Færsluflokkur: Matur og drykkur

Frábærir Skagamenn ...

Sama hvert farið er á Skaganum er ekki talað um annað en slysið í gær. Samhugur Skagamanna er einstakur og fólk hugsar greinilega með mikilli samúð mikið til aðstandenda strákanna. Þótt Akranes sé ekki lengur lítill staður þá finnst mér hann samt hafa ákveðna kosti smábæjar, sérstaklega þegar kemur að einhverju á borð við þetta.

Kínversk súpaElskan hann Tommi kom á Skrúðgarðinn þar sem ég sat og úðaði í mig kínverskri súpu eftir átökin í sjúkraþjálfuninni þar sem Beta barðist við gömul stríðsmeiðsl mín. Það urðu fagnaðarfundir, alla vega mín megin, honum finnst ég svikari við strætó að fara svona oft með Ástu í drossíunni og kallar okkur alltaf glyðrur. Ég sagðist reyndar hafa blikkað hann á föstudaginn á Kjalarnesi og hann mig á móti með bílljósunum en Tommi hnussaði og sagðist hafa verið að blikka Gumma. Það er sem ég segi, ekki séns að reyna að binda trúss sitt við strætóbílstjóra, þeir blikka bara hver annan.  

María var með tvo yndislega unglinga í „starfsþjálfun“, man bara að strákurinn heitir Freyr og hann tók dansspor þegar hann færði mér kaffið, algjör sjarmör. Svo kom unga stúlkan eftir smástund til að spyrja mig hvernig mér hefði líkað veitingarnar. Besta þjónusta sem ég hef fengið lengi.

Tandoori-kjúklingurÍ gærkvöldi ætlaði ég að vera rosagóð við okkur erfðaprins og bjóða okkur upp á eitthvað gott að borða. Við hringdum á Galito og pöntuðum okkur mat. Ég gat ekki hugsað mér pítsu, bara gamla, góða Tandoori-kjúklinginn. Sömu fyrirskipanir og áður ... krydda kjúklinginn betur (meira tandoori-bragð) og engar furuhnetur í salatið, takk. Nú ... maturinn var meira kryddaður eins og ég bað um en bara saltari og ég hata mikið saltbragð. Engar furuhnetur voru í salatinu, bara kasjúhnetur (arggg) og ég hata hnetur! Hvílík vonbrigði. Svona getur misskilningur orðið, maturinn hjá Galito er alltaf frábær en þegar ég panta næst ætla ég að vera skýrari í máli. Hvernig átti ég að vita, enda langt síðan ég pantaði síðast, að þeir væru farnir að setja fleiri hnetutegundir (ókei, furuhnetur eru fræ) í salatið? Ég hringdi voða sár og fékk svo ljúft viðmót í símanum að pirringurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Kisurnar voru hrifnar af kjúklingnum, alla vega Tommi. Kubbur vill bara þurrmat.

Felicia og Bridget við sjúkrabeð RidgeBrooke er komin að sjúkrabeði Ridge eftir að Stefanía grátbað hana um það, faðmaði hana og lofaði að vera alltaf góð við hana. Nick er frekar óhress, enda búinn að fá hana alla leið til Mexíkó í dekur og daður. Dante er farinn að reyna við Feliciu eftir að Bridget hryggbraut hann. Mér sýndist þau kyssast þegar mér var litið á skjáinn áðan. Jamms, Ridge er að vakna og kominn með lífsviljann aftur. Stefanía grætur. Var ég búin að minnast á að pabbi Brooke, Bobby í Dallas, er farinn að deita Jackie, mömmu Nicks, hún gafst upp á Eric sem giftist alltaf Stefaníu þegar eitthvað bjátar á.


Matarboð á ljóshraða ...

GestgjafarnirIndverska matarboðið hófst rétt fyrir sjö og var alveg dásamlegt. Skemmtilegar umræður um allt á milli himins og jarðar og svo var maturinn alveg himneskur. Fyrst voru tveir grænmetisréttir og síðan kjúklingaréttur og fiskréttur. Þetta var frábær en alltof stutt kvöldstund.

NammmmmmmÞetta var hvert öðru betra en ég var hrifnust af þessu sterkasta; kjúklingaréttinum og grænmetinu! Ef til eru önnur líf þá var ég indversk í fyrra lífi ... ég er viss um það. Hrífst mjög af öllu indversku, Bollywood-myndir eru t.d. í miklu uppáhaldi og augun í indversku fólki finnst mér svo rosalega falleg!

Ég var komin heim rúmlega átta, ekki af því að það væri leiðinlegt og mig langaði ekki í eftirrétt, heldur af því að hóstinn var farinn að angra mig aftur. Best að kíkja á lækni á þriðjudaginn, tékka á því hvort komin sé lungnabólga, hef fengið slíkt tvisvar áður með tíu ára millibili. Eins með okkur Kötlu (eldfjall), við gerum hlutina nokkuð reglulega og nú er kominn tími á lungnabólgu, held ég. Hér fyrir ofan eru myndir af gestgjöfum kvöldsins og svo auðvitað kjúklinga- (t.h.) og grænmetisréttinum. Mía o.co. sitja þarna enn þá og halda uppi heiðri fjölskyldunnar á meðan himnaríkisfrúin hóstar!


Annar stormur ... Trade ... Food & Fun á landsbyggðinni

Tommi og KubburGærkvöldið var vissulega ævintýraríkt þótt ég missti algjörlega af eldingunum, því miður. Það slökknaði ekki nema einu sinni á sjónvarpinu í rafmagnsblikki en ég þorði engan veginn að hafa kveikt á tölvunni. Nóg að hún drap einu sinni á sér. Það hvein og brakaði skemmtilega í öllu en ég veit ekki um neinar skemmdir á húsinu sem hýsir himnaríki, kannski gerðist eitthvað því hamarshögg hafa dunið hér aðeins í dag. Kettirnir voru frekar hræddir og náðu ekki sálarró fyrr en þeir lögðust í kuðl í fangið á erfðaprinsinum.
Nú er nýr stormur á leiðinni, suðvestanáttin sú verður mun hagstæðari upp á brim að gera.  

TradeVið erfðaprins horfðum á ansi hreint frábæra mynd (Trade) á DVD. Átakanleg, spennandi og falleg í öllum ljótleikanum. Hún segir frá leit 17 ára mexíkósks stráks að systur sinni sem var rænt í Mexíkóborg. Hann kynnist bandarískum lögreglumanni sem óvænt leggur honum lið. Frábær og vel leikin mynd með Kevin Kline í aðalhlutverki.

Nú er allt komið á fullt í sambandi við Food & Fun á landsbyggðinni sem verður helgina 21. – 24. febrúar. Ellefu aðilar um allt land taka þátt og eru með gestakokka, uppákomur og æðislegheit á allan máta. Ef þetta lífgar ekki upp á skammdegið þá veit ég ekki hvað gerir það. Hér á Vesturlandi munu Hótel Glymur í Hvalfirði, Landnámssetrið og Hótel Hamar í Borgarnesi standa fyrir herlegheitunum. Á Austurlandi: Hótel Höfn og Hótel Hérað. Á Vestfjörðum er það Veitingastaðurinn við Pollinn. Á Suðurlandi: Hótel Rangá við Hellu og Rauða húsið á Eyrarbakka. Fyrir norðan er það Friðrik V. á Akureyri, Sel-Hótel Mývatn á Skútustöðum og Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit.

Hótel Hérað hreindýrasteikHátíðin í Reykjavík er fyrir löngu búin að sprengja öll bönd og okkur landsbyggðartúttum fannst nauðsynlegt að koma henni út á land þar sem allt er til staðar, þar að auki gisting hjá flestum. Ég ætla að bjóða erfðaprinsinum út að borða á einhvern af stöðunum á Vesturlandi, alsæl með að þessi hátíð sé loksins komin út á land. Vinnuheitið á henni hefur verið Fóður og fjör, mér finnst það snilld!!!

Ég sagði Maríu í Skrúðgarðinum frá þessu í gær og henni fannst þetta æði, held samt að hún sé ekki með svokallað “fullkomið” eldhús, eins og t.d. Galito ... sem verður vonandi með í F&F að ári. Annars verður Skrúðgarðurinn ársgamall á morgun! Ég fékk hann í eins árs afmælisgjöf ... eða þannig. Á morgun á himnaríki nefnilega tveggja ára afmæli. Það verður að sjálfsögðu haldið upp á það með heimsókn í Skrúðgarðinn og svo förum við í indverskt matarboð um kvöldið.  


Hvíta kaffið, vélkonan og boldí bold

Hvíta kaffiðSúkkulaðibombaBirti hérna mynd af hvíta kaffinu á Reykholti til að bloggvinirnir haldi ekki að ég sé ýkin. Þessi vökvi gekk undir nafninu latte, ekki kakó úr hvítu súkkulaði. Svona latte getur maður jafnvel fengið á fínustu veitingastöðum, jafnvel kaffihúsum, sumir leggja heldur minni áherslu á kaffið en æskilegt væri. Hnusss! Súkkulaðibomban bætti þó fyrir allt saman. Aðalrétturinn (spínatlasagna) var svo rosalega hollur að við þurftum að sætindajafna. Minni líka á að við litum út eins og pönkarar og þeir eru aldeilis óþekkir þegar þeir taka sig til.

Bionic WomanÆtla að horfa á Bionic Woman núna fyrir svefninn. Man vel eftir þessum þáttum á BBC eða ITV þegar ég var au pair í London fyrir einhverjum árum. Minnir að þeir hafi verið spennandi.

Horfði lauslega á boldið og svei mér þá ef Bobby í Dallas (Stephen Logan), pabbi Brooke, er ekki orðinn skotinn í Jackie, mömmu Nicks. Bræður börðust greinilega, Ridge og Nick slógust um Brooke á mánudagskvöldið (og ég missti af því) og svo reynir Stefanía djöfull að reka fleyg á milli ömmubarns síns, Dominicks litla og föður hans (og auðvitað Bridget sem lofaði að ganga honum í móðurstað ef Felicia dæi en hún lifnaði við). Steffí hótar að reka Dante úr vinnunni en atvinnuleyfi hans í USA er bundið við Forrester-tískuhúsið. Hún er nú meira kvendið. Taylor, geðlæknirinn geðþekki, blaðrar í alla sem hún hittir að Ridge hafi sofið hjá Brooke, og hún hafi verið hálfmeðvitundarlaus vegna lyfjaneyslu og ekkert fattað. Mér sýndist Brooke reyna að telja Nick á að hálfdrepa ekki Ridge. Jamms, það er fjör.


Grímubúningurinn sem gleymdist, reykingar, drykkja og svona ...

ÖskudagurHóst, hóst, hóst, hóst ... þetta hljóð hefur heyrst í himnaríki undanfarið á svona klukkutíma fresti eða svo ... í miklum köstum. Erfðaprinsinn er kominn með bauga niður á herðar en fegurð hóstarans hefur haldist óskert. Mætti ekki fyrr en um ellefuleytið í vinnuna að þessum sökum.

Hluti samstarfsfólks míns er í grímubúningi í dag, ég var búin að steingleyma öskudeginum ... Brynja Björk er t.d. Súpermann og Óskar er kónguló. Sjitt að hafa gleymt þessu, er bara í BDSMS-búningnum mínum, eins og svo oft.

Þetta er nú meiri pestartíminn. Margir veikir í vinnunni minni ... og mér er skapi næst að nota þetta hósttímabil til að hætta að reykja. Mig langar til þess núna. Reykinga-fasisminn síðustu árin hefur haft þau barnalegu áhrif á mig að ég fyllist þrjósku og læt ekki eitthvað fólk út í bæ segja mér hvað ég eigi að gera. Það að þurfa að reykja úti hefur engin áhrif á mig og virkar ekki hvetjandi til að hætta, enda er ég engin stórreykingamanneskja. Ég fylltist máttvana reiði þegar ég sá hrokafulla konu í sjónvarpinu í fyrra segja að reykingabannið á veitingahúsum og þessi meðferð á reykingamönnum væri til þess að þeir gæfust upp og hættu. "Aldrei," tautaði ég milli samanbitinna varanna og kveikti mér í í mótmælaskyni.

thank_you_for_smokingEinu sinni hætti ég að reykja í rúm tvö ár en á þeim tíma mátti ég reykja við skrifborðið mitt í vinnunni. Auglýsingar frá Tóbaksvarnaráði voru krúttlegar þá, ekki hatursfullar út í reykingamenn eins og nú. Þær fóru á nokkuð skömmum tíma frá: "Veistu hvað þú ert að gera heilsunni þinni, elskan?" yfir í "Hættu að menga, þarna helvítis ógeðið þitt!" Ég hlusta helst ekki á Bylgjuna á morgnana af því að Heimir (sá krúttmoli) hatast svo mjög við reykingamenn, efast um að hann fatti það sjálfur. Hann má auðvitað hafa sínar skoðanir og ég get hlustað á aðra stöð. 

Ég á erfitt með að þola mikla drykkju í kringum mig en uppsker bara aðhlátur þegar ég forðast fylliríssamkomur. Held samt að áfengi hafi orsakað meiri sorg og vandræði en tóbak. Segi nú svona. Farin í mat. Hóst jú leiter!!!


Ævintýri í hótelför ...

Elskan hún Hilda sótti mig í vinnuna undir hálffimm og við ókum beint upp í Borgarfjörð þangað sem hún hafði unnið kvöldverð og hótelgistingu, ekki á "plús", eins og ég sagði, heldur á Núinu, held ég. Þá ýtir maður á kassa, einn til fimm, og þarf að sjá auglýsingu/tilboð til að ath hvort vinningur hafi fallið manni í skaut. Hún er þrælheppin í þessu, hefur unnið bensín á bílinn, snyrtistofuyfirhalningu ... og ekki amalegt að vera hérna á hóteli í Reykholti í boði hennar og núsins. Indversk nuddkona tók okkur í gegn við komu, baðaði okkur upp úr heitri olíu og nuddaði, líka hárið sem nú er er eins og á fínasta pönkara. Hún vildi að við svæfum á því olíubornu og þvæðum það ekki fyrr en í fyrramálið. Við samþykktum það þótt það þýði að við séum aðhlátursefni allra sem sjá okkur. Þjónarnir veina ... eða myndu gera ef þeir væru ekki svona kurteisir!!!

Ég hringdi í erfðaprinsinn á leiðinni upp eftir. Boldið var á í sjónvarpinu. "Hvað er að gerast?" spurði ég. "Bobby í Dallas vill ekki að Rdge komi nálægt Brooke," sagði hann samviskusamlega og neitaði svo að segja meira, ekki mjög karlmannlegt að horfa á svona þætti. Bobby sagði þetta nú á fimmtudaginn líka. Hlustirnir gerast ekki mjög hratt þarna.

Nú sit ég frammi á stigapalli á annarri hæð og blogga, furðulegt lyklaborð með hólum og hæðum, svona nýtísku eitthvað ... ætla svo bara að fara að sofa. Við systur erum vel saddar eftir grænmetislasagna og steinhættum við að fara í kapphlaup á göngunum hérna þótt það sé freistandi.

Mér tókst að láta Hildu fá hláturskast rétt eftir Göng og næstum missa stjórn á bílnum, það er nú svo sem ekkert hrikalega erfitt að koma henni til að hlæja. Konan sem tók við gangamiðanum, bauð okkur góðan dag og sagði svo eitthvað óskiljanlegt. "Heyrðir þú hvað hún sagði?" spurði Hilda þegar við ókum frá gjaldskýlinu. "Já, hún bauð góðan daginn og svo sagði hún eitthvað um að þú litir eitthvað svo herfilega illa út í dag," sagði ég einlæglega. Bara svona systradjók, Hilda lítur mjög vel ú, alltaf ... Þetta dugði, hún gat ekki hætt að hlæja fyrr en ég skipti um umræðuefni. Skrýtinn húmor í ættinni, alla vega hjá sumum. Ég er ekki eins, ef einhver segir eitthvað annað en ég sé greind, fögur og frískleg verð ég öskureið. Bara svo það sé á hreinu. Hvort sem það er satt eður ei. (það er satt).

Í fyrsta sinn í sögu Vikunnar var mér falið að sjá um tískuopnuna. Það kom ekki til af góðu (veikindi) ... en svakalega hlakka ég til að finna flott skjört, kot, bomsur og eitthvað svona sem mér finnst svo smart ...

Jæja, við þurfum að vera snemma á ferðinni í fyrramálið, þetta er bara örferð og vitlaust að gera á morgun hjá okkur báðum. Ég mæli innilega með hótelgistingu úti á landi yfir vetrartímann, það er ótrúlega, ótrúlega afslappandi og yndislegt og frábært. Svona útlandadæmi soldið, alla vega mikil tilbreyting. Vona að það líði ekki of langur tími þar til ég fer næst, þetta er unaðslegt.


Vinsælt sæti 8A ...

Það er gjörsamlega frábært hérna fyrir austan. Mæli með Egilsstöðum. Mikill ævintýradagur í dag.  Við erfðaprins, þrælslappur en góður við móður sína sem þurfti að komast á Rvíkurflugvöll, ókum sem leið lá frá 300 í 101 og fyrsti áfangastður var í Bankastrætinu, í Kaffitári, eftir hrikalegt rok á Kjalarnesi. Í Kaffitári var löng biðröð sem samanstóð m.a. af Snorra, fv. forsetaframbjóðanda og aflátsbréfaútgefanda , Lay Low var þarna líka og Siv Friðleifsdóttir (fyrir utan), meira að segja held ég að tannsan mín, Ósk Þórðar, hafi verið fyrir framan mig í röðinni ... ekki viss og kunni ekki við að arga ... Á flugvellinum voru Steinn Ármann leikari og Danni, sonur hennar Ástu sem var með mér í Austurbæjarskóla, og nú hljómsveitargæi (Danni). Þeir létu ekki vel af veðrinu fyrir austan en það var bara væl. Þetta var „hverjirvoruhvar-blogg“ dagsins. 

Þegar skráning hófst í flugvélina steingleymdi ég að biðja um að fá að sitja ein og vera framarlega, sætti mig bara algjörlega við að vera á 8A. Það er svo gaman að fljúga og þetta var fyrir c.a. miðri vél og ég vissi að ég myndi sjá hjól vélarinnar mjög vel og horfa á það ná yfir 300 km/klst áður en vélin færi í loftið, skemmtilegasta stundin í allri flugferðinni ... Já, ég viðurkenni að mér finnst fáránlega gaman að fljúga.  

Í flugvélinni gerðist skrýtinn atburður ... áður en vélin fór á loft. Kona nokkur hlammaði sér hjá mér, pínkufúl, og sagði þegar hún sá mig: „Ja, ég á nú að sitja í 8A en ég skal ekkert vera fúl þótt þú sért í sætinu mínu.“ Ég náttúrlega sturlaðist en sagði samt kurteislega: „Fyrirgefðu, en ég er skráð í sæti 8A ... sko sjáðu til, ertu örugglega á leið til Egilsstaða?“ Konan náfölnaði og hljóp með örskotshraða út úr vélinni, hún var víst á leið til Eyja í sæti 8A í Vestmanneyjavélinni og það var ekki einu sinni búið að kalla út í þá vél .... Hhehehehe, eins gott að hún fékk ekki t.d. 13A, þar sat enginn, þá væri hún skælandi í lobbíinu hérna á Hótel Héraði og fólkið hennar í Eyjum í losti. Múahahahhaah!

Á flugvellinum hitti ég sætu og yndislegu mennina sem voru í liði Fljótdalshéraðs í Útsvari í gær (var kynnt formlega fyrir þeim) og spjallaði í smástund við þá, þeir voru ekki síður sætir í eigin persónu og ekki verra að annar þeirra er bróðir Hildigunnar minnar tónskálds. Þeir voru voða almennilegir þótt ég hafi eiginlega haldið með Skagafirði, frændfólki mínu, en næst á eftir Akranesi mun ég héðan í frá halda með Fljótsdalshéraði.

Maturinn í kvöld á Hótel Héraði var mjög góður. Humar í forrétt, hreindýr í aðalrétt og súkkulaðisúfflé, (súkkulaðibomba, hörð skorpa og mjúkt lekandi súkkulaði innan í) í eftirrétt. Það er búið að spilla mér til lífstíðar. Mikið á ég eftir að vera leiðinleg í mötuneytinu næstu vikurnar. (Tók myndir, birtast síðar (t.d. á morgun)).

Jæja, stend hérna í lobbíinu og pikka á tölvuna, uppi í herbergi 321 bíður hlýtt rúm, spennandi bók, jafnvel eitthvað í sjónvarpinu, ... best að njóta munaðarins. Ég veit eiginlega ekkert betra í lífinu en flugferð (eða bílferð) og yndislegt hótelherbergi með öllum sínum lúxus ...


Dregið til tíðinda ...

SúkkulaðibrekkanMikið er dásamlegt í þessum fimbulkulda að hún Erla skuli vinna í sama húsi og ég í Hálsaskóginum, ekki er heldur amalegt að hún búi í sama sveitarfélagi og sérdeilis ekki slæmt að hún skuli eiga bíl og fara akandi heim kl. 17. Akkúrat kl. 17.00 í dag var hið fullkomna tilvonandi tímarit fulllesið og tilbúið í prentsmiðju.
Ég fékk það  þakkláta hlutverk að skafa framrúðuna að innan og má segja að við Erla höfum lent í ör-stórhríð eitt augnablik sem var bara hressandi. Erla spurði mig á leiðinni af hverju brekkan héti Súkkulaðibrekkan. Ég horfði þolinmóð á hana og útskýrði fyrir henni að Nói Síríus væri neðst í brekkunni. Þá skildi hún allt.

KópavogsliðiðGaman að sjá náfrændur mína, Skagfirðinga, næstum rústa Fljótdalshéraði í Útsvari í kvöld en skemmtunin stóð ekki lengi ... sjokkið kom í lok þáttarins þegar dregið var til tíðinda ... eða í átta liða úrslit.

Við Skagamenn fengum Kópavog of oll pleisis þann 28. mars nk., sem væri í góðu lagi ef Hilda systir byggi ekki í Kópavogi og Davíð frændi yrði ekki 19 ára þennan sama dag.


Sjúkrapróf á lyftara og boldí bold ...

Akranes ljósið við endann á göngunumRúllaði upp á Skaga með erfðaprinsinum í flotta kagganum hans. Fór í Harðarbakarí og keypti smá sjúklingafæði handa Ástu og færði henni líka smá lesefni. Hún er að mygla úr leiðindum og veikindum. Þarf að klára grein og gat því ekki leyft mér það ábyrgðarleysi að setjast inn í kaffi hjá henni. Hún sagðist vera hætt að smita þegar ég rétti henni dótið með gaffallyftara sem ég rændi úr Sementsverksmiðjunni. Sjúr!

VARÚÐ - BOLD:
Ridge setti drengjamet í lúðahætti í boldi
gærdagsins þegar hann laumaði sér upp í rúmið hjá Brooke. Hún var uppdópuð af kvíðastillandi og hafði ekki kraft eða rænu til að fleygja honum fram úr. Á meðan var ástmaður hennar upptekinn við að bjarga móður sinni, Jackie úr fangelsi, sem tókst en á meðan notaði stóri hálfbróðir hans tækifærið, allt að undirlagi Massimo föður þeirra.

HálfsysturnarHálfsysturnar Felicia og Bridget rífast um Dominick litla en Dante, pabbinn, ætlaði nú bara í skreppitúr með Bridget sína og barnið til Ítalíu og leyfa fjölskyldunni að sjá óvænta nýja barnið sem allir héldu áður að Nick ætti. Stefanía, mamma Feliciu, stendur með Feliciu og er hætt að vera næs við Bridget, enda tókst henni ætlunarverk sitt að stía Nick og Bridget í sundur ... svo að Nick og mamma Bridget, Brooke, gætu verið saman og þá er engin hætta á því að Ridge, sonur hennar, sé með erkióvininum Brooke. Verst að gamli ástmaður hennar og blóðfaðir Ridge, hann Massimo, vinnur gegn henni þar sem hann reynir svo ákaft að sameina Ridge og Brooke sem eiga nú barn saman. Annar barnsfaðir Brooke, Deacon, hélt einu sinni við konu Massimo, hana Jackie (fv. fanga) ,og þá var Massimo bjargarlaus í hjólastól, enn kvæntur Jackie, og gat ekki tjáð sig þótt hann skildi allt. Þetta fyrirgefur Massimo aldrei. Deacon var áður ástfanginn af Amber, þessari sem er horfin úr þáttunum.

Bridget ÆTLAR til Ítalíu með barnið og segir að Dante hafi lagalegan rétt. Þetta er bara vika. Felicia lítur á hvern dag sem sinn síðasta og það orsakar tregðuna. Stefanía lofar Feliciu því að barnið fari ekki utan annað kvöld. Þær Bridget ræða þó saman aftur án Stefaníu og verða eitthvað sáttari.

Brooke og RidgeRidge virðist hafa einhvern sómastreng í brjósti því að hann er næstum hugstola yfir því að hafa laumað sér upp í rúm til Brooke, ekki líður Brooke mikið skár! Hún viðurkennir fyrir Nick að hafa byrjað að taka pillurnar vegna komu föður hennar, hver þarf ekki róandi nálægt Bobby í Dallas?

Brooke er svo sjokkeruð eftir nóttina að hún getur ekki sagt Nick frá lymskubrögðum Ridge ... sem hélt í alvöru að hún hefði skyndilega fallið fyrir honum.

Jamm. Sjúr.


Selebes, selebs og bið eftir stormi

Björn Ingi í Krónunni í dagVið vorum að verða kaffilaus í himnaríki og fórum í leiðangur með viðkomu í bakaríi og vídjóleigu. Þrátt fyrir margar góðar kaffitegundir í boði víða um Akranesborg fann ég ekki espressókaffið mitt í baunaformi. Keypti Selebes í staðinn, það er bragðgott úr pressukönnu, spennt að smakka það úr vélinni. Annað seleb(es) mátti finna í Krónunni en erfðaprinsinn kom auga sjálfan Björn Inga. Auðvitað kemur fræga fólkið oft hingað á Skagann vegna yndislegheita staðarins og fólksins sem hér býr en Bingi hefur aðra góða afsökun, hann á foreldra sem búa rétt fyrir utan Akranes. Ég fylltist létti þegar ég mundi allt í einu eftir því að ég er ekki pólitíkus. Held ég hefði ekki taugar í slíkt.

Sundlaugin á AkranesiÞað er byrjað að hvessa og mun án efa hvína mikið í himnaríki þegar líður á kvöldið og nóttina, verst að það verður myrkur og ekki hægt að horfa á hvítfyssandi sjóinn nema bæjarstjórinn komi upp ljóskastara hér. Ég er með hugmynd. Það er ljóskastari við sundlaugina hér á Jaðarsbökkum sem skín miskunnarlaust í augun á öllum þeim sem eiga glugga sem snúa út að kvikindinu og voga sér nálægt þeim. Meira að segja um jólin! Hvernig væri að færa kastaraviðbjóðinn og koma honum fyrir framan við himnaríki svo horfa megi á hafið, jafnvel alla leið yfir til Ameríku?

Grjót á LangasandiMikið grjót er á Langasandi núna og eitthvað hefur gengið á þessa daga þegar ég var í sakleysi mínu í vinnunni. Faxabrautin, gatan sem liggur á milli sjávar og sements, hefur greinilega breyst í götu undirdjúpanna á tímabili og auðsjáanlegt að sjórinn hefur leikið þar lausum hala ... Ég hefði haldið að bæjarstjórinn hefði aðeins betri stjórn á náttúruöflunum þar sem dóttir hans er soddan engill ... Gísli, ég mana þig, komdu með þrumur og eldingar í kvöld! Stormur, suðvestan, það hlýnar hratt ... eru þetta ekki kjöraðstæður?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 42
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 869
  • Frá upphafi: 1515964

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 725
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband