Fullkomnir leikhúsfélagar ...

LeikhúsSamkvæmislíf sumarsins er að komast á fullt. Nokkrir sem ég þekki eru fullbólusettir, aðrir hamingjusamlega hálfbólusettir og enn aðrir bíða spenntir. Mér er boðið í bröns á laugardaginn og það er eitthvað það mest spennandi sem hefur gerst síðan á bolludaginn sem einn frændi minn kallar alltaf daginn minn. Ég er harðákveðin í því að halda afmælisveislu (62 eða 63) í ágúst, sem í raun boðar í hvert sinn upphaf samkvæmislífs vetrarins. Það er allt að komast í lag hægt og rólega - nú er búið að bólusetja sex hundruð milljón manns á heimsvísu. Húrra!

- - - - - - - - - - - 

Ég get ekki sagt að ég sé dugleg að fara á viðburði, eins og tónleika og leikhús. Fór þó árið 2019 á tónleika með Dúndurfréttum hér á Akranesi. Þegar fjallið (ég er ekki að segja að ég sé feit) kemur ekki til Múhameðs (Reykjavíkur) koma Dúndurfréttir til mín. En ég fer sama og ekkert í til dæmis leikhús í Reykjavík, strætóferðir á milli landshluta hjálpa ekki mikið til - það þyrfti að vera leikhús í Mjóddinni til að slíkt gengi upp. Var duglegri í gamla daga þegar ég bjó í bænum.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég fór með vinafólki að sjá Hellisbúann (fyrir aldamót). Við vorum sennilega eina fólkið sem ekki grét úr sér augun af hlátri eða veinaði úr sér vitið þarna í salnum. Við sátum þarna grafalvarleg þrjú saman, aftarlega niðri, fyrir miðju, hvert með sínar hugsanir, og fórum síðan á bar þar sem við bárum saman bækur okkar. Alls ekki í fýlu. Þetta var dásamlegt kvöld.

Múhameð og fjallið„Þetta voru nú meiri staðalímyndirnar,“ fjasaði ég og tók mér sopa af Beilís, ég hata búðaráp og þekki svo marga karla sem ekki njóta þess að horfa á fótbolta, drekka bjór og grilla allar helgar, eins og ég sagði þeim. 

„Já, ég þoldi ekki meðferðina á okkur karlmönnum, við komum út eins og algjörir fávitar,“ sagði vinurinn sár á svip, annálað góðmenni sem er svo góðlegur á svipinn að þótt hann vinni þannig vinnu að hætta sé stundum á að hann sé barinn, hefur hann aldrei verið barinn.

„Hugsa sér, það er einn leikari, fábrotin sviðsmynd og fátt starfsfólk,“ sagði vinkona okkar og velti hvítvíninu í glasinu, „miðinn kostar xxx krónur, það er sýnt nokkrum sinnum í viku og alltaf uppselt, leigan á Gamla bíói sennilega nálægt xxx krónur. Þetta er virkilega snjallt og klikkaður gróði,“ hélt hún áfram. Við hin höfðum ekki hugsað út í þessa hlið mála og samsinntum henni. Ég man ekki mikið meira, enda 22-25 ár síðan.

Við höfum því miður ekki farið saman í leikhús síðan, ýmissa ástæðna vegna - en við erum hinir fullkomnu leikhúsfélagar sem ættum að fara oftar saman í leikhús, kannski á tónleika og myndlistarsýningar líka, og kryfja til mergjar allar hliðar mála.

„Sáuð þið hvað ramminn var skakkur á stóra verkinu þarna á suðurveggnum?“

„Ha, hvað er suður?“

„Svakalega var söngurinn aftarlega.“

„Skál!“

Samt alls ekki allt neikvætt, það er unun að tala til dæmis um fagran söng eða hljóðfæraslátt, sexí hljómsveitargæja/-píur (píur fyrir vininn) en við erum öll á þeirri línu að meiri fatnaður standi fyrir meiri þokka, engar teprur samt, þannig að gæi í kuldagalla myndi koma okkur vinkonunum í stuð en nú harðgiftur vinur okkar pælir sennilega lítið í slíku, held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bravó

Sverrir (IP-tala skráð) 11.5.2021 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 50
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 2012
  • Frá upphafi: 1455715

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1646
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ástarsaga
  • Sofandi köttur
  • 1. maí fyrir nokkrum árum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband