ég sagði Óla Palla reyndar að ég væri líklega kalin á hjarta, fyndist gaman að horfa á sætu strákana (ókei, karlana) en lengra næði það ekki. Mögulega á vinnustaður minn stóra sök á því með því að halda mér svona önnum kafinni og í frístundum kenni ég sjónvarpi og bókum alfarið um. Svo getur auðvitað verið að heimakærð, ballfælni, kaffidrykkir fram yfir aðra drykki, aðdáun á köttum, búeta á Akranesi, háralitur, skófæð, feimni, mannorð eða eitthvað slíkt hafi einhver áhrif.


Af stól-hermdarverkum og þykkri þoku hinna glamrandi hlekkja

ÚúúúúúúThe FogHeyrir þú glamrið í hlekkjunum,“ spurði ég Ástu þegar við ókum inn í þykka þokuna í Reykjavík í morgun. Svipbrigði mín sýndu óbærilega spennu, verst að Ásta var með augun á umferðinni „Ha, hvað meinar þú?“ sagði Ásta. Í ljós kom að ég hafði kastað perlum fyrir svín, eins og stundum áður. Ásta sá nefnilega aldrei myndina The Fog, um framliðna sjóræningja sem birtust í þokunni og murkuðu lífið úr þeim bæjarbúum sem höfðu ekki vit á því að fela sig. Það glamraði alltaf heimilislega í hlekkjum og vopnum sem þeir báru, minnir mig. Það voru hvorki draugar né forynjur í þykku þokunni kl. 7.35 í morgun, ekki einu sinni Sigþóra á leið upp Súkkulaðibrekkuna, enda var hún auðvitað löngu komin í vinnuna.

Stóllinn minn á kvöldinEr búin að komast að því hvers vegna stóllinn minn í vinnunni er oft í klessu þegar ég mæti á morgnana ... Símasölumaður andskotans skellir honum nefnilega í fáránlega stöðu á kvöldin, stólbakið hallandi aftur á bak og hæðin ... maður sest næstum á gólfið, hann er svo lágur.

Ég vil hafa stólinn minn í hæstu mögulegri stöðu til að gnæfa yfir dauðlegt samstarfsfólkið. Þannig glamrar líka mun minna í hlekkjunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 223
  • Sl. sólarhring: 410
  • Sl. viku: 2362
  • Frá upphafi: 1452098

Annað

  • Innlit í dag: 174
  • Innlit sl. viku: 1921
  • Gestir í dag: 172
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband