Mikið haft fyrir Harry Potter

Potter og SkessuhornDagurinn hófst ótrúlega eðlilega og það var ekkert sem bjó mig undir þær miklu hremmingar sem síðar gerðust þar sem lögreglan, kattagras, matvörur með sjálfstæðan vilja, Skessuhorn og Harry Potter komu við sögu. Þetta byrjaði allt ósköp sakleysislega með símtali.
„Penninn, góðan dag!“
„Góðan dag, hvað verður opið lengi í dag?“
„Til klukkan tvö.“
„Eigið þið nýju Harry Potter-bókina?“
„Já.“

Ég tölti af stað, alveg að drepast í bakinu sem ég hefði átt að líta á sem aðvörun. Nei, ég óð beint út í skelfinguna. Nokkur fjöldi fólks var í bókabúðinni. Ég leit í kringum mig og sá nokkrar gamlar Potter-bækur í hillu og eina splunkunýja sem ég greip feginsamlega. Tók einnig Skessuhorn, hið frábæra vikublað Vestlendinga, og bjó mig undir að borga. Einhver hrollur fór um mig svo að ég fór aðra leið heim, gekk framhjá apótekinu og stóðst freistinguna að fara þar inn, fór Arnarholtið og horfði á gamla æskuheimili mitt, skærgult á lit en samt ótrúlega ógnvekjandi. Skagabrautin var mannlaus sem var frekar skerí. Sundurlausar hugsanir þutu í gegnum höfuðið og ein sat þar föst. Kattagras fyrir Tomma og Kubb! Einmitt það sem hefur lengi vantað fyrir innikettina mína. Ég áttaði mig svo á því á leiðinni í Krónuna að ef undirgöng væru undir gamla Skaganesti hefði gönguleið mín verið eins og rembihnútur.

Löggurnar fyrir neðan himnaríkiTil að styðja við bakið tók ég innkaupakörfu (göngugrind) og gekk óhrædd inn í Krónuna. Ætlunin var að kaupa kattagras fyrir 129 krónur, ekkert meira þótt það væri reyndar svolítið tómlegt í ísskápnum þar sem ég komst ekki í Einarsbúð í gær. Í búðinni fóru undarlegir atburðir að gerast. Ýmsar matvörur duttu ofan í körfuna, chili-pipar, hvítlaukur, tilbúinn fiskréttur, mjólk, skyr, jarðarber og annað sem ég myndi aldrei í lífinu kaupa. Ég hristi Potter-bókina reiðilega en allt kom fyrir ekki. Galdrarnir kostuðu mig rúmlega 6.000 krónur. Þá var hryllingurinn bara rétt að hefjast. Óþægileg en ókeypis plastpokahöldin skárust svo í lófana að ég þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á leið minni heim til að pústa og leyfa mislitum höndum mínum að anda. Hvar eru Þrestir á rauðum jeppum þessa heims þegar þeir eiga að vera úti að rúnta og hjálpa bloggvinkonum sínum heim með vörur? Þetta var orðið þvílíkt lögreglumál að ég nötraði af þreytu þegar ég staulaðist inn úr dyrunum. Setti kælidótið inn í ísskáp af veikum mætti og bjó mér til róandi latte sem ég er að drekka núna. Þegar ég var að skola mjólkurkönnuna sá ég tvær löggur (sjá sönnun á mynd) út um eldhúsgluggann. Það verður sko bið á því að ég hætti mér út um helgar, hvað þá að ég kaupi næstu bók með Harry Potter!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Elsku kellingin mín. Já, það er skrýtið með þessi innkaup stundum. Gerast einhvern vegin bara sjálfkrafa.

það er huggun að þú getur núna hreiðrað um þig með glænýja Potter bók og slakað á.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.7.2007 kl. 15:53

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hahaha! Þá er það alveg pottþétt, að ég kaupi ekki bókina, enda myndi ég hvort sem er aldrei lesa hana!

En svei mér ef þínar eigin litlu lífsreynslusögur eru ekki MIKLU SKEWMMTILEGRI en þessar þarna í bókartetrinu þínu!?

Vekja hlátur og grát á víxl!

Magnús Geir Guðmundsson, 21.7.2007 kl. 16:15

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ummmm ... Setið í nýja Lazy-girl stólnum og lesið ... og kjaftað svo endinum í Jennýju. Ég er enn að drepast í öxlunum eftir burðinn. Einarsbúð rúlar - sendir matinn heim og er þar að auki með mjög gott verð.

Guðríður Haraldsdóttir, 21.7.2007 kl. 16:15

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hmm, gréstu mikið yfir þessarri færslu, Magnús? Þá ertu sannur vinur með samúðina á réttum stað!

Guðríður Haraldsdóttir, 21.7.2007 kl. 16:16

5 Smámynd: Þröstur Unnar

ÆÆ hefði að sjálfsögðu ekið frúnni heim í Himnaríkið sitt ef ég hefði talið að ekki væri allt með felldu. En sá hana nú reyndar útundan mér, storma framhjá mér á Skagabrautinni, þar sem minn maður stóð í stórframkvæmdum, en Stóri-Rauður var að vísu vel falinn á bak við hús. Tók ekki eftir neinu athugaverðu í fari frúarinnar, né að nokkrir lögregluverðir veittu henni eftirför.

Svo ég hélt bara áfram að skrúfa saman húsið.

Þröstur Unnar, 21.7.2007 kl. 16:19

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hentu bókinni strax. Guð einn veit hvernig þetta endar!!!

Hrönn Sigurðardóttir, 21.7.2007 kl. 16:36

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ef ég væri ekki á móti bókabrennum svona almennt og yfirleit þá myndi ég ráðleggja þér að brenna kvikindið.  Rosalega eru þeir ógnandi þarna lögreglumennirnir á myndinni.  Eru þeir ekki bara að munda pístólur?  Ég sé ekki betur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.7.2007 kl. 17:04

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já, Gurrí mín, hágrét og það engum krókódílatárum í þetta sinn! Veist að ég er sæmilegur, nema kannski þegar ég er stríðna skítseyðið!

En með bókarótuktina , á þetta ekki að verða sú síðasta um Potterpottorminn? Tja, nema einhver voða sniðugur í fjarlægri framtíð taki sig bara til og skrifi nýja bók þegar skoska húsmóðirin er löngu gengin, eins og sagði um einhvern sem skrifað hefur nýja sögu um James Bond!? (og Flemmingurinn löngu dauður!)

Magnús Geir Guðmundsson, 21.7.2007 kl. 17:23

9 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, mörg er bóka - og búmannsraunin. Þetta var æsispennandi Krónuferð. Bókin er greinilega megamögnuð. Hvernig líður þér við lesturinn??? Hugsa til þín!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.7.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 27
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 1569
  • Frá upphafi: 1460502

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1250
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband