Færsluflokkur: Matur og drykkur

Rommkúlur, strætóstress ... og bold

Á leið í strætóMikið er gott að vera komin í páskafrí. Inga vinkona skutlaði mér í Mosó og höfðum við örfáar mínútur fram að brottför leiðar 27 á Skagann. Sem betur fer var ekki þung umferð á leiðinni og náðum við því á mettíma á staðinn, auðvitað á löglegum hraða. Inga bjóst við að þurfa að elta strætó og ná honum jafnvel á Kjalarnesi en eins og svo oft áður þá þurfti 27 að bíða eftir leið 15 sem er oft sein á þessum tíma. Þegar við Inga nálguðumst Háholtið sáum við að strætó var nýlagður af stað frá stoppistöðinni. Við héldum ró okkar þótt ýmsir í okkar sporum hefðu farið yfirum af stressi. Inga var nokkrum sentimetrum á undan strætó inn í hringtorgið rétt við KFC, jók hraðann og fleygði mér svo út á ferð við strætóskýlið í Lopabrekkunni, brekkunni góðu þar sem Karítas tók alltaf vagninn áður en hún flutti norður. Elsku Heimir stoppaði svo fyrir mér þegar hann sá fagurskapaðan þumalfingur minn á lofti.

RommkúlurVið erfðaprins fórum í Einarsbúð og keyptum flottan mat fyrir morgundaginn, nautasteik, Einarsbúðarsalat og margt fleira. Svo var það bara hjartans Skrúðgarðurinn í smástund ... ég mæli með cappuccino-tertunni þar. Hún er mjög gómsæt og rosalega holl. Kaffið vekur, hressir og kætir. Súkkulaði er meinhollt á allan hátt og rjómi kemur í veg fyrir beinþynningu.
Góður næstum því endir á annasömum degi. Nú verður bara lesið og horft á sjónvarpið, frí og útsofelsi á morgun!!!

Annað, skilaboð til erfðaprinsins sem situr inni í stofu: Aldrei, aldrei færa mér fulla dollu af rommkúlum! Þetta átti að vera fyrir gesti!

Felicia og DanteÞað má ekki líta af boldinu þá skipta persónurnar um hjásvæfur, svíkja, kyssast og svona ... og enn er brúðkaup í uppsiglingu. Brooke er saklaus, aldrei þessu vant, en það er þó stutt í að hún giftist Nick. Held að handritshöfundar séu með skipurit þar sem segir að það verði að halda brúðkaup á minnst átta vikna fresti eða oftar eftir aðstæðum. Bara passa að fólk sé ekki of blóðskylt! Bridget hryggbraut Dante á dögunum, sá eftir því en oft seint því aumingja karlinn lenti í því að biðja strax Feliciu, barnsmóðurTaylor, Ridge, Nick og Brooke sinnar, eða þannig. Hún játaðist honum, fór strax að undirbúa brúðkaupið, flýtti því og lét fljúga inn tengdó frá Ítalíu. Það heyrðist mikið mamma mia í þessum þætti. Dante fékk langþráða ástarjátningu frá Bridget og ákvað að segja Feliciu upp en það var staðalímyndin af ítölsku fjölskyldunni kominni á staðinn, tyggjandi pasta og drekkandi ólífuolíu sem kom í veg fyrir það.
Ridge reynir stanslaust við Brooke, mömmu Bridgetar, og Nick, unnusti hennar og fyrrum eiginmaður Bridgetar, er að verða brjálaður á því. Sýndist Jackie (mamma Nicks) vera tiltölulega óspæld út í Stefán, pabba Brooke (Bobby í Dallas), fyrir að hafa sofið hjá Taylor (fyrri konu Ridge) til að plata út úr henni hlutabréfin (2%) og koma þannig Forresturunum á kné.  

Die_hardJæja, nú er Die Hard byrjuð á Stöð 2 Bíó, best að horfa á hana í 15. skiptið. Bruce er kúl, meira að segja þegar hann fer að kjökra í lokin, sárfættur og með mörg, mörg dráp (bara á vondum körlum) á samviskunni. Hann hefur haldið þeim sið í hinum Die Hard- myndunum, svona í blálokin þegar konan er komin og vorkennir honum. Annars horfi ég auðvitað bara á myndina þess að hluti níundu sinfóníu Beethovens heyrist í henni. 


Sunnudagur til snilldar

Himnaríki 1180Himnaríki 1184Dvölin á Hótel Glym var dásamleg. Við komum frekar seint á staðinn í gær og fengum úthlutað herbergi nr. 6. Það er á tveimur hæðum og rosaflott. Það var ekki eftir neinu að bíða fyrir svöngu herbergisfélagana, kvöldmaturinn var næstur!
Forréttur: Tígrisrækjur og humar. Aðalréttur: Önd. Eftirréttur: Límónuís. Allt hvert öðru betra!

Hjásvæfan mín, sem vaknaði mjög snemma í gærmorgun, var hræddust við að sofna ofan í súpuna en sem betur fer var engin súpa á borðum.

Himnaríki 1193Það voru frekar margir í mat og ég kannaðist við fólk af Skaganum í salnum. Hjásvæfan sofnaði næstum strax eftir matinn (í herberginu) og vaknaði svo klukkan sjö í morgun til að fara í göngutúr í góða veðrinu þar sem umhverfið var kannað á meðan himnaríkisfrúin svaf á sínu græna til hálftíu. Glymur krefst þess ekki af gestum að þeir rífi sig upp og borði morgunverð klukkan sjö, heldur er hann ekki fyrr en tíu á sunnudögum sem hentaði svona líka vel fyrir svefnglaðari herbergisfélagann í herbergi 6.

Fjörug FormúlaÞrátt fyrir fjölda sjónvarpsstöðva, ITV, Sky, Omega, SkjáEinn, RÚV ofl. sá ég hvergi stöð sem mögulega sýndi frá Formúlunni. Það var nú í lagi, við tékkuðum okkur út og vorum komnar í hlaðið á himnaríki áður en útsendingin (endursýningin) hófst. Mikið fjör á brautinni og aðeins sjö bílar komust í mark. Það er flott að Formúlan, bæði keppnin og tímatakan, sé sýnd í opinni dagskrá.

Hjásvæfan fór heim (eftir marga kossa fyrir boðið) og við erfðaprins tókum stöðuna á Skrúðgarðinum. Bæði kaffi og kökur reyndust í fullkomnu lagi, María í sama góða skapinu og vanalega og gestirnir sælir. Sjórinn er flottur og öldurnar háværar, kettirnir strá hárum um himnaríki eins og þeir fái borgað fyrir það og góð sjónvarpsdagskrá verður í kvöld. Sunnudagar eru að verða bestu dagarnir ... einu sinni voru þeir leiðinlegustu dagar vikunnar að mínu mati.


Allt æði þrátt fyrir stólasorgir og strætóbílstjóramóðganir

Kjalarnes í morgunÞað blés og hvein í himnaríki í morgun og eftir að hafa dáðst að fallegu konunni í speglinum dágóða stund kíkti ég á vef Vegagerðarinnar. Hviðurnar voru rétt um 30 m/sek og þegar Gummi (14) bílstjóri hleypti okkur inn í vagninn sagði hann kvikindislega að hviðurnar væru í kringum 34 m/sek. Frekar mikið ýkt, eflaust til að fá okkur til að skrækja. Over mæ dedd boddí. Svo tókst honum að móðga mig hárfínt og ekki í fyrsta sinn á einum sólarhring. Hvort tveggja svona offitusjúklingsmóðgun. Ég sagði nefnilega hughreystandi við hann í morgun að ég skyldi gera mig rosa þunga svo strætó fyki ekki út af á Kjalarnesinu. Gummi svaraði: "Já, það er flott að hafa þig svona framarlega" (addna 500 kílóa sandpokinn þinn). Kannski var hann bara að taka undir djókinn ... veit það ekki. http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/vesturland/linurit/st036.html Vona bara að það verði fært seinnipartinn. Strætó gengur örugglega ekki núna.

EkkiSjonAdSJAÞað var algjört þriggja trefla veður í morgun, lítill, röndóttur eftir Gunndísi, þar yfir blár venjulegur og svo fjólublátt sjal yfir allt saman. Ég skalf ekki úr kulda á leiðinni sem fólk hefði getað misskilið sem hræðslu þegar hviðurnar þeyttu okkur á milli akreina. Skömmu fyrir komu í Kollafjörð mættum við risatrukkum og þótt Gummi færi hægt rykkti vel í strætó. Óhljóðin sem heyrðust í vindinum minntu á skerí hljóð í geimverumyndum. Ég náði ekki upp neinni hræðslu, heldur reyndi að dorma. Ég var sybbin, enda er ég að lesa geggjaða nýja bók eftir Robert Goddard, Ekki sjón að sjá, heitir hún. (Bókin Horfinn, eftir hann kom út í fyrra og var alveg frábær.) Tveggja ára stelpu er rænt og sjö ára systir hennar verður fyrir bíl ræningjanna og deyr. Ungur doktorsnemi er vitni að atvikinu. Löggan sem rannsakar málið er ekki sáttur við útkomuna og löngu seinna, þegar hann er kominn á eftirlaun, berst honum bréf sem fær hann til að rannsaka það aftur á eigin vegum ... með hjálp doktorsnemans. Lagði bókina nauðug frá mér kl. 1 í nótt, vissi að það yrði djöfullegt að vakna um sjöleytið og það reyndist rétt!

Stóllinn minn friðlausiSölumaðurinn á góðri stund"Yndislegi" kvöldsölumaðurinn sem Guðný á Króknum hrelldi nýlega í símanum sat greinilega í sæti ritstjórans míns þá, þar fundust skilaboð frá henni með bestu kveðju. Þegar ritstjórinn minn settist í morgun var stóllinn hennar reyndar allur laus og hún hrapaði næstum á gólfið. Stólamálin við borðið mitt voru enn hryllilegri. Gamli stóllinn hennar Steingerðar var orðinn lægri en áður og stólbakið hallaði aftur, eitthvað sem ég hélt að væri ekki hægt að gera nema að handleggsbrjóta sig. Nú, svo var svarti stóllinn minn (sem ég hafði fært fjær borðinu og sett Steingerðarstól í staðinn) kominn nær borðinu og búið að fikta all rosalega í stillingunni. Hann var svona laflaus eins og stóll ritstjórans. Það er ekki þægilegt þegar búið er að leggja fyrir mann dauðagildru ... krota á símasnúruna með penna (hún er viðbjóðslega subbuleg) og fleiri óknytti. Það dugir ekki einu sinni fyrir mig að fylla allt af drasli til að fæla sölumennina frá, þeir ýta því bara til hliðar, setjast og upphugsa fleiri og verri gildrur fyrir okkur. Sem sagt báðir stólarnir úr lagi gengnir í morgun og ég fann fyrir sjaldgæfum pirringi eitt augnablik. Þeir eru duglegir að selja, þess vegna eru þeir enn uppistandandi!

Dagurinn er samt frábær, jafnvel þótt það verði fokkings silungur í matinn í hádeginu. (NannaR, reyndu ekki að verja þennan mat, það er "smámunur" á eldamennsku þinni og sumra annarra).


Fljótlegur og gómsætur kvöldverður með dassi af boldi

Soft tortillasHjartans erfðaprinsinn stendur á haus (orðatiltæki) í eldhúsinu og býr til uppáhaldið okkar, mexíkóskar pönnukökur, eins og við köllum það. Hann setur milda salsasósu á tortillaköku, síðan smá gráðaost, rjómaost og síðast rifinn ost. Svo setur hann aðra tortillaköku yfir. Skellir „samlokunni“ á heita pönnu og snýr henni svo við eftir smástund. Tilbúið þegar osturinn er bráðnaður. Sker svo í fjóra bita. Þetta er hrikalega gott. Gamli ritstjórinn minn, Elín Alberts, kenndi mér þetta í gamla daga og erfðaprinsinn betrumbætti síðar með smá dassi af gráðaosti og rjómaosti, sem gerir þetta ekki verra. Er bara ekki kvöldmaturinn kominn hjá ykkur, bloggvinir kærir?

Brooke og RidgeBold-þátturinn í gær var eiginlega bara endurtekning á mánudagsþættinum, allt það sama sagt en með öðrum orðum, það var fyrst í dag sem eitthvað nýtt gerðist, en varla þó.
„Hvernig fékkstu Taylor til að selja hlutabréfin?“ spurði Jackie, mamma Nicks daðursfull.
Bobby í Dallas: „....“ (þögn). Hann þorði ekki að viðurkenna að hann hefði sofið hjá Taylor, enda vill hann halda Jackie volgri/hott. Þau þamba kampavín og Bobby daðrar á móti, svínið. "Þú er mjög kynþokkafullur," segir Jackie og Bobby kyssir hana. Sú á eftir að verða sár þegar hún fréttir um hjásofelsi hans og Taylor. Vegna leikaraeklu í Hollywood grunar mig að eitthvert árið komi í ljós að Bobby sé ekki blóðfaðir Brooke og þá geta þau byrjað saman. Í þessum þáttum byrjar fólk að sofa saman þegar það kemst að því að það er ekki blóðskylt. Sparar leikara og auðvitað er spennandi þegar allir sofa hjá öllum ...
Stefanía ræðir rólega en af sannfæringu við Brooke um brottreksturinn og biður hana um að láta kærastann, Nick, og pabbann, Bobby í Dallas, ekki hafa þessi áhrif á ákvarðanir hennar. Hún lætur síðan sprengjuna falla og segir Brooke að pabbi hennar hafi sofið hjá Taylor.
Brooke var reyndar búin að fá þá snilldarhugmynd að stjórna Forrester-fyrirtækinu frá höfuðstöðvum Marone-fjölskyldunnar, eða þar sem Nick og pabbi hans ráða ríkjum. Þá þyrfti hún aldrei að hitta Ridge og Nick yrði rólegri fyrir vikið. „Viltu þá skila mér þessum 2%,“ spyr Stefanía en Brooke þrjóskast við. Bridget er orðin skotin í Nick aftur en hann talar bara endalaust um Brooke sína, mömmu Bridgetar.

Til að gleðja ykkur enn meira kemur hér myndband með áhugaverðri söngkonu. Enginn annar en Breiðholtshatarinn sendi mér það. Hann er fundvís á smart efni af Netinu.
http://www.singsnap.com/snap/watchandlisten/play/b9d92189


Heimsókn, kattadekur og rólegheit

Theodóra, Nói og Óli með AliceFrábær dagur í dag og gestakoman dásamleg. Krakkarnir svo skemmtilegir og Alice litla bræðir hvern sem er. Tíminn líður greinilega mjög hratt, Nói litli er orðinn svo stór að hann fermist núna í vor ... Mikið er gott að vera búin að þessu öllu saman, skíra, ferma og það allt. Ég skipti reyndar árlega um parkett af gömlum vana til að allt sé í góðu standi áður en fermingarnar hefjast. Ný Katrín og Kubbureldhúsinnrétting kemur svo fyrir lokaleikinn á íþróttavellinum við Jaðarsbakka og baðinnrétting er sett upp árlega fyrir síðasta Formúlumót ársins.

 

Katrín og Óli komu færandi hendi með baðbombur, gulrótartertu og ömmusnúða. Gaf þeim unaðslegt kaffi að launum og svo var setið og spjallað. Nói og Theodóra skruppu niður á Langasand og það var ekki fyrr en á flóði sem þau komu loks upp í himnaríki aftur. Mikið er ég ánægð með að þessi frábæra fjölskylda sé flutt heim.

 

Theodóra og NóiHér hefur annars verið tryllingslega rólegt síðan gestirnir fóru. Hvorki útvarp né sjónvarp, bara stöku kattamjálm. Ég er góð við kettina mína en ég dekra þá ekki eins og erfðaprinsinn. Ef Tommi mjálmar á sérstakan máta þá er strax rokið inn í eldhús til að gefa honum eitthvað hrikalega gott; andabringur, gæsalifur, kavíar, demanta, rjóma eða rækjur. Ég stóð Tomma að verki um daginn þar sem hann hámaði í sig þurrmat, sá var skömmustulegur yfir því að borða svona venjulegan kattamat. Kubbur er að vera soldið feit þótt hún líti ekki við þessu sérfæði, ég þarf að fara að finna leisergeislalyklakippuna til að láta hana hoppa og skoppa eftir geislanum, báðir kettirnir elska þetta og hafa sýnt og sannað að þrátt fyrir háan aldur er maður (köttur) aldrei of gamall til að hoppa. Sjálf er ég búin að fá fína hreyfingu í dag. Blessuð sólin glennti sig svo mikið að ég sá fingraför um allt; á hurðakörmum, veggjum og skáphurðum. Held að ég sé búin að útrýma þeim að mestu og losnaði þar að auki við tvö kíló í leiðinni.


Gestir koma til miðdegisverðar

Gestir í himnaríkiSkjótt skipast veður í lofti. Fékk unaðslega upphringingu um hádegisbil og hætti samstundis við bæjarferð, það verður hvort eð er allt fullt af fólki á bókamarkaðnum og örugglega súrar bækur þar ... ég á líka nóg af lyktargóðu efni í bað svo lush má bíða aðeins. Hún Katrín Snæhólm ætlar að kíkja í heimsókn með karlinn og krakkalakkana, líka barnabarnið. Erfðaprinsinn verður bara að fara einn á Mensa-fundinn. Katrín hefur bara einu sinni komið í heimsókn í himnaríki og þá var hún enn búsett í Bretlandi.

Mér þótti leitt að skilja ykkur svona eftir í lausu lofti í gær með BOLDIÐ og þeir sem vilja kíkja á framhaldið geta farið á þessa síðu (hlekkur fyrir neðan) og séð hverjir fara að sofa hjá hverjum, hver keyrir fullur, hver deyr og hverjir giftast og hverjir giftast næstum því. Í gær var þáttur nr. 4820 sýndur. Ég er búin að lesa upp í 4892 og veit því ýmislegt.

http://www.tv.com/the-bold-and-the-beautiful/show/1232/episode_guide.html?season=20&tag=season_nav;next

P.s. Minnir að einhvers staðar í himnaríki leynist bók með sama nafni og fyrirsögnin, gömul glæpasaga í léttum dúr.

Sæt SMS og "stríðsástand" í himnaríki

Sæt SMSLeynivinurinn minn er frábær. Hann hefur dúndrað til mín nokkrum SMS-skilaboðum í dag sem er hvert öðru sætara. Það nýjasta hljóðar svona: Eigðu yndislegt kvöld og njóttu hverrar mínútu. Á morgun bíða þín óvænt ævintýri. Þinn leynivinur. Ég get ekki beðið eftir að komast í vinnuna. Ég lít t.d. á herðanudd (hint) sem stórkostlegt ævintýri.

Erfðaprinsinn (27) sá enga útlitsbreytingu á móður sinni (49) eftir klippinguna þegar hann kom heim í dag. Engin aðdáunarhróp glumdu, ekkert gerviyfirlið sökum hrifningar. Gæti tengst „stríðsástandinu“ sem ríkir í himnaríki ... skoðunum okkar á samskiptum Ísraels og Palestínu. Mér finnst málstaður hans kolrangur og hann gubbar yfir minn.

Minn málstaðurBlessuð bjúgunÉg þykist vera ansi hreint ópólitísk, alla vega vil ég ekki festa mig í neinum sérstökum flokki. Því fannst mér frekar fúlt þegar Árni Sigfússon (22) gaf drengnum pylsu eða tvær eitt árið í kosningabaráttu um borgina og erfðaprinsinn (14) kolféll fyrir Sjálfstæðisflokknum med det samme. Ég sagði Árna frá þessu í beinni útsendingu nokkru síðar á Aðalstöðinni við takmarkaðar vinsældir, bæði hans og tæknimannsins (erfðaprinsins). Held að hjartað slái nú hjá öðrum stjórnmálaflokki. Jæja, best að fara út í búð og kaupa margar, margar pylsur. Nei, bjúgu!


Hásleipa - lífshætta

Í SkrúðgarðinumSveppasúpan guðdómlega var í boði í Skrúðgarðinum í dag en fyrir viku var hún búin þegar ég mætti í hádegisverð, reyndar ansi seint. Þjónarnir síðan síðast voru aftur í starfskynningu og sinntu gestum af mikilli alúð, þessar elskur. Freyr tók þessi líka fínu dansspor þegar hann var búinn að færa mér súpuna. Ég vakti gífurlega aðdáun í Skrúðgarðinum, enda nýklippt, öll útlits-samúð á bak og burt eins og ég hefði aldrei verið lufsuleg og ótótleg. Við Anna Júlía völdum aftur Coffee-eitthvað lit á hárið á mér með þeim árangri að ég er ægifögur og var algjörlega í stíl við kaffið sem María bjó til handa mér.

HálkaÞvílík hryllileg færð fyrir gangandi vegfarendur, ég varð ekki bara rennvot í fæturna á leiðinni, heldur munaði nokkrum sinnum minnstu að ég dytti kylliflöt með tilheyrandi mögulegri sjúkrahúslegu. Ef ég kynni mig ekki svona vel hefði ég farið á puttanum þótt ég vissi að það myndi hræða sómakæra Skagamenn. Eini leigubíllinn hér er víst sjaldan í akstri, annars hefði það verið fínt.

Sjá má hvernig Skaginn er útlítandi núna í gegnum vefmyndavél sjúkrahússins. http://mail.sha.is/myndavel/ Gamli spítalinn, (t.h.) skyggir á Skrúðgarðinn sem er aðeins lengra en gula og rauða húsið sem hýsir m.a. Ozone, tískubúðina góðu. Fyrir miðju er Kaupþingshúsið en á þriðju hæð er sjúkraþjálfunin!

Kurteisir bílstjórar reyndu eftir bestu getu að skvetta ekki á mig á leiðinni en stórfljót streyma hér um allar götur. Það var því engin spurning um að taka strætó heim. Nú er orðið frítt í innanbæjarstrætó og vagninn var troðfullur af börnum. Ég er ekki að kvarta, börn eru skemmtileg. Mér finnst þau líka vel upp alin hér á Skaganum, þau eru t.d. afar kurteis þegar þau koma í himnaríki til að safna í ýmiskonar áheit, tombólur og slíkt að ég gef þeim iðulega helming eigna minna. Þvílíkur munur fyrir blessuð börnin, líka mig og einhvern karl, að þurfa ekki að ganga heim í svona hálku og bleytu. Svo á að frysta ofan í þetta í kvöld! Arggggg! Það tók mig ekki þessa vanalegu mínútu að ganga heim frá stoppistöðinni á Garðabrautinni, heldur ábyggilega fimm mínútur, ég gat alveg samsamað mig með Vestmannaeyingum sem hafa verið fjóra tíma að komast leið sem tekur þá vanalega 20 mínútur. Þannig séð ...

Tommi og JónasÞótt ég sé að vinna ákvað ég að gamni að kasta teningi til að athuga hvað ég ætti að gera í dag. Möguleikarnir sem gefnir eru á teningnum eru: Lesa, Elska, Spila, Ryksuga, Elda og Þvo. Ótrúlega spennandi.

Nú ... upp kom Ryksuga, líklega það besta sem völ var á. Nú ryksugar elsku Jónas minn af fullum krafti og ég get haldið áfram að vinna.


Hafið, heilbrigðiskerfið, matur og bókmenntir ...

Sjórinn í stuði feb 2008Sjórinn hefur verið afar fallegur í gær og í dag. Sæmilega voldugar öldur sem þó hafa ekki lokkað olíuborna, vöðvastælta brimbrettamenn hingað á Langasandinn. Skrýtið!
Fuglarnir stríða Kubbi og Tomma út í eitt, flögra í stórum hópum, stefna kannski beint á glugga himnaríkis en beygja á síðustu stundu og setjast á þakið. Borga þeim í brauði fyrir skemmtunina.

Röntgenmyndatakan gekk vel í morgun og ég fór ekkert að gráta ... þegar ég fékk reikninginn. Eftir hryllingssögur af sjálfstæðum læknastofum þar sem fólk borgar 20.000 fyrir aðgerð og er fleygt út um leið og það getur staulast á fætur býst maður við öllu illu. Ekki hér á Skaga. Tók innanbæjarstrætó báðar leiðir og fer ekki ofan af því að fólk er farið að nýta sér hann miklu meira núna en það gerði fyrir tveimur árum þegar ég flutti hingað.  

Fóður og fjörNú er elsku „Fóður og fjör“ farið á fullt og hafa undanfarnar helgar, seinnipartar og kvöld verið frekar undirlögð af þessu skemmtilega verkefni (að gera Fóður og fjör sýnilegt). Ég hef verið í sambandi við nokkra af þessum elskum, hótelum og veitingastöðum á landsbyggðinni, og get ekki beðið eftir því að bíll erfðaprinsins komist í lag til að rjúka út á land, hitta þá og borða eitthvað ... hollt, að sjálfsögðu! Ég hvet alla bloggvini mína á landsbyggðinni til að nýta þetta frábæra tækifæri til að lífga upp á skammdegið. Food & Fun í Reykjavík er æðisleg hátíð en alls staðar þar er allt upppantað með löngum fyrirvara og þannig hefur það verið síðustu árin. Ég var búin að lofa erfðaprinsinum að bjóða honum í mat um helgina á Hótel Hamar eða Landnámssetrið í Borgarnesi eða Hótel Glym í Hvalfirði en það verður að bíða. Vonandi tekur Galito hér á Skaganum þátt á næsta ári! Vér Skagamenn kunnum að meta svonalagað!!!

Brother Odd bókinByrjaði á Brother Odd-bókinni á meðan ég beið eftir að komast í myndatökuna og hún virkar bæði ógnvekjandi og hryllileg ... eins og hún á að gera. Svona hryllingsbækur nenni ég að lesa á ensku, annað vil ég helst hafa á ástkæra, ylhýra móðurmálinu. Held að ég sé búin að lesa flestar bækur Dean Koontz og dáist innilega að hugmyndaflugi hans, sama segi ég um Stephen King. Var kannski frekar óheppin með fyrstu Stephen King-bókina, Gæludýrakirkjugarðinn, hún var soldið ógeðsleg.  Lánaði einu sinni Kollu Bergþórs bókina The Dark Half eftir hann, bók sem ég var reyndar ekki búin að lesa sjálf, og henni fannst hún svo ógeðsleg að hún fleygði henni, búin að gleyma að hún átti hana ekki sjálf. Tók mark á Kollu og hef ekki reynt að nálgast þessa bók, harðneitaði að taka við skaðabótum frá henni, fannst eins og hún hefði unnið hálfgert skítverk fyrir mig með því að lesa hana


Blessaðar hneturnar ...

Kaka ársins 2008Nú þegar ég er nýhætt að borða sykur, hveiti og ger (í bili) hugsaði ég með hryllingi til þeirrar freistingar sem mun tröllríða landinu um næstu helgi; Köku ársins. Þessar elskur (bakarar) nota allt það besta sem hugsast getur í þessa köku og mér hefði verið lífsins ómögulegt að sleppa því að kaupa mér eitt stykki á konudaginn ... ef þeim hefði ekki komið í hug að hafa hnetubotn í henni. Sjúkkitt! Svona kaka verður því ekki keypt í himnaríki og vissulega ekki heldur af þeim landsmönnum sem hafa ofnæmi fyrir hnetum.

Það er ekki hægt annað en að gleðjast yfir þessu og ég held sátt og ótrufluð áfram að borða holla matinn minn og drekka rauðrófusafann frá Yggdrasil sem auðvitað fæst í elsku Einarsbúð. Þetta er ekkert meinlætafæði, síður en svo, erfðaprinsinn steikti ljómandi góðan fisk í gærkvöldi oní okkur.

Nýjasta tækniEkki er enn búið að hringja frá sjúkrahúsinu og boða himnaríkisfrúna í myndatöku. Ég hef ekki þorað að hreyfa mig á milli herbergja, sit bara hér og stari á gemsann. Ég er farin að hallast að því að best sé að vera heima á morgun líka. Ekki það að ég liggi í leti og lesi nýjustu kiljuna eftir Dean Koontz sem ég var að kaupa mér í Eymundson á Akranesi, Brother Odd, onei, ég hef ekki opnað hana og geymi mér hana til helgarinnar. Hér er unnið af krafti, enda nýjasta tæknin notuð í himnaríki, bæði tölva og Net.
mbl.is Kaka ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 78
  • Sl. sólarhring: 206
  • Sl. viku: 2320
  • Frá upphafi: 1456616

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 1932
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband