Þú hefur verið fryst ...

ÖldurHúsfundurinn árlegi var haldinn í síðustu viku en það tekur mig sífellt lengri tíma að jafna mig eftir þessa mergjuðu fundi sem eru hámark alls skemmtanalífs míns ár hvert. Ekki að rækjusalatið og hraunbitarnir fari illa í okkur en mögulega það sem rennur og þá er ég ekki að tala um magasleða eða skíðasleða. Nýi íbúinn reyndist ansi hress og hefur frumlegar hugmyndir. En svo nenntum við ekki að tala lengur um þakviðgerðir og gluggaklárelsi, okkur þríeykinu, formanni, gjaldkera og riddara, tókst áður en allir sofnuðu að fá samþykkt að nota megnið af viðgerðasjóðnum í Hawaii-ferð fyrir okkur þrjár til að læra sitt af hverju um húsfélög og hvernig eigi að stjórna þeim á sem hagkvæmastan hátt. Það var líka samþykkt að við færum þangað með Norwegian Epic, skemmtiferðaskipinu góða, og sigldum um allt Karíbahafið á leiðinni. Húsið verður vissulega stjórnlaust í margar, margar vikur á meðan en við komum reynslunni ríkari til baka. Og talsvert dekkri á hörund svo litakort Útlendingastofnunar gæti mögulega og eiginlega vonandi lengt dvöl okkar í hlýrra loftslagi, að minnsta kosti þar til við nálgumst fyrrum undanrennubláan lit okkar aftur. 

 

„Hvað eigum við svo að gera þessa daga okkar í Liverpool?“ spurði systir mín eldhress fyrir nokkrum dögum þegar við spjölluðum saman í síma. Hún hélt áfram: „Fara á pöbb nálægt leikvanginum til að heyra öskrin þegar Liverpool skorar gegn Arsenal og sjá svo hvert mark í sjónvarpinu fjórum sekúndum síðar, það yrði nú stemning, kíkja á Bítlasafnið, fara í búðir, út að borða, í skoðunarferðir? Held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt.“

„Ég nenni ekki að fara á pöbb rétt hjá leikvanginum, hvað ef Arenal veitir mótspyrnu, jafnvel skorar mark? Það yrði nú lítil stemning,“ sagði ég áhyggjufull og skynsöm - en greinilega hundleiðinleg, að mati systur minnar. Ég hafði nefnilega komist að því að þegar tugþúsundir áhorfenda, af leikvangi eða pöbbum í grennd, vilja komast niður í bæ eða heim eftir leikinn er hægt að gleyma strætó eða leigubíl. Gönguferð á mínum hraða (nær snigli en héra) á hótelið myndi taka tvo klukkutíma. Minnst. Og ég hata að ganga. 

„Á ég ekki bara að leigja hjólastól handa þér?“ sagði systir mín og flissaði, ég fann nú samt á mér að nú væri grimmdarlegt blik í augum hennar, minnug litla rúsínupakkans sem ég hef enn ekki fundið í Himnaríki eftir að hún faldi hann Í GRÍNI. Og ég hata rúsínur.

Abbey roadHún hélt áfram tuðinu og sendi mér slóð á hvað gera skyldi í Liverpool væri maður túristi. Ég kíkti og áttaði mig á því að gangbrautin á Abbey Road (sjá mynd) væri ekki í Liverpool, heldur í London og klökknaði. Engin töff mynd á Facebook til að birta af sér. 

„Fjandans vesen,“ bölvaði ég, „getur fólk ekki bara haft það kósí yfir páskana á fína og flotta hótelherberginu sínu, horft á BBC, snætt egg og beikon í morgunmat, Shepherds Pie í hádegis- og kvöldmat, og svo bara íslensk páskaegg þess á milli, þið rúsínumöndludöðluoghnetu-fólkið viljið kannski Christmas Pudding? Ég vil hafa það þannig. Punktur!“ Þar sem ég er eldri, feitari og frekari vissi ég að systir mín samþykkti þetta. Kósí og yndislegt. Tveir fimmtu hópsins gætu farið á leikinn (löngu uppselt) og gengið heim á hótel en þrír fimmtu yrðu sannarlega ekki í grennd til þess eins að þurfa að afplána margra kílómetra göngu, það án nestis, álpoka og áttavita. Þá var það ákveðið.

Hélt ég.

 

Tveimur dögum seinna hringdi Hilda í mig og kom sér beint að efninu. Rödd hennar var herská. Hún kvaðst ætla að rústa mér ef ég væri ekki til í að gera eitthvað „skemmtilegt“ með henni í útlöndum. Hún hafði fengið splunkunýtt fyrirtæki, Skammarkreddur ehf, til að neyða mig til hlýðni, þetta væri nýjasta nýtt, sagði hún. Ég starði á símtólið og var eins og eitt stórt spurningamerki en áður en ég gat gúglað og satt forvitni mína tók hún til máls:

„Til að tortíma þér og blogginu þínu svífst ég einskis ef þú gerir ekki það sem ég segi þér, ferð að mínum vilja, og nú hef ég fundið flest ef ekki öll þín leyndarmál,“ sagði þessi fyrrum annars ágæta systir mín og hélt áfram: 

„Númer eitt: Þegar fólk talar um að það hafi farið upp á Esjuna, kinkar þú kolli og segir að þú hafir líka gert það. Nema þú lætur þess aldrei getið að þú hafir bara farið EINU SINNI og ÞAÐ MEÐ ÞYRLU!“ sagði hún. „Þetta heitir að ljúga! Hagræða sannleikanum. Skrökva. Plata,“ hélt samheitaorðabókin systir mín áfram.

Og númer tvö ... Á blogginu þínu talar þú oft um að þú hafir átt svo marga eiginmenn, svona eins og allir karlar séu brjálaðir í þig, sem er alls ekki raunin. Þú hefur bara gift þig EINU SINNI og það í fornöld,“ bætti hún við og reyndi ekkert til að fela grimmdina og illgirnisgleðina yfir því að vera sextán mánuðum yngri.

„Sko ... það að þér var bara boðið í eitt brúðkau-,“ reyndi ég að segja en hún greip frekjulega fram í:

„Skammarkreddur fann sannleikann, fór í gamlar kirkjubækur til öryggis, las allt um þig á Internetinu og hringdi í alla vini þína, Facebook-vini og ættingja okkar og sorrí, gamla geit, aðeins ein gifting fannst. Ég fann fyrrum manninn þinn þótt hann hafi flúið land, og hlakka til að fá allan sannleikann um hjónabandið ef með þarf. Ég les greinilega bloggið þitt of oft því ég var farin að trúa þér og hélt að allar giftingarnar og skilnaðirnir hefðu átt sér stað á meðan ég bjó fyrir norðan ...“

„Ja, þú veist hvernig opinberir starfsme-“ mótmælti ég á því sekúndubroti sem ég komst að, hún ætti að vita að skráning giftinga getur tekið langan tíma, jafnvel misfarist. 

„Viltu að ég kasti á þig númer þrjú, fjögur, fimm og bara áfram, lygalaupurinn þinn? Að við gröfum upp meiri subbuskap um þig, fleiri lygar og ýkjur?“ spurði hún. „Þú hefur verið fryst, frostuð, opinberuð, ef mér þóknast svo, sættu þig við það. Annaðhvort kemurðu með mér í Bítlasafnið, á leikvanginn og í búðir og veitingahús, eða ég segi frá öllu. Þá hættir fólk að líta á þig sem áhrifavald og frábæra fyrirmynd og þú getur bara gleymt því að fá kannski einhvern tímann sent heim ókeypis skyr eða snyrtivörur sem þú hefur beðið eftir svo lengi.“

„Allt í kei,“ sagði ég og lést vera gjörsigruð. „Ég skal gera allt sem þú segir mér.“

Ég mun nú samt finna leið til að klekkja á henni. Teiknibóla í sæti hennar í flugvélinni eða eitthvað annað snilldarlegt. Allt um það á blogginu síðar. Sæt hefnd, á sú færsla að heita. Ekki fara langt.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert svo skemmtileg :)

Magnús Skúlason (IP-tala skráð) 30.3.2023 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 177
  • Sl. sólarhring: 337
  • Sl. viku: 1694
  • Frá upphafi: 1453569

Annað

  • Innlit í dag: 164
  • Innlit sl. viku: 1413
  • Gestir í dag: 163
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband