Kraftaverkahálsmen og hugumstórar helgarpælingar

Stráksi með hálsmenið góðaNýlega lauk ég við að hlusta á skemmtilega bók á Storytel en um miðbik hennar rak ég mig þó á slæm mistök sem lögreglan gerði og var þar með komin með sterkan grun um hver væri morðinginn. Þótt sú myrta hafi svarað í dyrasíma og skömmu áður opnað öryggishlið með síma sínum er ansi hreint auðvelt að líkja eftir röddum og nappa símum sem maður skilar svo laumulega ögn seinna. Þetta er einn allra fyrsti stóri sigur minn í morðgátu og þarna í bókinni keppti ég við klára sveitalöggu og líka besta rannsóknarlögreglumanninn í Stokkhólmi sem var þarna í fríi ... Að gleypa þetta hrátt eins og þau gerðu beindi athygli þeirra í hvelli frá rétta morðingjanum.

Ef lögreglan á Vesturlandi vill nýta ályktunarkrafta mína er það velkomið. Alla vega í flóknustu ráðgátunum. Það er frekar pirrandi að ná þessu allt of snemma, ég er týpan sem elskar að láta plata mig, ég vil hrífast á töfrasýningum og ekki vita galdurinn á bak við platið. Mikið er hann Kristján Franklín Magnús góður lesari. Hann missir sig eiginlega aldrei í leiklestur sem eru mikil meðmæli. Maður vill láta lesa fyrir sig á Storytel, ekki leika. Vildi að fleiri lesarar áttuðu sig. En þau eru mörg ansi góð sem ég hef hlustað á, megnið af þeim, held ég.

 

Eitt var það sem auðveldaði svo mikið ferðina okkar til Liverpool og aftur heim. Í Leifsstöð við innritun spurði ég hvort ég gæti talað við einhvern um einhverfu drengsins til að hann yrði ekki stressaður í vopnaleit og öðru. Við höfum nokkrar fjörur sopið í þeim málum. Konan rétti mér grænt "hálsmen" með myndum af sólblómum og sagði að hann ætti að hafa það um hálsinn. (Sjá mynd ofar, við nýkomin á hótelið ytra) Þetta reyndist vera algjört galdratæki því alls staðar spratt upp yndislegt starfsfólk á flugvellinum og hjálpaði okkur á allan hátt, á einum stað fram fyrir langa biðröð. Við sluppum auðvitað ekki við eftirlit eða vopnaleit en við vorum sneggri í gegn og allir sýndu þolinmæði, þetta var auðveldasta utanlandsferðin með honum hingað til.

 

Kunningjakona mín á Facebook hefur farið þar mikinn upp á síðkastið. Hún er á móti bólusetningum og þá sérstaklega við covid. Það er hennar skoðun og hún má að sjálfsögðu hafa hana - og hennar sjálfsagði réttur, svo það sé á hreinu. En ég hef tekið eftir því að hún hefur smám saman bætt við sig fleiri skoðunum sem sum skoðanasystkini hennar gegn-bóló hafa einnig, sýnist mér, ekki öll. Hún er farin að tala gegn trans fólki, hælisleitendum, hún heldur með Pútín í Úkraínustríðinu og finnst málflutningur Trumps forseta ansi hreint trúverðugur, Saga er eina almennilega útvarpsstöðin (útvörður sannleikans) og hún hlær að öllu tali um loftslagsbreytingar. Það ríkir auðvitað skoðanafrelsi, málfrelsi, en þegar hún deildi nýlega einhverjum andstyggilegheitum og lygi um trans fólk, fleygði ég henni loks út af Facebook hjá mér. Ég hef ekki reynt að ræða þetta við hana, enda þekkjumst við lítið, hún trúir sínu, ég mínu og hvorugri hægt að hnika, tel ég. Mér hefur þótt mjög áhugavert að fylgjast með breytingunum á henni eftir að hún fann "sannleikann". 

Miðað við skrif hennar er hún ein fárra sem hugsa sjálfstætt og hún veit hlutina svo miklu betur en flestir aðrir, líka sérfræðingarnir. Einhver merkilegur sagði eitt sinn að ein stærsta hættan sem mannkynið stæði frammi fyrir væru falsfréttir og ég sé ekki betur en þær séu heldur betur farnar að tröllríða öllu.

Keli tv og MosiÞetta eru pælingarnar í Himnaríki þessa helgina. Hvernig er hægt að trúa því að allt sé rétt sem fer gegn almennum viðhorfum og skoðunum? Hefur meirihlutinn þá alltaf rangt fyrir sér - í öllu? Erum við öll (meirihlutinn) heilaþvegin? Er öllum læknum og vísindamönnum í heimi mútað til að lyfjafyrirtækin græði? Er einhver sérstök tegund fólks sem kýs að trúa þessu en ekki hinu? 

Ég græði á stafsetningarvillum annarra ... Væri þá réttast að afnema stafsetningarreglur til að ég græði ekki? Af hverju treysti ég mér ekki lengur til að horfa á Bold and the Beautiful? Er Bill Gates enn á lausu? Dæs. 

 

Keli af Kattholti er kominn á verkjalyf. Hann er frekar smár og léttur (grár og hvítur) svo hann fær bara einn dropa á dag af þessu lyfi, til að byrja með. Ingunn í næsta húsi, mikil dýrakona, kom til mín í gær og aðstoðaði mig við að finna út réttan skammt, betur sjá fjögur augu en tvö, tveir heilar en einn, mamma hennar var líka á kantinum með góð ráð og hægt að hringja í hana ef þyrfti. Svo hugsa ég að ég hringi á morgun í indæla, nýbyrjaða dýralækninn í Hamraborg í Kópavogi sem sendi mér lyfin með sjúkrafæðinu hans Kela. Það er svoooo vont að hafa ekki dýralækni á Akranesi, í átta þúsund manna bæ. Held (en er ekki viss) að þessar tvær sem eru að koma sér upp aðstöðu í hesthúsahverfinu séu ekki sérmenntaðar í gæludýrum. Kela gengur illa að stökkva núorðið, hann klifrar t.d. upp í rúmið mitt og notar klærnar sér til aðstoðar. Það er eins og afturlappirnar á honum séu orðnar veikburða, gæti verið gigt, sagði doksinn ljúfi. Hér eru stólar víða í Himnaríki til að auðvelda Kela allt hopp og skopp. Hann er frískur að öðru leyti. Gljáandi heilbrigð augu og fallegur feldur, svo hann virðist ekki vera veikur. Hann tekur enn stöku eltingarleik við Mosa og stundum hinn virðulega Krumma. En Keli er elstur, orðinn 13 ára sem telst frekar hár aldur hjá köttum, held ég. En vonandi virka verkjalyfin - hann kvartar samt aldrei eða vælir, það er frekar að ég kvarti ... yfir því að þurfa að beygja mig eftir öllu því sem hann hendir niður á gólf þegar hann er á leiðinni eitthvert, ákveðinn í fasi þótt bókabunkar séu í veginum, kertastjakar, bókhaldsgögn, jarðskjálftamælar (því miður djók) og alls konar fyrirstaða ... Keli minn, rústarinn, draslarinn, krúttmolinn.

Neðri myndin er af Kela (framar) og Mosa. Nýleg mynd sem sýnir hvað Keli lítur annars vel út miðað við mögulega gigt, svo unglegur og sætur. Hann á það sameiginlegt með mér að hann virkar þybbinn á flestum myndum - en ekki þessari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 162
  • Sl. sólarhring: 382
  • Sl. viku: 2301
  • Frá upphafi: 1452037

Annað

  • Innlit í dag: 140
  • Innlit sl. viku: 1887
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 138

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband