Næstum því nauðgunarsaga ...

date_rape_drug_front_coverHeiða (Skessa) vakti athygli bloggheima á svefnlyfinu Flunitrazepam fyrir nokkrum mánuðum. Fyrir tilstilli hennar fór af stað herferð þar sem beðið var um að lyfið yrði tekið út af markaði. Fjöldi fólks, m.a. ég, sendi tölvupóst til Lyfjastofnunar en lyfið er enn á markaði. Flunitrazepam er svefnlyf sem hefur enga jákvæði virkni fyrir þá sjúklinga sem neyta þess, fram yfir þá tugi annarra svefnlyfja sem eru á lyfjaskrá.

Virka efnið í lyfinu hefur þó þau neikvæðu áhrif að af því skapast algjört minnisleysi og getuleysi til að greina umhverfi sitt. Þessi atriði hafa valdið því að lyfið hefur þann vafasama heiður að vera þekkt sem „nauðgunarlyf“ (Date-Rape). Lengi hefur tíðkast, hér á landi sem annars staðar, að lauma því í drykki kvenfólks til að ná fram áðurnefndu minnis- og getuleysi og ef allt fer samkvæmt áætlun fylgir nauðgun í kjölfarið. Það er nánast ógerlegt fyrir fórnarlamb þessa að kæra til lögreglu sökum minnisleysis. Árið 2006 var Flunitazepam ávísað í ríflega 11.000 skömmtum. Þar sem lyfið hefur enga sérstöðu til bóta fyrir þá sjúklinga sem nota það fer ég þess á leit að Flunitrazepam verði tekið af lyfjaskrá hér á landi hið snarasta. Öryggi stúlkna/kvenna hlýtur að vega þyngra en svo að nauðsyn teljist til að hafa þetta hættulega lyf í umferð.

Ótrúlegasta fólk getur lent í því að lyfi sé laumað í drykk þess, meira að segja skvísa á borð við undirritaða. Ég skrifaði eftirfarandi frásögn sem lífsreynslusögu í Vikuna 2000 eða 2001. Hún er hér í styttri útgáfu:

BallFyrir tæpum 25 árum fór ég á ball í Broadway í Breiðholti. Var í för með systrum mínum tveimur og mági. Mágurinn fór að spjalla við kunninga sem hann hitti og við systurnar settumst saman í sófa, alsælar að vera allar saman á balli. Fljótlega kom ungur, myndarlegur maður til okkar sem vildi endilega bjóða okkur í glas. Við þáðum það en mér til mikilla vonbrigða kom hann með romm og kók. Smekkur minn var plebbalegur á þessum tíma, ég hefði frekar viljað White Russian. Meðan við drukkum og spjölluðum gerði maðurinn ítrekaðar tilraunir til að fá mig með sér út á dansgólfið. Mér fannst skemmtilegra að spjalla við systur mínar og afþakkaði boð hans. Áður en ég var búin úr glasinu fór mér að líða illa, var flökurt og mig svimaði. Ég ákvað að reyna að hressa mig við á snyrtingunni. Það þýddi lítið að kæla ennið svo að ég ákvað að reyna að kasta upp. Svo man ég lítið meira fyrr en ballið var búið þegar ég heyrði rödd annarrar systur minnar. Mér tókst við illan leik að umla eitthvað nógu hátt til að hún heyrði og að opna dyrnar. Hún kallaði á mág okkar og saman drösluðu þau mér fram. Ég reyndi að segja þeim að ég væri ekki drukkin en drafaði svo mikið að það skildist eflaust ekki. Samt var ég farin að hressast. Dyraverðirnir horfðu á mig með ógeði og fyrirlitningu og sögðu að réttast væri að hringja á lögregluna, „... svona ógeðslegar fyllibyttur,“ ... eitthvað. Ég fór heim í leigubíl og tók lyftuna upp á 7. hæð. Bjó hjá mömmu í Asparfellinu á meðan ég beið eftir íbúð. Hún var vakandi og varð frekar hissa að sjá svo lítt drykkjusjúka dóttur sína í undarlegu ástandi, slagandi og slappa. Næsta morgun vaknaði ég eldhress fyrir allar aldir, ekki einu sinni með höfuðverk. Þorði síðan ekki svo mikið sem horfa á rommflösku vegna þessa mikla ofnæmis fyrir rommi sem ég hlaut að vera með.
Tíu árum seinna sagði ég vinkonu minni frá romm-ofnæmi mínu og því sem gerðist í Broadway. Hún starði á mig og sagði: „Ertu virkilega svona barnaleg? Auðvitað laumaði maðurinn lyfi í glasið þitt!“
 
Ég tek svo sannarlega undir með Heiðu
! Ef til eru sambærileg svefnlyf, án þessara aukaverkana, þá burt með þetta lyf af markaðnum! Hagsmunir fórnarlamba svefnnauðgara ættu að vega þyngst!

P.s. Bloggleysi dagsins hefur stafað af miklu annríki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

TAKK!!

Heiða B. Heiðars, 23.8.2007 kl. 21:33

2 Smámynd: Þröstur Unnar

Þessi færsla bætir upp bloggleysið Gurrí.

Ég átti líka heima á 7undu hæð í Asparfelli, fyrir manekki hve mörgum árum, alveg satt.

Þröstur Unnar, 23.8.2007 kl. 21:54

3 Smámynd: Bragi Einarsson

Kvittun fyrir innliti

Bragi Einarsson, 23.8.2007 kl. 21:57

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Gott innlegg.  Mér finnst líka stórkostlegt að sjá hversu öflugur samtakamátturinn er.  Legg ósk þína um fyrirgefningarbeiðni vegna bloggleysis fyrir afsökunarnefndina,

Kveðja,

formaður sömu nefndar

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.8.2007 kl. 22:02

5 Smámynd: krossgata

Vinkona mín ein leigði einu sinni á 7. hæð í Asparfelli!  Ég fór líka á ball á Broadway einu sinni!  Svona er heimurinn lítill.  En ég hef sem betur fer aldrei orðið fyrir þeirru ömurlegu reynslu að vera byrlað ólyfjan þegar ég er í sakleysi mínu að skemmta mér.

krossgata, 23.8.2007 kl. 22:05

6 Smámynd: Jens Guð

  Ég held að allir þekki konu/r sem hafa lent í að vera byrlað svona nauðgunarlyfi.  Í ómerkilegu bandarísku blaði,  National Enquire,  var viðtal við bardömu sem tók eftir því er ungur maður laumaði nauðgunarlyfi í glas hjá vinkonu sinni er hún skrapp á klósettið.  Bardaman brást við með því að skipta um glas þegar stelpan kom aftur af klósettinu.  Skömmu síðar sá hún að strákurinn endurtók strákurinn leikinn.  Þá kallaði bardaman á lögregluna. 

  Í ljós kom að strákurinn og stelpan voru á "blindu stefnumóti".

  Annað:  Til hamingju með að vera á metsölulista í bóksölu þessa dagana,  samkvæmt upplýsingum í nýjasta hefti Mammlífs.

Jens Guð, 24.8.2007 kl. 00:07

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Gat nú verið Bara Metsala!!!!

Frábært Gurrí mín!!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.8.2007 kl. 00:52

8 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ja, bókin hoppaði upp í annað sætið, á eftir The Secret og sat þar fast ... í heila viku! Núna hefur hún hrapað niður listana því vinsælli eru Íslensk-ensk orðabók, Ensk-Íslensk orðabók ... osfrv.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.8.2007 kl. 07:45

9 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Í hvaða tilfellum framvísa læknar þessu lyfi, Flunitrazepam, til sjúklenga? Þessháttar vinnubögð hljóta að vera ámæliverð, ef rétt er að þetta lyf hafi enga jákvæða virkni í för með sér þá sjúklinga sem neyta þess. Í því ljósi ætti að vera auðvelt taka þetta hættulega lyf af markaði hið snarasta, ekki síst ef grunur leiku á að menni nati það í glæpsamlegum tilgangi.

Jóhannes Ragnarsson, 24.8.2007 kl. 07:49

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Held að það hafi enga jákvæða virkni UMFRAM önnur svefnlyf, held ég. Ég hef einlæga samúð með fólki sem sefur illa og þarf á svefnlyfjum að halda en læknar geta víst valið um ansi margar tegundir til að ávísa á og án þessarra hræðilegu aukaverkana.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.8.2007 kl. 07:55

11 Smámynd: Fjóla Æ.

Takk fyrir að minna okkur á þessa aðferð. Þetta er alltaf að gerast, því miður og er það oft vegna þess að við pössum ekki glasið okkar nægilega og treystum of mikið. Hugsum kannski, svona kemur ekki fyrir mig.

Innilega til hamingju með bóksöluna og ekki hafa áhyggjur af því að vera að hrapa niður vinsældarlistann, orðabækurnar hrynja niður í næstu viku.

Fjóla Æ., 24.8.2007 kl. 08:31

12 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ung kona skyld mér fór á pöbb til að hlusta á trúbador. Drakk hálft glas af bjór og fór þá að líða mjög skringilega svo hún ákvað að fara á klósettið og´hressa sig við með því að þvo sér í framan..datt þar niður með krampa og flog...var flutt í skyndi á sjúkrahús þar sem vinkona hennar elti hana fram og sá hvað var að gerast...lyfi var laumað í drykkinn hennar. Þetta var á rolegu fimmtudagskveldi í Reykjavík Þá viku voru víst 7 kunn tilfelli af svona óþverrahætti. Sum sem enduðu mun ver. Og Jón Frímann..ég bý í bretlandi..já það er alltof mikið um ofdrykkju en það er líka hryllilega mikið af svona nauðgunum þar sem fólki er byrlað  svefnlyf. Var einmitt í sl viku að lesa nokkur viðtöl við stúlkur sem lentu í þessum hryllingi...þær sögur einar og sér réttlæta að þetta lyf sé tekið af markaði. Hvað nákvæmlega ertu að reyna að segja???  Heiða...ég vil þig á þjóðþingið...mikið rosalega er hressandi þegar einhver lætur bara verkin tala og tala og tala þar til þau eru heyrð. Geturðu ekki tekið þingmenn og nefndarfólk á námskeið í árangri???

Smjúts...

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.8.2007 kl. 12:56

13 Smámynd: Jens Guð

  Við skulum líka hafa í huga að lyfjaframleiðendur eru einhver öflugasti þrýstihópur á Vesturlöndum.  Þeir eru með á launaskrá allt frá fjölmiðlafólki til lækna.  Og gera virkilega vel við sitt lið.  Miklir peningalegir hagsmunir eru í húfi.  Án þess að gera málið flókið þá til að mynda stýra lyfjafyrirtækin að uppistöðu til vestrænni læknisfræði.  Hún gengur út á að lyfjum af öllu tagi sé dælt út vinstri hægri.  Mjög oft til óþurftar. 

  Fúkkalyfjanotkun eykst stöðugt þrátt fyrir að vitað sé að um rosalega ofnotkun sé að ræða sem gerir aðeins illt verra.  Bara svo að lítið dæmi sé nefnt. 

  Fréttin sem þú,  Jón Frímann,  vitnar til stangast á við raunveruleikann.  Hún ber öll merki þess að vera komin beint úr herbúðum lyfjarisanna sem svífast einskis. 

Jens Guð, 24.8.2007 kl. 23:29

14 Smámynd: Jens Guð

  Jón Frímann,  ég lifði og hrærðist í auglýsingabransanum í 15 ár eða svo.  Lærði öll helstu "trixin" og náði góðum árangri við að beita þeim.  Ég þekki þennan bransa eins og lófann á mér.  Hef rekið heilsubúð og í dag rek ég heildsölu með heilsusnyrtivörur (Banana Boat og fleiri hliðstæð merki).  Þessi bransi gengur út á 90% blekkingar (ónákvæm tala, vel að merkja).

  Notkun nauðgunarlyfja eru ekki þjóðsaga.  Því miður.  Sannanlega hafa meint dæmi um slíkt verið afsönnuð.  En önnur dæmi hafa jafnframt verið sönnuð um hið gangstæða.  Nýfelldur dómur yfir raðnauðgaranum Stefáni Hjaltested er eitt dæmi.

Jens Guð, 26.8.2007 kl. 02:51

15 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Veit ekki alveg hvaða spurning það er ... Það tók mig alla vega tíu ár að fatta að "ofnæmi" mitt fyrir rommi og kóki var ekki ofnæmi, eitrið löngu farið úr líkamanum. Ég hef tvisvar orðið mjög drukkin um ævina, það var vegna neyslu á of miklu magni drykkja. Mun aldrei samþykkja að eitt venjulegt vínglas geri manneskju ósjálfbjarga og veika í marga klukkutíma. Finnst líklegt að skýrslur og upplýsingar finnist um þetta hjá Stígamótum. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.8.2007 kl. 19:23

16 Smámynd: Jens Guð

  Jón Frímann,  ég hef ekki þessar tölur.  Ýmsar tölur má finna á www.stigamot.is.  En þessar hef ég ekki fundið.  Hinsvegar þekki ég frásagnir kvenna sem hafa upplifað "black out" á skemmtistöðum.  "Black out" sem passa ekki við reynslu þeirra af smá bjórsötri.  Þess háttar er sjaldnast kært til lögreglu.  Erlendis eru hinsvegar mýmörg dæmi um þetta þar sem verknaðurinn hefur verið sannaður.  Einnig vísa ég aftur til dóms yfir Stefáni Hjaltested. 

Jens Guð, 27.8.2007 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 639
  • Frá upphafi: 1505992

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband