Raunir hægfara fólks í hálku og vanmetin viðskiptahugmynd

Jóla-Gurrí með húfuÉg hét mér því í dag að taka aldrei framar mark á langtímaspá yr.no, sem er norska veðurstofan, eftir að hafa þurft að fara gangandi til tannlæknis í snjó og hálku. Og nýju vetrarskórnir ekki fullgengnir til. HFF-veðurspáin gerði ekki ráð fyrir lífshættulegum aðstæðum þegar ég pantaði tímann fyrir tíu dögum. Kvenbroddarnir sem passa samt bara á strigaskó týndust í endurbótunum í fyrra og enduðu mögulega óvart á nytjamarkaði í bænum.

 

Í hjarta Akraness, einu þeirra, er Faxatorg og svo harðlokað vegna lagnaskipta að ég þurfti að fara Sandabrautina til að komast út á Skagabraut. Ég man ekki hvort ég bjó í hornhúsinu suðaustanmegin eða því við hliðina, húsinu sem bíllinn ók á og braut glugga á jarðhæð svo glerið fór yfir rúmið hennar Hildu systur, 2 ára, sem í eina óþekktarkasti lífs síns vildi ekki sofa í rúminu, bara inni í stofu hjá foreldrum okkar, og bjargaðist þannig frá glerbrotum, eins og ég hef áður sagt frá hér.

 

Beiskjublandin hugsun kom upp þar sem ég skreið eftir glerhálli Sandabrautinni. Hvar var ég, þá þriggja ára, þegar þetta gerðist? Vaknaði ég við lætin eða skipti næstelsta, afskipta olnbogabarnið hreint engu máli? (Lesið ykkur endilega til um hlutskipti miðjubarna) Enn eitt áfallið sem ég get sett í sarpinn - með atvikum eins og að hafa aldrei fengið skutl í skóla (ekki einu sinni háskóla), gengið heim í frosti eftir leikfimi og sund með blautt hárið (hart og brothætt af frosti), bara mátt taka tvær bækur á dag í bókasafninu, ekki fengið að varalita mig 11 ára, fengið rauðu hundana, skarlatssótt og mislinga YFIR JÓLIN (við systkinin). Það kom sér að vísu vel að mamma var hjúkka. Bara það að ekki var farið að bólusetja fyrir þessu á þessum tíma þýddi að heil jól voru höfð af manni. Og ég man meira að segja örlítið eftir þessu, lækninum sem kom heim og að vera of lasin til að geta sagt honum hvernig mér leið ...

 

Þetta yrði ritröð upp á tugi bóka þegar ég loks treysti mér til að rifja þetta allt upp og skrásetja með Arnaldi eða Yrsu, þetta eru þannig minningar, yrðu þannig bækur. Átjánda bókin í flokknum gæti heitið Jólin sem aldrei komu - og mynd af sorgmæddu, fárveiku barni á kápunni, blörrað jólatré í baksýn með rauðu X-i yfir ... kannski líka flissandi foreldra sem fengu sín fyrstu friðarjól í mörg ár.

 

Í hálkuÉg reyndi að slaka á alla leiðina til tannsa, í því skyni að æfa mig fyrir tannlækninn sem vill hafa mann slakan. Í mestu slökuninni varð ég nú bara máttlaus, rann alltaf til, því það hafði snjóað í morgun EFTIR að gangstéttir voru mokaðar. Það var við frostmark og þetta í raun algjör hryllingur.

Gott að ég gaf mér þrjá tíma til öryggis, ekki veitti af. Að sumri til tekur þetta í mesta lagi korter. Ég þrammaði í þeirri viðleitni að setja þyngdarpunktinn á miðjan fót sem gerir nákvæmlega ekkert fyrir yndisþokkann. Enda stoppaði enginn og bauð mér far. Ég fer sennilega ekkert meira út í vetur.

 

Tannlæknirinn tók mér ofboðslega vel, hrósaði mér fyrir vel hirtar og fagrar tennur, engin skemmd, og sagðist þurfa að laga örlítið jaxl sem hafði brotnað upp úr, þyrfti ekki einu sinni deyfingu ... þá byrjaði ég að stífna pínku en geymi það til áttunda des. Ég gekk út svo miklu borubrattari (fliss) og beint í fiskbúðina og svo Einarsbúð því innanbæjarstrætó ók ósvífinn fram hjá mér á leið út á stoppistöð.

 

DIY í tannlæknisfræðiTil að halda upp á að þessari kvíðvænlegu heimsókn væri lokið keypti ég lax sem drengurinn hafði pantað að fá einhvern tíma í matinn. Ég þarf að fara að beina honum blíðlega að núðlum ...

 

Ég fékk engin verðlaun hjá tannlækninum þótt ég biði vandræðalega lengi eftir að ég hafði borgað, svo ég rændi bara einni bók, DIY í tannlækningum, hélt ég, til að spara mér frekari heimsóknir á Kirkjubrautina. Sjá mynd.

 

Svo var þetta bara almenn skemmtilesning með fínustu fróðleiksmolum fyrir tannlækna, m.a. var einn kaflinn bara um það hversu marga kúnna þyrfti að rótfylla til að geta keypt sér snekkju, miðað við þegar búið væri að borga námslánin, stofnkostnað stofunnar og slíkt. Snekkjur eru á ýmsu verðbili svo meðaltalið var tekið, 2 milljarðar sem er ekkert svo mikið ef maður er tannlæknir, skilst mér. Kannski ég geti nýtt mér eitthvað úr bókinni áður en ég skila henni.

 

SkagafiskurÍ fiskbúðinni fékk ég fínar móttökur í fyrstu heimsókn minni þangað í margar, margar vikur, keypti girnilega laxabita (ókei, með roði sem ég hef þó lært að lifa með), röstíkartöflur og grænmetisrétt, ásamt besta rúgbrauði þessa heims sem fæst þarna og grillir aðeins í efst á myndinni.

 

 

Loðhúfan mín var of hlý svo hún fór upp á haus og niður í hönd til skiptis, það var samt skítkalt úti, og þegar hún datt óvart í tandurhreint gólfið á fiskbúðinni áttaði ég mig á því að ég hafði ekki bara misst húfuna, ég hafði misst það ... maðurinn tók hana ekki upp og rétti mér ... ég hefði þakkað honum undirleit og rjóð og við farið að tala saman og svo hefði hann boðið mér á Galito ... en hann sá húfuna sennilega ekki. Kannski hefði samt vasaklútur gefið aðra útkomu. Tímarnir hafa breyst mikið síðan ég dreifði lekkerum blúnduvasaklútum um öll gólf í Klúbbnum í gamla daga og uppskar alltaf vel.

 

Ég reyndi að gefa fiskkaupmanninum mergjaða bisnesshugmynd ... heimsendingu eftir lokun. „Ég myndi borða fisk þrisvar í viku,“ lofaði ég og upp í ermarnar á öðrum Skagamönnum. Hann rétti mér bara laxinn og sagði: „Gjörðu svo vel.“ Það var þá sem ég mundi að allir Skagamenn eru á bíl nema ég, það yrði bara svona ölmusuheimsending og mögulega rándýr. Ég held bara áfram að borða nautasteikur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 237
  • Sl. sólarhring: 383
  • Sl. viku: 2199
  • Frá upphafi: 1455902

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 1811
  • Gestir í dag: 205
  • IP-tölur í dag: 198

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ástarsaga
  • Sofandi köttur
  • 1. maí fyrir nokkrum árum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband