Færsluflokkur: Matur og drykkur

Sætir Indverjar, ruslaföturæningi og beiskjufliss yfir

Stuð í strætóEins gott að stoppistöð Grundaskóla og íþróttahússins kemur á eftir himaríkisstoppistöðinni við Garðabraut ... Ég var rétt búin að koma mér vel fyrir með öryggisbelti og bók þegar yfir 20 unglingar þustu inn og næstum fylltu strætó. Þeir voru á leið í Árbæjarsafnið með nokkrum kennurum. Stilltir og góðir krakkar sem eltu mig úr leið 27 yfir í 15, síðan úr 15 niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna í Ártúni. Það var freistandi að segja kennurunum að taka leið 6 (í Grafarvog) með hópinn en það hefði verið svo grimmdarlegt með allan hópinn, svo er fyrsti apríl liðinn. Elsku Indverjarnir mínir sætu voru í strætó og m.a. maðurinn sem ég spjallaði við á stoppistöðinni um daginn. Við heilsuðumst eins og ævafornir vinir og aðrir farþegar störðu á okkur! Úr augnaráði Íslendinganna skein: "Hvað er hún að tala við útlendinga?" Og úr augnaráði Indverjanna: "Hvað er hann að tala við innfædda?" Ef ekki munaði svona 20 árum á okkur, mér í hag, hefði ég kysst hann bless til að sjokkera en það er víst ljótt að fara illa með unga menn svona snemma á morgnana.

RuslafatanFékk taugaáfall við komu í vinnuna. Ruslafatan mín er horfin og ekki nóg með það heldur er búið að stela stól markaðsstjórans líka. Við Ási skælum í kór. Það hressti aðeins upp á líðanina að vita að það verður steiktur fiskur með remúlaði í hádegismatinn.

-       -          -         -       -       -      -        -

RasistarNúorðið flissa ég bara (pínku beisklega þó) þegar ég sé nýjar bloggfærslur fólks um "skömm" Skagamanna vegna flóttamannanna. Fólk þarf enn að fá útrás fyrir gremju sína út í skoðanir eins manns, eða fyrrum formanns félagsmálaráðs á Skaganum. Kannski er ég ekkert skárri, mögulega hefði ég sjálf tekið upp heykvíslina og gargað ef t.d. formaður félagsmálaráðs í Keflavík hefði lýst yfir áhyggjum sínum af komu flóttamanna ... og dæmt allt bæjarfélagið rasista, óhæfa til að taka á móti flóttakonunum og börnum þeirra. Held þó ekki. Skil ekki svona heift út í saklaust fólk. Maður var nýlega dæmdur í fangelsi fyrir að myrða mann á Hringbrautinni. Getur verið að allir sem búa við Hringbraut séu morðingjar? Er ekki verið að kreista og kreista til að ná sem mestu úr þessu máli og jafnvel refsa okkur Skagamönnum fyrir að leyfa manni með "svona skoðanir" að búa hér? Ég skil þetta samt ekki, það varð allt vitlaust í bæjarstjórn yfir þessu og Magnús látinn hætta vegna skoðanna sinna. Af hverju þá að velta sér svona upp úr vondum Skagamönnum? Ég er kölluð rasisti í vinnunni minni en finnst það bara fyndið, engin meining þar að baki, bara góðlátlegt grín. Samt hefur þetta skaðað bæjarfélagið alveg helling og engin lógík á bak við það!!! Sumir virðast hafa bitið í sig að við viljum ekki taka við flóttamönnunum! Miðað við hvað bæjarstjórnin greip hratt inn í þetta þá eigum við ekki svona skilið! Frétt RÚV um þetta mál var illa unnin og léleg, bara gerð til að staðfesta þennan orðróm um rasismann´á Akranesi ... en kvöldið eftir var frétt Stöðvar 2, miklu betur gerð, en þar var viðtal við Magnús Þór og síðan götuspjall við fjölda Skagamanna sem öllum fannst frábært að fá flóttafólkið!

Útrás dagsins var í boði frú Guðríðar! Og ég lem ykkur ef þið reynið að skamma mig fyrir að vera Skagamaður! Tounge 

 


Óvænt stefnumót við mjólkurkælinn og Formúlujátning

tiramisuOkkur erfðaprins langaði í eitthvað gott til að maula með Evróvisjón í gær og skruppum í Krónuna. Við sleiktum út um þegar við sáum óverðmerkt Tiramisú í kælinum og skelltum í körfuna. Skiluðum því síðan ... það kostaði yfir 1.000 kall. Keyptum einn snakkpoka á 189 krónur en útlenska tegundin kostaði næstum 400 kall. Þó að ég hafi verið á kafi í verðpælingum fylgdist ég samt vel með umhverfinu og sá mann koma gangandi framhjá ostakælinum og áleiðis að mjókinni þar sem ég stóð. Eitthvað fannst mér ég kannast við hann og spurði hvort hann héti kannski Þröstur bloggvinur, www.motta.blog.is. Hann svaraði ekki strax svo ég stakk upp á fleiri fuglsnöfnum. Már? Valur? Magnús, Sigurður? Gottsveinn? Guðmundur? „Nei, ég heiti Þröstur!“ sagði hann illskulega. Ég kynnti mig og brosti breiðu himnaríkisbrosi sem ég hef æft margoft ef ég skyldi nú lenda í spennandi uppákomum. Ekki hafði brosið nokkur áhrif á Þröst sem sagði reiðilega: „Ég veit ekki betur en að ætluðum að hittast fyrst í Einarsbúð?“ Þetta var hárrétt hjá honum, við áttum stefnumót í Einarsbúð inni í framtíðinni, en það var ekki bara hægt sisona að afkynna sig og láta sem ekkert hefði gerst. Maður hittir ekki bloggvini sína í mannheimum á hverjum degi.

Fjör hjá öldruðumUmhverfi skiptir síðan öllu máli og ég get ekki verið fegnari yfir að hafa ekki hitt Þröst hjá t.d. klósetthreinsiefnunum eða dömubindunum. Ef þetta hefði gerst í apótekinu og ég að kaupa gyllinæðarkrem, pilluna, lúsasjampó eða pensílín ... kræst, það hefði verið skelfilegt. Nei, mjólkurkælirinn var ágætisrammi fyrir þessi fyrstu bloggvinakynni. „Á ekkert að klípa mig í rassinn?“ spurði hann svo. Kannski var hann að gantast, kannski ekki. Áður en ég gat svarað, hvað þá gert nokkuð, kom erfðaprinsinn hlaupandi og eyðilagði þessa fallegu stund. „Hvaða maður er þetta? Hvað hef ég ekki sagt þér um ókunnuga menn?“ Hann nánast skellti mér í innkaupakörfuna og hljóp með mig að kassanum. Jamm, svona voru nú fyrstu kynni okkar Þrastar bloggvinar.

Nú er Evróvisjón eitthvað svo gærdags og komið að Formúlunni. Mér finnst keppnin í Mónakó alltaf leiðinlegust. Það hefur þó verið óvenjumikið fútt í henni núna þar sem rignir ... en vanalega er ekki séns að fara fram úr hinum bílunum ... þannig að án rigningar, óhappa eða tafa á viðgerðasvæðinu rúllar þetta bara hring eftir hring eins og mislitur þvottur í þvottavél.


Nuddbaðbomba, tvöföld heimsókn og eldhúsraunir ...

bathbombsÉg fékk gefins fallegan stauk nýlega sem inniheldur litlar baðbombur. Samkvæmt leiðbeiningum áttu þær að leysast upp með þvílíkum látum að baðþeginn fengi létt nudd í leiðinni. Ég settist í baðið, kom bombunni fyrir undir bakinu og beið rosaspennt. Kannski misskildi ég eitthvað en það eru meiri læti í svona c-vítamín uppleysanlegum pillum en þessum bombum sem ilmuðu þó vel. Mér leið eins og þegar ég reyndi í æsku minni að orsaka öldur í baðvaskinum með salti en án árangurs.

KakaFyrr í dag komu systurnar hugumstóru, Steingerður og Svava, í heimsókn með fullt fangið af tertum, eða tvær gómsætar. Í mínum huga eru þær einu sönnu vorboðarnir, enda duglegar að kíkja í heimsókn á sumrin. Freyja voffi var geymd úti í bíl vegna kattanna en Steingerður fór þó út um miðbik heimsóknar og leyfði henni að hlaupa á sandinum og fara í sjóinn. Aldrei of vel farið með góðan hund. Frábær heimsókn.

Brim � veturNokkrir hraustir Skagakrakkar nota nú hvert tækifæri til sjóbaða, á fjöru jafnt sem flóði. Sjórinn er mjög fallegur núna þótt ég sakni vetrarbrimsins (sjá mynd) ... en í réttri vindátt og smároki gæti nú alveg komið flott sumarbrim. Það var notalegt að hlusta á hlátur þeirra og önnur sumarleg umhverfishljóð þar sem ég sat við tölvuna.

B�flugaEitthvað truflaði mig þó í sælunni og það var ekki fyrr en skugga bar við sólu og almyrkt varð í vinnuherberginu eitt augnablik að ég áttaði mig á því hvað suðið táknaði. Þetta var býflugnadrottning. Í kjánaskap mínum hafði ég talið þetta vera hljóð í sláttuvél! Ósjálfráð viðbrögð voru gæsahúð og hrollur sem þeyttu mér upp úr stólnum og á fimmföldum ljóshraða tókst mér að loka glugganum áður en hlussunni hafði einu sinni dottið sá möguleiki í hug að troða sér inn um gluggann. Eins og Michael Schumacher orðar það: „Einbeitingin skiptir öllu.“ Eða eins og Magnús Geir orðar það: „Það er bara ein drottning í himnaríki.“

Uppvask„Kæra móðir,“ sagði erfðaprinsinn, eftir að hafa hrósað mér fyrir dáðina. „Ég held að uppþvottavélin sé biluð sem er hræðilegt þar sem ég vil ekki missa helsta aðstoðarmann minn í eldhúsinu.“ Ég benti honum hæðnislega á að á ungdómsárum mínum hefðum við nú þurft að þvo allt leirtau úti í læk. Þá hefðu engar fínar sápur verið til og við hefðum notað kúahland til að láta askana gljá. Hann hljóp öskrandi af aðdáun út áður en ég gat sagt honum fleiri sögur úr æsku minni.


Leiðrétt kjaftasaga, heitar vöfflur og pínulítið bold

Netið lá niðri í vinnunni eftir hádegi í dag og ég sem ætlaði að blogga í hádeginu. Splunkunýr Indverji var á Ártúnsstoppistöðinni í morgun og eitthvað grunsamlegt í gangi en nú er ég búin að steingleyma hvað það var.

PólitíkinÍ hádeginu var farið að tala um kjaftasögur, margir starfsmenn hússins samankomnir í sólinni úti í porti. Handleggirnir á mér eru eins og undanrenna á litinn en ég bretti niður ermarnar þegar einn samstarfsmaðurinn sagði að það væri í tísku að vera hvítur. Held samt að hann hafi bara verið að gleðja mig en það glampaði samt óþægilega á handleggina, ég fékk ofbirtu í augun, svipað og þegar ég hef verið að horfa á SkjáEinn um kvöld og skjárinn verður mjallahvítur þegar auglýsingar eru kynntar inn.
Einn viskupúki staðarins veit bókstaflega allt
sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann fór að tala um ráðherraskilnaðar- söguna og sagði hana algjört bull, verið væri að reyna að klekkja á viðkomandi, svona pólitískur viðbjóður ... eins og tíðkast víst í stjórnmálum þar sem reynt er að bregða fæti fyrir keppinauta um stjórnunarstöður og svona.

VöfflurÉg fer mjög sjaldan í kaffi í vinnunni, tel mig ekki hafa gott af sætabrauði um miðjan dag, enda nóg af sætum strákum í vinnunni svo sem ... en í dag gerði ég undantekningu, það voru nefnilega heitar vöfflur með rifsberja- eða rabarbarasultu og rjóma. Biðröðin náði út upp í Europrís, eða hefði gert ef allir hefðu komið í einu.

Svo er alltaf sama stuðið í boldinu. Taylor orðin aðalhuggari ekkilsins Thorne sem veit ekki að það var hún sem ók drukkin á Dörlu. Donna, systir Brooke, er farin að sitja fyrir í Beði Brooke, tískulínunni kynþokkafullu og til að spara leikarakostnað tekur Ridge ljósmyndirnar af henni, ásamt því að hanna fötin. Þau eru hættulega innileg, svona miðað við að í framtíðinni eru miklar líkur á því að hún verði stjúpmóðir hans.


Grátið í strætó - Tommi hættur!

TommastrætóGummi bílstjóri mætti óvænt á "Tommabíl" á hlýja og notalega stoppistöðina í morgun, uppáhaldsstrætó Skagabílstjóranna, sérstaklega Tomma. Gummi hnussaði fyrirlitlega þegar ég spurði hvort það væri ekki gaman að vera á besta bílnum. „Þetta er ekki besti bíllinn,“ sagði hann grautfúll en einhverra hluta vegna er Gummabíll notaður sem 27A núna en hefur næstum frá byrjun verið 27B ... jamm, við farþegarnir skiljum þetta fagmál. Kannski er bara verið að sýna bílstjórunum að lífið er ekki bara dans á rósum. Gummi sagði mér skelfilegar fréttir ... eða að Tommi bílstjóri væri hættur!!! Ég fór auðvitað að skæla og innan tíðar hristist vagninn af ekka allra farþeganna, bæði er grátur minn náttúrlega smitandi og svo hágrét fólkið auðvitað þegar fréttirnar síuðust inn í hausinn á því. Gummi nennir engu svona kjaftæði og væli og sagði að við gætum bara farið í BYKO ef við vildum hitta Tomma. Hann var örugglega grútspældur yfir viðbrögðum okkar farþeganna. Hann hefði átt að vita hvað við söknuðum hans sjálfs þegar hann skrapp á Kanarí nýlega og við fengum einhverja missæta karla í staðinn.

Fyrir aftan mig sat elsku indverska vísindakonan, nýhætt hjá Íslenskri erfðagreiningu og leitar sér að nýrri vinnu. Rosalega jákvæð, ekkert blýföst í því að þurfa eingöngu að vasast með tilraunaglös og smásjár, hún lítur bara á þetta sem tækifæri en ekki hrun þótt ÍE sé að segja upp fólki í tonnatali núna ...

KjúklingabringurÆtlaði að hitta Önnu vinkonu (Önnu Bj) í hádeginu og borða með henni hádegisverð en hún varð að fresta því. Alltaf kemur eitthvað gott í staðinn ... svo skemmtilega vill til, að sögn samstarfskvenna minna, að það verða kjúklingabringur, ógó-góðar, í hádegismatinn í dag. Jamm, maður tekur að sjálfsögðu Pollýönnuna á svona hluti!

Ögn síðar: Kjúklingabringurnar voru í lagi en salatið girnilega sem allir emjuðu yfir var fullt af furuhnetum ... djúp vonbrigði. Ef ég væri ekki léttlynd að eðlisfari og byggi yfir sannkallaðri hetjulund væri þessi dagur nú endanlega ónýtur. Fyrst Tommi - svo salatið!


Óvænt sjokk í ísskápnum, óþekkur rútubílstjóri, smábold og sushi

MjólkJa, mér hefndist heldur betur fyrir að hafa talað vel um samkynhneigð í færslu hér í gær. Þegar ég kom heim í sakleysi mínu áðan, frekar snemma miðað við föstudaga, ákvað ég að byrja á því að búa mér til latte. Ég opnaði ísskápinn, enn algjörlega í sakleysi mínu, og það fyrsta sem ég sá var .... LÉTTMJÓLK! Ég argaði í huganum, róaði mig síðan, allt á sekúndubroti, og spurði unga manninn kurteislega hvort hann vissi hvað léttmjólk gerði kaffi. Eftir rúmlega tveggja áratuga sambúð ætti hann að vita að á þessu heimili er EKKI keypt léttmjólk. Aldrei, never! Ekki einu sinni í neyð. Léttmjólk gerir kaffi grátt! Það sem bjargaði erfðaprinsinum var það að dreitill af nýmjólk, nægilegt magn var til í latte í dag og á morgun.

RútanSjórinn er hávær og fallegur núna. Af og til koma stórar og tærar öldur, svona smágerðar Miðjarðarhafsöldur, sem búa til mikinn hávaða þegar þær falla tígulega niður. Ummm, hafið. Stór rúta frá Hópbílum stoppaði hérna á neðra hlaðinu áðan og hleypti út fjörkálfum sem geta núna verið hvar sem er á Skaganum og lita bæinn rauðan. Verst að rútubílstjórarassgatið leggur beint fyrir framan himnaríki og skyggir á skvetturnar. Hann sér ekki huglæga bannmerkið á ljósastaurnum: Varúð, útsýnisstaður frú Guðríðar.

 

HunangsmániÞað eina sem ég sá í boldinu var að Nick og Brooke eru gift og njóta hveitibrauðsdagana, í þeirra tilfelli og miðað við ríkidæmið ættu þetta frekar að kallast vínarbrauðsdagar (aulabrandarar eru líf mitt og yndi). Hin sólbrennda Bridget tryggir sér endalausa samúð með því að gera eins mikið og hún getur úr sólbrunanum (sem Felicia, hálfsystir hennar, olli). Bridget klæðist bleikum sjiffonkjólum, í stíl við andlitið, og drekkur rauðvín, sem er líka mjög flott litasétteríng við andlitið.  

Tommi og JónasÞað skemmtilegasta sem Tommi gerir þessa dagana er að vera úti á stóru svölum, stökkva eftir flugum og éta þær. Ferskara sushi fær hann varla og þetta ætti að spara matarkostnað kattanna. Þegar Tommi og Kubbur gera þetta inni tek ég alltaf fyrir eyrun og loka augunum. Reyni þó fyrst að bjarga flugunum út en ef þær er mjög leiðar á lífinu og neita að fara út er fátt hægt að gera fyrir þær.


Kreppuótti í mötuneytinu

FaLAfel arabískur skyndibitiEitthvað sem heitir Falafel var í matinn í hádeginu, alveg ágætis hollustubollur með hvítlaukssósu og salati. Við matarborðið rifumst við um framburðinn á faLAfel, sem á víst að vera með áherslu í miðju orði, á LA, eins og í útlensku. Vá, hvað ég vinn með æðislegu fólki sem kann að bera fram hin flóknustu útlensku orð. Smile Hmmmmm. Tryggi fór að tala um andúð sína á hinu guðdómlega kryddi kóríander og síðan fórum við, einhverra hluta vegna, að tala um mannakjötsát.

MannætaTryggi myndi frekar borða mannakjöt en kóríander, tjáði hann okkur. Hrund myndi frekar borða mannakjöt en kóngulær. (Mamma líka, hugsa ég.) Tryggvi sagði að það væri sko alveg hægt að fá mannakjöt ... það væru svona exclusive-matsölustaðir í New York og ef maður vissi leyniorðið gæti maður alveg pantað sér.

Þetta var í annað skipti í vikunni sem Hrund kom inn í samræður um mannakjötsát í mötuneytinu.

Mig grunar að ótti okkar Íslendinga við kreppu og mögulega hungursneyð sé djúpstæðari en Seðlabankinn gerir sér grein fyrir. Ef þeir/þær/þau hætta að hringla svona með blessaða stýrivextina mun ótti vaknandi almennings breytast í dásvefn á nýjan leik. Hmmm


Yfirsof, áreiti, björgun og vinnualk ...

Skyldi vera gerlegt að vakna kl. 7.30 á mánudagsmorgni, öll fötin í þurrkaranum í austurenda himnaríkis og tannburstinn í vesturendanum, og ná samt strætó sem leggur af stað kl. 7.41 frá Skrúðgarðinum og kemur 2 mín. síðar á Garðabrautinni rétt hjá himnaríki? Já, það er gerlegt.

Guðný í Ártúni í morgunMail0001Þar sem ég beið í Ártúni eftir leið 18 og svaraði spurningum ungrar, ókunnrar skólastúlku sem kom og stóð þétt upp við mig og spurði mig um hvaðeina sem henni datt í hug og kvartaði yfir kennurum og kærasta, kom elsku Guðný á umbrotsdeildinni brunandi inn á stoppistöðina og kippti mér með. Mér leið eins og Jane þegar Tarsan bjargaði mér naumlega (kaffilausri) frá spjalli við ókunna manneskju. Tek það fram að ég er ekki morgunfúl en mér fannst óþægilegt að fá ekki frið til að hugsa um kaffi. Stelpan var ósköp ljúf en vantaði stopparann í hana. Ég hefði alveg verið til í að spjalla við hana seinnipart dags ... ekki kaffilaus, onei. Það voru tveir aðrir staddir þarna en þeir fengu frið. Hafa kannski haft vit á því að svara á útlensku: "Nje, prodskí póróna sitzen babúska pjotr sjú tem ..." 

Það er eins og standi á enninu á mér: "Komið! Ég er til í hvað sem er" því að reynt hefur verið ítrekað að frelsa mig inn í sértrúarsöfnuði (KFUK 9 ára, Guðsbörn 15 ára, Krossinn 25 ára), selja mér tryggingar (Sun Life) 41 árs, Stöð 2 sport 49 ára ... o.s.frv.

Jamms, fer og tek viðtal eftir hádegi niðri í bæ og fer síðan væntanlega beint heim á Skaga til að skrifa það. Seinnipartinn kemur síðan nágrannakona mín í heimsókn í himnaríki og segir mér djúsí lífsreynslusögu í Vikuna. Lífið er vinna 24 tíma sólarhringsins-sjö daga vikunnar, eða eins og Kaninn orðar það á styttri máta: 24/7. Vinnualkinn ég elskar þetta!

Eigið frábæran dag!


Möndlugjöf og allt ...

JólamaturSyfjan mikla skall yfir um hádegisbil. Held ég leggi ekki framar á mig svona formúluvakn nema með almennilegum undirbúningi, góðum vítamínkúr og slíku. Líklega hefði dagurinn í dag farið í eintómt dorm ef ekki hefði verið fyrir matarboð til Hildu í Kópavog í kvöld en á borðum hjá henni var sannkallaður jólamatur. Meira að segja var möndlugjöf sem ég var svo heppin að fá. Frábært að fá meira nammi á heimilið ... After Eight og svo var líka páskaskraut.

Næsta föstudag á Davíð frændi afmæli og það sama kvöld keppa Akranes og Kópavogur í Útsvari. Hilda elskar Kópavog sinn þótt alin sé upp á Skaganum og á í mikilli tilvistarkreppu ... Mamma ætlar að gera sitt besta með því að mæta í sjónvarpssal, enn og aftur í gulu blússunni sinni sem hefur tryggt okkur Skagamönnum sigur síðustu tvö skiptin. Vona að hún hafi ekki þvegið hana. Það verður barist til síðasta blóðdropa í átta liða úrslitunum!


Drjúg eru morgunverkin ...

PáskamorgunverðurVaknaði við klukkurnar, símann og arg í erfðaprinsinum kl. 6.30 í morgun. Aha, Formúla! Fór í ískalda sturtu, gerði morgunæfingar og skellti mér örstutt niður á Langasand þar sem ég hljóp nokkra kílómetra. Það var reyndar háflóð en sannir morgunhanar láta nú ekki smá sjó á sig fá.

Náði að bjarga lítilli stúlku með eldspýtur á heimleiðinni, hjálpa ungum, elskulegum manni að koma sjónvarpi út um glugga og að finna síðasta orðið sem nágranna minn vantaði til að fullráða sunnudagskrossgátu Moggans. Kom mátulega heim í ræsingu Formúlu 1. Fyrst útbjó ég auðvitað staðgóðan morgunverð; hafragraut, spælegg og beikon, bláberjapönnukökur með sírópi, snittur, hrærð egg og pylsur, múslí, kornflakes, kókópuffs, heitt súkkulaði, vöfflur og ávaxtasalat svo fátt eitt sé talið. Ég var alveg lystarlaus, eins og alltaf þegar ég er nývöknuð, og maulaði bara páskaegg með latte-inu sem ég útbjó mér. Formúlan er athyglisverð, tíðindaminni en í síðustu viku, segi ekki meira, fer nú ekki að eyðileggja spenninginn fyrir fólki sem borgar stórfé fyrir að sjá kappaksturinn í ruglaðri endursýningu í hádeginu. Vonast þó eftir rigningu í brautinni en ... það eru bara átta hringir eftir.

Annars bara góðan dag, elskurnar, og gleðilega páska!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 25
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 852
  • Frá upphafi: 1515947

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 714
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband