Ást og stríð á Facebook ...

StefnumótFacebook getur verið einstaklega fyndið fyrirbæri. Þar eru ýmsir hópar sem hægt er að ganga í og minn uppáhalds heitir: Stuðningshópur fólks sem labbar hallærislega í hálku. Hann var stofnaður í gríni sem pirringur út í eitt það versta og viðbjóðslegasta sem til er, eða glerhálku. Ég hef nógu oft þurft að skríða út á stoppistöð til að vita um hvað ég tala. Alltaf ætlaði ég að eiga tilbúna skál með grófu salti og leggja af stað hálftíma fyrr en vanalega og dreifa salti á undan mér, búa til hættulausa gönguleið, komast „ófótbrotin“ á stoppistöðina sem annars tekur um mínútu að ganga til ... en hvað er ég að tala um snjó og hálku um bráðum hásumar? Ég er líka í hópi sem heitir: Fólk sem ruglar saman apóteki og bakaríi. Ruglingur á orðum, ekkert okkar fer til dæmis í bakarí og biður um íbúfen.

 

Það er nákvæmlega ekkert um að vera í þessum uppáhaldshópi mínum, ekki einu sinni í hálku, en í öðrum hópum brjótast reglulega út styrjaldir. Í einum garðyrkjuhópi er t.d. allt brjálað yfir nafni blóms (Gyðingurinn gangandi). Eins og áður hefur komið fram hata ég garðyrkju og á bara sjálfvökvandi blóm svo ég er ekki í þeim hópi. Ég er meðlimur í Handóðum heklurum og þar ríkja rólegheitin ein, held ég, er ekki mjög virk í neinum hópum, en ég forðaði mér úr öðrum heklhópi vegna æsings og láta, hvernig sem hægt er að æsa sig yfir hekli? Sumir halda að það sé hlutverk sitt að bjóða manni í hópa - og stundum heldur sjálf Facebook að þar sem ég er t.d. í hópnum Fyndna frænka (fyndinn hópur) hafi ég gagn og gaman af því að ganga í hópinn IKEA húsgögn - sala, kaup og h... (Ég sé ekki allt heitið). Og mér bauðst sað ganga í hópinn Hallærisleg tónlist sem þú hlustar... af því að ég hafði nýlega  skoðað mynd í hópnum Spottaði kött.

 

Svo eru talsverð leiðindi í íslenskuhópi vegna opins bréfs frá kvenmanni sem hatar að verið sé að hvorugkynsvæða tungumálið, ef ég skil það rétt, hraðlas ... ég er ekki sammála henni eftir fyrsta hraðlestur, og reynið þið bara að komast í gegnum hindranir á borð við krókódílafenið hér á Moggablogginu til að setja athugasemd, það er nógu erfitt að læka, skilst mér, hvað þá skilja eftir skilaboð eða svívirðingar, nema maður sé sjálfur á Moggablogginu. Ég fer stundum í leikinn Orðasnakk í símanum mínum og raða saman orðum úr stöfum sem koma upp, ekki í réttri röð, auðvitað. Orðið grænn getur verið rétt orð, líka fallegur en alls, alls ekki orðið græn eða falleg, almáttugur minn ... kellingaorð, oj! Já, þetta pirrar mig. Já, ég veit að þetta er algjört smáatriði í stóra samhenginu.

 

Annar hópur í uppáhaldi er mjög fyndinn sem bendir samt á eitthvað sem er ekki fyndið, eða hversu margar konur heita Dóttir, Tengdadóttir, Eiginkona eða Systir í fjölmiðlum. Dæmi: Systir Karls Bretaprins giftist lífverði sínum ...

 

Stjúpi minn kannskiÞað er gaman að vera í nördahópum, t.d. um vita, eldgos og bækur, en ég er of mikil tepra til að þora í mest spennandi hópana, ástir og ástríður, eftir átakanlega reynslu mína af einkamal.is fyrir tveimur áratugum, þar sem m.a. Kanar af Vellinum (21 árs, sjö saman (eða 5, er farin að kalka)) þráðu að „kynnast“ eldri konu (ég var rétt fertug), ég sem hafði skráð mig á vinátta/spjall, (ekki Til í tuskið).

 

Finndu ástina-hópur var í gangi á Facebook um tíma sl. vetur, eða auglýsing um hann, en vegna „þýðingarmistaka“ (eða stofnendurnir 14 ára) gekk ekkert að lokka okkur fimmtugu eða sextugu gellurnar inn. Við lítum fæstar á okkur sem aldraða öldunga (sjá mynd, ýtið á hana til að sjá textann).

 

 

Ég spurði Hildu systur hvort þetta gæti kannski verið eitthvað fyrir mömmu, hún var ekki viss.

 

Nú er örugglega hópur fólks (stofnendur síðunnar) úti í heimi sem klórar sér undrandi í kollinum yfir öllum náttúrulausu kerlingunum á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 161
  • Sl. viku: 1325
  • Frá upphafi: 1460224

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1044
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fótapláss ekkert
  • Facebookvinátta
  • Fótapláss ekkert

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband