Kaffitengt kraftaverk í Himnaríki och pönnukökur

Soroptismaklúbbur pönnsurTalsverður tími er liðinn síðan úkraínska grannkona mín kom í kaffi síðast. Sonur hennar er kattahvíslarinn mikli, munið, en hann var fjarri góðu gamni í gær þegar ég bauð móður hans í kaffi. Ég átti heitt súkkulaði í potti á einni hellunni og bauð henni bolla af því með ... pönnukökunum! Langaði að taka þátt í bóndadeginum, keypti besta þorramat sem ég veit, pönnukökur, og það af Soroptismaklúbbnum sem selur þær árlega í miklu magni hér á Akranesi á þessum degi og ágóðinn rennur ævinlega til góðs málefnis. Ég ofreiknaði græðgi okkar stráksa þegar ég pantaði, svo það var eins gott að ég hafði boðið minni ljúfu nágrannakonu í kaffi en hún neyddist nú samt til að taka nokkrar pönnsur með sér í nesti.

 

ATH. Myndin er rammstolin. Ég keypti ekki svona mikið. 

 

„Hvað um einn bolla af góða kaffinu þínu?“ spurði hún eftir að hafa klárað heita súkkulaðið og þótt þetta sé viðkvæmt mál brast ég ekki í grát heldur greindi henni rólega og yfirvegað frá því að vélin færi ekki í gang, það kæmi bara rautt þríhyrningslagað ljós í mælaborðinu og ekkert gerðist. 

„Hmmm, ég er nokkuð slyng í því að bilanagreina og gera við með hjálp YouTube,“ sagði skógfræðingurinn snjalli og mér leið eins og að Hildur, gamla grannkona mín, væri endurfædd. Sú gat jútjúbað til gæfu og gagns. Þegar ég vældi aumingjalega yfir slælegri enskukunnáttu minni á tæknilegum orðum sagðist hún geta séð allt svona í úkraínskum myndböndum, ekkert enskukjaftæði. Svo settum við baunavélina í samband, tókum pressukönnuna, ketilinn og kvörnina í burtu og Svitlana bretti upp ermar. Kaffivélin var sennilega farin að nötra og skjálfa og dauðsjá eftir stælunum, nú þegar sérfræðingur var kominn í hús, því hún fór í gang eins og ekkert væri þegar kveikt var á henni! Ekkert rautt ljós og hamingja mín varð óstjórnleg. Ég sem var farin að sjá fyrir mér að taka áætlunarbifreiðina suður með vorinu með bilaða og þunga kaffivélina í fanginu og fram að því lifa á kaffi nánast með hlóðabragði.Þegar guli bjarminn í augum grannkonunnar minnkaði og það komu ekki lengur eldingar frá fingrum hennar, fengum við okkur súpergóðan kaffibolla.  

Enn hálkaNákvæmlega núna drekk ég gæðakaffi á meðan ég horfi á Liverpool slátra Chelsea ... djók. Kannski þurfti vélin bara nokkurra daga hvíld. Hún hefur nú samt ekki verið ofnotuð, blessuð snúllan.

Að öðru: Hvernig tilsteikir maður eiginlega pönnukökupönnu? Ég losaði mig við teflonpönnuna og keypti mér nýja alvöru í fyrra eða hitteðfyrra. Hún hefur verið með vesen frá byrjun, það festist við, sama hversu mikið smjör er í deiginu eða á pönnunni.

 

Inga kíkti í örstutt kaffispjall í gærmorgun, kom með pönnukökurnar en fékk samt bara bananabrauð hjá mér. Ég skrifaði nýlega um systur mína sem borðar mjög ósmekklegt ristabrauð, eða nánast brennt og hefur sultuna undir ostinum.

Inga vill hafa pönnukökurnar sínar dökkar!!! en mér finnst að pönnsur eigi að vera ljósbrúnar og þunnar, eins og mamma gerði þær.

Það er greinilega ofboðslega misjafnt hvernig fólk vill hafa þær. Dökkar, ljósar, þykkar, þunnar, með mikilli sultu, lítilli, miklum rjóma eða litlum ... og ég hrósa pönnsunum sem Inga kom með ... ekki of mikil sulta eða rjómi, bara algjörlega mátulegt og bæði ljósar og dökkar. Tvíburasál mín var greinilega að verki þegar hún útbjó minn skammt.

 

StórsvellHálkan hefur ekki mikið látið á sjá hér á hinu samt iðulega snjólétta Akranesi og ég sá um hádegisbil að skokkararnir hlupu á Langasandi sjálfum til að bjarga sér frá fótbroti. Ég hef oft verið skömmuð fyrir áhuga minn á innivist sem hefur bitnað illilega á útivist minni, ekki síst síðustu vikur. Ég hef alltaf verið svona. Man eftir mér þrettán ára í heimsókn hjá vinkonu á Sóleyjargötu, gegnt BSÍ, hún stríddi mér á því að ég tók yfirleitt strætó heim frá henni, á Miklatorg, það voru tvær stoppistöðvar heim á Bollagötu, götuna næst Miklubraut í Norðurmýri. Mér finnst óbærilega leiðinlegt að ganga bara til að ganga og fæ alltaf í bakið eftir smástund og þarf að setjast. Mér finnst skemmtilegra að fara í ræktina til að hreyfa mig. Náttúruhatari? Nei, alls ekki. Ég horfi á suma göngugarpana í kringum mig sem eru á biðlista eftir gerviliðum eða hafa nú þegar farið í aðgerð. Veit auðvitað ekki hvort það er vegna of margra gönguferða, fjallgöngufíknar eða er eitthvað allt annað. En það er auðvitað til millivegur - ég fer alveg út og geng - út í búð, til tannlæknis (leigubíll síðast en bara vegna fk. hálku). Veit að Sveinn Waage hatar slabb, ég geri það líka, en ég hata* hálku enn meira.

*Áður en velmeinandi bloggvinir senda mér skilaboð um óhollustu þess fyrir sál og líkama að hata vil ég láta koma fram að þetta er orðum aukið hjá mér, mér er rúmlega mjög virkilega afar meinilla við hálku og það næstversta er slabb. Þetta er fyrir utan hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur - sem minnir mig á að rúsínupakkinn er enn einhvers staðar í felum hér í Himnaríki - svakalega þroskað hjá henni systur minni ... en hann skal finnast!

 

Miðmyndin var tekin fyrr í dag og sýnir vissulega ört minnkandi svellið en ekki nóg því það á víst að snjóa meira í dag eða á morgun og þá byrjar ballið upp á nýtt. Svo er flóð, og þar með tilvonandi (á morgun) fínasta skautasvell ef ekkert verður að gert, fyrir utan Landsbankann hér á Akranesi. Sjá neðstu myndina sem ég stal án nokkurrar miskunnar af Facebook (sorrí, Guðjón). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 363
  • Sl. viku: 2179
  • Frá upphafi: 1451915

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1781
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband