Færsluflokkur: Matur og drykkur
4.1.2008 | 08:41
Hressandi jarðskjálftaspjall okkar Ástu í morgunsárið
Það er ekkert galið að sofna fyrir miðnætti. Ég fattaði það í morgun þegar ég glaðvaknaði klukkan sex við SMS frá Ástu: "Viltu kíkja á vindhviðurnar á Kjalarnesi!" Ég rauk morgunhress inn í vinnuherbergi og sá að þær voru bara um 25 m/sek. Skreið upp í aftur og dormaði til 6.30, enda er skipulagningin svo hrikalega góð að ég þarf bara 20 mín til að klæða, snyrta og gera latte áður en Ásta rennur í hlað á drossíunni. Við spjölluðum saman á leiðinni að vanda:
Ásta: "Ég keypti völvublaðið, hún er nú svolítið myrk í máli núna, völvan!" Gurrí: "Ekkert svo rosalega, það eykur t.d. bara straum ferðamanna hingað að fá gott eldgos og svo ef stjórnin fellur þá er það væntanlega bara spælandi fyrir Samfylkingu og Sjálfstæðis, spennandi fyrir alla aðra ..." Ásta (spámannslega): "Það kemur eldgos, ekki spurning, og það verður hér í grennd við höfuðborgina, kannski nálægt Hveragerði og Selfossi ..."
Svo allt í einu vorum við farnar að tala um stóra skjálftann árið 2000. Mig langar að skrifa bók (ja, eða bloggfærslu) um það hvað fólk var að gera þegar skjálftinn reið yfir. Ásta: Á þessum tíma leigði ég íbúð í blokkinni bak við Garðabraut 45 og það eru rosalega stórir gluggar á stigaganginum. Við vinkona mín vorum að fara niður í bæ (á Akranesi) með börnin og hún var lögð af stað niður þegar ég fann fyrir höggbylgjunni á undan skjálftanum. Ég argaði á hana að drífa sig upp aftur, ég var svo hrædd um að rúðan myndi springa. Svo sá ég jörðina (bílastæðið) ganga í bylgjum, það var hrikalegt. Gurrí: Vá, hvað þú ert næm að fatta hvað þessi fyrirvarahvinur táknar. Ásta: Já. Gurrí: Þegar eftirskjálftinn kom þarna 2000, þessi seinni, þá fann ég líka fyrir höggbylgju af því að ég bjóst við jarðskjálfta, beið vakandi uppi í rúmi og hugsaði: Er hann að koma núna, er hann að koma núna, er hann að koma núna? Ásta starði á mig með samúðarglampa í augum, sem er sjaldgæft hjá þessu hörkutóli, og sagði: Rosalega rífur í bílinn, það hlýtur að vera meiri vindur en 25 m/sek. Þarna steingleymdi ég um hvað við höfðum verið að tala og náði því ekki að segja henni allar hrikalegu lífsreynslusögurnar sem ég hafði heyrt um 17. júní 2000. Jú, reyndar, um feginleika okkar Hildu systur vegna mömmu að hún skyldi ekki hafa verið heima á efstu hæð í Asparfellinu svona líka jarðskjálftahrædd ... Já, Hilda, hvar er annars sumarbústaðurinn sem mamma er í? Í Grafningi, svaraði Hilda umhugsunarlaust. Svo föttuðum við báðar í einu hvað hún hafði sagt. Ekkert spurðist til mömmu í viku en hún reyndist alveg heil á húfi, ofsaglöð að hafa lent í þessu ævintýri. Jú, og um unga manninn sem sat á klósettinu heima hjá tengdó í sinni fyrstu heimsókn og hún lá á hurðinni: "Opnaðu, það verður að opna allar dyr í jarðskjálfta, opnaðu, segi ég!" Jamm, mér finnst samt best þegar ég heyrði af þýska eða svissneska jarðfræðingnum sem var á ferðalagi á Íslandi og upplifði þetta ævintýri ... hann hafði lært um jarðskjálfta, kennt um þá en aldrei lent í slíkum. Nú fékk hann þetta beint í æð.
Vona að þetta jarðskjálftamálæði mitt viti ekki á stóran skjálfta. Einu sinni helgaði ég Díönu prinsessu næstum heilan útvarpsþátt á Aðalstöðinni og innan við sólarhring síðar lést hún í bílslysi með Dodi sínum.
1.1.2008 | 17:05
Annáll árins 2007 - allt afhjúpað
Janúar: Bloggaði í sakleysi mínu og barnaskap á blog.central.is þegar vélstýran hugumstóra hringdi í mig og sagði að sér fyndist að Lúrt við Langasandinn-bloggið ætti að færast á Moggablogg. Því hlýddi ég þann 14. janúar fyrir tæpu ári og hef ekki verið söm síðan. Fór oft í bað.
Febrúar: Skrifaði bloggsápu sem verið er að kvikmynda nú með Tom Hanks í hlutverki Guðmundar bloggvinar. Fór rosalega oft í bað.
Mars: Davíð frændi alltaf á spítala, barðist við sama lungnasjúkdóm og Björn Bjarnason. Náði góðum bata, eins og Björn. Fór sjaldan í bað.
Apríl: Fann giftingarsögu Brooke á Netinu: Eric 1991, Ridge 1994, Ridge 1997, Thorne 2001, Whip 2002, Ridge 2003, Ridge 2004.
Maí: Sumarið hófst formlega 16. maí og ég komst loks út án sokkabuxna. Hitti óvænt Sverri Stomsker sem kyssti mig. Það leið þó ekki yfir mig, eins og gerðist hjá Evu frænku og varð blaðamál.
Júní: Tók greindarpróf á Netinu og skorið var ... 87!
Júlí: Komst upp á lagið með að freyða mjólk í espressókönnunni minni, hætti að kaupa kaffirjóma.
September: Keypti ryksuguróbótinn Jónas. Tókst að lokka erfðaprinsinn til að flytja upp á Skaga. Nú koma vinirnir í kjölfarið.
Október: Óvenjulítið að gera hjá Jónasi.
Nóvember: Afbrýðisemi erfðaprinsins út í Jónas veldur stríðsástandi, sá fyrrnefndi dustar rykið af venjulegu ryksugunni. Jónas rykfellur. Fór í jólabaðið.
Desember: Jólin og áramótin. Jónas fékk að ryksuga þrisvar.
31.12.2007 | 20:52
Fjörið að hefjast!
Við erfðaprinsinn sitjum hérna tvö ein í kósíheitum og höfum verið að horfa á Bubba. Gestirnir fóru í fússi strax eftir matinn af því það var majónes í hrísgrjónasalatinu. Nei, djók. Þau langaði til að leggjast í eigin leisígörls og dorma, enda illa sofin. Landsbankinn á Akranesi var opinn í morgun og þar var Sigþór. Krembrauðsverksmiðjan var líka opin og þar var Mía fremst í biðröðinni fyrir kl. fimm í morgun, það er nefnilega eldgamall siður hér á Skaganum að kreista krembrauð þegar klukkan slær 12 á miðnætti. Það boðar eitthvað æðislegt, eilífa nammidaga og svona.
Maturinn heppnaðist stórkostlega. Samkvæmt Matreiðslubók Nönnu á ekki að sjóða hamborgarhrygg í kássu! Ég frétti það í gær. Sauð því 1,9 kg hrygg í 40 mínútur og lét hann liggja aðeins í soðinu. Svo frétti ég á aðfangadag að maður notaði aldrei blásturinn í ofninum á kjöt, bara kökur, þannig að ég gljáði hrygginn í 10-15 mín í sjóðheitum ofni án blásturs. Þetta varð líka safaríkasti og besti hamborgarhryggur í manna minnum í himnaríki. Reyndar sá fyrsti síðan ég flutti. Mía sósusnillingur bjó til gljáann og gerði líka hrikalega góða sósu með. Ég hætti við að brúna kartöflurnar þar sem sykurhúð var á hryggnum og sætt ávaxtasalatið í Einarsbúð fullnægði allri sykurþörf, það reyndist vera rétt ákvörðun.
Þegar ég bauð systur minni og mági sagði ég þeim í leiðinni að þau mættu alveg fara strax eftir matinn og þyrftu ekkert að hanga yfir okkur allt kvöldið ef þannig stæði á. Þau virtust alveg dauðfegin að sleppa, elsku dúllurnar. Fyrsta verk þeirra, eftir að erfðaprinsinn skutlaði þeim heim, var að fara í gönguferð til að gefa krummunum ýmsa afganga úr frystinum. Svo átti bara að setjast niður og hafa það gott yfir sjónvarpinu.
Við erfðaprins horfum t.d. alltaf á annál ársins á Stöð 2. Á nýársdag sest ég svo niður og glápi á RÚV-annálinn í endursýningu. Eftir þann gjörning sleppi ég tökunum á gamla árinu og hugsa aldrei um það aftur ... ALDREI!!! Maður lifir sko ekki í neinni fortíð á þessum bæ. Jæja, annállinn er byrjaður ... það heyrist líka í flugeldum, æði!
Er að hugsa um að skrifa smá blogg-annál á morgun. Ótrúlegustu hlutir hafa gerst á árinu, ég mun birta sjokkerandi myndir og afhjúpa dularfull atvik. Ryksuguróbót, Sverrir Stormsker og fleiri stórmenni munu leika stór hlutverk.
31.12.2007 | 13:16
Gleðilegt ár!
Fór í áramótabíltúr með erfðaprinsinum undir hádegi og tók myndavélina með. Kann samt ekki við að birta enn eina myndina af vita, það gæti fattast. Sáum að Einarsbúð var opin og drifum okkur inn til að kaupa the salat, eitthvað sem Einarsbúð er svo fræg fyrir. Sætt og gott ávaxtasalat með hamborgarhryggnum. Ætlaði að kaupa svona með matnum á aðfangadagskvöld en biðröðin í kjötborðið var svooooo löng á Þorláksmessu. Náði að kyssa elsku kaupmannshjónin, sem ég hef þekkt næstum frá fæðingu, og óska þeim gleðilegs árs. Ellý var stödd þarna líka svo við erfðaprins gátum kysst hana líka. Hún keypti mikið af flugeldum, sagði hún, enda algjör stelpa í sér, hefur mjög gaman af sprengingum og látum. Hún fussaði þegar við erfðaprins spáðum því að hún þyrfti að geyma meirihlutann til þrettándans. Ætluðum að kíkja í Skrúðgarðinn á eftir og kaupa heitt súkkulaði en væntanlega var lokað kl. 12. Knúsa bara Maríu eftir áramótin.
Mía systir og Sigþór mávur ætla að koma í mat til okkar í kvöld og verður frábært að fá þau. Alltaf hátíðlegra þegar það eru fleiri.
Ef ég næ ekki að blogga meira áður en hátíðin gengur í garð þá vil ég óska ykkur öllum innilega gleðilegs árs. Megi nýja árið færa ykkur ómælda gleði.
27.12.2007 | 20:33
Eru karlmenn veikgeðja?
Karlmenn eru veikgeðja ... þegar kemur að vælandi gæludýrum. Bara í virðulegri fjölskyldu minni má finna tvö dæmi; erfðaprinsinn og mág minn. Í himnaríki má Tommi ekki væla á sérstakan máta, í frekjulegum vælutón eins og hann sé að deyja úr hungri, þá hleypur erfðaprinsinn upp til handa og fóta og gefur honum uppáhaldsmatinn (blautfæði frá Whiskas úr litlum poka) þótt báðir matardallarnir séu blindfullir af þurrmat. Það eru sko farnar sérferðir út í Einarsbúð til að kaupa nammið fyrir Tómas. Kubbur vill bara alvörukattamat, þurrmat, og hleypur í burtu ef reynt er að gefa henni eitthvað annað, túnfiskur í vatni freistar þó stundum!
Erfðaprinsinn er þó ekkert á við mág minn sem þrammar daglega út í fiskbúð, að sögn systur minnar, og kaupir ferskan fisk fyrir Bjart sinn. Yfirleitt er þríréttað hjá Bjarti. Þurrmatur, blautmatur og nýsoðinn fiskur. Rækjur og rjómi þegar systir mín sér ekki til?
Getur þetta verið rétt? Leika kettir sér að tilfinningum karla? Fresskettir í þokkabót! Já, þessi hávísindalega rannsókn mín sýnir svo ekki verður um villst að grábrúnbröndóttir og hvítir fresskettir opinbera veikleika karlmanna. Þann eina sem ég hef rekist á hingað til. Að öðru leyti eru karlmenn fullkomnir.
26.12.2007 | 13:28
Krumminn á svölunum
Krummarnir hafa verið flögrandi allt í kringum um himnaríki í dag, greinilega svangir. Ég setti smá brauð út á svalir og vona að þeir þori að gæða sér á því með æsispennta Kubbsu hinum megin við gluggarúðuna.
Hér í himnaríki hefur verið afar rólegt. Við erfðaprins hituðum upp kalkún í gær með öllu tilheyrandi og notuðum að sjálfsögðu nýja, flotta örbylgjuofninn til þess. Matseðillinn í dag verður alveg eins. Í dag á bara að hafa það rólegt og notalegt. Kvefið er á undanhaldi og með þessu áframhaldi verður það horfið fyrir áramót. Vegna slappleika aflýsti ég árlegu hangikjötsboði sem átti að vera í gær. Sem betur fer, veðrið var nefnilega frekar slæmt og ekki gaman að fá fólk frá Reykjavík í fljúgandi hálku og hríðarveðri. Held samt að Mía systir hafi fengið akandi úr bænum-gesti í hangikjötið í gær. Þarf að hringja í hana á eftir og tékka á málum.
Tókst að ljúka við Eldvegg Hennings Mankell í nótt, sannarlega spennandi bók. Nú eftir áramót þegar húsfélagsformaðurinn fer út á sjó með hana í farteskinu á hann lítið eftir að elda fyrir áhöfnina, hann mun liggja í bókinni.
Núna kl. 14 verður Sound of Music sýnd á Stöð 2. Ég hlakka mikið til þótt ég eigi reyndar myndina. Á ferðalagi á Írlandi einu sinni sá ég blað, aukablað sunnudagsblaðs, þar sem afdrif barnanna úr Sound of Music komu fram. Sagan um að yngsta stelpan hefði dáið í bílslysi á frumsýningarkvöldinu var ósönn, stelpuskottið er enn í fullu fjöri, næstum hundrað árum eftir að myndin var fyrst sýnd. Skrifaði að sjálfsögðu grein um Tónaflóðsbörnin í Vikuna skömmu eftir heimkomu. Reyni að finna blaðið og setja þetta svo á bloggið. Hvern langar ekki að vita hvað blessuð börnin tóku sér fyrir hendur?
West Ham Reading í dag, mikið vildi ég að það kostaði ekki svona mikinn pening að vera áskrifandi að Sýn 2 ... ekki séns að ég nenni út á pöbb að horfa ... þótt ég gæti ábyggilega lent á séns þar ...
25.12.2007 | 01:36
Dýrðarinnar aðfangadagskvöld ...
Mikið var þetta yndislegt aðfangadagskvöld. Ekki verra að fá þrumur og eldingu, hefði bara mátt vera svo miklu, miklu meira ... var því miður í leisígörl þegar eldingin kom en ekki úti í glugga.
Okkur Ingu reiknaðist til að kalkúnninn yrði tilbúinn kl. 19.20 og það passaði alveg. Þess vegna gátum við sest niður og spjallað saman á meðan kalkúnninn mallaði. Inga var nefnilega búin að undirbúa næstum allt annað. Maturinn heppnaðist ofboðslega vel. Ég varð svolítið hrædd þegar ég sá skrýtið áhald sem Inga hélt á og líktist helst stólpíputæki, eins og ég ímynda mér að það líti út. Nei, þetta reyndist vera voða flott amerískt smjörsprautunargræja, smjörið í forminu var sogið upp í hana og svo sprautað yfir kalkúninn, aftur og aftur og aftur. Inga bjó til ananasfrómas í morgun og það var eftirrétturinn. Næstu þrjá daga munum við erfðaprins borða kalkún og meðlæti.
Jólagjafirnar voru bara snilld. Kvenlegur, rósóttur hamar, rósóttur tommustokkur og rósótt hallamál vakti mikla lukku, alvörugræjur. Svo fékk ég óskabókina Konur eru aldrei hamingjusamar því þær eru með svo LITLAN heila og karlar rosa pirrandi.
Fleira flott; m.a. hvít rúmföt, hitapoka, nammi, skálar, bækur, DVD (Tell no one, spennandi franska mynd), handklæði, náttkjól ... og hvorki meira né minna en örbylgjuofn!
Við spiluðum spil sem heitir Life, eitthvað slíkt, og var með vísan í Simpsons-fjölskylduna og aðra íbúa Springfield. Það var svo flókið að hver umferð tók næstum hálftíma, þá er ég að tala um hringinn hjá okkur fimm. Svo gekk þetta hraðar eftir því sem við lærðum betur á það. Ég sigraði ... stóð uppi með rúmlega 1,5 milljón dollara þótt ég hafi kosið að ganga ekki menntaveginn (í spilinu). Lengi vel var ég Hómer en c.a. um miðbikið mátti ég skipta um starfsgrein, dró mér miða og varð kennslukonan (Miss Krappabel). Erfðaprinsinn, sem menntaði sig, (Comic Book Guy) lenti í öðru sætinu.
Nú eru gestirnir farnir og uppþvottavélin malar værðarlega. Mig langar mest að halda í bólið með Henning Mankell, kiljan (Eldveggur) sem kom út eftir hann fyrir jólin er algjör dýrð, ég er langt komin með hana og lofaði að lána húsfélagsformanninum hana út á sjó eftir áramótin. Hann er hrifinn af bókum Mankells eins og ég. Wallander minn er mjög ólíkur Wallander í kvikmyndunum sem hafa verið gerðar eftir bókunum, minn er þónokkuð sætari þótt hann sé enginn sykurgrís og mun skemmtilegri.
Þið sem ekki eruð farin að sofa, reynið að leggja á minnið drauma ykkar í nótt, það er víst svo mikið að marka það sem mann dreymir á jólanótt!23.12.2007 | 22:01
Annasöm Þorláksmessa - partí og sönn íslensk íkveikjusaga
Þegar loks tókst að drösla erfðaprinsinum á fætur um hálftvöleytið var haldið í bæinn með fjölda jólagjafa handa vinum og vandamönnum. Gerð hafði verið nokkuð stíf áætlun til að komast í skötupartíið kl. 18 á Akranesi. Það var frámunalega bjánaleg bjartsýni. Við vorum ekki komin heim fyrr en undir níu í kvöld.
Við byrjuðum á Álftanesi hjá Önnu og einni bloggvinkonu sem fékk rósavönd og knús og enduðum í Efstasundi. Ja, og komum svo við í Mosó á heimleiðinni með pakka handa vinkonu Hildu af því að við erum svo góð. Mikið var gaman að hitta alla ... nema Inger, hún var ekki heima. Vona að hún sé á landinu, pakkinn hangir á húninum á útihurðinni.
Ég þarf greinilega að koma mér upp vinum/ættingjum í einu póstnúmeri í stað 101, 105, 107 108, 109, 170, 200, 220, 225. Það myndi einfalda allt afskaplega mikið. Hvernig væri að flytja í 300, elskurnar?
Þorláksmessupartíið hjá Nönnu var algjör snilld og ekki skemmdi fyrir að hitta elsku, elsku Steingerði og Gumma sem sátu þarna og úðuðu í sig kræsingum. Það var heldur ekki amalegt að spjalla við einn uppáhaldsrithöfundinn sinn, Ævar Örn Jósepsson. Fjölskylda Ævars bjó í Stykkishólmi um svipað leyti og fjölskylda mín (1959-1961). Mía systir lék sér oft við stóru systur Ævars. Mamma Ævars, sem var þarna líka sagði mér sjokkerandi sögu þegar kviknaði í heklaðri dúllu á eldavélinni heima hjá henni, systir Míu, miðsystirin sjálf, kveikti víst á hellunni í óvitaskap. Áður en ég vissi af var ég búin að viðurkenna að ég hefði verið þessi miðsystir. Ævar náttúrlega trylltist og skammaði mig fyrir að reyna að brenna ofan af fjölskyldu hans og næstum því verða til þess að hann yrði ekki til. Ég reyndi að afsaka mig með því að segja að ég hefði bara verið eins árs en mamma Ævars leiðrétti það og sagði að ég hefði reyndar verið tveggja ára! Ekkert reyna að sleppa svona létt að þykjast hafa verið ársgömul, sagði Ævar hvasst. Í næstu spennusögu hans verður örugglega einhver lúmskur brennuvargur að nafni Gurrí.
Snittu- og lattepartíið hjá Breiðholtshataranum var líka æðislegt þótt ég stoppaði bara í 10 mínútur. Ég hreifst svo af baðgardínunum hjá honum að ég gat ekki stillt mig um að taka mynd af þeim. Baðglugginn minn er reyndar þríhyrndur, hentar kannski illa og svo er ekki biluð umferð framhjá himnaríki, eins og hjá B-hatarnum sem býr við Hverfisgötuna. Hann langar víst ekki til að strætófarþegar horfi á hann í sturtu eða við aðrar athafnir, held ég. Ekki eru allir svona forsjálir en eina ástæðan fyrir því að ég tek alltaf strætó er sú að mér finnst svo gaman að sjá inn um baðgluggana hjá sætum mönnum. Ekki það að B-hatarinn sé sætur.
Þetta var góður dagur ... en rosalega er ég þreytt. Það var svo gott að koma heim í himnaríki, fara í hlýja viðhaldið (sloppinn) og setjast aðeins í leisígörl. Svo koma bara jólin á morgun!
23.12.2007 | 11:58
Þorláksmessa ... enn einu sinni
Að það skuli vera komin Þorláksmessa enn einu sinni ... Nú er tíminn hættur að líða hægt þegar nær dregur jólum, heldur með örskotshraða. Við erfðaprinsinn ætlum í jólagjafaleiðangur til Reykjavíkur um hádegisbil og á leiðinni hefst líklega slagurinn um það hvaða útvarpsstöð verður sett á í bílnum. Best að kúga drenginn og segja honum að það komi ekki jól nema ég fái að hlusta á jólakveðjurnar á Rás 1. Þær eru voða notalegt útvarpsefni, voru það líka á árunum þegar Uriah Heep voru í mesta uppáhaldinu. Vona innilega að okkur takist að vera svolítið snögg að þessu og að á meðan við Inga skellum okkur til Nönnu í jólapartíið þá geti erfðaprinsinn kysst og jólaknúsað ástkæran föður sinn. Svo bíður okkar skötuveisla á Skaganum í kvöld, hjá elsku Rögnu og Guðmundi, líklega besta fólkinu sem býr á Akranesi. Ragna átti heima á neðri hæðinni á æskuheimili mínu og það var hún sem kenndi mér að dansa jenka undir laginu Fríða litla lipurtá. Torfkofinn hristist og lýsislamparnir nötruðu þegar hún jenkaði um allt með okkur krakkana á efri hæðinni.
Ég sé ekki mjög mikinn mun á himnaríki nema ég veit að allt er orðið svo hreint. Baðvaskurinn hefur t.d. aldrei verið svona hrikalega hvítur! Gamla húshjálpin mín í fornöld tók nefnilega til, raðaði húsgögnum upp á nýtt, setti í þvottavél, skipti á rúmum, pakkaði niður einhverju af þessum fjandans bókum sem allt of mikið var til af (sagði hún) og fór með niður í kjallara ... Sakna hennar sárt. Við erfðaprins gerum allt gljáandi fínt í kvöld.
21.12.2007 | 15:21
Maður úti á svölum ... aftur
Held að það verði engin jólasveinaferð farin í dag. Óttalegur aumingjagangur í himnaríki núna. Ég sem var búin að ákveða að vakna frísk. Stillti vekjaraklukkuna á 10.30 en var komin á fætur rúmlega níu ... algjör klaufaskapur að geta ekki einu sinni sofið út. Stillti á Rás 1 og hélt að það væru að hefjast jólakveðjur en þá voru þetta Lög unga fólksins fyrir aldraða, yndislegur þáttur og áfram hélt dýrðin á meðan ég pakkaði inn jólagjöfunum; þjóðsögur og og góð tónlist.
Allt svo heimilislegt eitthvað núna. Húsfélagsformaðurinn úti á svölum, sonurinn að búa til kaffi handa mömmusín og kettirnir mala. Æ, ég held ég fari að skella jólagjöfunum í jólasveinapoka, leggjast upp í rúm og lesa eins og eina góða bók. Það var að koma út kilja eftir Henning Mankell, þarf að klára hana og lána svo húsfélagsformanninum út á sjó eftir áramótin. Ætli brúðkaupið verði ekki í vor? Úps. Veikindin líklega meiri en ég hélt, er með óráði núna. Maður djókar ekki með svona hluti.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 1
- Sl. sólarhring: 92
- Sl. viku: 664
- Frá upphafi: 1516014
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 542
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni