Færsluflokkur: Kvikmyndir

Af kvikmyndasmekk og letihelgi ...

Sandra og KeanuErfðaprinsinn heimtaði að horfa á The Lake House í gærkvöldi, hefur eflaust haldið að þar ríkti Speed-stemmning þar sem sömu leikararnir fara með hlutverkin en eftir korter var hann farinn að slefa af leiðindum. Þá var móðirin orðin föst, þessi litli kvenlegi þráður í henni vildi endilega vita hvort þau næðu saman í réttum tíma þótt auðvitað mætti reikna með því í krúttlegri ástarmynd. Keanu Reeves er nú soldið sætur og hann sýnir talsvert fleiri svipbrigði í bíómyndum en Lassie, annað en Jean Claude Van Damme, eins og Árni Þórarinsson lýsti svo dásamlega hérna í denn í kvikmyndagagnrýni um þann síðarnefnda.

VinnanÞetta hefur nú verið meiri letihelgin. Reyndar verður handklæðavakt í kvöld og nótt við svaladyrnar í vonda veðrinu sem er á leiðinni þannig að þá verður svolítið stuð. Kjötsúpa a la Mía systir verður síðan snædd um kvöldmatarleytið og er það víst engin venjuleg kjötsúpa að sögn Hildu systur sem ætlar líka að mæta. Best að drífa sig í bað, setja í þvottavél og svona. Reynsla mín er sú að sunnudagar líða með örskotshraða og ný vinnuvika er allt í einu hafin. Stundum finnst mér reyndar bara vera mánudagar og föstudagar í lífi mínu.


Morðóður Kurt - fínasta skemmtun

TöffararnirMorðinginnMun meira er horft á vídjó eftir að erfðaprinsinn kom á heimilið. Nú vorum við að enda við að horfa á Death Proof, Tarantino-mynd með Kurt Russell í aðalhlutverki. Myndin hófst frekar hægt og mig langaði eiginlega meira að lesa ... en erfðaprinsinn, sem horfði á hana í gær, heimtaði að ég horfði lengur. Ég sé ekki eftir því. Kurt-karlinn notar bílinn sinn, sem er death proof, til að myrða ungar stúlkur. Hann hefði ekki átt að böggast í vissum stúlkum. Í þeim stúlknahópi er áhættuleikkona (önnur frá hægri) sem leikur sjálfa sig. Ég meira að segja reis upp í leisígörl af spenningi í lokakaflanum.

Nú skal haldið til rekkju til að horfa á House í endursýningu (kl. 22) og síðan lesa. Smávægilegur slappleikur hefur farið fram í himnaríki í dag, svefninn langi hefur án efa komið í veg fyrir mörg mörk, eða þannig. Mögulega verður að sleppa skírnarveislu og síðar matarveislu í höfuðborginni á morgun og það er fúlt. Þvílík samviskusemi að vera veik um helgi, segi nú ekki annað. 


Spennandi lækningaaðferðir og trúarrit himnaríkis

Á Langasandinum fyrr í dagÞað var nú bara sól og blíða þegar ég kom á Skagann í dag en skömmu síðar skall á klikkað haglél. Öldurnar gleðja sem aldrei fyrr með fallegum skvettum. Erfðaprinsinn er eitthvað slappur, eiginlega bara veikur, og reynir ákaft að lækna sig með því að horfa á hryllingsmynd um morðóðar vúdúdúkkur. Athyglisverð aðferð. Þegar ég segi að drengurinn sé fullkominn þá er ég ekki að tala um kvikmyndasmekk hans.

 --------        -----------         -----------          ------------

Þessi þyrfti nú að komast í þvottavélGott var að komast snemma heim, enda vaxandi höfuðverkur að plaga frúna. Er að hugsa um að lækna hann með nuddtæki á herðar, hitakremi, góðri bók og já, ekki má gleyma: Himalaya-kristal sem ég legg á ennið og kyrja nokkrar möntrur á meðan ég skelli götóttri árunni í þvottavél.

 -------        ----------          ----------

Á morgunElskan hann Elli keyrði strætó heim á Skaga og það var sannarlega heimilislegt að sjá hann loksins. Heilmikil umferð var á leiðinni, enda fyrsti vetrardagur á morgun og því síðasti séns fyrir fólk að fara í tjaldútilegu í sumar.
Ég mun ekki pakka niður léttu sumarkjólunum mínum fyrr en á miðnætti í kvöld. Hér á bæ er trúað heitt á almanak Þjóðvinafélagsins og þótt því sé breytt og það endurútgefið á hverju ári breytir það engu fyrir mig. Því skjátlast t.d. aldrei í sambandi við hluti á borð við flóð og fjöru eða sólarupprás og sólarlag. Í himnaríki verður sem sagt sumar þangað til almanakið segir mér að kominn sé vetur ... og hananú! Mikið verður annars gott að fá trefil og vettlinga með út á stoppistöð á mánudaginn.


Afþreyingakvöldið mikla ...

Dúllurnar ...Settist niður með erfðaprinsinum eftir góða máltíð sem hann eldaði (já, hann er æði) og horfði á Ocean 13. Fínasta afþreying. Minni áhersla fannst mér þó lögð á persónurnar en í fyrri myndunum þótt þær pósuðu oft flott (sjá mynd), sjálft plottið var í aðalhlutverki. Lækkaður var rostinn í hótel- og spilavítiseiganda sem hafði illilega svikið einn úr hópnum. Slíkt gerir maður ekki.

Nú er himnaríkisfrúin hálfháttuð og er að pæla í að ganga fljótlega til dyngju með flotta hjásvæfu í för, eða eitt stykki glæpasögu. Er rúmlega hálfnuð með bókina Horfinn eftir Robert Goddard. Laumaðist til að halda fram hjá henni með Leyndardómum vatnsins í baði í gærkvöldi (vel við hæfi) og síðan byrjaði ég aðeins á bókinni um Breiðavíkurdrenginn ... gat ekki hætt að lesa og kláraði hana. Hún er rosalega áhrifamikil, mæli hiklaust með henni. Ég sá ekki umfjöllunina um þetta mál í Kastljósi á sínum tíma (ein af fáum), fór þó á myndina um daginn og fékk svo allt í æð í bókinni. Sjónvarp er skemmtilegt (dásamlegt, æðislegt) en það nær aldrei öllu, bækur gera það!


Breiðuvíkurstrákarnir í bíómynd

BreiðavíkEftir vinnu í dag var haldið í bíó í boði Ingu. Henni áskotnaðist boðsmiði á myndina um strákana í Breiðuvík og þvílík mynd! Salurinn sat steinþegjandi í tæpa tvo tíma. Ég þurfti stundum, sérstaklega seinnipart myndarinnar, að loka augunum til að fara hreinlega ekki að snökta. Myndin er átakanleg, frásagnir mannanna svo sterkar. Þvílíkir sögumenn, þvílík grimmd sem þeir upplifðu.

Margir þeirra sem voru vistaðir í þessu víti í barnæsku sátu í bíósalnum í kvöld, enda var þetta forsýning m.a. fyrir þá og aðstandendur, og þeir komu upp á svið í lokin og uppskáru mikið lófaklapp. Elsku strákarnir. Um 75% þeirra lenti í kasti við lögin eftir „betrunarvistina“, fjórðungur þeirra er látinn. 

Langt síðan ég hef séð svona áhrifamikla mynd. Það er eiginlega skyldumæting í bíó til að sjá hana!


Sjokk í morgunsárið og mögnuð kvikmyndagagnrýni

Matarboðið í gærkvöldi var guðdómlegt, maturinn afar góður og annað eftir því. Við ræddum m.a. um fyrirhugaða ferð á West Ham-leik seinna í vetur, en þau hjónin (Mía og Sigþór) ætla reyndar í West Ham-hópferð til London um næstu helgi. Við erfðaprins, sem nennum engum hópferðum, munum passa Bjart á meðan. Hvernig skyldi hann haga sér núna? Ganga um urrandi og hræða líftóruna úr heimilisköttunum eins og síðast? Stjórna öllu með harðri hendi og stelast til að liggja í uppáhaldsstöðum Kubbs og Tomma? Réttlætiskenndin í erfðaprinsinum leyfir ekki slíkt þannig að nú verður Bjartur alinn svolítið upp  ... á ljúfan hátt. 

Útsýnið í morgunÁsta sendi mér unaðs-SMS í morgun, "Er á bíl, sæki þig 7 mín í 7", þannig að ég bjó til latte handa henni líka. Við ókum í vindhviðum upp á 30 m/sek í drossíunni og fundum ekki fyrir neinu fyrr en rétt við staðinn þar sem hviðumælirinn er, logn annars staðar. Það vantar SAMT hviðumæla á fleiri staði þarna. Himinninn var orðinn svo blár að ekki sáum við Yoko-súluna en Venus skein þó skært sem segir mér að kannski fari eitthvað spennandi að gerast í ástamálum hjá  piparfólki landsins ... held ég, nema þetta hafi verið ljósin á flugvél.   

Ég er ekki fyrr búin að monta mig af eignum mínum í Mogganum í morgun (sparnaður af því að eiga ekki bíl) þegar stjörnuspáin mín í sama blaði sagði mér að gefa þær eða henda þeim: Of miklar eignir geta skapað vandamál og leitt huga þinn frá því sem þér er í raun annt um. Hentu þeim, gefðu þær og sjáðu hvort orkan vex ekki. Þannig að: Hver vill eiga espressóvél, himnaríki, erfðaprins, stjörnukíki og svona? Það gengur ekki að vera svona orkulaus þótt ég finni reyndar ekkert fyrir því. Hræðileg ljósmyndin í Mogganum, skelfileg, ég er í losti í alvöru og ætla héðan í frá að banna allar myndatökur. Greinilega var "sniðugasta" myndin valin þar sem falskur strætó var við hliðina (leið 6 sem ég tek aldrei) en ekki hugsað um fegurðargildi mitt. Ég sagði við blaðakonuna indælu að það væri á hennar ábyrgð að birta girnilega mynd af mér þannig að strákarnir tækju andköf. Hún er líklega á lausu sjálf líka miðað við valið. Beiskj, beiskj. ...

Reign over meMogginn er óvenjuinnihaldsríkur svona á mánudegi og fjallar líka um myndina Reign over me, alvöruþrungna dramamynd með "Adami Sandleri". Hún fær 3 stjörnur af 5 hjá Sæbirni´(hiss, hiss). Ég hef mikið reynt að horfa á þessa mynd en sofna alltaf, hún er frekar leiðinleg. Sandler lítur út nákvæmlega eins og Bob Dylan í þessarri mynd en myndin finnst mér vera frekar léleg og ótrúverðug stæling á The Fisher King. Muna ekki allir eftir henni? Sandler á bara að vera í gamanmyndum, ég tók hann alla vega ekki alvarlega í þessarri mynd og fór fljótlega að slefa af leiðindum, síðan hrjóta. Þrjóskan er samt svo mikil að ég ætla að reyna að klára myndina í kvöld. Skyldi hún skána?

Svo er hér afar hressandi frétt fyrir okkur femínistabeljurnar: http://www.theonion.com/content/video/domestic_abuse_no_longer_a


Frábær Astrópía of fleira stöff ...

astrópíaAstrópía var afar skemmtileg. Við erfðaprinsinn veltumst um af hlátri, held að þetta sé fyndnasta íslenska mynd síðan ... uuu .... Sódóma-Reykjavík. Lítið um allt of skýrmælta ofleikara, held ég bara enginn slíkur, og það gerir allt miklu eðlilegra.
Við horfðum líka heilluð á Kalda slóð í gærkvöldi, hún er alveg frábær, spennandi og vel leikin.

Bíóhöllin á Akranesi 1942Einstök upplifun var að koma í Bíóhöllina í kvöld. Þar átti ég margar góðar stundir í æsku. Ný sæti, þunn og þægileg, áður voru þykk og þung leðursæti og sérstakt hljóð heyrðist þegar maður stóð upp og sætið skelltist á sinn stað. Þegar ég gekk inn í salinn hækkaði meðalaldurinn um svona 30 ár. Þrátt fyrir fjölda unglinga held ég að börn hafi verið í miklum meirihluta. Það var svo margt í kvöld að ein starfsstúlkan þurfti að hlaupa upp á svið og biðja fólk um að færa sig saman. Mikil stemmning í kvöld.
Bekkurinn minn í BíóhöllinniSigþóra var í bíó og líka Harpa bloggvinkona (ekki á Moggabloggi). Gaman að hitta þær.  Ég var búin að eyða mörgum klukkutímum í að gera mig sætari (eins og það sé hægt) og svo voru eiginlega engir sætir karlar þarna.

Sjö ára bekkurinn minn flutti ljóð í Bíóhöllinni fyrir nokkrum árum. Sjá mynd. Ég er þessi gærulega í stysta kjólnum með svart belti um mig miðja. Man nöfn allra bekkjarsystkinanna og nokkra afmælisdaga að auki.

Nú er það bara rúmið, hitapoki, heitir múrsteinar, toddí, nátthúfa og Miss Marple . Svo í fyrramálið verður spennandi að vita hvort strætó fari í bæinn vegna óveðurs. Það er byrjað að hvessa og fiskibræðslufýlan sem við fundum í hléinu og fyrir myndina var fokin til Borgarness, held ég. Annars var meira rok við Bíóhöllina en himnaríki, svona ef ég má metast smá ...


Samkvæmistímabilið hafið

BíóhöllinMikið er veðrið stórkostlegt. Mótokrossmótið hefði átt að vera í dag. Svo verður klikkað veður í nótt og á morgun, algjört slagveður. Mikið vona ég að Ásta verði á bíl í fyrramálið, svona til öryggis ef strætó gengur ekki.
Við erfðaprins ætlum að sjá Astrópíu í kvöld í Bíóhöllinni á Akranesi. Við keyrðum þar framhjá í gær og eina sem við sáum var að myndin yrði sýnd sunnudag og mánudag, upplýsingar væru í síma 431 1100. Mikið höfum við reynt að hringja þangað en enginn símsvari segir KLUKKAN HVAÐ myndin verður, bara bíbbbb-hljóð. Hringdi í Ástu sem heldur að sýningar séu klukkan átta. Ætla samt að leita á Netinu, upplýsingar hljóta að finnast einhvers staðar.

Pítsa, kalkúnasamloka og grænmetisrétturGuðmundur kom í frábæra heimsókn í gær og gerði sér lítið fyrir og bauð okkur erfðaprinsinum út að borða á Galito. Fyrir forvitna þá fékk Guðmundur sér kalkúnasamloku, erfðaprinsinn litla pítsu og himnaríkisfrúin grænmetisrétt. Snilldarmatur. Við vorum tiltölulega nýbúin að úða í okkur eplaköku með vanillu- og súkkulaðifyllingu þannig að hungrið var svo sem ekki að drepa okkur. Mjög líflegt var á Galito. Allt fullt í salnum fyrir innan þannig að við sátum frammi og gátum m.a. fylgst með því hvaða Skagamenn nenntu ekki að elda og sóttu sér frekar pítsu.


Útsvar og ódömuleg vitneskja

wallander_fs_2Wallander var að hefjast á RÚV. Jess. Dettur ekkert vitrænna í hug að gera en að horfa, sérstaklega þar sem  Jónas butler sér um húsverkin í himnaríki. Fannst brytinn eitthvað veiklulegur í kvöld eftir að hafa barist við gólflampa í stofunni og las leiðbeiningarnar. Sá að ég hefði átt að vera búin að hreinsa síuna fyrir mörgum ryksugunum síðan ... eyddi 10 sekúndum í það. Þegar smiðurinn minn lætur loks sjá sig þá langar mig að biðja hann um að setja gólflista við brík kósíhornsins svo að Jónas lendi ekki alltaf í ævintýrum þar. Úps, sími myrtu konunnar í myndinni hringir alveg eins og síminn minn. Spúkí!

ÚtsvarHver horfði á Útsvar? Spurningakeppnina á RÚV? Mér fannst hún skemmtileg ... þrátt fyrir að fólk þyrfti að hlaupa eins og maraþonhlauparar að bjöllunni ... Ég veit ekki hvort ég á að vera tryllt af tilhlökkun eða kvíða, en ansi ætla ég ekki að vera sá þremenninganna sem dinglar þessarri skrambans bjöllu. Treysti mér frekar í leikræna þjáningu. Mikið voru nú Hvergerðingarnir vitrir og Kópavogsbúarnir líka. Ætla rétt að vona að spurningarnar þann 30. nóvember nk. verði sérhannaðar fyrir okkur Skagamenn, þær voru nú ekki allar laufléttar í kvöld. Væri alveg til í að fá spurninguna: Hver er Ole Sötoft? Þeirri sem ég gat svo óvænt svarað í Górillu-spurningaþættinum um árið og missti mannorðið í leiðinni þar sem Ole var þekktur, danskur klámmyndaleikari úr Rúmstokksmyndunum. Eitthvað sem fín dama ætti ekki að vita. Það sem heilinn ákveður að geyma ...


Myndagláp og súrtunnan í sveitinni

The lives of othersTell No OneÞrjár bíómyndir vermdu DVD-tæki himnaríkis í dag og kvöld. Tvær þeirra voru erlendar og ein ammmrísk. Allar góðar, sérstaklega þær evrópsku. The lives of others (Das leben der anderen) er kannski ekki hröð en verður þrælspennandi þegar á líður. Hún endar líka flott! Fékk Óskarinn sem besta mynd ársins í flokki mynda á erlendu tungumáli. Franska spennumyndin Tell no one (hægra megin) fannst mér líka mjög góð, tryllingslega spennandi á köflum. Þriðja myndin var Perfect Stranger með Halle Berry og Bruce Willis. Óvæntur endir, meira að segja ég sem sé oft út næstu atriði, áttaði mig ekki. Guðrún vinkona kíkti aðeins og horfði með mér á hana. Hugsa að hún hefði fílað betur þá frönsku, hún er ekki mjög hrifin af karlamyndum eins og henni fannst Perfect Strangers vera, það er þó langt frá því að evrópsku myndirnar séu konumyndir. Ég flokka reyndar ekki myndir nema í góðar myndir, slæmar myndir og kéddlingamyndir (svona sannsöguleg, tárakreistandi dramakvikindi). Þær síðastnefndu horfi ég helst ekki á nema kefluð með eldspýtur til að halda augunum opnum.

Íslenskur maturGóður hafragrautur ...Við Tommi bílstjóri spjölluðum helling saman á leiðinni upp á Skaga á föstudagskvöldið. Umræðuefnið frá Kjalarnesi og upp á Skaga var íslenskur matur af gömlu gerðinni. Á meðan Tommi slefaði yfir stýrið af tilhugsuninni um besta mat í heimi (já, hann er skrýtinn) kúgaðist ég. Ég reyndi að segja honum frá hryllingnum sem ég lenti í í sveitinni þegar ég var stundum send í kjallarann til að sækja slátur í súrtunnuna. Þar sem súrsað hafði verið í tunnuna næstum ári áður var komið grænt slý í hana, fannst mér, það var svo dimmt, og ég þurfti að kafa með handleggnum upp að öxl til að sækja kannski einn kepp af súrri lifrarpylsu og annan af blóðmör. Síðan þurfti að pína þessu í sig með hrísgrjónagrautnum. Sem betur fer var aldrei hafragrautur í þessari sveit þar sem ég fékk ógeð á honum árinu áður í annarri sveit árinu áður þar sem ég var barnfóstra. Þá var eldaður hafragrautur kl. 7 á morgnana og skammtað á diskana, líka á minn þótt ég fengi að sofa til níu. Það var því slímkennt, kalt lím sem ég þurfti að pína í mig á hverjum morgni. Síðan hefur mér þótt hafragrautur viðbjóður. Líka súrt slátur. Annars var frábært að vera í sveitinni, fyrir utan þetta með slátrið og hafragrautinn.
Tommi talaði af miklum söknuði um það þegar hann fékk hafragraut á mánudögum, kekkjótt graðhestaskyr á þriðjudögum og hræring á miðvikudögum, í gamla daga. Samt talaði hann af sér ... og fyrir utan tónlistarsmekkinn, sem við eigum sameiginlegan, finnst okkur Seríos með bönunum út í rosalega gott. Sem betur fer hafa tímarnir breyst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 40
  • Sl. sólarhring: 425
  • Sl. viku: 2157
  • Frá upphafi: 1456107

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1795
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband