Fínasta páskaferð og ástæður ógiftelsis

Liverpool 2Páskarnir í ár voru öðruvísi en allir aðrir páskar, enda fórum við stráksi ásamt ættingjagengi í fótboltaferð til Liverpool, ferð þar sem aðeins 2/5 gengisins auðnaðist að vera á Anfield til að sjá Liverpool rústa Arsenal 2-2. Við Hilda og stráksi fórum á pöbb í næsta nágrenni við hótelið okkar til að horfa á leikinn og flúðum næstum öskrandi út eftir korter þótt við hefðum náð frábærum sætum. Vorum of snemma á ferð svo við treystum okkur alls ekki til að hlusta á raftónlist með kvenmannsöskrum til skrauts dynja á okkur í næstum klukkutíma Á HÆSTA. Þetta er alls ekki aldurinn, heldur bara góður tónlistarsmekkur. Skálmöld, Nirvana, Eminem, ja, eða Bítlarnir í sjálfri Bítlaborginni, flest annað en þetta hefði verið dásamlegt alveg á hæsta. Hilda hristist enn eftir að hafa neyðst til að fara í íþróttavörubúð sem bauð upp á svona hroðbjóð í græjunum. Mjög hátt stillt ... til að laða að fátæka unglinga? Sá eða sú sem hélt því fram að tónlist yki söluna hafði kannski ekki endilega rangt fyrir sér en það er alls ekki sama hvernig tónlistin er.

Ég var búin að gúgla besta kaffið í borginni, auðvitað, en er ekki alveg sammála því að það væri best þarna á Malmo eins og kaffihúsið heitir og er rétt hjá hótelinu (Novotel). Mjög góð afgreiðsla vissulega, flottar og góðar belgísku pönnsurnar (mín með lemon curd mínus bláberin) og allt í fína lagi með kaffið frá Brasilíu. Það sem eiginlega bjargaði kaffilífi mínu ytra var Nero, ítölsk kaffihúsakeðja. Drengurinn gladdist mjög yfir MacDonalds og fékk tvisvar hamborgara þaðan í hádegismat. Við versluðum nú ekki mikið, það þurfti samt að kaupa gjafir handa úkraínsku kisupössurunum og eitthvað smávegis fata-, súkkulaði- og bókakyns. Ég keypti Spare á 7 pund.

Ég elti Hildu, nánast hlekkjaði mig við hana til að missa ekki af neinu, hún er svo mikill snillingur að finna góða hluti. Þegar við förum saman í Costco, kannski einu sinni á ári, kem ég iðulega út með aðeins einn hlut (oftar en ekki sítrónu-sódakökuna guðdómlegu) en hún með sjúklega flott dót á fáránlega góðu verði - ég missi lífsviljann svo hratt og eiginlega dríf mig út svo fljótt ... og verð "fúl" þegar ég sé ofan í körfuna hennar. Ég reyni vissulega að hanga í henni þar - en það var auðveldara úti.

 

Ég hafði hugsað mér að lesa yfir hausamótunum á flugstjóranum vegna almennra fordóma sem flugmenn búa yfir, en einn þeirra sagði að aðeins hlussur væru á lausu. Las ekki viðtalið við hann, sá bara fyrirsögnina sem nægir auðvitað alveg til að brjálast. En á leiðinni út til Liverpool (lentum í Manchester) stjórnuðu flugkonur vélinn og svo karlar á á heimleiðinni en þá var mér runninn hláturinn.

Hótelið var alveg ágætt og verulega vel staðsett. Joe á barnum hélt með Newcastle en var samt ágætur. Morgunmaturinn allt í læ en við kusum frekar að fara út að borða á kvöldin en snæða þar eftir eitt skiptið ... Settum okkur þá reglu að fara ekki á staði sem voru líka til á Íslandi, uuu, kannski var það bara Subway.

Liverpool og fleira

 

Ég svaf ekkert nóttina fyrir brottför, dreif mig á fætur hálffjögur og fór í sturtu, svo hinir gætu komist til að pissa klukkan fjögur þegar almennt vakn hafði verið ákveðið. Þetta svefnleysi bitnaði hroðalega á mér því ég var hálfdauð um kvöldmatarleyti og vildi bara sofa. 

Á kvöldin voru heilu mávatónleikarnir sem bárust inn um gluggann. Sem betur fer voru engir Garðbæingar í hópnum, annars hefðu mávarnir verið skotnir, hugsa ég. Nei, það var ekki að sjá neitt dýrahatur, allt fullt af hundum nánast alls staðar. Rólegum og góðum hundum sem voru velkomnir inn á flesta staði. Þeir virtust vanir fólki og vanir að þurfa að haga sér vel í fjölmenni, ekki hataðir eins og á Íslandi og óvelkomnir af því bara. Vissulega spurði fólk hvort það mætti taka með sér hund, t.d. inn á kaffihús, og það fékk bara já, þar sem ég sá til. Það var sem sagt enginn í losti yfir of mörgum hundum eða mávum ... en heldur ekki hræðilegri tónlist sem mér fannst vera lögreglumál. Bretar virðast svo rólegir í tíðinni. Ég fór t.d. einu sinni á Starbucks og þar var sannarlega ekki afgreiðslumanneskja sem ég ég þurfti að segja ofboðslega hratt við: „Double tall latte with regular milk, not too hot,“ eins og þarf úti í Bandaríkjunum. Ég var komin með sterkan breskan hreim og talaði mikið, frá fyrsta degi ... en skildi samt varla stakt orð í tveggjahæðastrætó-túristaferðinni um Liverpool, því eina ferðamannalega sem við gerðum. Liverpool-hreimurinn er svolítið erfiður en ég veit þó eftir þessa ferð að pabbi Bobs Marley var frá Liverpool en ekkert annað. Missi af Penny Lane og allt ... svo var skítkalt. En ég ætla að fara aftur, alveg ákveðin í því, helst á leik og líka sjá Bítlasafnið. Við náðum ekki safninu, tíminn flaug frá okkur. 

Það var gott að komast heim þótt ég sé mjög hrifin af Englandi en ég er ekki til í sumarveður alveg strax (um 10 gráður allan tímann). Sonur minn átti afmæli þann 12. apríl sl., hefði orðið 43 ára. Þann dag pantaði ég mér plakat eftir listamanninn Prins Polo heitinn, með: Líf, ertu að grínast? og það kom nú í kvöld, tveimur dögum seinna. Mig hafði lengi langað í það, var líka spennt fyrir Fannstu skjálftann? en valdi þetta. Kannski verður þetta hefð, kannski ekki, að gefa mér gjöf á afmæli sonarins. Ég er samt alls ekki mikið fyrir hefðir, eða nokkuð annað sem mér finnst bindandi. Ahhh, þarna kemur sennilega skýringin á spretthlaupunum á mér þegar einhver sætur karl byrjar að daðra við mig. Þetta útskýrir mjög sennilega ógiftelsið í mér, en alls ekki hlussuskapurinn!         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 1452169

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1583
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband