Týnd Esja, hlátur í jarðarför og marktækur draumur ...

EsjanÞað kemur stundum fyrir að farþegar segi þegar komið er alla leið á Skagann: „Where is Eisja?“ Tveir erlendir farþegar fengu aukabíltúr í dag með þessum hætti. Þeir græddu heilmikið á því og gátu litið augum dásemdir Akraness í einhverjar mínútur. Bílstjórinn var splunkunýr og kíkti á kort á milli þess sem hann hleypti fólki út á Skaganum. Þegar hann spurði mig til vegar bauðst ég til þess að fara með honum á endastöð og svo gæti hann hent mér út á leið út úr bænum korteri seinna. Hann þáði þetta með þökkum og þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að nokkrir Skagamenn aka ekki eilífan rúnt í einhverju svartholi á þessarri stundu með rammvilltum bílstjóra. Keypti kaffi í Skrúðgarðinum og tók með heim til að fá eitthvað fyrir minn snúð. Ekki amalegt.
Sit nú og skrifa verulega djúsí lífsreynslusögu sem gömul samstarfskona sagði mér. Hún er um mann sem lenti í klónum á sértrúarsöfnuði og hvarf úr lífi fjölskyldu sinnar.

Afmælisbarn í sumarbúðunumHeyrði í Hildu systur áðan og var mjög gott hljóðið í henni, mikið fjör í sumarbúðunum. Nú eru krakkarnir að undirbúa lokakvöldvökuna og sýna afrakstur námskeiðanna sem þau voru á sl. viku. Svo fara þau heim á morgun. Börnin sem koma í Ævintýraland á miðvikudaginn fá óvæntan glaðning. Guðbjörg úr X-Factor ætlar að kíkja í heimsókn og syngja fyrir þau. Nýja heimasíðan er miklu flottari og auðveldara að skoða myndirnar en áður. www.sumarbudir.is

 

Í dag eru sex ár síðan pabbi dó. Hann fór mjög óvænt og þetta var mikið áfall. Við systkinin ákváðum að hafa jarðarförina í hans stíl, ef hægt er að orða það svo, og  ... það var hlegið nokkrum sinnum. Aldrei verið við slíka jarðarför. Sr. Bjarni Karlsson jarðsöng og sagði nokkrar góðar sögur af pabba sem olli hlátrinum. Ein sú besta var þegar pabbi lenti í bílslysi og var fluttur allur krambúleraður með sjúkrabíl upp á spítala. Þetta var á þeim tíma þegar ekki mátti bjarga lífi fólks nema búið væri að taka skýrslu af því, sumir lifðu það víst ekki af. Pabbi þurfti að svara nokkrum spurningum á meðan læknirinn beið, m.a. nafni, heimilisfangi og kennitölu.
„Ertu giftur?“ spurði hjúkkan að síðustu. „Nei,“ svaraði pabbi, „ég slasaðist svona í umferðarslysi!“

PabbiÞegar þessi saga var sögð í kirkjunni var mikið hlegið en það var frekar skondið þegar gamall skólafélagi hans var við það að skella upp úr aftur þegar allir voru hættir að hlæja og tróð einhverju upp í sig til að verða sér ekki til skammar.

Í byrjun árs 2001 dreymdi mig að ég hefði misst fjórar tennur. Vinkona mín réði drauminn og sagði að þetta gæti táknar fjögur dauðsföll ... Fyrsta dauðsfallið var viku seinna og það fjórða og síðasta rétt fyrir jólin þetta ár. Segið svo að það sé ekkert að marka drauma!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Alltaf gaman að lesa um ferðirnar þínar á milli Rvk og Skaga. Já það er gott að losa um sorgina með hlátri - svona mundi ég líka vilja hafa þetta í minni útför... en maður ræður víst ekki öllu.

Edda Agnarsdóttir, 9.7.2007 kl. 20:23

2 Smámynd: Saumakonan

hef aldrei verið við skemmtilega útför en gott er að losa aðeins um sorgina með hlátri það er sko alveg rétt.

Aftur á móti hef ég fermt tvisvar hjá Pétri Þorsteins í Óháða og jemundur minn... það þýddi sko ekkert að spasla augun því allt var farið eftir kirkjuferðina...    ein frænka mín gersamlega emjaði og veinaði af hlátri yfir bröndurunum hans og hún hafði svo hrikalega smitandi hlátur (sérstaklega þegar hún var að reyna að birgja hann inni) að fólk veltist um af hlátri ferminguna í gegn!!

Saumakonan, 9.7.2007 kl. 20:32

3 identicon

Ég missti tvær tennur í draumi fyrir um 5 árum. Pabbi dó nokkru seinna og daginn eftir fór systir hans í bílslysi.
Þannig að jú, það er víst mikið að marka drauma!

Maja Solla (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 20:39

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Gurrí mín það er gott að þú átt svona margar og góðar minningar um pabba þinn. hann hefur greinilega haft munninn fyrir neðan nefið karlinn. Athyglisvert með drauminn. Ég reyndar trúi því að sumir séu berdreymnir. eða kannski erum við það öll við kunnum bara ekki að lesa úr því.

Jóna Á. Gísladóttir, 9.7.2007 kl. 20:45

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég hef verið við slíka jarðaför sem  fólk hló það sem presturinn sagði skemmtisögu um þann látna. ég tek mark á draumum.

Kristín Katla Árnadóttir, 9.7.2007 kl. 20:52

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

 Votta þér samúð mína.

Hrönn Sigurðardóttir, 9.7.2007 kl. 20:53

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Er virkilega svona langt síðan hann dó? Mér finnst svo stutt. En þegar ég lít á það að nú eru komin tvö og hálft ár síðan Ólafur fóstri minn dó, og næstum á næsta ári 40 ára síðan pabbi dó .... úff, skrýtin tilfinning. Ætli ég upplýsi ekki hér og nú (við hæfi á síðunni þinni) smá misskilning sem varð þess valdandi að ég fór ekki við kistulagninguna hans pabba. Sjálfsagt var það Beta frænka sem spurði hvort ég vildi vera við kistulagninguna. Ég var nýorðin sextán og vissi ekkert hvað kistulagning var. Mér fannst föðurfólkið mitt (þetta ljúfa lið) hálf ,,sick" að vera að bjóða mér, 16 ára unglingi, að vera viðstödd þegar pabbi yrði settur  í kistuna

En jarðarför pabba þíns var ósköp sæt. Annar skólabróðir pabba þíns sat við hliðina á mér og var frekar hissa (frekar en hneykslaður) að heyra prestinn segja brandara við jarðarför, en ég benti honum á ykkur systkinin og ég held hann hafi náð því að þetta var rétt nákvæmlega þarna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.7.2007 kl. 20:55

8 Smámynd: svarta

Í fyrra var ég stödd í Vestmannaeyjum on bissness og þá dreymdi mig einmitt að ég hefði misst tvær tennur. Stuttu seinna dó uppeldisbróðir minn og síðar móðurbróðir minn. Ég tek algjörlega mark á svona draumum. Hef reynt að bursta vel tennur fyrir svefnin síðan í von um að ég sleppi við þessa drauma  ekki það að það breyti einhverju.

svarta, 9.7.2007 kl. 21:20

9 identicon

Það er ekkert grín að dreyma að maður missi tennur, í fyrra dreymdi mig að ég missti tvær tennur, það ár dó mamma og afi.

Mamma talði oft um að hún þyldi ekki að fara í jarðafarir þar hjá ,,táratogurum,, hún vildi fagna lífi þeirra sem voru að kveðja og samveru okkar með þeim.

Við létum syngja lagið ,,you never walk alone,, því hún hafði svo gaman af fótbolta og Liverpool var hennar lið.

Kysstu Tomma bróðir frá mér

Magga (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 21:27

10 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

ú la la....

tekurðu eftir þessu Gurrí? Aldeilis að Magga mágkona er að verða undirförul

Hrönn Sigurðardóttir, 9.7.2007 kl. 21:55

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, segðu Hrönn, þetta er með því lymskulegra sem ég hef lesið og hef þó lesið margt og mikið ... þori engan veginn að ráðast á Tomma með kossi, slíkt gerir maður ekki hirðbílstjóranum sínum, sérstaklega ekki þar sem við birtumst í hálfgerðum faðmlögum í næsta Séð og heyrt!

Já, og takk fyrir frábæru kommentin, elsku bloggvinir!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.7.2007 kl. 22:05

12 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Það eru til alls konar draumar og af mörgum toga. Þeir eru fyrir mér mjög raunverulegir og ég tek alltaf fullt mark á því sem mig dreymir...þegar það koma nokkrar nætur í röð án drauma er ég alveg eyðilögð manneskja og finnst ég bara hafa verið rænd einhverju mikilvægu. Kann margar merkilegar og skemmtilegar draumasögur.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.7.2007 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 191
  • Sl. sólarhring: 357
  • Sl. viku: 883
  • Frá upphafi: 1505890

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 718
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 141

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband