Færsluflokkur: Matur og drykkur
20.12.2007 | 09:07
Beðið eftir jólafríinu
Þótt skammdegið fari ekki í mínar fínustu, eins og sumir orða það, finn ég samt fyrir því hversu erfitt er að drífa sig á fætur þar sem hánótt stendur alveg til kl. 10 á morgnana. Við Ásta vorum hálfstjarfar í morgun og nutum þess út í ystu æsar hversu lítil umferð var á leiðinni. Margir greinilega komnir í jólafrí. Hvað er aftur jólafrí? Það sem ég sé í hillingum núna er að skríða milli rúms og leisígörl yfir hátíðarnar með konfekt í annarri, malt og appelsín í hinni, hangikjöt í þriðju og uppstúf í fjórðu og svona og með góða bók í kjöltunni, með kveikt á sjónvarpinu, a.m.k. á meðan Sound of Music rúllar ... annan í jólum kl. 14.
Í gær fengum við Birtíngsstarfsmenn góða og veglega jólagjöf frá fyrirtækinu sem átti að opna við heimkomu ... og geyma í ísskáp. Þetta voru þessi líka fíni hamborgarhryggur og úrbeinað hangikjötslæri ásamt nammi og einhverju kjötdæmi í áleggsbréfi og ég man ekki fyrir mitt litla líf hvað það heitir eða hvernig á að snæða það. Salamipylsa leyndist þarna líka. Vildi reyndar að ég hefði njósnað lymskulegar um jólamatargjöfina þar sem daginn áður keypti ég jólamatinn! Arggg! Það kemur reyndar alltaf gamlárskvöld á eftir jólunum og ég veit núna hvað ég verð með í matinn þá!
Í himnaríki verður kalkúnn með öllu tilheyrandi á aðfangadagskvöld ... meira að segja með vinkonu minni ... hehehehe. Hún er frábær kokkur og ætlar að taka að sér eldamennskuna. Hún er þegar búin að gera trönuberjasósuna (-sultuna) og ætlar að búa til ananasfrómas í eftirrétt! Mér verður treyst til að ofnbaka sætu kartöflurnar í klukkutíma og frétti ég í fyrsta skipti í símtali við hana í gærkvöldi að maður syði ekki slíkar kartöflur, þær yrðu svo ógeðslegar. Hmmm ...
Gleðifréttir: Blessað bragðskynið er að koma aftur eftir svartadauðakvefið en það er ekki séns að ég finni lykt! Ég þarf að taka orð erfðaprinsins trúanleg þegar hann segir að kattasandurinn sé hreinn, hann sé nýbúinn að fara í bað, engin skata hafi verið soðin í stigaganginum og slíkt. Svo verða KK-tónleikar á Skrúðgarðinum í kvöld, getur maður farið nefmæltur og bólginn og kvefaður á opinbera atburði? Á ég kannski bara að pakka inn restinni af jólagjöfunum?
Á laugardaginn kemur ung, pólsk kona og skúrar himnaríki. Ég ætla að rústa hagkerfi sumra þeirra viðurstyggilegu landa minna sem hafa Pólverja í vinnu hjá sér og mun greiða henni helmingi meira en hún setur upp. Ég réði mér húshjálp árið 1987 (íslenska) og borgaði henni 1.000 krónur á tímann. Ég frétti að pólsku (erlendu) konurnar sem drýgja tekjurnar með húsþrifum fái margar 800 krónur á tímann núna 20 árum seinna og það hækkar í mér blóðþrýstinginn. Að fá þessa konu sparar mér blóð, svita og tár eftir svona mikla vinnutörn eins og verið hefur. Hver veit nema erfðaprinsinn láti heillast og ég eignist tengdadóttur í kjölfarið ...
Held að völvublaðið hafi farið í prentsmiðju í gærkvöldi. Það er mjög djúsí og skemmtilegt. Jólablaðið var líka að koma út, Ragnheiður Clausen á forsíðu, þessi dúlla, og hún grínast með karlmannsleysið eins og ég stundum (við grátum í einrúmi) ... og auglýsir eftir karlmanni, hún gerir engar kröfur, hann þarf bara að hafa áhuga á hundum. Hahahahaha ... Minnir að föðurbróðir hennar, Örn Clausen, sé kvæntur náfrænku minni. Ég bíð eftir að komast á virðulegan aldur (12. ágúst 2008) til að fara að pæla meira í ættfræði. Já, Anna, þá verð ég viðræðuhæf. Jæja, farin að vinna, hafið það gott í dag, elskurnar mínar.
18.12.2007 | 14:38
Hræðsla við hvítlauk - Sicko
Hér í himnaríki ríkir sama ástandið, kvef og slappleiki. Það hefur orsakað þessa bjánalegu "bloggleti". Erfðaprinsinn var að enda við að færa mér sjóðandi panodil-hot. Veit ekki hví þetta hik hefur verið á mér í sambandi við hvítlaukinn, ekki einu sinni húsfélagsformaðurinn hafði lyst á því að kyssa mig á kinnina fyrir tímarit sem ég gaf honum í gærkvöldi. Hilda systir ráðlagði mér að borða hvítlauk beint af skepnunni og svo hafa komið frábær ráð í kommentakerfinu - takk kærlega fyrir þau. Nú verður að grípa til einhverra ráða, ekki nenni ég að vera veik um jólin! Hvítlaukur er kannski guðdómlegur í mat en hrár ... arggg!
Horfði á Sicko í gærkvöldi, heimildamynd Michaels Moore um bandaríska heilbrigðiskerfið. Hún var rosalega góð! Moore notar kannski umdeildar aðferðir en ef þær virka þá er það bara fínt. Mikið vona ég að við förum af þessari hálfamerísku braut okkar í heilbrigðismálum og hættum að efla kostnaðarvitund þeirra sjúku, eins og það er kallað, með því að taka stórfé fyrir myndatökur og sumar aðgerðir. Hingað til hef ég heyrt að Íslendingar búi við besta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er einfaldlega ekki rétt. Ekki á meðan fólk getur ekki leyst út lyfin sín eða kemst ekki í aðgerð hjá lækni á stofu af því að aðgerðin kostar kannski 20 þúsund. Við erum þó stórhátíð miðað við Bandaríkjamenn og þá er ég að tala um sjúkratryggða Kana!
13.12.2007 | 08:38
Jól í Hálsaskógi
Fyrstu ummerkin um afdrif höfuðborgarinnar vegna veðurhamsins í nótt komu í ljós skömmu áður en Heimir ók inn í Mosfellsbæ. Strætóskýli lá á hvolfi og hafði greinilega fokið um koll. Síðan fórum við að mæta flóttafólki sem stefndi í áttina frá borginni í stórum hópum ... fótgangandi. Fólkið horfði starandi fram fyrir sig, greinilega hungrað og þreytt, jafnvel sturlað, í augnaráðinu mátti þó greina staðfastan vilja. Áfangastaður: Akranes. Sigþóra vildi reyndar meina að þetta hefði ekki verið flóttamenn, heldur vindbarin tré.
---------- ------------ ----------- ---------- -----------
Um kl. 7.32 var farið að birta aðeins og þá blasti viðurstyggð eyðileggingarinnar við. Undir N1-skilti við eitt hringtorgið í Mosfellsbæ, skammt hjá KFC-kjúklingakeðjunni, lá fokin spýta. Við farþegarnir horfðumst í augu og gripum fast um föggur okkar, sérstaklega peningaveskin. Allir vita að eðli mannskepnunnar getur skyndilega orðið dýrslegt við náttúruhamfarir og þá er ég ekki bara að tala um kynlíf.
Við Sigþóra læddumst varlega út úr strætisvagninum og sáum að Hálsaskógur var óskemmdur að mestu. Sigþóra benti mér á þá áhugaverðu staðreynd að Hálsaskógur væri sjálfbært samfélag, það væri hægt að halda góð jól þar ef veður gerðust vályndari. Nóa Síríus er neðst í næstum samnefndri Súkkulaðibrekkunni og þar er Nóa-konfektið ræktað. Hollt og gott er þarna ofar og þar vex salat. Nú, malt og appelsín er þarna ofar í skóginum og einhvers staðar leynist kjötverksmiðja líka, hangikjöt jafnvel. Borðbúnaður fæst síðan hjá Sigþóru í Rektrarvörum, meira að segja servíettur svo hægt verði að halda siðmenntuð jól. Er hætt að pirra mig á veðrinu ... en kvíði reyndar því að reyna að komast heim í storminum á morgun!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.12.2007 | 09:38
Dyggð undir dökkum hárum
Held að Ástu hafi ekki grunað að ég svaf yfir mig í morgun, ég bar mig svo vel. Gekk settlega niður stigann, 12 mínútum eftir vöknun með latte í hvorri og ekkert benti til stressklikkunarinnar sem hafði heltekið mig skömmu áður. Vaknaði sem sagt kl. 6.40 og brottfarartími með Ástu var 6.50. Skipulagði morgunverkin á sekúndubroti. Hljóp austur í eldhús og kveikti á kaffivélinni, þaðan vestur á bað þar sem snyrting var framkvæmd á ljóshraða, enda þarf lítið að gera sökum fegurðar. Miðjutakkinn á kaffivélinni var hættur að blikka þegar ég kom aftur austur fyrir og ég ýtti á freyðitakkann við hliðina. Á nokkrum sekúndum, þar til hann hætti að blikka, tókst mér að klæða mig til hálfs inni í eldhúsi. Setti þá mjólkina í könnu og í stað þess að halda á henni undir stútnum klæddi ég mig alveg en fylgdist samt vel með hitastiginu. Þá kom röntgensjónin sér líka vel. Kl. 6.52 snerist himnaríki enn í hringi eftir hvirfilbylinn mig, kettirnir héldu sér í gardínurnar, knúpparnir voru dottnir af jólakaktusinum og allt ryk fokið af ljósakrónum þegar ég var á leið niður. "Ó, varstu komin?" spurði ég Ástu, sem hafði beðið í tæpar 2 mínútur. Hafði reyndar kíkt niður rétt áður en ekki séð hirðbílstjórann minn þar sem hann var of nálægt húsinu.
Ástæða fyrir yfirsofelsi: Nú, bókin Maður gengur með!!! Gat ekki sleppt henni fyrr en hún var búin. Hún fjallar um óléttu, frá fyrstu fréttum fram yfir fæðingu, upplifun föður. Hélt þegar ég sá bókina fyrst að hún væri sniðug fyrir nýbakaða eða tilvonandi feður, kannski bara alla feður, en mér sem kjéddlíngu þótti alveg frábært að heyra hina hliðina. Svo sakar ekki að hún er skemmtilega skrifuð líka. Mislangir kaflar og ekkert verið að eyða of mörgum orðum í suma hluti, æ læk itttt! Svo byrjaði ég á Patriciu Cornwell í jólaklippingunni í gær (ó, ég er orðin svo fín) og hún lofar góðu. Mikið elska ég bækur heitt!
Fyrirsögnin hér að ofan ber sama nafn og bók eftir Nettu Muskett, mikið elskaði ég bækurnar hennar á unglingsárunum!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.12.2007 | 08:22
Móðgandi póstforrit og ævintýri helgarinnar
Bílferðin í morgun var ósköp notaleg. Gat reyndar bara búið til lítið af latte handa okkur þar sem mjólkin var næstum búin. Við Ásta ræddum ævintýri helgarinnar á leiðinni og hún toppaði mig algjörlega. Ég fór í virðulegan, háæruverðugan Lions-jólamat á föstudag með Míu systur á meðan Ásta fór í afmæli og síðan á jólahlaðborð kvöldið eftir, hvorttveggja í bænum. Rúta ók fólkinu heim á Skaga af jólahlaðborðinu og einn úr hópnum gerði sér lítið fyrir og ... gubbaði á leiðinni. Þegar Ásta sagði mér þetta mundi ég algjörlega hvers vegna ég er hætt að nenna að djamma og fór t.d. ekki í Skíðaskálann um árið þegar jólahlaðborð Fróða fór þar fram, bjó þó í borginni á þeim tíma. Rútur áttu t.d. að fara í bæinn kl. 1 um nóttina og næsta kl. 2. Ég er greinilega svo næm ... eða lífsreynd að ég vissi innra með mér að fyrri tímasetningin stæðist ekki ... og það var rétt! Báðar rúturnar fóru heim upp úr 2. Í svona tilfellum, eins og þessu, þarf maður að eiga bíl. Einu sinni var árshátíðin okkar haldið á Hótel Örk í Hveragerði, rétt fyrir jólin. Ég var í sérherbergi og þegar ég nennti ekki að djamma lengur laumaðist ég inn í herbergið mitt ofsaspennt af því að Arnaldur Indriðason beið mín á koddanum, spennandi og djúsí. Nú verðið þið bara að giska á hvort þetta hafi verið huggulegur maður með þessu nafni ... eða bók.
Efnið sem ég vann heima í gær skilaði sér ekki til mín hingað í vinnuna með tölvupósti. Nýlega var skipt um póstforrit og fjöldi bréfa tapast í leiðinni. Ef einhver þarna úti hefur sent mér ímeil í vinnuna og ég ekki svarað því þá vil ég að það komi fram að það er það nýja póstforritinu að kenna.
8.12.2007 | 15:07
Djamm, lagkaka og símanúmer í Hvíta húsinu
Þar sem 10 mínútur voru búnar af Taggart ákváðum við bara að horfa bara á RÚV plús eftir tæpan klukkutíma. Tíu mínútum eftir að Taggart hófst á nýjan leik steinsofnaði ég í leisígörl og svaf til kl. sex í morgun. Argsvítans! Tókst með harðfylgi að halda áfram að sofa í rúminu mínu til kl. 13 í dag. Nú er ég ekki lengur þreytt og til í hvað sem er. Ætla að hella mér í bóklestur á meðan erfðaprinsinn horfir á fræðslumynd um árásirnar á USA 11. september 2001. Held að ég viti hvernig myndin endar, þess vegna er ég yfirleitt löt að horfa á eitthvað sannsögulegt.
Við Skagamenn erum þvílíkt hreyknir af hrekkjalómnum okkar, honum Vífli, sem tókst næstum því að plata Bandaríkjaforseta. Einu sinni hringdu Tvíhöfðamenn reglulega í Hvíta húsið í s. 456-1919, minnir mig (man ekki lands- og svæðisnúmerin á undan) og reyndu að gera símastúlkurnar gráhærðar. Þær kunnu alveg á slíka símaatara og gáfu Jóni og Sigurjóni samband við línu þar sem enginn var hinum megin, síminn hringdi bara stöðugt. Þetta er eflaust ekki leyninúmerið dularfulla í Hvíta húsinu, ja, annars kemur bara löggan í heimsókn til mín.
Þegar ég fór til Washington DC eitt árið í skólaferðalag fórum við nokkrar að Hvíta húsinu. Að gamni tók ég traustataki laufblað af trjágrein sem slútti út fyrir grindverkið. Ef ég þarf einhvern tíma að gala seið og galdra eitthvað og í uppskriftinni stendur: Takið laufblað af tré sem vex við Hvíta húsið í Washington, skerið það smátt ..., þá er ég í góðum málum.
P.s. ÁRÍÐANDI!!! Kann einhver að gera hvíta lagtertu með súkkulaðikremi (ekki sultu) á milli og getur gefið mér uppskriftina? Smakkaði svona tertu í barnæsku og fannst hún ógurlega góð.7.12.2007 | 11:22
Annir og huldufólk
Sömu annirnar og í gær, nema kannski enn meira stress. Núna er ég hálffúl yfir því að hafa lofað Míu að fara út með henni í kvöld ... en samt hlakka ég til að komast út á meðal manna ... og fá eitthvað gott að borða í góðum félagsskap. Já, það verður örugglega gaman með Lions-fólkinu. Ég er nú einu sinni Ljón!
Puntaði aðeins í himnaríki í gær, setti m.a. jóladúk á borðstofuborðið og annan í stíl á kringlótta skákborðið í horninu við hliðina á rauða antíksófanum. Dúkarnir komu frá mömmu, sérsending sem kom í gær. Þótt ég sé orðin rúmlega fertug ... eða 49 ára, laumar mamma enn að mér litlum gjöfum, jafnvel pening ... já, og gefur mér alltaf páskaegg. Það er frekar sætt, er það ekki?
Var að lesa nýju bókina hennar Unnar Jökulsdóttur um álfa og huldufólk. Einlæg, vel skrifuð og skemmtileg. Í fyrsta viðtalinu hennar um huldufólk voru nú náfrænkur mínar á Svanavatni spurðar og þær töluðu svolítið um afa sinn, Jónas frá Hróarsdal, langalangafa minn. Kom skemmtilega á óvart, sitt af hverju sem ég vissi ekki. Ætti að kaupa þessa bók handa mömmu í jólagjöf. (Ættartréð er svona: Jónas, Jósteinn, Mínerva, Bryndís, Gurrí.) Hef aldrei hitt þessar frænkur mínar en langar nú mikið til þess. Dóttir Jónasar (systir Jósteins langafa míns) er nýdáin, hún Sigurlaug, konan sem las í garnir og spáði fyrir um veðrið. Ég veit alveg hvaðan ég hef veðuráhugann.
Myndinni stal ég á Netinu, frá ástkærri frænku minni (sem ég hef aldrei hitt, held ég) en hún er af Hróarsdal í Skagafirði, þaðan sem ræturnar liggja. Var það á ættarmóti 1985 og kynntist fjöldanum öllum að ÆÐISLEGU fólki, m.a. Höllu frænku, sem er tveimur árum eldri en ég en samt dóttir Páls, sonar Jónasar. Ég ætti að vera jafngömul barnabörnum Höllu ... en þau eru nú ekki einu sinni komin til sögunnar og ég alveg að komast á ömmualdur sjálf. Jamm, þetta er nú meira ættarbloggið!
6.12.2007 | 17:05
Lærum að telja ...
Mikið skemmti ég mér konunglega yfir jólasögunum og gjafadæmunum í kommentahorninu með síðustu færslu. Ástarþakkir fyrir það. Einn bloggvinurinn var svo sætur að setja hlekk á gamla jólagjafaumræðu frá Barnalandi og það var fyndin lesning. Upplitið á mér hefði verið skrýtið ef ég hefði fengið bókina Lærum að telja þegar ég var 14 ára, eins og ein konan af Barnalandi. Sjö ára barnabarn fékk pítsuskera frá afa og önnur 24 ára fékk Matreiðslubók Latabæjar frá ömmu sinni. Í einum pakkanum frá afa/ömmu leyndust plöturnar Pottþétt 4 og Gylfi Ægisson handa 24 ára konu og ein 15 ára fékk teiknimyndina um Gosa. Þetta er allt mjög sætt en það sem var skrýtið var að ein konan fékk frá afa og ömmu hálftómt ilmvatnsglas og stakan strigaskó. Einhver önnur fékk frá afa sínum happaþrennur sem búið var að skafa af og enginn vinningur leyndist þar.
Fékk far með Ástu báðar leiðir í dag og hún dró mig í Skrúðgarðinn við heimkomu seinnipartinn. Það bjargaði deginum, þessum hrikalega annasama degi, að fá súkkulaðiköku og kaffi ... og smá dass af Tomma-stríðni frá Rut og Maríu. Talandi um strætóbílstjóra ... Heimir var staddur í skrúðgarðinum, mjög prúðbúinn og sætur á leið í jólahlaðborð með samstarfsfólkinu á barnum í bænum.
Hangikjöt var í matinn í hádeginu, mjög hátíðlegt, meira að segja laufabrauð líka. Ég keypti malt með en klikkaði á því að setjast hjá einhverjum sem hafði keypt sér appelsín.
Svo er það bara klikkað djamm annað kvöld, Lionssleepstonight-"fundur" með Míu systur. Held að ég fái far með Ingu heim úr bænum og ætti þá að komast í tæka tíð. Best að fara að gera djammfötin klár.
4.12.2007 | 15:44
Tækniöldin að koma ...
Heit og góð súpa í Skrúðgarðinum fleygði byrjandi kvefi út á hafsauga, held ég. Auðvitað kom Tommi þangað í einn kaffibolla áður en hann lagði í hádegisferðina og byrjaði á því að tékka á vindhviðumælinum á síðu Vegagerðarinnar. Hann sagði farir sínar ekki alveg rennisléttar. Þegar hann kom út úr göngunum á leið í bæinn fyrr í morgun var svo hvasst að rúðuþurrkurnar feyktust upp, rifnuðu sem betur fer ekki alveg af þó, eins og gerðist fyrir nokkrum vikum. Hann ók eftir minni (eða þannig) í Grundahverfið þar sem hann stoppaði og lagaði þurrkurnar. Skv. tölvunni reyndust hviðurnar ekki vera nema 28 m/sek þannig að Tommi lagði í hann til að sækja Sigþóru sína, sem hann er skotnastur í, held ég, af okkur kjéddlíngunum í strætó. Mikið held ég að það væri gott, eiginlega bara lífsnauðsynlegt að fá hviðumæli við gönginn. Þar er MIKLU hvassara þar í austanáttinni, að sögn Tomma, líkara Hafnarfjallstölunum sem voru 42 m/sek í morgun.
María reyndi að ýta okkur Tomma saman, eins og fleiri, og stakk upp á því að við byrjuðum saman. Ég bendi á að við Tommi vorum bæði viðstödd en héldum þó kúlinu. Ég benti henni á að ég væri of ung til að binda mig, Tommi sagðist vera of gamall til þess, samt er hann einu ári yngri en ég. Svona er að gefa á sér færi með opinskáum bloggfærslum ... Hélt að María kynni ekki að lesa (þetta var beisk hefnd fyrir að hún endurnefndi kaffidrykkinn minn Kjötsúpu).
Guðni Ágústsson (með Sigmundi Erni) kemur í Skrúðgarðinn annað kvöld til að kynna bók sína. Þyrfti að rúlla hratt yfir bókina þeirra ... en ég er reyndar að lesa Harry Potter á íslensku og hún er æði.
Jónas ryksugar nú himnaríki af vélrænni samviskusemi, við stefnum hraðbyri inn í tækniöldina, börn fara í gegnum fingrafaraskanna til að fá skólamáltíðir, talandi lyftur segja á hvaða hæð við erum og fleira og fleira. Hvenær koma eiginlega fljúgandi bílarnir sem ég vissi á barnsaldri að allt yrði morandi í árið 2000? Mér finnst ég hafa verið svikin.
3.12.2007 | 23:16
Grænmetisrétturinn góði
Hér kemur loksins uppskriftin, eins og ég man hana frá Áslaugu vinkonu. Held samt að það megi nota alls kyns grænmeti, einu sinni setti ég einn chili-pipar með fræjum og öllu með og það var líka voða gott.
1 stór sæt kartafla (eða 2-3 minni)
2 laukar
½ sellerírót
2 stórir pipar-belgir(fást 2 saman í pakka í Einarsbúð)
1 stk. fennel
3 hvítlauksrif (eða fleiri)
Skerið allt niður í frekar litla bita og setjið í ofnfast mót. Kryddið með timian, Muldon-salti og svörtum pipar eftir smekk. Hellið vænu dassi af góðri ólífuolíu yfir.
Setjið inn í 220 °C heitan ofn, hrærið í þessu af og til og hellið ólífuolíu ofan á eftir því sem tilfinningin segir til, ég bætti einni gusu við, enda sparaði ég ekki olíuna í upphafi. Þetta þarf um 40-50 mínútur í ofninum. Það er allt í lagi, eiginlega bara betra, ef það er örlítið brennt ofan á, betra að hafa hitann hærri en lægri.
Þetta dugði fyrir fimm manns, held ég, það kláraðist hver arða! Smakkaðist afar vel með kjötinu og ferska salatinu.
Gjössovel, Jenný mín, Siggi og fleiri!!!
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 24
- Sl. sólarhring: 114
- Sl. viku: 687
- Frá upphafi: 1516037
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 565
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni