Sveitaferð í gær og dularfulla ballaðan

Við IngaÞegar við Inga tökum okkur til og leggjum land undir fót er það alltaf eitthvað skemmtilegt - og ég er ekki bara að tala um ferðina á öskuhaugana á fimmmtudaginn þótt sú ferð hafi verið skrambi góð og mikil tilbreyting frá því að hossast bara í strætó. Við ákváðum alla vega að fara í bústað - í heimsókn til Hildu og fleiri. Ókum á skjálfta- og eldgosaslóðir eins og fjandinn væri á eftir okkur, en komumst óhultar á Flúðir og nágrenni með því að taka Þingvallaleiðina sem stytti víst leiðina fyrir okkur Skagafólkið.

 

 

Það er mjög orðum aukið þetta með lúsmýið í sveitinni, ég sá ekki eitt einasta kvikindi og mjallhvít postulínshúð mín er algjörlega ósnortin. Kannski ýkt með mjallhvíta - vinstri handleggurinn á mér er undanrennublár og sá hægri, nær glugganum við dagleg störf, er ögn útitekinn (í gegnum glerið) en samanlagt og deilt með tveimur; mjallhvít fegurð.

 

Ég í sloppnum eða kannski bara ísbjörnAnnars var stemningin fyrir ferðina í gær æsispennandi og svolítið ógnþrungin hér í Himnaríki, ef hugsað var út í mögulegar afleiðingar þess sem hefði kannski gerst ... lesið endilega áfram ... Inga ætlaði að sækja okkur stráksa klukkan 13.30 upp á sekúndu og þurrkarinn með öllum fötunum mínum yrði búinn um svipað leyti. Ég druslaðist ekki á fætur fyrr en um ellefu til að setja hann í gang (aðeins þeir sem hafa góða samvisku geta sofið út, og þeir sem lesa mikið fara oft seint að sofa) og þurrkarinn hótar iðulega að taka þrjá klukkutíma í að þurrka og ögn betur en það. En stundum/oftast stendur hann ekki við hótanir sínar og tekur skemmri tíma í verkið. Gæti skrifað margt um duttlungafull heimilistæki. En þetta tókst svona líka vel í gær, ég náði að klæða mig og koma mér út á sjö mínútum, og Inga slapp þá við að keyra um sveitir landsins með mig í hvítum, þykkum, loðnum baðsloppi. Inga hefði án efa verið elt og „ísbjörninn“ tekinn af henni, sennilega skotinn í hita leiksins, ef ég þekki Íslendinga rétt. En allt fór þetta vel og landsmenn sitja enn uppi með þetta blogg. Og ég var ekki að segja dulbúinn feitabollubrandara um mig, sloppurinn er bara svona þykkur.

 

Af því að allar sveitir og sumarbústaðabyggðir eru eins, fannst okkur snjallt að eiga bara stefnumót við Hildu á Flúðum þar sem hún var í gönguferð með Herkúles, sæta hundafrænda minn, og elta svo bílinn hennar í bústaðinn. Það tókst mjög vel og ég hafði verið að rýna í bústaði á kolröngum stað sem við fórum ekki einu sinni fram hjá. 

Við fengum ekki bara vöfflur og sítrónuköku eftir komu, heldur líka grillað læri og meðlæti um kvöldið sem þýðir að ég er enn södd. Mikið spjallað, mikið hlegið, stráksi fór í pottinn og naut þar lífsins en ég er ekki mikið fyrir blauta hluti, eins og bloggvinir mita, svo aldrei gefa mér gjafabréf í sund, Bláa lónið eða neitt sem hefur bleytu í för með sér - nema það sé þá gott kaffi. 

 

Það er svo mikið myrkur í sveitinni, líka þarna, þar sem öll þessi gróðurhús lýsa upp svartan himininn, að við beygðum ekki á réttum stað, Ingu var nær að vera á 90 km/klst, (vantar skilti sem á stendur Akranes - þessa leið) svo við fórum bara Selfossleiðina heim, m.a. fram hjá gagnslausasta veitingastað  í heimi fyrir Hildu sem er með ofnæmi fyrir tómötum. Við vorum snöggar að Kömbunum og sluppum alveg við bílstjóra sem keyra á 60-70 km/klst. og halda að þeir séu svo löghlýðnir fyrir vikið. Það var samt víða lækkaður hraði vegna framkvæmda. En við sluppum á Skagann fyrir klukkan 22, Ófærð bíður til kvölds, og Gulli byggir.

 

Hef heyrt dýrindis lag hljóma undanfarið, verulega fallegt, flott á Spotify-listann minn en hef ekki vitað nafn þess eða heiti hljómsveitar. Loks heyrði ég það afkynnt á Rás 2 í morgun (takkkkk) og nú er það komið á listann. Það reyndist vera íslenskt eftir allt saman en sungið á ensku. Hljómsveitin Vök og lagið Earthquake. Það hlýtur að vera Valdimar almáttugur sem syngur lagið þótt hann sé ekki í Vök. Þar er söngkona, ég gúglaði, og Vök er geggjuð hljómsveit. Alltaf gaman að uppgötva eitthvað nýtt. Mér líður eins og árið 1995 þegar ég vaknaði úr djúpum tónlistardásvefni sem ég hafði komið mér í viljandi til að lifa af einhvern hrylling, og hafði næstum misst af Nirvana, Greenday, Radiohead, Wu Tang Clan, Blur, Oasis o.fl. Nú hef ég greinilega eitthvað sofnað á verðinum, samt hlusta ég mest á Rás 2 þar sem ný tónlist er vel kynnt og ekkert bannað (nema kannski upprunalega útgáfan af laginu Kveðjustund með Upplyftingu, þessi af plötunni), en ef athyglin er á vinnunni verður tónlistin svolítið Lögin við vinnuna og ég heyrði þetta eflaust nokkrum sinnum án þess endilega að kveikja alveg strax og svo leið svolítið langur tími (óbærilega) þar til ég fékk loks afkynningu. Sum bestu lögin eru þannig að þau ná manni ekki alveg strax. Eins og Street Spirit með Radiohead, fannst það allt í lagi en svo allt í einu varð það mikið uppáhalds og er enn.Elsku Valdimar

Ég gúglaði betur, þetta ER Valdimar, einn besti söngvari í heimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 291
  • Sl. viku: 2341
  • Frá upphafi: 1457611

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1937
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband