Færsluflokkur: Matur og drykkur

Slátur, ófærð, ævintýri og "bóndar" ...

Slátur„Fuss og svei,“ sögðu tvær Viku-stelpur undir hádegi, það var nefnilega slátur í matinn. Áhrifagjörn er ég ekki þegar kemur að slátri og í matsalnum beið líka dásamlegur matur! Lifrarpylsa, blóðmör, rófustappa og uppstúf með kartöflum. Þetta bjargaði algjörlega annasömum degi og þeir sem „lögðu í“ slátrið urðu mun hamingjusamari á svipinn eftir matinn en meinlætafólkið sem fékk sér af salatbarnum. Það var ekki bara slátrið sem bjargaði deginum, heldur kíkti Guðmundur almáttugur, bloggvinur vors og blóma, í örheimsókn og kyssti örþreytta bloggvinkonu sína í lok vinnudags.

AnnaVið Erla (borgarstjóraakranessdóttir) vorum svo heppnar að elsku vélstýran okkar skutlaði okkur í Mosó eftir vinnu þar sem bíll Erlu beið, pikkfastur á bílastæðinu. Við reyndum að ýta spólandi tryllitækinu án árangurs, ég hljóp meira að segja í Bónus og keypti kattasand sem dugði þó ekki til. Mosóstjórnvöld mættu hugsa meira um mokstur á bílastæðum ... segir Skagamærin ... hummmm , og kastar stórgrýti úr gróðurhúsi þar sem meira mætti vera um mokstur hér líka ...

Fastir jepparGummi strætóbílstjóri gargaði hæðnislega á okkur út strætó og sagði að við ættum ekki að fara á þessari smádollu upp á Skaga, það væri bæði hvasst og hált á leiðinni. Við hlustuðum sem betur fer á hann, settumst upp í heitan og þægilegan strætóinn og ákváðum að láta Gumma sjá um stressið við aksturinn. Honum fórst það líka vel úr hendi og bjargaði okkur á snilldarhátt þegar lítill fólksbíll stoppaði snögglega á miðjum vegi fyrir framan okkur, skömmu fyrir göng. Sá bjó sig undir að beygja til vinstri og munaði minnstu að hann fengi heilan strætó aftan á sig. Svona er að spara stefnuljósin. Við horfðum líka hrelld á nokkra JEPPA utanvegar, ég sem hélt að jeppar kæmust allt. Fólksbílaliðið á vanbúnu bílunum hefur greinilega haldið sig fjarri Vesturlandsvegi. Gummi sagði okkur að annar Skagastrætóinn (alltaf tveir í fyrstu ferð, hinn fór aðalleiðina út úr bænum í morgun) hefði fest sig á Innnesveginum í morgun og þess vegna var löggan á staðnum til að hrekja okkur til baka. Gummi tók svo farþegana með í bæinn í 7.41 ferðinni klukkutíma seinna.

Ellý, Halldóra og KubburVeðrið var mun verra norðanmegin rörs í kvöld og sást varla á milli stika, klikkuð hálka og mikið rok og skafrenningur. Hoppaði tindilfætt en þreytt eftir að hafa hjálpað Gumma að halda sér á veginum með því að gera mig stífa, út á Garðabrautinni.

Svarti bíllinn fyrir aftan strætó flautaði á mig ... þetta var elskan hún Ellý, bráðum amma, að koma úr gufu og skutlaði mér þessa tuttugu metra heim. Eftir góðan latte er ég að komast til meðvitundar. Vona að ég nái að halda mér vakandi fram yfir Útsvar ...

 Elsku strákar, nær og fjær til sjávar og sveita. Hugheilar hamingjuóskir með bóndadaginn! (Í DV í dag er auglýsing sem segir: Bóndar, til hamingju með daginn ...)


Strætóbílstjóri í stuði, elding og kvikindisleg kaffimóðgun

Aukabílnum í morgun ...Við Ásta lögðum af stað nokkru fyrr en vanalega í morgun, eða kl. 6.40 um miðja nótt, og kipptum Sigþóru með okkur við íþróttahúsið. Það var lærdómsríkt að lenda fyrir aftan aukabílinn sem við náðum í skottið á skömmu fyrir göng. Hann hleypti sem betur fer engum fram úr sér þegar úr göngunum var komið, eins og stærri bílar gera gjarnan, heldur hélt sig á báðum akreinum alveg þar til mjókkaði í eina. Enda ók hann alveg nógu hratt fyrir þá sem fyrir aftan komu. Það var frábært að hafa svona stóran og traustan bíl fyrir framan okkur sem stjórnaði hraðanum á Vesturlandsvegi. Hélt að aukabílstjórinn hefði samt nóg með að ala upp farþegadruslurnar sem geta aldrei að þeir eigi að fara út að aftan, líka þeir sem sitja fremst, og að hann stoppi ekki fyrir neinum nema viðkomandi hringi bjöllunni. Við Grundahverfið á Kjalarnesi neyddumst við til að halda áfram þjóðveginn þótt aukabíllinn tæki krók eftir farþegum og beygði inn. Í kveðjuskyni æfði bílstjórinn Ástu í viðbragðsflýti með því að hægja hratt á sér þarna á þjóðveginum og gefa ekki stefnuljós. Ásta var að drepast úr þakklæti, svona bílstjórar eru ekki á hverju strái.

Þegar við vorum alveg að verða komnar inn í Reykjavík lýstist himinhvolfið upp. Við urðum óvænt aðnjótandi þess mikla heiðurs að upplifa sjaldgæfa eldingu! Loksins! Eldingin veit eflaust á að þetta verður dagur hinna miklu dugnaðar- og afkasta!

Kaffi í götumáliÁ heimleið í gær, nálægt kl. 17, stakk hin kaffiþyrsta Ásta upp á því að við kæmum við í Mosfellsbakaríi og keyptum kaffi í götumáli. Ekki óraði okkur fyrir því að skömmu síðar myndum við stynja af gleði og ánægju yfir velheppnuðum latte. Ásta ofurkurteisa lýsti því yfir í næstu klukkutíma samfleytt að þetta væri sko miklu, miklu betra kaffi en það sem ég færði henni á morgnana úr vélinni minni og það var ekki fyrr en í Kollafirði sem henni datt í hug að spyrja hvort ég væri nokkuð móðguð. Ég sagði mjög, mjög kuldalega að smekkur fólks væri misjafn, hún hefði verið afar kaffiþyrst skömmu áður, kaffið hefði verið vel heitt og hlýjað henni á ísköldum höndum og svona, hún væri líka vön bráðdrepandi viðbjóðslegu sjúkrahúskaffi á Landspítalanum o.s.frv.. Nei, ég væri ekkert móðguð. Kannski bara óvön því að fólk segði svona beint við í mig að ég væri feit ...


Njósnað um njósnara ...

Skafí, skafíMig vantar sárlega batterí í gamla símann minn. Sem er næstum því eldgamall Nokia og drepur reglulega á sér fullhlaðinn án nokkurrar miskunnar. Ég nota hann sem SMS-símann minn, en flotti síminn sem erfðaprinsinn gaf mér í afmælisgjöf er svo fullkominn að ég hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega á kvikindið, batteríið í honum dugir þó lengi!
Blikkaði erfðaprinsinn til að viðra móður sína og freistaði hans með gómsætum kræsingum í Skrúðgarðinum. Aðalerindi bíltúrsins: að finna og kaupa nýtt símabatterí.

Elsku vitinnÍ sárasakleysi okkar byrjuðum við á kaffihúsinu og fórum svo út að vita svo að ég gæti myndað ... grunlaus um lokunartíma sumra búða. Ég mæli með nýjung í Skrúðgarðinum, skyrdesert í glasi!

Félag íslenskra njósnaraHjá vitanum var fjöldi manns, sem er einstakt, við erfðaprins höfum hann yfirleitt út af fyrir okkur. Fyrst hélt ég að þetta væru útlendingar og beið spennt eftir hnífabardaga en svo reyndust þetta Íslendingar, a.m.k. maðurinn sem svaraði alþjóðlegu „Hi“ frá mér með „Góðan dag“, hreimlaust. Kurteislega fylgdist ég með þeim á meðan ég þóttist vera að mynda og uppgötvaði að þetta voru mjög líklega, eiginlega alveg örugglega ... Samtök íslenskra njósnara, eflaust í æfingabúðum. Ég nötraði af spennu og líka ótta þar sem njósnarar eru ekki hættulausir og  bakkaði varlega út úr þessum mögulega hættulegu aðstæðum. Erfðaprinsinn vildi meina að þetta hefðu verið áhugaljósmyndarar að fanga samspil birtu og brims í ægifögru landslagi Akraness en ég hló kuldalega og trúi ekki lengur að greind erfist frá móður. Njósnað um njósnaraBað hann að koma við hjá Olís/Ellingsen við höfnina og þar fann ég það sem ég hef lengi leitað að, almennilegar sokkabuxur, öllu heldur gammósíur. Nú mun kuldinn halda sig frá lokkandi lærum mínum og fögrum fótleggjum í allan vetur og ég verð ekki lengur eins og undanrenna á litinn; bláhvít.
Himnaríki vantaði kattagras og kattasandsplastpoka og við héldum í Krónuna næst. Við hliðina er batterísbúðin Síminn/Eymundsson en þar var allt lok, lok og læs.
Dagurinn sem sagt frekar spennandi og sæmilega árangursríkur en batteríið verður að bíða.


Tilraunir, vídjó, annir, heimför og bold ...

Tilraunir í matsalnumSkelfilegt að rúmur sólarhringur hafi liðið án bloggs um m.a. það hvað maturinn í mötuneytinu í hádeginu í gær var vondur! „Ó, er þetta buff?“ spurði maðurinn fyrir framan mig í biðröðinni. „Nei, þetta er ýsa,“ svaraði Anna glaðlega. Þetta reyndist rétt, en ýsan var marineruð í indverskum kryddlegi og var dökkblágræn á litinn ... í gegn. Hefði alveg getað verið frumlegt buff. Ég fann ekkert indverskt kryddbragð þegar ég reyndi að borða brimsaltan fiskinn. Fólk hneig niður í hrönnum í matsalnum, eða hefði gert ef það byggi ekki yfir svona mikilli sjálfsstjórn eftir ýmsar tilraunir í mötuneytinu. Það var því gaman að sjá afsakandi svipinn á kokkunum í dag þegar þeir reyndu að öðlast fyrirgefningu okkar með því að vera með lambalæri og ísblóm í eftirrétt.

Gagnkynhneigðir slökkviliðsmennGærkvöldið var annasamt en þá var þrennt á listanum við heimkomu: 1. klára tvær greinar, 2. fara í snöggt bað, 3. horfa á eina til tvær spólur til að skrifa um (DVD). Fyrir valinu varð 1. ágætis Medion-tölva með flatskjá, 2. blá freyðibaðsbomba frá lush, 3. I now pronounce you Chuck and Larry. Til öryggis var ég með aðra mynd því að ég bjóst ekki við miklu af grínmynd um gagnkynhneigða menn sem leika hommapar. Mér til mikillar undrunar grenjaði ég nokkrum sinnum úr hlátri og hefði jafnvel þurft að stoppa myndina stöku sinnum til að missa ekki af neinu. Ekki misskilja mig samt, þetta er hálfgerð bullmynd en á köflum komu ansi góðir brandarar sem kitluðu hláturtaugar okkar erfðaprinsins alveg hrikalega mikið. Vinkona hommanna spurði annan þeirra hvernig hann lokkaði hinn (þann feitlagna) í rúmið. „Það er ekki mikið mál,“ sagði Adam Sandler, „ég legg bara pítsu á rúmið og þá kemur hann hlaupandi!“ (já, feitabollubrandarar líka).

Bíllinn hennar Erlu vakti eftirtekt á KjalarnesiÁ mínútunni fimm í dag gekk ég virðulega út úr fyrirtækinu, fór yfir bílaplanið og gekk inn hjá Sko. Þar var elskan hún Erla (bæjarstjóradóttir) að slökkva á tölvunni sinni og gera sig tilbúna í heimferð á Skagann. Ég færði henni smáræði úr ávaxtadeild mötuneytisins, eða appelsínusúkkulaði, við mikinn fögnuð hennar. Þetta mauluðum við á leiðinni og nutum hverrar mínútu. Svo var það latte í himnaríki, boldið og bloggið ... og verðskuldað helgarfrí. 

Hingað og ekki lengra, sumir bloggvinir. Sá aðeins boldið í gær og þar grét Bridget af söknuði þar sem hún má horfa upp á barnið sitt í fangi réttu móðurinnar sem lifnaði við í sjúkrabílnum. Felicia er á einhverju flippi og er með stífan hanakamb, missti af því hvernig henni datt það í hug, sá síðast að hún bað móður sína að klippa af sér hárið þar sem hún var að missa það vegna lyfjanna. Brooke tilheyrir Ridge ...Hún vill helst láta barnið sofa í sjúkrarúminu hjá sér en dokksi bannar það. Jackie er enn í fangelsinu og Massimo gerði henni ljóst að ef hún reyndi ekki að hafa áhrif á Nick, son þeirra, svo hann hætti við Brooke sem á að vera gift Ridge, syni hans, þá mun hún sitja inni í 25 ár. Nick og Brooke ætla ekki að láta kúga sig til að hætta saman. Í dag: „Ég hélt að þú ætlaðir að gera eitthvað í þessu,“ sagði Ridge beiskur við pabba sinn. Þeir sjá Nick og Brooke í faðmlögum í dómshúsinu. „Það ríkir stríð í fjölskyldunni vegna konu sem tilheyrir Ridge,“ sagði Massimo við Jackie sem var að koma út úr lyftunni í handjárnum, ótrúlega vel útlítandi eftir nótt í fangaklefa.
Bridget talar eitthvað um sleepover Dinos litla en blóðmóðir hans, Felicia, ekki lengur með kamb, kallar hann Dominic og segir að nú búi barnið hjá sér ... á sjúkrastofunni! Læknirinn ungi og huggulegi, bróðir Hectors slökkviliðsmanns, daðrar á fullu við Feliciu og talar líka skynsamlega um þá ást sem Bridget ber eflaust til barnsins. Er búin að fatta þetta. Hann langar í Feliciu en ekki krakkagrisling í kaupbæti! Svona er boldið í dag!


Femínismi, töffaðir tvífarar og frosið grill ...

Tvífarar dagsinsFínasta veður á Skaganum í morgun, hafði reyndar snjóað meira niðri í miðbæ, þar sem Ásta býr, en hjá himnaríki. Ansi dimmt var svo á leiðinni og koldimmt á Kjalarnesinu, hvasst og svolítil snjókoma ... smá dimmviðri líka í hjörtum okkar, líklega vegna umræðuefnisins. Við vorum nefnilega að tala um femínisma. Ásta sagðist í fyrstu ekkert vit hafa á þessu en ég komst að því að hún heldur sko með körlunum. Hún vinnur sem skrifstofukona á Landspítalanum og er með afar lág konulaun, eins gott að hún á mann.

GrillEf hún ætti ekki mann með eðlileg laun hefði hún ekki getað grillað í snjónum í gær, þessa líka fínu steik. Dýrleg hugmynd að grilla í janúar! Maturinn hlýtur að bragðast betur. Jamm, ég er vitlaus í grillmat en fæ hann voða sjaldan, enda á ég ekki grill.

Alexandra, prinsessa af Lúxemborg (16), getur ekki erft krúnuna, þar sem hún er bara kona, benti ég Ástu á sem dæmi um viðurstyggðilega ósvífni og karlrembu!„Það er ekkert hægt að breyta slíku,“ andmælti Ásta, alveg búin að steingleyma Svíþjóð og svona ...  Hún sagði spámannslega að ekkert myndi breytast fyrr en KARLMENN vildu að konur fengju jafnrétti og berðust fyrir því líka, konur væru líka konum verstar (döhhh) ... og eini almennilegi femínistinn væri Jóhanna Sigurðardóttir! Svo vorum við bara komnar upp í Hálsaskóg ... Ég fékk mér róandi te og opnaði gluggann til að ná andanum. Það verður ekki jafnrétti fyrr en barnabarnabarnabörnin mín verða komin á legg, hugsaði ég spámannslega ... og þessir afkomendur verða orðnir svo fjarskyldir mér, ég löngu dauð hvort eð er ... 

Það verður vitlaust að gera í dag, ég gerði langan verkefnalista í gærkvöldi og ætla að hafa hann við hliðina á mér og krossa jafnóðum við það sem ég er búin með. Eigið góðan dag! P.s. Birti mynd til gleðiauka í dagsins önn og til að minna á hvað maður getur farið að líkjast hlutum með tímanum. Ég verð t.d. eins og kartöflupoki í laginu ef ég hleyp ekki reglulega upp stiga himnaríkis ...


Á vængjum hversdagsleikans ...

SúrkálÁttaði mig á því í morgun að líf mitt er orðið afskaplega vanafast og hreinlega fyrirsjáanlegt. T.d. á þriðjudögum er alltaf sjúkraþjálfun, súpa í Skrúðgarðinum og heim að vinna. Í morgun var ég að hugsa um að gera byltingarkenndar breytingar á þessu, fara jafnvel yfir götuna hjá KB-banka, ganga framhjá húsinu hennar Ellýjar og fara svo aftur yfir á móts við Skrúðgarðinn. Eða jafnvel ganga afturábak þessi skref, kannski valhoppa ... svo bjóða gott kvöld á kaffihúsinu. Engar af þessum hugmyndum hlutu þó náð fyrir augum mínum svo að ég hélt mínu hversdagslega striki. Samt er ég byltingarkennd á ýmsan máta, eins og í Einarsbúð skömmu fyrir kl. 18 í gær. „Hvað er þetta?“ spurði erfðaprinsinn furðu lostinn og benti á mjúkan, dúandi poka. „Þetta er súrkál,“ svaraði ég, „meinhollur fjandi, hef ég heyrt!“ Einar kaupmaður sagðist verða með þetta á boðstólum fyrir akurnesku Pólverjana sem eru sólgnir í þessa hollustu. „Verst að ég veit ekki hvernig á að bera þetta fram, líklega bara óeldað beint úr pokanum,“ sagði ég hugsandi og hrukkaði gáfulegt og fagurskapað ennið. (Þarf að spyrja pólsku nágrannana mína nánar um aðferðir og vinnubrögð.)

Crossing JordanÉg er að verða skrambi kvöldsvæf. Samtal um kvöldmatarleytið: Gurrí: „Aha, Crossing Jordan er í sjónvarpinu í kvöld.“ Erfðaprins: „There is a God.“ Södd og sæl eftir steikta fiskinn, þótt gleymst hafi að kaupa lauk, lokaði ég augunum aðeins yfir fréttunum. Opnaði þau næst um tvöleytið í nótt, enn í leisígörl með teppi yfir mér og kött í fanginu!

Massimo og JackieHorfði svo glaðbeitt á boldið í forsýningu í morgun og það er sko margt að gerast núna. Jackie er komin í fangelsi!!! Jackie, mamma Nicks! Ja, forsagan er sú að Massimo (blóðfaðir Ridge) er búinn að ákveða að Ridge, eldri sonur hans, eigi að vera kvæntur Brooke, en ekki yngri sonur hans, Nick. Konur ráða víst litlu um eigin örlög þarna í Ameríkunni, ætli allir kristnir séu svona? Jackie er ákærð fyrir peningaþvætti og skattsvik, handjárnuð og ákærð en fékk að hringja í Nick sinn sem birtist innan tíðar með Brooke. Hann dreif sig til pabba sem getur bjargað öllu og komst að því að Massimo stendur á bak við þetta. Hann er líka búinn að gera Nick arflausan og það kom sérstakt blik í augun á Brooke þegar Nick spurði hana hvort hún treysti sér til að lifa án allra milljónanna ... bjóst við að það nægði til að stía þeim í sundur ... en ástríðan er bara svo mikil!


Sjónvarp, spákonur og sjóferðir ...

50 first datesSenn rennur upp skemmtilegasta sjónvarpskvöld vikunnar ... Glæpurinn, Pressa og lokaþáttur lögfræðidramans. Möguleikar seinkaðrar dagskrár verða nýttir til fullnustu þar sem um tvær stöðvar er að ræða. Þori ekki einu sinni að athuga hvað er á SkjáEinum. Í gærkvöldi hlógum við erfðaprins yfir 50 First Dates í örugglega 50. skiptið en þetta er voða sæt og skemmtileg mynd. Langaði líka að horfa á Draumagildru Stephens King í þriðja sinn en syfjan bara mig ofurliði, well, það er reyndar ekkert voða langt síðan ég sá hana og bókina las ég líka þegar hún kom út. RÚV hafði algjörlega vinninginn þetta laugardagskvöldið í kvikmyndavalinu.

Maturinn hjá Míu bragðaðist stórkostlega í gærkvöldi og ég dó ekki þótt sonur hennar, björgunarsveitarmaðurinn, hafi sett dass af hnetuolíu yfir salatið. Ég hata hnetur. Hann hefur kannski vonast til þess að geta bjargað frænku sem heldur því fram að hún hafi ofnæmi.

Ekki finnst mér töframannaþátturinn á Stöð 2 skemmtilegur, finnst lítið til alls slíks koma síðan ég heillaðist af Skara skrípó-sjóinu í Loftkastalanum um árið. Þátturinn rúllar í endursýningu núna og ýmsir falla í trans á dramatískan hátt til að sanna mál sitt ... sem minnir mig á ....

SpákonaÍ kaffiboðinu í gær spjölluðum við kerlur aðeins um spákonur, höfðum bæði blekkinga- og furðusögur að segja. Ein fór til spákonu fyrir mörgum, mörgum árum og kunningjakona hennar líka. Dætur þeirra voru þá í menntaskóla. Well, spákonan sagði báðum mæðrunum að þær ættu að ráðleggja stelpunum að hætta í skóla, þær fyndu svo miklu meiri hamingju á almennum vinnumarkaði! Ekki datt mæðrunum í hug að taka mark á þessu, sem betur fer. Báðar eru stúlkurnar langskólagengnar í dag og víst alveg ágætlega hamingjusamar þrátt fyrir það. Önnur þeirra  þjáðist reyndar af tímabundnum námsleiða akkúrat á þessum tíma ... og hefði kannski hætt í skóla ef mamma hennar hefði farið að ráðum spákonunnar og hvatt hana til þess. Urrrrrr! Það er mikill ábyrgðarhluti að gefa sig út fyrir að spá fyrir fólki!

Mér fannst voða gaman að fara til spákvenna í gamla daga en minnist þess nú ekki að þær hafi ráðlagt mér svona afgerandi hluti. Þær töluðu frekar um hávaxna, dökkhærða menn og sjóferðir, eitthvað slíkt sem rómantískt ungmeyjarhjartað þráði að heyra. Með hækkandi aldri og minnkandi séns finnst mér ekki taka því að fara til spákonu ... bara til að heyra að að ég rugli saman reytunum við indælan mann, sem var einu sinni hávaxinn og dökkhærður og að við förum í siglingu á skemmtiferðarskipi um Karíbahafið. Eins og lífið sé bara karlar og sjóferðir. 


Ævintýri á Bessastöðum

BessastaðirKyssilegir kórfélagar, axlir borgarstjóraÞegar við Inga komum inn á Bessastaði var þar fyrir nokkur fjöldi fólks, mestmegnis karlmenn sem gladdi mig heilmikið. Dagur borgarstjóri Eggertsson heilsaði okkur innilega með handabandi og ég er hér með orðin enn meiri aðdáandi hans ef það er hægt! Hann er greinilega mannglöggur því að það eru komin ansi mörg ár síðan ég tók viðtal við hann á Kaffibarnum, unga borgarfulltrúann.

Síðast þegar ég fór í móttöku á Bessastöðum var hún tengd Mæðrastyrksnefnd og sætasti karlmaðurinn á staðnum var Jóhannes í Bónus, fyrir utan forsetann. Restin var: kjéddlíngar. Í dag var ekki bara fjöldi karlmanna, heldur heill karlakór í þokkabót og það frá Skagafirði. Eftir að kom í ljós að safnið tilnefnda og karlakórinn tilnefndi höfðu ekki hlotið Eyrarrósina, heldur Aldrei fór ég suður, var boðið upp á drykki. Í kjölfarið réðst ég á Karlakórinn Heimi og spurði hvort svo skemmtilega vildi til að hann væri skyldur mér. Úr Hegranesi en óskyldirAllir kórfélagar nema einn sóru það áfergjulega af sér og þessi eini viðurkenndi að vera framhjáhaldsbarn langafabróður míns. Það er frekar skylt, er það ekki? Þeir könnuðust þó við Höllu frænku á Grettisgötunni og Heiðu, systur hennar, sem býr í Hegranesinu.

Eyrarrósin afhentEftir fimm mínútna spjall og daður fórum við Inga að fikra okkur að útgöngudyrunum. Frammi hittum við M&M-Árna í góðu stuði og svo hýrnaði enn meira yfir okkur þegar ráðsmaðurinn kom brosandi með bakka fullan af pínuoggulitlum snittum. Eins og allir vita þá eru þunnar brauðsneiðar smartari en þykkar svo að pínulitlar snittur eru sérlega flottar. Þetta segir manni að t.d. matarmikið brauðið á Jómfrúnni sé plebbalegt. Ég fékk mér eina dúllu með drögum að laxasneið og sá mér svo til mikillar skelfingar að maðurinn með bakkann gerði sig líklegan til að leyfa öðrum gestum að smakka því að hann hvarf inn í salinn sem við vorum nýkomnar úr. Skrifstofan á BessastöðumEf ég hefði ekki verið búin að lesa nýju mannasiðabókina hennar Unnar Arngríms hefði ég elt hann, ég var svo svöng. Auðvitað á ekkert að mæta á svona samkomur með tóman maga, veitingarnar eru aldrei þannig að hægt sé að borða sig saddan. Svo var þarna heill karlakór, kommon, menn sársvangir eftir allan sönginn. Þeir tóku meira að segja Undir bláhimni! Eins gott að Lísa Páls var ekki á staðnum, hún neitaði fyrir rest að spila þetta lag (með Labba) á Rás 2, enda var það mögulega, hugsanlega ofspilað á þeim tíma ...  

Áslaug DóraJú, og hverjir voru hvar? Þarna var fyrrnefndur Árni, kenndur við Tímarit Máls og menningar, Össur sjálfur, Erla á Bændablaðinu, Þorgerður Katrín, Dagur borgarstjóri, Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri RÚV, elskan hún Áslaug Dóra hjá menntamálaráðuneytinu, nýi ferðamálastjórinn, pabbi hans Mugisons, Guðrún Kristjáns fjölmiðlafulltrúi Listahátíðar ... og restin var svo eiginlega bara sætir menn. Á BessastöðumÉg frétti að Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Langholtskirkju núna seinnipartinn í janúar!

Þetta var fyrirmyndarboð og Dorrit stóð sig eins og hetja, hún var eini gestgjafinn þar sem Ólafur liggur í flensu.

Ég tók nokkrar snilldarmyndir að vanda sem munu skreyta þessa færslu. Þær stækka ef smellt er á þær, enn meira ef smellt er aftur ...

Nú er bara spurning hvort maður tími að rústa Ísafjarðarliðinu annað kvöld og skemma þannig gleði þeirra yfir Aldrei fór ég suður-verðlaununum.


Galdramáttur, hefðardúllur og kaffismekkur

The CloserEr búin að komast að því að leisígörl himnaríkis býr yfir galdramætti. Ég var að vísu nokkuð syfjuð þegar ég kom heim úr vinnunni í gær og settist í hann en tókst með erfiðsmunum að horfa á boldið og fréttir. Miðvikudagar hafa nefnilega breyst úr viðbjóðssjónvarpskvöldum með hrútleiðinlegri kellingadagskrá (stöð2) yfir í ágæt kvöld. Hjartans erfðaprinsinn vakti mig þegar Grey´s Anatomy hófst. Það var ekki fyrr en eftir þann þátt, The Closer, Stelpurnar og eitthvað fleira sem leisígörl losaði um takið og ég gat staðið upp. Þá hafði ég verið föst við galdrastólinn síðan kl. 17.30. Gat ekki einu sinni kíkt í bloggheima eða fundið mér smekkleg og snyrtileg föt við hæfi konu sem er að fara í móttöku á Bessastöðum (arggggg, mont, grobbb, spenningur ... arggg) eftir hádegi í dag ... Fann þau á hlaupum í morgun og það seinkaði för okkar Ástu í bæinn um alla vega tvær mínútur.

BessastaðirAf því að ég tilheyri því miður ekki fína fólkinu í bænum, þótt ég sé í raun hefðardúlla fram í fingurgóma, þá er orðið ansi langt síðan ég hef farið í móttöku á Bessastöðum. Boðið síðast tengdist líka starfi mínu og hafði ekkert með blátt blóð frá Flatey á Skjálfanda eða Hróarsdal í Skagafirði að gera. Í síðustu heimsókn tókst mér að draga upp úr ráðsmanninum (þegar ég var á leið út, engin vitni, var ekkert of kammó, ég kann mig) að kaffið á Bessastöðum væri svartur Rúbín ... sem ég smakkaði einu sinni fyrir Gestgjafann og þótti bara fínt. Á alþingi, síðast þegar ég vissi, var (ef ég man það rétt) Kólumbíukaffi frá Johnson og Kaaber ... á Hótel Holti var (síðast þegar ég vissi) boðið upp á í venjulegri uppáhellingu Kaffi Marínó í rauðu dollunum. Kaffi sem hægt var að kaupa á bensínstöðvum og í Bílanausti, eflaust fínasta hversdagskaffi en ekki beint það sem maður býst við á rándýrum veitingastað. StaðarskáliÍ dag er að vísu hægt að fá ógurlega gott kaffi á bensínstöðvum (í pokum) en ég man að mér þótti þetta hneyksli á sínum tíma og áhrifin af "fínt-út-að-borða-dæminu" fuku á brott í mínum huga. Ég bendi á að Staðarskáli býður upp á fínasta kaffi frá Te og kaffi en mér finnst ansi langt að aka þangað (með rútu ... eða á puttanum) til að fá gott kaffi eftir matinn ...

Hmmm, ég veð úr einu í annað, ekki í fyrsta skiptið ... dreg ykkur frá hægindastólum til sparifata og frá Bessastöðum til nöldurs um kaffitegundir, ykkur hlýtur að vera farið svima ... Best að fara að vinna svolítið! Hafið það gott og guðdómlegt í dag, elskurnar.


One of these days ...

Við Mía systirÞetta er greinilega einn af þessum dögum  ... Byrjar vel og heldur áfram að vera góður. Sjúkraþjálfunin var stórkostleg að vanda og nú svíf ég um í stað þess að hökta. Vöðvabólgan er a.m.k. mun betri. Súpan í Skrúðgarðinum var ekki bara góð, hún var æðisleg. Ég hvet alla Skagamenn til að smakka hana og það er líka alveg þess virði að koma alla leið frá Vopnafirði fyrir hana. Í póstkassanum beið geisladiskur, fullur af myndum af afa, ömmu, frændfólki, okkur Míu systur þegar við vorum litlar. Mikið er hann Þorgeir frændi minn frábær. Nú verður hringt í kappann og honum færðar miklar þakkir. Skelli inn frekar nýlegri mynd af okkur Míu systur þar sem sést hvað hún var góð stórasystir.

Aloa Vera gelÁramótabjúgurinn er að hverfa og útlit fyrir að ég verði huggulegri í sjónvarpinu á föstudaginn en ég er núna, ekki það að það sé ekki sætt að vera bólginn og búttaður en kröfur þjóðfélagsins kalla á annað. Á meðan ég er horuð miðað við Keikó þá er ég sjálf ánægð. Ég prófaði að fara að taka inn Aloa Vera-safa og hann virðist hafa rosalega góð áhrif á mig. Hilda systir hefur hrósað honum mikið og á meðan Davíð, sonur hennar, lá í veikindunum (sama og hrjáði Björn Bjarnason) var henni bent á safann og segir að hann hafi hjálpað Davíð mikið. Ég hélt alltaf að þetta væri svo bragðvont en svo er alls ekki.

HimnaríkiÉg tók einu sinni viðtal við Jónínu ljósmóður hér á Akranesi. Hún var orðin mikill sjúklingur og var flutt í þægilega íbúð sem hentaði veikburða manneskju betur. Hún fór að taka inn Aloa Vera og bera á sig hitakrem og slíkt og hviss bang, allt gjörbreyttist. Mér skilst að hún þjóti um allt núna og selji þessar vörur og það er eiginlega henni og viðtalinu að þakka að mér datt í hug að prófa. Það er líka að hluta til Jónínu að þakka að ég flutti á Skagann fyrir tveimur árum. Hún bjó í þægilegu íbúðinni sinni við Langasandinn og ég hékk úti í glugga hjá henni á milli þess sem ég tók viðtalið við hana. Þarna var einu fræinu sáð sem endaði með að ég keypti himnaríki. Hjónin sem eiga Ozone-tískuverslun búa líka á Jaðarsbrautinni og sama má segja um fræ ... fór í innlit í flotta raðhúsið þeirra og þráin í sjóinn bærði harkalega á sér. Maðurinn seldi mér einmitt svo flottar buxur í dag en búðin er akkúrat mitt á milli Betu sjúkraþjálfara og Skrúðgarðsins. Í nýlegri færslu um staðalímyndir var ég búin að komast að því að ég væri „kynóður búðahatari“ en þegar buxnaeignin er komin niður í einar buxur þá þarf að gera eitthvað í því ... það var ekkert kvalafullt, enda fékk ég fína þjónustu og flottar buxur. Vildi bara að ég hefði farið fyrr, útsalan er komin langt á veg og margt hreinlega búið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 46
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 873
  • Frá upphafi: 1515968

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 729
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband